513. - Ágætur útifundur þó kalt væri í veðri

Já, ég er nýkominn af útifundinum. Mér fannst hann fara vel fram í alla staði. Margt var á fundinum og áreiðanlega hef ég aldrei verið á fjölmennari fundi. Frá mínu sjónarmiði voru eins margir á Austurvelli og þar komust fyrir með góðu móti. Hvernig ástandið var í nærliggjandi götum hef ég ekki hugmynd um. 

Við Áslaug komum svona 7 mínútum áður en klukkan varð þrjú og komum okkur fyrir þar sem við heyrðum sæmilega. Fljótlega fylltist svo allt af fólki og þó kalt væri var hljóðið í fundarmönnum ágætt. Ræðumenn stóðu sig vel og ég varð ekki var við nein læti neinsstaðar.

Einhverjir grímuklæddir menn breiddu úr fána á nálægu húsþaki undir lok fundarins en þegar Hörður Torfason bað þá um að taka af sér grímurnar forðuðu þeir sér.


512. - Ég skora á alla að mæta á Austurvöll í dag laugardag og mótmæla þessari duglausu ríkisstjórn

Já, ég hef víst sagt þetta áður en nú er alvara að færast í málið. Hver veit nema þetta hafi á endanum einhvern tilgang.

Aðgerðapakki ríkistjórnarinnar og spunkuný og spennandi vísitala er það sem Imba og Geir hafa kokkað upp og ætla að nota til að slá ryki í augun á almenningi og svo ætla Sjálfstæðismenn að halda fund í janúar. Nei takk. Ég er á því að meira þurfi til. Eðlilegasta byrjunin væri að láta Davíð og seðlabankastjórnina alla fara frá. Síðan þarf ríkisstjórnin að fara sömu leið. Og svo.......

Af hverju er verið að rifja upp núna lætin sem urðu þegar Inga Jóna kona Geirs Haarde sagði sig úr stjórn Flugleiða. Fyrir mér lyktar þetta af því að verið sé að reyna að koma höggi á Geir. Hann hefur alveg unnið fyrir sínum höggum sjálfur. Inga Jóna hefði hugsanlega átt að fara öðru vísi að á sínum tíma en ég sé ekki að það sé það sem mestu máli skiptir núna. Fjölmiðlar virðast oft vera undir einhverjum annarlegum áhrifum. Og allt í einu er Hannes Smárason orðinn eins og einhver hvítþveginn engill og allir trúa orðum hans eins og nýju neti.

Það er auðvelt að gagnrýna allt og finna að. Heimta jafnvel að stjórnin segi af sér. Það sem öllu máli skiptir er samt hvað muni taka við ef stjórnin fer frá. Ingibjörg Sólrún hefur líf stjórnarinnar í hendi sér. Eflaust er hún fyrst og fremst að hugsa um tímasetninguna. Hún þarf líka að vita hvort líklegast sé að efnt verði til kosninga. Trúlega hefur Geir mögulegt þingrof alfarið í hendi sér. Hann gæti auðvitað reynt að kippa öðrum uppí til sín og þrauka þannig til 2011 ef Ingibjörg ákveður að yfirgefa hann. Ég treysti ekki núverandi stjórnarandstöðu til að gera endilega það sem þjóðinni er fyrir bestu. Til þess eru völdin of sæt.

Vilhjálmur Örn segir að ég þurfi að fá mér draumatenginu. Ég hélt að ég væri með SpeedTouch þráðlausa draumatengingu í gegnum rosalega flottan ráter. Nú, hann meinar kannski beina bloggtengingu við draumana. Veit ekki hvar slíkar fást en þær gætu verið spennandi.

Ég veit ekki hvað er komið yfir mig. Ég er farinn að blogga tvisvar á dag hvað eftir annað. Kannski fer eins fyrir blogginu mínu eins og eignum Landsbankans í Bretlandi.


Bloggfærslur 15. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband