514. - Krafan er: Davíð í burtu og helst einhverjir fleiri líka

Jafnvel æstustu stuðningsmenn Davíðs Oddssonar viðurkenna að hann hafi varla gert annað en tómar vitleysur að undanförnu. Mjálma samt eitthvað um að ekki megi persónugera núverandi vandræði. Þegar Davíð loks hætti í stjórnmálum fyrir nokkrum árum sætti fólk sig við að hann færi í seðlabankann því bankinn var og er álitinn nokkurskonar elliheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn. Fólk bjóst ekki við að hann mundi valda skaða þar. Annað hefur komið á daginn og það er engin furða þó fólk vilji fyrir hvern mun losna við hann úr bankanum.

„Við skulum bara átta okkur á því", segi ég í Reykásstíl, að við höfum aldrei fengið að vita hvað þetta icesave-mál snýst um í raun og veru. Ráðamenn hafa aldrei fengist til að segja um hvað er deilt. Hinir svosem ekki heldur enda hefur Geir eflaust beðið þá að þegja yfir því sem fram fer á fundum. Fyrir okkur er þetta lífsspursmál og almenningur þarf sannarlega að fá að segja sitt álit á þessum farsa öllum. Ekki bara mæna á Geir og Sollu á blaðamannafundum þar sem þau hafa ekkert að segja.

Mér fannst greiðsluvísitalan (það er greiðslan) ekkert flott hjá þeim skötuhjúunum þar sem þau stóðu framan við Drekkingarhylsmyndina á blaðamannafundinum. Geir verður alltaf illur og skömmóttur á þessum blaðamannafundum jafnvel þó hann sé spurður ofur varlega.

Geir hefur reynt að telja okkur trú um að Bretar og Hollendingar krefjist þess að við borgum svona 600 milljarða. Ég held ekki að það sé það sem krafist er. Þegar honum lokst tekst að semja um eitthvað miklu minna þá verður hann eflaust voða rogginn og þykist hafa gert vel. Drífur samkomulagið í gegnum þingið og þykist geta setið að völdum lengi enn útá afrekið.

Byrjaði að horfa á Kátu Maskínuna hans Þorsteins J frá því á fimmtudaginn en varð því miður að gefast upp. Ég er ekki sammála honum um að gamlar og lélegar vídeóupptökur eigi erindi til almennings bara vegna þess að þær eru gamlar og lélegar. Fleira þarf að koma til.

Það er misskilningur af versta tagi hjá Jóni Ásgeiri að hægt sé að höfða mál gegn manni fyrir það eitt að bera upp spurningu eða spurningar. Hins vegar verða bankastjórarnir að eiga það við sjálfa sig hvort þeir svara því sem þeir eru spurðir um eða ekki. Jafnvel kæmi til greina að reka þá með skömm ef þeir svara ekki.


Bloggfærslur 16. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband