Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

759- Stórhausalisti Moggabloggsins

Hætt er við að Moggabloggsmenn hafi safnað meiri glóðum elds að höfði sér með því að loka á DoctorE en þeir fái risið undir. Orð DoctorE um tiltekna konu hef ég ekki séð en er samt þeirrar skoðunar að DoctorE eigi að fá að halda áfram að blogga hér. 

Ég ætla að skrifa hér nokkur orð um stórhausalistann einkum fyrir þá sem ekki hafa mikla hugmynd um hvernig hann er til kominn eða hvernig hann virkar.

Ég veit ekki hvernig hugmyndin um þennan lista varð til upphaflega því ég byrjaði ekki að blogga hér fyrr en 2006. Ekki leið á mjög löngu áður en ég var settur á þennan fræga lista og kom það til af því að ég fór að spyrja þá Moggabloggsmenn hvernig í ósköpunum þeir væru valdir sem alltaf kæmu fremst í bloggið hjá þeim. Við Lára Hanna Einarsdóttir, sem eitt sinn var vinnufélagi minn, höfðum nokkurt samstarf um þær fyrirspurnir.

Mér vitanlega eru þeir ekki spurðir fyrirfram sem settir eru á þennan lista. Val á hann er alfarið í höndum Moggabloggsmanna og reglur um það hvað þurfi til greinilega samdar jafnóðum. Moggabloggsmenn hafa sagt að á þennan lista fari þeir sem bloggi svona og svona en það er augljóslega ekki rétt því stundum komast menn á listann útá nafn sitt eingöngu. Sagt hefur verið að á þessum lista séu nú u.þ.b. 200 bloggarar.

Sjaldgæft er að menn séu teknir af þessum lista. Þó þekkist það. Ég man til dæmis vel eftir því að Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson í Kaupmannahöfn var eitt sinn tekinn af þessum lista og var ekki par ánægður með það. Mig minnir að því hafi verið haldið fram að skrif hans væru of einhæf. Skrifaði hann sig inná listann aftur eftir japl og fuður.

Sagt er að það sé síðan sérstakt forrit sem velji blogg úr þessum lista til birtingar hverju sinni. Það getur vel verið rétt en ég held að aldrei hafi verið upplýst fullkomlega hvaða atriði þetta forrit hefur til hliðsjónar við val sitt. Örugglega er líka hægt að breyta þeim skilyrðum eftir hentugleikum.

Barátta þeirra Moggabloggsmanna við þá sem fremur vilja notast við dulnefni en sitt eigið nafn og sífelldar lokanir þeirra á hina og þessa er svo efni í annað blogg. Sömuleiðis mætti skrifa langt mál um eyjuna.is og hvernig þeir nældu sér á tímabili skipulega í þá sem vinsælir urðu á Moggablogginu.

Ný leitarvél er á komin á Netið. Microsoft og Yahoo hafa sameinað krafta sína á leitarvélamarkaðnum. Ekki veit ég hver gleypti hvern en augljóslega er þessu beint gegn google. Nýja leitarvélin heitir bing. Ég prófaði semsagt bing.com og gúglaði (eða bingaði??) sjálfan mig. Hlutirnir raðast öðruvísi þarna en á google.com og eitt það athyglisverðasta sem ég sá var urlið: vefsidurhvergerdinga.blogspot.com. Ég þangað en þekkti eiginlega enga nema sjálfan mig og Bjössa. Á þó eftir að athuga þetta betur enda fróðlegt mjög.

Bankahrunsmálin eru það langalvarlegasta sem komið hefur fyrir þessa þjóð í marga áratugi. Á sama hátt og stjórnmálaflokkarnir hafa leitast við að telja allt sem fer sæmilega í þjóðarbúskapnum vera sér að þakka er eðlilegt að kenna þeim um það sem úskeiðis fór í aðdraganda bankahrunsins. Langstærstan hlut þar á Sjálfstæðisflokkurinn. Næst kemur Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin þar á eftir. Mikið þarf að breytast til að ég kjósi nokkru sinni framar einhvern af þessum flokkum til að fara með stjórn landsmála.

Frá fyrsta degi hefur þar að auki verið haldið afar illa á öllum þeim málum sem hruninu tengjast. Núverandi ríkisstjórn virðist þó vera ívið skárri en þær sem á undan voru. Af þeirri ástæðu einni mundi ég líklega gera ríkisstjórninni það til geðs væri ég Alþingismaður að samþykkja ríkisábyrgðarfrumvarp hennar um Icesave.

 

758- Ritskoðun á Moggablogginu

Það er enginn vafi á því að ritskoðun Moggabloggsins er með vinsælustu umræðuefnunum hér. Ég blogga náttúrulega ekki bara vegna vinsældanna en þær skipta samt talsverðu máli. Fyrirsögnin og byrjunin á blogginu skiptir líka miklu máli, einkum hjá okkur stórhausunum, og upplýsingar um nýjustu bloggin berast líka til bloggvinanna. Þar að auki er ég skráður á blogg-gáttina og þaðan koma hugsanlega einhverjir. 

Í gær bloggaði ég um lokunina hjá DoctorE og það var eins og við manninn mælt. Mun fleiri kíktu á bloggið mitt en venjulega. Ég er nokkuð spenntur fyrir að vita hvernig þessu máli reiðir af. Líklegast er að Moggabloggsmenn komi sínu fram eins og venjulega. Að því gæti þó komið að þeir neyðist til að hlusta á mótmæli bloggverja.

Í mínum huga er augljóst að samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave-samningnum er skilyrði þess að AGS samþykki frekari lán til landsins. Einnig er það svo í hugum margra að það skiptir meginmáli varðandi umsókn landsins í ESB hvort Alþingi samþykkir Icesave-samninginn. Mín trú er að hann verði samþykktur á endanum. Eins og ég hef áður bloggað um eykst þá pressan á Ólaf Ragnar Grímsson. Hann getur neitað að undirrita lögin sem heimila ríkisábyrgðina og ef nógu margir skora á hann að gera það gæti vel hugsast að sú yrði raunin.

Árið 1980 var Norðurlandamótið í skák haldið í Reykjavík. Bjarni sonur minn var þá með mikla skákdellu og ákvað að taka þátt í opnum flokki á mótinu sem fram fór í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Um þetta leyti átti ég heima í Borgarnesi og dvaldi ekki í Reykjavík nema öðru hvoru meðan á mótinu stóð. Bjarna gekk ágætlega í mótinu og náði fimmtíu prósent vinningshlutfalli. Íslendingur einn, ungur að árum stóð sig samt enn betur. Hann hét Arnór Björnsson og vann hverja einustu skák í opna flokknum og varð efstur þar að sjálfsögðu. Dó nokkru seinna í slysi en það er önnur saga.

Í einni umferðinni tefldi Bjarni við Finna nokkurn um fimmtugt og segir lítið af skákinni fyrr en undir lokin að Bjarni hafði kóng, biskup og riddara gegn kóngi Finnans. Eins og flestir vita er alls ekki auðvelt að máta með biskup og riddara og Bjarni hafði aldrei lent í þessu fyrr. Hann leysti þó öll vandamál sem með þurfti yfir borðinu og tókst á endanum að máta eftir langa setu og marga leiki.

 

757- DoctorE bannaður - Sveiattan

Alveg er ég steinhissa á þessu uppnámi útaf jarðskjálftaspánni. Jú, ég heyrði svosem sagt frá þessu og það var einkennilegt hve fjölmiðlar virtust taka þetta alvarlega. Undarlegt var líka að spákonan skyldi koma fram undir nafni. 

Auðvitað tók ég samt ekki hið minnsta mark á þessu frekar en flestir aðrir og er þessvegna hissa á látunum. Svo virðist sem einhverjir hafi beinlínis trúað þessu. Eru Íslendingar virkilega svona auðtrúa? Mér finnst það skelfilegt en verð víst að sætta mig við það. Ef það er að auki satt sem haldið hefur verið fram að sjáandinn sé með þessu að auglýsa „jarðskjálftaheld sumarhús" er þetta orðið enn verra.

Útyfir allan þjófabálk tekur þó að búið sé að loka Moggabloggi DoctorE. Sætti mig ekki við annað en opnað verði á hann aftur. Að vísu las ég bloggið hans ekki reglulega en þar var margt gott að finna og hann lagði oft margt áhugavert til málanna þó hann væri auðvitað einstrengingslegur og orðljótur. Hann virðist þó geta sent inn athugasemdir ennþá eins og Arnar Guðmundsson sem lokað var á um daginn en hve lengi verður það og hversu mikinn áhuga hefur hann á því? Þessu vil ég gjarnan fylgjast með. Lokanir þeirra Moggabloggsmanna eru að verða hættulegar tjáningarfrelsinu. Næst loka þeir sennilega á mig af því ég hallmæli þeim.

Mér skilst að frumvarp hafi verið lagt fram á Alþingi um ráðgefandi stjórnlagaþing sem kosið verði til næsta vor samhliða sveitarstjórnarkosningum. Þessi tillaga er víst runnin sé undan rifjum Samfylkingarfólks og engin furða þó bloggarar finni henni allt til foráttu. Það er samt greinilega hugmynd frumvarpsflytjanda að auðveldara verði að fá Alþingi til að fallast á þessa hugmynd ef stjórnlagaþingið verður aðeins ráðgefandi. Hvers vegna ættu Alþingismenn að framselja vald sitt einhverjum aðila sem þeir vita ekkert um? Ef stjórnlagaþingið kemst á laggirnar og nær góðri samstöðu um breytingar á stjórnarskránni sé ég alls ekki að Alþingi geti komist hjá að samþykkja þær tillögur.

Það er auðvelt að gagnrýna viðstöðulaust og vissulega er núverandi ríkisstjórn ekki yfir gagnrýni hafin. Gallinn er samt að önnur ríkisstjórn mun taka við fari þessi frá. Hafi menn sannfæringu fyrir því að til bóta yrði að skipta um ríkisstjórn á ekki að hika við að vinna að falli þessarar. Ekki þýðir að gefa sér að einhver lakari tæki við því allir möguleikar eru í raun opnir.

Vel er mögulegt að annað ríkisstjórnarmynstur væri betra. Samkomulag í þessari stjórn er ekki eins gott og vera þyrfti. Sumum finnst hún gera ósköp lítið en öðrum alltof mikið. Þarna er vandratað meðalhófið. Alþingiskosningar forðast hún þó greinilega. Stjórnarandstæðingar vilja kosningar. Vafamál er að þær mundu breyta miklu stjórnarandstöðunni í hag. Samt er ekki líklegt að núverandi ríkisstjórn sitji út kjörtímabilið.

 

756 - Um Moggabloggið og fleira

Mér datt allt í einu í hug að hafa bloggið mitt núna einskonar leikrit og þá verða allir sem það lesa að sætta sig við það. Þetta er hugsað sem einhvers konar viðtal sem ég tek við sjálfan mig.

SB-1: „Ég var að hlusta á útvarpið áðan og þar var viðtal við Ásgeir nokkurn Jónsson sem nú hefur gefið út bók á ensku um íslenska bankahrunið."

SB-2: „Man eftir honum."

SB-1: „Já, hann var áður forstöðumaður greiningardeildar (auglýsingadeildar) Kaupþings eða eitthvað þannig."

SB-2: „Umhmm."

SB-1: „Sjálfsagt kann hann sín fræði ágætlega en er samt ákaflega óskýrmæltur og tafsar mikið."

SB-2: „Já."

SB-1: „ Ég er nú svo fordómafullur að ég kann illa við manninn og í mínum augum er hann beinlínis með útrásarvíkings-stimpil á sér."

SB-2: „Samt er þetta eflaust ágætismaður."

SB-1: „Ég efast ekki um það. En mikið lifandis skelfing er ég annars orðinn leiður á þessum Icesave og ESB söng í öllum fjölmiðlum og á flestum bloggum."

SB-2: „Segðu!"

SB-1: „Sjálft bankahrunið og Bjöggana er alveg komið úr tísku að ræða um. Enginn nennir að skrifa lengur um slík mál."

SB-2: „Ég veit það."

SB-1: „Það er búið að skrifa svo mikið um það að allir eru orðnir leiðir á því. Fjölmiðlarnir fara líka alveg eftir okkur bloggurunum. Ef við hættum að skrifa um eitthvað þá hætta þeir líka."

SB-2: „Akkúrat. En hvað gætuð þið eiginlega skrifað um ef til dæmis ekkert bankahrun hefði orðið og ekkert Icesave? Jafnvel ESB hefði legið í láginni."

SB-1: „Við hefðum fundið eitthvað. Flokkapólitík ef ekki hefði viljað betur."

SB-2: „Eða ritskoðun Moggabloggsins."

SB-1: „Já, eða það."

SB-2: „Þetta Moggablogg er nú undarlegur hlutur."

SB-1: „Já, það má nú segja. Ég man eftir að þegar ég var ekki kominn á stórhausalistann að þá þurfti svona 300 til 350 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Ég komst þangað stundum en datt svo kannski af honum aftur."

SB-2: „Já, einmitt."

SB-1: „Svo jukust vinsældirirnar heilmikið og það þurfti svona 500 vikuheimsóknir eða fleiri til að komast á þennan lista."

SB-2: „Passar."

SB-1: „Nú eru það bara svona rúmlega 200 sem koma þér á listann."

SB-2: „Hvar endar þetta eiginlega?"

SB-1: „Svo má ekki einu sinni skrifa um hvað sem er. Það er alltaf verið að bannfæra einhverja."

SB-2: „Gættu þín. Þú gætir lent í bannfæringu."

SB-1: „Iss. Mér er alveg sama. Moggaguðirnir þora sko ekki að skerða hár á hala mínum."

SB-2: „Ha, ertu með hala?"

SB-1: „Auðvitað ekki. Það er bara stundum tekið svona til orða."

SB-2: „Nú, jæja."

SB-1: „En rosalega held ég að það séu margir sem Moggablogga."

SB-2: „Af hverju heldurðu það?"

SB-1: „Minnir að einhver hafi sagt mér það. Svo er líka athyglisvert að skoða hve margir nýjir bætast við á hverjum degi. Einu sinni voru það heilmargir en nú eru það ekki nema fáeinir."

SB-2: „Nú, þú stúderar þetta bara."

SB-1: „Nei, en það er ágætt að fylgjast svolítið með. Veistu annars hvernig þessi stórhausalisti er gerður?"

SB-2: „Ég veit ekki einu sinni hvað þessi stórhausalisti er?"

SB-1: „Það er sama og áttuklúbburinn og stundum er það kallað úrvalsflokkurinn. Það er listi yfir hóp Moggabloggara sem eitthvert forrit velur úr stórhausana átta sem alltaf birtast fyrst ef farið er á Moggabloggið almennt en ekki einhvern ákveðinn bloggara."

SB-2: „Ég skil. En hvað eru margir á þessum lista og hvernig er valið á hann?"

SB-1: „ Mér er sagt að það séu svona 200 á honum. Það eru bara Moggabloggsguðirnir sem velja á hann þá sem þeim líkar við."

SB-2: „Semsagt alls konar spilling og mútur hugsanlegar."

SB-1: „Já, og pólitík jafnvel líka."

SB-2: „Jesús minn!!"

SB-1: „Já, það er von að þér ofbjóði."

SB-2: „Ég hef bara aldrei heyrt annað eins."

 

755- Bloggið bæði hressir og kætir

Ég blogga yfirleitt á hverjum degi. Ekki stendur á því. Þetta hef ég vanið mig á og er minn stíll. Yfirleitt blogga ég ekkert um sjálfan mig enda frá litlu að segja. Ýmislegt slæðist þó með svona í forbifarten og ég veit ekki betur en sumt af mínum ættingjum og venslafólki neyðist til að lesa þetta blogg. Bagalegt getur verið og kjánalegt að vita ekki mest beisik þings um sína nánustu ættingja. Bjarni þurrkaði allt út af sínu Moggabloggi um daginn. Áslaug bloggar að minnsta kosti öðru hvoru á 123.is/asben og ég hérna. Og svo stendur fésbókin auðvitað fyrir sínu, en þangað vil ég helst ekki fara.

Ég legg svolítinn metnað í að skrifa um allt mögulegt. Þeir sem leggja það í vana sinn að lesa bloggið mitt vita aldrei á hverju þeir eiga von. Stundum eru það minningar eða hugleiðingar um málefni dagsins. Stundum eitthvað allt annað. Satt að segja er ég orðinn pínulítið leiður á bankahruns-skrifunum. Þetta eru óttalegir heimsendaspádómar. Því ekki að gleðjast yfir því að vera til? Er til meiri hamingja? Ekki dygði að vera grátandi bæði í svefni og vöku ef maður ætlaði að taka alla heimsins óhamingju inn á sig. Gott ef kæruleysið er ekki bara betra. Því segi ég: Etið, drekkið og verið kát. Kannski verður enginn morgundagur.

Misheyrnir og mismæli geta verið skemmtileg. Um daginn heyrði ég farið með kvæði eða þulu í útvarpinu. Mér heyrðist endilega vera sagt: „Hundurinn ber mig hálfa leið í heimana nýja." Samt hlýtur það að vera vitleysa. Svo sagði Tryggvi Þór Herbertsson í þingræðu um daginn: „Þarna er greinilega verið að kasta augunum í rykið á fólki." Þá hló þingheimur en eftirmál urðu engin enda sárasaklaust að mismæla sig á þennan hátt. Höskuldur Þórhallsson sagði líka eftirminnilega í þingræðu að nauðsynlegt væri að taka einhver mál almennilegum vettlingatökum. Svona eru bara beinar útsendingar.

Og nokkrar myndir:

IMG 3671Frá Grænavatni.

IMG 3682Úr fjörunni við Herdísarvík.

IMG 3700Hvað er þetta eiginlega?

IMG 3704Tóft með Herdísarvík í baksýn.


754- "Þá hlógu allir nema Týr."

Í 34. kafla Gylfaginningar segir svo: „Enn átti Loki fleiri börn. Angurboða heitir gýgur í Jötunheimum. Við henni gat Loki þrjú börn. Eitt var Fenrisúlfur, annað Jörmungandur, það er Miðgarðsormur, þriðja er Hel."

Æsir reyndu að binda Fenrisúlf (sem mér varð einu sinni á í Miðskóla Hveragerðis að kalla Fernisúlf . Þá hló Gunnar Ben sem átti að heita að væri að kenna mér og öðrum íslensku - síðan man ég eftir Fenrisúlfskauða og hef nafnið rétt). Fyrst notuðu þeir snæri nokkurt sem þeir nefndu Læðing. Fenrisúlfur leysti sig auðveldlega úr læðingi. Næst prófuðu þeir mun sterkari fjötur sem þeir kölluðu Dróma. Með harðfylgi tókst Fenrisúlfi að drepa sig úr Dróma.

Nú voru góð ráð dýr svo Alfaðir sendi mann þann er Skírnir hét í Svartálfaheim til dverga þeirra sem þar bjuggu og gerðu þeir fjötur þann sem Gleipnir heitir úr dyn kattarins, skeggi konunnar, rótum bjargsins, sinum bjarnarins, anda fisksins og fugls hráka. Sá fjötur var sterkur mjög og hugðust æsir binda Fenrisúlf með honum. Hann vildi ekki leyfa þeim það nema einhver þeirra legði hönd sína í munn hans að veði að þetta væri falslaust gert. Þeir litu hver á annan og loks lét Týr hendi sína í munn úlfsins. Svo segir í Gylfaginningu: „En er úlfurinn spyrnir, þá harðnaði bandið, og því harðar er hann braust um því skarpara var bandið. Þá hlógu allir nema Týr. Hann lét hönd sína."

Margt fróðlegt og skemmtilegt er að finna í Gylfaginninu. Í einum kaflanum þar er til dæmis útskýrt hvers vegna jarðskálftar verða og þó sú skýring sé ekki strangvísindaleg er hún skemmtileg. Það er aftur á móti önnur saga og verður ekki sögð hér og nú.

Einu sinni orti ég:

Jörmungandur japlar mélin.
Járnin bryður ótt og títt.
Innst í brjósti urgar vélin.
Ólmast faxið mjúkt og sítt.

Gneistar fljúga úr spyrntu spori
splundrast grjót og rignir mold.
Endi heims á atómvori.
Eldar brenna og sekkur fold.

Um tilurð þessara vísna og merkingu þeirra ritaði ég svo nokkru seinna langa ritgerð sem nú er týnd. Þegar ég orti þetta hélt ég að Jörmungandur væri hestur en svo er víst ekki.

Í lokin eru svo fáeinar myndir.

IMG 3655Hluti af hverasvæðinu í Krýsuvík.

IMG 3668Frá Krýsuvík.

IMG 3670Frá Grænavatni.

IMG 3679Herdísarvík.


753- Icesave, Icesave, Icesave

Ríkisstjórnin sem sat hér á landi þegar bankakreppan skall á síðastliðið haust gerði flest rangt. Alþingi var afvegaleitt þegar það var skikkað til að samþykkja svokölluð neyðarlög. Vegna þeirra afglapa sem fólgin eru í neyðarlögunum sitjum við nú uppi með Icesave-samninginn. 

Ríkisstjórnin henti líka peningum í vonlausar aðgerðir Seðlabankans og í að kaupa hlutabréf út úr peningasjóðunum. Að undirlagi útrásarvíkinga hafði almenningi verið talin trú um að eins gott væri að setja peningana sína í peningasjóði eins og á venjulega innlánsreikninga. Þetta reyndist auðvitað tóm vitleysa.

Þessi mál öll sömul eru svo sorgleg að engu tali tekur. Nauðsynlegt er samt að koma sér útúr þessum fjára. Verði sú raunin að hægt sé að fresta verulega samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave-samningnum er ég svo sannarlega samþykkur því. Ég er líka samþykkur því að skárra sé að hafa núverandi ríkisstjórn enn um sinn en að hleypa Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki aftur að stjórn ríkisins. Samfylkingin er skárri þó slæm sé.

Ekki er ég sáttur við það sem mitt fólk í Borgarahreyfingunni er að gera. Við því er varla að búast. Alþingismenn geta aldrei gert öllum til hæfis og eiga ekki að reyna það.

Fyrir okkur sem bloggum og fimbulfömbum um allt mögulegt er ákaflega auðvelt að vera á móti Icesave. Alþingismenn hafa ekki slíkan lúxus. Nú er ekki eins og þeir geti samþykkt það sem þeir eru í hjarta sínu á móti því þetta er endanlegt. Þeir sem sitja hjá í Icesave málinu eru aumingjar. Erfitt er að taka ákvörðun. Ríkisstjórnin hlýtur að gera sér grein fyrir að þjóðin er mótfallin því að vera leidd á höggstokkinn mótmælalaust.

Sjálfum finnst mér svo mjög hafa skort á fullar upplýsingar um allar hliðar málsins að einboðið sé að fella ósköpin. Hvað þá tekur við er ómögulegt að segja. Eftir atkvæðagreiðsluna um Icesave kemur algjört antiklimax hjá Alþingismönnum. Allt verður einfalt, auðskilið og lítilvægt.

Á endanum verður Icesave-frumvarpið samþykkt. Andstæðingar þess hafa með hávaða sínum þjappað stuðningsmönnunum þess og ríkisstjórnarinnar saman. Þeir sem eru á móti Icesave eru ef til vill að stuðla að falli hennar.


752 - ESB - Kjarval - Ekkert um Icesave

Það er erfitt að skrifa æsingalaust um ESB-málið. Það mun kljúfa þjóðina enda ekki skrítið. Afdrifaríkt er málið mjög. Fylgi við umsókn var á Alþingi. Þó vel megi halda því fram að einhverjir þingmenn vinstri grænna hafi í raun verið á móti aðild þó þeir hafi greitt atkvæði með frumvarpinu þá átti slíkt ekki síður við um ýmsa aðra þingmenn með öfugum formerkjum. 

Æskilegt væri að fá fljótlega skoðanankönnun þar sem í ljós kæmi hve mikill hluti landsmanna styður í raun aðild að bandalaginu. Líklegt er að þjóðin skiptist í þrjá nokkuð jafna hluta. Einn þriðji vilji bíða og sjá hvað kemur út úr samningaviðræðum. Þriðji hlutinn sé hlynntur aðild en mismunandi mikið þó. Afgangurinn sé þá andvígur aðild af ýmsum orsökum.

Eflaust munu hlutföllin breytast þegar aðildarviðræðum er lokið og samningur er fyrirliggjandi. Mikilvægt er að þeir sem undir lenda í þeirri atkvæðagreiðslu, sem í kjölfarið mun fylgja, sætti sig bærilega við úrslitin.

Dropinn holar steininn. Margir eru farnir að trúa Ingimundi Kjarval um þjófnað Reykjavíkurborgar á því sem Jóhannes Sveinsson Kjarval lét eftir sig. Kjarval er viðurkenndur sem einn merkasti listamaður landsins og teikningar hans og skissur allar eru örugglega mikils virði. Reykjavíkurborg hefur slegið eign sinni á það allt og segir hann hafa ánafnað sér því. Erfingjar hans hafa ekki fengið neitt. Ingimundur Kjarval sem búsettur er í Bandaríkjunum hefur verið óþreytandi við að kynna málstað erfingjanna undanfarin ár og örugglega eru margir sem taka mark á honum. Málaferli eru í gangi en ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðan þar er núna.


751- Ekki má nú mikið

Búið er að loka bloggi Arnars Guðmundssonar hér á Moggablogginu. Hann var nokkrum sinnum búinn að kommenta hjá mér og ég skildi ekki kommentin hans almennilega. Þau voru samt stutt og trufluðu mig ekki mikið. Sá samskonar komment frá honum annarsstaðar líka og líklega hefur verið kvartað undan honum. 

ESB-umsóknin er sannkallað jarðsprengjusvæði. Hér er partur úr kommenti sem kom í kommentakerfið mitt:

Og það er vegna þess að það er sótt um ESB aðild án þess að spyrja þjóðina og sennilega líka í trássi við meirihluta þjóðarinnar, sem alls ekki vill ESB aðild. 

Fyrir stóran hluta okkar andstæðinga ESB aðildar snýst þetta ekki bara um hagsmuni heldur einnig tilfinningar.

Þess vegna er búið að setja eitraðan flein í hold þjóðarinnar og skipta henni uppí andstæðar fylkingar sem munu takast á.

Einmitt nú þegar helst hefði þurft að sameina þjóðina meðan við í sameiningu ynnum okkur útúr erfiðleikunum.

Ábyrgð þeirra 33ja íslendinga sem tóku þá ákvörðun að reka þennan eitraða ESB flein í hold þjóðarinnar er því mikil og enn meiri vegna þess að þeir höfnuðu því að þjóðin yrði fyrst spurð álits. 

Þetta er dæmi um það sem mér finnst vera óþarflega stóryrtar yfirlýsingar í þessu máli og fullyrðingar út í bláinn. Axel Þór Kolbeinsson segir að þetta eigi eflaust eftir að versna. Það er líklegt. Sjálfur hef ég ekki gætt mín nógu vel í þessu efni og egnt menn að óþörfu. Ég hef þó áður sagt að eins og ESB-málið blasir við mér núna er ég fremur hlynntur aðild. Það er þó engan vegin víst að svo verði eftir að samningur er kynntur.

Icesave er svo annað mál. Þar eru hlutir að verða svo heitir að best er að segja sem allra minnst.

Og nokkrar myndir.

IMG 3717Skófir á steini.

IMG 3739Leiðin niður í Arnarker.

IMG 3746Nei, þetta er of hættulegt.

IMG 3753Hér stöndum við og getum ekki annað. Náttúran er ekki hliðholl fíflum og kannski er fíflalegt að vera að flækjast hér.


750- Icesave og fleira

Nú fer að líða að því að ríkisábyrgðin á Icesave-samkomulaginu komi til afgreiðslu Alþingis. Ómögulegt er að segja til um úrslit þess máls. Sumt af ágreiningnum um þessi mál kemur til af mismunandi skilningi á orðalagi í samningnum sjálfum. Þetta ætti þingnefnd að geta lagað og sett um það fyrirvara í ríkisábyrgðarfrumvarpið. Nóg er fyrir þingmenn að meta hvort sé skárra að samþykkja samninginn eins og hann er eða samþykkja hann ekki. Hjáseta kemur varla til greina. Örlög ríkisstjórnarinnar kunna líka að ráðast af þessu máli.

Síðasta færsla mín um rökræður og kappræður vakti nokkra athygli. Mikið af ESB-umræðunni er fram úr hófi ómálefnalegt. Ómerkilegt persónulegt skítkast.

Nútíminn er skrýtin skepna. Ég man að þegar tölvuúrin komu fyrst á markað þótti rammflókið að stilla þau. Nú er enginn krakki svo vitlaus að hann geti ekki stillt (og vanstillt) öll rafeindatæki heimilisins.

Á sínum tíma kunni ég ágætlega mitt DOS. Svo kom Windows og ruglaði allt. Windows eitt eða tvö sá ég einhverntíma og þótti ekki merkilegt forrit. Þriðja útgáfan yfirtók svo allt en var alltaf að frjósa. Það sem ég kann í Windows er aðallega til komið með mjög ómarkvissum tilraunum. Alltaf verð ég samt að láta eins og ég skilji allan fjandann í tölvumálum því öðru er varla trúað. Umræða um stýrikerfi verður oft dálítið þreytandi. Einu sinni hafði ég mikinn áhuga á deilunum um Pésa og Makka en ekki lengur.

„Tvípeð er ekki tvípeð nema stakt sé," gæti Benóný Benediktsson hafa sagt. Hann var engum líkur. Að sjá hann ferðast um miðbæinn á hjólinu sínu eða skipta um peru fyrir ofan borðið sem hann átti að tefla við á alþjóðlegu skákmóti er ógleymanlegt. Ég man líka eftir honum þegar hann var að stríða strákunum sem voru að tefla við hann í MÍR-salnum við Þingholtsstræti með allskyns furðulegum fullyrðingum um skák. Því minnist ég á þetta að ég er um þessar mundir að lesa bókina um þennan mikla meistara.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband