Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

1315 - Stríð og friður

Undarleg sótt þessi bloggsótt. Þegar ég vakna á morgnana er ég ekki í rónni fyrr en ég er svolítið byrjaður á næsta bloggi. Það sem ég á skrifað þegar kvöld er komið set ég svo gjarnan upp rétt eftir miðnætti, ef ég nenni að vaka svo lengi.  

Sú dýrkun á ofbeldi sem einkennir ameríska menningu kemur vel fram í kvikmyndum þeirra og nú í stríðsrekstri vestrænna þjóða í Líbýu. Tek samt alls ekki undir með hörðustu gagnrýnendum Líbýustríðsins og trúi því einfaldlega ekki að herir bandamanna drepi saklaust fólk viljandi hvort sem þeir eru undir stjórn Bandaríkjanna eða NATO.

Hins vegar er tekið mark á því sem sagt er og vilji til að allir geri það. Gallinn er bara sá að svo margt er sagt og misjafnt hvernig það er túlkað. En tölum ekki meira um það.

Uppreisnarmenn í Líbýu og stuðningsmenn Gaddafi sem hamast við að drepa hvorir aðra vilja það í rauninni alls ekki. Þeir eru bara fórnarlömb aðstæðna. Hverjir hafa skapað þessar aðstæður? Um það vilja menn gjarnan vera ósammála og fer það einkum eftir stjórnmálaskoðunum hvaða skoðun menn aðhyllast í því efni.

Það er samt einfeldningsleg skýring því þegar svona er komið eru mál gjarnan orðin svo flókin að venjulegt fólk getur alls ekki myndað sér skoðun á þeim málefnum sem deilt er um. Veit heldur alls ekki allt sem þarf að vita til þess.

Sem betur fer er engin hætta á stríðsátökun útaf Icesave. Hátt hafa menn þó og deila hart. Ef nóg væri hér til af öflugum vopnum væri hugsanlega einhver hætta á að gripið yrði til þeirra.

Í mínum huga er vopnleysi Íslands og þýðingarleysi þess í heimsátökum einn helsti kostur þess. Ekki hið margrómaða hreina loft, óviðjafnanlega fegurð og sögurnar sjálfar. En enginn ræður sínum næturstað og væri ég Líbýumaður væri ég eflaust búinn að taka afstöðu í þeim málum sem deilt er um þar. Jafnvel stuðningsmaður Gaddafis ef ég teldi meiri líkur á að ég héldi lífi þannig.

Þegar kalda stríðið stóð sem hæst var því almennt trúað að Ísland gæti komið til með að gegna verulegu hlutverki í stríði ef það brytist út. Nú hafa aðstæður breyst og fáir trúa á hernaðarmikilvægi landsins. „Sem er mjög gott", eins og sagt er.

IMG 5042Reisulegt hús á Akranesi.


1314 - Icesave og leikfimi

Sé ekki að Bjarni Benediktsson slái sér upp á því að tala um Líbýu. Aðkoma Íslands að því sem þar gerist er ekki á neinn hátt lík aðkomu Íslands að Íraksstríðinu. Í fyrsta lagi er það í gegnum Nato en ekki þjónkun við Bandaríkin. Í öðru lagi er það einnig í samræmi við samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna og í þriðja lagi eru Íslendingar bara örþjóð og ráða engu um alþjóðastjórnmál. 

Nei, ég held að Bjarna væri nær að einbeita sér að Icesave. Á margan hátt er hann búinn að koma sér í þá stöðu að hann tapar manna mest á nei-i. Bjarni segir samt heldur fátt þessa dagana um málið.

Hlusta stundum á Útvarp Sögu. Einkum á Pétur Gunnlaugsson. Hann er vel að sér um marga hluti. Mjög áheyrilegur þó hann sé með mikla Glistrup komplexa og telji sjálfum sér trú um að Útvarp Saga sé mjög áhrifamikil. Verst að það skuli næstum alltaf vera þeir sömu sem hringja í hann og sumir þeirra eru hálfleiðinlegir. Reyndar hefur Útvarpi Sögu farið fram að undanförnu og eflaust hlusta margir frekar á hana en tónlistarsíbyljuna.

Stjórnlagaráðið virðist ætla að fara vel af stað. Að ekki skuli fleiri hafa gengið úr skaftinu er til bóta. Vonandi tekst þeim að koma með eitthvað bitastætt.

Pólitísku þrefi lokið.

Las í gær frásögn Hörpu Hreinsdóttur um leikfimikennslu á Laugarvatni. Upplifum mín af leikfimikennslu þónokkru fyrr (líklega 1953 - 1957) var á margan hátt svipuð. Þó var Hjörtur leikfimikennari skemmtilegur og kenndi ýmislegt annað en leikfimi og sund og fórst það vel úr hendi. Leikfimitímarnir voru samt næstum eintóm þjáning.

Ef okkur gekk vel að komast í gegnum æfingarnar fengum við stundum að fara í leiki síðari hluta tímans. Aðallega höfðingjaleik svokallaðan sem mér skilst að sé líkur því sem kallað er brennó núna.

Smíðin var líka óttalega leiðinleg. Mest vegna þess að ég koma aldrei neinu í verk. Benedikt Elvar kenndi a.m.k. einn vetur. Hann var dálítið drykkfelldur minnir mig. Einhvertíma bundu strákarnir hann víst við hefilbekkinn. Annars var talsvert af vélum í smíðasalnum, sem reyndar var beint undir leikfimisalnum og jafnstór.  Þann vetur sem Benedikt Elvar var notaði ég aðallega til að saga út hjól sem við (Ásgeir Jónsson og fleiri) notuðum á bílana okkar.

Þó mér leiddist í leikfimi og væri lélegur þar var sundið miklu betra. Eiginlega bara alveg ágætt. Enda var ég þar með þeim bestu. Kunni vel að synda og þurfti lítið sem ekkert að fara í gegnum allar þessar heimskulegu æfingar með sundtökin. Man ekki eftir að hafa verið kennt neitt að taka þau. Buslaði bara einhvern vegin og mest í kafi til að byrja með, en komst fljótlega uppá lag með að láta mig fljóta við yfirborðið. Gat samt vel synt í kafi ef því var að skipta.

IMG 5031Hér er sérstakur útbúnaður fyrir þá sem vilja kasta sér í sjóinn. Eins og sjá má er búið að fjarlægja björgunarhringinn. Lokað á kvöldin.


1313 - Andrés Önd og Icesave

Þetta blogg er númer 1313 og það hefði einhverntíma verið álitið ógott. Svo var einu sinni til bakteríudrepandi handsápa með þessu nafni og það þótti ágætur brandari að spyrja menn hvort þeir virkilega þyrðu að nota þessa sápu.

Í sambandi við þetta númer man ég líka að bíllinn hans Andrésar Andar er númer 313. Líka var bíllinn hans Skúla pabba hans Sigurjóns Skúlasonar með þetta númer. X 313 held ég áreiðanlega. Sigurjón seldi mér glósubækurnar sínar og fleiri bækur sem hann hafði notað á Bifröst þegar ég hóf nám þar. Hann var semsagt einum bekk á undan mér.

En því skyldi ég vera að rifja eitthvað gamalt upp? Bara af því að það er gamalt, eða hvað? Bloggaraháttur er að andskotast útaf bankahruninu jafnvel þó nokkuð sé umliðið síðan það var. Skynsamlegast er samt að lifa sem mest í núinu og framtíðinni. Auðvitað eiga samt margir erfitt með það. Fjárhagsáhyggjur plaga marga. Allskyns aðrar áhyggjur einnig. Geðheilbrigðisins vegna er auðvitað betra að varpa áhyggjuklafanum af sér öðru hvoru. Nú virðist vera ágætt tækifæri til þess. Snjórinn að mestu farinn og frostið.

Icesave-andstæðingar hafa óvenju hátt núna og hrópa „Heimsyfirráð eða dauði", svona til tilbreytingar frá landráðatalinu. Ég get ekki að því gert en mér finnst nei-menn vera öfgafyllri en já-menn. Með því að segja já er ekki verið að liðsinna útrásarvíkingum, bönkum, skilanefndum og öðrum þeim sem bersýnilega stefna að því að gera allt sem líkast því sem hér var fyrir hrun til að geta svo haldið spillingunni og sjálftökunni áfram.

Allsekki. En til að geta haldið lífinu áfram og stuðla jafnvel að framförum er betra að lifa í sæmilegri sátt við nágranna sína en að vera í stöðugu stríði við þá. Þjóðerni skiptir litlu sem engu máli. Bretar og Hollendingar eru allsekki verri en aðrir. Stjórnir geta haft mismunandi mismunandi pólitíska stefnu en vilja yfirleitt vel. A.m.k. eigin löndum. Alltaf er hægt að finna eitthvað til að vera óánægður með.

Komst ekki á bloggið í gærkvöldi en nú virðist allt í lagi.

IMG 5024Gangnamunni.


1312 - Lýðræðisbylgjan í Norður-Afríku og Miðausturlöndum

Er að reyna að venja mig af þessu bloggstandi en gengur illa. Finnst að ég þurfi að blogga, sem er auðvitað tóm vitleysa.

Lýðræðisbylgjan sem nú fer um Norður-Afríku og Miðausturlönd er á margan hátt sambærileg við það sem skeði árið 1989 eða svo í Austur-Evrópu þegar þjóðirnar þar brutust undan járnhæl kommúnismans. Hlutirnir gerast hratt og sófaspekingar hafa rangt fyrir sér um flesta hluti. Spá samt um framvinduna eins og brjálaðir menn.

Sjálfur er ég ekki laus við þetta og reikna með margra mánaða pattstöðu í Líbýu. Stríðið þar er í mínum augum einskonar leiksýning fyrir færanlegt fjölmiðlaþorp tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Áróðursstríð er það fremur en nokkuð annað og að venjulegt fólk skuli þurfa að láta lífið fyrir svona lagað er þyngra en tárum taki. Skárra samt en að brjálaður fjöldamorðingi leiki lausum hala og þykist stjórna öllu. Aðdragandi þessa stríðs er á margan hátt líkur aðdraganda Kuwait-stríðsins á tíunda áratug síðustu aldar, nema ekki er um innrás í annað ríki að ræða.

Sé í Fréttatímanum (eina blaðinu sem ég fletti reglulega - enda er það ókeypis og kemur bara út vikulega) að tíu dómsmál gegn DV eru í gangi. Finnst það frekar hraustleikamerki en hitt. Ekki er þó víst að fjöldatölur af þessu tagi segi mikla sögu. DV reynir að berjast gegn útrásarvíkingunum meðan sum önnur blöð styðja þá greinilega eftir mætti.

Fréttabloggi lokið en þó ekki. Sá einhvers staðar um daginn að Steini spil væri dáinn. Man vel eftir hljómsveit Óskars Guðmundssonar sem hann var í þegar ég sótti sveitaböllin með sem mestum áhuga. Þá var það aðalhljómsveitin a.m.k. á Suðurlandi.

Þó ég hugleiði og hugleiði alveg undir drep er ég ekki ennþá búinn að komast að niðurstöðu um hvort ég segi nei eða já í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ætli ég jánki samt ekki því sem þar er spurt um. Svo gæti alltaf skeð að ég skipti um skoðun.

IMG 5028Háskólinn í Reykjavík.


1311 - Jón Sigurðsson

Bara (eða a.m.k. aðallega) vegna þess að fyrirsögnin hjá mér í fyrradag var nafn (að vísu nokkuð frægt) fékk ég mun fleiri heimsóknir en vanalega. Ég er að hugsa um að láta þetta blogg heita Jón Sigurðsson.

Sumir bloggarar hamast við að svarthvítta allt sem þeir skrifa um og sjá hlutina sjaldan í réttu ljósi. Með því að segja við alla (sjálfa sig líka) að annaðhvort verði að gera hlutina svona eða hinsegin lenda þeir fljótlega í tómu tjóni. Flest mál hafa nefnilega margar hliðar en stundum verður samt að velja á milli tveggja möguleika.

Icesave-andstæðingar hafa t.d. alls ekki rangt fyrir sér að öllu leyti. Ekki verður þó hjá því komist að segja annað hvort já eða nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem nálgast nú óðfluga. Aumingjalegt verður að sitja þá heima eða gera atkvæði sitt ógilt.

Annars dettur mér í hug að Bjarni Benediktsson tapi líklega meiru í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu en margir stjórnmálamenn aðrir hvernig sem hún fer. Skoðanakannanir benda nefnilega til að fleiri sjálfstæðismenn fylgi Davíð en Bjarna í Icesave-málinu. Auðvitað setur ríkisstjórnin talsvert ofan ef nei-menn sigra. Á samt ekki von á að hún segi af sér ef svo fer.

Hundleiðist að skrifa um stjórnmál. Það er samt mjög auðvelt því þau eru svo síbreytileg. Auðvitað gæti ég svosem skrifað um Líbýu-málið eða ástandið í Miðausturlöndum yfirleitt en þori varla að hætta mér í slíkt því ekki er að vita nema Villi í Köben rjúki upp. Hann þykist allt vita og sérstaklega þó um Ísraelsmenn og Miðausturlönd. Annars virðast Ísraelsmenn hafa verið fremur spakir að undanförnu og vinstri menn hafa lítið á þá minnst. En mér leiðast fréttablogg líka. Um hvern þremilinn á ég þá að skrifa? Sennilega skrifa ég alltof mikið og alltof oft. Stundum finnst mér samt að ég skrifi of lítið.  

Um þessar mundir er ég að lesa bókina „Sál og mál" sem er safn greina eftir Þorstein Gylfason. Þorsteinn hefur verið afar skarpur penni. Hann minnist meðal annars á bókina „Mannbætur" eftir Steingrím Arason. Ég man að þá bók sá ég einhvers staðar á bókasafni fyrir margt löngu. Nú er hún eflaust raritet mikið og lesin af fáum. Nasistarnir í Þýskalandi komu miklu óorði á það sem þar er rætt um.

Víða um lönd tíðkuðust þó vananir og afkynjanir hverskonar um og fyrir miðbik síðustu aldar. Flestir skammast sín auðvitað fyrir slíkt núna. Þorsteinn telur að þær mannlegu kynbætur sem rætt var um og reynt að framfylgja víða og mælingarárátta  sú sem einkenni greindarvísitölustaglið og raunar öll félagsvísindi og sérstaklega sálfræði valdi meðal annars þjóðrembu þeirri og kynþáttafordómum sem tröllríða öllu uppeldisstarfi. Börnin séu nefnilega varnarlaus gagnvart okkur fullorðna fólkinu.

Fésbókin er ruslasöfnunartæki. Hef tekið eftir því að fésbókartakkar birtast núorðið út um allt. Varast ber að ýta á slík tól. Mér sýnist að þau valdi því að heilu greinarnar (eða linkar á þær), myndir og allt mögulegt fari rakleiðis á fésbókina (hvað eftir annað þessvegna) eins og nóg sé ekki af slíku þar fyrir.

Fésbókin er reyndar lík blogginu að mörgu leyti og virðist hafa tekið við hlutverki þess. Býður líka upp á mun fleiri möguleika og sumir nýta sér þá en aðrir eru greinilega með öllu hættir að fara á fésbókina. Augljós galli er að eiga marga fésbókarvini því þeir virðast ekki mega hreyfa sig án þess að þú fáir tilkynningu um það. Ef þú ferð svo sjálfur að tjá þig með eigin veggjaskrifum eða athugasemdum við annarra þá er fjandinn laus.

Steini Briem aka* Oliver Twist virðist hafa verið með fyrstu mönnum hér á landi til að átta sig á hinu raunverulega eðli fésbókarinnar. Hann á nærri 5000 fésbókarvini og klikkar greinilega á alla fésbókartakka sem hann sér en nennir ekkert að blogga núna þó hann sé undrabarn. Athugasemdast kannski einhvers staðar en ekki hjá mér. Jónas Kristjánsson er duglegur við að vísa á sitt blogg á fésbókinni en takmarkar sig að mestu við það og þau umræðuefni sem þar eru.

Eitt sinn las ég frásögn úr frelsisstríði Bandaríkjanna (frekar en þrælastríðinu) þar sem andstæðir herir höfðu komið sér fyrir á sitthvorum enda allstórrar grasflatar í undirbúningi bardaga. Áhorfendur komu sér fyrir til hliðar og svo hófst bardaginn og menn voru drepnir með miklum tilþrifum.

Sjálfur horfi ég oft þessa dagana á útsendingar frá Líbýustríðinu á Sky News eða CNN og fæ óneitanlega oft þá tilfinningu að ég sé áhorfandi af sama tagi og þeir sem komu sér vel fyrir við grasflötina í Bandaríkjunum undir lok átjándu aldar. Ógeð er eina orðið sem getur lýst þessu.

*aka = also known as

IMG 5021Leiktæki.


1310 - Um drauma og fleira

Nú er ég nývaknaður eftir að hafa verið andvaka í nótt. Klukkan er að verða níu og ég sé að talan á Moggabloggsteljaranum mínum er að nálgast hundrað sem er frekar mikið.

Greidd voru atkvæði um stjórnlagaráðið á alþingi í gær. Ekki gekk það andskotalaust en hafðist þó. Umboð þess er auðvitað allt annan en það hefði orðið án afskipta hæstaréttar. Vona samt að vel gangi og niðurstaða þess þarf ekkert að verða önnur en hún hefði annars orðið. Finnst samt eins og ég hef áður sagt að betra hefði verið að kjósa aftur. Hér er samt um ásættanlega útkomu að ræða.

Þetta með að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna áður en hún er lögð fyrir alþingi er þó í hæpnara lagi eftir það sem á undan er gengið. Fer samt allt eftir því hvernig stemmningin verður í þjóðfélaginu.

Sú gæti að lokum orðið raunin að neyðarlögin svokölluðu verði það sem bjargar okkur í kreppuþrengingunum öllum. Málaferli standa nú yfir um þau og er Ragnar Aðalsteinsson, sú alþýðuhetja, þar að berjast við að fá þau dæmd ógild. Hann starfar í umboði þýsks banka og fleiri að ég held og er auðvitað ekkert síður til sölu en aðrir lögfræðingar.

Á Tenerife í janúar sá ég á mörgum stöðum smáfiska vera að éta táfýlu. Nú virðist þessi siður vera kominn til Íslands líka. Mér finnst hálfilla með fiskana farið að gefa þeim ekki annað að éta. Ekki veit ég hvað kostaði á Kanaríeyjum að að dýfa býfunum í fiskivatn og man ekki eftir að á það hafi verið minnst í kastljósinu í gær.

Kannski eru draumar lykillinn að sálarlífi manna. Mín reynsla er sú að oftast nær dreymi mann eitthvað en gleymi því yfirleitt fljótlega nema draumurinn sé sérstakur eða maður muni hann vel af einhverjum ástæðum. Svo getur farið að maður muni bara hluta draumsins af því maður nær ekki að rifja hann allan upp og festa sér í minni.

Ein aðferð er að skrá niður drauma sína strax og maður vaknar. Slíkt hef ég nokkrum sinnum reynt. Hér er afrit af einni slíkri tilraun:

16/3 2011. Dreymdi enskunámskeið í nótt. Allir í búrum. Aðgangseyrir 100 krónur. Mikið kjöt. Fór með matinn með mér. Annað skipti. Ekki með mat fyrst. Hann eyðilagðist.

Verst er að ég skil þetta ekki og man þar að auki ekkert eftir draumnum. Rámar þó í að búrin hafi verið eins og villidýrabúr eru vön að vera í dýragörðum. Kannski er þetta verkefni fyrir sérfræðinga.

Einu sinni vann ég í pantanadeild KÁ á Selfossi hjá Helga Ágústssyni frá Birtingaholti. Þar skrifaði ég nótur ásamt Rúnu og þær voru svo afgreiddar af Skúla pabba Sigurjóns skólabróður míns frá Bifröst og hans liði.

Á þeim árum þóttist ég vera upprennandi skáld. Skrifaði helling af allskonar bulli og taldi vera ljóð. Safnaði þeim meira að segja saman og fór með til Gunnars Benediktssonar sem þá bjó auðvitað í Hveragerði.

Man að hann taldi þrjú eða fjögur ljóð vera nokkuð góð og bauðst til að reyna að koma einhverjum þeirra á framfæri við Tímarit Máls og Menningar. Ég ætlaðist náttúrulega til að hann félli í stafi yfir snilldinni og fannst ekki mikið til um það. Ekkert varð svo úr neinu og þetta er kannski einhvers staðar til ennþá í drasli hjá mér.

Ein vísa var þarna sem Gunnar skildi ekki og spurði mig hvort hún væri gerð af einhverju sérstöku tilefni. Svo var ekki en mig minnir að vísan hafi verið svona:

Spaðakóngur spýtti í kross.
Spaðadrottning hló.
Laufagosinn lamdi hross
Laufakóngur dó.

Á langri leið kunna spilin, ljóðlínurnar og rímorðin eitthvað að hafa ruglast en einhvernvegin svona var hún.

Eitt af þeim ljóðum sem Gunnari leist sæmilega á minnir mig að hafi verið svona:

Visna vöðvar
veikist máttur.
Herpist hjarta
hljóðnar sláttur.

IMG 5011Skreið.


1309 - Davíð Oddsson

Mér er minnisstætt að þá fyrst gerði ég mér ljósan alvarleika bankahrunsins þegar Þorsteinn Már Baldvinsson mætti hálfgrátandi í Kastljósið til að kvarta undan vonsku Davíðs Oddssonar. 

Raunverulegt innræti Davíðs skildi ég nokkuð vel þegar hann útskýrði stóra skemað fyrir Sigmari Guðmundssyni og að Íslendingar mundu ekki greiða skuldir óreiðumanna. Það skema snerist bara um að koma öllu hugsanlegu tapi á saklausa útlendinga.

Mér er líka minnisstætt þegar ég var staddur í sjoppu í Hamraborginni í Kópavogi að bíða eftir að fá mat afgreiddan og sá þá Davíð reyna að útskýra fyrir fréttamanni vanhæfi Ólafs Ragnars Grímssonar vegna þess að dóttir hans vann hjá fyrirtæki sem tengdist Baugi. Á því augnabliki vorkenndi ég Ólafi og skildi fyrst almennilega ummæli hans á alþingi um skítlegt eðli.

Allt þetta sýnir hve sjónvarpið er áhrifamikið þrátt fyrir alla galla (og hve upptekinn ég er af Davíð Oddssyni). Sjónvarpið sáu menn á sínum tíma fyrir sér sem einn allsherjar uppfræðara og miðlara lista og menningar. Ekki hefur það ræst en áhrifamikið er það.

Nú er ég þó að mestu hættur að nenna að horfa á það. Netið er mun betra. Þar getur maður valið sér að lesa eða skoða bara það sem maður hefur áhuga á. Margir hanga yfir fésbókinni lon og don eða horfa á sína eigin dagskrá sem gjarnan samanstendur af því sem þeim hugnast best.

Á fésbók sá ég um daginn menn furða sig á því hvað bloggarar eru alltaf reiðir. Ég held að þeir séu ekki alltaf reiðir, en þeim rennur oft í skap þegar þeir setjast fyrir framan tölvuna og ætla að sýnast gáfaðir. Þá geta þeir ekki hamið sig en vaða elginn um allt mögulegt. Í stórum dráttum virðist allt vera að fara til fjandans og engin von um sáluhjálp. Sannleikurinn er samt sá að veröldin snýst alltaf, óháð mannlegum áhyggjum, og fer jafnvel batnandi.

Greinarmerkjasetning og þau fræði öll eru hluti af stíl. Í bókum er slíkt oftast lítt áberandi vegna samræmingar prófarkalesara. Sum skáld og rithöfundar leika sér þó talsvert með þessi atriði og hönnun prentgripa að öðru leyti. Aðrir forðast þau atriði með öllu og skilja þau kannski ekki.

Ég fer ekkert ofan af því að furðulegt er að svo miklum peningum skuli hent í tónlistarhúsið sem raun ber vitni. Einmitt núna þegar peninga vantar sárlega næstum allsstaðar í þjóðfélginu. Víst er húsið flott og þeir sem þangað fara geta glaðst yfir því að Íslendingar eigi svona fallegt og vel gert hús, en samt.....

 Jafnréttisumræða var á alþingi í dag að loknum hálftíma hálfvitanna. Hún var mun marktækari en flest þar. Bestar voru ræðurnar hjá Margréti Tryggvadóttur og Eygló Harðardóttur. Mikið er nú rætt um ráðningu skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Mér finnst ekki að Jóhanna þurfi að segja af sér vegna þessa en hún hefur orðið fyrir umtalsverðu áfalli og ætti að fara eftir lögunum.

IMG 5006Leðurbuxur góðar.


1308 - Lögbannsmálið, Icesave og fleira

Lögbannsmálið gæti sem hægast verið nýtt níumenningamál. Þó DV beiti um sumt óhefðbundnum aðferðum og mistakist jafnvel oft, er því ekki að leyna að þeir hafa stundum rétt fyrir sér. Ef um er að ræða anga af þeirri leyndarhyggju sem oft ræður alltof miklu hér á landi ber auðvitað að styðja DV í þessu máli. Þetta gæti fljótlega orðið að stórmáli því ef Landsbankamenn og sýslumaður gefa sig ekki gæti sjálft embættismannavaldið verið í hættu.

Þó sýslumanni takist að fá dómara til liðs við sig er ekki þar með sagt að málið sé unnið. Að mörgu leyti er þetta mál eins vaxið og Wikileaks-málið. Ef fjölmiðlar láta kúga sig til að gefa upp heimildarmenn er sjálfstæði þeirra í voða. Auk þess er ekki með nokkru móti hægt á tímum netsins að halda uppi því sem sýslumaður vill.

Moggabloggarinn Lúðvík Júlíusson hefur skrifað mikið um Icesave-málið. Er já-maður eins og ég og hefur allar tölur á hreinu. Sjálfur nenni ég ekki að setja mig nákvæmlega inn í þessháttar. Sumir vilja þó eflaust vita meira um þessi mál. Þessvegna linkurinn.

Að mörgu leyti er það að krefjast þess að kjósendur segi nei við Icesave meira en bara lögfræðilegt spursmál. Það er ekki síður pólitískt. Með því að umbylta því hagkerfi sem komið hefur verið á er líka verið að krefjast mikilla breytinga á þjóðskipulaginu öllu.

Hagkerfið er nátengt bankakerfinu. Með því að afneita þeirri þrautavaraleið sem ríkisábyrgð auðvitað felur í sér er verið að fara fram á umbyltingu hagkerfisins alls. Þessu þurfa þeir hægrisinnar sem sumir kalla öfgafulla að gera sér grein fyrir. Annars er ekki hægt að álíta annað en að þeir vilji valda sem mestum glundroða. Kommúnistar vilja auðvitað byltingu og alræði öreiganna eins og var í ráðstjórnarríkjunum sálugu.

Þetta er líka sanngirnismál að því leyti að þeir útlendingar sem trúðu íslenskum bönkum í góðri trú fyrir sparifé sínu eru ekkert verra fólk en Íslendingar.

Atli féll á eigin bragði
Arnþór segir Helgason

Þetta gæti næstum verið upphaf á vísu. Las blogg Arnþórs um Atlamáið og það sem ég hef um þetta að segja gæti allt eins verið athugasemd á hans bloggi. Ég er bara svo eigingjarn að mér finnst að maður eigi að búa að sínu þegar maður er atvinnulaus og einskis nýtur.

Það er löng hefð fyrir því á alþingi að menn haldi sig áfram þar þó skilið sé við þingflokk eða gengið í nýjan. Þetta er bara svona. Það er ekki hægt að berjast gegn flokksræði í öðru orðinu en segja í hinu að flokkarnir eigi öllu að ráða.

Hvort eru draumar hugarástand eða upplifun? Það er spurningin. Þegar mig dreymir (eða man eftir draumunum) þá finnst mér það sem gerist vera að jafnmiklu leyti hugarástand eins og eitthvað annað. Það í hvernig skapi ég er, hvað mér finnst um það sem á sér stað o.s.frv. er eins mikill hluti af draumnum eins og það sem gerist. Upplifun annarra er ugglaust önnur.

Taldi fram til skatts um daginn. Held ég hafi aldrei verið svona tímanlega í því. Nýtti ekki einu sinni heimild til framlengingar. Jánkaði reyndar öllu sem beint var til mín. Mikil guðsblessun eru þessi rafrænu skattskil. Nú þarf maður engar áhyggjur af þessu að hafa. Áður fyrr þurfti maður þess oftast nær. Gerði það a.m.k.

IMG 4983Horft til hliðar.


1307 - Þættir úr Íslandssögu

Fyrst eru hér svolitlar hugleiðingar um Icesave en það er fleira sem ég þarf að koma að.

Engan vegin er hægt að taka mið af þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra þegar rætt er um þá atkvæðagreiðslu sem framundan er. Í það skipti var engin leið að greiða atkvæði með frumvarpinu jafnvel þó fáeinir hafi gert það. Fyrir lá að betri samningar buðust.

Annað er uppi á teningnum núna. Atkvæðagreiðslan að þessu sinni er um það hvort semja skuli á þann hátt sem fyrir liggur eða semja ekki. Kostirnir eru nokkuð skýrir að því leyti. Að öllu öðru leyti eru skoðanir mjög skiptar og mál óskýr og flókin. Ekki er unnt að styðjast við skoðanakannanir að öðru leyti en því að líklegt er mjótt verði á mununum.

Með öllu er óljóst hvort verið er að kjósa um örlög ríkisstjórnarinnar og margt er óljóst um framhaldið hvor leiðin sem valin verður. Örlög ríkisstjórnarinnar eru að miklu leyti undir henni sjálfri komin. Ef hún leggur mikla áherslu á að vinna sigur í þjóðaratkvæðagreiðslunni getur verið að hún neyðist til að segja af sér við tap. Hvaða afstöðu hún tekur að þessu leyti er ekki gott að sjá fyrir.

Fór um daginn á bókasafnið og fékk meðal annars lánaða bókina „Þættir úr Íslandssögu frá landnámi til 1820" eftir Guðmund J. Guðmundsson. Svo er að sjá sem bók þessi sé nýkomin út. Samkvæmt því sem kemur fram aftan á bókinni er hún ætluð sem kennslubók fyrir framhaldsskóla.

Formálinn að bókinni byrjar þannig: Á síðasta áratug 20. aldar komu út á vegum Hins íslenzka bókmenntafélags flokkur kennslubóka í mannkynssögu undir heitinu Þættir úr sögu vestrænnar menningar.

Komu - flokkur. Maður segir bara ekki svona. Allra síst í kennslubók. Annað hvort nennir höfundurinn ekki að hugsa eða þetta hefur ekkert verið lesið yfir.

Jæja, ég hélt nú samt áfram en mál fóru engan vegin batnandi og ég gafst upp. Bókin er einfaldlega á lélegu máli og full af villum. Alls ekki boðleg sem kennslubók. Eiginlega er ekkert meira um málið að segja. Mér finnst óþarfi að eltast við allar villur í fjölmiðlum en auglýsingar og kennslubækur finnst mér að eigi að vera á óaðfinnanlegu máli og án þess að augljósar villur séu finnanlegar.

IMG 4978Göng undir Nýbýlaveg.


1306 - Já eða nei - það er spurningin

Baráttan um Icesave-málið harðnar nú mjög í kjölfar allítarlegrar umræðu í Silfri Egils í gær. Ég er ennþá sannfærður já-maður og mun reyna að gera betri grein fyrir þeirri afstöðu minni hér á blogginu. Bæði nú og hugsanlega síðar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að deilt sé harkalega um þetta mál fram að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Að gera það ekki er viss tegund af flótta.

Þegar atkvæðagreiðslunni 9. apríl er lokið með sigri annars hvors aðilans finnst mér að sættast eigi á þá niðurstöðu sem þar næst og láta deilum um þetta mál lokið. Samstaða er betri en flokkadrættir. Ég kvíði því mest að eftir að þjóðaratkvæðagreiðslunni lýkur verði hvert tækifæri notað til að ýfa upp sárin. Og tækifærin munu bjóðast. Á vissan hátt er þessi atkvæðagreiðsla æfing fyrir þá afdrifaríku þjóðaratkvæðagreiðslu sem fara mun fram um ESB-aðildina. Það má líka segja um þá atkvæðagreiðslu að óþarfi sé að láta hana bíða alltof lengi.

Neyðarlögin og sú atburðarás sem þá fór af stað er grunnurinn að þeirri skoðun minni að semja beri um Icesave-málið. Hefðu stjórnvöld strax við upphaf hrunsins og alla tíð síðan hagað sér allt öðru vísi en þau hafa gert, þá hefði vel komið til greina að ýta Icesave frá sér. Ef tekið er mið af þeirri atburðarás sem þá fór af stað er óhjákvæmilegt að semja nú um þessi mál.

Það er auðvelt fyrir já-sinna að segja að þeir séu leiðir á þessu máli og vilji koma því frá og jafnauðvelt fyrir nei-fólk að segja að stuðningur við frumvarpið sé tilkominn vegna þjónkunar við ráðandi öfl.

Vilhjálmur Þorsteinsson sagði í Silfri Egils í gær að hann væri hræddur um að auðveldara væri að berjast gegn lögunum en með þeim. Þar fannst mér hann fara yfir strikið og sýna yfirlæti. Hann gerir það sem erfitt er en aðrir taka auðveldu leiðina. Það er ekkert auðvelt við að taka afstöðu í þessu máli. Sjálfur hef ég oft skipt um skoðun á því og tölur eru hættar að hafa áhrif á mig.

Á léttari nótum má segja að eins gott sé að vera búinn að koma Icesave frá því bráðum verði allt vitlaust útaf kvótanum. Svo er sjálf ESB atkvæðagreiðslan úti við sjóndeildarhringinn.

Brottför Lilju og Atla úr þingflokki VG hefur líklega engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið og jafnvel heldur ekki á þjóðaratkvæðagreiðsluna í næsta mánuði. Ég er samt ennþá þeirrar skoðunar að þingkosningar verði á undan ESB-atkvæðagreiðslu. Meira hef ég ekki að segja um þetta mál að sinni.

IMG 4971Visið strá á villigötum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband