14.11.2008 | 16:20
511. - Blaðamannafundir um ansi lítið
Svei mér þá. Þrýstingurinn á Geir er sennilega að verða óbærilegur. Að halda sérstakan blaðamannafund um að halda eigi landsfund hjá Sjálfstæðisflokknum eftir nokkra mánuði. Ég held að lengra verði varla komist í viðleitninni til að velta hlutunum á undan sér. Líklega dreymir Geir um að halda völdum allt til landsfundar og jafnvel eftir hann ef allt fer að hans óskum.
Það var síðan fátt nýtt sem kom fram á seinni blaðamannafundinum. Jú, sennilega eru Íslendingar að beygja sig í icesave málinu. En það vissu nú allir.
Dimmt er yfir mannheimum og Guð er dottinn í það", segir Sigurður Þór. Ljótt er að heyra þetta með fylliríið en ég held að það sé ekkert dimmara yfir mannheimum en venjulega. Það er bara dimmt yfir hér á norðurslóðum eins og vant er um þetta leyti árs og bankakreppa Vesturveldanna reynir svolítið á fjármálakerfi heimsins. Hjá okkur Íslendingum er þetta heldur verra en það birtir aftur. Kannski verða efnin ekki eins mikil og venjulega en náttúran mun ekkert láta allt þetta vesen á sig fá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.11.2008 | 08:43
510. - Ég er orðinn ansi þreyttur á þessu
Í svefnrofunum sem ég stundum glimrandi góða bloggpistla. Gallinn er bara sá að þegar ég kemst að tölvunni man ég aldrei nema eitthvert hrafl úr þeim. Við þetta verð ég að una og get engu um það breytt.
Í mínum huga snýst málið ekki lengur um það hvort ríkisstjórnin fari frá heldur einungis hvenær það verður. Geir getur tæplega gert sjálfum sér og öðrum það öllu lengur að þrjóskast við segja af sér. Afglöp hans eru slík að óhjákvæmilegt er að hann fari. Ingibjörgu Sólrúnu er nokkur vorkunn vegna veikinda á slæmum tíma en auðvitað er best að hún fari líka og allir hinir ráðherrarnir einnig. Mín spá er sú að svo margir mæti á mótmælafundinn á laugardaginn kemur að jafnvel Geir sjálfur sjái að sætasta stelpan er ekki í Svörtuloftum. Nú er hann búinn að glata því tækifæri sem hann hafði á að fórna Doddsyni og ekkert minna dugar en að þeir fari báðir og sjáist ekki framar.
Hvað tekur við þegar Geir er búinn að segja af sér? Það er ekki með öllu ljóst. Alþingi ætti að sjálfsögðu að sjá sóma sinn í því að skipa nýja ríkisstjórn. Helst ættu ekki að vera neinir Alþingismenn í henni en líklega þarf þó fólk í hana sem þingflokkarnir geta sætt sig við svo friður skapist. Svo ætti auðvitað að vinda bráðan bug að því að fara að undirbúa kosningar. Tímasetning þeirra getur orðið talsvert vandamál en varla má það dragast lengur en til næsta sumars að kjósa.
Það gengur ekki lengur að halda öllu sem hægt er leyndu fyrir þjóðinni. Í samningum við aðrar þjóðir eru hlutirnir ekki bara svartir og hvítir. Einhverjar millileiðir hljóta að hafa verið athugaðar. Það skiptir meira máli hvernig og hvort samningar takast en hvor vinnur endanlega fyrir dómstólum. Engir geta beðið eftir slíku. Nóg er komið af andskotans biðinni.
Þetta með stýrivextina er hlálegt en bara ein birtingarmynd af ruglinu sem viðgengst hjá stjórnvöldum. Til hvers er eiginlega að hækka stýrivexti eftir kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ef hann ætlar svo ekki að gera neitt. Hvað lá eiginlega á?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)