Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014

2114 - Vírus

Eiginlega veit ég ekkert hvað ég á að skrifa um Ásgautsstaði. Mest er ég að hugsa um að hætta að byrja bloggin með því að minnast á þá jörð og setja það frekar í endann. Ég er næstum búinn að venja mig á að byrja á þessu. Árborg (les Selfoss, Stokkseyri o.fl.) nýtir þessa jörð án þess að hafa nokkurt leyfi til þess og vill ekki semja við eigendurna (erfingjana). Var spurður hér á blogginu um daginn hvað það ætti að þýða að vera sífellt að skrifa um þetta útskýringarlaust.

Auðvitað veit ég að maður á aldrei að klikka á .exe skrár án þess að vita hvað í þeim er. Fékk þannig skrá í fésbókarpóstinum mínum í gær (þriðjudag). Klikkaði á hana í einhverju hugsunarleysi og fór svo að gera eitthvað annað. Það var eins og við manninn mælt, áður en ég vissi af var ég farinn að dreifa vírusi til fésbókarvina minna (kannski allra, veit það ekki). Pétur á Kópaskeri ráðlagði mér að setja orðsendingu um þetta á vegginn minn, og það gerði ég. Sennilega alltof seint samt.

Annars finnst mér ellin aðallega vera þannig að maður hugsar meira um heilsuna og þessháttar en áður, er ekki nærri eins kraftmikill og úthaldsgóður og fyrr og stundum valtur á fótunum, auk þess sem maður er lengur að öllu. Einkennilegast er eiginlega hvað maður breytist lítið. Útlitið finnst mér ekki breytast að neinu ráði.

Þó ég sé alltaf að kvarta yfir pólitíkinni skrifa ég heilmikið um hana. Sama er að segja um fésbókina. Ég er alltaf að skrifa eitthvað um hana. Nær væri að skrifa um eitthvað annað. Því hefur verið haldið fram að fésbókin sé á fallanda fæti. Sennilega er það rétt. Ætli það verði ekki einmitt vírusar sem verði henni að falli.

Pólitíkin er líka hundleiðinleg. Stjórnarandstaðan virðist í alvöru gera ráð fyrir að geta með skömmum, látum og fyrirgangi hrakið stjórnina frá völdum. Svo verður ekki. Við skulum því bara sætta okkur við að sitja upp með þetta í nokkur ár. Það þýðir þó ekki að rétt sé að láta allt yfir sig ganga mótmælalaust. Eilíf neikvæðni er samt ekkert betri í pólitík en annarsstaðar.

Í sambandi við lekamálið í innanríkisráðuneytinu finnst mér athyglisverðast að enginn ráðherra úr ríkisstjórninni skuli koma Hönnu Birnu til hjálpar. Það er greinilegt að hún er í miklum vandræðum. Hún svarar aldrei þeim spurningum sem lagðar eru fyrir hana og hefur greinilega ekki fundið sökudólg ennþá. Vandamálið er alls ekki lengur skjalið sjálft sem lekið var heldur miklu fremur hvernig tekið hefur verið á þessu máli af henni sjálfri. Að sumu leyti er þetta orðið eins og æsilegasti reyfari. Tekst henni að hanga í embættinu eða ekki? Ég hallast fremur að því að hún segi af sér fyrir rest.

Setti nýlega vísukorn eftir mig á fésbókarhópinn „boðnarmjöður“. Það er fremur vinsæl síða og að ég held einkum fyrir birtingu á limrum og ferskeytlum. Þessi vísa var nú bara afbökun á mjög þekktri vísu, en það er greinilegt að þessi síða er talsvert mikið lesin. Meðlimir á „Boðnarmiði“ eru sagðir vera 425. Einnig setti ég þar í morgun vísu sem svar við vísu eftir Hallbjörn Kristinsson. Þar var um að ræða afbökun á afavísunni alkunnu og hún hefur líka verið lesin af allmörgum. Kannski er réttast að tilfæra þess vísur báðar hér þó ekki séu þær merkilegar.

Fésbókin er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvatvís puttalingur.

Eins og sjá má er þetta afbökun á vísunni frægu sem byrjar svona:  Ferskeytlan er Frónbúans....

Hin vísan var svona:

Latur afi á Litla-Rauð
lötraði suður á bæi.
Sótti þangað sykurfrauð
sem var ekki í lagi.

IMG 5874Áramótabrenna í andarslitrunum.


2113 - Kína og ESB

Ásgautsstaðaávarpið. Ég veit svosem ekkert hvernig mál þar standa núna. Hugsanlega eru Sýslumaður Árnesinga og Bæjarstjórn Árborgar eitthvað að vitkast. Sjáið blogg mitt frá 10. desember s.l. og þau sem bæst hafa við síðan, ef áhugi er á að kynna sér þetta mál nánar. Margir fleiri þekkja það og ástæðulaust er að svæfa það alveg. Viðbrögðin við skrifum mínum um þetta mál hafa verið með ýmsu móti. Bæði eru þau hér á Moggablogginu og á fésbókinni. Einnig hefur verið hringt í mig út af þessu.

Ég er sammála SDG um það að Frosti Sigurjónsson er dálítið óvenjulegur þingmaður. Hann lýgur ekki nógu sannfærandi. Sennilega stafar það af reynsluleysi. Flestir aðrir þingmenn og þó sérstaklega ráðherrar ljúga miklu betur. Mest sannfærandi er núverandi forsætisráðherra. Hægrisinnaðir þingmenn og ráðherrar ljúga ekkert meira en þeir vinstrisinnuðu. Helsta ástæðan fyrir því að lítið bar á Jóhönnu Sigurðardóttur er hugsanlega sú að henni hafi leiðst að ljúga. SJS hafði aftur á móti gaman af því.

Einar Steingrímsson skrifar langloku á Eyjuna og átelur hana fyrir tilraun til þöggunar. Að birta það blogg á eyjunni afsakar hana að sumu leyti. Einar er oft alltof hvatvís að mínu áliti. Hefur þó alveg rétt fyrir sér að þessu leyti og þar að auki er langt frá því að mitt álit sé einhver hæstaréttardómur.

Sú grundvallarafstaða mín í pólitík að Íslendingar eigi heima í ESB litar afstöðu mína til margra annarra pólitískra mála. Auðvitað er það samt svo að í daglegu tali eru hugtökin hægri og vinstri ákaflega gildishlaðin í pólitískum skilningi. Þau eru samt að mestu leyti farin að missa vægi sitt og flokkaskipting orðin afskaplega lítið háð þeim.

ESB-málið er þannig vaxið að erfitt er að leiða það til lykta án þess að einhverjir verði mjög sárir. Röksemdir með og móti eru svo fyrirferðarmiklar að engin leið er að taka ákvörðun án einhverskonar trúar. Trú á að ríkjasambönd séu það sem koma skal. Trú á að hagstæðara sé fyrir smáríki að eiga stóra og volduga vini. Trú á að sama sé hvað við gerum, þar lendum við fyrr eða síðar. O.s.frv.

Aftur á móti er fríverslunarsamningur við Kína ein vitleysa frá upphafi til enda. Veit reyndar ekki vel hvernig hann er en held samt að hann verði í besta falli þýðingarlaus. Engir aðrir held ég að vilji semja við þá og þessi samningur getur orðið okkur fjötur um fót í framtíðinni.

Pólitíkusar eru á móti Jónasi Kristjánssyni fyrrum ritstjóra. Óttast hann bæði og fyrirlíta. En hann hefur þekkinguna og orðkyngina til að setja þá hné sér og rassskella þá. Auk þess skrifar hann fjandi vel. En það þýðir ekkert. Þeir halda bara áfram. Þó þeir séu hirtir af Jónasi eru þeir flestir óforbetranlegir.

Nú, ég mætti náttúrulega í fjölteflið í Borgarnesi á sunnudaginn. Helgi Ólafsson, stórmeistari tefldi þar klukkufjöltefli við 11 manns. Bjarni Sæmundsson náði jafntefli við hann en allir aðrir töpuðu fyrir honum. Þar á meðal ég, sem hann notaðist við kóngsbragð á móti. Það kom mér á óvart og eflaust hafa ekki nema svona 2 til 3 fyrstu leikirnir verið hefðbundnir. Annars er ég óttalega lélegur í byrjunum, en það gutlar aðeins meira á mér í öðrum hlutum skákarinnar. Samt átti Helgi nú ekki í neinum vandræðum með að vinna mig.

IMG 5866Leifar af rakettu.


2112 - Aldraðir allra landa sameinist

Þetta er Ásgautsstaðaávarpið. Einu sinni var Hildiþór með sjoppu upp við Ingólfsfjall. Pulsurnar þóttu góðar hjá honum. Hann trúði okkur strákunum fyrir því að það væri vegna þess að hann setti koníak útí sinnepið. Sýndi okkur meira að segja fleyginn sem hann notaði. Nú heitir Selfoss Árborg og lætur sér sæma að leggja undir sig jarðir án þess að hafa til þess nokkurt leyfi. Leyfir jafnvel að byggð séu hús á illa fengnum jarðarpörtum. Fjölyrði ekki meira um þetta núna en þeir sem hugsanlega vilja fræðast meira um þetta geta haft samband við mig eða lesið eitthvað af gömlu bloggunum mínum.

Hvernig samfélagi búum við í? Ekki er það landbúnaðarsamfélag. A.m.k. ekki hérna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er það framleiðslusamfélag. Ekki er það iðnaðarsamfélag. Ekki er það þróunarsamfélag, nema þá kannski í Vatnsmýrinni. Er það kannski fésbókarsamfélag eða neyslusamfélag? Já, ætli það ekki. Öll eyðum við sem allra fyrst öllu sem okkur áskotnast. Helst fyrirfram og spurningin er bara hvort kemur á undan þegar við vöknum kaffibollinn eða fésbókin. Einhverjir skemmta sér sjálfsagt við þetta eiturlyf. Nýskráningum fækkar, segja menn. Ekki ætla ég að afskrá mig ef mér tekst einhverntíma að venja mig af þessum ósið. En þá kemur sjálfsagt bara eitthvað annað í staðinn. Já, ég er að tala um fésbókina.

Ríkisstjórnin sem núna situr er ekkert verri en sú síðasta. Lofaði samt öllu fögru til að geta svikið eitthvað. Andstaðan varð hálfklumsa þegar Simmi og Bjarni tilkynntu sigri hrósandi um einhverja skuldaleiðréttingu sem enginn veit hvernig verður. Það eina sem er ljóst er að ekki verða það hrægammarnir svokölluðu sem borga. Hinsvegar hefur þessi verðtryggingarnefnd alls ekki staðið í stykkinu, því hún átti að koma með tillögur um hvernig ætti að afnema verðtrygginguna. Það má kannski athuga það eftir svona tvö ár, segir hún. Simmi er samt ánægður. Er hann ánægður með allt nema stjórnarandstöðuna? Hún er líka með sífelldar loftárásir á sig, segir hann.

Eitt er gott við kreppufjandann. Það er engin skömm að hafa farið á hausinn í henni. Þarf ekki einu sinni fyrirtæki til. Menn fóru bara örlítið óvarlega og svo kom kreppan aftan að þeim af öllum sínum þunga. Bráðum geta allir notað þetta því enginn man lengur hvenær hún var. Er annars ekki alltaf kreppa? A.m.k. „svokölluð“ kreppa. 

Um daginn var bóndadagur og ósýnilegar miðaldra konur mál málanna. Eru konur ekki menn nema þær séu ungar og fallegar? Sjást kallar eitthvað betur? Er hlustað meira á þá þó þeir séu ljótir og leiðinlegir? Hlusta konur kannski meira á þá líka? Þetta þyrfti að rannsaka.

Á hvaða leið er þetta samfélag okkar? Allt í einu er súrmatur orðinn bráðhollur og lafhægt að svissa yfir í hann ef menn eru orðnir leiðir á beikoninu. Held samt að unglingum þykji Pizzurnar betri en súra hvalrengið. Nei, þetta með offituna er ekkert tískufjas. Það er einfaldlega nauðsynlegt að halda svolítið í við sig varðandi mat. Heilsunnar vegna. Einfaldasta ráðið til slíks er að forðast brauð, kökur, kex og sykur. Ég geri samt ekki nærri nóg af því.

Fyrirsögnin á þessu ósköpum er að mestu út í bláinn. Ekki þó meira en setningin sem höfð er eftir Karli Marx og er næstum það eina sem margir vita um þann löngu dauða kall. Þar byrjar setningin á öreigar, verkamenn, fátæklingar eða einhverju slíku og er ekki vitund gáfuleg. (hverjir eiga t.d. að dæma um öreigaskapinn, þeir sjáfir, eða hvað!?! Auðvitað skrifaði Karl Marx samt margt gáfulegt (eða óskiljanlegt) og er frægur fyrir það. Svokallaðir gáfumenn dagsins í dag er ekki miklir gáfumenn. Vita lítið í sinn haus og passa sig bara á því að fara ekki útfyrir kassann. Það vita nefnilega engir hvað hann er stór. Jón Gnarr er mikill hugsuður og setningin hans: „Allskonar fyrir aumingja“ er gullvæg. Setningin „pólitík er leiðinleg“ er útvið brún á kassans. Veit bara ekki hvorum megin. Hún á samt ágætlega við hérna.

Grín getur verið dauðans alvara. T.d. sagði DV frá því að einhver maður ætlaði að flytja frá Keflavík af því að minnst var á hann í þorrablótsgrínþætti og gott ef hann hélt því ekki fram sjálfur. Svo hætti hann við að fara. Kannski hættir hann við að hætta við að fara. Eða hættir við að hætta við að hætta við að fara. Nei, nú er ég hættur.

IMG 5865Göng.


2111 - Skákdagurinn er á sunnudaginn

Mér er sagt að sýslumaðurinn á Selfossi hafi hringt í lögfræðinginn útaf Ásgautsstaðamálinu. Kannski hefur það einhverja þýðingu, en þó er það ekki víst. Símtöl eru ódýr en geta samt skipt máli. Fundur er mögulega á næstunni. Læt þetta duga í bili.

Næstkomandi sunnudag (26. janúar) kl. 14:00 mun Helgi Ólafsson, stórmeistari í skák tefla fjöltefli í Borgarnesi. Það fer fram við Hyrnutorg, Borgarbraut 58 í Borgarnesi og þátttaka er öllum heimil og ókeypis í þokkabót. Sonur minn setti þennan viðburð á fésbók og ég veit ekki betur en þeim upplýsingum sem þar koma fram hafi verið dreift af mörgum. 26. janúar er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar ef ég man rétt. (Hann verður áttræður á næsta ári.) Skákdagurinn er þann dag og þá er reynt er að kynna skák eins og mögulegt er.

Nú er mjög í tísku að spá falli fésbókar. Unga fólkið er að fara annað. Þetta er eins og næstum allt annað. Kemst í tísku. Verður ofurvinsælt. Úreldist og fellur í gleymsku. Ég er fastur í árans blogginu og kemst ekki þaðan. Fór hálfnauðugur á fésbókina á sínum tíma og hef aldrei kunnað við mig þar. Hlakka til að losna. Svanur Gísli skrifar ýmislegt um þetta og ég er alveg sammála honum: http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1348865/

Byrjað er að veðja um hver verði ráðinn útvarpsstjóri. Sjálfur vildi ég helst sjá Stefán Jón Hafstein þar, en hann er víst ekki í réttum flokki svo hann kemur varla til greina. Hann er sá eini sem ég kannast eitthvað við. Bjarni nokkur Guðmundsson er sagður hátt skrifaður en ég held að hann sé útvarpsstjóri í viðlögum þessa dagana og hafi skrifað afsökunarbréfið til Austurríska sjónvarpsins um daginn á lélegri menntaskólaensku í staðinn fyrir á góðri þýsku sem þeir hefðu alveg átt skilið. Aðra kannast ég lítið sem ekkert við.

Það unga fólk eða unglingar sem kaupir sér hluti á raðgreiðslum og eignast þannig það sem hugurinn girnist er bara að leyfa þeim fyrirtækjum sem svona lagað stunda að festa í sig öngulinn. Auðvitað er það svo að með því að fara þessa leið er hægt að líta mun betur út í augum annarra og líða jafnvel betur sjálfum og græða í raun og veru sé verðbólgan nægilega mikil. Vitanlega er það fáviska hin mesta þegar sagt er að allir græði á því að verðbólgan sé lítil eða engin. Mikill fjöldi fólks græðir verulega á því að hafa hana sem mesta. Annars væri hún ekki.

Undanfarið hef ég verið að taka svolítið til í gömlu pappírsdrasli. Þar kennir margra grasa. Einhverntím hef ég verið fastur í neti fjárglæframanna, það sýna bréfin og áskoranirnar frá lögfræðingum allskonar. Fyrir eigin tilverknað (og kannski með hjálp annarra, jafnvel verðbólgunnar) hef ég smátt og smátt komist út úr því. Mikill léttir er að skulda ekki neinum neitt (að ráði a.m.k.) Í staðinn er kannski ekki hægt að veita sér eins mikið, en það gerir minnst til. Velmegunin felst aðallega í ístrunni. Þó maður taki hana kannski með sér í gröfina er ekki víst að hún fari lengra.

DV skrifar um netflix. Þeir sem vilja gerast áskrifendur að því geta farið á http://einstein.is/ . Nenni ekki að standa í því sjálfur því ég horfi hvort eð er ekki mikið á kvikmyndir. Á þar að auki flakkara og kemst aldrei yfir að horfa á allt sem þar er.

Í DV er líka (á pdf-skjali) bréf til Bubba frá G. Helgu Ingadóttur og ég ráðlegg öllum að lesa það. Ummæli Bubba um það bréf voru þannig eftir því sem DV segir: „Ég er alls ekkert fúll yfir þessu en ég fékk smá ónot þegar ég fékk bréfið. Þá velti ég fyrir mér hvort þessi kona ætlaði að láta bloggherinn ræna af mér ærunni“. Annars finnst mér þetta allt vera hluti af auglýsingu fyrir einhvern þátt sem á að fara að sýna á Stöð 2.

IMG 5864Lok á einhverju.


2110 - Á maðurinn bara eitt par af skóm?

Það fyrsta sem ég geri venjulega eftir að ég er búinn að setja upp síðasta blogg er að byrja að semja Ásgautsstaðaávarpið og geri ég það hér með. Af því máli er lítið að frétta, en vonandi holar dropinn steininn. Hver veit nema þetta hafi áhrif að lokum.

Skelfilega eru blaðamenn orðnir hvumpnir útaf bloggurum og fésbókurum. Ekki má orðinu halla þá eru þeir roknir upp í skammir og djöfulskap. Kannski eru þeir bara hræddir um að missa atvinnuna. Ekki dettur mér í hug að láta svona út í þá nema af því að þeir byrjuðu.

Las nýlega þetta sem kannski má ekki dreifa á netinu. Allur þessi dónaskapur í mönnum er að gera ríkissaksóknarann gráhærðan. Fannst það þó svo óralangt að ég nennti ómögulega að lesa það allt. Sumt var líka margendurtekið og velt uppí sér einsog brjóstsykri (bolsíur hefði Örlygur skólameistarasonur kallað það.) Hvað mér finnst um þetta mál er varla fyrirsagnaefni, en óneitanlega er allt sem brotaþoli hefur að segja um það trúverðugt mjög. Það sama finnst mér ekki vera hægt að segja um túlkanir móðurinnar og lögfræðingsins á sumu sem þetta mál snertir. Skoðanir mínar á yfirvöldum þessa lands ættu að vera þeim kunnar sem bloggið mitt lesa.

Ég er alls ekki viss um að rannsóknargögn hverskonar eigi alltaf erindi við almenning. Á þessu kunna þó að vera undantekningar og yfir skoðanir þeirra sérfræðinga sem kynnt hafa sér gögnin til hlýtar ætti leyndarhula ekki að ná. Sá nýji vettvangur sem netið er fer ekkert í burtu þó bölsótast sé.  

Þrennt er það sem nútímamenningu (einsog ég þekki hana) stafar mest hætta af. Það eru tölvur, sjónvarp og sími. Ég er ekki í neinum vafa um þetta. Þessvegna er ég að hugsa um að yfirgefa tölvuræksið nákvæmlega núna. Tek samt farsímann með mér.

Eftir því sem Sif Sigmarsdóttir segir eru Frakkar ekki vitund hneykslaðir á því að forsætisráðherra þeirra haldi framhjá. Gott ef það er ekki vaninn. En að vera í sömu skónum dag eftir dag eiga þeir erfitt með að fyrirgefa. Ég held nú bara að hann megi þakka fyrir að nokkur kvenmaður líti við honum. Lítilll og óásjálegur þykir mér hann. Kannski er það embættið sem gerir útslagið.

Vigdís Hauks er alveg horfin úr fjölmiðlum, en Frosti tekinn við. Stjórnarandstaðan er hætt loftárásum sínum á Simma og tekin til við aðra. Eiginlega er það Hanna Birna sem er í mestum vandræðunum af ráðherrunum. Mest er það útaf lekamálum og kristinfræði. Kannski kemst hún útúr því öllu saman því athyglin beinist alltaf að einhverju nýju.

Ástandið í Úkrainu er undarlegt. Sennilega lýstur hagsmunum austurs og vesturs næstum eins illilega saman þar og í Sýrlandi. Rússar vilja helst af öllu verða stórveldi aftur. Þau stórveldi sem mér sýnist þó að verði yfirgnæfandi alla þessa öld eru Bandaríkin, Evrópusambandið og Kína. Ekki er víst að við Íslendingar komumst hjá því að taka afstöðu með einhverju þeirra.

Þegar ég var að alast upp í Hveragerði voru fávitabrandarar vinsælir.
„Getur þú hoppað hærra en Reykjafjall?“
„Nei.“
„En það get ég.“
„???“
„Haha. Reykjafjall getur ekkert hoppað.“

IMG 5863Á brúnni.


2109 - Lestur er langbestur

Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir. Ég er orðinn hundleiður á þessu sífellda stagli. Lesendur eflaust líka. Gæti svosem hætt að minnast á það en með þessu móti finnst mér ég vera að gera eitthvert gagn. Ef svo fer á endanum að svonefndur Sýslumaður Árnesinga svarar bréfum frá lögfræðingnum um þetta mál (þau eru víst orðin fjögur talsins) get ég kannski þakkað mér það.

Skrif og myndir eru einu samskiptin sem við getum haft við hina dauðu. Myndir segja meira en mörg orð er oft sagt. Orðin eru samt undirstaða alls. Orðin eru það sem skilur okkur frá dýrunum. Skrif og bækur eru að því leyti æðri myndunum að þau gera ráð fyrir „þúinu“. Þú getur skapað þá veröld sem þér sýnist úr orðalýsingum en ekki úr myndum. Þær gera allt fyrir þig og koma í veg fyrir að þú hugsir sjálfur. Frumleiki og ímyndunarafl er það mikilvægasta í heiminum.

Lestur er mikilvægur. Gott ef hann verður ekki sífellt mikilvægari. Táknin sem við notum fyrir bókstafi og á hvaða hátt við notum orð er eitt af því merkilegasta sem við gerum. Vel má bæta myndum allskonar við, því þannig má oft flýta fyrir, en þær geta aldrei komið að fullu í staðinn fyrir orð. Hvers vegna dettur mönnum í hug að semja útskýringar (í orðum) við myndir allskonar? Segja myndirnar ekki það sem segja þarf?

Ef álit erlendra fjárfesta á Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, forsætisráðherra landsins, er yfirleitt eins slæmt og Jónas Kristjánsson vill vera láta erum við Íslendingar í vondum málum. Á ýmsan hátt eru útlendingar betur færir um að dæma Sigmund en við veslingarnir sem höfum orðið fyrir barðinu á honum. Vel getur samt verið að hann sé alls ekki eins slæmur og Jónas Kristjánsson og DV segja. Eiginlega getum við ekki annað en beðið og vonað.

Kynþáttafordómar vaða uppi. Ef „strákunum okkar“ er líkt við nasistalýð og heilu þjóðunum „slátrað“ í handbolta þá eru það bara mistök sem leiðréttast auðveldlega með afsökunarbeiðni. Mikið að hann sagði bara ekki „sorry“ í lokin. Hugsanlega er þetta samt afsakanlegt vegna ungs aldurs og heimsku. DV segir að Geir Haarde hafi sem unglingur verið mjög á móti negrum og ekkert vitað hræðilegra en að þeir kynnu að blandast hinum snjóhvítu Íslendingum. Hann vitkaðist talsvert með árunum og kannski gera fleiri það.

Já, ég er svo gamall að ég man vel eftir Útvarpi Matthildi. Atriðið með fugl dagsins (sem var hundur) er mér sérstaklega minnisstætt. Reyndar man ég líka eftir þessum fræga fugli dagsins sem entist auðvitað ekki endalaust. Margir voru þeir samt og vaninn var að spila hljóðin úr þeim rétt fyrir hádegisfréttir. Samt var það ekki síðasta lag fyrir fréttir sem var annar þáttur sem var mjög vindsæll. Næstum eins vinsæll og lunga fólksins. (Sem átti víst að vera lög unga fólksins.) Þá þótti nóg að hafa einn þátt á viku með helvítis poppinu. Þess á milli voru fluttar alvöru sinfóníur.

IMG 5858Víking gylltur.


2108 - Hakkaður eða lakkaður

Ásgautsstaðamálið lætur mig ekki í friði. Ég hef lofað sjálfum mér því að minnast á það í hverju bloggi þangað til eitthvað gerist í því. Konan mín á semsagt ásamt systkinum sínum einn níunda hluta jarðarinnar en Árborg (áður Selfoss) nýtir jörðina einsog lögmæta eign. Hefur selt byggingarland á henni o.s.frv. Lögfræðingur hefur haft þetta mál til meðferðar í mörg ár en ekki er annað að sjá en maður gangi undir manns hönd við að draga þetta mál sem mest á langinn. Fyrst skrifaði ég um þetta þann 10. desember s.l.

Spurningin er um það að vera hakkaður eða lakkaður. Held ég hafi sagt söguna af því hér einhverntíma. „National hacking day“ skrifar Salvör Kristjana um og að miklu leyti er ég henni sammála. Skoðanir hennar í höfundarréttarmálum eru þó að sumra áliti afar öfgakenndar. Mér finnst hinsvegar afar öfgakennt að ímynda sér að sú tækni- og tölvubylting sem gengið hefur yfir heiminn á síðustu árum og mun halda áfram að gera það í sívaxandi mæli, hafi engin áhrif á höfundarréttarmál. Kaus Píratana í síðustu kosningum og mun sennilega gera það aftur.

Varðandi nasistaummæli Björns Braga sem mikið hefur verið fjallað um að undanförnu vil ég bara segja það að mér finnst afsakanlegt, vegna fámennis þjóðarinnar, að hann verði áfram starfandi hjá RUV, þrátt fyrir aulahúmor og virðingarleysi. Þó hann sé vitlaus að þessu leyti þá er honum greinilega ekki alls varnað. Annars staðar hefði hann umsvifalaust verið látinn fjúka, en það getur vel verið að notast megi við hann.

Ég er alveg viss um að núverandi stjórn muni sitja a.m.k. meginhluta þessa kjörtímabils. Jafnvel það allt. Hvort hún verður endurkjörin veit ég auðvitað ekkert um. Líklegt þykir mér það þó ekki. Ef hjól atvinnulífsins verða ekki farin að snúast af talsverðum hraða þegar að næstu alþingiskosningum kemur hefur henni mistekist hrapallega. Fyrri ríkisstjórn mistókst líka margt. Að mestu leyti tókst henni þó að koma okkur útúr kreppunni. Kannski ekki á þann hátt sem sumir hópar hefðu óskað sér, en núverandi ríkisstjórn getur ekki endalaust kennt slæmum viðskilnaði um þann vanda sem hún glímir við.

Með hjálp netsins má búast við að flokkaskipan landsins riðlist verulega líkt og gerðist í upphafi síðustu aldar. Áherslur allar hafa gjörbreyst á 100 árum og er það engin furða. Kalda stríðið er líka búið og óþarfi að láta það trufla sig. Bandaríki Norður Ameríku upplifðu gósentíð að lokinni síðustu heimsstyrjöld. Þau fantatök sem þau hafa á efnahagslífi heimsins eru að byrja að linast. Ekki er víst að neitt betra taki við. Litlu þjóðríkin sem allsstaðar spruttu upp í byrjun og framyfir miðja síðustu öld eru að mörgu leyti komin úr móð. Heimurinn allur fléttast með vaxandi hætti saman og allskyns bandalög landa og ríkja virðast vera það sem koma skal. Íslendingar ættu ekki að láta þau tækifæri, sem bandalögin veita, fram hjá sér fara og þessvegna styð ég inngöngu Íslands í ESB.

Vitanlega gera það ekki allir sem ég þekki. Þetta er þó það mál sem langmestu máli skiptir pólitískt séð. Þessu er alls ekki hægt að svara á endanum nema með já-i eða nei-i. Það er ekki einu sinni hægt að fresta því endalaust að taka ákvörðun. Núverandi stjórnvöld vilja það þó helst og líklega mun ekkert gerast næstu árin varðandi viðræður við ESB.

Fulltrúalýðræðið liggur líka undir ámæli. Enginn vafi er á því að með vaxandi netnotkun muni þáttaka almennings í stjórnmálum fara vaxandi. Þeim fulltrúum sem kosnir eru í alþingiskosningum er í auknum mæli vantreyst til að taka ákvarðanir í öllum málum. Almenningur mun ekki láta stofnunina Alþingi kúga sig endalaust. Þingbundið lýðræði er ekki nein endanleg lausn. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru það ekki heldur. Þar munu samt átakalínur stjórnmálanna verða næstu áratugina. Alþingi mun berjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslum eða a.m.k. vilja hafa þær eftir sínu höfði. Um það leyti sem hyllir undir samkomulag milli þessara andstæðu fylkinga mun eitthvað alveg nýtt blasa við.

Á árinu 2013 umpólaðist ég að miklu leyti hvað hnatthlýnun snertir. Áður hélt ég að þó hún væri e.t.v. staðreynd þá væri umdeilanlegt hvort hún væri af mannavöldum. Núorðið virðist mér það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hún sé það. Afleiðingar hennar eru samt af mörgum ofmetnar. Mest er ég sammála andhlýnunarsinnum um það að hæfileiki mannkynsins til að bregðast við aðsteðjandi vanda er sífellt vanmetinn. Kannski er ekki hægt að treysta á hann endalaust en ég þverneita samt að hafa af þessu verulegar áhyggjur.

IMG 5841Kringlumýrarbraut að kvöldlagi. 


2107 - Sience fiction

Aðallega er það útaf einhverri misskilinni skyldurækni sem ég minnist á Ásgautsstaðamálið hér í upphafi þessa bloggs. Líkt og nokkuð lengi undanfarið gerist fátt í því máli þessa dagana. Ég mun þó halda áfram að fylgja því eftir og alls ekki er útilokað að eitthvað gerist í því fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar.

Eins og mörgum er kunnugt er orðið „dystopia“ tengt vísindaskáldsögum (science fiction). Eiginlega er það nokkurs konar andstaða við „utopia“ sem ennþá fleiri kannast við. Í flestra hugum er það sennilega uppáhaldslandið þeirra. Útópían altsvo. Af vísindaskáldsögum hugnast mér einna best svokallaðar „post-apocalyptískar“ sögur sem gerast hér á jörðinni. Gjarnan mega þær vera einskonar sambland af utopiu og dystopiu eins og sagan sem ég er að lesa núna þessa dagana í Kyndlinum mínum. „Gone to Ground“ heitir hún og er eftir Cheryl Taylor.

Rómantíkin og dramatíkin flækist mikið fyrir höfundi þeirrar sögu en hún er samt prýðilega gerð og afar raunveruleg nema þá helst í bláendann. Sú saga gerist á kúrekaslóðum í Bandaríkjunum og á sama hátt og í bókinni „The Stand“ eftir Stephen King eru, til þæginda fyrir höfundinn, næstum allir íbúar jarðarinnar dauðir eftir harkalegan innflúensufaraldur. Cheryl þessi Taylor jafnast þó ekki sem rithöfundur á við Stephen King (sem er snillingur).

Eina bók man ég eftir að hafa lesið á íslensku um svona efni. Hún heitir „Eftir flóðið“ og er eftir PC Jersild ef ég man rétt. Það eru allmargir áratugir síðan ég las þá bók og kannski hefur það verið fyrsta „post-apocalyptíska“ bókin sem ég las.

Hversvegna ekki að vanda sig svolítið við blogg- og fésbókarskrif? Mér finnst það vera hálfgerð vanvirðing við lesendurnar að vanda sig ekki neitt. Láta semsagt allt flakka. Jafnvel þó allir geti lesið það og geri það kannski. Hugsanlega þó ekki fyrr en eftir áratugi en líklega verður þetta alltaf þarna. Munum það. Ég vanda mig oft heilmikið við bloggskrifin. Gæti varla hugsað mér að vera rithöfundur og fá ekkert um það að vita fyrr en eftir ár eða svo hverning til hefur tekist. Man vel eftir því úr skóla hvað okkur lá alltaf á að fá að vita einkunnirnar.

Er hugsi yfir því hve auðvelt er að gefa út bækur þessa dagana.  Amazon og eflaust fleiri bjóða uppá þá þjónustu að maður geti gefið út sínar eigin bækur fyrir lítinn pening. Hugsanlega leggur enginn í að lesa ósköpin en gamla skilgreiningin (a.m.k. hér á Íslandi) var sú að allir sem hefðu gefið út bók væru rithöfundar. Dóttir mín gaf út sína fyrstu bók þegar hún var þriggja ára. Ætli sonardóttir mín hafi ekki verið orðin svona tveggja ára þegar gefin var út bók sem innihélt eingöngu myndir af henni. Konan mín gaf út bók (sem seldist vel og lengi) þegar dóttir mín fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Það var ein af fyrstu matreiðslubókunum á íslensku og sérstaklega sniðin að túristum.

Nú er þorrinn að byrja og í kvöld (laugardagskvöld) verðum við víst í einhverskonar þorrablóti. Hver og einn tekur með sér það sem honum þykir best af þorramat og svo fá allir að smakka hjá öllum. Þetta er afar auðvelt að skipuleggja.

Auðvitað er bloggið mitt að sumu leyti dagbók. En af hverju í ósköpunum er maður að þessu? Ekki er það í hagnaðarskyni. Ekki er það einhver sérstök þörf á að láta ljós sitt skína. Að einhverju leyti finnst mér samt sú vera raunin. Er maður að þessum sífelldu skrifum fyrir sjálfan sig eða einhverja aðra. Ég verð að viðurkenna að ég blogga fremur fyrir aðra, en fyrir sjálfan mig. Á sínum tíma hélt ég dagbók sem var algjörlega fyrir sjálfan mig. En hvert er gildi hennar ef maður lítur aldrei í hana? Með aðstoð Gúgla gamla get ég fundið flest það sem ég vil í blogginu mínu. Oft lýsir það ágætlega því sem ég hef verið að hugsa um á þeim tíma sem það er skrifað. Kannski ætti ég einmitt að gera bloggið mitt að meiri dagbók.

Núna áðan var ég að lesa blogg Óla Gneista. Hann kallar það dagbók og handahófskennt þvaður. Eiginlega lýsir það mínu bloggi líka. Þetta er ákaflega handahófskennt hjá mér um hvað ég skrifa. Hvort rétt er að kalla það þvaður finnst mér að aðrir eigi að skera úr um. Í þessu bloggi Óla Gneista er margt mjög merkilegt. Einkum er ég sammála honum um allt sem höfundarréttarmálum viðkemur. Hljómsveitaráhugi minn er hinsvegar ekki í takti við hans.

IMG 5838Áfram veginn í vagninum ek ég.


2106 - Áfir

Ásgautsstaðamálið fer víst ekki neitt. Árborg heldur áfram á sinni vegferð, þó sú braut leiði sennilega að lokum til ófarnaðar. Það var þann 10. desember s.l. sem ég minntist fyrst á þetta mál og hef haldið því áfram síðan. Þeir sem lesa bloggið mitt að staðaldri eru sjálfsagt orðnir hundleiðir á þessu. Best að hætta.

Setjum nú sem svo að Gunnar Bragi sigri í málshöfðun sinni gegn Evrópusambandinu (er hann ekki örugglega að reyna að fá þessa þorskhausa til að hætta að ausa í okkur peningum?) Verður hann þá ekki að halda viðræðum eitthvað áfram? Þó ekki væri nema til málamynda. Gerum jafnvel ráð fyrir að sambandsmenn komi með svo gott tilboð að samninganefndin samþykki það. Verður þá ekki að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla og er það ekki einmitt það sem Gunnar Bragi óttast mest?  Simmi segist alveg geta sofið rólegur vegna þess. Óvíst er með aðra. Bjarna langar áreiðanlega til að samþykkja, ef hann getur gert Hönnu Birnu óskaðlega fyrst.

Ekki þreytist ég á að hallmæla fésbókinni. Share if you see „hitt eða þetta“. Með er svo birt einhver hundómerkileg 100 ára gömul felumynd. En hvað verður gert við þá sem sjá en séra ekki? Verða þeir drepnir? Best að taka enga sénsa. Annars er svona fyrirskipanatónn hundleiðinlegur. Mér finnst að það hljóti að vanta eitthvað í þá sem standa fyrir svona séringum.

Mér er nær að halda að það breyti ekki nokkrum sköpuðum hlut þó farið verði að fikta í klukkunni. Auðvitað er ekki hægt að banna það frekar en það er hægt að banna Jóni Steinari að tala, eða öllu heldur skrifa. Ég er nefnilega alls ekki sammála honum, Sigurði Líndal og Brynjari Níelssyni um að últra-íhaldssemi sé alltaf til bóta. Dómskerfið breytist eins og annað hér á Íslandi. Tungumálið hefur reyndar breyst ákaflega lítið í aldanna rás, eftir því sem sagt er. Sennilega er það þessvegna sem við erum svona skrýtin.

Nú er ég búinn að finna bók um REI-málið. Hún heitir reyndar „Sjúddirari rei“ og það er ekki alveg víst að hún fjalli um REI-málið sem ég ætlaði að kynna mér. Það mál var um Orkuveituna, Borgarstjórn Reykjavíkur og jafnvel sjálfstæða framsóknarflokkinn. Þessi bók virðist vera um einhvern Gylfa Ægisson og kannski er það bara aftast í bókinni sem fjallað er um REI-málið. Þetta átti nú að vera brandari en er það kannski ekki.

Bónusverð á rjómalítra og smjörkílói eru sambærileg. Er þetta svona og á það að vera þannig? Vekur rangt verð litla athygli neytenda þegar vörur kosta mörg hundruð krónur? Kartöflukíló gera það ekki. Mér skilst að ekki sé nóg að veifa einhverjum töfrasprota yfir rjómanum svo hann verði að smjöri, heldur þurfi meira til og áfirnar sem afgangs verða við vinnsluna séu lítils virði. Írska Evrópusambandssmjörið flækir líka málið. Þar að auki segja sumir að það þurfi 2 og hálfan lítra af rjóma til að gera eitt kíló af smjöri. Þurfum við vesalings neytendur að vera sérfræðingar í öllu? Er engum hægt að treysta?

Margir umhverfissinnar óska þess sjálfsagt að umhverfisráðherra umhverfist í afstöðu sinni til Þjórsárvera. Annars virðist þetta vera allflókið mál og ekki að vita hvernig það fer. Það eru ekki síður umhverfisverndunarsinnar (alltof langt orð) sem flækja málið. Mér sýnist umhverfisráðherra vera að ganga erinda Landsvirkjunar í þessu. Kannski er það eðlilegt. Eðlilegt væri líka að viðurkenna það ef svo er.

IMG 5832Gamlárskvöldið undirbúið.


2105 - Sjálfsþurftarbúskapur

Það fer að verða svolítið vandasamt að halda þessu bloggi úti sem einhverju sérstöku Ásgautsstaðabloggi. Ég vil nefnilega ekki fæla menn frá því að semja um þetta lítilræði með of því að vera of skömmóttur eða orðljótur því hugsanlegt er að menn séu að vitkast pínulítið. Fyrri blogg mín vil ég þó minna á. Ég  byrjaði nefnilega að blogga um þetta mál þann 10. desember s.l. og hef minnst á það í hverju einasta bloggi síðan. Sennilega held ég því áfram þangað til eitthvað verulega róttækt gerist í málinu.

Einhversstaðar sá ég um daginn minnst á sjálfsþurftarbúskap. Hann var mikið stundaður áður fyrr hér á Íslandi. Sveitabýlin þurfu að vera sjálfum sér nóg um flesta hluti. Kaupstaðarferðir voru ekki margar. Kannski svona tvær á ári.

Bærinn Traðir er skammt frá Staðastað á Snæfellsnesi. Þegar ég fluttist að Vegamótum á Snæfellsnesi árið 1970 var einhver Guðmundur að mig minnir bóndi þar. Hann var einbúi. Sá bóndi held á að hafi komist næst því að vera með sjálfsþurftarbúskap af öllum sem ég hef þekkt. Í þau örfáu skipti sem hann kom á Vegamót vanhagaði hann ekki um annað en lýsi og rúgbrauð. Kannski keypti hann svolítið af haframjöli líka. Er ekki viss.

Fidel Castro og Hriflu-Jónas hafa sennilega verið afar líkir. Ekki kannski í útliti en þeim mun meira andlega séð. Þó var annar þeirra mikill aðdáandi bandarískrar og breskrar menningar en hinn sneri sér meir að Krúsjéffum og Andrópoffum Sovétríkjanna. Þetta kemur fram í athugasemd við bloggfærslu Stefáns Snævarrs á Eyjunni.is og er ekki ástæða til að efast um að sé rétt. Báðir voru þeir á vissan hátt fórnarlömb kalda stríðsins og hefðu þeir alist upp saman eða í samskonar menningu og við svipuð tækifæri hefðu ferlar þeirra sennilega orðið nauðalíkir hvor öðrum.

Tók eftir því í gærkvöldi hve langt er síðan ég hef skoðað Baggalútsfréttir. Sennilega er ég þessvegna svona súr jafnaðarlega. Síðasta fréttin áður en blaðsíðunni lauk var nefnilega tímamótafréttin um eignina sem fannst í þrotabúinu. Þá merkilegu frétt hafði ég séð áður. Sumum finnst hún kannski hálfútúrsnúningsleg. Svo er þó alls ekki. Heldur er þetta einmitt tímamótafrétt. Næstum því eins merkileg og fréttin um konuna sem dó úr hlátri og sagt var frá í fyrra.

Mér virðist að Sjálfstæðismenn séu að skjóta sig í fótinn varðandi borgarstjórnarkosningarnar í vor. Réttara væri kannski að segja að Davíð fyrrverandi formaður sé að skjóta Halldór frá Ísafirði í fótinn. Davíð, og Mogginn kannski líka, er greinilega búinn að gefa Reykjavík uppá bátinn. Mosfellssveit og Garðabær skal það vera, félagi.

Ég er búinn að sjá að það eru margir góðir kostir við að vera gamall. T.d. reiknar enginn með að maður geti neitt og sé ákaflega vitlaus. Vel má nýta sér það. Fáir eru eins vitlausir og þeir sýnast. Skárra væri það nú. Flestir eru mun gáfaðri en þeir líta út fyrir að vera. Á þessu má vara sig. Nú vantar mig bara góða sögu eftir Jens Guð eftir þennan fína inngang. Kannski ég reyni bara að semja hana sjálfur.

Einu sinni fyrir langalöngu var gamall maður sem var hreint ekki svo vitlaus. Hann leit bara út fyrir það því hann fór sér svo hægt að öllu. Það ber einmitt vott um miklar gáfur að flýta sér ekki um of. Þetta vita flestir nema þeir sem flýta sér um of. Þegar hann fór t.d. niður stiga tók hann bara eitt þrep í einu og hvíldi sig vel og vandlega eftir það. Þetta gerði hann vegna þess að hann nennti ekki að gera annað. Auðvitað var hann ekki heilan dag að fara niður (eða upp) einn stiga en hann passaði sig á að vera líka lengi að öllu öðru. Þannig tókst honum að eyða deginum.

Annars er þetta ekki góð saga. Eiginlega þyrfti að vera mynd með þessu til útskýringar, en ég nenni bara ekki að leita að henni.

Til að geta bloggað oft og mikið (eins og ég) þarf maður að vera tilbúinn til að skrifa allskyns vitleysu. Þetta hef ég vanið mig á. Stórhættulegt er að taka alvarlega það sem ég skrifa. Sumt skrifa ég þó í fúlustu alvöru. Enginn ætti samt að taka það of alvarlega. Nú er ég eiginlega hættur að skilja þetta bull sjálfur.

Ekki kæmi mér á óvart þó þjóðaratkvæðagreiðsla yrði um klukkuna. Ég mundi vilja láta flýta henni um svona mánuð.

IMG 5669Hættulegt jólaskraut.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband