1264 - "Það er verið að flytja Heklu"

Merkilegt að sjá að Kaupfélagshúsið í Borgarnesi skuli vera á nauðungaruppboði og kallað gamla Kaupfélagshúsið. Þegar ég vann í þessu húsi var allt annað hús kallað „Gamla Kaupfélagið" . Ég hefði vel getað fallist á að skemman á horninu á móti Alþýðubandalagshúsinu (sem heitir víst eitthvað allt annað núna) væri gömul. En ekki Kaupfélagshúsið sjálft.

Sé að þessi bloggárátta mín er ekki nægilega mikil til að blogga að jafnaði tvívegis á sólarhring. Best að sætta sig við að vera „Miðnæturbloggari" og gera það almennilega.

Á margan hátt er það einkennilegt að Framsóknarflokkurinn skuli ekki ná neinni pólitískri viðspyrnu. Þar á bæ hefur samt margt verið gert til að reyna að auka vinsældir flokksins. Skipt var um forystu og yngt talsvert upp. Núverandi ríkisstjórn komst á laggirnar fyrir tilverknað flokksins og þannig mætti lengi telja. Samt eru vinsældir flokksins ekki að aukast í kosningum eða skoðanakönnunum.

Í skoðanakönnunum hefur ríkisstjórnin enn uppundir fjörutíu prósent stuðning. Það er mikið hvað sem hver segir. Þó er útlit fyrir að til tíðinda dragi áður en kjörtímabilinu lýkur. ESB-málið er svo eldfimt að ríkisstjórnin getur hæglega sprungið á því. Kannski er útspil Bjarna Benediktssonar núna einmitt af því tagi sem það er vegna komandi óvissu í því máli.

Skrifaði um daginn blogg um Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins. Auk þess að fá talsvert margar heimsóknir í framhaldi af því spunnust einnig nokkrar umræður í athugasemdum þar við Gunnar Gunnarsson bloggara og leigubílstjóra frá Reyðarfirði. Þetta er einskonar fésbókarumræða og ég bendi bara á hana vegna þess að umræður af þessu tagi fara oft framhjá fólki. Sérstakar athugasemdir berast held ég bara til þeirra sem taka þátt. Hugsanlega er það sama að segja um fésbókina.

Að sumu leyti er ég búinn að skipta um skoðun í Icesave-málinu. Ég er enn hlynntur því að semja um þetta mál. Þeir sem samningaleiðina vilja fara hafa þó hrakist úr hverri varnarstöðunni eftir aðra. Það að Bjarni Benediktsson skuli nú allt í einu vilja semja sannfærir mig bara um að stjórnmálaforingjar vilja halda áfram að ráða sem flestu hér á landi eins og þeir hafa löngum gert.

Lagarökin sem andstæðingar samkomulagsins benda á eru um sumt sannfærandi. Ekki er þó víst að hugsanlegur dómur (hvaða dómur?) verði eingöngu byggður á lagarökum. Málstaður andstæðinga samkomulagsins hefur unnið á með tímanum og heldur hugsanlega áfram að gera það. Þó held ég að málaferli yrðu Íslendingum óhagstæð mjög og biðin eftir úrslitum einnig.

Svo virðist sem andstæðingar Icesave ætli að einbeita sér að því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Slíkt er skiljanlegt í ljósi forsögunnar. Útlit er fyrir að sem fyrr þurfi atbeina forseta landsins til slíks.

Öllum getur misskjátlast eins og segir í frægum málshætti.

Á sínum tíma og fyrir löngu síðan var hagyrðinga og spurningaþáttur í útvarpinu undir stjórn Sveins Ásgeirssonar. Hagyrðingar sem ég man eftir úr þeim þáttum eru: Helgi Sæmundsson, Steinn Steinarr og Karl Ísfeld. Af einhverjum ástæðum er mér einn botn úr þessum þáttum minnisstæðari en aðrir. Held að Helgi Sæmundsson hafi ort hann. Fyrripartinn man ég ekki. Seinni parturinn var svona:

Flöskustút ég fitla við
sem fékkst á rútubílastöð.

Það er ekki vegna þess hve góður þessi botn er sem mér er hann svona minnisstæður. Miklu fremur þvert á móti.

Öðru atriði úr þessum þáttum man ég einnig eftir. Sá þáttur var tekinn upp á Selfossi:

Sveinn: „Er Hekla í Árnessýslu?"

Svar: „Já."

Sveinn: „Rétt."

Órói í salnum. Sveinn spyr með þjósti: „Hvað gengur á?"

Rödd úr salnum: „Það er verið að flytja Heklu."

IMG 4183Sólin að sökkva.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf jafn gaman að lesa það sem þú skrifar, Sæmundur skólabróðir. Tíminn líður og allt breytist, í Borgarnesi eins og annarsstaðar. Það ber ekki mikið á kaupfélaginu, en samt er það til og hefur aðsetur það best ég veit í nýlegu húsi skammt frá Húsasmiðjunni, upp undir vegamótum Snæfellsnessvegar. Man ekki hverjir keyptu húsið niðurfrá, sem var aðal aðsetur þess þegar við vorum yngri. Svo var húsið Hyrnutorg byggt, en þar voru og eru fleiri eignaraðilar og þar verslar nú meðal annarra Samkaup, en KB er meðal hluthafa í því fyrirtæki. Samkaup er eiginlega í mínum huga það sem eftir er af svokallaðri Samvinnuhreyfingu, sem var umsvifamikil í íslensku viðskiptalífi þegar við vorum á Bifröst.

Ellismellur 8.2.2011 kl. 05:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þegar ég var á Biröst komu fyrri nemendur stundum í heimsókn (1. des.) Man hvað mér þótti það hrumt og gamalt fólk sem ég sá þegar 50 ára nemendur komu þangað. Í vor verða 50 ár síðan ég útskrifaðist.

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2011 kl. 08:13

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Sæll Sæmundur og velkominn heim.

Ég hef einmitt velt fyrir mér fylgi Framsóknarflokksins og tel að það sem flokkurinn glími við sé vantraust á eldri þingmenn og svo saga flokksins.  Áður en flokkurinn fer eitthvað að bæta við sig í fylgi þarf að klára tiltektina (eða láta það líta þannig út) og hanga á 10% - 15% fylgi út þennan áratug.

Axel Þór Kolbeinsson, 8.2.2011 kl. 09:13

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Axel fylgi eða fylgisleysi Framsóknarflokksins er áhugavert. Sagan og forystan held ég að skipti höfuðmáli. Einnig hvernig aðrir flokkar fjalla um hann. Hrunið nýafstaðna hefur líka breytt öllum viðmiðunum.

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2011 kl. 09:47

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmi, þú gætir alveg startað hér hagyrðingabloggi ef þú héngir ekki svona mikið á fésbókinni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.2.2011 kl. 11:59

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, eða þú. Ég veit um nokkra bloggara sem eru miklu betri hagyrðingar en ég. Dettur t.d. í hug Gísli Ásgeirsson, Hallmundur Kristinsson og Jón Ingvar Jónsson. Jón er líka með vefinn: heimskringla.net og svo er mikið af vísum á vísnavef Héraðsskjalasafns Skagafjarðar (skagafjordur.is). Sjálfur er ég svo með visur7.blog.is hér á Moggablogginu en sinni því lítt. 

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2011 kl. 15:49

7 identicon

Af hverju er búið að loka á Jóhannes vin okkar?

Ólafur Sveinsson 8.2.2011 kl. 16:09

8 identicon

Úff!!!!!!!!!!!!

Ólafur Sveinsson 8.2.2011 kl. 17:35

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ha? Hvaða Jóhannes ertu að tala um. Ég kemst alveg inn á bloggið hans Jóhannesar Laxdal Baldvinssonar.

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2011 kl. 19:33

10 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Ég gerðist sekur um úðrun, sjá hér  Því hefur vonandi verið kippt í lag.

Sæmi, ég vissi ekki um síðuna heimskringla.net, takk fyrir hlekkinn. Með hagyrðingabloggi átti ég við blogg þar sem skilyrt yrði að athugasemdir væru aðeins leyfðar í bundnu máli. Svoleiðis kveðskapur finnst mér langskemmtilegastur.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.2.2011 kl. 20:22

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér líst vel á þessa hugmynd. Innleggin ættu líklega líka að vera í bundnu máli. Var eitt sinn á póstlistanum "leir" og flestir líka sem ég taldi upp áðan. Arnþór Helgason líka, man ég núna. Jón Ingvar er mikill snillingur. Kannski ætti hann að sjá um síðuna og kannski er Moggabloggið ekki rétti staðurinn fyrir hana. Ef ljóðað er á mig reyni ég að svara í bundnu máli. Tekst stundum bærilega.

Sæmundur Bjarnason, 8.2.2011 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband