Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Nítjánda blogg

Nítjánda blogg

og þessvegna er líklega það títjánda næst, eða hvað? Ég man að mér fannst það góð skýring á nafngiftinni 19:19 á sínum tíma að aðstandendur þáttarins kynni ekki að telja með raðtöluendingum nema upp að nítján. Raðtöluendingar eru annars dálítil ólíkindatól og sumir sem forðast þær. T.d. er ekki öllum ljóst hvernig háar tölur taka raðtöluendingum. Þarf ekki einu sinni sérlega háar tölur til. 120. og 121. hafa t.d. ekki samskonar raðtöluendingu. En nóg um það.

Ekki eru þessir örfáu lesendur mínir mjög duglegir við lesturinn frekar en ég við skriftirnar. En þetta er allt að koma. Sígandi lukka er best. Eiginlega veit ég ekkert hvað ég á að blogga um. Líklega leggst mér þó eitthvað til. Ef ekki get ég bara hætt við að gera þetta að bloggfærslu. Ég er nefnilega svo séður að ég er búinn að venja mig á að blogga í Word-skjal og peista það svo á bloggið eftirá.

Eins og athugulir lesendur þessa bloggs taka eflaust eftir þá er ekki að sjá að ég eigi neina bloggvini. (Og vonandi ekki neina bloggóvini heldur) Ég hef ekki beðið neinn um að gerast bloggvinur minn og enginn hefur haft samband við mig með hliðstæða beiðni. Enda er það varla  von því þetta er nú eiginlega hálfgert leyniblogg. Mér er svosem sama um bloggvinina, gæti best trúað að það yrði svolítið leiðigjarnt til lengdar að hafa mikið af þeim. Hins vegar eru athugasemdirnar vel þegnar og ég hef fjölyrt nokkuð um þær fáu slíkar sem ég hef fengið og þær mættu vel vera fleiri. Það sakar meira  að segja ekki að segja þeim sem hugsanlega lesa þetta að það er ágætis leið að sníkjublogga  pínulítið með því að skrifa  í athugasemdakerfin. Það er bæði létt og einfalt og ég stundaði það svolítið áður en ég byrjaði sjálfur að blogga. Nú tími ég því varla en geri það samt, en ekki í þeim tilgangi sem sumir gera, það er að vekja athygli á sínu eigin bloggi.

Í nótt sem leið (þ.e. aðfaranótt miðvikudags) var á tímabili mögnuð norðurljósadýrð hér yfir höfuðborginni. Það er ekki oft sem maður sér slíkt hér og kannski er það mest vegna þeirrar gríðarlegu ljósmengunar sem hér er. Fyrir nokkrum árum keypti Benni sér lítinn stjörnukíki og þá kom í ljós að almennilegt myrkur er erfitt  að finna í Reykjavík og nágrenni.


Átjánda blogg

Því miður er það svo að ég get ekki betur séð en að þeir starfsmenn Morgunblaðsins sem sjá um þetta Moggablogg séu illa starfi sínu vaxnir. Það er ekki nóg með að þeir birti og rugli öllum lykilorðum hjá notendum þessarar þjónustu og valdi því með þekkingarleysi sínu (geri ég ráð fyrir) að bloggið er venjulega óskaplega hægt og þungt í vöfum heldur virðast þeir sí og æ vera að fikta í fontum, feitletrun, greinaskilum og öðru því sem fólk vill gjarnan hafa í lagi. Annars er mér svosem sama, þessi skrif mín hér eru ekki mikils virði og ég á hvergi afrit af þeim. Ég geri fastlega ráð fyrir að næsta afreksverk þessara umsjónarmanna verði að senda allt sem hér hefur verið skrifað síðustu árin í glatkistuna gaflalausu og hugsanlega bregður þá einhverjum við, þegar ekki verður lengur hægt að ganga að gömlum skrifum, en ekki mér.

Ég sé að fjölskyldan er búin að uppgötva þetta blogg. Lísa hringdi um daginn og þá voru þau Bjössi nýbúin að finna þetta og nokkur atriði þar komu þeim alveg á óvart og þau höfðu ekkert frétt um. Þau koma líka miklu sjaldnar nú eftir að Bónusverslun tók til starfa í Hveragerði, en þau gerðu áður fyrr.

Ingibjörg og Hörður eru víst á Kanarí eins og í fyrra. Kannski við förum þangað einhverntíma, hver veit.

Núna geri ég ráð fyrir að lesendum þessa bloggs fjölgi eitthvað og hingað getur fólk komið og leitað frétta. Líka verður fólk að gera sér grein fyrir að ef það segir mér eitthvað þá má búast við að það rati hingað. Þetta getur svo orðið til þess að mér verður ennþá síður sagt frá hlutum en verið hefur, en því verður að taka. Það er svo gaman að blogga.

Skelfingar bull er þetta hjá mér. Ég sem var að hugsa um að skrifa nú eitthvað gáfulegt þegar mér er orðið ljóst að ég er kominn með fasta lesendur, þó fáir séu. En svona er þetta, ég get svosem skrifað og skrifað án þess að skrifa nokkuð merkilegt. Alveg á sama hátt og ég get ef ég er í rétta stuðinu talað og talað án þess að segja nokkuð. Þetta er gáfa eða eigum við að segja ættarfylgja eða löstur sem mér hefur verið ljós nokkuð lengi.

Ég nenni ómögulega að blogga um fréttir dagsins og stjórnmálaviðhorfið þó vel mætti fjölyrða margt um það. Mínar hugleiðingar bæta samt líklega ekki miklu við. Miklu nær væri fyrir mig að skrifa um eitthvað sem gerðist fyrr á tímum og hefur af einhverjum ástæðum tekið sér bólfestu í heilanum á mér.

Já, líklega er þetta ágætis hugmynd. Ég held samt að ég verði að hugsa svolítið um hana og læt þetta því duga núna.


Sautjánda blogg

Já, sennilega er Moggabloggið að syngja sitt síðasta, hvort sem það er nú vegna áhrínsorða Stefáns Pálssonar eða bara vegna þess að umsjónarmenn þess eru ekki starfi sínu vaxnir. Bloggið er búið að vera óskaplega þungt og hægt að undanförnu og svo birtu þessir snillingar öll lykilorð í morgun og breyttu í kjölfar þess öllum lykilorðum. Ekki er ég viss um að öllum takist að bjarga sér skammlaust út úr þessum hremmingum þó ég hafi nú reyndar verið svo heppinn að takast það. Moggabloggurum mun áreiðanlega fækka vegna þessa og vel gæti það verið upphafið að endalokunum. Þetta er að verða að daglegu ritúali hjá mér að blogga smá. Allt í lagi að halda því áfram. Skínandi gott verður um helgina, einkum á laugardaginn. Eiginlega fannst mér eins og það væri vor í lofti. Nú er hinsvegar heldur að kólna. Fór í smágönguferð í morgun og líklega er pínulítið frost hér á Stórreykjavíkursvæðinu. Þetta virðist vel geta orðið merkilegt ár í ár. Bjarni líklega að gifta sig og flytjast til Bahamas. Benni hugsanlega að selja íbúðina sína og kaupa sér nýja. Og fleiri breytingum má búast við. Samt er eins og ég nenni svosem engu. Þegar ég er ekki á vöktum hengslast ég um og geri ósköp lítið. Kannski breytist þetta allt með hækkandi sól. Ég hef verið að kíkja svolítið á vinsældalistann hérna. Mér finnst merkilegt að Steingrímur Snævarr skuli enn halda efsta sætinu þó hann sé farinn að vinna á fréttastofu Stöðvar 2. Sigmar Guðmundsson í Kastljósi er svo í öðru sætinu ekki mjög langt á eftir. Hinsvegar er svo óralangt í 3. sætið. Hvernig ætli standi á því? Efstu sætin eru einkum skipuð fólki sem ég les oft. Ég  les þó sjaldan bloggin eftir Áslaugu Ósk, Pétur Reynisson og Sóleyju Tómasdóttur. Mér finnst  ég þekkja hin flest sem eru efst á listanum vegna þess  að ég hef oft lesið bloggin þeirra. Prentaði 400 manna  listann út og ætla að kíkja  á hann aftur í næstu viku eða svo og jafnvel að skýra frá því hér. 

Sextánda blogg

Ég er eiginlega hissa á því að enn skuli vera gefin út blöð á Íslandi eins og mikið er skrifað hér á Moggablogginu. Reyndar er ekki annað að sjá en blöðum og tímaritum fari fjölgandi um þessar mundir. Ég get ekki ímyndað mér að blaðalesendum fjölgi í svipuðu hlutfalli. Eru blaðamenn kannski bara orðnir yfirbloggarar. Margir virðast helst ekki geta bloggað um neitt nema blaðamenn (við Moggann vel að merkja) hafi skrifað eitthvað um það fyrst. Það er ekki annað að sjá en að allir sem skrifað geta séu farnir að blogga. Skyldi ekki lesendum hjá þeim sem ekki eru á Moggablogginu fara fækkandi? Ætli Stebbi Páls sé svona öskureiður útí Mogggabloggið vegna þess að lesendum hans sé að fækka? Spyr sá sem ekki veit. Mér finnst að allir sem það mögulega geta ættu að blogga og það sem mest. Seint verður of mikið bloggað. Lesendum hjá vinsælustu bloggurum gærdagsins hlýtur að fara fækkandi, en gerir það nokkuð til?

Ég  er mikið til hættur að lesa önnur blogg en Moggablogg. (sem er áreiðanlega það sem stjórnendur bloggsins vilja umfram allt.) Harpa Hreins er þó undanþegin þessum örlögum sem og Stefán Pálsson. Ég man samt eftir að fleiri blogg las ég áður en Moggabloggssprengingin mikla varð. Tölvuviðrinið sem  ég notast við hérna í vinnunni leyfir ekki búkkmörk svo ég er svolítið bæklaður í þessu, en ég var því vanastur að nota búkkmörkin ótæpilega. Athuga þetta. Ég veit að það eru til þjónustur sem bjóða upp á búkkmörk á Netinu.

Meðan ég skrifa þetta er ég að fylgjast með söngvakeppninni í sjónvarpinu með öðru auganu og öðru eyranu. Heldur finnst mér þetta nú lítilfjörlegt og ég get ekki ímyndað mér hvaða lag verður efst að lokum. Mér fannst nú Silvía Nótt hleypa svolítlu fjöri í þetta í fyrra en samt nennti ég ekki að fylgjast með þessu þá. Ég hef stundum fylgst með Söngvakeppni Evrópu í sjónvarpinu og ég verð að segja það að atkvæðagreiðslan er yfirleitt það langskemmtilegasta sem þar er að sjá og heyra.


Fimmtánda blogg

Það virðist sem einir 4 lesendur hafi komið hingað í dag að lesa bullið úr mér. Þetta virðast ekki vera forvitnislesendur eins og ég var að giska á um daginn að kæmu inn vegna þess að bloggið mitt væri á lista yfir nýleg blogg.

Ekki veit ég hvernig á þessu stendur en auðvitað getur verið að fjölskyldan sé búin að uppgötva þetta og líti hingað inn til  að fylgjast með. Hvað um það, áfram skal haldið og að mestu án tillits til þess hvort einhverjir lesa bloggið eða ekki.

Í gær fékk ég meira að segja komment eins og sjá má og svaraði því snimmendis.

Vatnsflóð varð hér í MS í nótt sem leið, en þó ekki  mjög alvarlegt. Eitthvað mun þó hafa skemmst af dóti á vélaverkstæðislagernum vegna leka sem varð á loftræstilofti þar fyrir ofan. Ég varð fyrst var við þetta þegar brunaviðvörunarkerfið fór í gang með miklum látum og tilkynnti um eld, sem að sjálfsögðu var rangt.

Í dag sá ég hér á Moggablogginu að einhver kona var að byrja skrif sín hérna. Enginn var búinn að kommenta á bloggið hennar og ég var að hugsa um að gera það, því ég veit hvað það er hjartastyrkjandi, en svo fór ég eitthvað annað að gera og gleymdi nafninu. Já og ég sá bloggið hennar einmitt meðal nýlegra blogga.

Áslaug er að skúra í Aðföngum þessa dagana og Bjarni er að hjálpa henni. Veit ekki hvernig þetta verður í næstu viku. Kannski eins.

Datt í hug í sambandi við hjartastyrkjandi kommentin að í gamla daga stóð á miðunum á Maltflöskunum - Maltextrakt, nærandi, styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit. Þegar ég las þetta fyrir fólk hafði ég fyrir sið að bæta við - og kemur í veg fyrir skalla. Þessu trúðu fáir, en sannfærðust þegar þeim var sýnd flaskan - trúðu jafnvel þessu með skallann. Einhvern tíma orti ég smáljóð sem ég nefndi "Orðsending frá ölgerðinni" og var svona: Ef úti er kalt - og veður svalt - þá umfram allt - þú drekka skalt - malt. Þetta er nú eiginlega ort undir svokölluðum orðhengilshætti, og ekki meira um það.

Varð fyrir því óhappi að tapa nokkrum skákum á playchess.de um daginn á tíma. Gleymdi bara alveg að leika. Þetta þýðir að ég get ekki tekið þátt í mótum þar fyrr en í marslok eða svo. Annars þykir mér orðið skemmtilegra að tefla á Gameknot.com núorðið. Þar er Bjarni búinn að starta 7 manna móti.


Fjórtánda blogg

Mikið er tuðað og tuldrað  á Moggabloggi. Einn sá ég  í dag sem skrifar um það að allir hljóti að stefna að sem mestum vinsældum hér. Þ.e. að sem  flestir lesi bloggin þeirra. Þetta held ég að sé mesta vitleysa. Auðvitað eru margir sem stefna leynt og ljóst að þessu. Skrifa mjög reglulega og reyna að linka sem oftast í fréttir. Reyndar finnst mér hugleiðingar um fréttir dagsins vera alltof ríkjandi hér á Moggablogginu.

Já, hér er mikið bloggað og ekki allt gáfulegt sem sagt er. Þegar ég byrjaði að fylgjast með bloggi, fyrir þónokkrum árum síðan, gat maður lesið svotil allt slíkt sem maður fann (á íslensku vel að merkja). Nú er svo komið að ekki getur nokkur maður komist yfir að fylgjast með öllu því sem skrifað er. Bara Moggabloggið eitt er eitthvað sem engin leið er að komst yfir að lesa allt saman. Það er ekki einu sinni hægt að komast yfir að lesa það sem maður þó gjarnan vildi. Ég er eiginlega alveg hættum að lesa dagblöðin. Bæði berast þau ekki nema með höppum og glöppum og svo er óttalegt puð að fletta í gegnum allt þetta auglýingaskrum. Sjónvarpið horfi ég heldur ekki á nema stöku sinnum og þá helst fréttir. Streaming video eins og t.d. á alluc.org er miklu skemmtilegra. Þar getur maður þó ráðið hvort og hvernig maður horfir á eitthvað, öfugt við það ofbeldi sem sjónvarpsdagskráin beitir mann.

Ég held að vel megi  nota blogg til að hafa samband við ættingja og fjölskyldu og þá skiptir ósköp litlu máli hve margir lesa. Svo er ekki hægt að horfa alveg framhjá því að þetta er afar þægileg leið til að hafa efnið aðgengilegt fyrir sjálfan sig hvar sem er. Þetta er líka ágætis æfing í því að tjá sig í rituðu máli og með nokkuð skipulegum hætti. Með öðrum orðum; mér er slétt sama hve margir eða fáir lesa þessa bull í mér.

Öðru hvoru fæ ég einstök orð eða orðasambönd á heilann og orðin hljóma viðstöðulaust í hausnum á mér. Orðið sem er að gera mig vitlausan núna er orðið "Fjölmúlavíl". Ég er alveg viss um að þetta orð er til, en ég veit eiginlega ekki hvað það þýðir og nenni ekki að fletta því upp. Það minnir mig á orðið "fjölmiðlavæl" sem ég man svosem ekki eftir að hafa heyrt. Ekki er því að leyna að sumt fjölmiðlaefni (ég nefni t.d. fuglaflensuna) verður með tímanum óttalegt fjölmúlavíl.

Það er svolítið erfitt að vita hvenær komið er nóg í dagsskammtinn. Ég held þó að ég láti þetta nægja í dag.


Þrettánda blogg (en þó ekki þrettándablogg)

Þrettánda blogg (en þó ekki þrettándablogg)

Jæja, þá er tölvukvikindið komið í lag aftur. Nei annars, ég er kominn með nýja og fína tölvu en sama skjá reyndar. Tölvan er frá Benna en Jói setti nýtt stýrikerfi á hana og þ.h. Times New Roman 14 punktar er það sem ég ætla að reyna að nota og sjá hvernig það reynist. Undanfarna daga hef ég þurft að notast við Laptop tölvu með skrats mús (þ.e.a.s plötu sem maður klórar í til að fá músarbendilinn til að hreyfast) og satt að segja hefur mér ekki gengið mjög vel að eiga við hana. Ég hef þó komist á Netið og getað ferðast um það og lesið það sem ég vil. Ég hef átt í dálitlum erfiðleikum með að skrifa þar því ekkert word var á þeirri tölvu en aftur á móti Window Vista.

Benni kom hingað í gærkvöldi með stóra og flotta hátalara sem hann hefur smíðað. Það er fínt sánd í þeim en við eigum samt eftir að tengja þá því það vantar lengri snúrur. Hann týndi lyklunum að voffanum sem hann var á og fékk Volvoinn hjá Bjarna og við leitum kannski betur í dag.

Mér bauðst að taka aukavakt í gær en það hentaði mér ekki m.a. vegna tölvumála og svo reiknaði ég með að þurfa að sækja Áslaugu á Vesturgötuna, en þegar til kom þurfti þess ekki.

Lauk í gær við að lesa Runaway jury eftir Grisham sem ég keypti um daginn í góða hirðinum á 100 kall. Sæmileg bók og dálítið spennandi í lokin svo maður eyddi meiri tíma í hana en eðlilegt var.

Jæja, ekki meira núna, en kannski fljótlega aftur. Lesendum mínum er kannski ögn að fjölga en þó minnast nú engir á þetta. Moggabloggið nýtur alls ekki mikillar virðingar en mér er sama um það.


Tólfta blogg

8Ég er að lesa þessa dagana bók eftir Árna Bergman fyrrum Þjóðviljaritstjóra. Hún heitir listin að lesa eða eitthvað á þá leið. Sumt í bókinni finnst mér óttalegt bull en margt er skarplega athugað hjá honum. Hann er samt greinilega óttalegur besservisser og hefur áreiðanlega efni á því a.m.k. hvað bókmenntir varðar. Þessa bók tók ég á Bókasafninu fyrir nokkru ásamt þónokkrum öðrum. Ég fer alltaf reglulega á

Bókasafnið eða reyndar bæði á Bókasafnið í Kópavogi og Borgarbókasafnið í Gerðubergi. Venjulega tek ég svona 15- 20 bækur að láni í báðum bókasöfnunum og reyni síðan að gæta þess að skila þeim áður en mánuðuinn er liðinn. Það tekst nú ekki alltaf og þá er ekki um neitt að ræða annað en það að borga þá sekt sem upp er sett. Yfirleitt tekst mér allsekki að lesa allar bækurnar sem ég tek í hvert skipti en þá verður bara að hafa það. Stundum tek ég meira að segja sömu bækurnar að láni oftar en einu sinni. Fyrir nokkru las ég seinna bindið af ævisögu Steingríms Hermannssonar eða það bindi sem fjallar um ævi hans sem forsætisráðherra. Margt var mjög athyglisvert í þeirri bók þó ég nenni nú ekki að fara að tíunda það hér. Um þessar mundir les ég oft blogg Guðmundar Steingrímssonar sonar Steingríms og þó hann sé prýðilega ritfær sé ég ekki fyrir mér að hann eigi eftir að feta í pólitísk sport föður síns.

Það er best að halda þessum tveimur lesendum mínum við efnið og skrifa eitthvað fyrir þá þó það verði kannski óttalegt bull. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort þeir sem blogga daglega fari ekki smátt og smátt að líta á bloggið sem kross. Líka hvort sé mikilvægara að blogga hæfilega löng blogg eða gæta þess sérstaklega að skrifa þau reglulega. Mig grunar að reglufestan sé merkilegri. Jafnvel mikilvægari en hvað bloggað er um. Ég nenni t.d. ómögulega að vera að blogga um fréttir dagsins, frekar eitthvað bull á borð við þetta. Speglasjónir (spekúlasjónir) um allt og ekki neitt. Hvað lengdina snertir finnst mér nægilegt að láta blaðsíðuna nægja.

Tókst að smella hefðbundnu fjósabragði á 32 ára Bandaríkjamann í bréfskák sem ég er að tefla við hann á playchess.de. Ég er ekki viss um að mér hafi tekist áður að ná því bragði í bréfskák. Annars er mér farið að líka betur að tefla bréfskákir á gameknot.com en playchess.de. Bjarni er þar líka og er nýbúinn að starta 7 manna móti með hinum og þessum sem hann þekkir, aðallega sýnist mér það vera gamlir Snæfellingar.

Áhugi minn á Hattrick leiknum er í óttalegu lágmarki um þessar mundir en liðið mitt Úlfarnir stendur sig samt alveg þokkalega og ég gleymi sjaldan að stilla upp liði fyrir sunnudagsleikina. Annað mál er með vináttuleikina, þeim gleymi ég iðulega.


Ellefta blogg

Því hefur verið mikið á lofti haldið að lýðræði á landinu eflist með bloggbylgjunni sem nú gengur yfir. Ég er ekki svo viss um að hinn skrifandi lýður ráði svo miklu. Það er skipulag það sem komist hefur á varðandi valdstjórnina og lagagerðina sem mestu ræður um lýðræðið. Stjórnmálamenn ráða þar mestu og ef til vill er það ekki óeðlilegt. Mér finnst aftur á móti óeðlilegt að Alþingismenn séu að skipta sér að stjórnarskrá lýðveldisins. Margt í henni snýr einkum að starfsskilyrðum þeirra og þeir eru allra manna verst fallnir til að fjalla um það. En hver á þá að fjalla um stjórnarskrána? Kannski væri raunhæfast að kalla til stjórnlagaþing. Og hverjir ættu þá að sitja á því? Ekki veit ég það og eflaust verð ég ekki spurður. Ýmislegt er þó hægt að láta sér detta í hug í því sambandi.

Ég minntist á bloggbylgjuna hér rétt áðan. Ekki veit ég hvort henni er að linna en mér finnst hún að mörgu leyti hafa risið hærra nú að undanförnu en verið hefur. Hún er samt alls ekki nýtilkomin og ég hef fylgst með bloggskrifum a.m.k. síðan laust fyrir síðustu aldamót. Skribentar á því sviði koma og fara og þó margir byrji og það jafnvel með miklum hvelli þá hafa þeir lengst af verið næstum jafnmargir sem hætta. Ég hef hingað til ekki skrifað blogg sjálfur þó ég hafi að sjálfsögðu ýmislegt að segja eins og flestir.

Ég hef mikinn áhuga á réttritun og þykist skrifa nokkuð í samræmi við viðurkennda staðla í því efni, þó ég sé vitanlega ekki óskeikull í þeim efnum. Ég er líka eflaust  fordómafullur gagnvart þeim málum og má mjög gæta mín að líta ekki niður á þá sem eru í vandræðum með slíkt. Með netvæðingunni jókst mjög sá fjöldi manna sem skrifaði opinberlega. Mjög margir þeirra eru illa skrifandi og er það auðvitað að vonum. Mér finnst þó áberandi hve málkennd og réttritun hefur hrakað í opinberum fjölmiðlum. Kannski er það einkum vegna þess að miklu fleiri skrifa í þá en áður var, en samt er þetta óttalega pirrandi á stundum. Einn er sá maður sem stendur ágætlega vaktina varðandi réttritun og skýra hugsun í fjölmiðlum og lætur fjölmiðlamenn gjarnan heyra það þegar vitleysan í þeim gengur úr hófi. Þetta er Sverrir Páll Erlendsson menntaskólakennari á Akureyri. (gúgla það, því ég held að hann sé ekki á Moggablogginu þó margir séu þar - kann ekki að linka sjálfur)


Tíunda blogg

Breskir eftirlaunaþegar eru í auknum mæli farnir að taka netið fram yfir hefðbundnari tómstundir eins og garðrækt, ferðalög og smíðar.

Tryggingafélagið AXA gerði könnun meðal eldri borgara í Bretlandi og kváðust þátttakendur í könnuninni verja að meðal tali sex klukkustundum á viku á netinu. Þeir versla þar, leita sér upplýsinga og senda vinum og ættingjum póst.

41 af hundraði þátttakenda sagði vefvafrið eitt helsta tómstundagaman sitt, en í öðru sæti var garðrækt og endurbætur á heimilinu, sem 39% nefndu. Ferðalög og gönguferðir voru í þriðja sæti (28%).

Eftirlaunaþegarnir nota netið mest til að senda póst og afla sér upplýsinga. Hátt í helmingur þátttakenda hafði keypt farmiða á netinu, þriðjungur hafði prófað netbanka og 28% fylgdust með fréttum á netinu.

Tveir af hverjum þrem hafa reglulega samband við börnin sín í gegnum netið, og fjórir af hverjum 10 halda þannig sambandi við barnabörnin sín.

Talsmaður AXA sagði það ákaflega ánægjulegt að sjá hversu duglegir breskir eftirlaunaþegar væru við að nýta sér tæknina til að komast hjá streituvöldum.

Þessi frétt á mbl.is vakti athygli mína. Þetta  kemur mér  ekki á óvart  og ég  gæti vel trúað að þessi tilhneiging væri jafnvel  ennþá  sterkari hér á landi. Ég ætla samt ekki að linka í þessa frétt, því mér finnst að margir sem það stunda hér séu með því að gera eitthvað sem samsvarar því að standa á öðrum fæti uppi á fjóshaug og gala: "Sjáið hvað ég er frábær og gáfaður."

Það eru ekki mjög mörg ár þangað til ég kemst á þann aldur sem gerir mig að löglegu gamalmenni eins og stundum er kallað og ég er ekki í neinum vafa um að gott netsamband kemur til með að skipta mig mun meira máli en sjónvarp, útvarp, dagblöð, tímarit og  bækur allt í einum pakka.

Kíkti á teljarann hér á síðunni áðan og er búinn að reikna það út að ég hef að líkindum tvo lesendur. Ekki er það nú mjög mikið, en ég er hvort eð er ekki í neinni vinsældakeppni svo það er í lagi. Ég held að ég viti hverjir þessir lesendur eru, en vil ekki vera að skemma fyrir þeim með því að kjafta frá því.

Atlas-gaurarnir heimta núna VAT-númer á reikningana, en ég er ekki með neitt svoleiðis. Gerði uppkast að bréfi sem hljóðaði upp á það að ef þeir vildu VAT-númer þá mundu reikningarnir hækka.

Hvers vegna blogga menn? Ekki veit ég það og eflaust eru margar ástæður fyrir þvi.

Mér finnst að mörgu leyti sniðugt svona bloggsamfélag eins og Mogginn er búinn að búa til þó ég vilji nú ekki leggja neina pólitíska merkingu í það. Ég er búinn að sjá að sniðugast er að leggja á minnið nöfn þeirra sem maður vill lesa bloggin hjá og fara svo í bloggleitina á forsíðunni. Bookmarklistarnir vilja annars verða svo óralangir hjá manni. Fréttabloggin eru að mörgu leyti ágæt en það er nú svolítill pólitískur fnykur af sumum þeirra.

Nú er rætt um að tvöfalda veginn austur fyrir fjall og menn bíða málþola eftir að vita hvort gert er ráð fyrir 2+2 eða 2+1 vegi í vegaáætlun sem von er á. Á sínum tíma var ég á móti byggingu Óseyrarbrúar en hinsvegar hlynntur Borgarfjarðarbrúnni. Hvalfjarðargöngin fannst mér líka vera góð framkvæmd og mér finnst líklegt að tvöfaldur vegur austur fyrir fjall verði eftir ekki mjög mörg ár talinn góð framkvæmd.

Skelfing er þetta sundurlaust og lélegt hjá mér, en ætli ég láti það ekki samt flakka m.a. vegna þess hve lesendurnir eru fáir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband