496. - Evrópubandalagið er nýjasta birtingarmynd heimskommúnismans

Margt og mikið er kjaftað á blogginu. Bæði mínu og öðrum. Mig minnir að ég hafi einhverju sinni sagt hér á blogginu að ég væri mikill stuðningsmaður þess að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið meðal annars vegna þess að nær kommúnisma verður varla komist í núverandi heimsskipulagi.

Margir sjá rautt og umhverfast þegar minnst er á kommúnisma en það er bara af því að þeir þekkja hann ekki. Jú, jú. Það er búið að prófa hann og það próf mistókst. Það var bara fólkinu að kenna sem tók hann til handargagns. Ekki kommúnismanum sem slíkum.

Ég er alveg að meina þetta. Auðvitað verð ég sjálfur að skilgreina minn kommúnisma og það er enginn vandi. Auðvaldskreppur koma ekki til með að þekkjast þar og margt fleira verður þar eftirsóknarvert. Davíð fengi ekki að vaða þar uppi en kannski væri hægt að notast við Ömma og Steingrím.

Það er svo skrítið með mig. Ég kann ekkert fyrir mér í matreiðslu þó ég geti búið til hafragraut í örbylgjuofni en ég hef samt gaman af að lesa matarblogg og jafnvel veitingahúsagagnrýni þó ég fari afar sjaldan á svoleiðis staði. Veit afar lítið um veðurfræði en hef gaman af að lesa veðurblogg. Kann lítið í ættfræði og leiðist ættfræðiblogg nema það snerti sjálfan mig á einhvern hátt eða einhverja sem ég þekki. En er ekki íslensk ættfræði einmitt þannig að maður kannast alltaf við einhverja? Óskaplega held ég að útlend ættfræði sé leiðinleg.

Veðurfarsstaðreyndir a la Sigurður Þór Guðjónsson höfða ekki til mín sem skemmtilestur. Þessvegna er það sem ég vil að Sigurður hætti þessum þykjustuleik. Ég veit að hann hefur gaman af að blogga um allt mögulegt og kannski mest gaman af að æsa menn upp. Mig getur hann þó ekki æst upp nema með því að henda mér útaf bloggvinalistanum eins og einu sinni.

En ég er farinn að sakna skrifa hans á blogginu. Þau eru beitt og vel skrifuð. Stundum verður maður þó að gera ráð fyrir að þau séu sett fram í hálfkæringi. Kommentin verða gjarnan svo mörg þegar Jón Valur og fleiri fara að óskapast þar að ég nenni ekki að lesa þau öll.

„Hekla gaus síðast í febrúar árið 2000. Þar á undan gaus hún veturinn 1980 og svo skömmu síðar, eða í maí 1981. Hekla gaus einnig árið 1970 en síðasta stóra gos hafði orðið 23 árum...."

Þannig var sagt frá á dv.is í dag í alllangri grein um Heklu gömlu. Ég held að þetta sé mesta vitleysa. Man ekki betur en að þegar ég hætti að reykja um áramótin 1990 og 1991 hafi því verið illa tekið af máttarvöldunum. Stríð braust út í Miðausturlöndum og Hekla fór að gjósa. Já, þannig man ég hlutina. Er hissa á blaðamannsræflinum sem nennti ekki að skoða heimildir eða tala við sér fróðara fólk.


Bloggfærslur 1. nóvember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband