Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

1817 - Búsáhaldabyltingin

Mig langar að lýsa svolítið búsáhaldabyltingunni eins og hún kemur mér fyrir sjónir nú fjórum árum eftir að hún átti sér stað. Ég ætla að reyna að vera ekki mjög langorður og styðjast eingöngu við minnið. Um Hrunið sjálft, ástæður þess og afleiðingar ætla ég ekki að fjalla.

Það var spillingin, lygarnar, misskiptingin og vanhæfnin sem réði því að svo fór sem fór í Hruninu. Búsáhaldabyltingin hófst í rauninni með stuttum æfingum Harðar Torfasonar á Austurvelli í nóvember og desember árið 2008  þar sem flutt voru örstutt erindi og hann spurði ýmissa spurninga, sem mannfjöldinn svaraði með kröftugu nei-i. Þessir fundir voru haldnir hvern laugardag og það var ansi kalt í veðri. Man að mér hlýnaði ætíð með því að fara í Kolaportið bæði fyrir og eftir fundina. Mannfjöldinn sem sótti þessa fundi fór sívaxandi og undir lokin mátti segja að hann fyllti bæði Austurvöll og nærliggjandi götur.

Búsáhaldabyltingunni lauk síðan að mig minnir í janúar 2009 þegar ríkisstjórn Geirs Haarde hrökklaðist frá völdum eftir að búið var að kveikja í norska jólatrénu sem lokið hafði hlutverki sínu. Segja má að þar hafi búsáhaldabyltingin náð hámarki sínu. Líklega má einnig segja að hún hafi náð því með háværum mótmælum við Alþingishúsið við Austurvöll og Stjórnarráðshúsið við Lækjagötu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sá sína sæng útbreidda og skildi að henni var um megn að halda áfram og sleit ríkisstjórninni viljandi. Með því að útnefna Jóhönnu Sigurðardóttur eftirmann sinn tókst henni að friða þjóðina að einhverju leyti.

Eftirleikurinn varð síðan sá að Framsóknarflokkurinn bauðst til að veita ríkisstjórn sem mynduð væri af Samfylkingunni og Vinstri grænum hlutleysi sitt ef kosningar færu fram strax um vorið 2009.

Í rannsóknarskýrslunni birtust síðan járnbent rök fyrir því að þetta með spillinguna var alveg hárrétt. Hún ásamt frændhyglinni,  misskiptingunni og lyginni var svo geigvænleg í þjóðlífinu að það gat eiginlega ekki annað en valdið Hruninu. Þetta sáu þó fáir meðan á því stóð, en eftirá var þetta augljóst.

Eflaust eru ekki allir sammála þessari túlkun mála, en við því er ekkert að gera. Þetta er það sem mér finnst akkúrat núna.

IMG 2087Snæfellsnes (Í Ráðhúsinu).


1816 - Rafbækur og pólitík

Margir þeirra sem tjá sig um pólitísk málefni á bloggi og í fjölmiðlum eru leiðinlega gáfaðir. Besservisserar par exellence. Einna verstir eru þeir jafnan sem í prófkjörsbaráttu eru og skiptir þá litlu hvort þeir eru í flokkum til hægri eða vinstri. Það er samt oft átakanlegt að fylgjast með vanþekkingu þeirra á alþjóðamálum. Jafnvel mjög flokkslega sinnað fólk sem skrifar í erlend blöð um slík mál er miklu betur að sér og kann betur að leyna eigin skoðunum. Ekki er ég betur að mér en aðrir Íslendingar um þessi mál, en reyni þó að þegja.

Ég skil Jónas Kristjánsson þannig að hann telji líklegt að þriðjungur atkvæða muni falla á smáflokka af ýmsu tagi í kosningunum næsta vor. Þarna er ég honum alveg sammála. Ekki mun ég kjósa neinn af flokkunum fjórum og reikna ekki með að aðrir geri það. Varla þarf að rökstyðja slíka ákvörðun. Nóg er að líta á afreksverkin. Þó vissulega geti vont versnað er útilokað að svo fari endalaust. Áhættan samfara því að gefa fjórflokknum frí er nákvæmlega engin.

Þó stjórnmálin séu leiðinleg er engin leið að láta eins og þau séu ekki til. Fá mál eru þannig vaxin að ekki sé hægt að semja um þau.

Vel getur verið að íslenskar rafbækur sem seljast núna fyrir jólin í íslenskum bókabúðum (og stórmörkuðum) verði aðeins fáein prósent. Einhver nefndi tvö prósent, annar eitt. Það er samt ekki í mjög fjarlægri framtíð að meira en 90 prósent bóka verða aðeins gefnar út sem rafbækur. Sú er framtíðin og íslenskan hefur alla burði til spjara sig sæmilega þar. Bókahillur leggjast þó ekki af, en munu í fyrstunni verða aðhlátursefni og síðar meir verðmætar mjög.

Borðtölvur og stórar fartölvur leggjast hinsvegar fljótlega af. Snertiskjáir eru framtíðin og spjaldtölvurnar og internetið munu leggja heiminn undir sig og gera þjóðríkin hlægileg og óþörf. Harðstjórar munu ekki eiga sjö dagana sæla.

Dagurinn er skammur um þessar mundir og engin skömm að hafa bloggið í styttra lagi. Í pólitíkinni anda menn þungt og búa sig undir grimmileg átök. Þar vil ég helst ekki flækjast fyrir. Þegar mest gengur á þar þykir mér þægilegast að skrifa um einnhvað allt annað.

IMG 2035Hestur.


1815 - Útgáfufélagið Sæmundur (það er minnst á það í viðtalinu)

Það hefur alltaf þótt hraustleikamerki að óttast ekki dauðann. Okkar fornu kappar óttuðust hvorki sár né bana, eða svo er oss fortalið. Sagt er að Byron lávarður hafi talið sig eiga það eitt óreynt að deyja og þess vegna verið ákafur í að kynnast því.

Hér sit ég nú við tölvuræksnið og reyni að lifa sem lengst. Er það ekki merki um afturför heimsins? Ef við eigum að trúa á framþróun lífsins þurfum við þá ekki að ganga útfrá því að þessir fornu kappar hafi verið að plata?

Sagt er að Múhameðstrúarmenn treysti á gredduna og reikni með að fá óspjallaðar meyjar í löngum bunun þegar komið er í himnaríki. Kannski Byron hafi haft eitthvað þessháttar í huga líka.

Þeir sem á Jehóva trúa af mestum ákafa hafa aðallega áhyggjur af sætaskipaninni (í himnaríki) og Lykla-Pétri.

Nú er aftur á móti vísindatrúin ríkjandi. Guðshugmyndir eru afar fjölbreytilegar en dauðinn og djöfullinn koma þar lítt við sögu. Óvissan um framhaldslífið er mikil, og þó predikarar allskonar ráðleggi mönnum hitt og þetta varðandi rétta hegðun, er óvíst að farið sé eftir því af óttanum einum saman.

Fréttatíminn er að mörgu leyti búinn að stimpla sig inn í mína tilveru. Eiginlega er þetta það eina prentaða sem ég les að jafnaði. Þó kemur hann ekki alltaf hingað á heimilið blessaður og ég er kominn uppá lag með að lesa hann á netinu, ef þarf.

Var að enda við að lesa þar viðtal við Bjarna frænda. Það er að vísu gamalt, en ég er vanur að vera svolítið á eftir tímanum. (Ha, Tímanum?) Hann vísaði á það á blogginu sínu. http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/ Hvað annað?

Mér finnst eðlilegt að Bjarni hafi orðið nokkuð foj við þegar Tóti gerði hann allt í einu kattlausan. Sjálfur er ég miklu meiri kattamaður en hunda og get ekkert að því gert. Viðtalið er ágætt og líklega er Þórarinn sá Þórarinsson sem það tók sá sami Þórarinn og heldur úti (eða hélt úti) blogginu badabing.is og ég lenti eitt sinn í orðaskaki við.

IMG 2031Hundur.


1814 - Um sjálfhverfu kynslóðina

Svanur Gísli Þorkelsson bloggar af fullum krafti hér á Moggablogginu og kallar mig sjálfhverfan bloggara, sem hafi sérhæft sig í að blogga um blogg. Sjálfur skrifar hann mjög fróðleg blogg um hitt og þetta. Í seinni tíð hefur hann sérhæft sig í að skrifa um íslenska ferðamannastaði og er það vel.

Nýlega skrifaði hann um Kerið í Grímsnesi http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1269525/ og þess undarlegu sögu. Ég er ekki frá því að Kereigendur séu í þann veginn að tapa því máli. Sjálfur hef ég oft stoppað við Kerið og það er svo sannarlega merkileg náttúrusmíð. Um daginn skrifaði ég um grein hans um Þorláksbúð í Skálholti, sem ég á eftir að sjá, (altsvo búðina, en ekki greinina) og ég gat ekki annað en lesið. Vinnan við þessar athuganir hans er eflaust mikil og hann á skilið að þær séu lesnar.

Fyrir nokkrum árum hafði samband við mig ritstjóri „Heima er best“ og vildi að ég skrifaði fyrir sig. Aldrei birtist þó nema ein grein eftir mig í því ágæta blaði. Mig minnir að ég hafi viljað skrifa um Bjarna-Dísu en ritstjórinn ekki. Tvær ástæður eru til að ég minnist á þetta hér og nú. Önnur er sú að greinar Svans Gísla mundu að mínum dómi henta mjög vel í blaðið „Heima er best“ og hin er sú að nú er komin út heil bók um Bjarna-Dísu. Kannski fæ ég hana lánaða á bókasafninu þegar sá tími kemur. Ekki þarf ég víst að vonast til að hún komi í Kyndilinn minn.

Einhver benti mér á það um daginn hér í athugasemdum að lesa bloggið hans Hrannars Baldurssonar um sjálfhverfuna. Nú er ég búinn að því. Sé ekki betur en Hrannar telji hana henta póltíkusum mjög vel. Það er sennilega rétt. Mér finnst að hún henti líka heimspekingum og hvers kyns besservissurum ákaflega vel. Jafnvel bloggurum.

Já, ég mun vera af sjálfhverfu kynslóðinni og get ekki gert að því. Eða var það annars sjálftökukynslóðin. Ég ruglast alltaf í þessu. Les jafnan það sem Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri bloggar á jonas.is. Nú er hann farinn að hælast um vegna heimsókna til sín. Þar finnst mér hann gera mistök. Auðvelt er að hafa heimsóknartölur allar inni eða úti. Þ.e.a.s. þar sem allir geta séð þær og þurfa ekki að vera að giska á neitt. Moggabloggið býður a.m.k. uppá það. Reyndar er það einn af fáum fídusum þess, sem ég hef þorað að nota mér.

Sennilega er gúgl-efnið að komast yfir skynsamleg mörk. Þau eru einhversstaðar. Á endanum verður efnið þar svo mikið að erfitt verður að gera greinarmun á bullinu og gullinu. Wikipedia er betri. Þar er þó gerð tilraun til að flokka efnið. Ef gúglið skilar wiki læt ég það ganga fyrir flestu öðru.

IMG 2010Geit

1813 - Prófkjör og önnur vitleysa

Einu sinni las ég bók eftir danska skákmeistarann Jens Enevoldsen. Minnir að hann hafi nefnt hana „Ved skakbrættet í 30 aar“. Þar held ég að minnst hafi verið á Saavedra-stöðuna. Um hana má fræðast hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Saavedra_position Ástæðulaust er með öllu að þreyta óinnvígða með frásögn af töfrum hennar, en mig minnir endilega að Jens hafi sagt frá því að einhverntíma hafi hann verið að vinna með einhverjum þar sem minnst var á þessa stöðu og þeir þá hlaupið til og farið að tefla. Sumir segja nefnilega að þar skilji á milli þeirra sem raunverulega hafa áhuga á skákinni skákarinnar vegna og hinna sem tefla bara af því að það er í tísku. Held samt að það hafi verið kæfingarmátið (Philidor´s Legacy) sem olli því að ég fékk áhuga á skákinni.

Niðurstöður prófkjöranna um síðustu helgi sýna vel hve skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi er frámunanlega asnaleg. Ýmislegt annað kom í ljós í þessum prófkjörum. Í eftirleik þeirra hefur komið fram að auðvelt er að setja úrslit þeirra í samband við allskyns speki. Ef allt annað þrýtur má slengja fram eins og einu „mér er sagt“ og þá er ekki hægt að ræða það mál frekar. Áhugaleysi almennings var einnig nokkuð áberandi. Kannski er fólk bara að spara sig fyrir raunverulegu átökin.

Nítjanda öldin var öld framfara. Einkum síðustu árin. Þegar nálgaðist aldamótin héldu menn í einlægni að hægt væri að gera allt.

Tuttugasta öldin var öld tveggja heimsstyrjalda og leiddi meiri hörmungar yfir heiminn en áður höfðu þekkst. Nú var ekki hægt að kenna bakteríum og smádýrum um það sem miður fór. Heimska mannanna stjórnaði öllu.

Tuttugasta og fyrsta öldin verður öld litlu spjaldtölvunnar og snjallsíminn flyst auðvitað inn i hana. Strax nú er úbreiðsla spjaldtölva með snertiskjám svo mikil í heiminum að aðrar tölvur verða fljótlega aðeins notaðar í sérverkefni.

Hef ekki trú á að það verði fyrr en um næstu aldamót sem hnatthlýnunin verður svo mikil að til vandræða horfir. Sú öld gæti líka hæglega orðið öldin þar sem tölvurnar taka við öllum störfum mannsins og tilrauninni um hann verði lokið. Letin drepur hann.

IMG 2003Botnsúlur. 

1812 - Sjálfstæðisbarátta og eiturlyf

Eini bloggarinn sem ég fylgist næstum alltaf með er Jónas Kristjánsson. Margir fleiri held ég að geri það. Sem ritstjóri Dagblaðsins (eða Vísis) fékk hann fyrirtækið Videóson í fangið á sínum tíma og þess vegna kynntist ég honum svolítið. Nú er hann að hasast upp á fréttum eða fréttaleysi öllu heldur og einbeitir sér talsvert að mat og megrun. Hann er eins og ég að því leyti að hann á erfitt með að minnka bloggskrifin, þó fréttunum fækki. Eða voru þær einhverntíma einhverjar?

Þegar ég fluttist til Reykjavíkur árið 1986 og réði mig í vinnu hjá Jóni Óttari og félögum fann ég vel að nýjir tímar voru í nánd. Þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar (eina stjórnmálamannsins sem ég hef borið einhverja virðingu fyrir) sprakk síðan í beinni útsendingu (ætli það hafi ekki verið árið 1987 eða seinna) vissi ég það fyrir víst. Grunaði þó ekki frekar en aðra að undirbúningur að Hruninu mikla mundi hefjast þá strax. Nú er vel hægt að sjá í baksýnisspeglinum að það er einmitt það sem gerðist.

Áður fyrr voru uppáhaldsblogg svo mikil uppáhaldsblogg að maður gat helst ekki misst af kommentunum, enda ekki búið að finna fésbókina upp þá.

Margrét Tryggvadóttir þingmaður, skrifar í Fréttablaðið ágæta grein sem hún nefnir „Vonlausa stríðið“ http://blog.pressan.is/margrett/2012/11/23/vonlausa-stridid/#.ULAh8rXqSPo.facebook og lýsir því stríði eins og það horfir við almenningi. Þetta er stríðið gegn eiturlyfjunum og flest í greininni er hárrétt hjá Margréti. Helst er á henni að skilja að vandinn liggi hjá stjórnvöldum þjóðanna og mismunandi hörðum refsingum. Ég held að vandinn liggi kannski fremur í gallaðri og tilviljanakennri flokkun varanna. Sum eru leyfileg og standa utan við neðanjarðarhagkerfið. Ef löggjöf í þessum efnum væri eins hjá öllum væri mun einfaldara að ráða við þetta.

Þegar horft er á Baska, Skota, og fleiri þjóðarbrot í Evrópu er ljóst að sjálfstæðisbarátta þeirra styrkir Evrópusambandið því lítil þjóðarbrot þurfa meira á því að halda en önnur.

Af hverju er ég svona gáfaður en allir aðrir svona vitlausir. Eða var það öfugt. Kannski er bara enginn (Þið munið eftir þessum, sem var í markinu hjá Tyrkjum.) svona gáfaður eða allir. Af hverju skyldu allir vera að burðast með gáfurnar í fésbókarþverpokum. Það er nefnilega miklu meira pláss fyrir þær hérna á blogginu.

Sjónvarpið býr til stjórnmálamenn. Um það þarf ekkert að fjölyrða. Staðreyndirnar blasa við. Ef mönnum tekst að komast nógu oft í sjónvarpið (fyrir velvilja þeirra sem þar starfa) er leiðin nokkuð greið á framboðslista sumra flokka a.m.k. Þetta er undarlegt vegna þess að talsmenn sjónvarpsstöðva þykjast alltaf vera hafðir fyrir rangri sök og ekki ráða neinu. Hvenær ætlar Egill Helgason eiginlega í framboð? Hefur hann ekki fengið nógu góð tilboð eða hvað?

IMG 1986Voffi.


1811 - Að blogga sér til hugarhægðar

Súlurnar sem Moggabloggsguðirnir sýna og eiga að tákna aðsóknina að blogginu mínu eru æði misjafnlega langar. Mér er sama um það. Reikna bara með að þeir sem leggja í vana sinn að koma hingað, komi ekkert endilega daglega, og það hvenær þeir koma, fari lítið eftir því hvað ég skrifa. Sjálfur blogga ég bara þegar sá gállinn er á mér og hversvegna skyldi ég ekki geta unnt lesendum mínum þess sama. Greinilega mætti samt auka aðsóknina með því að blogga sem oftast og kommenta sem mest á daglegar fréttir.

Bróðir minn sem býr á Bolungarvík sendi mér línu um Lettann í Álfafelli sem ég skrifaði um fyrir nokkrum dögum. Hann fæddist þann 19. júní 1912 í Degahlen á Kúrlandi/Lettlandi og bar í byrjun nafnið Ulf van Seefeld. Kom til Íslands 1955 og vann þar víða. Síðast lengi við Gamla Kirkjugarðinn í Reykjavík. Á Íslandi nefndi hann sig Úlf Friðriksson og lést á Hrafnistu þann 19. september 2009. Nánari upplýsingar um hann má fá með því að lesa minningargreinar frá þeim tíma. www.mbl.is/greinasafn/grein/1302281/

Blogg um blogg er mitt forté. Enskusletta er þetta og líklega komin úr frönsku. Nenni ekki að gá að því. Þegar upplýsingar um allt mögulegt eru bara eitt gúgl í burtu hættir maður að gá að slíku. Það er einfaldlega leiðinlegt að þykjast vita allt mögulegt. Ég hef lengi vanist því að hugsa í orðum, og hugsa hægt. Það virðist henta blogginu ágætlega og úr verða hið þægilegasta og átakalausasta rabb. Segja má að það sé um daginn og veginn eða allt og ekkert.

Þó meinlítið sé er samt ekki laust við að skoðanir felist í þessari bloggaðferð. Það er t.d. skoðun að minnast ekki á hlutina. Hið tæknilega rugl um fjármál sem virðist tröllríða allri stjórnmálalegri umræðu dagsins og allir þykjast vera sérfræðingar í, hentar mér t.d. allsekki. Í hinni fjármálalegu umræðu virðist það skipta mestu máli að vera nógu illskiljanlegur og nota nógu kröftug orð. Það er ekki mitt forté og þessvegna get ég ekki tekið fullan þátt í pólitískri umræðu og rekst illa í flokki.

Hjörleifur Guttormsson er óánægður með að enginn VG-liði í prófkjörinu í Reykjavík skuli nefna andstöðu við ESB í kynningu sinni. Þetta er að sumu leyti eðlilegt. Áreiðanlegt er að hluti sigurs VG í síðustu kosningum var vegna þess að þeir voru taldir vera á móti ESB. Þeir sem trúðu því og vildu endilega styrkja fjórflokkinn höfðu varla annan kost.

Svanur Gísli Þorkelsson ritar alllangan pistil um svonefnda Þorláksbúð í Skálholti. Grein Svans er öfglaus og saga hússins er þar rakin nokkuð ítarlega. http://svanurg.blog.is/blog/svanurg/entry/1269507/#comments Ekki er hægt annað en fallast á röksemdir Svans um að húsið þurfi að rífa eða færa. Ekki hef ég í hyggju að endursegja greinina en þeir sem áhuga hafa á þessu máli ættu endilega að lesa hana.

Kisa.IMG 1985


1810 - Bloggfíkn

Einhverjir halda enn tryggð við Moggabloggið gamla. Halda samt framhjá með fésbókinni eða einhverju öðru vafasömu vefsetri. Geri það svosem sjálfur líka. Veit ekki hvar þetta endar. Internetið er alltaf að verða stærri og stærri hluti af lífi manns. Líklega er það einhver merkasta nýjung tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Það byrjaði raunar fyrir aldamót en óhætt er að segja að það hafi ekki náð allsherjarútbreiðslu fyrr en á þessari. Fjölyrðum ekki meira um það. Þetta vita allir. Síminn er líka búinn að ná gríðarlegri útbreiðslu, en hefur verið ansi lengi að því.

Mennirnir breytast samt ekki. Sú reiðialda sem nú fer um heiminn vegna atburðanna á Gaza gæti hæglega orðið Ísraelsku ríkisstjórninni að falli. Hræddur er ég um að afl Internetsins í svona málum sé vanmetið. Breytingarnar eru svo hraðfara að ekkert er auðveldara en að missa af þeim.

Þetta er ekki framhald af því sem á undan er. Bæði er hægt að blogga of lítið og of mikið. Mér finnst ég blogga hæfilega mikið. Sumir gera miklu meira af því, en aðrir minna. Það er bara eins og gengur. Ekki er hægt að segja að blogg-gæði fari eftir magni. (Þrír samhljóðar saman er fremur ljótt).  Heldur ekki eftir vinsældum. En hverju þá? Það verður hver og einn að ákveða sjálfur. Menn geta alveg eins orðið bloggfíklar (blogga of mikið eða lesa of mörg blogg) eins og fréttafíklar eða netfíklar. Ekkert af þessu er gott. Öll fíkn er skaðleg. En er hún ekki einmitt fíkn af því að hún er skaðleg? Um þetta má lengi deila. Hóf er best í öllu segir gamla máltækið og vel má heimfæra það á þetta.

Sjálfum finnst mér ég blogga hæfilega mikið eins og áður segir. Einnig hæfilega oft. Hvernig má líka annað vera? Ef mér fyndist ég blogga of oft eða of mikið ætti að vera auðvelt fyrir mig að draga úr því. Það reyndi ég að gera fyrir nokkru, en gekk illa. Þá var ég orðinn háður því að setja alltaf upp blogg á sama tíma (rétt eftir miðnætti – miðnæturbloggara kallaði Emil Hannes mig). En það er erfitt að draga úr bloggi þegar maður hefur einu sinni vanið sig á það. Kannski blogga ég ekki daglega núna, en því sem næst. Ég er þó ekki bundinn af því að setja blogg upp á ákveðnum tíma eins og mér fannst áður.

IMG 1924Hello Kitty.


1809 - Palestína

Fór á mótmælafundinn á Laufásveginum. Auðvitað er útlátalítið að vera á móti stríðsátökum. Hverjir eru það ekki? Fannst lélegt hjá innanríkisráðherra, sem lét svo lítið að ávarpa fundinn, að enda ræðu sína á ensku. Sífellt minnkar álit mitt á Ömma. Einu sinni þóttist hann ekki einu sinni vera Vinstri grænn. Í auglýsingaskyni hefði nægt að mæta á fundinn eins og Steingrímur J. Sigfússon gerði. Nokkur fjöldi óbreyttra þingmanna gerði það einnig. Lögreglumenn voru þar og í úrvali. Fundarsókn var líklega betri en fundarboðendur gerðu ráð fyrir.

Meira hef ég eiginlega ekki um fundinn að segja. Hann var ekki sérlega merkilegur. Kannski fylgir honum samt eitthvað. Við Íslendingar eigum enn eftir að þvo af okkur skömmina fyrir þátt okkar í stofnun Ísraelsríkis. Það var kalt þarna. Á laugardagsfundunum á Austurvelli um árið var líka kalt. Einhvern vegin hafði það samt minni áhrif. Tunglið við enda götunnar mældi tímann sem fór í þetta. Hann var fulllangur E.t.v. er hægt að gera jöfnu þar sem hitastigið er látið ráða heppilegri lengd funda. Mesta athygli mína vakti girðingin í kringum sendiráðið hana hafði ég ekki séð áður. Öll ljós í sendiráðinu voru vandlega slökkt. Hvernig er hægt að slökkva ljós vandlega?

Tók einu sinni þátt í mótmælum við sendiráð Rússa í Garðastræði. Það var fjörugra en þetta. Enda í ágúst ef ég man rétt. Nenni ekki að tékka.

IMG 1881Gestaþraut?


1808 - Styrmir Gunnarsson

Enn er snjór hér á Stór-Kópavogssvæðinu þó kominn sé laugardagsmorgun og helgin skollin á. Þá hlýtur landið allt að vera hvítt séð úr gervitunglum, séu skýin ekki að glenna sig of mikið. Vegir á láglendi býst ég við að séu auðir hér í grennd og hugsanlegt rok mesta hættan.

Í þeim orðum Styrmis Gunnarssonar fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins sem Sigmar í Kastljósinu vitnaði til í þættinum s.l. fimmtudag kom það vel fram að Styrmir mat meira sem ritstjóri Morgunblaðsins hag Sjálfstæðisflokksins en þjóðarhag og gerir hugsanlega enn.

Þó Styrmir hafi reynt að afneita skilningi Sigmars voru þær tilraunir hans heldur máttlausar og ótrúverðugar. Með skrifum sínum og fullyrðingum eftir að hann hætti sem ritstjóri hefur Styrmir áreiðanlega stórskaðað Sjálfstæðisflokkinn og vandséð er hversvegna nokkur ætti að láta pólitísk skrif Morgunblaðsins hafa áhrif á sig framar. Fréttamennskan þar er þó í lagi og á margan hátt er blaðið vandað.

Framkoma þess á starfstíma Styrmis hefur verið með miklum eindæmum. Um það hljóta allir að vera sammála. Hann sér líklega núna hve rotið og spillt andrúmsloftið hefur verið þar á þeim tíma. Kannski hafa önnur dagblöð ekki verið neitt skárri, en það afsakar ekkert. Völdin á ritstjórnarskrifstofu Mogunblaðsins voru alltof mikil.

Þessa dagana er varla kíkjandi á fésbókina fyrir prófkjörsáróðri. Þegar fjórflokkurinn hefur lokið sér af í því tilliti taka litlu flokkarnir við. Árangur þeirra (í skoðanakönnunum) gæti ég trúað að verði talsvert mikill þegar öllum prófkjörum er lokið og það fer að liggja nokkuð ljóst fyrir hverja möguleika fólk hefur til að láta álit sitt í ljós.

IMG 1878Sérmerkt.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband