517. - Samfylkingin þarf að fara að sýna tennurnar. Það vinnst ekkert á því að vera bara viðhengi Sjálfstæðisflokksins

Já ég kaus Samfylkinguna í síðustu kosningum og fannst óvitlaust hjá Ingibjörgu að þiggja stjórnarþátttöku með Íhaldinu. Það er ekki fyrr en núna í bankakreppunni sem ég er farinn að verða verulega óánægður með stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar. 

Það er ekki hægt að lafa endalaust í kjólfaldi Geirs. Það þarf að gera eitthvað. Það þarf að tala við fólk og útskýra hvað er að gerast. Ekki bara með fáeinum orðum á misheppnuðum blaðamannafundum eða nokkrum setningum í Silfri Egils. Heldur með samtölum við venjulegt fólk. Fundum út um allt. Fjölmörgum. Ef einhvern tíma var ástæða til að reka pólitískan áróður þá er það núna. Eigum við að horfa uppá að allt sem boðið er uppá séu afsagnir fáeinna framsóknarmanna og bollaleggingar um það hvort Þorgerður Katrín þori hugsanlega í formannsslag við Geir góða?

Þegar einhver af forystumönnum Samfylkingarinnar sýnir örlítið sjálfstæði gagnvart yfirgangi Sjálfstæðisflokksins skal ég viðurkenna að það er ef til vill ekki þeirra æðsti draumur að hanga á ráherrastólunum eins og hundar á roði. Fyrr mun ég ekki gera það.

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Samfylkingarforkólfar ætli sér að sitja út núverandi kjörtímabil í óbreyttu stjórnarsamstarfi eins og ástandið í þjóðmálum er. Með því tryggja þeir að Samfylkingin verður aldrei annað en lítill flokkur hræddra sérvitringa og valdastreitumanna.

Af hverju aðhafðist Samfylkingin ekki neitt þó ráðherrum í ríkisstjórninni hafi verið það mæta vel ljóst lengi að í óefni stefndi? Af hverju eru ráðherrar Samfylkingarinnar allir í felum og þora ekki að segja neitt? Ingibjörg segist vera á móti veru Davíðs í Seðlabankanum en lætur þar við sitja. Eru forystumenn flokksins tóm dusilmenni og hengilmænur?

Sá áðan í sjónvarpinu Guðbjörgu Hildi bloggvinkonu mína. Hún var þar að ræða um blogg og annaðhvort kom það fram í hennar máli eða þáttarstjórnanda að þeir sem ég hef viljað kalla forsíðubloggara hjá Moggablogginu séu 200. Margt annað athyglsvert kom þarna fram og ég er alls ekki frá því að talan 200 sem þær nefndu sé mjög nærri lagi. Þegar ég var að byrja að blogga minnir mig að ekki hafi þurft nema svona 250 gesti á viku til að komast á vinsældalistann yfir þá 400 bestu. Nú virðist þurfa hartnær 600 gesti til að ná því sama. Samkvæmt þessu eru vinsældir Moggabloggsins mikið að aukast. Mig minnir að það kæmi einnig fram í áðurnefndum sjónvarpsþætti að Moggabloggarar líti niður á aðra slíka. Það væri þá athyglisverður viðsnúningur því upphaflega var litið mjög niður á Moggabloggararæflana.

 

Bloggfærslur 19. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband