Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

2336 - Verkföll og vandræðaástand

Er það virkilega svo að heitasta málið í íslenskri pólitík í dag sé hvort einhver hafi ælt í fylliríi eða útaf veikindum. Eiginlega er mér alveg sléttsama. Hef greinilega misst af einhverju afar mikilvægu. Simmi greyið hefur einstakt lag á því að fá alla upp á móti sér. Sennilega er hann bara að úthugsa brelluna sem hann ætlar að beita í næstu kosningum. Vonandi mistekst hún. Erfitt verður að hoppa úr 8 prósentum í eitthvað sem munar um.

Ef heimilin í landinu, á raunverulegum láglaunum, (sem búið var með ærinni fyrirhöfn að telja þeim trú um að væru nokkuð há) tóku á sig miklu stærri skell í hruninu en fyrirtækin og auðmennirnir er þá ekki skynsamlegt að þau fái aðeins meira en sem nemur aukningu á þjóðarframleiðslu þegra bati verður? Er það ekki þetta sem kjaradeilurnar í raun snúast um. Bjarni og Sigmundur vilja að fyrirtækin verði stöndug en er sléttsam þó heimilin í landinu verði að bíða enn um sinn og með réttum ruglingstölum er kannski hægt að halda þeim þar. Þannig vinnur kapítalisminn. Sá arður sem til verður í þjóðfélaginu fer að stærstum hluta til fyrirtækjanna, heimilin eru bara afgangsstærð.

Ég get vel fallist á að vandi alþingis sé fyrst og fremst leikjafræðilegur eins og einhver hefur bent á. Meðan því er þannig varið að bestur árangur næst með því að koma í veg fyrir að andstæðingurinn nái sínum málum fram, skiptir engu máli þó hver einasti þingmaður lýsi því yfir að þennan málþófsgír þurfi að laga, það gerist ekkert meðan það skilar augljóslega bestum árangri að vera með sem mestan þumbarahátt.  Allir þingmenn hljóta að álíta sín mál betri en andstæðinganna og þess vegna hvarflar ekki að neinum að gefa eftir. Það væri líka hættulegt.

Aðilar vinnumarkaðarins eru ekki í jafnmiklum vandræðum og alþingi. Þess vegna er alveg hugsanlegt að saminn verði friður þar þegar búið er að bíða nógu lengi, til að valda sæmilegu tjóni. Ástandið sýnir vel að vinnudeilur eru yfirleitt leystar í tveggja manna tali.

Slæmt er hve mikið er skrifað. Betra væri að það væri miklu minna. Samt er ég ekki viss um að ég mundi skrifa minna þó svo væri. Ég álít sjálfan mig nefnilega svo snjallan penna að það væri miklu nær að aðrir dræju úr sínum skrifum.

Hef á tilfinningunni að við séum á leiðinni inní kuldatímabil. Jafnvel hafístímabil. Hvar er nú heimshlýjan sem öllu átti að bjarga. (eða tortíma) Vil bara fá hana strax. Þetta er ekki viðunandi. Annars er allt óðum að grænka um þessar mundir þó hálfkalt sé.

IMG 2301Við höfnina (á Akranesi)


2335 - Þjóðarsátt um ekki neitt

Í mínum huga snerist „þjóðarsáttin“ svonefnda um það að hætt var að vísitölubinda laun. Á þann hátt lenti allur kostnaður þessarar svokölluðu „sáttar“ á launamönnum einum. Framanaf gekk þetta samt ágætlega. Atvinnurekendur og aðrir silfurskeiðungar skildu vel, að sá jöfnuður í lífskjörum sem ríkt hefur hér á Íslandi, sem og á öðrum Norðurlöndum, var öllum í hag. Svo er greinilega ekki lengur. Hugsanlegt er að vatnaskilin hafi verið við söluna á bönkunum til útvalinna ómenna. Hrunið og það sem á eftir hefur komið gerir það svo að verkum að sennilega er skást á vísitölubinda launin aftur. Eða gagna ESB á hönd. Við Íslendinar kunnum að komast að raun um það fljótlega að þar dugir ekki að vinna að hlutunum með hangandi hendi.

Er núverandi ríkisstjórn miklu verri en allar sem setið hafa hingað til? Það finnst mér ekki óyggjandi. Margt er það sem færst hefur til betri vegar (fyrir atvinnulífið) þau tvö ár sem hún hefur starfað. Ekkert af því hefur þó komið þeim að séstöku gagni sem minnst bera úr býtum. Að halda því fram að engir skattar séu lagðir á þá sem minnstar hafa tekjurnar er í besta falli argasta lygi og í því versta fyrirlitleg blekkingartilraun. Lægstu laun eru skammarlega lág ef litið er til nágrannalandanna. Og þær kröfur sem settar eru fram í þeim vinnudeilum sem hafnar eru og boðaðar hafa verið eru alls ekki háar. Kannski er það umhverfið sem mest hefur breyst. Fólk sættir sig einfaldlega ekki við það ofbeldi sem stjórnvöld sannarlega beita.

Bjarni Benediktsson reynir að leyna því sem mest hann má að hann gengur greinilega erinda „hinna íslensku auðmanna“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði vit á að krefjast forsætisráðherrastólsins, (hefur þó hugsanlega ekki þingrofsréttinn), en fiskar samt sem áður eftir atkvæðum í býsna gruggugu vatni. Framsóknarflokkurinn (sem er u.þ.b. hundrað ára gamall) var alls ekki svona í gamla daga. Vitaskuld eru tímarnir breyttir og framsóknarflokkurinn er jafnóþarfur í stjórnmálum dagsins og hans fyrrverandi aðalfjandi, sjálfstæðisflokkurinn. Læt ég svo lokið þessum stjórnmálalegu pælingum mínum, enda er flest annað í lífinu skemmtilegra en þau.

Njótum þeirrar hátíðar sem í hönd fer og njótum veðursins (a.m.k. sólskinsins hér á Suðvesturlandinu) á þessari fyrstu ferðahelgi árisins. Jákvæðninnar hefur oft verið þörf en aldrei eins og núna.

Frá Akranesi.IMG 2289


2334 - Ferðast milli spítala

Ef háttvirtir (eða lágtvirtir) alþingismenn (hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu) eru ákveðnir í því að minnka enn virðingu alþingis með málþófi þá er ekkert hægt að gera við því. Í vaxandi mæli reyna menn þá að sniðganga þessa hundgömlu valdastofnun. Er þá ekki ríkisstjórnin næst og aðilar vinnumarkaðarins þar á eftir?

Menn komust að lokum útúr því gangrimlahjóli sem kallaðist „kalda stríðið“ . Eru samt hugsanlega á leið þangað aftur. Auðvelt væri fyrir þingmenn að komast úr málþófsgírnum með samstilltu átaki. Þó virðist enginn vilji til þess. Og áfram heldur traustið til þessarar stofnunar að minnka.

Nú er stund milli stríða hjá mér svo ég gæti svosem reynt að blogga smá. Líklegast er þó að ég sé ekkert að fást við þess háttar fyrr en ég kemst uppá Akranes. Slepp vonandi við öll áhrif af verkföllunum sem vel gætu verið að skella á. Á Akranesi verð ég á Hagaflöt númer 11. Fæstir sem þetta lesa hafa þó nokkuð að gera með að vita það. Símanúmer og tölvupóstur verður líklega eins og áður og ekki er líklegt að það valdi mér nokkrum vandræðum.

Svolítið lætur sumarið bíða eftir sér. Þessa dagana er kannski frekar kalt, en miðað við hnattstöðu er svosem engin ástæða til að kvarta.

Hugsanlegt er að teknar verði upp skákæfingar í vetur á vegum UMSB og þá væntanlega undir forystu Bjarna sonar míns. Líklega mundi ég reyna að taka þátt í þeim þó ég hafi enga von með að komast í lið þar nema sem varamaður. A-sveit UMSB gerði sér lítið fyrir og komst uppí aðra deild í fyrra. Ekki á ég von á að tekið verði á henni með einhverjum silkihönskum þar.

Einsog sjá mátti á síðasta bloggi mínu þá er stórhættulegt að skrifa mér! Ég gæti átt það til að birta bréfin á blogginu mínu. Höfundarréttarmál eru mér talsvert áhugamál frá fornu fari. Þegar ég sá um Netútgáfuna (http://snerpa.is/net/ ) þurfti ég að þekkja þau mál talsvert. Nú er ég orðinn ábyrgðarlaus með öllu að því leyti, en áhuginn er samt fyrir hendi. Hef vanið mig á að allt sem ég skrifa, bæði á blogg og fésbók, sé opið öllum. Auðvitað er samt hægt að gera undantekningar á því. Hemmelighedskræmmeri virðist mér þó vera ofarlega í huga margra þeirra sem á fésbók rita.

Jæja, þá hef ég farið í sjúkrabíl og á sjúkrabörum milli spítala. Eftirá sé ég að það var reynsla sem ég átti alveg eftir. Fór s.l. fimmtudagsmorgun á bráðamóttökuna á Hringbraut vegna verks í handlegg. Þegar fólkið þar var búið að fá leið á mér var ég sendur á Borgarspítalann og svo heim í gær. Nú er búið að ná blóðþrýstingnum talsvert niður m.a. með nýjum lyfjum og þessvegna er ég ekki dauður enn og held áfram að blogga. Geri ekki ráð fyrir að margir vilji heyra sjúkrasöguna alla svo ég sleppi henni.

IMG 2264Útifundur.


2333 - Óbirt ljóð

Þann 26. apríl síðastliðinn birti ég á bloggi mínu ljóð eftir Ísak Harðarson ásamt þaraðlútandi hugleiðingum. Í gær þann 18. maí skömmu eftir síðasta blogg mitt barst mér svo eftirfarandi fésbókarbréf:

Sæll vertu, Sæmundur. Verð að játa að ég er dálítið upp með mer yfir því að þú skyldir birta ljóð eftir mig á bloggsíðunni þinni. Engu að síður ætla ég að fara fram á að þú verðir svo vinsamlegur að eyða því. Ég setti þetta ljóð inn á fb-síðuna mína fyrir nokkru og lét það standa þar í nokkra klukkutíma, en þegar svo var komið áttaði ég mig á að ég var mjög óánægður með kveðskapinn af ýmsum ástæðum og ég tel mjög ólíklegt að ég muni nokkurn tíma birta þetta ljóð aftur með einum eða öðrum hætti. Viltu nú ekki fjarlægja þetta, kæri Sæmundur. Ljóðið þitt eða hugleiðingin stendur fyllilega ein fyrir sínu á bloggsíðunni þinni.

 

Því svaraði ég samstundis með þessu bréfi:

 

Jú, það er ekki nema sjálfsagt. Veit samt ekki hvernig ég á að fara að því. Vildi helst að þú segðir mér til í því efni eða bæðir Moggabloggsguðina um það. (Annað hvort að segja mér hvernig ég á að gera það eða gera það sjálfir.) Kannski er þetta ljóð samt öllum gleymt (nema okkur) Auðvitað skiptir samt máli hvort það er þarna eða ekki.

 

Svar kom um hæl:

 

Takk fyrir velviljann. Ég skal ekkert vera að stressa mig á þessu. Það er kannski bara allt í lagi að þetta ljóð sé til einhvers staðar. Þú ert ötull í blogginu, Sæmundur. Gangi þér vel og takk fyrir fb-vináttuna.

 

Ég svaraði því svo þannig í morgun:

 

Við nánari athugun hef ég komist að raun um að ég get auðveldlega eytt ljóði þínu úr bloggfærslu minni og þannig orðið við ósk þinni, sem er mjög eðlileg. Bið ég þig hérmeð afsökunar á fyrra bréfi mínu. Hef samt aldrei verið beðinn um svonalagað fyrr.

 

Þetta alltsaman ásamt ellihrumleika mínum varð mér svo tilefni til eftirfarandi hugleiðinga:

Hver er eigandi sendibréfs?
Móttakandi eða sendandi?
Er höfundarrétturinn flókinn og snúinn?
Eða er ég bara vitlaus og misheppnaður?

Geðveiki er undarlegur sjúkdómur.
Hvort er sá geðveiki veikur.
Eða samfélagið sjúkt?
Hve mörg eru samfélögin?
Eru þau jafnmörg þeim geðveiku?
Eða þeim heilbrigðu?
Eða samanlagt?

Hvað er heilbrigði?
Hvernig er það mælt?

Fara ekki hálfar setningar vel í því sem maður vill kalla ljóð?
Er nóg að setja punkt eða spurningarmerki og svo stóran staf til að setningunni sé lokið?

Er ég þá bara spurningarmerki?

Hvers vegna er lífið svona erfitt og andhælislegt?
Gæti það ekki verið auðvelt og létt?

Frá því ég rauk á fætur eldsnemma í morgun.
Hef ég verið í einskonar leiðslu.
Henni hef ég viðhaldið með kaffi.

Jafnvel gleraugun skipta máli líka.

Og ekki síður bíllinn og Hvalfjarðargöngin.

Hversdagsleikinn býr í venjulegum gleraugum.
Ljóminn í lesgleraugunum.

IMG 2253Túristi.


2332 - Júróvisíón o.fl.

Mér finnst meiri hávaði í kringum evrópsku söngvakeppnina en venjulega. Get þó ekki komið auga á að meiri ástæða sé til þess en endranær. Útvarpið og margir aðrir fjölmiðlar virðast álíta það sitt æðsta markmið að hjálpa fólki við að gera ekki neitt. Dægrastytting er það víst kallað. Íþróttir eru af sama meiði. Þó er ekki hægt annað en hrífast stundum með þegar spennan nær hámarki. Annars er ég assgoti góður í því að gera ekki neitt. Auðvelt er að telja sjálfum sér trú um að ekkert skipti máli nema það sem maður sjálfur hefur áhuga á. Pólitíkusar og verkalýðsfrömuðir hugsa eflaust þannig.

Það vill bara svo til að þetta er alltsaman blekking. Lífið er einn allsherjar brandari. Guð er ekki til. Hann er dauður fyrir löngu. Samt höldum við, flest hver a.m.k., dauðahaldi í lífið. Er virkilega einhver ástæða til þess? Er föðurlandsást og meðlíðan með öðru fólki einhvers virði? Já, mér finnst sú meðlíðan meira virði en öll trúarbrögð heimsins og öll sú föðurlandsást sem fyrirfinnst í veröldinni og hún er hreint ekki lítil. Þó er hver sjálfum sér næstur og ekkert athugavert við það að eigin hagur sé tekinn fram yfir annarra.

Bjarni sonur minn er farinn að blogga aftur. Einu sinni var hann Moggabloggari, en ekki lengur: https://bjarnisa.wordpress.com/ Þetta er víst urlið. Ekki veit ég af hverju hann bloggar á ensku. Kannski er það til að konan hans og ættingjar hennar geti lesið bloggið hans ef vilji er fyrir hendi. VIÐ ÍSLENDINGAR ættum ekki að vera í vandræðum með það. Ekki er því að neita að rithöfundargenið er þarna. Ekki hef ég samt neina hugmynd um hvaðan það er komið.

Mér hundleiðist fésbókin, en get samt ekki án hennar verið. Enda er margt athyglisvert þar að finna, þó gubbið sé miklu algengara. Kannski er þetta líkt og með sjónvarpið. Einu sinni fannst mér ég ekki geta án þess verið. Nú horfi ég í mesta lagi á fréttir þar, nema ég neyðist til annars. Svipað er að segja um prentuð dagblöð. Netið er allt sem þarf.

Í pólitíkinni er það ekkert merkilegt þó ríkisstjórnin sé óvinsæl. Merkilegra er að hin hefðbundna stjórnarandstað virðist vera það líka. Líka er það merkilegt að sjálfstæðisflokkurinn sem eitt sinn var „Stóri flokkurinnn“ með gæsalöppum og öllu er það líklega ekki lengur. Hvað tekur þá við? Ekki hef ég neina trú á að píratar haldi áfram að vera stórir. Líklegri er algjör upplausn og smáflokkar útum allt.

Verkföll þau sem yfirvofandi eru gætu hæglega breytt stjórnarfari og hugsunarhætti fólks. Samt er það svo að líklega verður komið í veg fyrir þau. Ríkisstjórnin er ekki eins máttlaus og margir halda. Verst að hún (eða Simmi) hugsa ekki lengra en til næstu kosninga.

WP 20150509 17 12 30 ProFrá Akranesi.


2331 - ESB og GBS

Ég álít að alþingi sé æðra stjórnvald en ríkisstjórn sú sem situr hverju sinni. Evrópusambandið virðist líta svo á einnig. Ekki þó Gunnar Bragi Sveinsson. Ef alþingi hefur sótt um aðild að ESB þá gildir sú umsókn að mínu viti þangað til alþingi samþykkir eitthvað annað. Mér er alveg sama (og ESB hugsanlega líka) hvað fimbulfambað er um hvernig sú atkvæðagreiðsla var tilkomin. Ástæða er til að ætla að allir sem atkvæði greiddu hafi verið með fulla meðvitund. Skiljanlegt er að Bjarni Benediktsson vilji svæfa málið. Klofningurinn í sjálfstæðisflokknum mun opinberast ef það fer inná þingið. Sama er hvað Gunnar Bragi Sveinsson rembist og rembist, ESB eða fulltrúar þeirrar stofnunar munu álíta það sem þeim sýnist.

Verkföll þau sem nú eru í augsýn eða hafin eru aðallega verk ríkisstjórnarinnar og geta hæglega orðið banabiti hennar. Traust það sem vantar svo tilfinnanlega milli aðila vinnumarkaðarins gæti hún reynt að laga. Ekki er sjáanlegt að svo verði gert. Samt er líklegast að þeir aðilar komi sér saman fyrir rest um að krefjast einhvers af ríkisstjórninni, en til þess að bjarga andlitinu muni hún kalla það eitthvað annað. Hætt er samt við að stjórnin sé þegar orðin eða verði fljótlega það löskuð að hún hafi enga möguleika á að halda stjórnarsamstarfinu áfram eftir næstu kosningar. Ekki er heldur líklegt að hinir aðilar fjórflokksins (samfylkingin og vinstri grænir) bæti miklu við sig. Aðalspurningin er því um nýju flokkana. Kannski líta sumir svo á að björt framtíð sé bara útibú frá samfylkingunni. Samt tilheyrir hún varla fjórflokknum.

Byssueign er mikil á Íslandi. Að vísu eru hríðskotabyssur og vélbyssur ekki almenningseign hér á landi þó svo sé sumsstaðar. Kindabyssur, rifflar og haglabyssur af ýmsum stærðum og gerðum eru það hinsvegar. Lögreglan er óvopnuð og glæpamennirnir einnig. (A.m.k. flestir). Það finnst mér skipta mestu máli. Vopnaeign er misjöfn milli þjóða. Þeir sem kunna með byssur að fara eiga að hafa leyfi til byssueignar, ef skotvopn eru gjarnan notuð við afbrot þar sem þeir búa. Ekki situr á okkur sem helst ekki notum slík vopn að gagnrýna þá sem vilja hafa tækifæri til að verja sig með þeim. 

Eiginlega má ég ekkert vera að þessu árans bloggi. Er önnum kafinn við að undirbúa flutning upp á Akranes og þar að auki þarf maður ekki neitt ákaflega mikið til að verða önnum kafinn á þessum aldri. Merkilegt samt hvað allir aðrir en maður sjálfur eldast hratt. Var orðinn svotil uppiskroppa með myndir, enda tek ég varla myndir nema á símann núorðið. Bless í bili. Kannski verður einhver bið á því að ég bloggi aftur. Þó er sá möguleiki alltaf fyrir hendi.

WP 20150509 15 48 03 ProFrá Akranesi.


2330 - Stafræni skugginn o.fl.

Oft er það svo að ég er varla búinn að setja upp blogg, þegar mér dettur eitthvað upplagt bloggefni í hug. Við þessu er ekkert að gera. Helst er að vona að þetta efni sé ekki tímabundið og eldist sæmilega. Ef ekki eru líkur á því, má alltaf setja það á fésbókina. Hún er að mestu tímalaus. Ekki hef ég afþakkað upprifjun á gömlum innleggjum þar, en ætti kannski að gera það. Þau trufla og eru einstaklega vitlaus.

Yfirleitt er mér nóg að vita að Jón Valur Jensson sé mótfallinn einhverju til að vera meðmæltur því. Þó er þetta ekki alveg einhlítt. Man samt ekki í svipinn eftir dæmum til stuðnings því. Hinsvegar dettur mér í hug moskan í Feneyjum sem dæmi um hitt. Mér hefur ætíð fundist „Feneyja-tvíæringurinn“ sem svo er kallaður vera dæmi um mikið snobb. Samt finnst mér það vel til fundið hjá Íslendingum að eiga þátt í þessu með moskuna.

Svo vikið sé að íslenskri pólitík þá er því ekki að neita að líkur eru á að útlendingafóbía skipti miklu máli í næstu kosningum. Jafnvel meira máli en hin pólitíska rétthugsun. Auðvitað sýnist hverjum sinn fugl fagur og ég er t.d. ekki í vafa um að ég mundi taka pólitísku rétthugsunina framyfir útlendingafóbíuna. Vissulega er hægt að leggja þann skilning í þessi tvö hugtök (útlendingafóbíu og pólitíska rétthugsun) sem hverjum líkar. Þau lýsa samt stjórnmálalegum veruleika, sem flokkar verða að laga sig að. Sá flokkur sem tekur mjög einarða afstöðu til nógu margra mála er öruggur með lítið fylgi. Loðmullan er betri.

Stafræni skugginn. Hlustaði á RUV á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur í morgun (sunnudag). Þar var rætt við Birgittu Jónsdóttur og m.a. rætt um stafræna skuggann okkar. Að hann skuli ganga kaupum og sölum hjá stóru alþjóðlegu fyrirtækjunum er í rauninni óheyrilegt. Mannréttindi á internetinu eru bókstaflega einskis virði meðan svo er. Tölvur þær sem stórfyrirtækin  hafa yfir að ráða eru orðnar svo öflugar að milljarðar og næstu stig þar fyrir ofan eru smámunir einir. Sía má auðveldlega út þær upplýsingar sem hernaðaryfirvöld vilja hverju sinni og ekkert er hægt að gera án vitneskju þeirra. Hugsanalögreglan er á næsta leiti.

Bloggin eru alltaf að styttast hjá mér. Kannski er það góðs viti. Langhundar eru leiðinlegir. Ef ekki er hægt að segja það sem maður meinar í stuttu máli þá er eins gott að sleppa því. Eða skrifa skáldsögur.

Allt í einu er búið að setja á núll allar mínar bréfskákir á fésbókinni. Jæja, mér er svosem sama. Sennilega lítur svo út á Chess.com að ég hafi aldrei bréfskák teflt.

WP 20150428 11 28 35 ProByggingakrani reistur.


2329 - Verkföll o.þ.h.

Á veltiárunum fyrir hrun var aldrei farið í verkfall. A.m.k. ekki hjá stóru félögunum eins og VR en þar var ég kunnugastur. Hvers vegna var það? Jú, ég get sagt ykkur það. Á þessum tíma tíðkaðist að yfirborga næstum alla. VR var mjög óvinsælt félag. Launataxtar þeirra voru langt fyrir neðan það sem algengast var að borga. Með þessu móti voru tennurnar algjörlega dregnar úr VR. Atvinnurekendur þurftu ekki annað en hóta að borga eftir umsömdum töxtum. Það jafngilti uppsögn. Þessvegna var VR sæmst að halda sig á mottunni.

Svo kom hrunið og þá voru taxtalaunin það eina sem var í boði. Nú batna kjörin aðeins og fólk sér að umsamdir launataxtar eru ekki tóm vitleysa. Ýmis réttindi sem áður skiptu engu máli eru allt í einu orðin mikils virði. Þetta finnst mér vera að gerast núna í sem allra stystu máli.

Núverandi ríkisstjórn virðist ætla að láta reyslulausan og mjög hægrisinnaðan forsætisráðherra teyma sig útí það foræði, sem verkfallsátök þau sem framundan eru vissulega virðast. Sú þvermóðska sem ríkisstjórnin sýnir verkafólki er einkennileg. Auðvitað vita verkalýðsforkólfar mætavel að of háir samningar geta valdið verðbólgu, en er betra að drepast eða verða gjaldþrota, en búa við þá verðbólgu sem áður tíðkaðist.  Verkalýðsfélög og atvinnurekendur gætu í sameiningu neytt ríkisstjórnina til að gera hvað sem er. Og kannski gerist það einmitt.

Að mörgu leyti má búast við að erfiðara sé að fara í langt verkfall nú en áður var. Belti og axlabönd verslunareigenda t.d. eru bankarnir og greiðslukortin. Ekki verður gefinn frestur á að greiða skuldir þó verið sé í verkfalli. Einhverntíma hefðu bankarnir samt lamast við að VR færi í verkfall. Nútildags eru allsherjarverkföll ekki það eina sem til greina kemur. Hægt er að reikna út hvar tjónið verði mest. Verkföll eru eina vopn verkalýðsins. Atvinnurekendur hafa mörg.

Hef svosem nóg að gera annað en fást við að blogga um þessar mundir. Bý eiginlega á tveimur stöðum núna og er að undirbúa að flytjast til Akraness. En ekki meira um það. Set þetta bara upp núna af því það er föstudagur. Stutt er þetta og kannski þunnt, en ég get ekki gert betur en þetta akkúrat núna.

WP 20150428 08 43 04 ProVinnusvæði.


2328 - Makríllinn að missa sig

Eiginlega er það stór galli á fésbókinni hvað allir eru jákvæðir. Held að sumum hundleiðist þó þeir reyni að bera sig vel. Kannski er þessi galli ekkert síður á blogginu. Þar finnst mér þó pólitíkin eiga hug flestra. Tala nú ekki um ef tækifæri gefst til að skrifa undir eitthvað. Annars er ég sjálfur búinn að skrifa undir makríl-áskorunina svo ég get víst lítið sagt. Áhugamálin eru fjölbreyttari á fésbókinni. Enginn nær þó að lesa nema lítinn hluta hennar. Og þar eru sumir í því að læka og deila út og suður. Hvernig fóru menn eiginlega að því að láta tímann líða áður en internetið kom til sögunnar?

Það er skynsamlegt að vera grænmetisæta. Öllu má samt ofgera. Það er illa farið með gott gróðurland að breyta grasi í kjöt. Að við skulum leggja okkur lík til munns er beinlínis skrýtið. Sjálfur vil ég frekar hugsa um réttritunina í skrítið eða skrýtið, en sláturhúsin með allar sínar hryllingssögur. Samt borða ég kjöt. Finnst eitthvað vanta ef ég smakka það ekki lengi. Annars þarf svosem ekkert að kvarta undan grænmeti og mjólkurmat. Og auðvitað mætti svosem mín vegna éta fisk. Á margan hátt eru skipin og bátarnir geðslegustu sláturhúsin.

Sé að flestir þeirra sem álpast til að lesa bloggið mitt (og þeir eru furðu margir) fara flestir snemma að sofa. Þ.e.a.s. fyrir miðnætti. Reyni ekki að rýna meira í tölurnar en það. Kannski þetta snemmsofelsi hafi eitthvað með aldurinn að gera. Sjálfur fer ég oft svo snemma á fætur að til vandræða horfir. Þessvegna veit ég þetta.

Hef greinilega lítið minnst á fésbókina í þessu undanfarandi. Auðvitað mætti eins vel setja þessar hugleiðingar þar. En þá þyrfti ég að vera sískrifandi þar og ekki gengi að senda langloku, um allt og ekkert, á borð við þetta þangað. Samt gæti það orðið vinsælla. Allir, eða næstum allir eru hvort eð er á fésbókinni, en Moggabloggið er orðið fremur úrelt fyrirbrigði. Sjálfstætt bloggheimili nenni ég ómögulega að fást við. Jæja nú er klukkan farin að ganga átta og ég að hugsa um að fara út. Ansi er þetta samt snubbótt blogg.

WP 20150423 12 46 18 ProHarpa.


2327 - Eru verkföll og vinnudeilur vilji ríkisstjórnarinnar?

Einkennilegt er af ríkisstjórninni að hunsa verkafólk. Öruggur meirihlutavilji er fyrir miklum kjarabótum. Ef forseti ASÍ segir ríkisstjórnina hafa svikið samkomulag sem gert hafi verið, þá trúir fólk því að sjálfsögðu. Meirihlutavilji er einnig fyrir því að taka upp nýja stjórnarskrá í stað þeirrar hálfdönsku sem við höfum. Sömuleiðis fyrir þjóðareign á auðlindum landsins. Þýðingarlaust er til langframa fyrir ríkisstjórnina að berja höfðinu við steininn hvað þetta varðar.

Washington Post (blaðið sem frægt varð fyrir að koma Nixon Bandaríkjaforseta frá völdum) segir eftirfarandi í umfjöllun sinni um óeirðirnar í Baltimore.

„These kids represent what modern-day freedom fighting looks like. The revolution will be tweeted, Periscope-d and Snapchatted.”

Kannski er þetta haft eftir einhverjum öðrum. Man það bara ekki. Byltingin verður semsagt ekki fésbókuð. Erum við bara svona mikið á eftir tímanum?

Á Íslandi finnst mér að síðasti leiðtoginn sem gat talað beint til þjóðarinnar og var skilinn af henni allri hafi verið Steingrímur Hermannsson. Aldrei varð ég samt svo frægur að kjósa hann, en bar mikla virðingu fyrir honum. Las ævisögu hans líka með mikilli athygli. Þess vegna voru það mér mikil vonbrigði þegar hann lýsti því yfir að hann skynjaði breytingu í þjóðlífinu í átt til aukinnar misskiptingar og vildi koma í veg fyrir hana, en gæti það ekki. Stjórnmálamenn og leiðtogar geta haft áhrif á þróun en þeir stjórna henni ekki. Sumir leiðtogar og harðstjórar virðast gera það. Færa má þó rök fyrir því að þjóðirnar geri það sjálfar. Flestir stjórnmálamenn vilja gera vel en eru að sjálfsögðu mislagðar hendur. Vantraust á stjórnmálamönnum er mikið. Opið og beint lýðræði vilja flestir en túlka það misjafnlega. Þetta breytist áreiðanlega ekki fyrr en gömlu flokkarnir hafa farið í gegnum þá hundahreinsun sem þeir ljóslega þurfa á að halda. Ef til vill getur formaður vinstri grænna gert það skammlaust en strákagreyin í hinum flokkunum geta það alls ekki.

Skólafélagi minn einn á Bifröst spurði eitt sinn fyrir langalöngu: „Hvers vegna er dauður tannlæknir meira virði en dauður verkamaður?“ Þessi spurning var aktúel þá og er það kannski enn í dag. Mér er ekki kunnugt um að viðhlítandi svar hafi fengist við henni ennþá.

Verðtryggingin er alls ekki sá bölvaldur sem margir álíta. Hingað til og næstu áratugina (vonandi) verður hún til þess að gamla fólkið tórir hér á landi. Þannig er hún í reynd dulbúin sátt milli kynslóða í landinu. Blikur eru samt á lofti um að sú sátt geti ekki haldist endalaust. Sá hluti þjóðarinnar sem telst til ellilífeyrisþega fer sífellt vaxandi. Minnist þess sérstaklega að starfsfólk á einni lífeyrissjóðs-skrifstofunni lýsti því fjálglega fyrir mér að það mundi hiklaust fara á eftirlaun eins fljótt og það mögulega gæti. Annars er ellilífeyrislífið alls ekki eftirsóknarvert. Það er ekki einu sinni gaman að geta sofið út á hverjum morgni og stilla vekjaraklukkuna bara stöku sinnum. Auk þess verða helgarnar fljótlega alveg eins og rúmhelgir dagar.

Það kom bara alltíeinu til mín áðan af hverju Þórbergur kallaði eitt herbergið í íbúðinni á Hringbraut 45 alltaf „umskiptingastofuna“. Hef aldrei velt þessu sérstaklega fyrir mér en líklega hefur hann haft þarna fataskipti áður en hann fór í sínar daglegu göngur og æfingar. Já, Þórbergur var alltaf svolítið skrítinn. Hann var bæði kallaður ofviti og meistari og gekkst upp í því. Upphaflega hefur þetta kannski verið gert í háði, en hann var í rauninni engum líkur og ákaflega sérstakur. Ég man vel eftir því þegar Þórbergur var að koma í Silla og Valda búðina á Hringbraut til að kaupa drottningarhunang. Hann kom sjaldan þangað, en Magga hinsvegar mjög oft.

WP 20150423 12 02 01 ProHlaup.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband