509. - Þessvegna vil ég að Ísland gangi í Efnahagsbandalagið

Þegar ég var í Kaupmannahöfn fyrir margt löngu og staddur í Magasin du Nord (sem Íslendingar áttu ekki þá) sá ég að fólk safnaðist saman og horfði á eitthvað merkilegt í sjónvarpstækjum sem til sölu voru í vöruhúsinu. Ég skildi ekki almennilega hvað var á seyði fyrr en drengur einn kom skokkandi og rétti mér prentaðan seðil. Ég fór strax að stauta mig framúr því sem á miðanum stóð. 

Efst stóð „Löbeseddel" . Næst stóð „Politiken". (Eða var það öfugt) Síðan kom svo setning með langstærsta letrinu „Krag gaar av". Ég man ekki hvort það stóð nokkuð meira á seðlinum. Allavega skipti það ekki miklu máli því aðalmálið var auðvitað að Krag hafði sagt af sér sem forsætisráðherra öllum að óvörum.

Jens Otto Krag (1914 - 1978) var forsætisráðherra Danmerkur til 1972. (Fyrst frá 1962 til 1968 og svo aftur 1971 til 1972) Það var einmitt þá sem ég var staddur í Kaupmannahöfn og daginn áður hafði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að Danir gengju í Efnahagsbandalagið. Krag hafði fyrst og fremst litið á það sem sitt hlutverk að koma þeim þangað. Þegar því takmarki var náð var ástæðulaust fyrir hann að vera forsætisráðherra lengur.

Krag var giftur leikkonunni Helle Virkner. Eitt sinn voru þau hjón heiðursgestir á pressuballi hér uppi á Íslandi. Pressuböll voru fínustu böllin sem haldin voru á Íslandi í þá daga og heimsókn þeirra Krag-hjóna jafnaðist fyllilega á við þegar töluvert seinna fór að tíðkast að fá heimsfræga söngvaragutta til að skemmta í afmælum nýríkra Íslendinga.

Það var Anker Jörgensen sem tók við af Jens Otto bæði sem flokksformaður og forsætisráðherra. Hann var svarthærður, svartbrýndur og með svart skegg. Satt að segja minntu myndir af honum mig alltaf á þann svarta sjálfan en það er önnur saga.

Því minnist ég á þetta að allt frá þessum tíma hef ég verið sannfærður um að við Íslendingar mundum að lokum enda í Evrópusambandinu. Allt frá þessum tíma hef ég líka verið því hlynntur að svo yrði og engin rök hafa ennþá breytt þeirri skoðun minni. Í mínum augum er það merkilegt hve lengi Íslendingar hafa staðið utan við sambandið. Sennilega hefði samt verið betra að ganga í það meðan við vorum velkomnir þangað en ekki er víst að svo sé enn.


Bloggfærslur 13. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband