Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

639. - Pælingar um ýmislegt og frásagnir af dansinum í Hruna og Árna í Botni

Bloggvinur minn Sigurður Hreiðar segir á sínu bloggi:

Út af fyrir sig gaman að verða þess áskynja hvaða viðbrögð það vekur sem maður fjallar um í svona bloggi, þó ekki komi það allt fram í athugasemdum heldur allt eins þegar maður hittir mann/menn (og minnumst þess að konur er menn) og í tölvupósti. Þannig hefur sumum hitnað í hamsi yfir bloggi mínu hér á undan og talið mig talsmann þess að óbótamenn sleppi óbarðir. Hið rétta er að ég hef ekki á móti því að þeir séu sakfelldir sem sök eiga, en stórefast um að refsingar út af fyrir sig séu mannbætandi og ekki verður tap mitt af efnahagshruninu minna þó einhverjum verði um síðir stungið í fangelsi sem vegna hrunsins.

Það er alveg rétt sem hann segir í fyrri hluta þessarar klausu en hann minnist þó ekki á þann hópinn sem líklega er fjölmennastur og það eru þeir sem ekkert heyrist frá. Það er nauðsynlegt að skrifa líka með tilliti til þeirra. Einkum ef maður er forsíðubloggari eins og við Sigurður erum báðir.

Eins og álfur út úr hól sagði Davíð um Jóhönnu Sigurðar. Svanur Gísli Þorkelsson gerir þessi orð að umtalsefni á bloggi sínu og leiðir rök að því að þetta hafi verið háð og spé með skírskotun til kynhneigðar (álfur = fairy).

Kannski er þetta rétt hjá honum og kannski ekki. Áhorfendur hafa samt áreiðanlega ekki skilið það þannig. Ég vil heldur vera undir stjórn álfs útúr hól en trölls úr Svörtuloftum og skammast mín ekkert fyrir það. Margir hafa hrósað mikið ræðunni Davíðs. Ég get það ekki. Til þess var hún of rætin og illskeytt. Vel var hún samt flutt og áhrifamikil. Eiginlega er hún það sem uppúr stendur frá þessum vandræðalegu landsþingum sem haldin hafa verið að undanförnu.

Þetta er eitthvað sem ég vildi gjarnan koma að núna. Hér fyrir aftan er ekki annað en endursagðar þjóðsögur svo þeir sem ekki hafa áhuga á þeim geta hætt hér.

Margir kannast við þjóðsöguna um dansinn í Hruna. Það sem gerst hefur hér á Íslandi að undanförnu minnir um sumt á þá frásögn. Mig langar að rifja upp helstu atriði sögunnar í stuttu máli.

Prestur einn í Hruna í Árnessýslu var mjög gefinn fyrir skemmtanir. Á jólanótt var það siður hans að halda dansskemmtun í kirkjunni og messa síðan að henni lokinni. Móðir prestsins sem Una hét kunni þessu illa og vildi fá hann til að hætta þessu.

Eitt sinn varð dansskemmtunin í lengra lagi og fór Una þá út í kirkju og vildi fá son sinn til að hætta. Hann sagði að hann mundi gera það fljótlega en ekki alveg strax.

Þegar Una er á leið út úr kirkjunni heyrir hún kveðið:

Hátt lætur í Hruna;
hirðar þangað bruna;
svo skal dansinn duna,
að drengir megi muna.
Enn er hún Una,
og enn er hún Una.

Þegar Una kemur útúr kirkjunni mætir hún manni sem hún telur vera djöfulinn sjálfan. Ríður hún þá í næstu sókn og sækir prestinn þar sér til fulltingis. Hann fer með henni að Hruna ásamt öðrum mönnum. Þegar þangað kemur er kirkjan og kirkjugarðurinn sokkinn með fólkinu í, en þeir heyra ýlfur og gaul niðri í jörðinni.

Enn sjást merki um að kirkjan hafi einhverju sinni staðið uppá Hrunanum sem er hæð nokkur við bæinn.

Eftir þetta var kirkjan flutt niður fyrir Hrunann þangað sem hún er nú og sagt er að ekki hafi síðan verið dansað á jólanótt í Hrunakirkju.

Argasta kotið í Helgafellssveit heitir í Botni. Þar bjó Árni í Botni.

Eitt sinn hélt hann suður á land. Þar kom hann að prestsetri og gisti þar. Fyrsta morguninn gáði hann til veðurs og tautaði við sjálfan sig:

„Skyldu bátar mínir róa í dag?"

Þrjá morgna í röð gerði hann svipað. Skyggndist til veðurs og tautaði við sjálfan sig eitthvað um báta sína.

Presturinn og dóttir hans gjafvaxta heyrðu þetta og héldu að hann væri stórhöfðingi af Vesturlandi. Árni nýtti tækifærið og bað um hönd prestsdóttur. Fékk hann hennar.

Fara nú Árni og brúður hans heimleiðis. Ævinlega þegar riðið var framhjá stórbýli þýfgaði prestsdóttir Árna um hvort þarna væri bærinn hans.

„Og ekki enn," sagði Árni.

Loks komu þau í myrkri að koti einu og þar fór Árni af baki. Kallaði á kerlu mömmu sína og bað hana að kveikja á gull-lampanun. Ekki gat hún það. Silfur-lampanum þá, sagði Árni. Ekki gekk það.

„Kveiktu þá á helvískri kolskörunni," sagði hann þá.

„Það skal ég gera," sagði kerling og hljóp til og kveikti.

Um Árna í Botni var kveðið:

Árni í Botni allur rotni,
ekki er dyggðin fín;
þjófabæli, það er hans hæli,
þar sem aldrei sólin skín.


638. - Ef þú skilur þetta ekki þá skilurðu ekki neitt. Skilurðu það?

Fátt er jafnskemmtilegt að horfa á og ófarir annarra. Ræðumenn nota gjarnan þá aðferð til að upphefja sjálfa sig að gera lítið úr öðrum. Vinsælir sjónvarpsþættir gera útá ófarir og niðurlægingu þó stundum sé reynt að leyna því. Um þetta má finna mörg dæmi. Ég ætla að nefna nokkur

Fyndnar fjölskyldumyndir hét þáttur sem var afar vinsæll fyrir fáeinum árum. Mest gengu þessar fjölskyldumyndir útá hverskyns slys og óhöpp og byggðust vinsældirnar einkum á því. Núorðið er slíkt að mestu leyti komið á Netið og vinsælt er að senda það sem víðast.

Spurningaþættir allir eru einkum um það hvað þátttakendur séu vitlausir. Þeir sem heima í stofu sitja geta alltaf svarað einhverju sem ekki kemur svar við í sjónvarpinu. Slíkt er það langeftirminnilegasta úr þáttunum. Svo eru mistök dómara náttúrulega hreinn hvalreki.

Tveir spurningaþættir eru vinsælastir nú um stundir. Það eru Útsvar og Gettu betur. Í Gettu betur er flýtirinn slíkur að venjulegt fólk missir af flestu. Þættirnir eru einkum gerðir fyrir þátttakendurna og klappliðin enda fer áhorf mjög minnkandi. Í Útsvari byggist allt á léttleikanum. Þar er þátturinn sniðinn til þess að skemmta sem allra mest. Spyrlarnir reyna að ryðja úr sér bröndurum en auðvitað snýst allt um það að einhverjir verða að tapa.

Spurningaþátturinn sem tröllreið sjónvarpi fyrir nokkrum árum og hét Viltu vinna milljón? (Íslensk milljón var reyndar svo lítil að nafnið var hálfasnalegt) byggðist auðvitað á því að skemmtilegast var þegar þátttakendur götuðu jafnvel þó reynt væri að hjálpa þeim. Og allra skemmtilegast var auðvitað þegar þeir töpuðu sem mestu með því að gata. Einstöku sinnum götuðu menn þó ekki. Það var bara til að fólk yrði síður vart við niðurlæginguna.

Idol-þættirnir vinsælu og ýmsar eftirlíkingar þeirra byggjast á því að niðurlægja þá sem tapa. Kosið er um þá vinsælustu en auðvitað er það taparinn sem mestu máli skiptir.

Raunveruleikaþættir ýmsir byggjast á þessu sama. Þar er oft ekki einu sinni reynt að dulbúa niðurlæginguna heldur beinlínis kosið um það hverjir eigi að fara heim. Tvöfeldni og hverskyns fláræði borgar sig best þar eins og í lífinu. Það er að segja útrásarlífinu.

 

637. - Bankahrunið, þjóðsögur, Davíð Oddsson og nokkrar myndir

Margir eru uppteknir af því hverjum bankahrunið síðastliðið haust sé að kenna. Mér finnst það litlu máli skipta. Aðalskúrkarnir eru auðvitað eigendur bankanna sem stálu beinlínis frá okkur stórkostlegum fjárhæðum. 

Hinir bera auðvitað líka nokkra sök sem leyfðu þeim að komast upp með þetta. Gerðu þeim kleift að komast framhjá regluverki sem hefði átt að stöðva þá.

Starfsfólk á auglýsingastofum bankanna, sem gjarnan voru kallaðar greiningardeildir eða eitthvað þess háttar, ber líka nokkra sök. Eflaust trúðu margir því fólki. Það gerði sér líka far um að vera trúverðugt þó ekki sé erfitt núna eftirá að sjá hverslags steypu það lét frá sér fara.

Margar þjóðsögur eru til um viðskipti manna við Kölska. Mig minnir það hafi verið Sæmundur fróði í Odda sem ráðlagði einhverjum sem var að vandræðast með viðskipti sín við þann í neðra að prófa að reka við og segja um leið:

„Gríptu það, gríptu það og málaðu það grænt."

Þetta mundi Kölski eiga í vandræðum með að framkvæma og þá mundi maðurinn losna við ágang hans.

Þetta dettur mér oft í hug þegar ég heyri rekið við eða talað um að eitthvað sé grænt.

Það liggur við að ég vorkenni Vilhjálmi Egilssyni þó ég meti skoðanir hans yfirleitt ekki mikils. Hann liggur undir sífelldum árásum Davíðs Oddssonar og þar hlýtur eitthvað að búa undir. Ég man þá tíð að Vilhjálmur barðist við Sturlu Böðvarsson í forkosningum á Vesturlandi. Talað var um falsanir, atkvæðakaup og hvers kyns ótugtarskap.

Allt útlit var fyrir að harkan milli þeirra mundi fara vaxandi en að lokum féllust þeir á að Davíð skæri úr um ágreininginn milli þeirra. Hann tók taum Sturlu í málinu og stakk dúsu upp í Vilhjálm. Af einhverjum ástæðum þarf Davíð enn að ná sér niðri á Vilhjálmi. Auminginn á sér varla viðreisnar von innan flokksins.

Davíð sagði að skýrsla Vilhjálms Egilssonar og fleiri væri illa skrifað plagg. Sama sagði Sigurður litli Einarsson um skýrslu Seðlabankans sem tekin var saman í febrúar 2008 og gerð opinber fyrir stuttu. Illa skrifað blogg er eiginlega það sama. Ég reyni að forðast að blogga illa. Stundum tekst mér sæmilega upp við það en ekki alltaf.

Í lokin eru svo hérna nokkrar myndir:

IMG 2206Trampólín.

IMG 2219Fyrrverandi trampólín. Hér hefur eitthvað gengið á.

IMG 2207Já, svona fer kreppan með suma. Bara búið að negla fyrir gluggana.

IMG 2212Ekki kannski Southfork en sennilega næsti bær við.

IMG 2213Ég hélt alltaf að brunahanar væru gulir en í Kópavogi eru þeir allavega á litinn. Sá einn eldrauðan þar um daginn. Ágæt hugmynd að hafa vaskafat hjá brunahananum.

IMG 2217Fáir skorsteinar eru núorðið í Kópavoginum en þeim mun skrautlegri þeir sem eftir eru.

IMG 2222Ísklumpur alveg að fara að bráðna (vonandi).

IMG 2229Lastaranum líkar ei neitt
lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
fordæmir hann skóginn.

 

636. - Árný Filippusdóttir á Hverabökkum

Árný Filippusdóttir á Hverabökkum kallaði mig jafnan „litla frænda." Ekki veit ég hvernig ég átti að vera skyldur henni. Ég kunni þessu fremur illa og þótti enginn heiður að því að vera skyldur Árnýju. Svo var ég alls ekkert lítill. Frekar að ég þætti í stærra lagi og leiddist mér einnig þegar fjölyrt var um það.

Árný stofnsetti og stjórnaði frægum kvennaskóla í Hveragerði og ég man vel eftir henni þaðan. Hún var einn af þeim Hvergerðingum í gamla daga sem munaði um. Þegar hún hætti sem skólastjóri kvennaskólans einbeitti hún sér að uppeldi þeirra Harðar og Kúts. Einnig var Herbert sem stundum var kallaður borgarstjóri á hennar vegum og bjó með henni í stórhýsinu sem áður var kvennaskólinn.

Hörður var talsvert drykkfelldur og bjó jafnan í kjallara kvennaskólans en stundaði oft vinnu ágætlega. Við krakkarnir höfðum gaman af að stríða honum og kalla hann Hörð fyllibyttu og þá hljóp hann gjarnan á eftir okkur en hefði sjálfsagt ekki gert okkur neitt þó hann hefði náð okkur. Kútur var talsvert yngri en Hörður og ég kann lítið frá honum að segja.

Þegar Taflfélag Hveragerðis var stofnað tefldum við að minnsta kosti fyrsta veturinn í kvennaskólanum. Seinna vorum við svo í Laugaskarði eftir að Hjörtur flutti þaðan og í húsið sem hann byggði skammt frá.

Þegar við tefldum í kvennaskólanum fylgdist Árný stundum með og hafði gaman af. Hún var mikil hannyrðakona og ég man eftir einu veggteppi sem hún hafði saumað og náði veggjanna á milli í stóru stofunni.

Seinna þegar ég vann í kaupfélaginu kom hún stundum út í kaupfélag á inniskónum og með sokkana upprúllaða um öklana. Eitt sinn bauð hún okkur Bjarna Sigurðssyni að smakka á hrosshaus sem hún sagðist vera að sjóða en við vildum ekki þiggja það.

Árný var dálítið smámælt. Sagt var að hún hafi einhverju sinni hringt til Magdalenu handavinnukennara og sagt við hana: „Er þikkþakk á þinni? Það er nefnilega ekkert þikkþakk á minni." Þarna var hún að sjálfsögðu að spyrja hvort zikkzakk væri á hennar saumavél.

Árný byggði sér íbúðarhús austarlega í þorpinu. Var það mikið hús og vandað. Ekki man ég hvort hún flutti nokkurn tíma í það en Árnýjarhús var það jafnan kallað. Ingibjörg systir mín og Hörður Vignir Sigurðsson maðurinn hennar bjuggu þar eitt sinn um tíma. Þar fæddist Bjarni Harðarson systursonur minn og fyrrverandi Alþingismaður. Það var Hulda á Mel sem tók á móti honum.

 

635. - Ingólfur Arnarson veginn og léttvægur fundinn

Lengi hefur verið haft fyrir satt að landnám Íslands hafi átt sér stað árið 874 eða um það bil. Þetta er auðvitað hin mesta fjarstæða og hefur oft verið sýnt fram á það. Bækur hafa verið ritaðar um landnámið fyrir landnám, bent hefur verið á ýmislegt sem stangast á við þessa söguskoðun, geislakolsmælingar hafa sannað að landnámið er að minnsta kosti nokkur hundruð árum eldra o.s.frv. Samt er það allvaldamikill hópur sem enn heldur sig við 874 og ber fyrir sig texta sem eignaður er Ara fróða á Staðastað. 

Gamall texti er ekki heilagur og vel getur verið að Ara hafi skjöplast eða jafnvel gefið ártöl í skyn gegn betri vitund. Vísindalegar athuganir eru mun líklegri til að leiða sannleikann í ljós. Þó afleiðingin verði sú að ekki sé eins auðvelt að ársetja landnámið skiptir það engu. Líka getur verið að nauðsynlegt verði að endurskoða vísindalegar niðurstöður í þessum efnum síðar en við því er ekkert að gera.

Nú eru að fara af stað athuganir á kolagröfum sem ættu að sýna í eitt skipti fyrir öll að Íslendingar kunnu að búa til viðarkol 600 til 700 árum eftir Krists burð hvað sem landnáminu og Ingólfi Arnarsyni líður.

Hvað sem mönnum er mikill akkur í því að geta haldið fram að landnámið hafi átt sér stað árið 874 er enginn vafi á því að sannleikurinn mun sigra að lokum. Reynt hefur verið að þagga þessa vitneskju niður eins og reynt hefur verið að viðhalda þeirri fáránlegu söguskýringu að aumingjaskapur Íslendinga á fyrri tíð hafi einkum verið Dönum að kenna.

Mér er enn í minni hve miklum þrætum sú sjónvarpsmynd olli sem Baldur Hermannsson gerði og nefndi „Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Fjaðrafokinu sem þá geysaði verður helst líkt við Grindavíkurfárið þar sem fiskur lá undir steini.

Hér er auðvitað vísað til sjónvarpsmyndar þeirrar sem Þorsteinn Jónsson gerði árið 1974 og fjallaði um mannlífið í Grindavík. Hún var nefnd „Fiskur undir steini."

Ég er alveg að verða ruglaður á þessari listaþvælu. Mér sýnist dæmið líta svona út núna:

A - Sturla Jónsson
B - Framsóknarflokkur
D - Sjálfstæðisflokkur
F - Frjálslyndi flokkurinn
I - Ómar Ragnarsson
L - Bjarni Harðarson
N - Sævar Ciesielski
O - Þráinn Bertelsson
P - Ástþór Magnússon
S - Samfylkingin
V - Vinstri grænir

Hvar í ósköpunum á ég að setja exið?

 

634. - Pólitíkin enn og aftur. Léleg tík það

Pólitískir langhundar eru eitt það versta sem ég veit. Þessvegna reyni ég að blogga  fremur stutt þegar ég hætti mér á hið pólitíska svið.

Hugsjón sjálfstæðismanna er að koma bæði í veg fyrir persónukjör og að stjórnlagaþing verði haldið. Allt útlit er fyrir að þeim takist að koma í veg fyrir að persónukjör verði í komandi kosningum. Enn er ekki vitað með stjórnlagaþingið. Hætt er við að ef það kemst á koppinn þá verði það í svo útþynntri útgáfu að það verði að litlu gagni. Sjálfstæðismönnum tókst ekki að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef svo kannski gengur þessi strategía ekki upp heldur.

Það er alveg rétt hjá Sóleyju Tómasdóttur að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að skila framlaginu frá Goldfinger. Það er í tísku núna að skila aftur ólöglega fengnum framlögum og er það vel. Framlagið frá Goldfinger er kannski ekki ólöglegt en starfsemin þar er í það minnsta umdeild hvað sem annars verður um hana sagt.

Ómar Ragnarsson er hættur sínum pólitíska slag. Ég held samt að hann eigi skilið að komast á þing. Miklu fremur en Ástþór Magnússon. Ástþór er þó misskilinn. Hann vill vel en sér ekki sjálfur hvenær hann á að draga sig í hlé og eftirláta öðrum sviðið. Það er merkilegt að ekkert skuli hafa komið útúr því pólitískt sem kallað hefur verið búsáhaldabyltingin. Hvað eiga einlægir stuðningsmenn þeirrar byltingar eiginlega að gera í komandi kosningum? Sitja heima? Kannski er það skást.

Ekki er auðvelt að koma auga á hvernig litlu framboðin ætla sér að fá atkvæði. Aðallega eru þau með eða á móti EBE aðild eða þau eru með eða á móti frjálsu framsali fiskveiðiheimilda. Af hverju ekki að sameinast og fara að tala um eitthvað sem máli skiptir?

 

633. - Um Helga Ágústsson og Kaupfélag Árnesinga

Eitt sinn vann ég í pantanadeild Kaupfélags Árnesinga hjá Helga Ágústssyni frá Birtingaholti. Magnús bróðir hans var héraðslæknir í Hveragerði og hann þekkti ég einnig vel. Helgi var einstakur. Einu sinni sneri hann sér skyndilega að okkur Rúnu og sagði: „Nú veit ég hvaða orð ég hef skrifað oftast um ævina. Vitið þið það? Það er ekki nafnið mitt." Auðvitað vissum við það ekki en Helgi sagði okkur það strax. „Það er orðið fóðurbl."

Pantanir voru sóttar á mjólkurbílana og þegar búið var að taka upp af þeim það sem sækja þurfti af matvöru tók Helgi upp af þeim þungavöruna áður en við Rúna skrifuðum út pakkavöruna sem á þeim var. Helgi skrifaði síðan út þungavöruna sem auðvitað var aðallega fóðurblanda. Þungavörulistana skrifaði hann einhverra hluta vegna jafnan standandi við púlt.

Helgi hafði gaman af vísum. Einu sinni laumaði hann til mín á miða eftirfarandi vísu:

Langar þreygir hjalar hlær.
Hikar bíður grundar.
Sprangar eygir falar fær.
Fikar ríður brundar.

Honum hefði aldrei dottið í hug að fara með þessa vísu svo kvenfólk heyrði.

Pantanadeildin var í austurenda stórhýsis Kaupfélagsins og gengið inn í hana bakatil. Allmikill fjöldi starfsfólks var þar en við vorum bara þrjú á skrifstofunni. Skúli faðir Sigurjóns Skúlasonar sem seldi mér glósubækurnar á Bifröst sællar minningar vann þarna meðal annarra og einnig kona Lúðvíks verslunarstjóra í Vefnaðarvörudeildinni.

Áður en mjólkurbílstjórarnir fóru heim komu þeir í pantanadeildina að sækja þær pantanir sem búið var að taka til. Einnig þungavöruna samkvæmt útskriftarlistum Helga.

Stundum var Helgi að blaða í gömlu dagbókunum sínum og sagði til dæmis skyndilega: „Vitið þið hvernig veðrið var á þessum degi fyrir 5 árum?" Auðvitað vissum við það ekki og höfðum takmarkaðan áhuga á því, en Helgi sagði okkur það samt.

Dagbækurnar hans voru merkilegar heimildir. Þar var að finna margra ára safn af lýsingum á veðri, færð og ýmsu sem gerst hafði hjá þessu merka fyrirtæki í áranna rás. Helgi hafði unnið hjá Kaupfélaginu frá því það var stofnað árið 1930. Hann hafði að sjálfsögðu þekkt vel Egil Thorarensen í Sigtúnum sem var fyrsti kaupfélagsstjóri félagsins. Egill var nýlátinn þegar þetta var.

 

632. - Hundahreinsun sjálfstæðismanna

Hundahreinsun sjálfstæðismanna er sú að fyrrverandi ráðherrar þeirra og þingmenn fá slakari útkomu í prófkjörum en áður. Því taka þeir með þökkum í von um áframhaldandi setu við kjötkatlana. Með þessu hafa þeir líka kastað öllum sínum syndum bak við sig að hætti sannra hermanna hjálpræðisins og kjósendur þeirra geta nú óhræddir kosið þá aftur.

Já, ég er Evrópusinni. Tel samt skipta meira máli en aðild að Evrópusambandinu að komið verði í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn sé að vasast í stjórn landsins næstu árin. Vorkenni Samfylkingarfólki ekki vitund að bíða eftir Sovét-Evrópu. Þess vegna er alveg óhætt að lofa því að fara frekar í ríkisstjórn með Vinstri Grænum en Sjálfstæðisflokki.

Vildi að ég gæti hætt þessu pólitíska rausi. Finnst það leiðinlegt en þegar grannt er skoðað er auðvitað fátt sem skiptir meira máli.

Vil heldur ekki vera eins og Hannes Hólmsteinn segir að flestir sjálfstæðismenn séu og láta aðra hugsa um stjórnmál fyrir mig. Og samkvæmt Hannesi eru þessir fáu sjálfstæðismenn sem hugsa um stjórnmál einkum í því að græða á daginn en grilla á kvöldin.

Nei annars, það er ósanngjarnt að láta svona. Sjálfstæðismenn eru ekkert verri en aðrir. Þingmenn þeirra og helstu talsmenn eru samt dálítið misheppnaðir.

Ég hugsa oft um málshætti. Bæði afbakaða og aðra. Gallinn er bara sá að mér dettur oft í hug eitthvað rosalega dónalegt þegar sumir málshættir eru annars vegar. Sem dæmi má nefna málshættina „Að færa sig uppá skaftið." og „Eigi má sköpum renna."

 

631. - Sitt af hverju tagi. Pólitík, myndir og annað

Seta í skilanefnd er feitasti bitlingurinn sem völ er á um þessar mundir. Alltaf nóg að gera og enginn hörgull á verkefnum.

Þegar kosningalögunum verður breytt (ef þeim verður breytt) verður kosningaréttur kannski jafnaður svolítið. Hingað til hafa allar breytingar verið gerðar útfrá hagsmunum fjórflokksins. Þingmenn munu margir reyna að hanga á óréttlætinu enn um sinn. Þeir eru því vanastir að þurfa ekki að sleikja sig upp við aðra en valdamenn í eigin flokki til að tryggja sér áframhaldandi þingmennsku. Að þurfa að eiga framtíð sína að mestu eða öllu leyti undir duttlungum kjósenda er afleitt í þeirra augum.

Stefán Friðrik Stefánsson skrifar mikið og bloggar á við marga. Því miður er sjaldan mikið að marka það sem hann segir. Hann má þó eiga það að hann er fljótur til og segir það sem hann hugsar. Ómar Ragnarsson er annar bloggari sem lætur sér fátt óviðkomandi. Á sumum sviðum er hann óþolandi besservisser en veit samt ótrúlega margt.

Svo eru hérna nokkrar myndir.

IMG 2130„Já, en hvaða bílar eru réttir?" Eða á kannski að segja: „Hvaða bíla er búið að rétta?"

IMG 2134Svona skrautlegir strætisvagnar sjást sjaldan á götunum.

IMG 2155Skrautlegur skúr.

IMG 2161Sveit í borg. Þessi mynd er tekin í Fossvoginum.

IMG 2166Búið að leggja gömlu farartækjunum.

IMG 2178Þegar snjórinn fer kemur ruslið í ljós.

IMG 2189Gamli og nýi tíminn.

IMG 2192„Út vil ek," segja sprotarnir.

IMG 2198Trjábörkur.

IMG 2199Málningarslettur.

IMG 2200Hingað fer sko enginn.


630. - Milljarðarnir margfaldast og auka kyn sitt

Í morgun var Arnþrúður á Sögu að æsa sig yfir því að skuldir hvers heimilis í landinu væru að meðaltali yfir 200 milljarðar. Þetta er nú áreiðanlega ofreiknað hjá henni en heimsendaspámenn sem vaða uppi þegar eitthvað mikið bjátar á minna mig oft á Sölva Helgason.

Sölvi sagði frá því að eitt sinn lenti hann í reikningskeppni við annan snilling. Sá ætlaði að fara illa með Sölva og reiknaði barn í svertingjakerlingu suður í Afríku. Sölvi tók nú til verka og reiknaði og reiknaði svo svitinn bogaði af honum og tókst eftir mikið strit að reikna barnið úr kerlingunni aftur og sagðist ekki hafa komist í harðari raun.

Sendiboðar djöfulsins eru margir. Heyrt hef ég að allir sem skráðir eru á fésbókina séu það. Biskupinn líka. Veit ekki einu sinni hvort ég slepp sjálfur þó ég hafi aldrei skráð mig á nefnda bók. Að minnsta kosti ekki með fullri meðvitund.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband