Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

1645 - Hverju reiddust goðin?

hinrikaGamla myndin.
Hinrika Halldórsdóttir og Helgi Ingi.

„Hverju reiddust goðin þá er hraun það brann sem nú stöndum vér á?“ er haldið fram að Snorri goði hafi sagt á Þingvöllum árið 1000 þegar honum var sagt að nú væru goðin reið því hraunstraumur stefndi á Hjalla í Ölfusi þar sem Skafti Þóroddsson lögsögumaður bjó.

Þetta hefur verið talið eitt elsta dæmi í heiminum um jarðfræðilega þekkingu og ber svo sannarlega ótvírætt vitni um vísindalega hugsun Íslendinga á fyrri öldum.

Það er næstum ótrúlegt að Snorri goði á Helgafelli skuli á þessum tíma hafa hugsað á þennan hátt. Að jarðeldur væri uppi var miklu sennilegra að væri goðunum að kenna miðað við ríkjandi hugsunarhátt á þeim tíma sem þetta á að hafa gerst á. Kannski er þetta alls ekki rétt, en samt er þessi hugsun áreiðanlega ekki almenn þegar þetta er fyrst fært í letur.

Á alþingi Íslendinga er nú að ljúka umræðu um það hvort leggja skuli í þjóðaratkvæðagreiðslu, um leið og frosetakjör fer fram í sumar, tillögu um nýja stjórnarskrá. Um þetta getur þingheimur rifist fram og aftur en ekki eðli þess hrauns sem staðið er á. Traust almennings á alþingismönnum er lítið og fer sífellt minnkandi. Best væri að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um að leggja Alþingi niður.

Vel getur samt verið að það verði á endanum til góðs að þjóðaratkvæðagreiðslan um stjórnarskrárfrumvarpið fari ekki fram á sama tíma og forsetakosningarnar. Þessar kosningar, ef samtímis væru, gætu haft margskonar áhrif hvor á aðra. Kjörsóknin sem að mörgu leyti skiptir miklu máli blandast þá t.d. ekki saman. Ótrúlegt er að ríkisstjórnin hætti með öllu við þjóðaratkvæðagreiðsluna þó sjálfstæðisflokknum hafi tekist að snúa rækilega á stjórnvöld. Ekki er samt víst að þetta verði þeim flokki til framdráttar þegar frá líður, en trúlega gleymist þetta að mestu.

IMG 8117Yarisinn kemur.


1644 - Enn snúið á stjórnina

gunnarSveinn Guðmundsson og Gunnar Magnússon.

Einkennilegt er að ríkisstjórnin láti hvað eftir annað stjórnarandstöðuna snúa á sig. Sennilega kemur það ekki mikið að sök núna, en illa hefði getað farið. Alþingi er greinilega á því að minnka tiltrúna til sín þar til hún verður engin. Líklega tekst það. Verða forsetakosningarnar í sumar þá þýðingarmeiri en næstu alþingiskosningar? Ekki endilega. Að nafninu til þarf ríkisstjórn að styðjast við meirihluta alþingis og um það munu næstu alþingiskosningar snúast. Hvort þær muni snúast um eitthvað annað jafnframt verður framtíðin að skera úr um. Sú var hugmynd margra að kosningarnar mundu einkum snúast um aðild að ESB, en ekki er að sjá að svo verði. Sú aðild er nánast orðin aukaatriði. Hvað gera skuli við alþingi sjálft er málið.

Álíka klausu og hér er fyrir ofan setti ég á fésbókarstatusinn minn í morgun (miðvikudag) en líklega hefur hún skrunað hratt framhjá flestum og er þar auki sennilega alls ekki eins merkileg og mér finnst hún vera. Þessvegna set ég hana hérna líka svona til öryggis. Sé á dagatalinu mínu vinstra megin á blogginu að ég hef dregið talsvert úr bullinu undanfarið. Er þó alls ekki hættur.

Ragnheiður Elín framleiðir vinstrimenn. (Mogginn líka) Þingmenn Ragnheiðar flokks haga sér afar heimskulega þessa dagana. Jafnvel framsóknarmenn eru skynsamari, en þó ekki Vigdís Hauksdóttir. Sýnist að forsetakosningarnar í sumar muni einkum snúast um að koma ÓRG frá völdum. Hvað annað verður kosið um er ekki ljóst á þessari stundu. Kannski ekkert.

Sá er gallinn á meiningunni í efstu klausunni hér, sé ég núna, að kannski er stjórninni meira í mun að koma kvótafrumvarpinu í gegn en stjórnarskrármálinu. Þó hefði ég ekki haldið svo vera.

IMG 8114Eldiviður.


1643 - Fésbókarframboð Þóru Arnórsdóttur

guðmarGamla myndin.
Guðmar Magnússon.

Kannski má kalla framboð Þóru Arnórsdóttur til forseta, ef af verður, einskonar fésbókarframboð, en er það nokkuð verra fyrir það? Á mörgum er helst að skilja að mestu máli skipti hvort hún er hugsanlega vinstri sinnuð eða hugsanlega hægri sinnuð. Mér finnst það ekki skipta nokkru máli. Einfaldlega finnst mér að það sé kominn tími til að skipta ÓRG út. Ekki er samt ólíklegt að sumir taki ákvörðum um stuðning sinn í forsetakjörinu á flokkslegum grundvelli. Samkvæmt hefðinni ætti slíkt þó að skipta afar litlu máli núna. Í byrjun er þó forseti ávallt séður sem einskonar mótvægi við ríkjandi skipulag.

Í vaxandi mæli er ég að sjá aftur og aftur sömu innleggin á fésbókarræflinum. Svo er ég líka stöðugt að fá tilkynningar frá þekktu fólki um að það hafi samþykkt vinabeiðni mína. Kannski hef ég sent því vinabeiðni fyrir óralöngu en ég er löngu hættur að safna slíkum vinum. Skil ekki fésbókina, en hún er ágætur samskiptavettvangur, en svolítið uppáþrengjandi stundum. Held ég hafi reyndar sagt þetta áður, en bloggið á greinilega betur við mig.

Ég hef starfað í viðskiptalífinu mestallt mitt líf og gæti haft frá ýmsu misjöfnu að segja en geri það ekki. Ekki er það vegna þess að ég vilji halda hlífisskildi yfir þeim sem órétti hafa beitt. Heldur er það svo að þjóðfélagsástandið er mjög breytilegt. Það sem þykir sjálfsagt að ræða um núna var ekki eðlilegt að ræða um fyrir fjörutíu til fimmtíu árum. Vel getur verið að þeir mælikvarðar sem lagðir eru í dag þyki fáránlegir á morgun, þó okkur finnist það ekki.

Ég er sammála Guðmundi Andra um það að náttúrvernd er í sjálfu sér íhaldssöm. En að halda því fram að hægri menn séu upp til hópa íhaldssamari en vinstri menn er augljós fjarstæða, eins og nafngiftir af þessu tagi eru alltaf. Í besta falli geta þær með persónulegri skírskotun hjálpað mönnum við að skilgreina hluti fyrir sjálfum sér.

Hægt er að sjá eða heyra árstíðirnar
og skynja þær með ýmsum hætti.
Þær eru þó ekkert líkar hver annarri.
T.d. er vorið ekki vitund líkt haustinu.

Ég er ekki mikið fyrir að greina karaktereinkenni eftir kyni en ég sé ekki betur en konur séu mun aktívari á fésbókinni en karlar. Það þarf ekki að þýða neitt sérstakt. Kannski er það í raun jákvætt þó mér finnist það heldur neikvætt. Fésbókin er nefnilega svo mikið að yfirfyllast af allskyns auglýsingum og heilbrigðum mat að að hún er að verða illlæsileg. Þó karlar og konur séu oft furðulík þá fer ég ekki ofan af því að lesefnið er mismunandi. Öll vísindin og tæknin sem karlagreyin telja sér trú um að séu svo afskaplega fræðandi og vel fram sett (Attenborough o.fl.) er fjandans bull og þeir er píndir til þess í 434 skipti að horfa á sömu mörgæsina koma úr kafi og lenda með tilþrifum á ísnum.

Eitt kom mér mjög á óvart þegar ég var að lesa ævisögu Fischers og mér er nær að halda að það hafi ekki komið fram áður. Mamma hans heimsótti hann eitt sinn á Loftleiðahótelið og gisti hjá honum í eina nótt. Var í dulargerfi og með hárkollu (ljósa) vegna blaðamannanna og Fischer var mjög ánægður með að sjá hana og hitta. Hún átti um þær mundir heima í Bretlandi. Skipti sér ekki af neinu. Hafði vit á því.

Held að það hafi verið Kolbrún Bergþórsdóttir sem lýsti því yfir í Silfri Egils að hún gæti varla beðið eftir bók 2 í Hunger Games seríunni. Ég er einmitt að lesa þá bók núna og hún virðist vera mjög spennandi en ekki kannski alveg eins vel skrifuð og sú fyrsta. Ætla samt ekkert að fara að tíunda efni bókarinnar. Datt samt í hug framarlega í bókinni að Katniss Everdeen væri farin að stæla Hróa Hött fullmikið.

IMG 8110Laufblað.


1642 - Undanfari heimsmeistaraeinvígisins í skák

gróGamla myndin.
Guðmundur Reynir.

Árið 1958 tefldi Friðrik Ólafsson á millisvæðamóti sem haldið var í baðstrandarbænum Portoroz og varð þar meðal efstu manna og fékk þar af leiðandi rétt til að tefla á kandídatamótinu sem haldið var á ýmsum stöðum í Júgóslavíu árið eftir. Róbert James Fischer sem þá var aðeins 15 ára tefldi einnig á mótinu og reyndar kandídatamótinu einnig. Hvorugum gekk eins vel og þeirra æstustu aðdáendur vonuðust eftir. Fischer átti þó eftir að koma mikið við framtíðarsögu heimsmeistaratitilsins í skák. Tal sigraði á þessu kandídatamóti og fékk þar með rétt til að skora á heimsmeistarann Botvinnik.

Næsta millisvæðamót var ekki haldið fyrr en árið 1962 í Stokkhólmi. Kandidatamótið var síðan haldið sama ár í Kurasaó í Suður-Ameríku. Fischer tefldi að sjálfsögðu þar en varð ekki efstur og kenndi Rússum um það. Þeir hefðu ætíð samið stutt jafntefli í innbyrðisskákum og þannig sparað orkuna til að geta klekkt á honum. Hvort sem þetta var rétt hjá honum eða ekki var kandídatamótum eftir þetta breytt í einvígi.

Millisvæðamót í skák voru síðan haldin í Amsterdam (1964) og Sousse í Túnis (1967) og þó Fischer byrjaði vel í þeim báðum lauk hann þeim ekki og missti þar með af þeim kandidataeinvígum sem í hönd fóru að þeim loknum.

Árið 1970 var millisvæðamótið haldið á eyjunni Mallorka sem tilheyrir Spáni. Bandaríska meistaramótið frá 1969 var látið ráða því hvaða skákmeistarar þaðan hefðu rétt til að tefla á því. Það voru: Reshevsky, Addison og Benkö, en Fischer hafði lent í útistöðum við mótshaldarana og ekki tekið þátt. Hann fékk þó að lokum sæti Benkös þó þeir væru engir vinir. Fischer sigraði síðan auðveldlega á þessu millisvæðamóti eins og flestir höfðu búist við. Sigraði síðan Taimanov, Larsen og Petrosjan í sögulegum einvígum og öðlaðist þar með réttinn til að skora heimsmeistarann Boris Spassky á hólm. Framhald sögunnar þekkja sennilega flestir Íslendingar.

IMG 8137Jú, víst er vorið komið.


1641 - 83.000.000.000,-

geirGamla myndin.
Þetta er greinilega Geir Magnússon sem situr þarna á herðum Gunnlaugs Sigvaldasonar.

Það undarlega við lífið er að maður veit ekki rassgat um hvað eða hvernig aðrir hugsa. Það er örugglega ekki rétt sem skáldið sagði eitt sinn. „Undarleg ósköp að deyja.“ Það er eiginlega miklu undarlegra að við skulum lifa. Til hvers lifum við? Til að áreita aðra eða til að láta gott af okkur leiða? Til að öðlast sæluvist á himni að þessu lífi loknu? Nirvana jafnvel. Eilíft sæluástand sálarinnar? Er ekki eilífðin hræðilega löng? Til hvers að vera að þessu streði?

Hvað er merkilegt við það að vera til? Væri þá ómerkilegt að vera ekki til? Það er svosem endalaust hægt að spekúlera í orðum. En meika þau einhvern sens? Hversvegna eru fjöllin blá? Er ekki best að vera á móti öllu? Sjálfum sér jafnvel? Hverslags rugl er þetta?

83 milljarðar er svosem enginn peningur. Allavega finnst Davíð það ekki. Ég veit ekki hvort tekur því að kæra hann fyrir þjófnað eða eitthvað þessháttar útaf þessum smámunum. Líklega hefur hann dómskerfið í vasa sínum og yrði sýknaður og gott ef ríkið yrði ekki að borga honum stórfelldar skaðabætur. Ég er ekkert að reyna að slá Jónas út í stóryrðum og ásökunum. Mér blöskrar bara stundum þó ekki sé það stöðugt og viðvarandi eins og hjá sumum.

Ætli endirinn verði ekki sá að ég kjósi Ástþór í forsetakosningunum í sumar. Ekki kýs ég ÓRG. Ástþór hefur ekki borgað mér neitt en mætti auðvitað gera það. Hugsanlegt er að ef ég agitera nógu mikið fyrir hann hér á blogginu mínu að einhverjir glæpist til að kjósa hann. Ekki veit ég samt hvort mér tekst að fá einhverja til að skrifa uppá meðmælaskjal um hans framboð. Geri varla ráð fyrir að ég verði sjálfur ginnkeyptur fyrir slíku. Steinunn Ólína er víst alveg hætt við og er það skaði.

IMG 8087Æ, það er hálfkalt.


1640 - Upplýsingahraðbrautin

birgirGamla myndin.
Birgir Marínósson.

Á margan hátt er erfitt að verða gamall. Hversu skemmtilegt væri ekki að vita þó ekki væri nema helminginn af því sem maður þó veit, (svo ekki sé talað um meira) en vera samt ekki enn kominn á táningsaldurinn!! Þær breytingar sem framundan eru í heiminum eru svo miklar að allt sem gerst hefur hingað til bliknar í samanburðinum. Kannski er sú samskiptabylting sem Internetið og skyld tækni mun óhjákvæmilega hafa í för með sér sú langmerkilegasta sem átt hefur sér stað. Þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum og ég hef átt þess kost að fylgjast með eru þó miklar, en þær sem í vændum eru sýnast þó vera enn róttækari ef mannkynið tortímir sér ekki.

Líklega verður það einhvern vegin svona sem ég hætti að blogga þegar þar að kemur. Dreg smám saman úr því og blogga kannski bara sjaldnar og sjaldnar. Mér sýnist að ég hafi nú samt bloggað á mánudaginn var svo ekki er það orðið ýkja sjaldgæft enn að ég bloggi. Er búinn að skila skattskýrslunni og ekki var það mikið mál. Samþykkti bara allt án þess að tékka nokkuð á því. Skattstjóraliðið hlýtur að hafa þetta rétt. Reikna bara ekki með öðru.

Ekki fréttist mikið um Kögunarmálið nýja. Kannski er Gunnlaugur bara hættur við. Ekki les ég bloggið hans Teits Atlasonar nógu reglulega til að fylgjast með málinu. Held að Bæjarstjórn Akraness og PBB hafi fyrirfram gefist upp á málaferlum varðandi bókina sem nefnd er „Saga Akraness“ þó ýmsu hafi verið hótað. Þeir sem peningana eiga gefast þó ekki svo glatt upp við svona lagað því auðvelt virðist að fá blaðamenn og aðra dæmda til greiðslu skaðabóta. Fólk af mínu sauðahúsi hasast þó fljótlega upp á því að fylgjast með slíkum málum.

Ofgnótt er næstum alltaf skaðlegri en skortur. Fyrir því má færa margvísleg rök. Mér sýnist þetta eiga ágætlega við varðandi Internetið. Það er lítill vafi á því, að sú ofgnótt upplýsinga sem með því hefur orðið aðgengileg öllum almenningi á Vesturlöndum, hefur skaðleg áhrif á fólk. Þetta hefur gerst á tiltölulega stuttum tíma og afar fáir virðast kunna að notfæra sér Internetið af einhverri skynsemi. Truflun er sífelld, en ekki bara öðru hvoru. Fólk beitir fullri athygli allaf skemur og skemur í einu. Alltaf er hægt að finna eitthvað enn skemmtulegra en það sem verið er að fást við. Tilheigingin er að skemmta sér undir drep. Dveljast sem allra lengst á stærsta skemmtistað í heimi.

Hvort gagnast internetið og önnur nútímatækni eins og t.d. GSM-símarnir meira og betur þeim kúguðu eða kúgurunum er sú spurning sem framtíð heimsins veltur e.t.v. á. Mér virðist sá lærdómur sem draga má af byltingunum í Norður-Afríku einkum vera sá að sú tækni nýtist þeim kúguðu betur. Þegar raunverulegt upplýsingafrelsi nær til ríkja eins og Kína, Saudi-Arabíu, Íran og annarra kúgunarríkja má fara að búast við afgerandi breytingum í heiminum.

Las nýlega fyrstu bókina í þríleiknum „Hunger games“ og býst við að margir hafi gert það. Sú sýn sem þar birtist á þjóðfélag framtíðarinnar er í mínum huga einmitt sú sem búast má við ef kúgarar heimsins ná því forskoti sem þeir virðast ætla sér. Auður og völd safnast á einn stað og misskipting heimsins gæða eykst í sífellu.

Líklega hef ég ekki lesið jafnmargar ævisögur neins manns eins og skákmeistarans Robert James Fischers. Sú sem ég er að lesa um þessar mundir heitir Endgame, gefin út á síðasta ári og er eftir Frank Brady. Sennilega er hún sú besta og ítarlegasta af þeim öllum.

IMG 8082Hættuför.


1639 - Skátun

árniGamla myndin.
Þetta sýnast mér vera Árni Jóhannsson og Gunnlaugur Sigvaldason.

Skrifað var um það í blöð í Bretlandi í fyrra að komið hafi í ljós að Robert Baden-Powell stofnandi skátahreyfingarinnar og alheimsskátahöfðingi hafi hitt von Ribbentrop árið 1937. Von Ribbentrop var um þær mundir ambassador Þjóðverja í London. Yfirmaður Hitlersæskunnar kom síðan í heimsókn til æðstu manna skátahreyfingarnar í Bretlandi. Af fundi Baden-Powells og Hitlers virðist þó aldrei hafa orðið og samskiptin þarna á milli urðu ekki mikil. M.a. vegna afskipta breskra stjórnvalda.

Að alþjóðlegt skátastarf skuli ekki hafa látið fallerast þarna af fagurgalanum í Hitler þykir mér vænt um. Baden-Powell var samt jákvæður fyrir samstarfi við Hitlersæskuna en gerði sér áreiðanlega enga grein fyrir því hvernig hún var uppbyggð. Samhljómur skátastarfs og hernaðarhyggju hefur samt alltaf valdið vissum áhyggjum. Við slíku er ekkert að gera. Segja má að skátastarfið taki það besta frá hernaði, útilífi, náttúruvernd og ýmsu öðru og leggi áherslu á að uppfræða umgdóminn og þó segja megi að uppruni þess komi frá hernum er með öllu ástæðulaust að vera á móti skátastarfi þess vegna.

Skátar
verum kátar.

Ekki fer hjá því að málfræðilegt kynferði taki sinn toll hjá skátahreyfingunni. Karlrembuhugsunin átti sér eitt sinn öruggt skjól í þeirri hreyfingu. Svo er þó ekki lengur. Sjálfur minnist ég þess að kvenskátar nokkrir undir forystu dóttur minnar sigruðu eitt sinn á skátamóti í hraða við að koma varadekki undir bíl. Þær kepptu þar við stráka sem að sjálfsögðu áttu að sigra í þessari keppni. Ljóðlínurnar hér að ofan eru vonandi úr framtíðinni og ekki er víst að þær rætist nokkurn tíma. Orðið skáti heldur vonandi áfram að vera karlkyns.

Er það virkilega svo að því lengri sem bloggin mín eru því fleiri lesi þau eða heimsæki a.m.k. bloggsetrið mitt. Mér virðist svo vera. Kannski er fólk bara að skoða myndirnar. Kannski kemur það bara í heimsókn af gömlum vana. Hvað veit ég?

Gæti auðvitað reynt að setja upp spurningalista eða skoðanakönnum. Minnir að ég hafi gert það einu sinni og orðið steinhissa á hvað þátttakan var mikil. Athuga það. Allan fjárann ætla ég að athuga en geri svo aldrei neitt. Nú líður bráðum að því að ég þurfi að fara að gera skattskýrsluna. Það er lítið mál núna því ég samsinni öllu sem skattstjórinn stingur uppá. Tekjur mínar o.þ.h. er líka orðið svo einfalt að þetta er svosem enginn vandi. Einu sinni var þetta heilmikið mál, sem þurfti að sinna á hverju ári.

IMG 8076Kringlumýrarbraut á óveðursmorgni.


1638 - Kalló

Næstu 16 myndir eru allar frá Bifröst. Sumar hefur Kristján Óli Hjaltason örugglega tekið.

ágústaGamla myndin.
Ágústa Þorkelsdóttir. (held ég) Sjaldgæft á þessum tíma að stúlkur reyktu pípu. Svotil allir reyktu þó og svældu en auðvitað var ódýrara að fá eitrið úr píputóbaki.

Af hverju skyldi maður vera að þessu sífellda bloggi? Er það ekki bara einhver bilun? Heldur maður virkilega að aðrir hafi áhuga á þessu bulli? Tvennt þarf til svo maður nenni að lesa eitthvað. Það finnst mér allavega. Maður þarf að hafa einhvern snefil af áhuga á því sem verið er að skrifa um og það sem maður les þarf að vera sæmilega skrifað. Því miður eru ekki nærri öll blogg, greinar eða bækur nægilega vel skrifuð fyrir mig. Ég reyni sjálfur að skrifa þannig að sem flestir nenni að lesa. Hvað áhugann varðar ræð ég engu. Reyni þó að fitja upp á sem fjölbreytilegustu efni. Tekst stundum að gera það áhugavert en alls ekki alltaf. 

Kalli hét hundur. Eigandi hans var Ingimar Sigurðsson í Fagrahvammi. Hann var ættaður úr Geysisslysinu fræga 1950 og var sannkallaður úlfhundur. Stór og mikill. Eitt sinn var hann staddur á svölunum á nýja húsinu í Fagrahvammi og setti framfæturna uppá handriðið svo hann sæi eitthvað. Gelti mikið. Þegar hann hætti geltinu og fór með fæturna niður af handriðinu klappaði allt liðið úr skólanum sem af einhverjum ástæðum var samankomið til að hlusta á Kalló-ræðuna. Þá birtist hann aftur og gelti vel og lengi og fór síðan niður enn á ný. Þá var klappið endurtekið og aftur birtist Kalló. Þannig gekk lengi og ég man ekki hvernig ræðuhöldin enduðu.

Þó Sigmundi Davíð framsóknarformanni detti ýmislegt í hug varðandi framtíðargjaldmiðil Íslendinga held ég að honum hafi aldrei dottið í hug að mæla með því að Íslendingar taki upp sterlingspund, enda hljóta að vera einhver takmörk fyrir hugmyndafluginu á þeim bæ. Englendingar aftur á móti virðast sumir hverjir ennþá telja sterlingspundið alþjóðlega mikilvægan gjaldmiðil. Mér datt þetta í hug þegar ég las áðan pistil Egils Helgasonar um erlenda glæpaforingja sem sest hafa að í London.

Skelfing er maður, eða var, takmarkaður. Þegar í gamla daga var talað um Tarzan apabróður leit ég alltaf á það sem einskonar tignarheiti. Nú sé ég að það hefur líklega átt að vera lítilsvirðing fólgin í þessu viðurnefni. Þegar maður er ungur og skilingsvana þarf helst að tyggja allt ofan í mann. Ég hélt t.d. lengi vel að innfæddur og einfættur væri það sama. Sömuleiðis misskildi ég alltaf orðalagið hjá veðurstofunni um veðurhorfur til klukkan níu í fyrramálið. Hélt alltaf að útlitið mundi snöggbreytast þá.

Það er svolítið ósniðugt að hamast við henda myndunum sínum á fésbókina. Hún gerir þeim þó svolítið hærra undir höfði en skrifunum sem skruna bara í burtu og sjást aldrei meir. Myndirnar er hægt að hafa í möppum og skoða þær þar. Aðrir gera það líka ef þeir eru í skapi til þess eða þeim er bent á þær. Held mig samt við Moggabloggið því þar hef ég allan minn bloggaldur alið og myndirnar eru þarna og eins hægt að vísa á þær og aðrar. Skrifunum haldið til haga og menn tímalínulausir, er hægt að hugsa sér nokkuð betra. Muna bara eftir að minnka myndir sem maður setur á Moggabloggið. Maður þarf nefnilega enn að borga fyrir þá þjónustu að fá að hafa myndirnar sínar þar. Annars er ég alls ekki að væla yfir Moggablogginu. Það er að mörgu leyti ágætt

Um síðustu áramót voru liðin 22 ár síðan ég hætti að reykja. Hefur á ýmsum tímum síðan gengið það misjafnlega, notað pillur, plástra og tyggjó en hef hjálpartækalaust ekki smakkað nikótín í mörg ár. Koffeinið er samt eitur sem maður skilur ekki við sig. Efir að Senseovélin gafst upp hef ég reynt að venja mig á Euroshopper kaffiduft í glösum og það gengur bærilega. Hjálpar mér samt ekki að sofna á nóttinni. Held ég. Mætti samt alveg prófa það.

Eldspúandi dreki opnaði hurðina þegar ég kom í heimsókn til æskuvinkonu minnar. „Hvurn fjandann er þú að vilja hér?“ spurði hann með röddu rámri af eldspúi. „Á ég kannski að sprauta svolitlum eldi á þig og gefa þér trukk undir taglið?“ Nei,ég þarf bara að hitta hana Dísu og eiga við hana nokkur orð. „Jæja“,sagði drekinn „ég þarf nú samt að fara með þér. Maður veit aldrei uppá hverju svona karakterar taka.“ Þetta var greinilega fulllöng setning fyrir hann án þess að geta spýtt eldi. Nú komu þrjár spýjur hver á efitr annarri. „Það er best að ég fylgi þér í höllina og reyni að kveikja ekki í. Framhald í næsta hefti ef höllin brennur ekki.

Ég er að hamast við að láta mér detta eitthvað í hug til að skrifa um en það gengur hálfilla eftir að drekinn fór. Kannski hefði ég ekki átt að senda hann í framhaldið. Það getur vel orðið bið á því að svona skepnur komist í almennilegt blogg aftur. Ég get líka notað minni dýr og látið þau hafa þá hæfileika sem mér sýnist. Kannski fæ ég mér alvitran hrafn næst. Ég er orðinn hálfleiður á fyrirganginum í drekaræksninu.

IMG 8071Kópavogskirkja.


1637 - JBH og fleira

Scan32Gamla myndin.
Bjarni Sæmundsson og Benedikt Jónsson.

Alveg er það merkilegt hvað margir eru illa að sér um alla skapaða hluti. Jafnvel ég veit ekki nærri því allt. Þó finnst mér það. A.m.k. það sem tekur því að vita.

Af ýmsum ástæðum hef ég lesið næstum allt sem ég hef getað um bréfamálið Jóns Baldvins. Þó hef ég ekki gengið svo langt að kaupa blaðið sem kom þessu öllu af stað nú nýlega, né lesið það sem þar er skrifað. Mest af því sem ég hef lesið hefur verið á netinu og eitthvað í Fréttatímanum. Mér finnst það samt of mikið. Sagt er að margir hafi vitað af þessu en ég var ekki þeirra á meðal. Talsvert álit hef ég haft á pólitískum skoðunum Jóns Baldvins og undrast nokkuð að hann skuli engan frama hafa hlotið innan Samfylkingarinnar. Þó finnst mér hann hafa reynt það. Bréfamálið er hugsanlega skýring þar á.

Þegar ég tala um að JBH hafi engan frama hlotið innan Samfylkingarinnar kemur mér í hug að ekki hefur Ómar Ragnarsson heldur hlotið hann. Eru þeir bara orðnir svona gamlir og ónothæfir að það tekur því ekki að púkka upp á þá? Ekki finnst mér það. Frekar að Bessastaðabóndinn sé orðinn svolítið elliær.

Þóra Tómasdóttir sem er nýlega orðin ritstjóri á Nýju Lífi að ég held ákvað að skrifað yrði um JBH-málið í blaðið. Það álít ég ranga ákvörðun og eingöngu stafa af peningagræðgi. Jón Baldvin hefur marga fjöruna sopið og mörg mistökin gert en samt finnst mér hann ekki eiga skilið að vera á þann hátt á milli tannanna á fólki sem hann hefur verið að undanförnu. Vissulega má kalla það afleit mistök af hans hálfu að hafa verið að skrifa unglingsstúlku á þann hátt sem hann gerði. Ekki fæ ég samt séð að neinn geti verið bættari við að básúna þetta út og ekki finnst mér að ég hafi þurft að vita þetta.

Annars er þetta mál fremur ómerkilegt þó það sé það alls ekki fyrir viðkomandi. Að öðru leyti er það dæmigert kuldakastsmál og varla orðum á það eyðandi enda er ég hérmeð hættur.

Mér finnst vissulega gaman að skoða myndir á fésbókinni og vel er hægt að gleyma sér gjörsamlega við þá iðju. Margir leggja það greinilega á sig að safna saman athyglisverðum myndum. Get samt aldrei varist þeirri hugsun að stór hluti þeirra sé fótósjoppaður eða lagaður til í þartilgerðum forritum. Auðvitað verða myndirnar ekkert verri fyrir það en oft er samt tilefni til að láta þess getið ef svo er. Sjaldan virðist það þó gert. Myndatöku allri hefur fleygt mjög fram og augabliksmyndir eru oft ágætar.

Þegar ég byrjaði að blogga var einn aðalbloggarinn á Moggablogginu Jóna nokkur Gísladóttir. Hún sagði ansi skemmtilega frá og hafði frá mörgu að segja. Einkum sagði hún frá sjálfri sér og sinni fjölskyldu og það á mjög skemmtilegan hátt. Sérstaklega sagði hún vel frá þeim einhverfa. Svo samdi hún bók um hann og fór að skrifa einhversstaðar annarsstaðar og ég hætti að fylgjast með henni. Efirminnilegustu bloggin hennar í mínu minni eru þegar hún hringdi með farsímanum hvað eftir annað í sömu konuna með rassinum. Síminn var semsagt í bílsætinu hjá henni. Líka var það flott frá sagt hjá henni þegar hún átti að mæta í útvarpsviðtal í Efstaleitinu en fór í staðinn að Veðurstofunni og beið þar lengi.

Þeir sem sitja við fésbókina daginn út og daginn inn telja sig vera með fingurinn á púlsi þjóðfélagsins. Það er misskilningur. Þetta fólk er að vísu miklu betur sett en allt það kaffiþambandi lið sem Guðrún frá Lundi skrifaði sem mest um. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig núorðið. Hneykslismálin hrannast upp og fólk keppist við að hneykslast og hneykslast en nær aldrei að hneykslast nóg. Strax og einhverjum verður eitthvað á er það komið út um allar koppagrundir og samstundis er smjattið mikið. Fólk nær ekki upp í nefið á sér fyrir hneykslun og finnst það fylgjast ákaflega vel með, en staðreyndin er sú að það eru ímyndarsmiðir allskonar sem mestu áhrifin hafa.

IMG 8065Ætli fuglunum sé ekki kalt?


1636 - Rafbækur

Scan17Gamla myndin.
Kristín Þóra Harðardóttir og Bjarni Sæmundsson.

Nú er ég semsagt að hugsa um að skrifa svolítið um rafbækur.

Sé farið á google.com og leitarvélin látin leita að rafbókum (rafbækur) kemur ýmislegt í ljós. Alls næstum ein og hálf milljón niðurstaðna en við skulum til að byrja með aðeins skoða efstu niðurstöðurnar.

Efst er forlagið.is. Því miður er ekki hægt að segja að það sé spennandi. Þar virðast menn enn halda að rafbækur eigi að vera a.m.k. jafndýrar pappírsbókum svo við þurfum ekki að staldra lengi við þar.

Næst er getið um eitthvað sem heitir e-bok.is. Við þangað. Þar er ekki mikið að finna og rafbækur heldur dýrar. Höldum áfram.

Það þýðir ekki mikið að rekja sig áfram eftir google niðurstöðum. Sennilega er bara best að fara beint á rafbókavefinn hans Óla Gneista. (gæta þess bara að skrifa rafbokavefur en ekki rafbokavefurinn http://rafbokavefur.is/ Óli Gneisti Sóleyjarson fékk leyfi hjá mér til að setja á vefinn sinn efni af Netútgáfunni og stefnir hann held ég á að gera vefinn sinn að allsherjar upplýsingavef um rafbækur. Best að setja vefinn hans í feivorít. Drífa í því.

Ég hef prófað að fara beint á rafbókavefinn af Kindle fire spjaldtölvunni minni og það gengur ágætlega. Get samt ekki dánlódað neinu. Athuga það.

Hef reynt að sækja bókina „Klækir“ sem bæði er að finna á rafbókavefnum og á Emma.is http://www.emma.is/ og kostar ekki neitt. Ekki hefur mér samt tekist að ná henni með Kindle fire tölvunni minni.

Býst við athugasemdum útaf þessari færslu. Það þýðir lítið að vera að koma fyrir rafbókum á internetinu ef ekki er hægt að nálgast þær þar.

IMG 8057Stundum byrja (eða enda) fyrirtaks gangstígar alveg óforvarendis.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband