Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

1264 - "Það er verið að flytja Heklu"

Merkilegt að sjá að Kaupfélagshúsið í Borgarnesi skuli vera á nauðungaruppboði og kallað gamla Kaupfélagshúsið. Þegar ég vann í þessu húsi var allt annað hús kallað „Gamla Kaupfélagið" . Ég hefði vel getað fallist á að skemman á horninu á móti Alþýðubandalagshúsinu (sem heitir víst eitthvað allt annað núna) væri gömul. En ekki Kaupfélagshúsið sjálft.

Sé að þessi bloggárátta mín er ekki nægilega mikil til að blogga að jafnaði tvívegis á sólarhring. Best að sætta sig við að vera „Miðnæturbloggari" og gera það almennilega.

Á margan hátt er það einkennilegt að Framsóknarflokkurinn skuli ekki ná neinni pólitískri viðspyrnu. Þar á bæ hefur samt margt verið gert til að reyna að auka vinsældir flokksins. Skipt var um forystu og yngt talsvert upp. Núverandi ríkisstjórn komst á laggirnar fyrir tilverknað flokksins og þannig mætti lengi telja. Samt eru vinsældir flokksins ekki að aukast í kosningum eða skoðanakönnunum.

Í skoðanakönnunum hefur ríkisstjórnin enn uppundir fjörutíu prósent stuðning. Það er mikið hvað sem hver segir. Þó er útlit fyrir að til tíðinda dragi áður en kjörtímabilinu lýkur. ESB-málið er svo eldfimt að ríkisstjórnin getur hæglega sprungið á því. Kannski er útspil Bjarna Benediktssonar núna einmitt af því tagi sem það er vegna komandi óvissu í því máli.

Skrifaði um daginn blogg um Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Auk þess að fá talsvert margar heimsóknir í framhaldi af því spunnust einnig nokkrar umræður í athugasemdum þar við Gunnar Gunnarsson bloggara og leigubílstjóra frá Reyðarfirði. Þetta er einskonar fésbókarumræða og ég bendi bara á hana vegna þess að umræður af þessu tagi fara oft framhjá fólki. Sérstakar athugasemdir berast held ég bara til þeirra sem taka þátt. Hugsanlega er það sama að segja um fésbókina.

Að sumu leyti er ég búinn að skipta um skoðun í Icesave-málinu. Ég er enn hlynntur því að semja um þetta mál. Þeir sem samningaleiðina vilja fara hafa þó hrakist úr hverri varnarstöðunni eftir aðra. Það að Bjarni Benediktsson skuli nú allt í einu vilja semja sannfærir mig bara um að stjórnmálaforingjar vilja halda áfram að ráða sem flestu hér á landi eins og þeir hafa löngum gert.

Lagarökin sem andstæðingar samkomulagsins benda á eru um sumt sannfærandi. Ekki er þó víst að hugsanlegur dómur (hvaða dómur?) verði eingöngu byggður á lagarökum. Málstaður andstæðinga samkomulagsins hefur unnið á með tímanum og heldur hugsanlega áfram að gera það. Þó held ég að málaferli yrðu Íslendingum óhagstæð mjög og biðin eftir úrslitum einnig.

Svo virðist sem andstæðingar Icesave ætli að einbeita sér að því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Slíkt er skiljanlegt í ljósi forsögunnar. Útlit er fyrir að sem fyrr þurfi atbeina forseta landsins til slíks.

Öllum getur misskjátlast eins og segir í frægum málshætti.

Á sínum tíma og fyrir löngu síðan var hagyrðinga og spurningaþáttur í útvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Hagyrðingar sem ég man eftir úr þeim þáttum eru: Helgi Sæmundsson, Steinn Steinarr og Karl Ísfeld. Af einhverjum ástæðum er mér einn botn úr þessum þáttum minnisstæðari en aðrir. Held að Helgi Sæmundsson hafi ort hann. Fyrripartinn man ég ekki. Seinni parturinn var svona:

Flöskustút ég fitla við
sem fékkst á rútubílastöð.

Það er ekki vegna þess hve góður þessi botn er sem mér er hann svona minnisstæður. Miklu fremur þvert á móti.

Öðru atriði úr þessum þáttum man ég einnig eftir. Sá þáttur var tekinn upp á Selfossi:

Sveinn: „Er Hekla í Árnessýslu?"

Svar: „Já."

Sveinn: „Rétt."

Órói í salnum. Sveinn spyr með þjósti: „Hvað gengur á?"

Rödd úr salnum: „Það er verið að flytja Heklu."

IMG 4183Sólin að sökkva.


1263 - Stíll

Mér finnst ég hafa ljósan og einfaldan stíl. Veit samt ekkert hvað aðrir álíta um stíl minn eða stílleysi. Allir skrifa einhvern vegin. Líklegast er að engir tveir skrifi eins um sama atburðinn svo dæmi sé tekið. Það er stíll. Knappur bloggstíll er auðlærður. Mér finnst yfirlestur (helst hálfhátt) vera bestur til að ná þeim stílblæ á bloggið sem óskað er. Orðin sem slík hafa engin áhrif. Nausynlegt er samt að hafa á valdi sínu allmörg orð yfir sama eða svipað efni (nú, eða búa þau til) til að forðast endurtekningar.

Hástigsorð og hvers kyns bölv og ragn eru óvinir stíls. Blogg eru mjög mislæsileg. Kannski er það stíllinn sem ræður. Efnið ræður auðvitað miklu líka. Fæstir lesa mikið um það sem þeir hafa engan áhuga á. Ég reyni að hafa efnisval mitt sem fjölbreyttast. Allt getur orðið leiðigjarnt í of miklu magni. Auðvitað er margt annað en það sem ég hef minnst á sem úrslitum ræður um stíl og stílblæ. Sumir halda að engu máli skipti hvernig skrifað er um hlutina. Bara ef sannleikurinn fær að njóta sín. Slíkt er mikill misskilningur.

Menn mega ekki halda að Steingrímur J. Sigfússon sé einhver hvítþveginn engill. Hann er bara gamaldags stjórnmálamaður sem svíkur og prettar þegar það kemur honum vel. Man vel eftir því máli sem hér er sagt frá. Þessa frásögn fann ég einhversstaðar á bloggi minnir mig. Man að Steingrímur hummaði þetta mál allt saman fram af sér og gott ef bændagreyin fóru ekki á hausinn útaf þessu.

Á síðustu dögum sínum í landbúnaðarráðuneytinu vorið 1991 keypti Steingrímur í fullkomnu heimildarleysi mannvirki (níu refahús) af bændum á ríkisjörðunum Kirkjuferju og Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi fyrir 47 milljónir króna. Var hann þar að gera þessum mönnum greiða af einhverjum ástæðum.

Ríkislögmaður taldi að þessi kaup væru ólögleg þar eð heimildar Alþingis var ekki leitað fyrir þeim eins og kveðið er á um í 40. grein stjórnarskrárinnar. Fór málið fyrir Héraðsdóm og Hæstarétt og töpuðu bændurnir málinu á báðum stigum. Komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að ríkið þyrfti ekki að efna samning Steingríms. 

Man semsagt ekkert frá hverjum ég stal þessu. Þetta eru nú ekki nema tvær stuttar málsgreinar svo varla verð ég hengdur fyrir það.

IMG 4181Sólarlagið að skella á.


1262 - Bjarni Benediktsson

Jú, umræðan snýst mest um Bjarna Benediktsson og Sjálfstæðisflokkinn þessa dagana og kannski var það ætlunin. Mér finnst Bjarni loksins hafa tekið á sig rögg og ætli sér að hrifsa völdin af Davíð og þeim sem hann styðja. Ef hann kemur standandi niður úr þessum hildarleik hefur hann alla burði til að verða langlífur sem formaður flokksins. Það er alls ekki ólíklegt að hann hafi það sama í hyggju varðandi ESB og hann er nú búinn að gera varðandi Icesave.

Tenerife ferðin er mér enn ofarlega í sinni. Í Santiago del Teide stoppuðum við í Teide-Masca ferðinni. Þar borðaði ég bæði stóra sneið af svínakjöti og stórt kjúklingalæri (furðustórt eiginlega) fyrir utan allt hitt. Súpuna á undan, salatið, brauðið, spægipylsuna, olívurnar og allt saman. Og allt rauðvínið. Ég er átvagl með ístru. Ekki hugsa ég að ég geri eins og í fyrra að setja allt mitt skrifelsi á bloggið í heildsölu. Reyni kannski að tína það bitastæðasta úr.

Að fara til Masca var heilmikil upplifun. Sama er að segja um fleiri staði og sögurnar sem fararstjórinn sagði okkur eru minnisstæðar þó ég endursegi þær ætla ekki hér.

Vegurinn til Masca er eftirminnilegur. T.d. gekk illa eitt sinn þegar við mættum annarri rútu og þurfti mörgum sinnum að bakka. Stórar rútur fara ekki þarna því þær ná ekki beygjunum. Örugglega er ekki langt þangað til einstefna verður tekin upp þarna og annar vegur lagður. Þetta gengur ekki. Það gekk oft erfiðlega að fá litla bíla sem við mættum nógu langt út í kant. Ágætlega gekk samt að mæta fjórum jeppum sem þar voru á ferð enda voru það engir Hummerar, bara venjulegir Landroverar eða eitthvað þess háttar. Landslagið við Teide var líka mjög sérkennilegt og fallegt. Við stoppuðum við stað þar sem vegurinn endar en hægt er að halda áfram með kláfum. Þeir voru fullbókaðir og ekki tími til að bíða eftir þeim. Skoðuðum bara umhverfið og tókum myndir. Stoppuðum einnig við einhvern stað sem mig minnir að heitið Geraticho eða eitthvað þessháttar. Þar var ýmislegt til sölu t.d. ekta og góður saffran ræktaður á staðnum.

IMG 4173Blóm vaxa auðvitað líka á Tenerife.


1261 - Sjálfumsnúinn og hálffreðinn

Tuttugu og sjö ummæli við status hjá mér á fésbókinni er sennilega met. Þar var stjórnlagaþingið til umræðu. Líklegast þykir mér að í því máli gerist ekki margt annað en að fólk deili um þetta fram og aftur. Stjórnmálamennirnir og flokkaræflarnir halda líklega áfram að halda öllu í sömu skorðum og verið hefur. Íhaldssemi getur verið ágæt en athuga þarf að ótti við breytingar getur hindrað allar framfarir. 

Ragnhildur, mér sýnist að fólk trúi þessu ekki frekar en öðru á Íslandi. Sæmundur Bjarnason, sem hefur bloggað 1133 sinnum á sinn landsþekkta, hálffreðna og sjálfumsnúna hátt, vill helst að þetta sér grín: http://saemi7.blog.is/blog/saemi7/entry/1092706/"

Þetta sagði Villi í Köben einu sinni um mig í athugasemd. Hef ekki minnst á þetta á blogginu fyrr enda uppgötvaði ég þetta ekki fyrr en nýlega. „Hálffreðna og sjálfumsnúna hátt" er orðalag sem ég skil ekki almennilega en þetta sannfærir mig um að einhverjir lesa bloggið mitt og meta það einhvers þó ekki sé það á þann hátt sem ég helst vildi.

Man allt í einu núna eftir óvenjulegu atviki úr flugferðinni til Tenerife. Ég sá út um gluggann þotu sem við mættum í háloftunum. Hún var talsvert frá og fyrir neðan okkur og ég hefði ekki tekið eftir henni nema vegna svarta reyksins sem hún spúði aftur úr sér.

Já, við mennirnir erum önnum kafnir við að menga heiminn. Eins og Sagan (ég á við Carl Sagan, en ekki söguna þó merkileg sé) segir.

Við lifum í lokuðu kerfi. Ekkert kemur inn nema sólarljósið. Að öðru leyti lifum við hvert á öðru. Það jafnvægi sem komist hefur á í þessu tilliti á milljónum ára erum við mennirnir e.t.v. að trufla á fáeinum áratugum og fáum kannski ekki að vita það fyrr en of seint.

Af hverju segi ég þetta? Það er alls ekki víst að maður hafi áhrif á nokkurn mann. Þó er það möguleiki. Minnist þess ekki að hafa áður séð flugvél sem mætt er í háloftunum. Kannski hefur maður áhyggjur af röngum hlutum. Það sem er virkilega ískyggilegt kemur venjulega á óvart.

IMG 4165Pálmanna strönd þegar merlar máni.....


1260 - Ja, hérna

Nú er lagerinn af bloggum búinn hjá mér. En myndirnar ekki. Hvað gera Danir þá. Nú, stytta bloggin og lengja myndirnar. Ég sem var farinn að halda að ég gæti farið að blogga tvisvar á dag eins og ekkert væri. 

Einn aðalkosturinn við Tenerife-dvölina var að þar er hægt að vera hálffullur allan daginn án þess að það kosti nokkuð að ráði. Fékk Sangría-dellu að þessu sinni enda lítrinn bara á 0,79 evrur.

Það er fínt að hvíla sig svona á blogginu og koma endurnýjaður heim aftur. Sjálfum finnst mér þetta blogg, sem ég er byrjaður á núna, ekki sem verst. Öðrum kann að finnast það heldur þunnt.

Jæja, nú er ég farinn út að ganga, en set fyrst upp þetta örblogg. Kannski verður eitthvað bitastæðara hjá mér í kvöld.

IMG 4163Myndarlegt tré.


1259 - Getur ekkert gert vel

Getur ekkert gert vel
gengur þó með sperrt stél.
Bertél.

Þessi vísa getur svosem átt við mig. Finnst samt ekki sjálfum að ég sé með sérlega sperrt stél. Annars ætlaði ég að nota þessa vísu sem inngang að sögu um Kristmann Guðmundsson og Jóhannes úr Kötlum. Kristmann segir frá þessu í einni af Ísoldarbókum sínum sem eru nokkurs konar ævisaga. Hann og Jóhannes voru staddir á símstöðinni í Hveragerði ásamt einhverjum öðrum þar sem m.a. þessi vísa kom til umræðu. Þá víkur Jóhannes sér að Kristmanni og segir:

Lít ég einn sem list kann.
Löngum hafa þær kysst hann.
Kristmann.

Kristmann segist hafa svarað þessu fljótt þó venjulega væri hann fjarri því að vera hraðkvæður:

Fleiri þó við ötlum
að farið hafi úr pjötlum
í Kötlum.

Hef líkast til bloggað um þetta áður. Sjaldan er samt góð vísa of oft kveðin.

Fréttablogg henta mér ekki. Mér finnst öðrum ekki koma það mikið við hvað mér finnst um tiltekna atburði. Mér finnst líka umhendis að vera að blogga um persónuleg málefni og hvað ég tek mér fyrir hendur og þ.h. Hvað er þá eftir? Jú, blog um blog og að þykjast vera gáfaður. Ég get sagt frá ýmsu sem áhrif hefur á mig. Endurminningar hverskonar eru líka í lagi. Ef of margir lesa bloggið mitt er samt hætta á að ég ofmetnist og fari að tala tungum.

Það er ekkert síðra að labba hér um fáfarna stígana í Kópavogi og hlusta á snjóinn marra undir fótum manns en að ganga eftir ofurfjölmennri leið allt frá San Augustine til Melónustrandar á Gran Canarie. Nú eða á prómenaðinu hjá Los Christianos á Tenerife. Nakta kroppa sér maður auðvitað enga hér í Kópavoginum en hvað með það? Veðrið hefur lítil áhrif nema þá helst á það hvernig maður klæðir sig áður en maður fer út.

Nú er ég farinn að auglýsa bloggið mitt rækilega á fésbókinni. Veitir sennilega ekki af.

IMG 4154Tré meðfram götu og þarna virðist vera íþróttavöllur.


1258 - Bráðum kemur blessað vorið

Nú er ég byrjaður að bíða eftir vorinu. Mér er sama þó snjór sé yfir öllu núna. Finnst birtutíminn vera óðum að lengjast. 

Aldrei hefði ég getað orðið rithöfundur. Til þess vantar í mig þolinmæðisgenið. Það kom líka í veg fyrir að ég yrði skákmeistari. Sú einsýni sem þarf til að ná árangri heillar mig alls ekki. Betra er að gutla við allan fjárann. Það er samt furða hvað það á vel við mig að skrifa. En bara ekki of lengi. Ef það verður einhver kvöð eða kvöl og pína þá er ég farinn.

Hef undanfarið verið að lesa bókina „ Billions and billions" eftir Carl Sagan Kosmólógía er vissulega áhugaverð vísindagrein. Vísindamenn segjast hafa vaxandi vísbendingar um að aðrar stjörnur en sólin okkar kunni að hafa plánetukerfi á borð við okkar sól. Ekki er rétt að afskrifa slíkar röksemdir og sá möguleiki að við gætum e.t.v. náð sambandi við vitrænt líf annars staðar í vetrarbrautinni er alls ekki útilokaður.

Vísindamenn athuga alltaf þann möguleika að ekki þurfi að gera ráð fyrir einhverju yfirskilvitlegu afli til að útskýra þau fyrirbrigði sem finnast. Það auðveldar mörgum að sættast við ófullkomleika tilverunnar að gera ráð fyrir einhverju yfirskilvitlegu en það er ekki víst að það sé nauðsynlegt. Þarna er ég kominn að mörkum trúarbragða og ekki rétt af mér að þykjast vita meira en aðrir.

Ekki er vafi á því að orkuþörf mannkyns stjórnar gerðum fólks, bæði stjórnmálamanna og annarra. Nú er orkuþörfinni einkum fullnægt með olíu og kolum. Sú rafhlaða sem þar er um að ræða mun einhvern tíma tæmast. Hvenær það verður er erfitt að spá um en víst er að þá verður að hverfa frá þeirri sóunarstefnu sem fylgt hefur verið allt frá byrjun iðnbyltingar.

Alls ekki er víst að olía gangi til þurrðar en verð á henni mun hækka. Kolaverð reyndar líka vegna umhverfisáhrifa af notkun þeirra.

Ætli við mennirnir séum ekki svona 6 - 8 milljarðar. Ég er löngu hættur að telja. Skiptumst í ýmsar þjóðir misstórar og misvoldugar. „Gáfurnar" sem löngum hafa aðskilið okkur frá öðrum dýrum jarðarinnar og gert þau undirgefin okkur eru greinilega farnar að stuðla að tortímingu okkar. Tortímingin verður auðvitað ekki skyndilega heldur verður sókn voldugustu ríkjanna til að ráða orkulindum jarðar og sókn okkar allra eða langflestra til að njóta þeirra lífsþæginda sem forfeður okkar gátu aðeins látið sig dreyma um til þess að viðsjár aukast milli þjóða og bandalaga hverskonar.

Hnatthlýnunin og margt henni tengt ætti að gera okkur ljóst að stærstu vandamál mannkynsins eru sameiginleg og verða aðeins leyst með samvinnu þjóða.

Fáir frasar eru jafnofnotaðir og sá sem hljóðar oftast einhvernvegin þannig: „Við eru ekki herrar jarðarinnar og höfum alls ekki fengið hana í arf frá forfeðrum okkar, heldur höfum við hana bara að láni frá börnunum okkar." Upphaflega held ég að þetta sé komið frá Indíánum Norður-Ameríku enda tilbiðja þeir jörðina og náttúruna á margan hátt meira og öðruvísi en aðrir. Sannleikur þessara orða á þó hvergi betur við en þegar rætt er um mengun þá af mannavöldum sem ýtir undir og kann að flýta endalokum okkar.

Nú er komið að því að fara að nýta eitthvað af þeim myndum sem ég tók í Kanaríeyjaferðinni.

IMG 4092Fyrst er það hótelið okkar


1257 - Listin að blogga

Listin við að blogga er að forðast málalengingar. Skrifa það í fáum orðum sem flestir segja í löngu máli og ítarlegu. 

Nú er ég kominn til baka frá Kanaríeyjum og ætlast til að teljarinn hjá mér komist fljólega yfir hundraðið aftur. Er búinn að vera í fríi á Tenerife í sólskini og blíðu meðan skammdegið hefur vonandi verið alla að drepa hér heima á Fróni. Snjór og kuldi þekkist ekki þar. Þó var hálfkalt þegar við fórum upp í þjóðgarðinn við Teide-fjall einn daginn.

Já, ég er orðinn gamall en ekki alvitlaus. Fýldur að sjá oftast nær en ekki endilega í vondu skapi þó ég líti út fyrir það.

Von mín er sú að sá hópur fólks sem kosinn hefur verið eða kosinn verður á svonefnt stjórlagaþing standi alþingismönnum okkar langtum framar að flestu leyti. Þar ættu langflestir að vera yfir sérhagsmunina og flokksþarfirnar hafnir. Flokkarnir þykjast auðvitað eiga suma og sá áróður að þeir sem heima sátu í fyrstu kosningunum hafi með því verið að láta ýmislegt í ljós er alls ekki sannfærandi.

Þeir sem ekki kusu ákváðu að láta þá sem kusu ráða þessu. Þannig er það ávallt í kosningum og hefur alltaf verið. Bollaleggingar um annað eru marklausar og að engu hafandi.

Úrskurður hæstaréttar um þetta mál er fremur óvandaður. Líklega verður hann kærður til yfirþjóðlegs dómstóls og má búast við að málsmeðferð þar taki langan tíma. Þannig má búast við að tilraunin sem gera átti til þess að smíða nýja stjórnarskrá sé eyðilögð nema Alþingi geri aftur tilraun til að halda kosningar til stjórnlagaþings.

IMG 4071Og enn safna strákar rakettuprikum. Þessi mynd er tekin á Nýársdag síðastliðinn.


1256 - Bloggað með látum

Sumum finnst mikið að blogga daglega. Öðrum finnst það lítið. Kannski ég ætti bara að fara að blogga oft á dag. Ekki nenni ég samt að vera alltaf að linka í fréttir.

Númerin mín hækka þá líka fyrr. Veit ekki hvað ég geri þegar tölustafirnir verða fimm. Byrja kannski á einum aftur.

Mér er svo mikið mál að blogga eftir bloggþurrðina í janúar að ég held að ég láti bara vaða.

Steinitz, Lasker, Alekhine og Fischer eru að mörgu leyti mínir menn meðal heimsmeistara skáklistarinnar. Finnst eins og þeir hafi þegar best lét haft meiri sigurvilja en aðrir slíkir. Ég er ekkert að gera lítið úr öðrum heimsmeisturum en grunar að þeir séu ívið meiri jafntefliskóngar en þeir fyrrnefndu. Fischer hefur lengi verið í miklum metum hjá mér. Viðurkenni samt að í einkalífinu var hann ákaflega misheppnaður maður og hafði þróað með sér skoðanir sem virtust á margan hátt vera til þess ætlaðar að hneyksla og meiða.

Undanfarið hef ég verið að lesa bókina um Önnu á Hesteyri. Það er ágæt bók og heimspeki Önnu er mér miklu meira að skapi en margra annarra. Hún vildi engum mein gera og var dýravinur hinn mesti. Oft var samt eins og hún vildi ganga fram af fólki. Þannig var Gísli á Uppsölum einnig. Held að hann hafi verið alveg normal en séð að öðruvísi en með afkárahætti gæti hann ekki látið neinn taka eftir sér.

IMG 4068Hér gekk mikið á þegar 2010 var kvatt.


1255 - Góða fólkið breska

IMG 3595Á Tenerife týndi ég myndavélinni minni og tilkynnti um tapið til lögreglunnar að sjálfsögðu og úr varð heilmikið ævintýri. Fína skýrslu á spænsku fékk ég þó að lokum og er afrit af henni hér:

Image (59)Þessa skýrslu þarf ég þó ekkert að nota því myndavélin þó ómerkt væri komst aftur í mínar hendur að allmörgum dögum liðnum. Það er eingöngu að þakka fólkinu sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Það kom vélinni til mín með talsverðri fyrirhöfn og vildi engin fundarlaun þiggja eða neitt af því tagi. Mynd tókst þó að ná af þeim og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim kærlega fyrir að koma myndavélinni til skila.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það góða í fólki sé sífellt að verða sterkari þáttur í skapgerð þess og þessi upplifun dregur ekki úr því áliti mínu að heimurinn fari stöðugt batnandi en ekki versnandi.  

IMG 4059Hér varð eldsvoði á gamlárskvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband