497. - Við ætlum að sitja meðan sætt er segir Ingibjörg Sólrún

Að sjálfsögðu ætlum við að sitja í þessari ríkisstjórn út kjörtímabilið sagði Ingibjörg Sólrún. Hún hefði frekar átt að segja fram að næstu kosningum. Ég held að það séu fáir sem reikna með að þessi ríkisstjórn lafi út kjörtímabilið enda er engin ástæða til þess. Að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ráði því hve lengi hún situr er auðvitað fráleitt. 

Séu þingmenn á Alþingi Íslendinga ekki algjörlega geðlausir verða þeir löngu fyrir 2011 búnir að gera upp hug sinn varðandi þessa ríkisstjórn og losa sig við hana. Verði þeir sjálfir svo hræddir um áframhaldandi setu sína á Alþingi að þeir þori ekki að gera neitt verður ákvörðun um framhaldið tekin fyrir þá.

Þetta laumuspil hjá landsfeðrunum er óþolandi. Allra fyrst eftir að ósköpin dundu yfir var kannski skiljanlegt að menn væru dálítið ruglaðir. Nú er kominn mánuður og engin ástæða til að láta svona lengur. Ráðamenn virðast þó gera ráð fyrir að aðrir séu heimskari en þeir. Allt sem til stendur að gera á skilyrðislaust að kynna fyrir öllum og sömuleiðis eiga upplýsingar um það sem gerst hefur að vera aðgengilegar öllum.

Iss segi ég nú bara varðandi hávaðann sem er að verða útaf fjölmiðlunum. Þeir mega allir fara á hausinn mín vegna. Ekki sé ég eftir þeim. Þegar störf þeirra sem unnu þar verða lögð niður eykst að vísu atvinnuleysið en það er það eina neikvæða sem ég sé við fækkun fjölmiðla. Netið og RUV er alveg kappnóg að hafa. Auðvitað þarf ég samt einhversstaðar að blogga en það ætti ekki að þurfa að kosta mikið. Einhverjar tekjur hljóta þessir sneplar að hafa.

Fyrsta tölvan sem ég eignaðist var Cordata tölva með sambyggðum skjá og tveimur floppy drifum en engum hörðum diski. Harðir diskar voru lúksus í þá daga. Seinna komst ég í tæri við tölvu sem var með tvo 60 megabæta harða diska. Þvílíkt pláss. Maður gat nánast gert það sem manni datt í hug.

Ég er fæddur í konungsríkinu Íslandi. Það er að segja áður en Íslenska lýðveldið var stofnað. Minn kóngur var Kristján tíundi sem fór í reiðtúr á hverjum degi og var afi Margrétar Þórhildar.


Bloggfærslur 2. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband