Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

976 - Páskafrí og dýradráp

Ég er að hugsa um að blogga ekki mjög mikið um þessa páska. (Gæti þó brugðist).

Dýradráp bar á góma í kommentum hjá mér alveg nýlega. Datt þessvegna í hug að birta hér tvær gamlar færslur frá mér (Reyndar ekki eldri en svo að þær eru skrifaðar í febrúar 2009.

Þeir sem muna eftir þessu þurfa ekki að lesa lengra. Ekkert nýtt og engu breytt.

 

Sigurbjörn Sveinsson læknir skrifar bloggpistil hér á blog.is sem hann nefnir "Veiða og sleppa". Þar ræðir hann um þann sið laxveiðimanna að veiða sama fiskinn helst margoft og pína hann sem mest. 

Á sama hátt og golfíþróttin er oft notuð sem afsökun fyrir hollri útivist eru hvers kyns veiðar oft einskonar afsökun fyrir heilbrigðum ferðalögum og náttúruskoðun. Það er þó mun viðfelldara að sjá menn lemjandi litla bolta en drepandi allt og alla.

Maðurinn er herra jarðarinnar og ber því ábyrgð á öðrum dýrategundum. Sportveiðar af öllu tagi eru forkastanlegar. Það er hægt að réttlæta það sem fram fer í sláturhúsum með nauðsyn og að efnahagslegu áhrifin séu hagstæð. Vel er þó hægt að komast hjá því að borða kjöt eins og grænmetisætur vita best.

Tekjur veiðifélaga af veiðileyfum eru auðvitað efnahagsleg áhrif. Þær tekjur eru þó oft í litlu samræmi við þær afurðir sem úr ánum koma. Netaveiðar eru heilbrigðari að því leyti að þar er meira samræmi milli tilkostnaðar og afraksturs.

Með því að hirða veiðidýr og nota eru menn oft að búa sér til afsökun á villimennskunni. Við "veiða og sleppa" aðferðina er sú afsökun horfin. Erfitt er að sjá að nokkuð vaki fyrir þeim sem þetta stunda annað en að pína sem mest. Þetta getur líka orðið til þess að fleiri fái tækifæri til að láta undan veiðieðli sínu sem kallað er. Afrakstur veiðiáa í peningum talið verður meiri með þessu og þannig er þetta græðgis- og gróðahyggja af útrásarvíkingatoga.

Það er bara þjóðsaga að manninum sé veiðieðlið í blóð borið. Sportveiðar eru morð og ekkert annað. Auðvitað ekki sambærilegar við mannsmorð en argasti ósiður samt.

Ég hef ekkert á móti veiðimönnum og þekki þá marga. Heimspekin að baki veiðunum hugnast mér bara ekki

 

Blogg mitt frá í gær virðist hafa vakið athygli. Heimsóknir eru með meira móti segir teljarinn. Kannski er það einkum fyrirsögnin og fyrstu línurnar sem fólk tekur eftir. Hvað veit ég?

Mín grundvallarafstaða til allra veiða er sú að aldrei skuli taka líf að ástæðulausu. Sú ástæða að skemmtilegt sé að drepa finnst mér ótæk. Við drepum flugur og önnur kvikindi af því að þau pirra okkur og valda óþægindum. Húsdýr af ýmsu tagi eru einnig drepin til matar. Sumum finnst sú ástæða ekki merkileg en mun betra er að sætta sig við hana en skemmtanagildið eitt.

Það má endalaust deila um dýravernd. Mörg sjónarmið eru uppi. Þegar konur kasta klæðum í nafni dýraverndar er verið að rugla saman sjónarmiðum og vekja athygli á einu máli með allt öðru.

Einn af þeim sem gerði athugasemd við grein mína í gær taldi að auka mætti veiðar til matar og það getur vel átt við hér á Íslandi. Ég vil hinsvegar gjarnan horfa hnattrænt á málin og tel að svo geti alls ekki verið í heiminum sem heild. Mannkynið væri miklu betur á vegi statt hvað fæðu snertir ef menn legðu sér almennt ekki kjöt til munns. Alltof stór hluti ræktanlegs lands er notaður til að framleiða gras fyrir grasbíta sem síðan eru étnir.

Fiskveiðar í sjónum eru okkur Íslendingum mikilvægar. Veiðar á landi hafa núorðið takmarkaða efnahagslega þýðingu. Svo mun einhverntíma einnig fara með sjóinn. Hann mun samt lengi taka við og ástæðulaust er vonandi fyrir okkur Íslendinga að hafa áhyggjur af framtíð fiskveiða. Þó verðum við að einhverju leyti að taka tillit til umheimsins og eru hvalveiðar dæmi um það.


975 - Hinn skrifandi maður (veit ekki hvernig það er á latínu)

Það hentar mér ágætlega að blogga. Þegar blogg-greinar mínar eru farnar út í eterinn missi ég áhugann á þeim. Ef ég væri að skrifa eitthvað annað og varanlegra mundi ég aldrei geta hætt að snyrta og snurfusa. 

Reyni samt alltaf að vanda blogg-greinar mínar dálítið og lesa þær yfir. Sama verður ekki sagt um kommentin. Þau eru nær alltaf samin á svipstundu og send upp eins og skot. Vísurnr tekur þó oft nokkra stund að semja.

Sumir vanda sig ekki nærri nógu mikið við bloggskrifin og láta allskyns hroða frá sér fara þó þeir hafi frá nógu að segja. Aðrir hafa bara alls ekkert að segja en skrifa þó. Reyni að falla í hvorugan flokkinn.

Margir hafa horn í síðu bloggsins yfirleitt og þeir sem blogguðu áður en Moggabloggið kom til sögunnar reyna oft að telja sjálfum sér og öðrum trú um að það hafi spillt blogginu.

Jú, það eru langtum fleiri sem blogga núorðið og líka margir sem fésbóka sig sem mest þeir mega. Auglýsingakeimurinn af Facebook fælir mig frá henni. Þeir eru samt margir sem þar eru skráðir án þess að taka teljandi þátt í því húllumhæi sem þar ríður húsum.

Best er auðvitað að skrifa ekki neitt. Lesa bara og láta samskiptin í kjötheimum nægja. Netið býður uppá alveg nýja tegund af samskiptum ef menn kæra sig um.

Ég hef oft velt fyrir mér að gerast persónulegri í mínum bloggskrifum. Skrifa meira um það sem fyrir mig kemur daglega og fílósófera svolítið um það. Ég er óvanur því og ef ég færi úti það þyrfti ég að taka tillit til svo margra. Eins og nú er þarf ég lítið tillit að taka til annarra. Það mundi eflaust breytast ef ég yrði persónulegri. Sjáum til og svo er aldrei að vita nema ég skrái mig einn daginn á bókar-fésið.


974 - Framboð og fleira

Þetta sem útrásarvíkingarnir gerðu er ekkert annað en það sem fjárglæframenn allra tíma hafa stundað stíft. Taka lán til að borga eldri lán. Kaupa sem mest af fyrirtækjum og snúa á Skattmann. Þykjast vera ofsaklárir og láta ekkert koma sér á óvart. Elsta brellan í bókinni. Það sem þeim tókst að svikja út var risavaxið á okkar mælikvarða af því að þeim voru gefnir allir helstu bankar landsins.

Þessu var svo jafnað niður  á sauðsvartan almúgann með skattlagningu. Fáir mögla því Íslendingar eru svo vanir óhæfum stjórnendum að þeim finnst þetta bara eðlilegt.

Annars er ég hættur að botna í þessum ósköpum og er að hugsa um að taka þessu bara með ró. Best er að eiga aldrei neina peninga eða eyða þeim að minnsta kosti jafnóðum. Sparnaður er blekking. Þetta lærði ég á sparimerkjatímanum í barnaskóla. „Græddur er geymdur eyrir," var þá sagt og kváðu við hrossahlátrar úr öllum áttum.

Í alvöru talað. Annað hvort er að vera útrásarvíkingur og éta gull eða lepja bara dauðann úr skel. Þetta bjargast allt einhvern veginn.

Eins og ég skil íslensku þjóðarsálina þá þyrstir hana í réttlæti. Bankahrunið hefur farið illa með sálarlíf margra. Aldrei verður hægt að draga alla þá til ábyrgðar sem það ættu skilið og einhverjir verða ranglega dæmdir. Það breytir því ekki að óhóflega lengi hefur dregist að hefjast handa við hefndaraðgerðir. Þær þurfa ekki að vera merkilegar en eru nauðsynlegar samt.

Hverfafundir eru fundir sem hverfa. Það er að segja framboðsfundir. Einu sinni voru framboðsfundir skemmtilegir. Man eftir einum slíkum á Hótelinu í Hveragerði. Þá var Unnar Stefánsson (pabbi Kristjáns Más fréttamanns) með bindið fast á öxlinni í framboði fyrir Alþýðuflokkinn á Suðurlandi og sá eini sem ég þekkti af frambjóðendunum sem á fundinum voru.

Pólitískt ber það hæst núna að Samfylkingin hefur kastað stríðshanskanum. Kvótagreifarnir verða hundeltir því þjóðin er alfarið á móti sölu óveidds fisks og íslenskt þjóðlíf er á hraðri leið til aukins réttlætis. Atkvæðin eru hjá þeim sem óánægðir eru með kvótakerfið og á þau mið ber að róa. Icesave-málið er löngu tapað og ekki seinna vænna að snúa sér að atkvæðaskapandi verkefnum.

Nú er óhjákvæmilegt að beygja svolítið til vinstri og ná óánægjuliðinu sem Ömma fylgir aftur um borð. Upplagt væri að henda Icesave-málinu eins og það leggur sig í hausinn á Sigmundi Davíð og Bjarna Ben.


973 - Icesave og ESB

Munurinn á Icesave og ESB er talsverður. Aðallega í því að annað snýr að fortíðinni en hitt að framtíðinni.

Menn geta haft ýmsar skoðanir á Icesave. Trúað því til dæmis að þetta sé bara einfalt kröfuréttarmál þar sem skorið yrði úr um úrslitin af þar til bærum dómstólum ef báðir aðilar málsins fengjust til að fallast á það.

Fyrir stuttu gerði ég hér á blogginu grein fyrir skoðunum mínum á þessu máli. Ekki ætla ég að endurtaka þær enda voru viðbrögðin við stuttri grein minni satt að segja öfgafull.

ESB-málið snýst hins vegar aðallega um hvernig menn gera ráð fyrir að þróun mála þar verði næstu áratugina. Margir virðast trúa því að ESB muni þróast í átt til stórríkis og það sé Íslendingum alls ekki til ávinnings að ganga í það.

Í rauninni hafa menn ekki við annað að styðjast í þessu efni en eigin spádómsgáfu. Þróunin getur orðið með ýmsu móti. Hald sumra er að reikna megi út í beinhörðum peningum hvort borgi sig að ganga í sambandið. Svo er alls ekki.

Síðast en ekki síst eru það þjóðernisrökin. Ég geri alls ekki lítið úr þeim rökum að verið sé að fórna hluta af sjálfstæði landsins ef af inngöngu verður. Spurningin er bara hvort sjálfstæði okkar að þessu leyti sé svo miklu dýrmætara en annarra og hættan samfara smæð okkar svo mikil að þjóðerninu sé hætta búin.

Svo virðist ekki vera því þróun mála innan ESB hefur hingað til öll verið í þá átt að auka hagnaðinn af því að vera memm. Markaðurinn er stór og mikils virði að fá sama aðgang að honum og aðrir.  

Ég geri ráð fyrir að alls ekki séu allir sammála mér um þetta. Óralöng innlegg um hið gagnstæða munu ekki sannfæra mig um neitt annað en að þeir sem að þeim standa séu að reyna að kæfa með þeim umræðu sem þeim er á móti skapi.

Mér leiðast svarhalar sem eru óhóflega langir og það er alls ekki víst að ég muni svara þeim sem kommenta á þessa færslu.


972 - Um Moggabloggið

Einhver sem skrifar á vef sem kallaður er „Escape.is" segir: 

Það hefur oft verið rætt í mínum bakgarði um blogg þjónustu mbl.is og áhrifin sem hún hefur haft á blogg kúltúr Íslands. Umræðan er oft á þann veginn að "moggabloggið hafi komið óorði á bloggið". Breytingar á blogg venjum fólks eiga sér eflaust flóknari útskýringar (m.a. tilkoma Facebook) en það er einn punktur sem mig langar að draga fram.

Blogg þjónusta mbl.is er að stórum hluta kommentakerfi á fréttir mbl.is. Til þess að geta kommentað á fréttir á mbl.is þá þurfa notendur að skrá blogg. Með þessari kröfu varð til nýr hópur af bloggurum. Fjöldi fólks sem aldrei hefði annars haft frumkvæði fyrir því að stofna og viðhalda bloggi.

Ég ætla ekki að fara í djúpar vangaveltur um hvað telst blogg og hvað ekki. Ég veit þó að komment eru ekki bloggfærslur.

Þetta er greinilega einn af þeim sem finnst ekki nógu erfitt að blogga á Moggablogginu og að bloggarar séu orðnir alltof margir. Ég hef áður skrifað um slíkt fólk og ætla ekki að endurtaka mitt álit á því. Belgingurinn er þó oft hlægilegur. Það er að vísu alveg rétt að athugasemdir við fréttaklausur eru ekki blogg en ég sé ekki að það skaði neinn þó þær séu taldar þannig eins og mbl.is gerir.

Eftirfarandi segir Jens Guð á sínu bloggi:

Það er einhver svakalega mikill spenningur í loftinu vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök bankahrunsins.  Það er eins og fólk haldi að í skýrslunni sé eitthvað upplýsandi;  að loksins komi sannleikurinn í ljós.  Ég get fullvissað ykkur um að því fer víðs fjarri.  Það mun nákvæmlega ekkert markvert koma í ljós í þessari skýrslu.  Allt orðalag verður almenns eðlis í loðnum getgátustíl.  Ábyrgð verður ekki vísað á einn né neinn.  Þetta verða aðeins margtuggnar klisjur um að eftirlitsstofnanir hafi brugðist,  menn hafi ekki gætt að sér,  betur hefði farið ef hlustað hefði verið á gagnrýnisraddir,  umsvif bankanna hafi orðið of stór fyrir íslenska hagkerfið,  viðvörunarbjöllur hafi verið farnar að hringja og eitthvað í þeim dúr.  Sannið til.  Skýrslan verður máttlaust plagg,  hvítbók.

Ég er sammála Jens um þetta en bind þó vonir við að margir taki mark á þessari skýrslu og hún verði ekki alveg gagnslaus. Alltof lengi hefur þó verið beðið eftir henni og talað um hana. Alltof oft hefur útkomu hennar verið frestað og alltof miklar vonir eru bundnar við hana til þess að nokkur von sé til þess að hún standi undir væntingum.


971 - Eldgos og fornrit

Það er gaman að fylgjast með frásögnum af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Sérstaklega finnst mér gaman að fylgjast með Kristjáni Má Unnarssyni því hann er svo æstur og óðamála. 

Ég komst ansi nálægt gosinu sem varð í Skjólkvíum árið 1970 og kannast við margt af því sem Kristján er að lýsa. Hraunfossinn niður í gilið er samt extra. Slíkt var ekki í boði í Skjólkvíum.

Margt bendir til að enn sé þetta sannkallað túristagos. Ef Katla fer að bæra á sér er því lokið. Hana verður að taka alvarlega.

Myndirnar sem sýndar eru í sjónvarpinu af gosinu eru frábærar. Myndir reyndi ég að taka árið 1970 en tæknin var ekki á sama stigi þá. Ég reyndi að fara að Heklu þegar hún gaus í janúar árið 1991 en þá var ekki mikið að sjá. Bílafjöldinn samt mikill og myrkrið enn meira.

Fornrit komu til tals í kommentum hjá mér fyrir nokkru. Þeim Íslendingum fer kannski fækkandi sem lesið hafa Íslendingasögurnar. Ég hef lesið þær flestar og finnst þær afar misjafnar að gæðum. Allt frá því að vera hreinustu listaverk og í að vera endemis þvættingur.

Fjórar finnst mér bestar og eru þær þessar: (Ekki þó í neinni sérstakri röð.)

Njála. (Brennu-Njáls saga). Besta skáldsagan.
Laxdæla. Besta ættarsagan.
Eyrbyggja. Hefur allt.
Hrafnkatla. (Hrafnkels saga Freysgoða). Besta smásagan.

Af þessu má skilja að ég hafi engan sérstakan áhuga á Grettissögu, Egils sögu, Gísla sögu Súrssonar eða Fóstbræðrasögu. Hef ekki einu sinni reynt að lesa Gerplu Kiljans enda er ég enginn sérlegur aðdáandi hans. Hann hefur verið alltof fyrirferðarmikill í íslenskri bókmenntasögu tuttugustu aldar.


970 - Eigi skal strippa

IMG 1405Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

         (Veit ekki eftir hvern þessi vísa er.)

VG: „Er þetta fíkjublað eða hvað á myndinni hér fyrir ofan?"

GV: „Það veit ég ekki."

VG: „Andskotans klám er þetta. Svona lagað ætti að banna."

Hlustaði á útvarp í bílnum mínum í kvöld. Verið var að ræða um bankaleynd og einhverjir að tala við Helga Hjörvar. Hann vildi ekki gera mjög mikið úr tregðu bankanna á að veita upplýsingar. Annar fyrirspyrjandinn sagði þá:

„En hvernig túlkar þú þennan trega?"

Í því slökkti ég á útvarpinu því ég var kominn á leiðarenda. Held að fyrirspyrjandinn hafi ætlað að spyrja um tregðu bankanna og kannski hefur hann leiðrétt sig. En það er margs að gæta þegar talað er í útvarp.

Grófasta dæmi sem ég þekki um misnotkun á kommentakerfum er frá þeim tíma þegar ég las reglulega blogg Ágústar Borgþórs Sverrissonar. Verið var að ræða um einhver skrif og einhver sagði: „Eyrbyggja er betri." Og peistaði Eyrbyggju eins og hún lagði sig. Mér er þetta enn minnisstæðara vegna þess að á sínum tíma skrifaði ég upp alla Eyrbyggju og setti hana á Netið. Það var nú þá.

Og fáeinar myndir:

IMG 1304Hörpudiskur.

IMG 1274Fyrirtækismerki - ekki sem verst.

IMG 1293Skútur í Kópavogi.

IMG 1301Girðing að gefast upp.

IMG 1401Gangstéttar eru aðallega fyrir bíla eins og allir vita. Einkum jeppa að sjálfsögðu.


969 - Molar um málfar númer 7

Þetta á að vera málfarsblogg og til að vekja athygli á því hermi ég svolítið eftir Eiði Guðnasyni í fyrirsögninni. Ekki er það þó illa meint - fyrirgefðu Eiður.

Sæmundarháttur í bloggi er að mínum skilningi að skrifa um blogg. Að skrifa um málfar er þá Eiðsháttur. Og held ég svo áfram.

Eiður Guðnason skrifar oft um málfar og fylgist vel með málfari í fjölmiðlum. Gagnrýninn finnst mér hann þó úr hófi og smámunasamur. Tilgangi sínum nær hann þó líklega. Þeir sem áhuga hafa á að vanda mál sitt lesa gjarnan það sem hann skrifar og kætast mjög ef honum verður á.

Fyrstu greinina í dagblað skrifaði ég fyrir tvítugsaldur svo mikð vatn hefur runnið til sjávar síðan. Þá var ekkert Net og ritstjóri Vikunnar (hugsanlega Sigurður Hreiðar) hafði neitað að birta greinina þó hún fjallaði um efni sem þar hafði verið. Eykon (Eyjólfur Konráð Jónsson) vildi þó birta hana, ef ég breytti henni svolítið. Slíkt var sjálfsagt.

Í þann tíma og lengi á eftir var prófarkalestur tíðkaður á dagblöðunum og sjaldan kom fyrir almenningssjónir annað en sæmilega vel gerður texti.

Með tilkomu Netsins (með stórum staf) breyttist þetta allt. Allir gátu skrifað eins og þá lysti. Lesendur voru að vísu fremur fáir framanaf en það skipti ekki öllu. Til að sem flestir skrifuðu á þennan nýja miðil voru menn hvattir til að skrifa þó kunnátta í meðferð máls væri kannski ekki mjög mikil. Ekki var vel séð að fundið væri að málfari.

Ég er enn dálítið hallur undir þetta sjónarmið. Með harðri gagnrýni á málfar er komið í veg fyrir að margir skrifi sem vissulega ætti að heyrast í. Síst af öllu vilja menn gera sig að athlægi. Að hæðast að mönnum fyrir að skrifa ekki vel er beinlínis illa gert. Þeir sem í vinsæla og útbreidda fjölmiðla skrifa eiga þó skilið að vera teknir í gegn en þegar farið er að gagnrýna bloggara fyrir að skrifa ekki kórrétt er skörin farin að færast upp í bekkinn og beinlínis verið að vinna gegn því að sem flestir tjái sig.

Stjórnmál eru mörgum hugleikin og það er ósköp lítið að geta aðeins beitt sér á þeim vettvangi á fjögurra ára fresti með því einu að tala yfir hausamótunum á vinum og kunningjum og kjósa svo. (Rétt eða vitlaust eftir atvikum.)

Eins og búast mátti við á ég í erfiðleikum með að hemja mig þegar ég skrifa um málfar en er þó þeirrar skoðunar að því styttri sem texti er þeim mun áhrifameiri geti hann verið.


968 - Icesave-æsingur

Á sama hátt og Sigurður Þór virðist gera í því að fá menn í trúmálaþrætur við sig er eins og ég sé að spana menn upp í Icesave-æsing. 

Þó ég skilji fremur lítið í þessu bulli öllu saman, þá held ég mig við minn upprunalega skilning á þessum málum þangað til ég sé eitthvað sem mér finnst greinilega betra.

Lítil skrif núna og ef menn vilja halda þruglinu áfram þá er betra að athugasemdir verði ekki við þetta blogg heldur það sem er næst á undan. Þetta blogg er bara skrifað útaf dagsetningunni og tölunni í fyrirsögninni.


967 - Svo er það Icesave

Undarlegt er það að í umræðum um Icesave hafa menn deilt mikið um lagaleg álitamál og allt mögulegt annað. Þó minnast menn afar sjaldan á það sem mér finnst skipta langmestu máli í þessu sambandi öllu. 

Auðvitað er ekki öruggt að minn skilningur sé 100 % réttur. Fyrir mér er hann það þó og trú mín er sú að svo sé einnig um dómara við flesta dómstóla sem hugsanlegt er að mundu taka þessi mál til meðferðar. Samt eru vissulega til þeir lögfræðingar sem reyna að rugla þessi mál öll og koma því inn hjá fólki að hægt sé að sleppa við að borga Icesave-reikningana.

Á sínum tíma var það tilkynnt af íslenskum stjórnvöldum að allar innistæður í íslenskum bönkum væru tryggðar að fullu af ríkinu. Ekki veit ég annað en við það hafi verið staðið og enga hef ég heyrt halda því fram í alvöru að hætta eigi við þetta afturvirkt og að það sé hægt. Samt virðist meining margra hafa verið að þetta loforð hafi bara átt að gilda gagnvart Íslendingum en ekki útlendingum. Þannig er bara ekki hægt að haga sér meðal siðmenntaðs fólks.

Útlendingar eru ekkert síður verndaðir af mannréttindaákvæðum en Íslendingar. Íslendingar hafa lofað hátíðlega að gera ekki upp á milli manna á þennan hátt eftir þjóðerni. Eru slík loforð bara einskis virði? Á að ganga á bak orða sinna? Bara af því að það er ódýrara?

Nei, það er skárra að vera uppréttur og standa við sín orð en að tapa sér í sjálfsánægju og grobbi. Icesave-andstæðingar tala mikið um að hvergi komi fram í regluverki frá ESB að ríkisábyrgð eigi að vera á tryggingarsjóðum bankainnistæðna. Mér vitanlega hefur enginn talað um að svo sé. Þetta eru dæmigerðar strámanna-árásir og ekkert annað.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband