Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

1346 - Hveragerði og allt það

braggiGamla myndin.
Þetta eru fjósið og bragginn á Reykjum. Bragginn var notaður sem einskonar vélageymsla þó aðallega væri þar allskonar drasl. Man vel eftir gömlum súgþurrkunartækjum sem þar voru. Það var hægt að skríða inní þau. 

Þegar Bjössi bróðir minn fæddist hef ég verið orðinn þrettán ára. Ég man að mér þótti óþarfi hjá mömmu að verða ólétt á þessum aldri og fannst hún einkum gera þetta til að ergja mig. Í þetta skipti var ekkert um það að ræða að þykjast sofa eins og þegar Vignir og Bjöggi fæddust því Bjössi kom í heiminn um miðjan dag.

Ég man eftir að hafa verið að leika mér útivið í mesta sakleysi þegar kallað var á mig og ég beðinn að fara uppeftir til Magnúsar læknis því mamma væri að því komin að fæða.

Ég setti upp hundshaus en drattaðist samt af stað uppá hæð og bankaði hjá lækninum og sagði honum það sem mér hafði verið sagt að segja honum. Hann spurði þá hvort vatnið væri komið en ég kannaðist ekkert við að vatnslaust hefði verið. Hann spurði mig ekki nánar út í það en fór mjög fljótlega að Hveramörk 6 sem þá var farið að kalla svo. Gamla húsið hafði alltaf verið kallað Bláfell en þetta var semsagt í nýja húsinu. Ljósmóðir kom einnig og ég veit ekki betur en fæðingin hafi gengið eðlilega fyrir sig. Þetta mun hafa verið skömmu eftir hádegið.

Um þetta leyti vann pabbi í Steingerði. Holsteinaverksmiðju sem var til húsa þar sem eitt sinn hafði verið frystihús og síðar varð stofninn að Kjörís. Nokkru eftir að hann kom heim í kaffi sagði Vignir uppveðraður við hann: „Pabbi, pabbi, hefurðu séð það?" Hann vissi semsagt ekki hvort um strák eða stelpu var að ræða. Við Ingibjörg höfðum hinsvegar haft vit á að spyrja um kynið og auðvitað hafði pabbi skoðað litla barnið þó hann hafi ekki sleppt vinnu útaf þessu smáræði.

Á þeim árum sem ég var að alast upp var ágætt að búa í Hveragerði. Karlarnir sem bjuggu í kring höfðu hver sitt rör sem stungið var niður í Bláhver og síðan var heitt vatnið leitt í húsin og þau hituð upp. Nóg var af heita vatninu í hvernum en þeir sem mest þurftu af því og voru með garðyrkjustöðvar svolítið fyrir neðan aðra byggð þurftu sver rör úr asbesti og þau vildu springa.

Þegar ég komst á legg var það ein mínum fyrstu minningum að alltaf var vani að sjóða kartöflurnar a.m.k. og jafnvel fleira í gufukassa einum sem hafði verið komið fyrir norðvestan við íbúðarhúsið. Þessi kassi var mikið þing. Hann var það stór um sig að hægt hefði verið að koma sex til átta miðlungspottum fyrir á botni hans og hæðin slík að vel hefði mátt hafa tvo til þrjá slíka ofan á hverjum öðrum. Gerður var hann úr kassafjölum og lok á honum var úr timbri einnig.

Auðvitað var það mamma sem kom því fyrir í kassanum sem sjóða átti hverju sinni, breiddi nokkra strigapoka yfir opið á kassanum og setti síðan lokið á hann. Skrúfaði þvínæst frá gufunni með renniloka sem var rétt við kassann á röri sem tekið var útúr röri því sem hitunarvatnið úr Bláhver streymdi um.

Bílar voru sjaldgæfir á þessum árum og ég var ekki gamall þegar ég kom mér upp í kálgarðinum heima, með aðstoð pabba, trékassa með gírstöng, bremsum og fleiri nauðsynlegum stjórntækjum sem stungið var ofan í jörðina og þau síðan hreyfð eftir þörfum. Bílhljóðin og einkum gírskiptingarnar voru svo framkallaðar af mér sjálfum og þannig var kominn öflugur vörubíll.

Einkabílar eða svonefndar drossíur voru enn sjaldgæfari en vörubílar. Hreppstjórinn sjálfur, Stefán Guðmundsson, sem bjó rétt hjá okkur átti eitt slíkt tryllitæki og eitt sinn þegar ég var að sniglast í kringum þann bíl byrjaði skyndilega að leka úr einu dekkinu. Ég flýtti mér í burtu en sá þó seinna að dekkið var með öllu vindlaust orðið. Ég kenndi mér um þessi ósköp og var hálfhræddur við Stefán lengi á eftir. Siggi trölli átti vörubíl og naut virðingar fyrir. A.m.k. virtist mamma bera nokkra virðingu fyrir honum. Hann var líka stór og tröllslegur og kom öðru hvoru í heimsókn.

Fyrst minnst er á bíla má geta þess að vörubílum mátti breyta í boddybíla með því að koma fyrir boddýi til farþegaflutninga á palli þeirra. Þessi boddý tóku gjarnan tíu til tólf manns og þeir sem þar voru gátu setið meðfram hliðum boddýsins á bekkjunum þar. Þar fyrir utan voru auðvitað til hálfkassabílar sem voru einslags sambland af vöruflutningabíl og rútu og gátu bæði flutt farþega og hverskyns vörur.

Ég var bráðþroska og varð snemma nokkuð bókhneigður. Í samræmi við venjur fjölskyldunnar var ég sendur til Sveinu í Grasgarðinum til að læra að lesa áður en ég var nógu gamall til að hefja nám í Barna- og Miðskólanum í Hveragerði.

Ég var einn af fáum krökkum sem kunni að lesa þegar ég hóf nám í 1. bekk og var því fljótlega fluttur í 2. bekk. Ætli Kolla í Álfafelli hafi ekki verið flutt milli bekkja einnig.

Þegar ég var orðinn læs ákvað pabbi að tími væri til kominn að gefa mér bók og ég man vel hvaða bók það var. Hún hét „Gusi grísakóngur" og fjallaði um frægar Disney-persónur og þar á meðal var sá skúrkur sem í Andrésar andarblöðunum sem ég komst seinna upp á lag með að lesa á dönsku var kallaður „Store stygge ulv". Frásögnin í bókinni fjallaði um tilraunir hans til að blása hús grísanna um koll og býst ég við að margir kannist við þá sögu.

Ég man ekki mikið eftir fyrstu bókunum sem ég las, en meðal þeirra var efalaust bókin um Dísu ljósálf og líklega einnig bókin um Alfinn álfakóng. Mér þóttu þessar bækur þó fremur barnalegar og miklu meira koma til bókarinnar um Ívar hlújárn eftir Walter Scott. Allar þessar bækur las ég mörgum sinnum og þær áttu það sameiginlegt að mynd var á efri hluta hverrar blaðsíðu. Söguþráður bókarinnar um Ívar hlújárn er mér enn minnisstæður.

Ég man líka vel eftir því að einhvern tíma á þessum árum var ég í heimsókn hjá Sigga í Fagrahvammi og sá þar nokkrar bækur í bókahillu sem hann átti og þar á meðal einhverja bók sem ég hafði áhuga á. Spurði því Sigga hvernig þessi bók væri. Svar hans er greypt í huga mér: „Það veit ég ekki, ég hef ekki lesið hana."

Þetta fannst mér svo ótrúlegt að engu tali tók. Að einhver maður gæti átt bók án þess að hafa lesið hana var hugsun sem aldrei hafði hvarflað að mér. Á mínu heimili voru allar bækur marglesnar og síðan aftur og aftur.

Þarna hefur hugur minn ef til vill opnast fyrir muninum á milli fátækra og ríkra. Þetta hafði samt engin áhrif á vinskap okkar Sigga hvorki fyrr né síðar.

Ef til vill eru allmargir sem hugsa líkt og ég. Bókmenntalega séð finnst mér í vaxandi mæli að það sem kallað er fagurbókmenntir eða skáldsögur sé minna virði en frásagnir allskonar, jafnvel þó litaðar séu af svikulu minni skrásetjara. Þetta er eflaust vegna þess að ég er að eldast og ræð betur við að skrifa þannig sjálfur.

Það tíðkaðist í mínu ungdæmi að þeir sem látir voru hlaupa apríl þann fyrsta þess mánaðar máttu hefna sín með því að láta viðkomandi hlaupa apríl í staðinn þann þrítugasta sama mánaðar. Í dag er 30. apríl en ég viðurkenni auðvitað ekki að hafa nokkru sinni hlaupið apríl svo ég kvíði engu.

Sé að það hentar mér líklega best að skrifa sem mest um uppvöxt minn í Hveragerði á sínum tíma. Fréttaskýringar mínar, pólitískar hugleiðingar og ýmsar spekúlasjónir aðrar eru eflaust lítils virði þó mér finnist það ekki. Það er auðvelt að týna sjálfum sér með því að skrifa sem mest um allt mögulegt. Mikilvægast er að það sem skrifað er sé lesið. Hvernig er hægt að tryggja það? Með því að halda sig við það sem maður hefur meira vit á en aðrir. Ég veit ekki til að aðrir en ég skrifi meira eða betur um Hveragerði eins og það var áður fyrr, svo kannski ætti ég að halda mig við það.

Það fer dálítið öfugt í mína pólitísku samvisku að hlusta á Vilhjálm Egilsson fyrir hönd Samtaka Atvinnulífsins fara fram að ríkisstjórnin geri þetta eða hitt. Hefði frekar búist við af honum að hann óskaði þess að ríkisstjórnin gerði sem minnst. Nú er ekki annað að sjá en hann og félagar hafi a.m.k. tapað áróðursstríðinu.

Atli Harðarson, systursonur minn, heimspekingur og aðstoðarskólameistari við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi segir frá því á sinni fésbók að hann hafi sótt um stöðu skólameistara við Fjölbrautaskólann á Akranesi sem losna mun í sumar. Ásamt honum sækja þessir um stöðuna:

Geir Hólmarsson, framhaldsskólakennari.
Ingi Bogi Bogason, sjálfstætt starfandi ráðgjafi.
Ingileif Oddsdóttir, framhaldsskólakennari og náms- og starfsráðgjafi.
Jóhannes Ágústsson, fyrrverandi skólastjóri.
Lind Völundardóttir, framhaldsskólakennari.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari.

Gert er ráð fyrir að ráðið verði í stöðuna frá 1. ágúst næstkomandi.

Auðvitað vona ég og geri ráð fyrir að Atli hljóti stöðuna.

Álpaðist inn í stofu áðan. Þar var sjónvarpið á fullu blasti og ég heyrði þessi vísdómsorð. „Ég skil ekki þennan kjól, Bogi. Gerir þú það?" Kannski er þetta samt ekkert óskiljanlegra en frítt aukaspark og umdeild vítaspyrna.

IMG 5217Dekkjahótel? Hvað er nú það?


1345 - Garðsauki 2

vignirÞetta gætu verið Vignir bróðir (fjær) og Árni Helgason (nær) á skólaskemmtuninni sem ég hef áður birt myndir frá. (Hef líklega verið að leika fréttaljósmyndara þar.)

Fyrst eftir að við komum að Eystri-Garðsauka vann ég við það ásamt strákunum og kannski einhverjum af fullorðna fólkinu að fjarlægja heyrestar sem orðið höfðu eftir um veturinn þegar heygaltar allstórir höfðu verið nýttir. Þessu mokuðum við á vagn og keyrðum í skurð rétt hjá. Þetta var alllangt frá bænum en þegar matmálstímar voru fór einhver heima við með lak út fyrir bæinn og veifaði því. Þetta var okkar helsta tímaviðmiðun. Úr þekktust varla og allra síst að krakkagríslingum væri treyst fyrir þvílíkum rarítetum.

Að því kom meðan við dvöldum þarna að sláttur hæfist. Guðmundur og þeir sem þarna stjórnuðu létu mikinn yfir því að traktor væri á staðnum og sláttuvél og með henni yrði slegið. Mér þótti þetta með traktorinn dálítið skrítið því ég hafði ekki séð neina vél sem hægt væri að kalla því nafni. Enda kom það í ljós strax og sláttur hófst að það sem þarna var það kallað traktor var í Hveragerði bara kallað fræsari og notað til að róta upp moldinni í gróðurhúsunum. Þótti mér hálfgerður skítur til þessa traktors koma. Og svo var ekki einu sinni hægt að sitja á honum.

Auðvitað var stundum stungið upp með höndunum í gróðurhúsunum í Hveragerði því ekki áttu allir fræsara. Svo gat líka verið snúið að koma þeim inn í húsin. Einu sinni man ég eftir að hafa stungið upp hálft hús með Hansa Gústafssyni. Hann reykti pípu á þeim tíma og sjá mátti reyk stíga uppaf tóbaki í uppstungna hlutanum með svona meters millibili lengst af.

Að Garðsauka ákváðu þær Ingibjörg og stelpan sem var á aldur við hana eitt sinn að elda grjónagraut. Þá hefur líklega enginn fullorðinn verið í húsinu. Þær kunnu vel að gera grjónagraut og eftir því sem þeim hafði verið sagt var mesta hættan sú að grauturinn yrði sangur eða með öðrum orðum að það kæmi ástarbragð af honum. Þær gættu þess því vel að hræra reglulega í pottinum. En eitthvað vantaði. Jú, rúsínurnar. Þær fundu rúsínukassa og settur einn sléttfullan disk af rúsínum í pottinn. Á endanum urðu rúsínurnar ansi fyrirferðarmiklar og þeir sem fengu sér graut höfðu allir orð á því hve mikið væri af rúsínum í honum. En grauturinn var góður.

Eitt af verkum okkar krakkanna var að reka úr túninu. Það var létt verk og löðurmannlegt því girðingar voru góðar. Moshvollinn var næsti bær austan við Garðsauka og var kominn í eyði. Við áttum líka að sjá um túnið þar. Það sást ekki frá bænum þannig að við urðum að fara þangað öðru hvoru og aðgæta hvort rollur hefðu komist í túnið. Svo var yfirleitt ekki því girðingar voru líka í lagi þar ef ég man rétt.

Morguninn sem við Ingibjörg vorum á förum voru öllum að óvörum komnar rollur í túnið sunnan við Garðsauka. Við strákarnir voru snimmhendis sendir af stað að reka þær í burtu. Allir hlupum við af stað eins og fætur toguðu af einhverjum ástæðum og ég fór brátt að dragast aftur úr. Leifur var fyrstur  og Oddur skammt á eftir honum. Þar á eftir kom ég svo og þegar ég sá fram á að verða síðastur í þessu kapphlaupi okkar brá ég á það ráð að setja fótinn fyrir Odd. Hann datt kylliflatur en meiddi sig ekkert sem betur fór. Ég kann enga skýringu á því hvers vegna mér er þetta svona ofarlega í minni eða af hverju mér datt þetta í hug. Man samt að ég skammaðist mín mikið fyrir þetta því Oddur hafði ekki gert mér nokkurn skapaðan hlut.

Þarna fékk ég í fyrsta sinn á ævinni að skjóta af riffli. Ekki hefðu allir leyft okkur strákavitleysingunum það, en við fengum semsagt að skjóta á flöskur sem komið hafði verið fyrir í hænsnagirðingu í nokkurri fjarlægð. Ekki gekk okkur vel að hitta þær, en þeim fullorðnu sem með okkur voru, þeim mun betur. Þegar allar flöskurnar voru komnar í mask var tekið til við að splundra stútunum. Það gekk verr en hafðist þó. Einhverjar óskjótandi manneskjur áttu leið þarna um en urðu sem betur fór ekki fyrir skotum.

Ekki var neitt salerni á svefnloftinu. Þyrftu menn að pissa var gripið til koppa sem undir rúmunum voru. Þegar búið var um rúmin á morgnana var tækifærið notað og skvett úr koppunum út um gluggann. Fyrir neðan gluggann var lægri bygging (sennilega fjósið) og eitt sinn man ég eftir að hafa næstum orðið fyrir skvettu úr kopp sem útum gluggann kom og lenti á þakinu á byggingunni fyrir neðan og rann svo út á hlaðið.

Þegar ég fór í sveitina hafði ég haft með mér dýrindis færi með sökku og spóni. Á honum var þríkrækja og hann í laginu eins og fiskur. Ekki varð neinn tími til að nota þetta veiðitæki, en síðasta daginn minn kom það eitthvað til tals að líklega væri silungur í læknum sem rann skammt frá bænum. Þá sagði ég náttúrlega frá færinu mínu og var skammaður af Leifi fyrir að hafa ekki sagt frá því fyrr því önglar og sérstaklega spúnar með þríkrækju voru sjaldséðir þarna í fásinninu.

Nú er ég búinn að fatta upp á góðu ráði til að lengja bloggin mín. Það er að setja þar þessar minningar frá Garðsauka. Ég var nefnilega búinn að færa þær í letur fyrir nokkru. Það er samt álitamál hvort vert er að lengja „minningar með morgunkaffinu" úr hófi. Þetta er líka að verða búið.

-Hvað er það sem gerir blogg lesandi?

-Hef ekki hugmynd.

-Kannski hæfileg lengd, hnökralaust mál og eitthvað frábrugðið því venjulegasta.

-Kannski.

-Er þetta blogg þannig?

-Jafnvel.

Tímans rás hjá Illuga er oft fróðleg og hentar vel að lesa í morgunsárið. Það er ekki ónýtt að geta fésbókast svona með vinnuna sína. Það getur samt vel verið að hann eigi eftir að selja þetta og sé einmitt að auglýsa. Auðvitað má hann það alveg. Ég er svosem líka alltaf að auglýsa mín skrif.

Skrýtið að fylgjast með fréttum á Sky News núna seinnipartinn. Beinar útsendingar frá götu fyrir framan eitthvert hótel o.s.frv. Allt snýst semsagt um undirbúning fyrir konunglega brúðkaupið. Stríðið í Líbýu og óveður í Ameríku eru einskisverð aukaatriði miðað við slíkan heimsviðburð.

IMG 5212Hvaða fontur er þetta eiginlega?


1344 - Eystri-Garðsauki

jkrogbjossiGamla myndin
er af Bjössa bróður og líklega er þetta Jón Kristinn sem er fyrir aftan hann.

Sumarið eftir að brann heima var ákveðið að við Ingibjörg færum í sveit. Þó búskap væri að mestu hætt að Eystri Garðsauka þegar þetta var vorum við send þangað. Sonur Óskars bróður pabba og nafni minn sá um búskapinn þarna en viðvera hans var nokkuð stopul. Ef ég man rétt kom einnig í heimsókn Guðmundur bróðir hans. Að mestu leyti gengum við krakkarnir samt sjálfala þarna.

Þegar þetta var mun ég hafa verið á tíunda ári en Ingibjörg er tveimur árum eldri. Okkur kom yfirleitt ágætlega saman þó hún hefði mikið yndi af að skrökva öllu mögulegu að mér og plata á ýmsan hátt. Ég erfði það ekkert við hana því það var svo margt merkilegt sem hún sagði mér.

Talað var um að við yrðum þarna í svona vikutíma og hjálpuðum til við bústörfin. Við vorum fimm krakkar þarna og synir Óskars og kærustur þeirra ef ég man rétt. Fullorðna fólkið var alltaf að koma og fara og skipti sér lítið af okkur krökkunum en við höfðum þó ákveðin verk að vinna. Sækja kýrnar, þrífa flórinn, fara með mjólkina o.s.frv. minnir mig. Húsið var stórt og um margt merkilegt. Svefnherbergi öll voru uppi á lofti. Sláttur var ekki hafinn.

Ein stelpa á staðnum var á aldur við Ingibjörgu og þær sváfu í herbergi sem var innaf herbergi okkar strákanna. Strákarnir hétu Leifur og Oddur og rúm þeirra voru við suðurvegg herbergisins en mitt við norðurvegginn. Oddur var á mínum aldri en Leifur eitthvað eldri. Herbergið var allstórt og þar var uppgangurinn á loftið. Öðrum þræði var loftið einhverskonar geymsla en það truflaði okkur ekkert.

Þegar strákarnir voru komnir undir sæng á kvöldin fóru þeir að fást við eitthvað sem ég vissi ekki hvað var og veitti litla eftirtekt. Þeir lýstu því sem þeir voru að gera án þess þó að láta nákvælega uppi hvað það var. „Nú er það orðið mjög gott." sagði kannski annar. „Alveg svakalega gott." sagði hinn. „Nú er það alveg að verða of gott." „Nú er það of gott" og þeir stundu hátt af vellíðan.

Ég var of saklaus til að skilja hvað þeir voru að gera en stelpurnar höfðu einhverja hugmynd um þetta og voru sífellt að trufla þessa iðju þeirra en þeir létu sem ekkert væri.

Dvölin að Garðsauka var um margt eftirminnileg. Hestarnir þar voru alveg sér kapítuli. Þeir voru tveir og hétu Gráni og Jarpur. Leifur fór með mig á bak Jarpi og útskýrði fyrir mér gangtegundirnar. Hægagangur, brokk, valhopp og stökk. Tölt og skeið held ég að hafi ekki verið í þessum hestum enda voru þetta dæmigerðir áburðarklárar. Nöfn hestanna voru sögð til komin vegna litar þeirra. Gráni var hvítur en Jarpur svartur. Svoleiðis var það bara.

Reiðtúrinn með Leifi varð endasleppur því á endanum fórum við að hallast meira og meira og duttum af baki að lokum enda var enginn hnakkur á hestinum. Ekki varð okkur neitt meint af því og risum fljótlega á fætur aftur.

Hestarnir voru mjög fótvissir og eitt sinn hálffældust þeir báðir og hlupu í burtu og yfir barn sem nýfarið var að ganga. Auðvitað meiddu þeir barnið ekki nokkurn skapaðan hlut þó ýmsir héldu að svo hefði verið því það datt niður.

Gráni lét alltaf ná sér strax en Jarpur var dyntóttari með það. Þessvegna var það sem Gráni var alltaf látinn fara með mjólkina. Sú ferð var ekki mjög löng því aðeins var farið að símstöðinni við Hvolsvöll en þangað kom mjólkurbíllinn.

Gráni gat alveg farið þessa leið án allrar aðstoðar en á tveimur stöðum tók hann ekki tillit til vagnsins sem spenntur var aftan í hann og stýra þurfti honum þar. Þetta var á plankabrú einni handriðslausri sem lá yfir læk á leiðinni en þar vildi hann helst fara alltof utarlega. Síðan var það við hliðið á heimreiðinni. Þar fór hann ævinlega rétt við annan hliðstólpann ef hann fékk sjálfur að ráða. Ég fór stundum einn með mjólkina og þótti talsverð upphefð að því.

„Minningar með morgunkaffinu" ætti þetta blogg kannski að heita. Undanfarna daga hef ég verið ákaflega upptekinn af að rifja upp gamla tíma hér á blogginu. Get samt ekki á mér setið að fjölyrða um ýmsa aðra hluti eftir að því lýkur. Þarf að drífa mig í að skanna fleiri gamlar myndir. Verst hvað þær eru lítið merkilegar. Búinn með þær bestu.

Bjarni gerði sér lítið fyrir og vann þá félagana Róbert Lagerman (eða Harðarson) og Dag Arngrímsson sama daginn á Reykavíkurmótinu í skák sem fram fór um daginn. Róbert í fjórtán leikjum og Dag í tuttug og einum. Þetta var í eina skiptið sem meira en ein umferð var tefld sama daginn. Þar með var hann orðinn meðal efstu Íslendinga í mótinu. Í næstu umferð þar á eftir lenti hann á móti Hannesi Hlífari og eftir það lá leiðin niður á við hjá honum. Árangurinn í heild var samt vel viðunandi.

Skákin hefur lengi verið mér nokkurs konar lífseleksír. Það að tefla er mér mikil afslöppun. Núorðið er mér skítsama um hvort ég tapa eða vinn. Áður fyrr var það samt ekki þannig. Náði þó aldrei neinum umtalsverðum árangri.

Undanfarin ár hef ég tekið einhvern þátt í deildakeppninni í skák á hverju ári og haft mjög gaman af. Unnið fleiri skákir en ég hef tapað enda verið á neðsta borði í fjórðu deild.

Nú er skak.blog.is orðið vinsælasta bloggið á Moggablogginu. Það er engin furða. Skákfréttir er ekki að finna núorðið í hefðbundnum fjölmiðlum enda geta Íslendingar víst ekkert í skák lengur. Ég man þá tíð þegar skákfréttir voru útsíðufréttir. „Nú er klukkan orðin tíu og Mogginn áreiðanleg kominn. Best að skreppa uppí Reykjafoss og gá hvernig Friðriki hefur gengið í gærkvöldi í Wageningen." Eitthvað svona gat maður hæglega sagt við sjálfan sig áður fyrr. Að vísu birti Mogginn ekki fréttir af heimsmeistaratitlinum í skák enda voru það sovétmenn sem einokuðu hann, en þá var bara að leita á náðir Þjóðviljans. Skáþættir voru reglulega bæði í útvarpi og blöðum.

Kannski er það metnaðarleysi sem hefur staðið mér mest fyrir þrifum í lífinu. Mér finnst að ég hefði getað orðið hvað sem er ef ég hefði einbeitt mér að einhverju ákveðnu í stað þess að dútla við allt mögulegt. Nú get ég bara einbeitt mér að því að hrökkva ekki uppaf fljótlega.

Gekk áðan fram á konu sem vokaði yfir hundinum sínum sem var eitthvað að athafna sig milli trjánna. Þegar ég nálgaðist fannst henni líklega asnalegt að standa þarna eins og auli svo hún tók símann sinn úr vasanum til að gera eitthvað. Talaði svo hátt og snjallt í hann þegar hún var búin að hringja svolítið.

Ég man vel eftir því þegar ég stóð á einni tá í fyrsta sinn. Því miður var það ekki mín eigin tá því þá hefði ég fundið til. Einhvern vegin hafði ég þó komist upp á þess tá. Nú veit ég, þetta var tá á stórri styttu og ég stóð uppá henni og komst ekki lengra. Kannski verður þetta saga og kannski ekki. Ég hef ekki hugmynd um það. Skrifa bara jafnóðum það sem mér dettur í hug. Ég sem var nýbúinn að taka til í bakhöfðinu. Ótrúlegur andskoti að ég skyldi lenda í þessu. Ekki hefði mig grunað það þegar ég kíkti ofan í líkkistuna. En svona er þetta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Og nú er ég semsagt dauður. Hvað skyldi koma næst? Alveg er ég viss um að enginn mun trúa mér þegar ég fer að segja frá þessu.

Svona gæti ég fimbulfambað endalaust. Spurningin er bara hvort einhver nennir að lesa það. „Minningar með morgunkaffinu" eru miklu skárri en þetta. Samt eru það eflaust fáir sem nenna að lesa svona minningar nema þeir tengist atburðunum með einhverjum hætti. Hveragerði er örugglega betra en Garðsauki hvað það snertir. Gæti samt skrifað miklu meira um Garðsauka og geri kannski í næsta bloggi eða svo.

IMG 5211Fréttatíminn í úrvali.


1343 - Unglingsárin í Hveragerði

ingvarGamla myndin
Hér er Ingvar Christiansen með haka og skólflu. Minnir að við höfum rætt um að þarna ætti hann að þykjast vera gullgrafari.

Hvernig var að vera unglingur í upphafi kaldastríðsáranna?

Eiginlega var það bæði vont og gott. Eða hvorki vont né gott. Það er að renna upp fyrir mér núna að ekki er víst að það séu ákaflega margir sem áttu sín unglingsár á þeim tíma.

Aðstæður allar voru gjörólíkar þeim sem nú þykja sjálfsagðar. Engir farsímar voru, ekkert sjónvarp og engar tölvur.

Vitanlega ólst ég upp í Hveragerði en ekki í Reykjavíkinni. Kannski hefur margt verið öðru vísi þar. Margt er mér minnisstætt úr bíódögum Friðriks Þórs (horfði nefnilega á hana nýlega) en finnst hann þó ýkja sumt. Reyndum auðvitað að svindla okkur í bíó en það gekk illa. Best var bara að kaupa sinn miða og vera ekki með neitt vesen. Man ekki eftir að hasarblöð hafi verið neitt í tísku. Strákar söfnuðu frímerkjum en stelpur servíettum.

Bíó var tvisvar í viku eða svo niðri á hóteli. Það sóttum við vitanlega og reyndum líka eftir því sem við gátum að fá útrás fyrir kynhvatirnar. Vildum gjarnan ríða og þessháttar en um slíkt töluðum við ekki.

Man samt að sem strákur (kannski áður en ég varð unglingur) heyrði ég heilmikið af svæsnum klámsögum. Best var að myrkur væri þegar frá slíku var sagt. Man að fyrstu sögurnar af því tagi heyrði ég eftir að við skriðum inní gömlu súgþurrkunartækin uppi á Reykjum.  

En satt að segja framkvæmdum við aldrei neitt kynferðislegt. Bæði var stjórnunin á okkur mikil og svo vorum við auðvitað dauðfeimin.

En vitanlega létum við okkur dreyma um píkur og þessháttar. Stelpurnar þó frekar um stíf typpi geri ég ráð fyrir.

Auðvitað veit ég ekkert með vissu um þessi mál, en eftir kynnum mínum af unglingum þessa tíma að dæma voru þeir flestir komnir langleiðina að árunum átján eða jafnvel lengra þegar sá áfangi náðist sem fólginn var í nánum kynnum við hitt kynið.

Oftast fylgdi víndrykkja svo drastískum atburðum og trúlega hafa flest okkar verið undir slíkum áhrifum þegar okkur tókst að gera hitt í fyrsta skipti.

Það breytir því þó ekki að þessi mál voru ofarlega í huga okkar flestra að ég hygg.

Þetta er samt niðurstaða sem ég komst að seinna meir því meðan á þessu stóð hélt ég vitanlega að ég væri svona skrýtinn og aðrir hugsuðu ekki nærri svona mikið um þetta.

Í bókum var samlífi kynjanna alls ekki lýst. Í mesta lagi gefið í skyn.

Man vel eftir að það var í blaði sem hét „Sannar sögur" eða eitthvað þess háttar, sem ég sá í fyrsta skipti sagt frá svona löguðu þannig að ekkert fór á milli mála við hvað var átt. Þar var það „að ríða" kallað að njótast en um hvers konar atburð var að ræða fór ekki á milli mála.

Verið var að segja frá einhverju afbroti um borð í skipi ef ég man rétt og þetta ríðirí var nánast aukaatriði í sögunni þó mér þætti það langmerkilegast. Er ekki viss um að ég hafi verið farinn að skilja þessi mál almennilega þegar þetta var.

Heimsmálin þvældust ekkert fyrir okkur krökkunum. Þau voru bara staðreynd  sem við höfðum engan áhuga á. Man að okkur þótti samt merkilegt að Ungverjar væru að koma til Íslands. Útlendingar voru sjaldséðir á þessum tíma og sögur frá stríðinu snerust mest um tungumálaerfiðleika og allskonar misskilning.

Á kvöldin var sjálfsagt að fara út að leika sér. Ekki var sjónvarpið eða tölvuleikirnir að glepja mann. Einstöku sinnum þóttist maður þurfa að læra eitthvað. Mest var það auðvitað til að friða foreldrana. Úti hitti maður marga aðra krakka. Þeir yngri fóru í allskyns leiki en þeir eldri héngu niðri á Hóteli. Mest í litla salnum, forstofunni eða úti á stétt. Stóri salurinn var bara notaður fyrir bíósýningar og þess háttar.

Flest var afar spennandi, nema skólinn. Hann var hundleiðinlegur. Enginn þorði samt að skrópa þar. Bárum mikla virðingur fyrir kennurunum. Það var helst að við leyfðum okkur eitthvað hjá Séra Helga. Hann var svo meinlaus.

Hundleiddist þegar kennararnir voru hálfgrátandi að tala alvarlega við okkur. Man að Þórgunnur hélt að hún kæmist nær okkur með því. Trúðum því auðvitað ekki þegar sagt var að bekkurinn okkar væri sá alversti sem til væri.

Einn af kostunum við að gera það að nokkurs konar lífsstíl að blogga svolítið á hverjum einasta degi er að maður getur sagt frá því sama hvað eftir annað. Held til dæmis að ég hafi áður fjallað um unglingsárin í Hveragerði. Áreiðanlega samt ekki á sama hátt og núna. Kannski er óralangt síðan.

Það er motto hjá mér að skrifa helst ekki neitt um það sem ég er á móti. Það er nefnilega svo margt. Þetta blogg yrði neikvæðara en góðu hófi gegnir ef ég einbeitti mér að því sem ég er andsnúinn. Það er líka svo margt annað sem hægt er að skrifa um.

Til dæmis fór ég í gönguferð í morgun. Tók með mér blað og blýant af einhverjum einkennilegum ástæðum. Þessvegna fannst mér ég þurfa að gera vísur í ferðinni. Það tókst. Hér eru tvær:

Til álits mér er ætíð virt
að engan vil ég rota.
Orðalagið ekki stirt
er mér tamt að nota.

Þetta gæti líklega gengið sem einskonar inngangur að rímnamansöng. Að öðru leyti er vísan of sjálfbirgingsleg og ekki góð.

Þetta á líklega líka að vera einhverskonar speki:

Kynslóðirnar koma og fara.
Kannski er það best
að lífið allt sé leikur bara
og lánið valt sem mest.

Nýlega varð sú breyting á starfsemi Borgarbókasafns Reykjavíkur að lánstími bóka var styttur úr einum mánuði í þrjár vikur. Þessi gjörð stjórnar safnsins er einkum gerð til að styrkja olíufélögin í þrengingum sínum. Þannig lítur það a.m.k. út í mínum augum.

Þetta þarfnast e.t.v. nánari skýringa.

Í allmörg ár hef ég stundað það að fara mánaðarlega bæði í Bókasafn Kópavogs og útibú Borgarbókasafnsins í Gerðubergi. Gerðuberg er allsekki í göngufæri við heimili mitt svo ég verð að keyra þangað alllanga leið. Nú á tímum hækkandi bensinverðs veldur sú ákvörðun safnstjórnarinnar að stytta útlánatímann mjög auknum bensínkostnaði hjá mér svo ég neyðist til að hætta a.m.k. um stundarsakir viðskiptum við fyrirtækið.

IMG 5207Svolítið dapur ísbjörn.


1342 - Um Hriflu-Jónas og fleiri

egoglilliGamla myndin.
Þetta sýnist mér vera ég sjálfur ásamt Ingvari Christiansen. Af hverju ég held fyrir augun veit ég ekki.

Við nánari athugun á myndinni frá í gær sýnist mér að sá sem er að horfa á Sigga Þorsteins og Árna Helgason skylmast sé hugsanlega hvorki Mári Mikk né Jón bensín heldur geti verið um Sigga Jóns (bróður Ásgeirs) að ræða.

Merkilegar myndir sem Heiðdís Gunnarsdóttir setti á fésbókina í dag. Búinn að skoða þær vel og vandlega. Kalli Jóhanns skrifaði mér líka bréf á fésbókinni en ég er búinn að vera svolítið í sambandi við hann þar. Ég hef aftur á móti komið mér upp þeim sið að mjatla út þeim myndum sem ég á (sem eru hvorki margar né merkilegar) með því að setja þær smám saman á Moggabloggið mitt. Það má líka skoða þær þar, án þess að láta bloggið flækjast fyrir sér, eftir að ég er búinn að flytja þær úr „óflokkaða" albúminu.

Þó ég sé mesti rati við alla matargerð hef ég alveg skoðun á því hvað mér þykir gott. Af einhverjum ástæðum finnst mér gott (eða gotterí) ekkert séstaklega gott. Allsekki vont samt og sykur allur alveg ágætur. Sennilega hefur verið alin upp í mér sykurfíkn þegar ég var lítill. Man að ég var sífellt að fá mér sykurmola þegar ég var krakki. Þar kom mér málfræðikunnáttan vel því ég sagði jafnan: „Mamma, má ég fá mola?" og svarið var oftast já og þá tók ég auðvitað tvo eða fleiri.

Mér þótti sá reykti fiskur (aðallega ýsa) sem á boðstólum var í mínu ungdæmi frekar vondur. Aftur á móti þótti mér svokallaður sjólax (reyktur ufsi - held ég) alveg ágætur ofan á brauð. Best var að hann væri alveg löðrandi í matarolíu. Fetaostur þekktist ekki þá (bara 30 og 45 prósent ostur) en núna þykir mér hann eiginlega bestur osta. Sennilega er það vegna olíunnar.

Lengi má bollaleggja um mat og matargerð en það er ekki minn tebolli ef svo má segja. Þrátt fyrir allt sykurátið er það ekki fyrr en nú á síðustu árum sem ég hef komið mér upp almennilegri ístru.

Man vel eftir bók Hriflu-Jónasar um knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson. Það var áður en Albert fór að skipta sér af stjórnmálum og þótti einkennilegt að þekktasti stjórnmálamaður landsins væri að skrifa bók um frægasta íþróttamanninn. En svona var Jónas. Sískrifandi og þekkti alla. Albert hafði líka gengið í Samvinnuskólann hjá honum.

Hef ekki lesið ævisögu Jónasar sem er í þremur bindum og eftir Guðjón Friðriksson. Ýmislegt hef ég samt lesið um hann. Guðjón hefur einkum þurft að hemja sig því nóg hefur hann haft af efni. Guðjón er frægastur núlifandi ævisagnaritara hér á landi en ég man líka vel eftir bókum Gylfa Gröndal. Þær voru mjög góðar.

Þegar Almannavarnir Íslands voru upphaflega stofnaðar var eitt af þeirra fyrstu verkum að byggja veglega geymsluskemmu og koma þar fyrir ýmsum björgunarbúnaði svo sem teppum og ýmsu fleiru í stórum stíl. Svo kom rigning og í þeim vatnavöxtum sem þá urðu fór vegurinn heimað skemmunni í sundur svo enginn komst þangað nema fuglinn fljúgandi. Þetta þótti sumum sniðugt.

Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri er yfirleitt fremur orðljótur á sínu bloggi og fullyrðingasamur. Ekki er þó vafi að oft ratast kjöftugum satt á munn. Því fer samt fjarri að hann hafi alltaf rétt fyrir sér. Pólitískt séð er hann þó vinstri mönnum mjög þarfur vegna þess að hann fær talsverða athygli. Skrifar mikið á sitt blogg. Næstum eingöngu um pólitík, nýtur fornar frægðar og er duglegur að koma sér á framfæri. Hatur hans á öllu sem Bandarískt er virðist vera næstum sjúklegt og skrif hans eru ævinlega á neikvæðum nótum.

Les stundum blogg Páls Vilhjálmssonar sem mótvægi gegn söngnum í Jónasi. Páll reynir að jónasast eins og hann getur en talar úr talsvert annarri skúffu en hann. Páll þrífst á hrósi Davíðs Oddssonar og er á flestan hátt miklu meiri áróðursmaður en blaðamaður sem hann þó þykist vera.

Svo einkennilegt sem það er tala nei-sinnar meira en andstæðingar þeirra um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem þeir sigruðu eftirminnilega í. Ég greiddi jáinu atkvæði mitt en er ekkert sérlega áfjáður í að halda áfram að ræða Icesave. Nóg annað er til að tala um. Eins og margir fleiri hef ég talsverðar áhyggjur af ríkisstjórninni. Þó Jóhanna og Steingrímur láti drýgindalega hljóta þau að vera áhyggjufull þessa dagana. LÍÚ-mennirnir hafa þó látið afhjúpa sig eftirminnilega. Svo eftirminnilega að það gæti vel hjálpað ríkisstjórninni til að lifa talsverðan tíma ennþá.

IMG 5201Mosavaxinn steinn.


1341 - Þjóðaratkvæðagreiðslur og þess háttar

bardagiGamla myndin.
Hér sýnist mér að það séu Siggi Þorsteins og Árni Helga sem eru að skylmast upp við skála en ekki veit ég hver er að horfa á. Hugsanlega Már Michelsen, eða kannski Jón bensín.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson var að pólitískast í kommentakerfinu mínu og það beindi mér á slíkar brautir. Fyrir honum er núverandi ríkisstjórn fasistastjórn, eða þannig skildi ég hann. Raunveruleg fasistastjórn hefði í fyrsta lagi komið með einhverjum hætti í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu þá sem haldin var nýlega. Hefði það ekki tekist hefði verið nauðsynlegt að vinna sigur í henni.

Eitt af þeim elementum sem stuðluðu að sigri nei-sinna þar held ég að hafi einmitt verið andstaða við ríkisstjórnina án þess þó að eiga á hættu að hún færi frá.

Það er engin knýjandi nauðsyn að halda alþingiskosningar sem fyrst en hinsvegar er nauðsynlegt að lappa svolítið uppá stjórnarskrárræfilinn. Einkum að því leyti sem óskýrleikinn veldur vandræðum. Líka þarf að koma í veg fyrir fasistiskar tilhneygingar eins og verið hafa hjá mörgum ríkisstjórnum undanfarna áratugi. Best verður það gert með skynsamlegum reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Næstum örugglega er hægt að fullyrða að bandaríski herinn hefði farið mun fyrr en hann gerði ef þjóðaratkvæðagreiðsla um það hefði farið fram. Ef aðild að ESB verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar þar að kemur er ég viss um að þjóðin mun ekki skiptast varanlega í andstæðar fylkingar eins og gerðist að mörgu leyti í hermálinu.

Að ýmsu leyti má segja að Internetið (t.d. bloggið og fésbókin) hafi hleypt nýju lífi í samskipti manna. A.m.k. þeirra sem vilja og kunna að notfæra sér þessa nýju tækni. Útvarp, sjónvarp og svo ekki sé nú talað um prentuð dagblöð eru allt saman úreltir miðlar sem þó halda gildi sínu að sumu leyti. Berjast samt við að telja fólki trú um óskeikulleika sinn.

Það vill svo til að ég man nákvæmlega hvenær mér fannst ég vera orðinn gamall. Það var þegar ég varð fimmtugur. Þá áttum við heima í Tunguselinu og Benni tók mynd af mér í tilefni afmælisins og þegar ég sá þá mynd varð mér allt í einu ljóst að ég var orðinn gamall. Eiginlega alveg hundgamall. Síðan hefur leiðin bara legið niður á við hvað útlitið snertir. Innrætið hefur samt verið allavega. Mér finnst ég ekkert eldast. Forðast þó ljósmyndir.

Eitt sinn vorum við í sumarbústað uppi í Úthlíð. Siggi Grétars og fjölskylda voru þá á leiðinni til Reykjavíkur frá Húsavík en Benni gat talið Sigga á að koma bara til okkar. Ekki leist honum vel á að rata í sumarbústaðakraðakinu þar svo við fórum á móti honum að Laugarvatni. Þegar þau voru að fara að sofa sagði önnur dóttir Sigga. „Ég vil alveg bókina sem gamli maðurinn var að bjóða mér áðan." Þarna átti hún greinilega við mig og ég er viss um að ég hafði ekki fyrr heyrt mig kallaðan gamla manninn. Svona er þetta bara.

IMG 5195Þetta hvíta efst til hægri eru stólar svo það er hægt að sitja og virða fyrir sér dýrðina. Og þetta er úti.


1340 - Stjórnlagaráð

Scan94Gamla myndin
er af Bjarna Harðarsyni þegar hann var uppá sitt besta. Nei, hann var ekki orðinn alþingismaður þá.

Hægt gengur vorinu að komast að. Ég er óhressastur með þessar sífelldu rigningar. Það mætti alveg fara að þorna eitthvað um.

Mér finnst fésbókin frek. Tekur myndir og birtir þær hist og her. Skil ekki almennilega hvernig þetta ofurforrit virkar. Færi miklu sjaldnar á fésbókina ef ekki vildi svo til að þar er ég að tefla helling af bréfskákum. Hún er góð í því. Er aðeins að prófa að tefla Chess960.

Svo er Gúgli frændi líka afskiptasamur í meira lagi. Þefar uppi hvað sem er. Birtir líka myndir af öllu sem beðið er um. Er samt sem betur fer oft svolítið ruglaður en afar fljótur að finna hlutina. Miklu máli skiptir hvernig hann er spurður. Sumir eru flinkir í að tala við hann. Svo leikur hann stórt hlutverk í spurningaþáttum sjónvarpsins. Varið ykkur. Tölvurnar eru að taka yfir.

Mjög er í tísku að kenna núverandi ríkisstjórn um allt sem aflaga fer. Bloggarar eru slæmir með þetta og blaða- og fréttamenn einnig. Mér finnst ég ekki gera mikið af því. Er kannski þess vegna af mörgum álitinn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og kannski er ég það. Eitt er það sem mér finnst núverandi ríkisstjórn gera betur en flestar þeirra fyrrverandi. Hún tekur mark á forsetanum.

Mér finnst umgjörðin um þjóðaratkvæðagreiðslur, hlutverk forsetans og þess háttar samt of óskýr. Mikilvægasta hlutverk núverandi stjórnlagaráðs er að mínu viti að ráða bót á því. Vona að tillögur þar að lútandi komi fram sem fyrst.

Þeir sem hamra sífellt á því að þeir vilji nú endilega þjóðaratkvæðagreiðslur en bara ekki að þetta stjórnlagaráð geri nokkurn skapaðan hlut heldur verði kosið til þess einhverntíma seinna, á annan hátt o.s.frv. eru bara einfaldlega á móti því að breyta nokkru í stjórnarskránni. Það er alveg sjónarmið út af fyrir sig. Finnst að menn ættu að viðurkenna það.

Ef stjórnlagaráðið kemur sér saman um einhverja tillögu að stjórnarskrá, ef til vill með nokkrum mismunandi möguleikum um sumt, á ég alveg von á að það verði samþykkt.

IMG 5192Við þetta er engu að bæta.


1339 - Um tófur og fleira

atliogjoiGamla myndin er
af Atla Stefáns og Jóa á Grund á góðri stund með vatn í flösku við skálann í Reykjadal. Þessa mynd hef ég birt áður á mínu bloggi ef ég man rétt. Góð vísa er samt aldrei of oft kveðin. Myndin er nokkuð góð þó hún sé hreint ekki einkennandi fyrir þessa tvo menn. 

Einn af fyrstu útvarpsþáttunum, þar sem hægt var að hringja inn, var þáttur sem Jón nokkur Gunnlaugsson stjórnaði. Þessi þáttur var á dagskránni eftir hádegið en ég man ekki hvað hann var kallaður. Hann var talsvert vinsæll og ég er viss um að margir kannast við hann. Minnir að Jón hafi hringt í fólk af handahófi og boðið því að velja lag eða eitthvað þess háttar.

Einu sinni hringdi maður einn í konu sína sem þá var í baði. Datt svo í hug að biðja Jón um að hringja í hana og þá sagði hann (Jón) m.a. eitthvað á þessa leið: „Hvað er að sjá þig kona. Ertu ekki búin að klæða þig?" Konunni brá víst heil ósköp. Þetta leiðir hugann að því að brandarar eru oft börn síns tíma. Nú þætti þetta ekki vitund fyndið. Brandarinn um Gunnar sem var með rámri röddu að bjóða tré og runna var líka bara fyndinn í smátíma.

Það er merkilegt rannsóknarefni að kynna sér hvaðan fólk hefur hugmyndir sínar. Hvaðan hef ég t.d. hugmyndir mínar um mannkynssöguna, frönsku stjórnarbyltinguna, Jörund hundadagakóng, Íslandssöguna, fornritin, eymd Íslendinga á liðnum öldum o.s.frv. Listinn er óendanlegur og auðvitað er ekki hægt að rannsaka allt. Samt byggjast stjórnmálaskoðanir og ýmsar aðrar skoðanir fólks að talsverðu leyti á þessum hugmyndum. Fyrir allmarga held ég að bloggið sé um þessar mundir einn helsti hugmyndavakinn og svo auðvitað árans fésbókin. Fátt verður til af engu.

Hef að undanförnu verið að lesa sérstaka og merkilega bók. Hún heitir „Tófan og þjóðin" og er eftir Sigurð Hjartarson. Gefin út árið 2010 af  Melrakkasetri Íslands (sýnist mér). Sigurður þess var lengi formaður svokallaðs „Félags Íslenskra Tófuvina", sem lét sér fátt óviðkomandi á sínum tíma. Í þessari bók er sagt frá ýmsu sem henti þetta félag og meðlimi þess. Upphaflega virðist þessi félagsskapur hafa verið stofnaður í hálfgerðu gríni a.m.k. af sumum félögum hans en því er ekki að leyna að alvara er að baki öllum þeim fráleitu fullyrðingum sem settar eru fram. Fróðleg bók og skemmtileg. Bók þessa fékk ég að láni hjá Borgarbókasafninu í Gerðubergi.

Þetta leiðir hugann að tófuafskiptum mínum. Eftirminnilegast er sennilega það sem átti sér stað á Kili eitt sinn er við vorum á ferðinni frá Þverbrekknamúla í Þjófadali. Ætli við höfum ekki verið svona 10 til 12 saman og höfðum sest niður til að hvíla okkur og fá okkur matarbita.

Kemur þá ekki skyndilega stálpaður tófuyrðlingur skokkandi fyrir horn og á sér greinilega einskis ills von. Þegar hann sér okkur bregður honum illilega og leggur samstundis á flótta. Einhverjir úr okkar hópi tóku líka til fótanna og ætluðu að ná rebba en sem betur fer tókst það ekki. Eiginlega gerðist ekkert meira þarna en samt er þessi atburður mér ljóslifandi í minni.

Í gönguferðinni um Hornstrandir um árið sáum við stöku sinnum tófur, en samt er það eftirminnilegast að greni þeirra virtust einkum vera á bjargbrúninni og fuglalíf var ekkert efst í bjarginu. Í Fljótavík var til siðs að gefa tófunni það sem af gekk við máltíðir. Stundum sást hún skjótast eftir matnum en var samt alltaf mjög vör um sig.

Svo voru það litlu tófuyrðlingarnir sem voru sem gæludýr á heimili Dalla og Löbbu á Akureyri. Það kom mér mjög óvar á þeim tíma og er eftirminnilegt.

Myndirnar í myndaalbúmum Moggabloggsins raðast undarlega upp. Hef ekki áttað mig að fullu á því hvernig það gerist en sé t.d. að Jóhannes F. Skaftason hefur kommentað á mynd þar. Veit ekki hvort hann getur séð hvort athugasemdunum hafi verið svarað án þess að skoða myndirnar aftur. Hef aldrei kommentað á myndir hjá öðrum sjálfur.

IMG 5182Tilkomumikið tónlistarhús.


1338 - Góði Frjádagur

bjossi2Gamla myndin
er af Bjössa þar sem hann lætur eins og hann hafi einn og sjálfur mokað snjóinn af tröppunum. 

Nú þarf ég að grafa dýpra. Skannaði einhverjar síður úr gamla myndaalbúminu mínu um daginn og síðan er ég búinn að vera að skera þær myndir og laga aðeins til. Eitthvað er eftir en þegar ég er búinn að birta þær hendi ég þeim en læt þær vera í Moggabloggsalbúminu og frumritsalbúminu. Samþykkt? Það þýðir ekkert fyrir neinn að mótmæla.

Bráðum verður hætt að bera út póst til mín. Það er mjög gott. Yfirpóstkallinn sagði í fréttum að öllum hefði verið sent bréf um að merkja með nafni bréfarifur og póstkassa. Ekki hef ég fengið slíkt bréf. Ef haldið verður áfram að bera út ómerkta ruslpóstinn finnst mér verið að gera ruslpóstframleiðendum hærra undir höfði en okkur pöplinum en líklega mun ég sætta mig við þetta eins og flest annað.

Ég er ekkert ónæmur fyrir fréttum sem rata í blessað sjónvarpið eða á netið þó ég sé sífellt að hnýta í fréttaskýringarblogg. Sá einhvers staðar í fréttum að verið er að safna undirskriftum um að biðja ÓRG að skrifa ekki undir fjölmiðlafrumvarpið nýja. Fór á vefsetrið þar sem þeim undirskriftum er safnað en skrifaði ekki undir enda eru svo fáir búnir að því. Skoðaði líka lista yfir þá fjölmiðla sem að þessu standa. Þar brilleruðu Mogginn og DV með fjarveru sinni og svo ætlaði ég að skoða eitthvað lögin sjálf en fékk þá yfir 300 blaðsíðna pdf-skjal svo ég gafst upp.

Munurinn á mér og Hallgrími Helgasyni er sá að þó mér detti oft ýmsir orðaleikir og útúrsnúningar í hug þá næ ég ekki nema stundum að skrifa þá niður. Ef ég geri það rata þeir stundum í bloggið mitt seinna meir. Jú, og einn annar smámunur er á okkur, hann er rithöfundur og málari en ég er hvorugt. Bara vesæll bloggari.

Nú er Gísli hlaupari hættur lénstandi sínu og skrifar bara á málbeinid.wordpress.com en ekki lengur á malbein.net eins og hann gerði. Mun samt halda áfram að fylgjast með skrifum hans og ráðlegg öðrum það líka að sjálfsögðu. Þegar ég verð rekinn af Moggablogginu ætla ég að taka mér hann til fyrirmyndar og fara á Wordpress.com.

Þegar ég skoða bloggið mitt sýnist mér að ekki sé hægt að skrifa athugasemdir nema einhvern ákveðinn tíma við bloggskrifin en endalaust við myndirnar. Þetta sýnir bara hver mikill Moggabloggari ég er. Alltaf er ég eitthvað að stússa þar en þori þó ekki að breyta útlitinu á blogginu mínu. Þetta er mín saga. Ég er íhaldssamari á sumt en góðu hófi gegnir en samt finnst mér sjálfum að ég sé með afbrigðum frjálslyndur. Líklega er ég það á sumt.

Nú er föstudagurinn langi byrjaður í öllu sínu veldi þegar þú lest þetta. Í tilefni af því hef ég kappkostað að hafa þetta blogg bæði langt og leiðinlegt. Þannig eiga hlutirnir að vera á þessum degi. Aðalspurningin hjá mörgum er hvort óhætt sé að byrja á páskaegginu. Sumir segjast líka reikna með að fá mörg og þess vegna veiti ekki af að byrja í tæka tíð.

IMG 5179Take me to your leader.


1337 - Rafritið

aflraunGamla myndin
er sennilega frá sömu skólaskemmtun og ég birti hljómsveitarmyndina frá um daginn. Ég veit ekki hver þetta er sem er svona rosalega sterkur.

Mér finnst líklegt að ég hasist fljótt upp á því að birta gamlar myndir á hverjum degi. Samt fer það nú eftir því hvað ég verð duglegur við að skanna og þess háttar. Raðaði myndum dálítið í dag og setti myndir sem voru í albúminu sem heitir „Óflokkað" í önnur albúm. Mest fór auðvitað í albúmið „Ýmislegt - búið að birta".

Sem minnir mig á söguna sem er alveg sönn og fjallar um það að einhverju sinni var Hafdís að hjálpa okkur að taka til og settum við ýmsa pappíra í viðeigandi kassa sem merktir voru vel og vandlega. Hún þurfti svo nokkru seinna á einhverjum pappírum að halda og ég fann þá auðvitað í kassanum sem var merktur „Ýmislegt og fleira".

Morgunblaðsmenn ráku á sínum tíma Sigmund eftir að hann hafði teiknað lengi fyrir þá. Sá sem teiknar fyrir þá núna hneykslar marga heyrist mér. Tvær myndir kannast ég við að hafa séð eftir hann. Á annarri þeirra er Siv Friðleifsdóttir víst að falbjóða eitthvað. Blíðu sína sýnist sumum. Hin myndin virðist eiga að vera af Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími Sigfússyni í gervum Hitlers og Mussolinis. Mér finnst ástæðulaust að hneykslast á þessum myndum en um smekk þeirra sem ákveða hvaða myndir skuli birta má endalaust deila. Líka er athugunarefni hver græðir á birtingu mynda sem þessara.

Frá því í júlí 1993 og þar til í júní 1996 stóð ég að útgáfu tímaritsins „Rafritið". Alls komu út af því blaði ein 16 tölublöð og er þau að finna á vefsetri Netútgáfunnar sem segja má að tekið hafi við af Rafritinu því efni þangað settum við upp á árunum 1997 til 2001. Hafdís Rósa html-aði t.d. allt Rafritið.

Eftirfarandi er úr því ágæta riti:

Íslendingar fá ókeypis aðgang að Inernetinu.

Íslendingum mun opnast ókeypis aðgangur að gagnanetinu Internet frá og með 25. nóvember n.k. Gagnanetið sem er kostað af bandarísku ríkisstjórninni hefur 15 milljónir notenda víða um heim og fjölgar þeim um eina milljón á mánuði.

Allir helstu háskólar í veröldinni ásamt milljónum fyrirtækja og einstaklinga eru tengdir Internet gagnanetinu. Þeir aðilar sem fá aðgang að netinu geta miðlað upplýsingum sín á milli í því sér að kostnaðarlausu. til viðbótar opnast aðgangur að þúsundum gagnagrunna þar sem t.d. má fá upplýsingar frá verðbréfamörkuðum, vísindaleg gögn eða upplýsingar um íþróttaviðburði. Með Internet er upplýsingum miðlað um allan heim í þeim tilgangi að auka framleiðni og skapa meiri skilning milli þjóða.

Samkvæmt upplýsingum International Internet Association hafa verið takmarkanir á gagnaflutningslínum til Íslands og erfiðleikar á tengingum. Hafa einungis rannsóknarstofnanir og fyrirtæki haft efni á að greiða fyrir aðgang að gagnanetinu. Markmið Internet er hins vegar að opna sem flestum aðgang að upplýsingum og hugmyndum án tillits til stöðu eða efnahags. Þetta markmið hefur nú náðst fram hér á landi og hefur Internet tilkynnt að fjármunir hafi fengist til að opna öllum Íslendingum ókeypis aðgagng að gagnanetinu frá 25. nóvember. Allir sem hafa yfir að ráða módaldi geta fengið aðgang með því að hringja í tiltekið númer í Washington. Notendur þurfa aðeins að skrá sig og óska eftir aðgagngsnúmeri. Hægt er að óska eftir númerinu með því að senda fax í nr. (202)387-5446 eða hringja í síma (202)387-5445. Nokkur töf kanna þó að verða á afgreiðslu þar sem búist er við miklum fjölda beiðna um lykilorð, segir í frétt frá Internet.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu þann 28. október 1993.

Já, þetta er furðufréttin úr Mogganum. Hún vakti talsverð viðbrögð á ráðstefnunni ismennt.almenn á Íslenska Menntanetinu og einhver skrifaði þar að hann hefði talað við blaðamanninn sem skrifaði greinina og sá hefði lofað leiðréttingu og ítarlegri umfjöllun. Mér vitanlega hefur sú leiðrétting ekki birst ennþá.

Ég er nú enginn sérfræðingur í málefnum Internets, en veit þó að hagstæðara er að tengjast því í gegnum Íslenska Menntanetið en að hringja í eitthvert númer í Washington!!

Annars er geysilega mikið að gerast í málefnum Internet um þessar mundir. Fjölgun notenda er gífurleg um allan heim og æ erfiðara verður að halda viðskiptahagsmunum og auglýsingamennsku frá netinu, en frá fornu fari hefur verið amast við slíku.

Fyrir nokkrum mánuðum póstaði ég á ismennt.almenn langa grein um Internet sem kom frá Associated Press og fyrir fáeinum vikum var forsíðugreinin í Newsweek um Internet.

Starfsemi þessa furðulega fyrirbæris sem Internet vissulega er vekur æ meiri athygli meðal almennings og ég hef reyslu fyrir því að margir halda mann beinlínis ljúga þegar verið er að lýsa þeim möguleikum sem netið býr yfir og hve lítill kostnaður fylgir því í raun að nýta sér þá.

Mín skoðun er að Internet muni halda áfram að vaxa næstu ár og innan skamms muni viðskiptaaðilar smám saman leggja það undir sig. Það þarf þó alls ekki að þýða nein endalok þeirrar starfsemi sem nú fer þar fram en áreiðanlega mun margt breytast. Það verður gaman að fylgjast með þeirri byltingu sem stóraukin og sífellt almennari notkun Internets eða annarra hliðstæðra alþjóðlegra tölvukerfa á eftir að valda á mörgum sviðum á næstu árum.

IMG 5178Já, þetta er rusl. Bölvað rusl.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband