Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

1247 - Þingrof o.fl.

Í stjórnmálaumræðu er gjarnan reynt að auka viðsjár milli landsbyggðar og þéttbýlis. Einkum er það reynt með því að snúa tölum á haus og leggja saman fjárveitingar á ýmsan hátt til að fá þá útkomu sem óskað er. Þetta er illa gert og þarflaust með öllu. Allir sjá að við eigum að starfa saman og hagur fólks fer ekki aðallega eftir því hvar það býr. Nær er að leita annars staðar að ýmiss konar misrétti og spillingu.

Í kommentakerfinu hjá mér var í gær svolítið rætt um þingrofsheimildir og þess háttar.

Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að ef ríkisstjórnin (í umboði alþingis) ræður ekki hvenær þing er rofið heldur forsetinn þá búum við ekki við þingræði lengur heldur forsetaræði. Að því leyti sem lýðræði kemur þarna við sögu þá er það greinilega ríkisstjórnarmegin því þingrof kallar á alþingiskosningar fljótlega.

Er samt óneitanlega farinn að velta því fyrir mér hvort ÓRG stjórnist eingöngu af vinsældum og hvort hann ætli virkilega að fara í forsetaframboð einu sinni enn. Ýmislegt stangast á í núverandi stjórnarskrá og hlutverk þess stjórnlagaþings sem saman kemur í febrúar er m.a. að ráða bót á því.

„Drífðu þig nú til Nikkolæ og fáðu þér naglalökk". Sennilega hlusta ég meira á Útvarp Sögu en góðu hófi gegnir. Sú hugmynd hefur hvarflað að mér að svo lengi geti aulýsingar hljómað í eyrum fólks að þær fari að hafa öfug áhrif. Eða engin.

Skorað var á mig í gær að skrifa eitthvað um höfundarréttarmál. Það er guðvelkomið en ég er bara með þeim ósköpum gerður að ég er á móti öllum höfundarrétti. Auðvitað skil ég ósköp vel að hann er grundvöllur allrar listsköpunar í því kerfi sem ríkir á Vesturlöndum. Það er samt ekkert sjálfsagt við hann í eðli sínu.

Það má skrifa margar bækur um höfundarréttarmál og færa ýmis rök bæði með honum og á móti en ekkert held ég að fái sannfært mig um að hann sé annað en tæki til að færa til peninga. Eign er þjófnaður segja kommúnistar og óefnisleg eign er það enn frekar.

IMG 3988Háskólinn í Reykjavík.


1246 - Meira um WikiLeaks

Nú eru spákonur komnar á kreik og farnar að spá fyrir um næsta ár. Yfirleitt er ekkert að marka þær en þetta er saklaus skemmtun meðan hún meiðir engan. Samt er ekki örgrannt um að einhverjir trúi þessu.

WikiLeaks málið er merkilegasta fréttamálið sem fram hefur komið á þessu ári og því er hvergi nærri lokið. Það er fyrst og fremst barátta milli stjórnvalda og almennings þó stjórnmál blandist auðvitað þar inní. Óeining innan WikiLeaks samtakanna auðveldar stjórnvöldum e.t.v. að ná sínu fram.

Tengsl málsins við Ísland gera það að sjálfsögðu áhugaverðara fyrir okkur og vel getur verið að við eigum næsta leik. Ómögulegt er að segja hvort tengsl Íslands við málið eigi eftir að aukast eða minnka.

Málfrelsi á netinu og höfundarréttur hvers konar finnst mér skipta miklu máli. Ég gæti gerst afar langorður um þau mál. Því fer fjarri að þar sé allt eins klippt og skorið og sumir vilja vera láta. Tölvur og Internet hafa gjörbreytt heiminum á tiltölulega fáum árum og sú breyting er langt frá því að vera um garð gengin.

Stjórnmál munu í vaxandi mæli snúast um gegnsæi og leynd. Leyndarhyggja stjórnvalda hefur beðið mikinn hnekki fyrir tilverknað WikiLeaks. Það er þó ekki ásættanlegt að WikiLeaks eða stjórnendur þar ákveði hvað skuli fara leynt. Stundum er slík leynd bráðnauðsynleg.

Fjölyrt er núna nokkuð um hugsanleg stjórnarslit. Í því sambandi vil ég bara minna á að væntanlega er þingrofsheimild í höndum Jóhönnu Sigurðardóttur. Össur ræður þar eflaust einhverju og að sjálfsögðu Steingrímur. Ástæðulaust er fyrir þau að fara á taugum þó stjórnarandstaðan hafi hátt.

Mér finnst erfitt að skilja íslenska pólitík. Get t.d. ómögulega áttað mig á hvort Guðbjörn Guðbjörnsson og hans menn eru hægra eða vinstra megin við Bjarna Benediktsson og afganginn af sjálfstæðisflokknum.

Þegar rætt er um stjórnmál er freisting að vera persónulegur. Flest blogg eru það. Samt er það ekki árangursríkt til langframa. Stefnan ætti að vera það mikilvægasta og er það yfirleitt hvað sem hver segir.

IMG 3987Tvær mílur = þónokkrir kílómetrar.


1245 - Jólalok

Jóhannes Laxdal kallar mig sjálfhælinn bloggara. Það getur vel verið rétt hjá honum. Ég þykist samt hæla sjálfum mér á svolítið Þórbergskan hátt og þannig að ekki sé nauðsynlegt að taka það alvarlega. Annars hef ég yfirleitt mjög gaman af að lesa kommentin við bloggin mín. Það eru oft þeir sömu sem kommenta en það gerir ekkert til. Ef kommentin koma mjög seint geta þau að vísu misst marks. 

Er að lesa bókina eftir Sigurð A. Magnússon sem ég minntist á í síðasta bloggi. Mér finnst hann vera sjálfhælinn á allt annan hátt en ég. Hressandi samt að lesa slíkt. Ástæðulaust að leyna afrekum sínum. Ef aðrir hrósa manni ekki verður maður að gera það sjálfur. Erfitt að vera með öllu án hróss. Sigurður gerir stundum mikið úr göllum sínum líka og reynir með því að gera hrósið trúverðugra. Það er ein aðferð.

Jóhannes Laxdal kvartar líka undan því að skrifin hjá mér lognist útaf í leiðindum. Það er hans mat og ég get lítið við því gert. Takmarki mínu er þó náð ef hann lætur svo lítið að lesa þau.

Kannski er það einn helsti galli bloggskrifa að vaða svona úr einu í annað eins og ég geri. Mér finnst það bara tilheyra. Leiðist alveg geigvænlega að fabúlera lengi um sama hlutinn. Þó eru flestar blaðagreinar þannig. Þar er talað fram og aftur um það sama og höfundurinn telur sig eflaust vera að fjalla ýtarlega um málefnið. Mér leiðist bara.

Sennilega er það einmitt rithöfundaragi að sitja mánuðum eða árum saman við að semja bók. Hún má ekki fara útum víðan völl. Heldur verður hún að fjalla um það efni sem ákveðið er. Þá vil ég fremur agaleysið og óheftu tjáninguna. Því skyldi ég ekki þenja mig um hvað sem er? Kannski er þetta það eina sem ég get.

Íslenskir krimmar eru yfirleitt óttaleg froða. Hvort sem höfundurinn heitir Yrsa, Arnaldur eða jafnvel eitthvað annað virðist aðalmálið vera að teygja lopann sem allra mest. Auðvitað getur verið afþreying að lesa þetta en ekki skilur það mikið eftir. Verst er að höfundarnir eru mistækir. Það veit maður þó oftast ekki fyrr en eftirá. Þá er bókin sem maður var að enda við að lesa yfirleitt sú lakasta eftir viðkomandi.

Eiginlega eru jól og áramót hjá flestum ein samhangandi stórveisla. Nú eru flugeldamarkaðirnir farnir að spretta upp eins og gorkúlur um alla borg. En maður nær þó smáhvíld milli aðaldaganna. Rétt svona til að smakka plokkfisk og rúgbrauð og jafna sig. Svo endar þetta alltsaman gjarnan með glórulausu fylliríi. Svona er nú hækkandi sól fagnað hér um slóðir. Læt jesúbarnið liggja milli hluta. Það trúa hvort eð er svo fáir á það.

Enginn slær út hina ljósmyndaglöðu ElluHelgu í hverskyns matarbloggi. - Enda eru matarblogg svo vinsæl og skemmtileg. - Iss, svo þarf að skíta þessu öllusaman, ekki er það nú skemmtilegt. - Það er ekkert verra að skíta góðum mat en slæmum. - Ég vildi að ég væri enn að éta jólamatinn. Svo færi ég að sofa og svæfi vel og lengi og settist svo að jólaborðinu aftur. - Hvað, og engir afgangar eða fyrningar? - Jú, jú. Tvöfaldir afgangar og geymdust margfalt betur. Fengi ekki fisk fyrr en á næsta ári. - Ha? Jafnvel skötu? - Nei, ég segi það nú ekki.

Var að enda við að horfa í íslenska sjónvarpinu á heilmikla umfjöllun um WikiLeaks. Andstæðingar þeirra WikiLeaksmanna hafa eflaust ýmislegt við þá umfjöllun að athuga.

Þó finnst mér vel mega taka undir þá kröfu að hinum alþjóðlegu greiðslukortafyrirtækum sem hafa tekið að sér að valda almenningi erfiðleikum við að koma styrktargreiðslum til WikiLeaks verði gert sem erfiðast að starfa hér á Íslandi.

Auðvitað getur það komið almennum kortanotendum illa og ekki er hægt að gera ráð fyrir að Ísland skipti miklu máli í þessu tilliti. Afstöðu stjórnvalda mætti þó vel láta í ljósi við forsvarsmenn þessara fyrirtækja. Íslenska ríkisstjórnin gæti jafnvel áunnið sér virðingu einhverra með því.

IMG 3986Hér er það víst sem vegurinn endar.


1244 - Hugleiðingar um hitt og þetta

Mér hefur alltaf fundist ég standa andlega a.m.k. jafnfætis þeim sem ég hef átt samskipti við. Jafnvel talið sjálfum mér trú um að ég stæði mun framar flestöllum öðrum a.m.k. á einhverju sviði. Samt naut ég ekki þeirrar skólagöngu sem ég hefði kosið og þurft á að halda, svona eftirá séð. Hefði ég á sínum tíma farið í menntaskóla og þaðan í háskóla (að öllum líkindum) hefði líf mitt eflaust orðið allt öðruvísi en það varð. 

Held að sjálfsálitið að þessu leyti hafi hjálpað mér í gegnum lífið. Það hlýtur að vera ömurleg tilfinning að finnast maður standa öðrum að baki. Það að ég skuli ekki hafa orðið einvaldur í heiminum á mínum sokkabandsárum á sér allt saman eðlilegar skýringar. Og ekki meira um það.

Nú þegar ég er orðinn löggilt gamalmenni og þarf ekki lengur fyrir fjölskyldu að sjá er óþarfi að láta fjárhagsáhyggjur hafa mikil áhrif á líf sitt. Þessi ár sem líklega eru eftir eiga bara að vera til skemmtunar. Eiginlega á lífið allt að vera þannig en framundir eða framyfir sextugt eru flestir svo sligaðir af ábyrgðartilfinningu, og það með réttu, að varla er tími til að lifa lífinu.

Bókmenntalega séð er ég jafnan svolítið á eftir öðrum. Núna er ég t.d. að byrja á bókinni „Ljósatími". Hún er eftir Sigurð A. Magnússon og ber undirtitilinn „Einskonar uppgjör". Bók þessi var gefin út árið 2003 og virðist fjalla um ýmislegt. Sigurður A. Magnússon er líka annálaður ritræpukall og ég hef alla tíð haft gaman af að lesa bækur eftir hann. Hreifst t.d. mjög af bókinni sem hann nefndi „Undir kalstjörnu" þó hún væri ansi kjaftasöguleg.

Það getur vel verið að ég minnist oftar á SAM í þessum pistlum mínum. Hann hefur verið svo áberandi í íslensku menningarlífi að hann á það sannarlega skilið. Á margan hátt er hann einstakur. Fáir sem kalla sig rithöfunda hafa tíundað sína verðleika sjálfir jafnoft og jafnýtarlega og hann.

Sá skáldlegi neisti sem margir rithöfundar eru sífellt að rembast við að rækta sem best hefur að mestu látið Sigurð í friði. Þessvegna er svo gaman að lesa hann. Ég þoli líka illa skáldsögur núorðið. Lífið sjálft er langtum mikilvægara. Ef skáldsögur fræða mann um eitthvað mikilvægt getur samt alveg verið þess virði að lesa þær. Annars ekki.

Skákin hefur skipt mig máli í lífinu. Þó ákvað ég að láta hana róa þegar mér fannst hún vera farin að skipta of miklu máli. Hugsanlega hefur hún rænt mig einhverju en kannski hefur hún komið mér að haldi í öðru. Um það er engin leið að fullyrða.

Fótbolta sökkti ég mér líka niður í áður og fyrr. Nú finnst mér hann í flestum tílfellum tímaeyðsla hin mesta. Skil heldur ekki af hverju atvinnuknattspyrnumenn geta illa fallist á að vera kallaðir skemmtikraftar. Það er samt svo sannarlega það sem þeir eru. Þeir bestu þeirra fá líka borgað í samræmi við það.

Kjaftasögur og hjátrú er það sem ég á erfiðast með að þola. Kjaftasögurnar hafa tekið sér bólfestu á netinu. Illmælgi og rógur eru þar auðvitað líka. Það sem áður var tíundað milli sárafárra yfir kaffibollum og ólyginn hafði sagt frá er nú dengt yfir alla hvort sem þeim líkar betur eða verr á fésbók og allskonar samskiptasíðum.

1244 er númerið á þessu bloggi. Árið 1244 var hinn eini og sanni Flóabardagi háður. Frægasta sjóorrusta sem háð hefur verið á Íslandi. P-1244 var númerið á Saabinum mínum þegar ég átti heima á Snæfellsnesi. M-2644 varð það seinna meir.

Sjálfur er ég fæddur árið 1942 en aftur á móti kom Þórður Kakali til landsins árið 1242 til að hefna bræðra sinna og föður sem drepnir höfðu verið í Örlygsstaðabardaga. Las einhverntíma um þetta og held að hann hafi komið að landi að Gásum. Sú atburðarás sem þar hófst endaði svo í Flóabardaganum sjálfum, en Sturlungu ætla ég ekki að endursegja hér.

IMG 3984Vin í eyðimörkinni.


1243 - Annar í jólum

Nú er kominn tími til að undirbúa næstu bloggfærslu. Ég er ekki eins og sumir að skella upp bloggi undireins og mér dettur eitthvað í hug. Safna frekar hugdettum saman í heilan dag ef ég get. Snurfusa þær jafnvel svolítið til áður en ég sendi þær út í eterinn. Verst hvað mér dettur fátt í hug. Jú, mér dettur það í hug að sumar hugdettur eru tímabundnar og þá eiga þær tvímælalaust frekar erindi á fésbókina en í bloggið.

Á íslensku er gefið út tímarit sem gól heitir. (Þó skrifað goal) Þetta tímarit fjallar að mér skilst um knattspyrnu og á það vel við. Okkar eðla ríkisútvarp minntist á þetta fyrirbrigði í hádegisfréttum áðan án þess að blikna. (Hvernig blikna útvarpstæki annars?) Auðvitað er samt eðlilegast fyrir þá sem finnst nafnið skítt að láta vera að minnast á það.

Eitt sinn var Jón Múli Árnason að lesa tilkynningar í útvarp allra landsmanna. Þá voru útvarpsauglýsingar lesnar en ekki leiknar. Hann minntist meðal annars á drykkinn „hi sé" en hikaði svolítið því honum fannst nafnið undarlegt. Auglýsandinn hefur líklega vonast til að Jón segði „hæ-sí" en þannig var hann ekki.

Internetið og tölvutæknin eru þau fyrirbrigði sem breyta munu heiminum. Tækjasjúkt fólk er víðar til en á Vesturlöndum. Digital-tæknin er að leggja undir sig jólagjafamarkaðinn eins og hann leggur sig og aðra markaði einnig. Bækur halda þó áfram að vera vinsælar jólagjafir og eru löngu hættar að hækka í verði. Í mínum huga eru jólin samt enn hátíð ljósanna fremur en tækjanna einkum vegna þess að vorið er byrjað að nálgast þó í hænufetum sé.

Einu sinni sagði Emil Hannes að ég væri einhver besti miðnæturbloggarinn á Moggablogginu. Þannig skildi ég hann að minnsta kosti og hann getur ekkert hlaupið frá því.

Þessvegna meðal annars bíð ég oftast eftir því að miðnættið komi svo ég geti sett upp bloggið mitt og farið að sofa. Líka er mjög gott að hafa þetta svona ef mér tækist ekki að skrifa neitt. Þá hef ég nefnilega uppá heilan dag að hlaupa án þess að rofni mitt daglega blogg.

Þú tókst kannski eftir því, en ég ákvað að skrifa þessa grein í Sæmundarstíl. Það er allt í lagi að vera ósammála um suma hluti sem skipta máli, það þýðir líklega að forsendur okkar séu ólíkar." 

Sagði Don Hrannar í athugasemd á sínu bloggi um daginn. Og kvarnirnar fóru á fullt. Hvað skyldi maðurinn eiga við? Er ekki nóg að ég skuli hafa predikað um Sæmundarhátt í bloggi og reynt að vekja athygli á honum? Þarf ég nú að burðast með eigin stíl að auki? Er hann að hæðast að mér? Getur það verið? Nei, ekki Hrannar.

Fór í mína morgungöngu núna seinni partinn og fylgdist með grámyglunni og náttmyrkrinu leggjast eins og möru yfir borgina. Vindurinn þaut í trjátoppunum og þokusúldin gerði allt blautt og óhrjálegt. Samt eru jól.

Tveir Moggabloggarar (og líklega fleiri) sem ég hef fylgst talsvert með og met mikils þeir Friðrik Hansen Guðmundsson verkfræðingur og Guðbjörn Guðbjörnsson óperusöngvari með meiru (sem bloggar líka heil ósköp á Eyjunni) eru nú í fullum gangi við að stofna nýjan stjórnmálaflokk.

Eins og ég skil málið þá á þessi flokkur að vera einhvernsstaðar milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks mælt á hægri-vinstri skala. Þó kannski ívið nær Sjálfstæðisflokknum. Friðrik var áður búinn að stofna Norræna íhaldsflokkinn en nýi flokkurinn á að ég held að heita Norræni borgaraflokkurinn. Annars á þetta með nafngiftirnar eftir að koma betur í ljós.

Vinstri-hægri skalinn er líka ansi óljós fyrir mér og ugglaust ýmsum öðrum. Getur samt hjálpað við greiningu. Hefði haldið að okkur Íslendinga vantaði ýmislegt fremur en nýja stjórnmálaflokka. Þó getur þessi tilraun orðið áhugaverð.

IMG 3983Gullfiskabúr.


1242 - Jól 2010

Skelfing er allt friðsælt þegar maður vaknar snemma á Jóladagsmorgni. Meira að segja götuljósin eru einmana. Jólatréspælingar eiga ekki við. Umferðarmál eru útúr kú. Stjórnmálin valda stjarfa. Nú já, þetta er bara stuðlað hjá mér. 

Ekki snemmt í rauninni. Þó ekki farið að birta. Snjóplógur rennur framhjá. Engir bílar, allir sofandi. Og fólk sefur sem aldrei fyrr. Sumir halda sjópokajól. Aðrir bókajól. Sumir engin jól.

Hefst nú murrið og kurrið aftur. Samanborðið við margt annað á blogginu er það kraftlaust. Persónulegar árásir alltof fáar. Kjaftasögur nær engar og þannig mætti lengi telja. Samt er þessi óhroði lesinn.

Gísli Ásgeirsson skrifar á bloggi sínu (malbein.net - kann ekki að setja djúpkrækju) um fingralanga Fréttablaðsmenn. Þeir stelast nefnilega til að birta blogg-greinar eftir hann. Eiginlega er ég alveg sammála honum en sá er munur á okkur að ég er uppá náð og miskunn Moggabloggsguðanna kominn. Fyrir nú utan það að líklega er mun meiri freisting að stela frá Gísla en mér. 

Samt hefur Mogginn birt frásagnir eftir mig. Stolnar eða ekki stolnar, hvað veit ég? Kannski samþykkti ég eitthvað einhverntíma með aðgerðarleysi eða öðru meðvitundarleysi.

Höfundarréttur eða höfundarréttur ekki, það er spurningin. Hvar væri netið statt ef svar við þessu væri afdráttarlaust?

Það er um að gera að vera aktívur við að skrifa hjá sér ef manni dettur eitthvað snjallt og skáldlegt í hug. Mér dettur bar svo sjaldan eitthvað í hug.

Nú mega Reynir Pétur og Lilja Mósesar fara að vara sig. Flokksaginn kominn á kreik. Úrbræddir samfylkingarmenn á hverju strái. Svei mér, ef einhverjir fælast ekki.

Ég er nú svo hræðilega gamaldags ég er að lesa um þessar mundir bókina „Bóksalinn í Kabúl". Já, einu sinni var eymdin í Afganistan hæstmóðins. Hvað skyldi vera í tísku núna? Vatnslekinn í Wiki? Veit það ekki.

„Bóksalinn í Kabúl" er reyndar fróðleg bók og vel skrifuð. Erfitt er samt að komast hjá því að halda að höfundurinn máli ýmislegt í fullsterkum litum. Lífskjörum fólks í Kabúl er ágætlega lýst. Eflaust er þó of mikið gert úr eymdinni .

Okkur hinu vestræna og kreppuþreytta fólki væri hollt að minnast þess að enginn vafi er á að við erum í hópi forréttindafólks ef litið er á heiminn sem heild. Það er samt ekki okkur að kenna og hvert og eitt okkar er ekki í neinni aðstöðu til að breyta því.

Foglarnir láta ekki að sér hæða þó jólin séu komin. Sitja á trágreinum og sveiflast til og frá í hríðinni. Mannskepnurnar hamast við að skafa bílrúður eins og hjálpræðið sé í því fólgið. Já, það er orðið bjart.

IMG 3971Bjart er yfir Borgarspítala.


1241 - Endurnýting ehf.

Nú er ég kominn í endurnýtingargírinn fyrir alvöru. Er að hugsa um að endurnýta aðfangadagsfærsluna frá í fyrra. Hún fjallaði víst um aðfangadagsbylinn fræga og var endurnýting líka ef ég man rétt. Aðvörun lokið. Allt hér fyrir aftan er endurnýting.

Held að þetta hafi verið árið 1974 en samkvæmt athugasemdum í fyrra er ekki öruggt að svo sé - hugsanlega var þetta 1971. Svo er þetta endurnýting. Birti þessa frásögn um jólin í fyrra. Aðvörun lokið. 

Ólafsvíkurrútan fór á aðfangadagsmorgun úr höfuðborginni áleiðis til Ólafsvíkur. Veðrið í Reykjavík var sæmilegt en fór versnandi. Þegar komið var vestur á Mýrar var veðrið orðið mjög slæmt. Að lokum var ekki hægt að halda áfram lengur. Var rútan föst í marga klukkutíma en að lokum tókst að snúa henni við og komast um kvöldið til baka til Borgarness.

Ég var ekki í rútunni og veit lítið um hvernig þetta ferðalag gekk fyrir sig. Eflaust hefur það verið sögulegt.

Á þessum tíma var ég verslunarstjóri við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum í Miklaholstshreppi og sá einnig um rekstur veitingahússins sem þar var. Vegamót eru á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem vegurinn skiptist. Annars vegar var farið um Kerlingarskarð yfir í Helgafellssveit og þaðan til Stykkishólms en hinsvegar vestur Staðarsveit og yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Í stað þess að fara yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur mátti auðvitað komast þangað með því að fara fyrir jökul. Nú er svokölluð Vatnaleið farin í stað leiðarinnar um Kerlingarskarð.

Að Vegamótum komu þennan dag tveir menn á vel útbúnum jeppa suður yfir skarðið í veg fyrir rútuna frá Reykjavík. Annar þeirra var bóndinn á Þingvöllum í Helgafellssveit en ekki man ég hver hinn var. Þeir ætluðu að sækja farþega sem von var á með rútunni að sunnan. Þeir komu að Vegamótum um hádegisbilið og þá var veður skaplegt en fór hríðversnandi og loks bárust fréttir um að rútan hefði snúið við og kæmist engan vegin lengra. Þá fóru þeir Helgfellingar að huga að heimferð en komust hvorki lönd né strönd því veðrið var orðið arfavitlaust. Svo svartur var bylurinn að jeppinn sem þeir Helgafellssveitarmenn höfðu lagt rétt hjá veitingahúsinu sást ekki þaðan nema öðru hvoru.

Að því kom að lokað skyldi og áttu þeir félagar ekki um annað að velja en að koma með mér heim í jólamat því veðrið bannaði ferðalög með öllu. Starfsfólk í veitingahúsinu sem var úr sveitinni í kring hafði komist heim til sín við illan leik nokkru áður en lokað var.

Borðuðum við svo jólamatinn í besta yfirlæti og síðan voru pakkar upp teknir að venju. Óalgengt var og er eflaust enn að vera með óvænta matargesti á aðfangadagskvöld.

Um tíuleytið um kvöldið batnaði veðrið talsvert á stuttum tíma og héldu þeim Helgfellingum þá engin bönd. Þeir fóru undireins að athuga hvernig færðin væri á heiðinni. Komu fljótlega aftur og sögðu að eftir því sem þeir best gætu séð væri aðeins einn skafl ofarlega í Seljafellinu. Töldu þeir að mögulegt væri að moka sig í gegnum hann og komast síðan yfir skarðið og í Helgafellssveitina.

Konan mín, Áslaug Benediktsdóttir,  útbjó nesti handa þeim því þeir vildu ólmir freista þess að komast af stað áleiðis heim þó við teldum það óráð því veðrið gæti hæglega versnað aftur. Umtalað var að þeir létu vita daginn eftir hvernig gengið hefði. Vitað var að þó þeir þyrftu að moka mun meir en þeir héldu mundu þeir að minnsta kosti komast í sæluhúsið efst í Kerlingarskarðinu.

Skömmu eftir hádegi á jóladag var hringt til mín og ég látinn vita hvernig gengið hefði. Snjóskaflar í Seljafellinu höfðu verið mun meiri og erfiðari en þeir hugðu. Að lokum urðu þeir að yfirgefa bílinn og héldu gangandi í sæluhúsið.

Þá var veðrið orðið ágætt og þegar þeir höfðu gert sér gott af nestinu ákváðu þeir að halda áfram gangandi niður í Helgafellssveit. Gengu þeir alla jólanóttina og komu ekki til bæja fyrr en komið var undir hádegi á jóladag. Bíllinn var síðan sóttur nokkrum dögum seinna þegar skarðið var opnað.

Þessi aðfangadagsbylur var með þeim hörðustu sem komu meðan ég var á Vegamótum hvað veðurhæð snerti og var ósjaldan til hans vitnað til samanburðar. Snjór var hinsvegar oft meiri. -

IMG 3970Frost.


1240 - Jólin nálgast

Nú eru jólin að ganga í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa
þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Eiginlega er ástæðulaust að vera að skrifa nokkuð. Alla vega að hugleiða misskemmtilegar stjórnmálafréttir. Nær að einbeita sér að því að komast í jólaskap.

Það má jafnvel láta hefðbundin jólarifrildisefni eins og skötuna liggja á milli hluta. Þeir sem vilja skötu éta bara skötu.

Kom jólagjafastandi, jólakortum, skreytingum og þess háttar öllu á konuna mína fyrir mörgum árum svo eftir að verslunarstjórastörfum mínum lauk eru jólin eiginlega hvíldartími eins og þau eiga að vera. Jólastressið kvelur samt suma - jafnvel jólakvíði, svo ánægjan er örlítið galli blandin.

Einhver var að tala um gul jól. Þau vil ég ekki sjá. Annað hvort eiga þau að vera hvít eða rauð. Hvít jól eða póstkortajól eru mörgum hugleikin en nýfallinn snjór breytist fyrr eða síðar í bleytu og slabb. Nú eða þá stórhættulega ísingu.

Hvaða gagn er að fésbók, bloggi og öðru þessháttar? Jú, það er í sjálfu sér ágætis þerapía að koma því frá sér sem hugsað er. Kannski eru sumir að hugsa eitthvað svipað eða vilja af öðrum ástæðum taka undir það sem sagt er. Svonalagað sakar a.m.k. ekki nema ef fólk er farið að eyða óhóflegum tíma í það.

Persónulegar árásir koma kannski fyrir augu fleiri fyrir tilverknað þessara fyrirbrigða en alls ekki er víst að slíkar árásir séu eitthvað algengari eftir tilkomu netsins.

Ég ætlaði ekki að blogga neitt svo þetta er þegar orðið alltof langt.

IMG 3667Háskólinn í Reykjavík.


1239 - Krakkarnir hennar Öllumöggu

Um miðja síðustu öld sást almyrkvi á sólu syðst á Íslandi. Í tilefni af því fengu einhverjir sér lítilsháttar í tána. Þá varð góðtemplara einum að orði:

„Mér finnst nú helvíti hart að geta ekki verið ófullur einu sinni á 200 árum."

Ég man vel eftir þessum myrkva. Að vísu varð ekki almyrkvi í Hveragerði. Ég var að vinna uppá Elliheimili þegar þetta gerðist. Myrkvinn var í hádeginu og ég flýtti mér heim til að sjá hann í dökkri filmu og þorði ekki að horfa í áttina að sólinni á leiðinni heim því mér hafði verið sagt að það væri hættulegt.

Löngu seinna fylgdist ég með því í beinni útsendingu á Sky-sjónvarpsstöðinni bresku þegar almyrkvi varð einhvers staðar á Bretlandi. Niðamyrkur kom en stóð ekki lengi.

Þegar við áttum heima vesturfrá lékum við okkur oft við krakkana þeirra Árna og Öllumöggu. Skammt frá heimili þeirra var fyrrverandi sundlaug. Ósköp lítil og ómerkileg að flestra áliti en stórmerkileg samt í augum okkar krakkanna. Hún var að mestu leyti full af grjóti og þessháttar en í öðrum enda hennar var svolítið vatn. Það hafði örugglega verið þarna lengi og okkur datt ekki í hug að baða okkur þar. Kannski hefur okkur líka verið bannað það.

Á vatnsbotninum var samt líf því brunnklukkur voru þar á sveimi og þær voru mjög áhugaverðar að áliti okkar krakkanna. Þær voru á stærð við járnsmiði en gráleitar og stórhættulegar að sjálfsögðu. Öllu var þó óhætt meðan þær skriðu bara um á vatnsbotninum en þegar þær syntu upp að yfirborðinu var eins gott að vara sig.

Við höfðum nefnilega öll heyrt söguna um að þær gætu átt það til að fljúga upp í fólk og fara ofan í maga þess. Eina ráðið til að ráða niðurlögum þeirra þar var að éta átján jötunuxa. Jötunuxar voru með þeim ógeðslegustu pöddum sem við þekktum. Næstum ómögulegt var að drepa þá og svo gátu þeir átt það til að fljúga.

Þegar við sáum brunnklukkurnar synda í átt að yfirborðinu pössuðum við þessvegna að hafa munninn vel lokaðan. Þegar brunnklukkurnar nálguðust vatnsyfirborðið sneru þær sér við og ráku afturendann upp úr vatninu. Þá voru þær hvað hættulegastar. Ævinlega fóru þær samt niður í vatnið aftur og hættan leið hjá.

Hjá þessari sundlaug fann ég líka eitt sinn riffilskot. Það var sko ekki nein patróna en svoleiðis gyllt dýrmæti fundum við stöku sinnum. Nei, þetta var alveg heilt og fremst á því var gráleitur málmbútur næstum eins langur og patrónan sjálf. Þessi málmbútur var allur rifflaður og skrýtinn og fremst myndaði hann nokkurs konar odd. Man að ég hugsaði:

„Vá, þetta er líklega alvöru skot. Kannski það komi hvellur ef ég sprengi það."

Ekki er að orðlengja það að ég fann mér hæfilegan stein og setti skotið á sundlaugarbarminn. Krakkarnir hópuðust að mér og tóku sum fyrir eyrum þegar þau sáu hvað ég ætlaði að gera.

Nú, ég lamdi vitanlega á skotið með steininum og það kom hvellur. Hvert skotið fór eða hvort það fór eitthvert veit ég ekki en enginn slasaðist.

Íslenskir málshættir eru oft sérkennilegir og merkilegir. Einn kann ég sem er svona: „Snælega snuggir sögðu Finnar, áttu andra fala."

Þennan hef ég örugglega lært af bók einhverntíma og þótt merkilegur vegna torkennilegra orða. Ef ég ætti að þýða þetta á nútímamál yrði málshátturinn einhvern vegin svona: „Það lítur út fyrir snjókomu sögðu Finnar því þeir áttu skíði til sölu."

IMG 3706Minnismerki.


1238 - Jólahald o.fl.

Svo því sé aflokið þá ætla ég bara að segja hér álit mitt á Icesave og skrifa síðan um eitthvað skemmtilegra. Núverandi samningur verður samþykktur og Ólafur Ragnar mun undirrita lög þar að lútandi, með einhverjum semingi þó. 

Ástæðan fyrir því að hann mun skrifa undir er sú að Bjarni Benediktsson og flestallir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á Alþingi munu samþykkja samninginn. Þar með mun ríflegur meirihluti þingmanna gera það. Þetta verður þó ekki fyrr en undir lok janúarmánaðar og síðan mun stjórnlagaþingið koma saman í framhaldi af því.

ESB samkomulag mun nást áður en kjörtímabilinu lýkur. Ríkisstjórnin mun springa í framhaldi af því og alþingiskosningar verða sumarið 2012.

Af öllum þeim hávaða sem orðið hefur útaf hjásetu þriggja þingmanna VG nú nýlega virðist mér það sitja eftir að þó þeir séu á móti stefnu ríkisstjórnarinnar í ýmsum þýðingarmiklum málum kæra þeir sig hreint ekki um að núverandi stjórnarsamstarf taki enda. A.m.k. ekki að sinni.

Þá er því lokið og gjarnan mundi ég vilja lýsa því yfir að meira verði ekki fjallað um stjórnmál á þessu bloggi í bráðina. En pólitíkin er undarleg tík og vel getur verið að þróunin verði þannig að mér finnist nauðsynlegt að láta ljós mitt skína.

Um mína æfi hef ég aðeins haldið jól á þremur stöðum ef svo má segja. Fjórða staðnum get ég ómögulega munað eftir.

Fyrstu æviárin hélt ég auðvitað jól í foreldrahúsum, en svo brann húsið heima í byrjun desember þegar ég var níu ára. Hvar ég hélt jólin í það skipti man ég alls ekki.

Strax næsta sumar var nýtt íbúðarhús byggt á sama stað og það gamla hafði verið og síðan var haldið áfram með jólahald þar að sjálfsögðu. Nýja húsið er samt að Hveramörk 6 og í rauninni heitir það ekki Bláfell.

Man ekki nákvæmlega hvenær það var en seinna fórum við Áslaug að halda jólin með börnunum okkar. Áttum vissulega heima á ýmsum stöðum en jólin fylgdu okkur ævinlega.

Frá og með 2008 hef ég síðan haldið jól hjá dóttur minni á Akranesi. Það er að segja að þar hefur kvöldmaturinn verið borðaður á aðfangadagskvöld og pakkarnir teknir upp.

Það góða við fésbókina er að hver og einn notar hana á sinn hátt og það þarf ekkert að trufla aðra. Að svo margir skuli vera tengdir henni í einu er líka mikill kostur.

Stóra málið varðandi öll skrif er fyrir hvern eða hverja maður er eiginlega að skrifa. Ég er búinn að blogga svo lengi að mér finnst ég vera farinn að þekkja vel minn lesandahóp. Auðvitað geri ég það samt ekki.

Óþarfar útskýringar eru það sem mér leiðist mest þegar ég les. En ég er ekki aðrir. Kannski leiðist öðrum það ekki nærri eins mikið og ég held ef ég gerist langorður og fer að útskýra sjálfsagða hluti.

Það er lítill vandi að vaða elginn. En að skrifa þannig að aðrir nenni að lesa, það er galdurinn. Ég er ekki að segja að ég hafi höndlað þann galdur en mér finnst ég vera farinn að skilja hann.

„Beautiful nonsense" var það kallað sem rithöfundar á borð við Henry Miller og William S. Burroughs létu frá sér fara um miðja síðustu öld. Semsagt skelfilegt bull en þó læsilegt. Vitanlega las ég margt eftir Henry Miller (sem auðvitað má ekki rugla saman við leikskáldið Arthur Miller) á árunum í kringum 1960 en það var aðallega vegna klámsins.

Slíkt var mikil bannvara í þann tíð og þó norðmaðurinn Agnar Mykle yrði frægur fyrir hina klámfengnu bók sína sem kölluð var Söngurinn um Roðasteininn (Sangen om den röde rubin) var hann ekki nærri eins hugmyndaríkur og Miller. Henry Miller var þannig rithöfundur að hann skrifaði hvað sem honum datt í hug hvort sem það var klámfengið eða ekki.

Ég reyndi líka að lesa bækur eftir Burroughs en fannst hann ekki nærri eins merkilegur og Miller. Fyrst í stað ruglaði ég honum líka saman við rithöfundinn Edgar Rice Burroughs sem skrifaði hinar frægu og sívinsælu Tarzan-bækur.

IMG 3781Strandlengjan við Fossvog (Reykjavíkurmegin).


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband