Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

1775 - Fordlandia

Árið 1927 keypti Henry Ford, sem þá var líklega ríkasti maður heims, stórt landsvæði í frumskógum Amazon í Brazilíu. Þarna ætlaði hann að rækta gúmmítré og koma á fót einskonar bandrískri nýlendu. Allt var mjög stórt í sniðum og Ford eyddi miklum fjármunum í að koma þessu á fót. Framleiða átti gúmmí þarna og allt var sniðið að hugmyndum Fords um lífið og tilveruna. T.d. var bæði áfengi og tóbak með öllu bannað og hann vildi ráða hvað verkamennirnir borðuðu o.s.frv. Samkvæmt hans hugmyndum átti þetta að vera einskonar útópía þó upphaflega hafi hugmyndin þróast frá löngun Fords til að komast yfir ódýrara gúmmí í bílaframleiðsluna, en hann neyddist til að útvega sér annars staðar frá.

Í stuttu máli sagt misheppnaðist þessi tilraun með öllu og voru margar ástæður til þess. Aldrei kom neitt gúmmí frá þessari plantekru og Henry Ford heimsótti staðinn aldrei sjálfur þó reynt hafi verið að fá hann til þess.

Árið 2008 gaf listamaðurinn Jóhann Jóhannsson út hljómplötu með nafninu Fordlandia. Með henni vill hann minnast þessarar tilraunar Henry Fords með útópískum lögum af ýmsu tagi sem ég kann ekki að skilgreina. Samkvæmt Gúgla eru Jóhannar Jóhannssynir svo margir og mitt vit á tónlist af svo skornum skammti að ég gafst mjög fljótlega upp við að reyna að segja meira fá plötu þessari.

United Fruit, Hershey og fleiri stórfyrirtæki stofnuðu að vísu plantekrur út um allt á þessum tíma, en reyndu að eyða ekki alltof miklum peningum í það og græða á öllu saman. Ford gamli jós hinsvegar í þetta peningum þó aldrei kæmi neitt latex þaðan og undir lokin kallaði hann þetta samfélagslega tilraun eða eitthvað þess háttar. Gallinn var bara sá að hann vildi öllu ráða sjálfur karlinn og hafa allt eftir sínu höfði. Margar bækur hafa verið skrifaðar um Fordlandiu og kveikjan að skrifum mínum um þetta var lestur upphafs bókar frá 2010 um þetta mál.

moneyAuðvitað er þessi mynd stolin eins og fleira sem gott er. Hún er af Romney (forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum) og fjölskyldu. Sennilega hefur hann ruglast aðeins í stafsetningunni (kannski viljandi) Líklega á þetta að vera R þarna lengst til vinstri og hann gæti hafa ætlað að stafa nafnið sitt. Þetta minnir mig á að eitthvað hefur verið um að nafn forsetaframbjóðanda demokrata hafi verið álitið vera Osama. Svo er þó ekki.

Pólitíkin getur orðið bæði  skrautleg og skemmtileg í vetur ef fólk finnur einhverjar skemmtibuxur til að fara í. Vel er þó hugsanlegt að lagt verð af stað úti eitt fúafenið til viðbótar og það jafnvel mjög fljótlega ef við ráðum við það. Hef hugsað mikið um það undanfarið hvort það sé nokkur akkur í því að hafa fæðst Íslendingur.

Á sínum tíma talaði Steingrímur Hermannsson um það að hann sæi að misskipting væri að aukast í þjóðfélaginu. Hann var forsætisráðherra þá og hefði manna helst getað haft áhrif á að sú þróun yki a.m.k. ekki hraðann. Honum þóttu önnur mál mikilvægari og beitti sér ekki af þeirri hörku sem til hefði þurft í að breyta þessari þróun. Síðan hef ég með öllu misst traust mitt á Framsóknarflokknum (kaus Steingrím reyndar aldrei en dáðist samt að honum að mörgu leyti) og gerst æ vinstri sinnaðri með aldrinum og get ekki gert að því. Fleiri en ég hafa hætt að treysta flokknum eftir að Halldór bolaði Steingrími í burtu og er ótrúlegt að hann stækki við það að færast sífellt til hægri. 

Aðallega er lífið einn allsherjar brandari. A.m.k. er óþarfi að taka það of alvarlega. Óréttlætið og grimmdin sem þrífst í heiminum nægir alveg til að gera hvern mann vitlausan. Andlegt heilbrigði næst því aðeins að litið sé á lífið allt fremur sem skemmtigarð en táradal. Auðvitað er hægt ganga of langt í afskiptaleysinu, en tilraunir vanmegna einstaklinga til að bæta heiminn verða oft hlægilegar. Samt sem áður er slíkt oftast hetjulegt líka. Einkum að láta hláturinn og fyrirlitninguna ekki hafa áhrif á sig. IMG 1644

Girðing.


1774 - Richard Kuklinski - The Iceman

Á Stöð 2 fengum við einu sinni á teipi heimildamynd með viðtali við mann sem hét Richard Kuklinski. Ég man að ég horfði á þetta viðtal frá upphafi til enda og það hafði mikil áhrif á mig. Þetta viðtal var samt aldrei sýnt á Stöðinni og þótti alls ekki viðeigandi. Richard þessi Kuklinski var einn af frægustu leigumorðingjum mafíunnar í Bandaríkjunum og er talinn hafa framið yfir 100 morð um ævina og e.t.v. verið drepinn sjálfur þó í fangelsi væri á þeim tíma. 13 ára var hann þegar hann framdi sitt fyrsta morð.

Líf hans snerist allt um morðin. Meginástæða þess að ekki komst upp um hann fyrr var sú að hann beitti mjög mismunandi aðferðum við þau. Að lokum náðist hann þó og það sem varð honum að falli var tvennt. Annars vegar lét hann ginnast af uppljóstrara sem var afar snjall, en gat þó ekki sannað á hann morð. Ein af aðferðum Kuklinskis var að afvegaleiða rannsakendur morðanna varðandi dánartíma með því að frysta líkin og koma þeim síðar fyrir á afviknum stöðum. Eitt sinn gætti hann þess ekki að láta líkið þiðna nógu vel og ísklumpur fannst í hjarta þess. Það nægði til sakfellingar.

Í viðtalinu lýsir Kuklinski mörgum morða sinna í smáatriðum og er áberandi kaldur og rólegur við það. Mér er minnisstætt að í viðtalinu lýsir hann því fjálglega að sér hafi komið mjög á óvart eitt sinn er hann myrti mann með því að skjóta hann í höfuðið af stuttu færi með öflugri haglabyssu að höfuðið fauk af honum við það.

Þegar talið berst síðan að börnum hans og eiginkonu (sem ekkert vissu um þessa atvinnu hans) sýnir hann áberandi viðkvæmni og eftirsjá. Viðtalið allt er afar vel gert á allan hátt og þó engar skreytingar séu á myndbandinu og ekkert að sjá annað en manninn sjálfan í appelsínugulum fangabúningi er það þannig úr garði gert að ég man ekki eftir að hafa litið af skjánum eitt augnablik þegar ég horfði á það. Kuklinski fæddist árið 1935 og dó árið 2006. 

IMG 1639Malbikað í spreng.


1773 - Sælgæti, prófkjör o.fl.

Einhversstaðar sá ég því haldið fram um daginn að Íslendingar kynnu ekki að umgangast sælgæti. Trúlega er það rétt. Yfirleitt þykir mér „gott“ ekki gott. Samt er ég alltof feitur. Líklega væri ég enn feitari ef mér þætti „gott“ gott.

Fyrir einu eða tveimur árum var ég staddur í N1-verslun og fór af einhverjum ástæðum að kynna mér verð á sælgæti. Þá komst ég að því að á laugardögum væri 50% afsláttur á öllu slíku. Man að ég velti fyrir mér hver álagningin væri þá aðra daga. (Sagt er að hún sé 65% á nammidögum en 300% aðra daga.) Um svipað leyti varð ég vitni að ótrúlegum hamagangi og útbíun gólfs á sælgætisgangi í stórmarkaði. Á laugardegi – auðvitað. Blöskruðu mér þau læti mjög.

Hvað á eiginlega að segja við krakkagreyin sem halda að þetta ástand sé eðlilegt. Laugardagar eru engir sérstakir nammidagar þó sumir haldi það.

Bandaríkjamenn hafa tekið tæknina í þjónustu sína við manndráp. Svokallaðar fjarstýrðar flugvélar (drones) fljúga yfir lönd og landssvæði sem þeim er illa við og varpa sprengjum. Þessar sprengjur drepa oft saklausa borgara þó þeim sé auðvitað ætlað að drepa hryðjuverkamenn eingöngu. Saklausir Bandaríkjamenn (og jafnvel allt vestrænt fólk) fær að gjalda þess sem þarna er framkvæmt með hatri fólks sem býr á viðkomandi svæðum og þeirra sem það styðja.

Með þessu er ég alls ekki að mæla bót æsingi múslima yfir framkvæmd málfrelsis í vestrænum löndum. Þeir vilja ekki skilja að stjórnvöld eru að mestu áhrifalaus varðandi móðganir (að þeirra mati) í fjölmiðlum.

Séra Egill talar um það á bloggi sínu http://eyjan.pressan.is/silfuregils/ að lítið sé talað um stjórnarskrármálið í opinberri umræðu. Það getur vel verið að stjórnlagaráðsmenn tali meira um það mál en aðrir og að Egill sé nýrri stjórnarská í raun hlynntari en hann lætur. Langathyglisverðast í umræðunni um hana er samt að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skuli í raun skora á sína menn að kjósa. Sjálfur segist hann að vísu ætla að segja nei við fyrstu spurningunni og það sama ætlar öfgahægrimaður eins og Jón Valur Jensson  að gera.

Samkvæmt mínum skilningi reyndi Halldór Ásgrímsson að tosa Framsóknarflokkinn til hægri því honum fannst Steingrímur Hermannsson hafa sveigt hann of mikið til vinstri. Þeir sem síðan voru prófaðir í stöðuna vissu ekki hvort heppilegra væri fyrir flokkinn að vera hægri eða vinstrisinnaður. Sigmundur Davíð hefur undanfarin ár sveigt hann verulega til hægri þó hann hafi staðið að því með öðrum að koma Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkingunni til valda. Höskuldur Þórhallsson er að ég held mun vinstrisinnaðri en Sigmundur Davíð og á margan hátt er yfirvofandi stríð í flokknum mjög athyglisvert.

Vandamálið með prófkjörin er aðallega það að auðvitað ættu þau öll að fara fram á sama tíma og sama stað. Flokkarnir ættu alveg að geta sætt sig við það og með því væri með öllu komið í veg fyrir flakk það sem viðgengist hefur. Í öðru lagi ættu þeir sem bjóða sig fram að vera skyldugir til að bjóða sig fram í öll sætin. Hverju síðan er haldið fram í baráttunni er annað mál. Kjördæmaskiptingin í Reykjavík er síðan svo heimskuleg að ég ræði hana ekki. Sýnir samt vel hvernig flokkarnir starfa.

Stjórnmál og fésbók eru að verða mínar ær og kýr. Myndirnar á fésbók er að gera mig gráhærðan. Úps. Það er víst einhver önnur ástæða... Eftirfarandi status kom frá fésbókaraðila sem á uppundir 200 vini þar (þar á meðal mig) :“Myndin í gær var alveg ágæt.“ Þetta olli mér (og kannski fleirum) heilmiklum heilabrotum og ég ætla ekkert að fara nánar útí fésbókina hér og nú.

Hló mikið þegar ég las á RUV.IS um slunkunýja seríu með Andra á flandri. Auðvitað er þetta bara innsláttarvilla en mér fannst hún fyndin. Orðið slunkuný er ágætt orð.

IMG 1635Húsasmiðjan?


1772 - Enn um stjórnmál

Ég á svosem ekki von á því að skrif mín um Svein Arason ríkisendurskoðanda hafi einhver áhrif. Flokkapólitíkin er að yfirtaka hans mál eins og önnur. Lítil hætta er á að nefndur Sveinn verði látinn taka pokann sinn. Svo er að sjá sem Steingrímur Jóhann yfirráðherra og Morgunblaðið hafi tekið hann undir sinn verndarvæng. Forstjóri fjársýslu ríkisins hefur aftur á móti e.t.v. spilað rassinn úr buxunum með viðtali sínu í Kastljósinu í gærkvöldi. (s.l. miðvikudag.)

Kannski er ég með bloggskrifum mínum í huganum alltaf að keppa við Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóra. Auðvitað kemst ég ekki með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað þekkingu og reynslu í bloggskrifum varðar. Að sumu leyti eru skrif þau sem hann stundaði á árum áður nefnilega sambærileg við bloggskrif. Vitaskuld var hann með puttana á púlsinum og þekkti vel alla þá sem við sögu stjórnmálanna komu og þar að auki gáfaður og vel ritfær. Ég var bara fjarlægur áhorfandi að öllu sem gerðist og líklega ekki einu sinni vel gefinn. Stundaði t.d. aldrei langskólanám.

Ég get þó reynt að passa mig á að vera ekki eins gífuryrtur og mér finnst hann oft vera. Um sumt get ég líka verið honum alveg sammála. Til dæmis finnst mér að síðasti séns þeirra stjórnmálamanna sem stóðu að Hruninu til að hverfa þegjandi og hljóðalaust úr stjórnmálunum sé núna í komandi kosningum. Þar á ég auðvitað einkum við þá sem voru þingmenn og ráðherrar hrunflokkanna fyrir og fyrst eftir Hrunið mikla.

Margt bendir samt til þess að t.d. bæði Björgvin Sigurðsson og Árni Páll Árnason ætli sér að komast aftur í framboð. Slíkt þarf að koma í veg fyrir. Augljóst er að Samfylkingin tapar stórlega á slíku athæfi. Það á samt alls ekki að vera aðalröksemdin. Sama á auðvitað við um Guðlaug Þór Þórðarson og Illuga Gunnarsson. Þrátt fyrir að vera augljóslega á margan hátt hæfileikamenn eru þeir allir með hrunstimpilinn á sér og hafa alls ekki sýnt af sér aukinn skilning á kjörum alþýðu landsins. Draga ávallt taum þjófanna og þeirra sem stóðu að því að koma okkur á kaldan klaka.

IMG 1634Hamraborgin rís há og fögur!!


1771 - Ríkisendurskoðandi

Um daginn var ég eitthvað að hneykslast á ríkisendurskoðanda vegna afsakana hans varðandi eftirfylgni við uppgjör fulltrúa stærstu stjórnmálaflokkanna varðandi sveitarstjórnarkosningarnar fyrir nokkrum árum. Þá var stóra málið varðandi fjárhagstölvukerfi ríkisins ekki komið í hámæli. Þegar svo var komið lét ég einhver orð falla á fésbók um að ég héldi að Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi hlyti að segja af sér. Ekki er að sjá að hann ætli að sjá sóma sinn í því. Þess í stað einbeitir hann sér að þeim gamla og góða íslenska sið að skjóta sendiboða válegra tíðinda og hefur kært, eða hótað að kæra, Kastljós ríkissjónvarpsins fyrir að nálgast hugsanlega þessar umtöluðu upplýsingar með ólöglegum hætti.

Einhvernvegin hefur Vigdís Hauksdóttir , sem situr á Alþingi í skjóli Framsóknarflokksins, komist á þá skoðun að mál þetta væri pólitískt og stjórnarandstöðunni bæri að verja ríkisendurskoðanda. Hún hikaði ekki við að kalla skýrsluna sem sagt var frá í Kastljósinu „þýfi“ og sannaði með því endanlega að hún er ekkert annað en ómerkilegur gasprari. Sjálfstæðismenn sem rætt hafa um þetta mál hafa verið mun varkárari. Þannig hefur Kristján Þór Júlíusson fullyrt að með þessu hafi traust það sem þarf nauðsynlega að ríkja milli ríkisendurskoðanda og Alþingis beðið verulegan hnekki. Það er mjög vægt til orða tekið en ætti samt alveg að nægja Sveini til afsagnar.

Kannski gerir hann það samt ekki og stendur storminn af sér. Það er íslenska aðferðin. Sjónvarpið, aðrir fjölmiðlar og þingmenn þreytast fljótlega á því að tala um þetta mál og þá getur hann haldið áfram að stinga málum undir stól og hirða launin sín. Reyndar býst ég við að hann geri ýmislegt fleira og sumt vel. En það er alveg sama, ég fer ekkert ofan af þeirri skoðun minni að honum væri hollast að segja af sér.

Ógrunduð gífuryrði eru ekkert takmark í sjálfu sér. Margir bloggarar temja sér þau samt. Mér finnst það vera gífuryrði að tala um að eitthvað sé „þýfi“ án þess að vita nokkrar sönnur á því. Gífuryrði af því tagi finnst mér enn síður vera sæmandi alþingismanni en bloggurum.

IMG 1628Hér hefur eitthvað gengið á.


1770 - Helmingaskiptareglan

Allir sem láta í sér heyra hafa sínar einkaskoðanir á Hruninu og afleiðingum þess. Hér er mín krónukenning. Eflaust ekki meira virði en margar aðrar.

Þegar Hrunið skall á okkur fóru flestallir á taugum eins og eðlilegt var. Alþingi var lokað inni og skipað að samþykkja neyðarlögin svokölluðu. Það fannst mér vera mikil mistök. Aldrei á að láta kúga sig með tímapressu. Held að hægt hefði verið að tryggja eðlilegt þjóðlíf á annan hátt. Auðvitað var það áhætta og fjórflokknum fannst þessi aðferð best til að tryggja sér áframhaldandi völd.

Neyðarlögin hafa samt verið samþykkt af til þess bærum aðilum svo tilgangslaust er að fjargviðrast útaf þeim núna.   

Allt frá því á millistríðsárunum hefur verið í gildi hér á landi milli stjórnmálaflokkanna svonefnd helmingaskiptaregla. Upphaflega var hún auðvitað á milli Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Undanfarna áratugi hefur öðrum flokkum vaxið ásmegin, einkum á kostnað Framsóknar, og þegar þeir (eða flestir þeirra) sameinuðust í Samfylkingunni fannst fulltrúum hennar að reglan ætti að breytast. Helst vildu þeir sem í Samfylkinginni voru auðvitað losna við Framsókn með öllu, en einkum að komast að kjötkötlunum sjálfir.

Á þessum tíma minnkuðu áhrif stjórnmálaflokkanna á þjóðlífið en fulltrúum flokkanna varð sífellt betur ágengt í að skara eld að eigin köku. Auðvitað vill enginn viðurkenna þetta, en svona var þetta löngum og er á mörgum sviðum ennþá.

Hrunið mikla hefur hugsanlega breytt þessu eitthvað en ekki virðist það vera mikið. Fjórflokkurinn ræður svotil því sem hann kærir sig um. Breytir oft um stefnu og erfitt er að átta sig á hvað hann vill. Helmingaskiptareglan ræður þó miklu ennþá hvort sem menn vilja viðurkenna það eður ei.

Pólitíkin gæti farið að æsast svolítið. Þó virðast alþingismenn ekki haga sér neitt sérlega illa. Jafnvel eins og örlítið vit hafi slæðst inn í hálftíma hálfvitanna. Þegar fátt eitt annað er til að horfa á í sjónvarpinu er óvitlaust að stilla á alþingisrásina. Auðvitað er ekki nauðsynlegt að hlusta á öll ósköpin en ágætt að fylgjast með. Einkum byrjuninni. Svo verða þingmennirnir oftast heldur leiðinlegir og rétt að snúa sér að öðru.

IMG 1626Askur.


1769 - Jesúnudd

Spurning hvort Jesúnudd Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins sé það rétta fyrir flokkinn. Hann hlýtur samt að hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo sé. Er alveg viss um að einhverjir af tiltölulega tryggum kjósendum þess flokks kunna ekki að meta þetta. Guð og ESB er þeir tveir hlutir sem mér finnst Bjarni ætla að leggja megináherslu á í komandi kosningabaráttu. Amast við öðru en elska hitt. Er þó ekki viss um að hjarta hans slái með þessu hvorutveggja.

Aftur á móti sýnist mér að hann ætli heldur að mæla með því að fólk taki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október n.k. þó ekki þyki honum, að eigin sögn, mikið til hennar koma. Ef kjörsókn þar verður sæmilega góð verður það mikilvægur sigur fyrir þá sem sömdu uppkast það sem greidd verða atkvæði um. Skiptir þá ekki mestu máli hve nei-in verða mörg. Þau verða örugglega mun færri en já-in. Verði kjörsóknin mikil minnka einnig líkur á afskiptum hæstaréttar af atkvæðagreiðslunni

Enn af fésbókarfóbíunni. Með svona marga fésbókarvini og öfluga eins og ég hef, þá er það orðið fullt verk og ekki leiðinlegt að skruna yfir allt sem þar hefur safnast saman frá því síðast var farið þangað og ná kannski á endanum í skottið á sjálfum sér. Ég bara vil það ekki. Nenni því andskotann ekki. Ég er svo heilagur að þetta hrynur bara af mér eins og dagblöðin gerðu á sínum tíma. Farinn út að labba.

Er kvikmyndaskáldskapur fremri öðrum skáldskap? Mér finnst hann geta verið það en að hann sé það ekki nærri alltaf. Vissulega getur góð kvikmynd gagntekið áhorfandann enn frekar en annars konar skáldskapur. Skynjunin er einfaldlega öflugri vegna þess að fleiri skynfæri eru virkjuð. Ímyndun áhorfandans eru þó mikil takmörk sett og hann verður nauðugur viljugur að fylgja ofbeldi því sem kvikmyndagerðarmaðurinn leggur á hann.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi virðist vera ágætt dæmi um hinn óhæfa íslenska embættismann. Ef lögin eru ekki eins og honum finnst þau eigi að vera þá gerir hann ekkert. Sveinn getur kannski skotið sér bakvið það að íslenskir embættismann séu ekki vanir að bera ábyrgð á gerðum sínum eða aðgerðarleysi og vandséð hversvegna allt í einu ætti að fara að gera það núna.

IMG 1609Köttur.


1768 - Dýravernd

Var að taka til niðri í kjallara. Rakst þar á eintak af Sígldum sögum.

002001Man að á sínum tíma las maður þetta með mikilli áfergju. Líklega er þarna um endurútgáfu frá því um 1980 að ræða. Kannski hefur lestur þessara bóka stuðlað að meiri þekkingu hjá mér á heimsbókmenntunum en margt annað. Sennilega mundu unglingar í dag heldur vilja spila tölvuleik en lesa eitthvað þessu líkt.

Á dýravernd er minnst í nýju stjórnarskárdrögunum ef marka má grein á visi.is eftir Lindu Pétursdóttur. http://www.visir.is/stydjum-dyrin-i-kosningunum-um-stjornarskra/article/2012709219966 Ekki finnst mér það skipta meginmáli varðandi stuðning við þau drög. Held að fólk geti sem best verið sannir dýravinir þó á móti nýrri stjórnarskrá sé. Samt styð ég drögin og mun að líkindum leggja það á mig að kjósa utan kjörfundar (í fyrsta sinn) því ég verð upptekinn við annað þann 20. október.

Fésbókin er að verða svolítið krubbuleg. Það ægir öllu saman, myndum af Steina frænda, Lillu litlu, hópmyndum, landslagsmyndum, myndum nýkomnum úr fotoashop o.s.frv. Innanum eru menn svo að reyna að skrifa eitthvað. Jafnvel eitthvað gáfulegt en það drukknar í jafnaðarvælnum ómerkilega í öllum hinum. Þar er líka að finna tilvísanir í allt mögulegt og boð á allskyns merkilegar samkomur, sem maður veit lítið um. Best að gera og segja sem minnst. Með tíð og tíma er kannski hægt að stilla þetta eitthvað en eins og er vellur þetta fram óstöðvandi. Þannig er það a.m.k. hjá mér.

Þá er nú blessað bloggið betra. A.m.k. fyrir ritræpufólk eins og mig. Það er jafnvel hægt að hafa talsverð áhrif á kommentin þar ef maður vill. Sjáið bara mig. Ef ég bið um nokkur þá koma þau eins og hendi væri veifað, annars ekki. Tvö takk.

Það er furðu oft sem hægt er að finna einhver gagnslausan fróðleik og setja hann hingað og reyna að telja lesendunum (eða öndunum) trú um að þetta sé merkilegt. Hef t.d. fyrir satt að margir fari niður að læknum í Hafnarfirði með reikninga fyrirtækja sinna til að láta endurnar skoða þá.

Íslenskir fjölmiðlar eru afskaplega veikir fyrir allskyns könnunum. Einhver könnun sem kynnt var af mikilli samviskusemi í flestöllum fjölmiðlum  landsins sýndi að traktorar væru hér ákaflega margir (margfalt fleiri en annarsstaðar) miðað við stærð ræktaðs lands. Ekkert var rætt um í fréttinni á hverju þetta væri byggt. Bændur voru ekkert hrifnir af þessu og einhverjir snillingar í þeirra röðum reiknuðu út að fjöldinn samsvaraði 60 traktorum á hvert býli á landinu. Hef heldur ekki séð á hvaða grunni það er byggt.

Hingað komu áðan þrjú eintök af Moggaræflinum (fyrir sunnudag 23. september) Mér vitanlega koma venjulega engin eintök af þessu blaði hingað. Hvað er að gerast? Er örvænting að grípa stjórnendur blaðsins? Er þetta kannski uppfinning blaðburðarfólksins? Ekki er ég að hugsa um að gerast áskrifandi. Les þessi ósköp kannski samt. Fæ sem betur fer ekki Fréttablaðinu troðið daglega innum bréfalúgun því þá mundi ruslatunnuferðum fjölga. Gott að vera búinn að fá bláu tunnurnar.

IMG 1602Götumynd.


1767 - Er nokkuð laust sæti í slitastjórn?

Ég er að lenda sífellt oftar í því að komast ekki inn á fésbókina.

fésbók.jpgÞetta er meldingin sem ég fæ:

Ég er nefnilega með þeim ósköpum gerður að ég er sífellt að fara útúr fésbókinni og inn aftur. Hangi ekki þar allan liðlangan daginn eins og sumir virðast gera. Mér dettur ekki í hug að halda að verið sé að ráðast á mig persónulega með þessu. Mun líklegra er að þetta sé útaf einhverri fésbókarbilun. Kannski eru of margir í einu að reyna að tengjast bókardruslunni. Hún er víst orðin geysivinsæl.

Vildi að ég kæmist í eins og eina slitastjórn. Þá gæti ég rakað saman peningum. En slíkt er víst bara fyrir einhverja útvalda. Er líklega orðinn of gamall og hef þar að auki aldrei sótt mér neina menntun í háskóla. Þeir voru líka sárafáir á mínum sokkabandsárum. Fer annars ekki að vanta einhvers konar „yfir-háskóla?“

Larry Flynt er sagður hafa boðið Romney milljón dollara fyrir að láta sig hafa (með leyfi til birtingar) afrit af skattskýrslu sinni fyrir 2008 og 2009. Romney ýtti hinsvegar óvart á „self-destruct“ takkann í forsetakjörinu svo líklega er tilboðið ekki lengur í gildi. Obama greyið mundi sennilega vera langt til hægri við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum. Skil ekki hversvegna Bjarni Ben. og Ragnheiður Elín fóru á flokksþing Republikanaflokksins.

Líklega er það mest vegna vana sem Íslendingar vilja halda áfram að vera Íslendingar. Auðvitað ræður enginn hvar hann fæðist en Íslendingar sem menntað hafa sig að miklu leyti erlendis, myndað þar tengslanet og geta gengið þar að margfaldlega betur launaðri vinnu o.s.frv. hafa að litlu að hverfa hér á landi. Lífskjör koma eflaust til með að halda áfram að vera mun lakari hér á landi en annarsstaðar á Norðurlöndunum bæði vegna smæðar landsins og erfiðs náttúrufars. Auk þess kemur það til með að hafa vaxandi áhrif í framtíðinni ef fólk heldur áfram að flýja land vegna lélegrar afkomu. Samt sem áður er Ísland best í heimi.

IMG 1600Tryllitæki.


1766 - Brjálaðir múslimar

Máli Gunnlaugs Sigmundssonar gegn Teiti Atlasyni er væntanlega lokið. Á ekki von á að Gunnlaugur sé svo forstokkaður að hann áfrýji málinu. Hef áður minnst á Kögunarmálið og ætla ekki að gera það aftur. Á von á að mikið verði fjallað um það á næstunni. Hef líka hallmælt Teiti og það mjög nýlega. Flestir sýndist mér að hrósuðu Teiti fyrir djöflapredikunina um daginn, en mér fannst hann vera að reyna að æsa fólk til óhæfuverka með henni.

Furðulegt af Gunnlaugi að halda málsókninni til streitu eftir allt sem á undan er gengið. Hef fylgst talsvert með þessu máli eins og mörgum öðrum sem snúast um málfrelsi.

Söngva Satans las ég aldrei. Hef grun um að mér hefði þótt sú bók afburða leiðinleg. Nú segir Salman Rushdie höfundur þeirrar frægu bókars, sem frægust varð vegna dauðadóms erkiklerksins íranska á hendur höfundi hennar, að sú bók fengist ekki gefin út núna. Svo mikil séu árif múslima hlýtur hann að meina. Ég leyfi mér að vera ósammála honum. Að vísu virðist margt benda til að múslimar séu sífellt að verða hörundssárari fyrir hönd Múhameðs spámanns en ég held að þar sé ekki allt sem sýnist.

Ekki er annað að sjá en kvennakúgun og málfrelsishatur ríði húsum í ríkjum múhameðstrúarmanna, en ég kýs að álíta það einkum vera vegna starfa pólitískra æsingamanna og lítillar menntunar fjöldans. Mér finnst ekki til fyrirmyndar að fordæma heilar þjóðir eingöngu vegna frétta í fjölmiðlum. Ég vantreysti fjölmiðlum yfirleitt. Ekki þarf að fara langt afturábak í sögunni til að finna dæmi um afar mikla fordóma og ástæðulitla hjá kristnum þjóðum.

Já, ég er syfjaður. Stundum finnst mér ég líka vera óttalega vitlaus. Svo koma aðrir tímar og þá finnst mér ég vera með gáfuðustu mönnum. Líklega er hvorugt rétt. Hef verið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að hafa skoðun á Baldursmálinu. Auðvitað er skiljanlegt að þeir á lögmannsstofunni vilji fá hann til að vinna fyrir sig. Hugsanlega er þetta allt eðlilegt. Þó er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að verið sé að reyna að hygla honum sérstaklega og því er ég á móti. Man eftir að Ómar Kristjánsson lenti eitt sinn í fangelsi og missti fyrirtækið úr höndunum á sér. Held að hugsanlega sé það enn meira áfall fyrir menn úr efstu lögum þjóðfélagsins að lenda í fangelsi en þeim sem oft fara þangað.

Ef ég ætti milljarð króna þá mundi ég sennilega ekki tíma að gefa neinum neitt af þeim peningum. Allra síst Vigdísi Hauksdóttur eða svöngu börnunum í Kongó. Ef ég ætti ekki peningana, en ætti að úthluta þeim mundi ég velja Biafrabörnin frekar.

IMG 1598Beðið eftir gestum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband