Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2024

3196 - Matur er mannsins megin

Ég er stundum að velta því fyrir mér af hverju ég borða miklu minna núna en ég gerði. Einkum borðaði ég mikið á heilsuhælinu. Sennilega var það í og með af því að þannig fæði á betur við mig. Ástæða þess að ég borða ekki eins mikið núna er að svolitlu leyti, ímynda ég mér, sparnaður. Við lifum óhemju spart, en það finnst mér allsekki vera aðalástæðan. Önnur ástæða er leti. Aðrar ásæður veit ég ekkert um. Þær eru samt örugglega mjög mikilvægar. Eiginlega hef ég ekki komist að niðurstöðu um þetta, þrátt fyrir talsverðar umþenkingar.

Sumum kann að finnast þetta lítilsvirði sem umræðuefni, en það er ekki rétt. Heilbrigðisvísindi eru mikilvæg. Óneitanlega er maður það sem maður étur. Um það er þarflaust að deila.

Ómótmælt er að öll sú kjötframleiðsla sem stunduð er, er ekki umhverfisvæn. Þarflaust er um það að deila. Að láta allt þetta grasmagn fara gegnum maga jórturdýra til að breyta því í kjöt er óhagkvæmt mjög og mun smám saman breytast. Ég er ekki endilega að predika að allir gerist grasætur, en neysla jurtafæðis hverskonar mun á næstu árum aukast mjög og er það vel.

Á sama tíma munu veiðar hvers konar, að meðtöldum fiskveiðum dragast mjög saman. Slíkt er óhjákvæmilegt. Vonandi verður nýbyrjuð öld ekki öld styrjalda, þó sú síðasta hafi á margan hátt verið það.

Í dag er mánudagur og e.t.v. ráðast örlög ríkisstjónarinnar í dag. Ég held samt að Sjálfstæðismenn munu lúffa og Katrín sýna hvað í henni býr. Hún virðist ekki þurfa nema að setja BB stólinn fyrir dyrnar og að hann muni þá láta í minni pokann. Annars er þetta óljóst.

Læt þessum hugleiðingum hér með lokið, enda kominn tími til.

IMG 3538Einhver mynd.


3195 - Kattavísindi

Mamma og Amma sögðu alltaf að þau sem sáu óorðna hluti sæmilega fyrir hefðu svokallaðan „sagnaranda“. Þar gat bæði verið um dýr og fólk að ræða. Jói segir að Breki viti alltaf uppá hár hvenær Hafdís kemur heim. Ég var víst eihverntíma búinn að lofa að segja eitthvað um sálarlíf katta. Ekki hef ég í hyggju að gera það núna, en heyrn þeirra kemur þar við sögu. Eins og flestir vita hafa kettir afburðagóða heyrn. Hún ásamt innbyggðri klukku nægir að mínu viti til þess að skýra þetta með Hafdísi. Kettir vita ávallt með 100% nákvæmni úr hvaða átt hljóð kemur. Sennilega vita þeir einnig hve langt er að upptökum hljóðsins og geta þannig greint bílhljóð útí hörgul. Þetta með „gestaspjótið“ er erfiðara að skýra, en verið gæti að það væri verulega ýkt.

Annars er sálarlíf katta gagnmerk vísindi og verður seint lokið. Alltaf má þó reyna.

Fyrir utan þetta hef fátt að segja núna og læt þessu því lokið. Auðvitað er þetta blogg í styttra lagi, en við því er ekkert að gera. Skárra er að blogga stutt en allsekki.

Bið ég svo hugsanlega lesendur vel að lifa.

IMG 3539Einhver mynd.


3194 - Sætsúpan köld

Þegar ég var í skóla, fyrir svona sjötíu árum, var alltaf safnast saman á ganginum uppi á lofti og sungið. Að sjálfsögðu söng ég ekkert, enda vita laglaus. Textana lærði ég samt, því ég átti á margan hátt létt með að læra og fékk venjulega fremur háar einkunnir.

Söngur allur og hverskonar tónlist hefur samt verið mér alla tíð að mestu lokuð bók. Um það ætlaði ég ekki að fjölyrða hér, heldur um textana.

Man að ég hreifst allnokkuð af einföldum og skiljanlegum textum Þorsteins Erlingssonar einsog t.d. þessum:

Heyrðu snöggvast Snati minn
snjalli vinur kæri.

Óþarfi hinn mesti þótti mér samt hjá höfundinum að vera að blanda jólunum í þetta, því mér fannst „jólakaka“ bara vera jólakaka og ekkert koma jólunum við. Þannig var það á mínu heimili að jólakökur voru á boðstólum jafnt á helgidögum sem rúmhelgum dögum.

Eitt af þeim kvæðum sem við sungum á loftinu undir stjórn Hróðmars Sigurðssonar var þannig að í miðju kvæðinu voru þessar ljóðlínur:

Var það útaf ástinni ungu sem ég ber
eða var það feigðin sem kallaði að mér?

Þetta með feigðina olli mér miklum heilabrotum. Auðvitað vissi ég mætavel hvað feigð þýddi en við okkur krakkana var aldrei rætt um dauðann og af þessu fékk ég þá hugmynd að svokölluð ást væri stórhættuleg. Eimir jafnvel enn eftir af þessum skilningi.

Annars var það einskonar íþrótt hjá okkur strákunum að snúa útúr vinsælum kvæðum og dægurlagatextum. Ég man t.d. eftir þessum:

Nú blikar við sólarlag sætsúpan köld.

Eða:

Í vor kom ég sunnan með sólskin í nýra
og þambaði á leiðinni hálfflösku af spíra.

Og

Hvað er svo glatt sem góðtemplarafundur.....o.s.frv.

Nú er best að hætta, því ég er víst kominn á vafasamar slóðir.

IMG 3540Einhver mynd.

 


3193 - Að blogga

Það var Harpa Hreinsdóttir sem segja má að hafi kennt mér að blogga. Hún er gift systursyni mínum og ég fylgdist vel með blogginu hennar þegar bloggið var verulega vinsælt. Ætli það hafi ekki verið undir lok síðustu aldar. Stundum skrifaði ég athugasemdir á bloggið hennar. Það kallaði hún „að sníkjublogga“.

Seinna las ég líka bloggin á „kaninku“ hjá Stefáni Pálssyni sem seinna varð sagnfræðingur og virðulegur fjölskyldufaðir. Einnig las ég mörg önnur blogg. Minnisstæðast a.m.k. núna er bloggið hjá rithöfundi einum sem heitir Ágúst Borgþór. Minnir að hann sé Sverrisson. Að ógleymdum bloggara sem nefndi sig „Ljósvakalæðuna“. Þar var á ferðinni Svanhildur Hólm, sem í þann tíma vann á ljósvakamiðli en fór seinna að skipta sér af stjórnmálum og hefur nú nýlega orðið að ambassador.

Guðmundur Steingrímsson heldur áfram að messa um umhverfismál. Ég get ekki að því gert að ég hlusta gjarnan á hann. Hann hefur þann sama galla frá mínum bæjdyrum séð og flestir sem um þessi mál fjalla, að hann ræðir ekkert um ástæður hnatthlýnunar. Mér finnst það skipta miklu máli að þær eru að stórum hluta af náttúrulegum ástæðum, en að sjálfsögðu finnst það ekki öllum. Og engin ástæða er að slá slöku við í náttúruvernd af þeim sökum.

Þetta er orðið nógu langt að þessu sinni og því er skást að hætta. Byrja sennilega strax á næsta bloggi. Nú er ég nefnilega kominn í stuð, þó ég skrifi hægt.

IMG 3544Einhver mynd.


3192 - Hvað ætti ég að kalla þetta

Ég veit svosem ekki hvernig ég á að byrja þetta blogg. Einhvern vegin verður það víst samt að byrja. Ekki hef ég neina trú á að allir Grindvíkingar séu komnir í skjól. Það hlýtur samt að vera svo að hægt sé að skrifa um eitthvað annað en Grindavík. Ekki svo að skilja að ég sé búinn að fá leið á umræðuefninu. Það er engan vegin algengt að mannfjöldi á borð við þann sem um daginn þurfti að yfirgefa allt sem þeim er kærast og verða flóttamenn í einu kasti og það í eigin landi.

Bjarni kom hingað áðan og kom m.a. með bók fyrir málarasafnið hjá Áslaugu um Svavar Guðnason, sem ég man ekki eftir að hafi verið til hér. Hann fór síðan fljótlega og þarf að fara að vinna í fyrramálið. Útskýrði meðal annars fyrir okkur hugmynd um að setja upp e.t.v. í samstarfi við Benna einskonar safnarabúð á Netinu. Þeim ætti ekki að verða skotaskuld úr því bræðrunum. Einnig ræddi hann svolítið um skák við mig, en þar fylgist hann vel með og vill gjarnan tala um.

Best er að hætta hverjum leik þá hæst hann stendur og þessvegna er ég að hugsa um að hætta núna.

Bless.

IMG 3549Einhver mynd.


3191 - Hugleiðingar um ýmislegt

Í fyrndinni var ég búinn að gera ráð fyrir ótölulegu magni af bloggskrifum. Í því augnamiði hafði ég sankað að mér allskonar efni af Netinu sem ég ætlaði að kommenta á. Ég hef eða hafði nefnilega áhuga á ýmsu. Nú sé ég hinsvegar að ég vélrita svo hægt að það sem ég safnaði saman endist mér heila eilífð og þessvegna ætla ég mér að minnka það mikið.

Ég skrifa svo lítið og hægt, að það er vandræðalegt. Er samt að hugsa um að skrifa meira. Og vonandi hraðar. Konan mín segir að það sé í áttina að ætla sér eitthvað. Ég ætla mér ýmislegt. Mér finnst covidið hafa gert mig að gamalmenni. Get ekki einu sinni með sæmilegum árangri skrifað nafnið mitt. Hvað þá annað. Ef ég ætla t.d. að skrifa tossamiða get ég varla lesið hann sjálfur. Allt er erfitt. Best er að vélrita, það skilst þó. Heilastarfsemin virðist í lagi, þó hæg sé. Í veikindunum var það það eina sem ég gat gert. Að hugsa. Blaðraði samt heil ósköp. Er mér sagt. Skilst að það hafi verið á ýmsum tungumálum. Kann samt ekki til hlítar neitt nema Íslensku.

Annars ætti ég ekki að vera með þennan barlóm. Mér er engin vorkunn, samanborið við aumingja Grindvíkingana. Að fólk á besta aldri skuli skyndilega vera sett í þá aðstöðu að vita ekki einu sinni hvaða kárínur næstu mínútur gætu borið í skauti sínu. Ég veit þó að ég held áfram að vera gamalmenni, þó ég vilji það helst ekki.

Annars er þetta að verða nóg í bili.

IMG 3560Einhver mynd.


3190 - Gridavík, Ukraína, Gasa

Grindavík, Ukraína og Gasa. Er alveg viss um að íbúum á þessum svæðum finnst árið 2024 ekki hafa farið vel af stað. Samt finnst mér ennþá sem árið 2024 verði mér gott. Það stafar auðvitað af sjálfselskunni í mér. Einhvern vegin finnst mér sem þetta ár verði mér hagstætt. Síðasta ár var það allsekki.

Veit svosem ekki hvað ég ætti að skrifa um í dag. Grindavík kannski. Finnst aðalmálið þar vera þessi sprunga sem liggur undir bænum. Sem betur fer þekki ég engan Grindvíking vel, en ég fer ekkert ofan af því að illa hefur verið farið með þá. Man ekki vel eftir Vestmannaeyjagosinu, enda er það svo fjarlægt í tíma að ekki gengur að miða við það. Nú eru allt aðrir tímar. Eiginlega vil ég helst ekki vera að kommenta á fréttir dagsins. Hef líka lítið til málanna að leggja þar.

Leyfðum kisu að fara smávegis út á stiga/lyftu pallinn í dag. Hún er eins árs síðan í maí svo hún er fullorðin eftr kattatímatali. Hræddur um að hún muni hugsanlega detta ef aðrir gluggar en sá sem opnast útá gangstíginn á fjórðu hæð eru opnaðir. Vil líka helst að það verði hlýtt eða a.m.k. hlýrra í veðri þegar það verður gert..

Hvað sem um annað má segja er greinilegt að greinarmerki eru veiki punkturinn hjá mér. Ég er sæmilegur í réttritun en afleitur í kommusetningum og þessháttar.

Hugur minn er einkum bundinn við landsleikinn akkúrat núna, en það mun minnka í dag. Landsleikurinn við Serba fer einkum í sögubækurnar vegna þess hve spennandi hann var. 27:27 voru úrslitin. Annars finnst mér það galli á handbolta að menn skuli hagnast á því að brjóta af sér.

Nóg um það samt.

Hættur í bili.

IMG 3561Einhver mynd.


3189 - 2024

Fyrir utan það að ég gleymdi að stækka myndina sem ég setti upp í gær með blogginu, þá ætlaði ég að segja nokkur orð um myndina frá í fyrradag (eða gær). Hún er tekin í hellinum „Tintron“ sem er í Grímsnesinu og með mér á þeirri mynd eru sonur minn og bróðir minn ásamt nokkrum félögum úr björgunarsveitinni í Hveragerði. Meira er ekki um það að segja. Held ég.

Sennilega verður þetta ár (2024) ár mikilla tíðinda. Líklega springur ríkisstjórnin og þar að auki verða forsetakosningar í sumar bæði hér á Íslandi og í Bandaríkjunum. Katrín forsætis mun líklega láta sjálfstæðismönnum það eftir að standa fyrir sprengingunni á stjórninni í þeirri von að bjarga með því atkvæðum flokksins og þar með þingmönnum hans. Varla getur hún þess vegna farið í forsetaframboð og þar með skilið flokkinn eftir á köldum klaka.

Annars er margt óljóst í stjórnmálum ársins.

Ekki treysti ég mér til að spá miklu um framhaldið, enda hef ég oftast rangt fyrir mér, ef ég reyni slíkt.

Nú er ég svotil alveg búinn að jafna mig í fótunum en árið hefur að mestu farið í það. 10. febrúar 2023 kom ég heim af sjúkrahúsinu og við þá dagsetningu miða ég endurfæðingu mína. Eiginlega er ég á margan hátt nýr maður eftir covid. Að endurfæðigin skuli ekki eiga sér stað fyrr en á 81. aldursári er ansi seint, en við því er ekkert að gera. Fyrir mestu er að hafa sloppið lifandi frá þessu öllu saman. Nú er bara að lifa lífinu.

Hættur.

IMG 3395Einhver mynd.


3188 - Loftlagsmál

Nú ætla ég að prófa að byrja á bloggi morgundagsins strax. Mér sýnist að uppsetning wordsins sé ekki alveg eins hérna eins og á söguskjalinu mínu en það er allt í lagi. Aðalmunurinn er sá að spássían er ekki til staðar á sama hátt hér.

Ég ætla semsagt að byrja á að skrifa svona 5 til 10 línur og sjá svo til hvort mér dettur eitthvað sérstakt í hug. Þar fyrir utan lagfæri ég alltaf númerið og þurrka út síðasta blogg um leið og ég set á Moggbloggsíðuna eitthvað.

Í gær hlustaði ég á loftlagsmessu hjá Guðmundi Steingrímssyni í útvarpinu. Hann virtist eins og flestir úr heimshitaskúffunni vera þeirrar skoðunar að hnatthlýnunin sem greinilega er staðreynd væri að öllu leyti mannkyninu að kenna. Svo er alls ekki. Og hefur margsinnis verið sýnt fram á  það. Af þessum sökum hef ég verið talinn með efasemdarmönnum af heimsendaspámönnum af öllu tagi. Mér finnst það vera að ósekju en hver og einn verður að hafa sína skoðun í friði.

Ég ætlaði að bæta svolitlu við bloggið mitt ef ég sæi ástæðu til þess. Hér er hún og ég er að hugsa um að láta þetta duga sem blogg á þessum mánudegi sem líklega verður sögulegur í meira lagi.

IMG 3440Einhver mynd.


3187 - Veit ekki hvað ég á að kalla þetta

Ekki hefur orðið úr því að ég bloggaði reglulega með nýju ári. Ég ætla samt að reyna. Verst hvað ég vélrita hægt, en það stendur vonandi til bóta.

Þetta eru að öllu leyti ágætis tímamót til þess að byrja aftur. Það að skrifi hægt ætti að koma í veg fyrir að ég skrifi tóma vitleysu. Þó er það ekki einhlýtt. Ef allt um þrýtur á ég nokkrar örsögur, sem ég kalla, á lager einhvers staðar.

Nú miða ég allt við veikindi mín fyrir ári. Vissulega var það efirminnilegt að halda síðustu jól á venjulegan hátt. Jólin 2023 fóru nefnilega alveg framhjá mér.

En nóg um það.

Guðni forseti er aðallega í fréttum núna. A.m.k. hér á Íslandi. Þar á eftir kemur Gasa. Og stríðið í Ukraíni er dottið niður í þriðja sæti. Ekki má samt alveg gleyma Grindavík.

Það er semsagt nóg að frétta, ef útí það er farið. Ekki get ég að sinni bætt neitt við þessar fréttir enda er ég ekki blaðamaður, bara gamalmenni sem er að reyna að láta ljós sitt skína.

Eiginlega ætti ég að auglýsa þessi skrif á fésbókinni, sem mér skilst að flestir skrifi á, en ég kann það bara ekki eða hef gleymt hvernig það er gert. Á fullt í fangi með að skrifa með fingrasetningu núna. Veikindin hafa hægt á mér á öllum sviðum.

Sennilega læt ég þetta nægja að sinni. Ég er semsagt kominn aftur. Vona ég. Bless

Untitled Scanned 03Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband