Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

2048 - Að stefna saksóknara

Eitthvað félag, sem Óli Gneisti segir að Nýherji eigi, hefur stefnt embætti sérstaks saksóknara fyrir meint brot á höfundarlögum. Þetta er mjög sérstakt mál. Jafnvel sérstakara en sérstakur sjálfur og er tilkomið vegna skoðunar Seðlabankans á Samherja á Akureyri. Er einhver yfirsaksóknari yfir sérstökum saksóknara? Þýðir eitthvað fyrir menn að kæra verknað sem saksókari á að hafa yfir að segja fyrir saksóknara? Ég bara spyr. Er lagatæknin að taka hér völdin? Snýst allt um lögfræðiálit? Þau virðast geta gengið í hvaða átt sem er. Fer það kannski eftir því hvað þeim er borgað mikið?

Er svarið að hætta að versla við Nýherja, eins og Óli Gneisti stingur uppá? Mig minnir að það séu Píratar sem vilja endurskoða höfundarlögin og gera þau skiljanlegri og skynsamlegri. Ef höfundalögin eru orðin svo rammflækt og illskiljanleg að jafnvel sérstakur með allar sínar sérþarfir getur brotið þau óvart með séstökum hætti, er þá ekki eitthvað að? Er það kannski Seðlabankinn sem er sekur? Ég bara skil þetta ekki.

Í Kjarnanum sem kom út í dag segir að hagræðing heimilanna sé einn allsherjar misskilningur. Jafnvel rangur misskilningur. Reyndar hef ég aldrei getað skilið almennilega hvaða sanngirni er fólgin í því að umbuna bara þeim sem hafa orðið útundan í leiðréttingum á verðtryggingu húsnæðislána og ekki þurft á slíkri leiðréttingu að halda. Mest hlýtur það auðvitað að vera vegna þess að skilningur minn er ekki á sama plani og annarra. Sú ríkisstjórn sem var á undan þeirri núverandi fékk mikla gagnrýni fyrir það að sinna lítt skálkaskjóli skuldara, og með vissum hætti má segja að sú núverandi hafi komist að útá það. Annars er auðvelt að týna sjálfum sér í speglasjónum um peninga. Eru þeir bara ekki einfaldlega undirrót alls ills.

Sagt er að Spánverjinn Fernardo Alonso og Finninn Kimi Raikkonen muni keyra fyrir Ferrari á næsta ári. Man að ég byrjaði að fylgjast með formúlunni um það leyti sem Schumacher fór að keyra fyrir Ferrari og hætti því um líkt leyti og hann hætti að keyra fyrir þá. Sögulega séð er Ferrari langmerkasta liðið í Formúlu eitt. Þar að auki er Ferrari-rautt minn uppáhaldslitur. Kannski ég fari bara að fylgjast með formúlunni aftur. Nei, annars ég er orðinn afhuga öllum íþróttum. Samt get ég ekki að því gert að mér finnst margar íþróttir mun skemmtilegri en fótboltinn.

Eiginlega er það alveg blöskranlegt hvað veröldin er stór. Nú, eða lítil ef þannig er hugsað. Jónatan Swift (ferðir Gullivers) sagði að ekkert væri lítið og ekkert stórt án samanburðar við annað. Heimsi greyið er óttalega lítill ef miðað er við alheiminn. En er alheimurinn þá ekki stór? Hugsanlega eru til margir alheimar og þá er eitt stykki kannski frekar lítið. Nei, þetta er utan og ofan við minn skilning, eins og svo margt annað.

Nú er kyrrðin og rósemdin öllu ofar. Náttúran dauðþreytt eftir hamaganginn undanfarna daga. Bílarnir farnir að sofa. Klukkan að verða fjögur. Tunglið hátt á skafheiðríkum himni. Samt sjást engar stjörnur.  Hvert eru þær farnar? Já, af hverju er himininn blár? Er hann kannski svartur?

IMG 4100Vökvunartæki.


2047 - Þórdís Þorsteinsdóttir

Oft verður mér hugsað til Bjarna-Dísu eða Þórdísar Þorsteinsdóttur sem uppi var fyrir meira en 200 árum á Austurlandi. Margir kannast við þá sögu og ég hef oftar en einu sinni rifjað hana upp hér. Einnig kom út bók um hana nýlega, en hana hef ég ekki lesið. Segja má að draugatrú sú sem reið húsum á þeim tíma sem hún var uppi hafi gengið af henni dauðri. Vissulega er sú frásögn öll af mjög svo harmrænum toga.

Sumt af því sem okkur þykir sjálfsagt og eðlilegt er vel hugsanlegt að afkomendur okkar álíti fáránlegt mjög eftir 200 ár eða svo. Þessvegna er algjör fordæming á mönnum eða málefnum vafasöm í meira lagi. Ég er svosem ekki með nein ákveðin dæmi í huga en stóryrði þau sem tíðkast í bloggheimum og víðar gætu sem best komið einhverjum í koll síðar meir. Þessvegna er aðgátar þörf í nærveru sálar eins og Einar Benediksson komst svo eftirminnilega að orði. Sú aðgát á þó ekki alltaf við og stundum getur verið rétt að sýna hana ekki til að stuðla að breytingum eða breyttu hugarfari. Kannski verða þær breytingar þó ekki til góðs þegar allt kemur til alls. Afskiptaleysi þarf ekki endilega að vera það sama og skoðanaleysi.

Lítum augnablik á fjórflokkinn gamla. Já, ég kalla hann það. Eiginlega eru merkileg kynslóðaskipti að eiga sér stað núna. Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason eru öll fremur ung miðað við fyrirrennara sína og hafa a.m.k. fremur litla þingreynslu. Kannski er það til bóta og kannski ekki. Þrælatök fjórflokksins á íslensku þjóðlífi kunna að vera að minnka verulega. Vissulega er þörf á að íslensk stjórnmál nútímavæðist. Það má samt ekki verða á kostnað þeirrar samheldni sem einkennt hefur þetta litla land.

Alþjóðavæðingin er að fara illa með Landsspítalann. Læknar vilja ekki starfa þar lengur. Eftir að hafa stundað sitt framhaldsnám erlendis bera læknar að sjálfsögðu kjör og aðbúnað hér heima saman við það sem þeir hafa vanist. Sífellt fleiri stéttir geta gert slíkan samanburð og að endingu verður Ísland láglaunaland mikið og er e.t.v. þegar orðið það.

Egill Helgason skrifaði nýlega um Höfðaborgina og birti mynd þaðan. Þegar ég kom fyrst til Reykjavíkur voru helstu fátækrahverfin þar: Pólarnir, Höfðaborg og Bjarnarborg. Pólarnir þó sýnu verstir. Helstu braggahverfin voru horfin. Stór tveggja hæða braggi var þó við Hjarðarhagann og e.t.v. hefur Camp Knox enn verið við lýði að einhverju leyti. Fór aldrei svo langt vestur í bæ. Fyrsta íbúðin sem ég leigði í Reykjavík var í blokkinni á móti stóra bragganum við Hjarðarhaga. Það merkilegasta við þá íbúð fannst mér að hún var á hæðinni fyrir ofan Pétur Guðjónsson rakara, en hann var frægastur rótara þess tíma. Það var Tómas Árnason, seinna fjármálaráðherra sem leigði mér hana.

Sumir virðast álíta að lífið snúist um fótbolta. Aðrir að allt sem fjallar um tuðruspark sé það ómerkilegasta sem til er. Hvorugt er rétt. Mér finnst þó of mikið gert úr því hvað einhverjir segja við einhvern annan að loknum knattspyrnuleik. Að leggja heilu og hálfu fréttatímana undir þessi ósköp finnst mér of langt gengið.

Sagt er frá því í fréttum að Vegagerðin hafi ákveðið að fara yfir í ensku á einhverjum skiltum sem eru á hennar vegum og skrifa þar CLOSED í staðinn fyrir ÓFÆRT eins og áður var. Mér finnst það slæm skipti. Auk þess þýða þessi orð allsekki það sama. Hjá hagstofunni var lengi vel ekki hægt að skrá nöfn í þjóðskrána nema af ákveðinni lengd. Margir urðu fyrir barðinu á þessum fjanda en tölvunum var kennt um. Lengi tíðkaðist líka hjá bönkum og ýmsum opinberum stofnunum að kenna ópersónulegum tölvum um allt sem aflaga fór. Vegagerðin getur ekki einu sinni kennt tölvu um þetta. Skilningleysi túrista er um kennt.

Segja má að í pólitískum skilningi sé velferð andstæðan við réttlæti. Velferð er vitanlega til vinstri á stjórnmálarófinu en réttlæti til hægri. Velferðin er einskonar framlenging á Hróa hattar syndróminu. Semsagt það að stela frá þeim ríku og færa þeim fátæku. Óttalegur kommúnismi eiginlega. Hið endanlega réttlæti er hinsvegar fólgið í því að t.d. í skattalegu tilliti borgi allir jafnmikið. Nefskatturinn er hið fullkomna form réttlætis. Auðvitað má líka notast við hlutfallslegt réttlæti eða réttlæti í prósentum. Það er samt ekki nærri eins réttlátt og nefskatturinn enda féll frú Thatcher víst á honum.  Vitanlega eru allar stjórnmálastefnur sambland af þessu enda er þetta mikil einföldun.

IMG 4096Blóm.


2046 - Ómar, Jónas og Egill

Í frétt sjónvarpsins mun því ranglega hafa verið haldið fram að nú nýlega hafi í fyrsta sinn verið skilað háskólaritgerð á blindraletri. Kannski er búið að leiðrétta þetta. Ég veit það ekki, en hér er linkur á blogg Arnþórs Helgasonar þar sem hann segir mun betur frá þessu öllu. http://arnthorhelgason.blog.is/blog/arnthorhelgason/

Jónas Kristjánsson er beittur penni. Óvenju beittur. Hann er líka vinstrisinnaður. Þeir sem skrifa slíkan besservisserastíl eru það oftast. Á mörgum öðrum bloggurum hef ég heldur lítið álit. Mikið þó á sjálfum mér, enda er ekki víst að aðrir hafi það. Í svipuðum stíl og Jónas gerir skrifar Egill Helgason sitt blogg. Hann er þó ekki eins stuðandi og Jónas. Heldur ekki jafn vinstri sinnaður. Virðist vilja hafa alla góða. Er þó ansi andvígur Bandaríkjastjórn og Sjálfstæðisflokknum Hann má þó eiga það og þeir báðir að þeir eru mjög vel að sér um flest.

Sama má segja um Ómar Ragnarsson. Hann finnst mér vera orðinn náttúruverndarsinni númer eitt hér á landi. Hann er líka nokkurnvegin jafngamall mér einsog Jónas, sem að sjálfsögðu er galli, því að þá get ég ómögulega orðið besti bloggarinn í mínum aldursflokki eins og metnaður minn stendur til.

Jónas Kristjánsson reyndi fyrir sér með framboði til stjórnlagaþingsins fræga. Ekki hafði hann erindi þar sem erfiði og kjósendur beinlínis höfnuðu honum. Ómar náði þó kjöri þar en Egill bauð sig ekki fram svo mér sé kunnugt. Stjórnmál morgundagsins koma vissulega til með að vera háð þessum þrem mönnum og duttlungum þeirra. Ekki get ég samt á nokkurn hátt spáð fyrir um hvernig þau áhrif verða.

Sumir þeirra sem ég hef verið að skrifa um og gagnrýna hér á blogginu mínu mundu ekki eiga í miklum vandræðum með að tala mig í kaf. Málsmetandi menn hafa stöku sinnum svarað mér, en þurfa að gera það mjög varlega. Með því að minnast á mig eru þeir nefnilega að viðurkenna mig með vissum hætti. Svo er líka aldrei að vita nema ég gæti alveg svarað fyrir mig. Kannski er ég bara að reyna að æsa þá upp. Afspyrnu náttúruverndarmaður er ég allsekki. Var samt talsvert fyrir útiveru áður fyrr. Mótmæla og styrktargöngum tek ég sjaldan þátt í. Sennilega er ég orðinn of gamall til þess. Er samt oft í hjarta mér alveg sammála þeim sem það gera en treysti mér bara ekki til að vera með.

Óveðrið um helgina virðist hafa komið einhverjum á óvart. Það er kannski kominn tími til að sjá einhvern veginn fyrir því að fólk fái fréttir ef það þarf nauðsynlega á þeim að halda. Annars er þetta dálítið viðkvæmt mál og kannski sérstakt fyrir Ísland. Ungt fólk er að mestu hætt að horfa á sjónvarp og hlusta á fréttir. Hversvegna ættu útlendingar að gera það?

Það er greinilegt á öllu að ég skrifa ekki eins oft né eins mikið og ég gerði. Líka er ég alveg hættur að vera með eitthvað uppfyllingarefni. Þetta eru tómar hugleiðingar um allt og ekkert hjá mér.

Eitt eiga þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Davíð Oddsson sameiginlegt þó pólitísk stefna þeirra sé um flest ólík. Þau hófust bæði til mikilla pólitískra metorða vegna eigin verðleika en ekki vegna ættartengsla. Sumum finnst að Ingibjörg eigi skilið annað tækifæri en það finnst mér ekki. Hún fékk það en klúðraði því einfaldlega. Ef landið getur ekki framleitt jafningja hennar á það ekki skilið að komast útúr þeim brotsjóm sem yfir það hafa gengið.

Ekki verður sagt um þá sætabrauðsdrengi sem nú stjórna landinu að þeir séu ættlausir. Það eitt útaf fyrir sig ræður þó engu um stjórnunarhæfni þeirra en auðvitað er það þeim á margan hátt til trafala. Um leið er enginn vafi á því að það hefur hjálpað þeim mikið til síns stjórnmálalega frama. Pólitískar deilur eru ekki mín sérgrein og þessvegna ætla ég að sleppa nánari samanburði a.m.k. að þessu sinni.

IMG 4095Er þetta ætilegt?


2045 - Skólavogin

Þó ég hafi rekist á bloggið hans Óskars Helga fyrir tilviljun fylgist ég svo illa með fréttum að ég hafði ekki frétt neitt af því að skólastjórinn í Borgarnesi hefði sagt af sér. Þó átti ég um tíma heima í Borgarnesi. Ekki hafði ég heldur heyrt neitt á skólavogina svonefndu minnst áður. Svona er ég nú útúr heiminum.

Gylfi Ægisson stendur í ströngu. Kvennahlaup er hlaupið á vorin. Sennilega á kvennadaginn. Gott ef karlar mega ekki alveg vera með ef þeir vilja. Held bara að þeir vilji það ekki. Í Hveragerði var til skamms tíma hlaupið á sama tíma og kvennahlaupið svokallað karlrembuhlaup. Þeir hlupu sömu leið og kvenfólkið og á sama tíma en bara á móti þeim. Næsta sumar verður sennilega bæði gleðiganga og Gylfaganga. Kannski ekki á sama tíma. Það gæti ruglað einhverja. Á móti kemur að þátttaka gæti orðið mikil og báðir aðilar gætu eignað sér hana.

Eins og like-appið, sem Atli Harðarson skrifaði um á fésbókina nýlega, er nú merkileg og góð uppfinning, datt mér strax í hug hve góð uppfinning það væri að finna líka upp app sem læsi og legði satusana á minnið. Það væri jafnvel enn meiri vinnusparnaður að því. Jafnvel yrði með tímanum hægt að sleppa því alveg að fara á fésbókina. Það er að vísu dálítið langt inni í framtíðinni, en vel mögulegt.

Á þingi er mikið rifist um ávarpsorðin „hæstvirtur“ og „háttvirtur“ og hvernig gallabuxur eigi að vera á litinn. Þingforseti hamast við að útskýra venjur og siði. Björn Bjarnason bloggar um þetta mál og virðist telja að með þessu megi koma í veg fyrir að þingmenn fari að slást. Þau vinahót sem felast í þessum ávarpsorðum og öðrum venjum og siðum eru óttalega gervileg. Ég les að vísu næstum aldrei blogg Björns Bjarnasona og veit ekki nákvæmlega hvað hann hefur að segja um þetta mál, en fylgist stundum með sjónvarpsumræðum úr þingsal. Virðing þingsins meðal þjóðarinnar er lítil, enda haga þingmennirnir og þingflokkarnir sér oft þannig að alls ekki hægt að ætlast til slíks. Að setja lög um þessi málefni væri fáránlegt í meira lagi.

Eitthvað birti ég á minni síðu um daginn varðandi Óskar Helga Helgason og nú er hann greinilega kominn á síður Moggabloggsins aftur. http://svarthamar.blog.is/blog/svarthamar/ og er það gott. Um að gera að sem flestar raddir hljómi hér.

IMG 4088Blómskrúð.


mbl.is Skólastjóri hættir vegna Skólavogar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2044 - Háskólar á Íslandi

Á Íslandi eru einir sjö eða átta háskólar og veitir ekki af. Ég er að hugsa um að telja þá upp af því ég held að ég geti það. Fyrst er frægastan að telja Háskóla Íslands. Tveir aðrir eru í Reykjavík. Háskólinn í Reykjavík (sem reyndar er í Nauthólsvíkinni.) og Listaháskóli Íslands (sem ég veit ekkert hvar er.) Svo er það háskólinn að Bifröst. (Þar var ég í skóla endur fyrir löngu en þá var það ekki háskóli.) Háskólar eru á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal. (Líklega eru það landbúnaðarháskólar hvorttveggja og Garðyrkjuskólinn á Reykjum í Ölfusi útibú frá öðrum þeirra, sennilega þeim á Hvanneyri.) Þá er líklega ekki annar ótalinn en Háskólinn á Akureyri. Jú, sennilega er einhverskonar háskóli á varnarsvæðinu (sem var) hjá Keflavík.

Samkvæmt þessu er minna en helmingur háskólanna á Reykjavíkursvæðinu og það gengur náttúrulega ekki.

Ef ég væri með annan fótinn í krapavatni og hinn í sjóðandi vatni liði mér sennilega að meðaltali nokkuð vel. Væri ég við sjávarmál væri mér þó kannski fullheitt. Suða á vatni minnkar við hæð. Ekki veit ég hvort mér mundi duga að fara uppá Esjuna til að meðaltalið yrði viðunandi en það hef ég hvort eð er ekki í hyggju.

Sagt er að lokaorrustan um flugvöllinn í Vatnsmýrinni sé hafin og verði mjög hörð. Áhrif þessa máls á bæjarstjórnarkosningarnar næsta vor er ekki víst að verði eins mikil og margir halda. Í Reykjavík er það landsmálapólitíkin sem mestu ræður og svo bætist við núna að úrslitin fyrir 4 árum voru óvænt mjög. Skyldi Jón Gnarr bjóða sig fram aftur? Ég reikna frekar með því og á von á að hann nái svipuðum árangri og síðast. Bæti kannski ekki við sig en haldi sínu. Annars er ekki mikið að marka spádóma mína. Ég er heldur hlynntur því að flugvöllurinn fari en finnst þetta ekki vera mál sem þörf sé á að skipa sér í fylkingar útaf.

Það voru talsvert margir sem óskuðu mér til hamingju með afmælið á Facebook og ég reyndi að svara þeim og þakka fyrir það en kann ekki nógu vel á fésbókina til að vera viss um að það hafi tekist. Ef einhverjir þeirra leggja í vana sinn að lesa þetta blogg er það hérmeð endurtekið til vonar og vara. Reyndar er ég ekki nema 71 árs og ekkert séstakt afrek að ná þeim aldri. Gerði þetta einu sinni sjálfur (þ.e. að óska til hamingju með afmæli á fésbókinni) en nenni því ekki lengur. Einu sinni komu upplýsingar um afmæli sjálfkrafa en nú þarf maður víst að gera reka að því að fá þær. Kannski er hægt að hafa hamingjuóskirnar líka sjálfvirkar. Veit það bara ekki.

Hugsanlega (en ekki líklega) sakna þess einhverjir að fá ekki afmæliskveðju frá mér. Ég var vanur að muna eftir þeim sem ég var minntur á. Þetta er semsagt skýringin. Einu sinni lagði ég það líka í vana minn að safna fésbókarvinum, en það er liðin tíð. Samþykki líka alla sem óska efir fésbókarvináttu við mig. Vera Illugadóttir, sem ég held að eigi sama afmælisdag og ég (13. sept.) kann víst arabisku að því að sagt er. Skyldi hún kunna hebresku líka? Ég kann hvorugt en kemst samt af.

Þunglyndi og sjúklegt þunglyndi. Er þunglyndi að vera alltaf í fýlu? Er maður alltaf í fýlu ef öðrum finnst það? Margir virðast flagga þunglyndinu sem einhverri skrautfjöður. Er ekki nóg að vera bara ljótur og leiðinlegur? Fræga fólkið vill endilega vera þunglynt líka. Það er svo smart. Nefni engin nöfn. Það gæti verið hættulegt. Er ekki nóg að vera frægur? Hvað þurfa margir að kannast við mann til að maður sé það. Sumir virðast halda að þeir verði frægir á því einu að vera nógu andskoti þunglyndir.

IMG 4085Skilti.


2043 - Kristín Ingólfsdóttir

Kristín Ingólfsdóttir hefur staðið sig illa sem rektor Háskóla Íslands. Á hennar tíma hafa deilur orðið miklar. Nægir þar að benda á tvö mál: Bjarna Randvers málið og nú síðast stóra JBH-málið. Bæði þessi mál virðast við fyrstu sýn vera lítilvæg, en eru það sennilega ekki. Ég hef áður skrifað um JBH-málið og ætla ekki að endurtaka það hér. Skoðanir eru mjög skiptar um það mál og langflestir sem um það skrifa reyna að draga fram þær hliðar sem þeim finnst skipta mestu máli. Að mínum dómi fjallar það einkum um mannréttindi og Háskóla Íslands. Að öðru leyti vil ég helst ekki ræða það mál frekar. Um það og hinar ýmsu hliðar þess mætti samt auðvitað skrifa margar bækur.

Svo virðist Gylfi Ægisson ætla í einhvern einkabardaga við homma og gleðigöngur. Líst frekar illa á það hjá honum. Held að ein af ástæðunum fyrir miklu fjölmenni í gleðigöngunni svokölluðu sé vöntun á fjöri hér á norðurslóðum. Einnig er því ekki að neita að Íslendingar hafa greinilega mikinn áhuga á baráttu fyrir mannréttindamálum allskonar, þó aðferðirnar sem notaðar eru í því efni hugnist ekki ávallt öllum.

Ekki veit ég af hverju ég hef hirt eftirfarandi klausu, en ég fann hana áðan í einhverju dóti og set hana hér til uppfyllingar. Líklega er hún nokkurra vikna eða mánaða gömul, en allsekki eldri en það. Sennilega er þetta af DV. Sjálfur er ég ekki hræddur um að verða úthýst af Moggablogginu og nokkrum sinnum hefur Óskar kommentað á mitt blogg. Blogg hans hafa yfirleitt verið sérviskuleg nokkuð og undarleg. Ég hef öðru hvoru kíkt á það en ekki skoðað það neitt reglulega. Það er bara svo auðvelt að þagga niður í mönnum.

Þetta var vegna hvatningar minnar til íslensku þjóðarinnar vegna þessarar yfirgengilegu þolinmæði sem við sýnum með því að henda þessum þingmönnum ekki til hliðar sem hafa verið að kvelja okkur síðastliðin ár. Það á bara að taka þetta lið í pólitíkinni og berja það bara persónulega. Harðar aðgerðir, harðar aðgerðir - eins og búið er að leika þessa þjóð, fólk og fénað og mig. En barsmíðarnar eru bara fyrsta skref,“ segir Óskar Helgi Helgason, kaupmaður í Hveragerði og fyrrverandi bloggari á Mbl.is, sem hefur nú verið hent út af Moggablogginu fyrir að hvetja til ofbeldis gegn Alþingismönnum. Óskar Helgi hefur bloggað á Mbl.is undir heitinu Svarthamar frá árinu 2007.

Aðspurður hvort hann hafi verið að hvetja til ofbeldis gagnvart þingmönnum segir Óskar Helgi. „Já, svona léttra barsmíða.“ Óskar Helgi segist vera falangisti - ein gerð fasisma sem yfirleitt er nefndur í sömu andránni og einræðisherrann Francisco Franco á Spánni. „Við úti á hægri brúninni getum teygt okkur yfir til kommúnistanna." Óskar Helgi segir að hann hafi verið að hvetja til þess að allir þingmenn þjóðarinnar myndu sæta barsmíðum. „Þau öll, 63, allir þingsetar en í mismunandi mæli þó eftir ábyrgð. Ætli þeir Sigmundur Davíð og Bjarni beri ekki mesta ábyrgð.“

Óskar Helgi er ósáttur við að hafa verið hent út af Moggablogginu og telur sakirnar ekki vera miklar. Hann segir þó að fleiri sem hann þekkir hafi verið hent út fyrir „minni sakir“: „Ég er ekkert sá eini í þessari stöðu sem hefur verið hent út fyrir að segja skoðanir mínar, aðrir hafa lent í því fyrir minni sakir.“

Bloggsíðan Svarthamar eru ekki lengur til á vef Morgunblaðsins, ekki heldur eldri færslur Óskars Helga.

IMG 4002Já, þau eru uppstoppuð.


2042 - Eygló Harðardóttir

Í kosningabaráttunni s.l. vor sagði Eygló Harðardóttir að vandalaust væri að taka aftur skerðingar þær sem gerðar voru á greiðslum til aldraðra og öryrkja á síðasta kjörtímabili og það yrði svo sannarlega eitt af allra fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar ef Framsóknarflokkurinn kæmist til valda. Auðvitað réði hún því ekki og það var ekki gert nema að litlu leyti. Hún sagði þá að það mundi samt áreiðanlega ekki dragast lengur en í mesta lagi fram í nóvember næstkomandi að það yrði gert. Svo verður þó að líkindum ekki. Önnur verkefni verða álitin brýnni. Samt eru þetta svik við allmarga. Fleiri býst ég við að muni álíta sig svikna. Kannski hefðu aðrir svikið líka og ég vil að óreyndu ekki búast við öllu illu af þessari ríkisstjórn.

Mér finnst þetta mál samt skipta verulegu máli. Kannski er það vegna þess að ég er farinn að eldast sjálfur og er háður þessum peningum. Margt þarf að gera og fé vantar allsstaðar. Að svíkja það sem lofað er eftir að hafa komist til valda (með röngu – a.m.k. að sumra áliti) og orðið ráðherra, er þó fyrirlitlegra en flest annað.

Held að lesendum mínum sé að fækka aftur. Eiginlega er ekki hægt annað en að kenna Morgunblaðinu um það. Eða jafnvel Sigmundi Davíð. Þetta pólitísk spinn sem sumir þurfa endilega að setja á alla hluti er talsvert leiðigjarnt. Spillingin og einkavinavæðingin er mikil hérna í fámenninu, en hvað með það? Svona hefur þetta alltaf verið. Það verður ekki ráðin bót á öllu per samstundis.

En kannski hefur Hrunið opnað augu einhverra. Hugsanlega margra. Sumir, t.d. Egill Helgason virðist kenna bönkunum um allt sem aflaga fer. Sagan um manninn í Svíþjóð sem brýtur ávallt rúðu í banka í hvert skipti sem hann losnar úr fangelsi höfðar alltaf meira og meira til mín. Kannski er það bara þjóðsaga. Hef sagt hana áður. A.m.k. tvisvar, held ég. Stjórna bankarnir stjórnvöldum? A.m.k. hefur fátt batnað við það að þeim var trúað til að búa til peninga í stað úthlutunarnefndanna. Svo voru þeir einkavæddir. Ekki bætti það úr skák. Fjárhagsráð var á sínum tíma kallað Fjáransráð. Ekki var það að ófyrirsynju og eru margar sögur til af því. Ætli væri þó ekki bara betra að hafa Fjárhagsráð núna en útrásarvíkingana. Varla mundi það stela eins miklu. Þegar það var við lýði var heldur ekki búið að finna uppá því að senda illa fengna fjármuni til Tortóla.

Er viðunandi að hafa svona marga starfandi í Seðlabankanum og svo er enginn þar með nægilegt vit til að kæra fyrir sérstökun saksóknara á réttan hátt? Svo hlæja dómararnir bara að honum. Ætli bankarnir stjórni dómurunum líka? Er Seðlabankinn stikkfrí? Nei, ég held að það sé meira vit að hugsa um eitthvað annað en pólitík.

Las nýlega í Kyndlinum mínum kynningu á bók um maura. Las lítið meira en formálann enda var það sem á eftir kom fræðilegt í meira lagi og ég skildi það afar illa. Þetta eru merkileg kvikindi og mjög lítið rannsökuð. Þeir eru líklega um þrír fjórðu hlutar alls lifandi efnis (biomass) á jörðinni. Á margan hátt má líta á einstök dýr í einu maurabúi sem frumur og þessvegna eru þeir afar vel fallnir til allskyns rannsókna því sérhæfingin er mikil hjá þeim. Harðgerðari dýr eru vandfundin. Alltaf tekst þeim á endanum að ráða framúr öllum erfiðleikum. Þola t.d. geislun betur en nokkur önnur dýr. Næstum allsstaðar (nema á Íslandi) lifa þeir góðu lífi og tegundirnar eru fjölmargar.

Þegar fésbókin segir mér að gera eitthvað (eða stingur uppá því) geri ég það bara einstöku sinnum. Mér finnst ég vera frjálsari þannig og að ég þurfi ekki að óttast eins mikið að mínum persónuleika verði stolið, eins og maður hefur heyrt svo margar hryllingssögur af. Mér finnst fésbókin farin að verða hræðilega vinsæl. Fólk situr yfir þessu lon og don. Sérstaklega þeir sem þurfa ekki að mæta til vinnu. Eiginlega hef ég aldrei orðið fyrir neinu á netinu eða tölvutengdu. Varla að ég hafi tapað gögnum og engum finnst taka því að reyna að brjótast inn í heimabankann minn. Annars er það heimsstyrjöldin síðari sem ég er upptekinn af núna. Varð það með því að lesa upphafið á bók Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um Dauðann í Dumbshafi.

IMG 3994Við Geysi.


2041 - Halldór Baldursson og Gunnar Karlsson

Halldór Baldursson og Gunnar Karlsson eru bestu skopteiknarar landsins um þessar mundir. Satt að segja man ég ekki eftir öðrum sem gutlar eitthvað á. Halldór Pétursson var mjög góður teiknari á sínum tíma og Sigmund úr Vestmanneyjum einnig. Þetta er list sem ég held að byggist á mikilli æfingu.

Fyrirsögn sá ég nýlega í blaði þar sem stóð: „Litblindir vinna oftar í Lottó,“ eða eitthvað þessháttar. Greinina sjálfa las ég ekki og ekki man ég hvar ég sá þetta. Mér finnst það undirstrika það sem ég hef oft sagt: Skoðanakannanir og allskonar athuganir sem íslensku blöðin velta sér uppúr eru oft tóm vitleysa. Það hlýtur að vera öllum ljóst að ekkert mark er takandi á þeirri fullyrðingu sem fram kemur í þessari fyrirsögn. Þannig er það reyndar oftast nær með kannanir sem sagt er frá í fjölmiðlum hér, þó ekki sé það alltaf jafn augljóst og í þessu tilfelli.

Með gagnrýnum huga hef ég verið að líta á þetta blogg. Með því að skrifa um svona sundurleit málefni og eins oft og ég geri er vel hægt að segja að þetta sé bara safn af athugasemdum. Hugmyndirnar að því sem ég skrifa hér eru oft fengnar af lestri greina á netinu. Með yfirlestri tekst mér að komast hjá áberandi villum. Ég er kominn á þann aldur að ég finn greinilega að mér fer aftur. Spurningin er bara hvort það sé óeðlilega hratt eða ekki. Margir sem vilja láta ljós sitt skína (eins og ég) reyna að einbeita sér að einhverju ákveðnu sviði og þykjast gjarnan vera betri en aðrir á því sviði og finnst það sjálfum. Ég hef hinsvegar alla tíð á haft áhuga á mjög mörgu (of mörgu?) og þess sér stað í þessu bloggi.

Eva Hauksdóttir skrifar um hvort afnema skuli skólaskyldi. Hún virðist samt gera ráð fyrir að fræðsluskylda verði áfram við lýði. Öruggt er að sú almenna menntun og jöfnuður sem hér ríkir hefði ekki komist á nema samfélagið í heild hefði tekið að sér að sjá um rekstur skóla. Þær tilraunir sem gerðar hafa verið með einkaskóla án afnáms skólaskyldu samkvæmt lögum hafa tekist misjafnlega. Einföld lagasetning er ekki alltaf besta lausnin á samfélagsvandamálum. Skólaskylda er ekki það vandamál hér sem brýnast er að leysa. Ekki er hægt að sjá að almenningur hefði orðið nokkru bættari þó flestir eða allir skólar landsins hefðu farið á hausinn í Hruninu.

Oft hef ég skrifað hér um pólitísk málefni. Sumir einbeita sér að þeim og fréttatengdum málum en tekst það mjög misjafnlega. Alltaf virðast þó vera til einhverjir jábræður við allar pólitískar skoðanir. Neikvæðni í garð þeirra sem gefa kost á sér til pólitískra starfa er mjög áberandi. Í rauninni eru það aðeins hinar breiðu pólitísku línur sem skipta máli. Ágreiningur er oft um einstök mál en það er aðeins með sameiningu og samstöðu sem árangur næst. Áhugaleysi um samfélagsleg mál er minni hér en víða annars staðar. Helsta vandamál okkar Íslendinga er hve fáir og smáir við erum. Þó viljum við gjarnan vera þjóð meðal þjóða en oft erum við bara hlægilegir.

Þegar ég fer í rúllustiga minnist ég þess næstum alltaf að í London eru rúllustigar algengir. T.d. þegar farið er í neðanjarðarlestirnar. Áberandi skilti eru alltaf við stigana og þar stendur „Keep Left“. Þetta skil ég ágætlega og held mig yfirleitt vinstra megin. Á Íslandi eru engin svona skilti og ég fer yfirleitt að velta því fyrir mér hvort heldur sé ætlast til að maður haldi sig hægra eða vinstra megin. (Hægri umferð, sko) Ekki þýðir að fara eftir því sem aðrir gera. Flestir halda sig á miðjunni eða við hliðina á förunautnum og koma þannig í veg fyrir að komast megi framhjá. Sumir eru að flýta sér svo mikið að þeir hlaupa upp eða niður stigana. Ekki ég samt. Alveg má þrátt fyrir það taka tillit til þeirra.

IMG 3953Lítill bíll og stór.


2040 - Salvör Kristjana

Í síðasta pistli mínum ræddi ég víst ekkert um stóra JBH-málið. Ástæðan er einkum sú að umræðan um það er orðin svo mikil að það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla meira um það. Mig minnir að ég hafi rætt um þetta mál fyrir nokkrum dögum og skoðanir mínar hafa ekki breyst verulega síðan þá. Mikið hefur samt verið rætt um siðferðishliðina á málinu og sumir skipt um skoðun við það. Ekki er það óeðlilegt, því sú hlið er vissulega markverð og ber vott um mikinn áhuga þjóðarinnar á henni. Margir hafa verið óþarflega stórorðir í þessu sambandi og jafnvel skemmt fyrir sér með því. Ég er nýbúinn að lesa grein Jóns sjálfs í Fréttablaðinu um þetta mál og mér finnst hann ekki bæta sinn málstað að neinu leyti. Jafnvel er hægt að segja að hann geri hann verri.

Enn er ég að mestu sammála Salvöru Kristjönu um þetta alltsaman. Þeir sem vilja fræðast meira um málið (sem hljóta að vera fáir) geta t.d. farið á vef Salvarar (http://salvor.is/?p=59 ) en þar er að finna krækjur á ýmsar greinar um þetta mikilsverða mál.

Jú, það er svolítið kalt núna. Einu sinni sagði Steingrímur Hermannsson að pabbi sinn hefði sagt: „Allt er betra en íhaldið“. „Allt er betra en rigningin“, segi ég. Finnst vera hægt að segja það núna. Köld slagveðursrigning er leiðinlegasta veður sem ég veit um. Öskubylur er betri.

Einu sinni á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar ég vann hjá Hannesi Þorsteinssyni var hringt frá tollstjóra og spurt um tiltekna tollskýrslu. Maðurinn þar vildi fá að vita hverslags efni það væri sem við værum að flytja inn og kallaðist „tík“ eftir því sem hann sagði. Ég skoðaði afrit af þessari skýrslu og sá að um teak (sem á íslensku er oftast kallað tekk) var að ræða. Eftirmál urðu engin.

Mér finnst bloggið hjá mér vera vinsælt og lesið af furðumörgum. Tel sjálfum mér trú um að það sé einkum vegna þess að mér tekst oft að vera sæmilega stuttorður og koma mörgu að. Sú finnst mér vera krafa tímans. Málalengingar eiga samt oft rétt á sér, en miklu síður í bloggi en annarsstaðar. Fésbókin er oft enn stuttorðari og hnitmiðaðri en bloggið. Stundum svo stuttorð að hún er að mestu óskiljanleg öðrum en innvígðum. Aðalástæðana fyrir neikvæðni minni í hennar garð tel ég samt vera, að mér gengur illa að tileinka mér þann hugsunarhátt sem þar ræður ríkjum.

Óþarfi finnst mér vera að leggja nokkra pólitíska merkingu í það að ég skuli enn halda mig við að blogga á Moggablogginu. Þeir sem einu sinni hafa lesið mitt blogg og vilja lesa það aftur geta auðveldlega fundið það, held ég. Áhersla ritstjórnarinnar á blogg hefur samt minnkað mikið síðan ég byrjaði og vissulega blogga hér margir orðljótir menn sem mér finnst ég ekki bera neina ábyrgð á. Þeir hafa heldur ekki nein áhrif á mig. Kannski er versti ókosturinn við þetta blogg mitt algert stefnuleysi um stjórnmálaleg efni. Versti ókosturinn við Moggabloggið sjálft finnst mér vera að það er í rauninni og strangt til tekið ekki annað en athugasemdakerfi við greinar á mbl.is. Margir nota það líka einkum þannig.

IMG 3885Ský og hestar.


2039 - Hámenning og lágmenning

Hugleikur er kominn í gin ljónsins. Um leið og ugluspeglar auglýsingaliðsins ná tökum á honum er hann búinn að vera. Sá einhversstaðar mynd af honum í gini Hallgrímskirkju og honum leið ekki vel. Kannski sleppur hann úr þeirri úlfakreppu. Vonum það.

Planið hér fyrir framan eða aftan húsið (altsvo milli Kaffitárs og hússins okkar) var malbikað s.l. þriðjudag, þó ekki alla leið. „Akkuru?“ Mundi Tinna líklega segja en því er tengd löng saga og ekkert sérlega merkileg.

Lengi hefur tíðkast að kalla menningu ýmist hámenningu eða lágmenningu. Yfirleitt er lágmenning miklu skemmtilegri því hámenning má helst ekki vera það. Dægurlagatextar eru kallaðir lágmenning en eru það ekki nærri alltaf. Listamannalaun og allur fjárinn er háður þessu. Það má helst ekki vera mjög vinsælt það sem á að heita hámenning. Þetta getur staðið mörgum manninum fyrir þrifum. Sumt sem hann gerir er t.d. hámenningarlegt og annað algjör lágmenning. Vísnagerð er yfirleitt lágmenning. RUV á líklega að sinna hvorutveggja. Þá er gamla gufan sennilega hámenning en rás 2 lágmenning. DV er af mörgum talið sorprit og lágmenningarlegt með afbrigðum en Mogginn stritast við að vera hámenningarlegur. Moggabloggið er samt auðvitað lágmenningarlegt mjög.

Einhverntíma lærði ég:

In the life of strife and struggle
two things stand like stone.
Kindness in anothers trouble
courage in your own.

(Enskan er auðvitað lágmenning. A.m.k. hér á Íslandi.) Þessa vísu lærði ég líka fyrir margt löngu. Hún er gerð nákvæmlega eftir íslenskum bragreglum. Hringhenda þar að auki.

She is fine as morn´ in May
mild, devine and clever.
Like a shining summerday
she is mine forever.

Og þetta er á margan hátt uppáhaldsspakmælið mitt. Þ.e.a.s. á ensku.

Nobody was ever meant
to remember or invent
what he did with every cent.

Eitt af fyrstu bloggunum sem ég las nokkuð reglulega var „Konan sem kyndir ofninn sinn“. Nanna Rögnvaldardóttir (systir Rögnvaldar) skrifaði það. Það sem mér er einna minnisstæðast úr því bloggi er sumt af því sem hún skrifaði um „Sauðargæruna“ sem hún kallaði. Held að það hafi verið ömmubarn hennar. Sumt af því sem hún hafði eftir honum var alveg bráðfyndið. Úlfur heitir hann og núna hugsa ég að hann sé ekkert hrifinn af sumu sem hún skrifaði um hann. Þetta er samt til á netinu og allir geta fundið það ef þeir vilja. Sumt af því sem „Ljósvakalæðan“ eða Svanhildur Hólm skrifaði um börnin sín er ég viss um að þeim finnst ekkert skemmtilegt að skuli vera þar fyrir hunda og manna fótum. Eðli netsins er bara þannig og seinna meir geta þeir sem það vilja grafið allan fjárann upp og endurbirt ef þeir kæra sig um. Ekkert fer þaðan.

Mér er líka minnisstætt margt af því sem Salvör Kristjana skrifaði á bloggið þegar maður hennar var í Afghanistan. Fáir held ég samt að hafi gert sér eins vel ljósan óforgengileika netsins og hún. Ég hef reynt eins og ég get að fylgjast með því sem hún hefur í gegnum tíðina sent frá sér á netinu en það er bæði svo mikið að vöxtum og tæknilegt, auk þess að deifast víða, að það hefur verið mjög erfitt og sennilega hef ég ekki séð nema fátt af því.

IMG 3852Spáð og spekúlerað.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband