1258 - Bráðum kemur blessað vorið

Nú er ég byrjaður að bíða eftir vorinu. Mér er sama þó snjór sé yfir öllu núna. Finnst birtutíminn vera óðum að lengjast. 

Aldrei hefði ég getað orðið rithöfundur. Til þess vantar í mig þolinmæðisgenið. Það kom líka í veg fyrir að ég yrði skákmeistari. Sú einsýni sem þarf til að ná árangri heillar mig alls ekki. Betra er að gutla við allan fjárann. Það er samt furða hvað það á vel við mig að skrifa. En bara ekki of lengi. Ef það verður einhver kvöð eða kvöl og pína þá er ég farinn.

Hef undanfarið verið að lesa bókina „ Billions and billions" eftir Carl Sagan Kosmólógía er vissulega áhugaverð vísindagrein. Vísindamenn segjast hafa vaxandi vísbendingar um að aðrar stjörnur en sólin okkar kunni að hafa plánetukerfi á borð við okkar sól. Ekki er rétt að afskrifa slíkar röksemdir og sá möguleiki að við gætum e.t.v. náð sambandi við vitrænt líf annars staðar í vetrarbrautinni er alls ekki útilokaður.

Vísindamenn athuga alltaf þann möguleika að ekki þurfi að gera ráð fyrir einhverju yfirskilvitlegu afli til að útskýra þau fyrirbrigði sem finnast. Það auðveldar mörgum að sættast við ófullkomleika tilverunnar að gera ráð fyrir einhverju yfirskilvitlegu en það er ekki víst að það sé nauðsynlegt. Þarna er ég kominn að mörkum trúarbragða og ekki rétt af mér að þykjast vita meira en aðrir.

Ekki er vafi á því að orkuþörf mannkyns stjórnar gerðum fólks, bæði stjórnmálamanna og annarra. Nú er orkuþörfinni einkum fullnægt með olíu og kolum. Sú rafhlaða sem þar er um að ræða mun einhvern tíma tæmast. Hvenær það verður er erfitt að spá um en víst er að þá verður að hverfa frá þeirri sóunarstefnu sem fylgt hefur verið allt frá byrjun iðnbyltingar.

Alls ekki er víst að olía gangi til þurrðar en verð á henni mun hækka. Kolaverð reyndar líka vegna umhverfisáhrifa af notkun þeirra.

Ætli við mennirnir séum ekki svona 6 - 8 milljarðar. Ég er löngu hættur að telja. Skiptumst í ýmsar þjóðir misstórar og misvoldugar. „Gáfurnar" sem löngum hafa aðskilið okkur frá öðrum dýrum jarðarinnar og gert þau undirgefin okkur eru greinilega farnar að stuðla að tortímingu okkar. Tortímingin verður auðvitað ekki skyndilega heldur verður sókn voldugustu ríkjanna til að ráða orkulindum jarðar og sókn okkar allra eða langflestra til að njóta þeirra lífsþæginda sem forfeður okkar gátu aðeins látið sig dreyma um til þess að viðsjár aukast milli þjóða og bandalaga hverskonar.

Hnatthlýnunin og margt henni tengt ætti að gera okkur ljóst að stærstu vandamál mannkynsins eru sameiginleg og verða aðeins leyst með samvinnu þjóða.

Fáir frasar eru jafnofnotaðir og sá sem hljóðar oftast einhvernvegin þannig: „Við eru ekki herrar jarðarinnar og höfum alls ekki fengið hana í arf frá forfeðrum okkar, heldur höfum við hana bara að láni frá börnunum okkar." Upphaflega held ég að þetta sé komið frá Indíánum Norður-Ameríku enda tilbiðja þeir jörðina og náttúruna á margan hátt meira og öðruvísi en aðrir. Sannleikur þessara orða á þó hvergi betur við en þegar rætt er um mengun þá af mannavöldum sem ýtir undir og kann að flýta endalokum okkar.

Nú er komið að því að fara að nýta eitthvað af þeim myndum sem ég tók í Kanaríeyjaferðinni.

IMG 4092Fyrst er það hótelið okkar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Velkominn heim Sæmi.

Eitt sinn varð mikil hnatthlýnun til að bjarga mannkyninu frá að deyja út eins og sjá má hér. Þá bjuggu nokkur þúsund forfeðra okkar í Afríku og löptu dauðan úr skel vegna þurrka og kulda. Svo hlýnaði allt í einu á mjög stuttum tíma um heilar 5 gráður. Nokkur hundruð árum seinna hafði okkur fjölgað upp í hundarð þúsund, kominn út um allar trissur og stunduðum landafundi og landnám af krafti.

Ef það var satt á tímum foreldra okkar að þeir hafi verið ekki herrar jarðarinnar og höfðu alls ekki fengið hana í arf frá forfeðrum þeirra, heldur höfðu þeir hana við hana bara að láni frá börnunum sínum, hljótum við, börnin þeirra, að vera herrarnir.....eða er ég að misskilja þetta. - Kannski er bara verið að segja að enginn eigi jörðina, aldrei :) 

Var það ekki einhver frægur rithöfundur sem sagði að það væri 10% hæfileikar og 90% erfið vinna að vera rithöfundur. Að mínu áliti mætti þyrfti þetta hlutfall að vera öfugt til að ég gæti hugsað mér starfið :)

Svanur Gísli Þorkelsson, 4.2.2011 kl. 16:19

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Svanur Gísli.

Þó ekki væri nema vegna þeirra sem kommenta hér a.m.k öðru hvoru þá dettur mér ekki í hug að einbeita mér að fésbókinni. Hún er samt ágæt með. Mér finnst hún samt ansi stuttaraleg oft. Ágætt er að nota hvorttvegga. Var á Toyota-skákmóti fyrir eldri borgara áðan. Var ekki neðstur en vinningarnir hefðu mátt vera fleiri.

Sæmundur Bjarnason, 4.2.2011 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband