Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

1548 - Jól, Palestína o.fl.

Scan16Gamla myndin.
Þessi mynd hlýtur að vera tekin í Löngubrekku í Kópavogi. Hvað Jón Kristinn og Bjössi eru að ræða um þarna veit ég þó ekki.

Segja má að stefni í hanaslag milli ríkisendurskoðanda Sveins Arasonar og ríkislögreglustjóra Haraldar Johannessen. Allt bendir til að ríkislögreglustjóri tapi þeim slag. Þó getur þetta mál endað fyrir dómi og hugsanlega haft áhrif á ríkisstjórnina. Þetta mál fjallar um að ríkislögreglustjórni afhendi ríkisendurskoðanda gögn um innkaup þess fyrrnefnda á ákveðnu tímabili. Hugsanlega skiptir mestu máli hvernig túlkuð er sú neyð sem lögreglan bjó við, eða taldi sig búa við, þegar ákvörðun um kaupin var tekin.

Þegar ég var lítill var þessi vísa mjög vinsæl:

Þó desember sé dimmur
þá dýrleg á hann Jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Ekki veit ég eftir hvern þessi vísa er. Kannski er þetta úr ljóði um alla mánuðina. Líka voru vinsælar vísur um gömlu mánuðina og t.d. rámar mig í vísu um Góu þar sem sagt var að hún gengi á éljapilsi síðu.

Upphaf Gilsbakkaþulu var einnig mjög frægt og jafnvel þulan öll sem ég held að sé svona tíu til tólf vísur. Mig minnir að fyrsta vísan sé svona:

Kátt er á jólunum, koma þau senn,
upp munu þá líta Gilsbakkamenn,
upp munu þeir líta og undra það mest,
að úti sjái þeir stúlku og blesóttan hest,
úti sjái þeir stúlku, sem umtöluð varð:
"Það sé ég hér ríður hún Guðrún mín í garð,
það sé ég hér ríður hún Guðrún mín heim."

Sagt er að þulan sé eftir einhvern Kolbein Þorsteinsson (Google.com) en engin deili veit ég á honum.

Það eru einkum þrjú mál sem núverandi ríkisstjórn þarf að koma í höfn áður en hún gefst upp. Þau eru: ESB, kvótinn og stjórnarskráin. Vaxandi líkur eru á að hún komi alls ekki öllum þessum málum í gegn fyrir næstu kosningar. Jafnvel bara einu þeirra. Mestar líkur eru á að það verði kvótamálið, jafnvel þó LÍÚ, sjálfstæðisflokkurinn og hugsanlega sjávarútvegsráðherrann sjálfur standi mjög ákveðið gegn öllum breytingum þar. Alls ekki er þó líklegt að gjafakvótinn eða leyfið til framsals veiðiheimilda verði með öllu afnumið. Miklu líklegra er að enn verði reynt að lappa upp á kerfið. Þjóðin er samt einhuga um að umbóta sé þörf á kvótakerfinu.

Í dag var samþykkt á alþingi tillaga um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Sú tillaga var samþykkt með 38 atkvæðum. Sjálfstæðismenn 13 að tölu sátu þó hjá og er skömm þeirra mikil.

IMG 7188Þetta eiga ökumenn að lesa og tileinka sér á hálfri sekúndu.


1547 - Um víkinga, ríkisstjórn o.fl.

fa28Gamla myndin.
Hvað vilt þú upp á dekk? Hryggjarliður úr hval til vinstri á myndinni.

Það er í tísku núna að spá ríkisstjórninni falli. Ekki geri ég það en minnist þess að ein eftirtektarverðustu ummælin í ævisögu Steingríms Hermannssonar voru eitthvað á þá leið að forsætisráðherra á hverjum tíma geti búist við því að fara úr einni krísunni í þá næstu. Jóhanna og Steingrímur hafa ekki farið varhluta af þessu og það er vegna þess sem ég held að ríkisstjórnin haldi velli núna ekkert síður en verið hefur. Stjórnarandstaðan ímyndar sér alltaf að nú sé loksins búið að fella ríkisstjórnina en samt tekst það ekki. Andstæðingar hennar eru að vísu ansi háværir og víst er meirihlutinn tæpur og jafnt ráðherrar sem aðrir gefnir fyrir að bera ágreining sinn á torg.

Ég var orðinn þrítugur þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda. Það var árið 1972. Við fórum þá í hringferð með Gullfossi og komumst lengst í suður til Hamborgar. Fyrst komum við til Dublinar á Írlandi og einn af fyrstu dögunum þar fórum við í ferðalag til Glendalough. Þar sáum við meðal annars allháan turn sem okkur var sagt að væri meira en þúsund ára gamall. Okkur var einnig sagt að í stað sements og steypu hefði verið notað uxablóð til að líma steinana saman. Við spurðum leiðsögumanninn einnig hvers vegna turninn hefði verið reistur.

Svar hans varð til þess að ég þurfti að endurskoða ýmsar hugmyndir mínar um Íslandssöguna en honum þótti spurningin greinilega óþörf mjög og sagði eitthvað á þessa leið:

„Nú, það var til að sjá hvort víkingarnir væru að koma.“

Fram að þessu hafði ég að sjálfsögðu litið á víkingana sem miklar hetjur og að hámarki hreystinnar hafi þeir náð þegar þeir fóru í víking til framandi landa. Nú skildi ég allt í einu að frá sjónarmiði annarra voru þeir verstu terroristar síns tíma. Jafnvel verri en Tyrkjaránsdjöflarnir voru mörg hundruð árum seinna.

IMG 7169Laufblað.


1546 - Topplistinn o.fl.

fa19Gamla myndin.
Benni og Bjarni hjá flottu jólahúsi. Takið líka eftir sjónvarpinu.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson kemur reglulega í Kastljós RUV til að mæra bókina sína. Lætur eins og allt sé rétt og sannleikanum samkvæmt þar. Svo er þó ekki en vel getur verið að bókin sé ágætlega skrifuð. Það eru bara svo margar bækur þannig. Palli og Kolla eru enginn hæstiréttur um það hvaða bækur eru nógu góðar til að vera gefnar í jólagjöf.

Skil ekki hvað menn eru æstir útaf þessu Grímsstaðamáli. Þetta er smámál. Kínverjaræfillinn var bara ekki búsettur á réttum stað. Undanþágur er ekki sjálfsagt að veita. Jafnvel þó það hafi verið gert áður.

Hlynur Þór Magnússon ætlar ekki að segja sig úr Landssambandi framsóknarkvenna. Ekki ég heldur. Kannski höfum við hvorugur nokkurtíma verið í þessu landssambandi en það breytir ekki því, að óþarfi er að segja sig úr því. Bensi á Akureyri segir sig úr Samfylkingunni með látum og ætlast til að það hafi einhver áhrif. Er ekki viss um að svo sé og ekki ætla ég að segja mig úr Samfylkingunni. Man líka ekki eftir að ég sé í henni. Held jafnvel að ég sé í Framsóknarfélagi Kópavogs. A.m.k. er Sigmundur sífellt að skrifa mér, en ég les aldrei bréfin frá honum. Annars er löng sorgarsaga að segja frá því öllu. 

Gunnar Eysteinsson frændi minn í Svíþjóð skrifaði mér um daginn og bað mig að segja eitthvað um Topplistann sinn. Mér finnst ég vera voða mikilvægur fyrir vikið en auðvitað er ég það ekki. Hann er lengi búinn að vera að reyna að hafa upp í kostnað með þessu Topplistastandi sínu, sem hefur kostað mikinn tíma. Gallinn er sá að allir vilja fá allt ókeypis á netinu. Kannski er þetta að breytast, en það er fyrst þegar fólk sannfærist um að það græði á því að auglýsa hjá honum sem það fer að auglýsa að einhverju marki þar. Ég geri ráð fyrir að t.d. Útvarp Saga hafi staðið frammi fyrir þessu sama fyrir nokkru síðan og selt auglýsingarnar þá mjög, mjög ódýrt. Þetta er svokallað „Catch 22“ og það getur verið afar erfitt að komast yfir það.

Ekki fæ ég svo mikið sem eina einustu krónu fyrir öll þau löngu blogg sem ég skrifa. Geri heldur ekki ráð fyrir því. Auðvitað vona ég samt að einhvern tíma sjái einhver sem á alltof mikið af peningum hve gríðarlega góður bloggari ég er og bjóðist til að borga mér fyrir greinaskrif. Ég get líka vonast til að þessi sífelldu skrif mín hafi áhrif á einhverja. Kannski ekki bein áhrif þannig að viðkomandi fallist alveg á mínar skoðanir á hlutunum, en hugsi kannski svipað um sum mál.

IMG 7164Hvernig gerist svona?


1545 - Grímsstaðir á fjöllum

fa13Gamla myndin.
Benedikt Sæmundsson.

Grímsstaðamálið á Fjöllum er að verða að einhverju Bakkaselsmáli. Man vel eftir hvað rifist var mikið um söluna á þeirri jörð á sínum tíma. Umræðan er samt breytt. Hraðinn er meiri. Minnir að deilt hafi verið um Bakkasel vikum eða jafnvel mánuðum saman og ekki hafi verið hótað stjórnarslitum. Útlendingar blönduðust heldur ekki í það mál, enda hafa þeir varla haft áhuga á Bakkaseli. Kveikiþráðurinn í mönnum er ansi stuttur núna. Gott ef Möllerinn er ekki sármóðgaður ennþá fyrir að hafa verið settur af sem ráðherra. Annað eins hefur nú gerst. Venjan hefur samt verið að setja dúsu uppí menn fljótlega hafi þess gerst þörf.

Öplódaði nokkrum gömlum myndum áðan og á nú smábirgðir af þeim. Nýju myndirnar eru ekki margar eftir. Á samt eftir að taka eitthvað af myndum til í það. Hef frekar áhyggjur af gömlu myndunum. Þær klárast á endanum. Get bætt við hinar ef þarf.

Merkilegt hvað nútímaþjóðsögur eru vinsælar. Held að ég hafi séð um daginn nýjustu útgáfuna um köttinn í örbylgjuofninum. Þjóðsögumyndir ganga líka sífellt aftur og aftur þó ég muni ekki eftir neinu dæmi í svipinn. Þetta er einkum áberandi núorðið því svo margir kunna að breyta myndum í photoshop. Vinsæl iðja.

Netlíf er ekkert líf. Margir virðast lifa fyrir fésbókina sína. Það er samt framför ef fólk hefur ekki kost á öðru. Kannski hafa þó þeir sem mesta þörf hafa fyrir netlíf ekki kunnáttu til að nota sér það. Krakkar og unglingar hafa mjög gaman af að skrifa allkyns dellu á facebook. Líka virðist vinsælt að setja myndir sínar þar. Oft finnst viðkomandi of mikil fyrirhöfn að henda út misheppnuðum myndum og óskýrum og er fésbókin þá orðin sannkölluð ruslakista.

Í blogginu mínu er ég sífellt að bera saman fésbókina og bloggið. Twitterinn hefur sloppið því ég hef ekki nennt að skrá mig þar. Eflaust finnst flestum þetta hundleiðinlegt. Mér líka. Nær væri að skrifa um eitthvað annað. Mér dettur bara svo fátt í hug.

IMG 7163Skógur.


1544 - 1000 myndir....milljón minningar

Scan96Gamla myndin.
Óþolinmóður viðskiptavinur.

Eru tómatar grænmeti, ávextir eða ber?

Eru ber ávextir, grænmeti eða hvað?

Eru kartöflur grænmeti, ávextir, eða kornmeti?

Eru egg kjöt, fiskur eða ávextir?

Eru hrísgrjón kornmeti, fræ eða grænmeti?

Er hveiti gluten, fræ eða pizza?

Hverju er maður bættari þó maður viti svör við sumu af þessu?

Ég meina það. Enginn veit allt. Sumir vita þó ýmislegt. Sumir treysta öllu sem þeir sjá á prenti. Fyrir sumum er netið sannleikur lífsins. Gúgla allan liðlangan daginn og trúa öllu sem þeir sjá. Ég trúi aftur á móti engu. Ekki einu sinni því að ég sé til.

Þegar Sambandið eða SÍS-ið fór á hausinn með brauki og bramli var nýbúið að reisa mikið stórhýsi á þeirra vegum. Eða breyta gömlu húsi og endurnýja það allt. Þar er nú Íslandsbanki til húsa með sínar skrifstofur. Stöð 2 stuðlaði á sínum tíma að breyttu bankalandslagi hér á landi. Er þá bankahrunið henni að kenna? A.m.k. kannast ríkisstjórnir eða stjórnmálaflokkar ekki við nokkra ábyrgð. Tökum bara hruninu eins og hverju öðru hundsbiti. Kannski gerir Lilja Mósesdóttir það samt ekki. Skilst að hún hafi verið bitin af hundi og sýndist fésbókarhalinn við þá fullyrðingu hennar vera ógnarlangur.

Kaupin á Grímsstöðum á fjöllum ber einna hæst í pólitíkinni í dag. Mér finnst langt gengið að áfellast Ögmund greyið fyrir að fara eftir lögum. Margt annað mætti finna gegn honum ef vilji er fyrir hendi. Trúi ekki að ríkisstjórnarsamstarfið sé í hættu útaf þessu máli.

Las nýlega bók sem heitir 1000 myndir....milljón minningar. Höfundur hennar er Þormóður Símonarson. Auðvitað eru ekki þúsund myndir í bókinni en þær eru á netinu og ég ætlaði alltaf að skoða þær. Urlið er: http://1000myndir.info/ Mundi skyndilega eftir þessu þegar ég horfði á útsvarið áðan. Sá í skotapilsinu gaf þessa bók og sagði að hún væri eftir bróður sinn. Þeir eru þá sennilega synir Símonar í Görðum og barnabörn Möggu í Dalsmynni.

IMG 7151Já, hvað eru þið að hanga hérna?


1543 - Feministaspeki

Scan90Gamla myndin.
Á sjóskíðum í Reykjavíkurhöfn.

Femínistaumræðan er að aukast á netinu. Sjá t.d. http://modursyki.wordpress.com/ Hún er líka að verða markvissari, dónalegri og fjölbreyttari. Ekki eru allir femínistar á móti klámi. Eva Hauksdóttir hefur kannski skrifað þetta. Mér finnst hún vera femínisti. Kannski er hún það ekki. Vísar a.m.k. á þetta ásamt fleirum á fésbókinni. Án þess að ég sé sérstaklega að vísa á þessa grein þá er því ekki að neita að fésbókin nýtist ágætlega í að vísa á athyglisverðar greinar. Þær tilvísanir eru samt oft bara innanum allskyns rusl og drasl. Það finnst mér a.m.k. Það er samt greinilegt að fólk forðast fyrirhöfn af öllu tagi og kommentar ekki á margt, því það er fyrirhöfn. Fyrirhöfnin við að klikka með músinni og lesa eða skoða allan fjárann er minimal. Það geta allir leyft sér. Fyrirhafnarleysið er í öndvegi hjá fésbókinni. Vefsetrin spretta samt upp út um allt og öll eru þau að frelsa heiminn. Ekki er ég barnanna bestur í því efni þó ég haldi mig við bloggið.

Pólitíkin leikur marga grátt. Hef t.d. tekið eftir því að Magnús nokkur Helgi Björgvinsson er mjög fyrtinn ef minnst er á Samfylkinguna á neikvæðan hátt og telur flest gott sem núverandi ríkisstjórn gerir. Hann á samt til að komast mjög vel að orði. T.d. sá ég orðið áráttugagnrýnandi fyrst hjá honum, held ég. Bloggarar mjög margir og mbl.is og dv.is eru samt á móti stjórninni og reyna að finna henni allt til foráttu. RUV-ið er að snúast gegn henni, finnst mér. Hefur stutt hana talsvert hingað til. Fréttablaðið styður hana ennþá held ég. Les það samt mjög sjaldan.

mbl.is24nóvkl1456Er mbl.is orðið æsifréttablað? Þetta er klippa úr því frá því í dag, fimmtudag.

Litatákn öll í íslenskum stjórnmálum eru að riðlast. Vinstri grænir eru miklu rauðari en Samfylkingin, en í Valhöll sitja Guðs englar saman í hring á bláu teppi. Þó framsóknarmenn þykist eiga græna litinn er hann samt tákn mikillar vinstrimennsku núorðið og allir keppast um að vera sem vistvænastir. Kommúnisminn er kominn úr tísku. Pólitíkin er að hertaka „Kiljuna“ hjá Agli Helgasyni. Jafnvel Palli og Kolla geta ekki stillt sig. Það er Hólmsteinninn sem æsir fólk svona upp. 

Þó ég mæli stundum með blogginu mínu á fésbókinni hættir mér til að gleyma því. Það má ég helst ekki gera. Flestir stunda þetta núorðið og það er komið í mikla tísku.

Smári nokkur McCarthy skrifar áhugverða grein um ACTA á vísi.is http://www.visir.is/lydraedinu-haetta-buin-med-vidskiptasamningi/article/2011711249981 og þar er sagt að hann sé stjórnarmaður í félagi um stafrænt frelsi á Íslandi. Þetta félag er með vefsíðu: http://www.fsfi.is/ sem virðist ekki vera mikið notuð. Stafrænt frelsi og höfundarréttur allur er mér talsvert áhugamál. Á sínum tíma þegar ég sá um netútgáfuna http://snerpa.is/net/ fylgdist ég vel með þessum málum. Þó menn deili oft um þetta, einkum um réttinn til dulnefna, er því ekki að leyna að stórfyrirtækin hafa náð umtalsverðri forystu í allri umfjöllun t.d. um greiðslur fyrir höfundarrétt. Salvör Gissurardóttir reynir þó að malda í móinn ennþá.

IMG 7150Kannski útbúnaður til að láta bíla renna í gang. Hvað veit ég?


1542 - Fésbók, jólahlaðborð o.fl.

Scan9Gamla myndin.
Kristín Þóra Harðardóttir og Bjarni Sæmundsson.

„Close all tabs“ er eitt af því algengasta sem ég jánka á tölvunni minni. Ég hef það nefnilega fyrir venju að fara út úr fésbókinni og loka öllu á eftir mér þegar hún hagar sér ekki eins og ég vil. Vara fólk líka við því að láta tölvuna fara beint á fésbók þegar kveikt er á henni eða netvafrinn opnaður. Betra er að hafa eitthvert kontról á ósköpunum sem fésbókin getur fundið uppá. Moggabloggið er líka slæmt með að opna óteljandi glugga en á margan hátt er betra að vara sig á því.

Occupy allan andskotann er kjörorð dagsins. Occupy internetið. Nú stendur til að reka aðgerðarsinnana í burtu sem hreiðrað hafa um sig á Austurvelli. Vona bara að þeir komi aftur. Auðvitað er hráslagalegt og kalt fyrir þá að vera þarna. Það er samt útúr kú að vera að amast við tjöldunum þeirra. Ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum er ekki góð auglýsing fyrir eina prósentið. 

Fór í kvöld einu sinni enn á ódýra jólahlaðborðið hjá Húsasmiðjunni. Minnir að það hafi verið ógnarlangur svarhali við bloggið hjá Jens Guði um daginn þar sem hann minntist meðal annars á þetta jólahlaðborð. Einhver óskapaðist yfir því að þarna væri áreiðanlega selt undir kostnaðarverði. Það er ég ekki viss um. Hinn möguleikinn er sá að fínu jólahlaðborðin gætu verið ódýrari en þau eru. Það finnst mér alveg eins líklegur möguleiki. Það þarf samt ítarlega athugun til að geta fullyrt nokkuð um það til eða frá. Þeir sem ekki hafa efni á dýru fínu jólahlaðborðunum þurfa líka að borða. Maturinn í IKEA er vinsæll einfaldlega af því hann er ódýr. Er einhver Jón Jónsson að niðurgreiða hann? Ekki mér vitanlega.

Talað er um að byssuvæða lögregluna. Það finnst mér vafasamt mjög því frá þeirri ákvörðun verður aldrei bakkað ef hún kemst á. Það eru ekki bara glæpamenn sem lögreglan þarf að hafa góða heldur friðsamir borgarar einnig. Pólitískur áróður er gjarnan af því tagi að reynt er að æsa þá til óhæfuverka sem hægt er að æsa upp. Molbúahátturinn er sem óðast að renna af okkur Íslendingum og því fylgja ýmsir vaxtarverkir.

IMG 7149Þyrludeild Landhelgisgæslunnar, held ég.


1541 - Heimsmeistari í skák í einn dag

Scan77Gamla myndin.
Benedikt Sæmundsson og Hjálmar Sigurþórsson.

Áður fyrr áttu heimsmeistarar í skák sjálfir heimsmeistaratitilinn. Það er að segja þeir réðu við hverja þeir tefldu einvígi um hann. Ekki spyrja mig hvernig sú regla komst á en margir telja Steinitz fyrsta raunverulega heimsmeistarann. Þegar Alekhine dó árið 1946 sló FIDE eða Alþjóðaskáksambandið eign sinni á titilinn til að koma reglu á hlutina. Sú regla fór samt í vaskinn þegar Kasparov og Short ákváðu að hunsa FIDE, en það er önnur saga og margt í henni umdeilt mjög.

Eftir dauða Alekhine var haldinn fundur í FIDE til að ákveða hver ætti að verða næsti heimsmeistari. Þar sem Max Euwe var eini fyrrverandi heimsmeistarinn sem var á lífi ákváðu fulltrúar á fundinum að hann yrði heimsmeistari þar til haldið hefði verið mót til að skera úr um hver væri bestur. Sovétmenn komu degi of seint til fundarins og fengu þessari ákvörðun hnekkt. Ákveðið var í staðinn að enginn skyldi vera heimsmeistari í skák þar til haldið hefði verið mót um það. Það mót var síðan haldið árið 1948 og Botvinnik sigraði þar og varð meistari.

Tæknilega séð var Euwe því tvívegis heimsmeistari. Fyrst árin 1935 til 1937 og síðan í einn dag árið 1946. Þegar hann sigraði Alekhine árið 1935 var sagt að það hefði meðal annars verið vegna drykkjuskapar og óreglu Alekhines og tveimur árum síðar fékk Alekhine tækifæri til að endurheimta tililinn sem hann og gerði.

Eiginlega hef ég ekkert að blogga um frekar. Nenni ómögulega að skrifa um fréttir dagsins, þær eru svo ómerkilegar. Það er helst að fésbókin sé að verða eitthvað merkileg og þá einkum fyrir það að þar er allt að drukkna í auglýsingum, heyrist mér. Svo væri náttúrlega hægt að skrifa eitthvað um veðrið, sem er líklega að kólna eitthvað enda á það ekki vel við að hafa sumarhita og enga birtu.

IMG 7141Gorkúla.


1540 - Von heimsins

Scan77 (2)Gamla myndin.
Kettlingur.

Verð að segja að mér finnst það undarleg fundarsköp að kjósa tvisvar um sömu tillöguna, eins og sagt er að gert hafi verið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina. Eftir fréttum að dæma var seinni kosningin nokkrum klukkustundum síðar en sú fyrri og fundarstjóri ákvað að svo skyldi vera. Sagði að vísu að tilmæli um það hefðu komið víða að.

Mér finnst landsfundur sjálfstæðismanna vera með óttalega óljósa stefnu gagnvart aðildinni að ESB þó talsmenn hans segi annað. Eðlilegast finnst mér að klára viðræðurnar sem fyrst og hafa síðan þjóðaratkvæðagreiðslu. Vaxandi líkur eru samt á því að aðildin verði felld og er þá ekki annað að gera fyrir fylgjendur aðildar en að sætta sig við það. Mjög miklu máli getur skipt hvort atkvæðagreiðsla um aðild fer fram á undan eða á eftir næstu þingkosningum.

Annars er varla um annað fjallað í bloggheimum þessa dagana en landsfundinn og danska mynd um Thor Jensen. Finnst hvort tveggja fremur ómerkilegt. Man samt eftir að hafa heyrt um að þegar húsið að Fríkirkjuvegi 11 var reist (líklega um 1900) þótti merkilegt að hafa rafmangsljós þar um allt og jafnvel á klósettinu. Rafmagnsljós voru ekki algeng í Reyjavík þá og útikamrar víðast.

4konur.jpgÉg geri lítið af því að taka myndir af netinu og birta á blogginu mínu. Þó geri ég það stundum. Sú stolna mynd sem hér er sýnd sýnir ágætlega að fleiri hafa áhuga á tölvum en bara börn og unglingar. Stolnar myndir af netinu eru mikill faraldur. Mér finnst þó að ef myndirnar eru merktar eða augljólega er um fréttamyndir að ræða og það blasi við að viðkomandi geti ekki með neinu móti grætt peninga á birtingunni megi gera þetta. 

Kannski er unga fólkið í dag von heimsins. Held að það geti auðveldlega fundið til sektar vegna örlaga mikils meirihluta jarðarbúa. Atburðirnir í Norður-Afríku sýna að þegar fólk fær tvennt sem það hefur ekki haft áður er sennilega ekkert sem getur stöðvað það. Þetta tvennt sem nútíma tækni hefur fært fólkinu er annarsvegar ótakmarkaður aðgangur að fréttum (internetið) og hinsvegar tækifæri til að ná hvert til annars fljótt og á einfaldan hátt (farsíminn). Að telja fólki trú um að hægt sé að halda áfram á sömu braut misskiptingar og fáfræði er sennilega ómögulegt.

Þessi skoðun hefur ekkert með pólitík að gera. Flokkaskipting í stjórnmálum fjallar um leiðir. Tortíming jarðarinnar vegna græðgi og eiginhagsmunahyggju getur ekki verið markmið. Einangrun er ennþá síður lausn nú en áður vegna þess að skipting heimsins í þjóðir og þjóðaheildir er einkum byggð á samskiptum við aðra. Alheimsstjórn í sumum málum er óhjákvæmileg þess vegna. Sú öld sem nú er upp runnin verður án efa öld samvinnu og framfara eða öld algerrar tortímingar.

Einhver lögfræðingur var í viðtali við Egil Helgason á sunnudaginn að ræða við hann um stjórnarskrárdrögin. Flest fann hann þeim til foráttu og var miklu hrifnari af gömlu skránni eins og sjálfstæðismenn eiga víst að vera. Fannst hann þó viðurkenna þá galla á henni að völd forsetans væru mjög óskýr og vegur alþingis lítill. Stjórnarskrárdrögin taldi hann að bættu samt lítið úr þessu og óþarfi væri að breyta öllu og skrifa nýja.

Ég er farinn að hallast að því að tillögur stjórnarskrárráðsins dagi uppi og ekkert verði gert. Kannski skiptir stjórnarskráin líka litlu máli. Efni hennar er alltaf hægt að teygja og toga eftir atvikum hverju sinni..

IMG 7139Tré ársins.


1539 - Allt er leiðinlegt

Scan74Gamla myndin.
Bjarni á Stakkhamri.

Allt verður leiðinlegt með tímanum. Það lítur svakalega flott út að geta verið að flakka á netinu eins mikið og maður vill. Hafa þar að auki ótakmarkaðan tíma. En það verður leiðinlegt fljótlega. Alveg eins og það verður leiðinlegt að lesa bækur ef maður hefur aðgang að öllum þeim bókum sem manni getur dottið í hug að lesa. Eða geti horft á kvikmyndir allan liðlangan daginn bara ef maður nennir að kveikja á flakkaranum.

Það er líka hundleiðinlegt að vera sífellt að þessu bloggstandi. Þykjast vera rosalega jákvæður en vera það í rauninni ekki. Vera búinn að mála sig úti horn með því að vera sígjammandi um allan fjandann. Setja upp blogg á hverjum degi, sem afar fáir nenna að lesa. Kannski opna sumir það samt af einhverri skyldurækni, kommenta jafnvel ef þeir hafa ekkert þarfara að gera.

Samt finnst mér bloggið ekki vera alveg eins mikil ruslafata og fésbókin. Margir virðast vilja geyma myndirnar sínar þar og þurfa þá ekki að vera að hafa áhyggjur af þeim framar. Eðli netsins er einmitt þetta: Maður skoðar það sem manni sýnist þegar manni sýnist en ekki þegar einhverjum öðrum sýnist. Torskilið? Ekki finnst mér það.

pepperÞessi mynd er á margan hátt ágæt. Ein mynd getur sagt meira en þúsund orð. Auðvitað er hún stolin. Fann hana einhvers staðar á netinu. Er búinn að gleyma hvar. En er þetta ekki dæmigert? Svona eru mótmæli oftast. Þrír hópar sem taka þátt. Löggan, aktívistarnir og áhorfendurnir. Fjölmennasti hópurinn er auðvitað áhorfendurnir. Það einkennir nefnilega flesta að þeir vilja sjá sem mest en helst ekki taka þátt í neinu. Þessa þrískiptingu má víða sjá og heimfæra upp á margt.

Allt er þetta pólitík. Í kosningum snýst þetta svolítið við. Skyndilega geta áhorfendurnir farið að gera eitthvað. Þó ekki sé nema að setja kross á réttan stað. Áhorfendurnir geta annaðhvort haldið áfram í pólitíska leiðann sem þeir voru á leiðinni í eða farið að gera eitthvað. Veit ekki hvort verður ofaná hér á landi. Held samt að allt sé á leiðinni í gamla farið.

IMG 7136Undirgöng.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband