Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

2066 - Skák

Skrifaði pínulítið um daginn um Magnus Carlsen og einvígið sem hann er að fara að tefla við Anand um heimsmeistaratitilinn í skák. Las viðtal við Magnús nýlega og þótti eftirfarandi eitt það merkilegasta sem þar var að finna. Læt það bara vera á enskunni eins og það var því flestir sem lesa þetta blogg skilja hana áreiðanlega.

On "the crazy" and Fischer

"It was probably only the chess keeping him sane. He would have gone insane much quicker without it. His story is very different to mine. He had a difficult upbringing. Difficult relationship to his family. I have lived a much more sheltered, normal life. As normal as it could be, considering how much I travelled."

 

Annars er það ágæt æfing (fyrir mig a.m.k.) að nota það tækifæri sem býðst nú þegar Hjörvar Steinn Grétarsson er orðinn 13. stórmeistarinn okkar í skák að rifja upp hverjir hinir tólf eru. Fyrst er þá frægastan að telja Friðrik Ólafsson, síðan Guðmund Sigurjónsson og þar á eftir fjórmenningaklíkuna alræmdu. Það eru semsé Jón L. Árnason, Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson og Margeir Pétursson. Næst má sennilega telja Helga Áss Grétarsson, Þröst Þórhallsson  og Hannes Hlífar Stefánsson. Þá eru það þremenningarnir sem nýjastir eru í þessum flokki. Henning Danielssen, Héðinn Steingrímsson og Stefán Kristjánsson. Þá held ég að upptalið sé. Sko, þetta gat ég.

Því fer víðsfjarri að ég skilji allt sem rætt er um þegar aðild að Evrópusambandinu ber á góma. Fínni blæbrigði samninganna eru mér að miklu leyti hulin. Ég veit samt ósköp vel að bæði stuðningsmenn og andstæðingar ýkja stórlega sinn málstað. Eina ráðið er að reyna að gera sér í hugarlund hvernig aðildin komi til með að reynast. Ekki er við neitt annað að styðjast en sjálfan sig og horfa á þjóðirnar sem eru í sambandinu og hvernig þeim hefur reitt af að undanförnu.

Við þá iðju hef ég allsekki fundið neina hættulega ókosti á sambandsaðild. Auðvitað er því ekki að leyna að smæð okkar getur valdið verulegum vandræðum. Hún er á sama tíma okkar helsti styrkur. Þar veldur hver á heldur. Ef ekki er hægt að neyða núverandi ríkisstjórn til að halda áfram viðræðum er langlíklegasta skýringin á hegðun hennar sú að hún vilji ekki verða til þess að gera neitt óafturkallanlegt í samskiptum okkar við Evrópusambandið. Líklega gerir hún ekki ráð fyrir að sitja nema í hæsta lagi út kjörtímabilið og að sú ríkisstjórn sem þá tekur við eigi skilið að ákveða hvað gert verði í samningsmálunum. Þjóðin getur líka verið búin að segja sitt álit á þeim tímapunkti.

Mikið djöfull sem dagarnir eru fljótir að líða. Það er bara fimmtudagur á morgun og mér finnst vikan vera rétt að byrja. Þó Gnarrinn segi núna að hann ætli ekki að bjóða sig fram í vor finnst mér alveg að vænta megi tíðinda frá besta flokkum. Hann er ekki bestur og stærstur fyrir ekki neitt. Annars kaus ég hann ekki því ég bý víst í Kópavoginum, sem aldrei skyldi verið hafa. Það er nefnilega ekkert gott að búa í Kópavoginum. Hvað sem hver segir. Gatnakerfið er t.d. svo skrýtið að þó ég sé búinn að búa hér í bráðum 10 ár er ég ekki byrjaður að skilja það.

Kannski ég fari bráðum upp í Stangarhyl að tefla. Hugsanlega kemst ég hjá því að verða neðstur þar. Var að skoða myndir þaðan. Sennilega hefur Einar bróðir Braga tekið þær. Nafni minn Kjartansson sést ekki á þeim. Við eina myndina voru nokkur vísuorð skrifuð. Ég prjónaði aðeins við þau eins og ég geri svo oft.

Á ofsóknunum loks er lát
lúinn kóngur verður mát.
Og þá verður konan kát
en kallinn grípur mikið fát.

Þetta er fremur léleg vísa. T.d. má alveg halda því fram að um ofstuðlun sé að ræða í fyrstu ljóðlínunni. Þá segi ég bara að hún sé hvort sem er stolin og ég beri enga ábyrgð á henni.

Það er víst að verða kominn bloggtími, svo mér er ekki til zetunnar boðið, enda er hún ólögleg orðin. Svo er að koma nóvember. Þar á eftir desember og þá fer sólin að hækka aftur á lofti. Löturhægt að vísu í byrjun en herðir sig svo þegar á líður. Fullsnemmt er samt að fara strax að hlakka til vorsins. Strax getur samt þýtt ýmislegt, skilst mér.

IMG 4305Hér má semsagt ríða að vild.


2065 - Logið með stæl

Jens Guð (og eflaust margir fleiri) fárast yfir því að Merkel og Co. skuli ekki bara hafa bullað út í eitt til að rugla njósnarana frá Guðs eigin landi í ríminu. Gallinn er bara sá að það tekur heilmikinn tíma að ljúga sennilega.

Þetta veit ég af langri reynslu. Hef alla mína tíð logið einsog ég er langur til. Sennilega hef ég samt logið alltof sennilega. Líklega er betra að hafa það ósennilegt. Fólk trúir frekar því sem ósennilegt er. Þegar ég lýg, þá trúa allir mér. Ef ég segi sannleikann þá trúir mér enginn. Það er nefnilega vandlifað í henni verslu. (Veröldinni meina ég.)

Kannski Merkel hafi bara haft annað og merkilegra við tímann að gera en ljúga og bulla í símann sinn. „En hafði hún ekki her manna á launum við að passa uppá sig?“ langar Jens sennilega til að spyrja. „Kannski hafa þeir bara verið svona vitlausir og húmorslausir eða aðstoðarmenn þeirra.“ Þá er nú mesti glansinn farinn af þessum njósnum og Bond gamli miklu skemmtilegri. Hann njósnaði þó með stæl. Var aldrei með neitt helvítis væl.

Mér finnst fólk vilja aukinn jöfnuð í þjóðfélaginu hér á Íslandi. Fram eftir 20. öldinni jókst sá jöfnuður þrátt fyrir mörg bakslög. Jafnvel mátti líkja íslensku þjóðfélgi á ýmsan hátt við þau Skandinavísku. Síðstu áratugina hefur þessu verið þveröfugt farið. Hrunið hafði sín áhrif á þann jöfnuð og áhrif þess eru ekki að fullu komin fram ennþá. Fram að því hafði því verið logið að okkur að jöfnuður væri að aukast. Svo var þó í raun allsekki því þó þjóðarauðurinn yxi var ágóðanum kippt frá pöplinum í Hruninu. Nú er byrjað að efna í annað hrun og miklu sársaukaminna mundi verða að stöðva það núna strax, en að bíða eftir Hruni númer tvö.

Annars er Ísland agnarlítið peð í gróðabralli Vesturveldanna. Samt var þungi hrunsins látinn koma á okkur af fullum krafti. Það er nefnilega enginn annars bróðir í leik. Með alheimsstjórn væri e.t.v. hægt að koma í veg fyrir mestu misskiptinguna í heiminum. Við Íslendingar yrðum samt þar utanborðs lengi. Hjá ofbeldi af hálfu meirhlutans yrði aldrei hægt að komast til lengdar.

Eitt er það sem er öðruvísi í mínu bloggi en flestum öðrum. Ég hika lítið við að nafngreina mína sambloggara en sumir aðrir gera það mjög hikandi eða alls ekki. Sömuleiðis er mjög valt að treysta því að ég skrifi um allt sem ég kemst í kynni við. Hvernig ætti það líka að vera hægt? Aðrir, jafnvel flestir, yrðu eflaust fljótt leiðir á að lesa þetta blogg ef það væri bara einskonar dagbók. Ég er nefnilega ekkert sniðugur, nema þá alveg óvart.

Athyglisvert þetta með að selja aðgang að Strokk, eða öllu hverasvæðinu við Geysi. Líklega er það hugsunin hjá eigendum svæðisins að selja aðgang að því öllu. Miðasöluskúr er kominn við Kerið og líklega eru margir hættir að stoppa þar (a.m.k. ég.) Af tvennu illu er náttúrupassinn skárri hugmynd en skúrarnir. (T.d. við Jökulsárlón, Gullfoss, Goðafoss, Þingvelli og sjálfsagt víðar.) Auðvitað væri best að sleppa við hvorttveggja. En það verður ekki bæði sleppt og haldið. Ef í alvöru á að halda áfram að auka sem mest ferðamannastrauminn til landsins verður ekki hjá því komist að hefta átroðninginn við helstu náttúruperlurnar með einhverjum hætti. Ekki dugir að reyna að koma þeim samtímis á náttúruminjaskrá Sameinuðu Þjóðanna og neita því að þær séu til. (Ferðamenn gætu jafnvel frétt af þeim þó bannað væri að auglýsa þær.)

Í borginni Chennai (öðru nafni Madras) á Indlandi hefst þann 7. nóvember n.k. heimsmeistaraeinvígi í skák milli þeirra Carlsen frá Noregi og Anands frá Indlandi. Báðir eru öllum skákunnendum vel kunnir og hafa verið um langt árabil. Carlsen stendur okkur Íslendingum á margan hátt nær. Hann er yngri, ekki nema 22 ára og álitinn öllu sigurstranglegri. Enginn vafi er á að þessa einvígis er beðið með mikilli eftirvæntingu. Lítið er samt fjallað um það í fjölmiðlum. Af einhverjum ástæðum er skák orðin jaðaríþrótt þar og stafar það eflaust af því að illa hefur gengið að gera hana að vinsælli sjónvarpsíþrótt. Áður fyrr var hennar oft getið í fjölmiðlum a.m.k. hér á Íslandi.  

IMG 4300Smíðisgripur.


2064 - Veturinn er kominn

Salvör Kristjana virðist fylgjast nokkuð vel með öllu sem gerist og máli skiptir í netheimum. Ég læt mér nægja að fylgjast með henni á fésbókinni. Vona bara að hún skrifi þar um það sem fyrir hana ber. Sjálfur er ég að mestu hættur að nenna netflakki. Hef heldur aldrei kunnað það vel á tölvur að ég hafi fylgst með nema litlu af því sem gerist varðandi þær. Gefst bara upp og fer að gera eitthvað annað ef ég lendi í vandræðum. Stundum les ég fréttir í gegnum „Pulse“  í kyndlinum mínum og furða mig á hve takmarkaðar fréttir eru í íslensku miðlunum.

Einn helsti gallinn við lýðræðið er hvað fjögur ár eru í rauninni stuttur tími. Þó finnst manni hann stundum vera alltof langur. Kommúnistastjórnin í Kína er ekki bundin af þessum fjögurra ára lýðræðistíma. Skyldi það vera hið eina jákvæða sem hægt er um það stjórnarform að segja? Lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum er það oftast mikill fjötur um fót að mega helst ekki horfa lengra fram á veginn en að næstu kosningum. Oftast tekur mun lengri tíma en það að breyta þjóðfélögum.

Hið íslenska þjóðfélag er þó gjörbreytt frá Hruni. Kannski er það samt ekki Hrunið sjálft, heldur aukið tölvulæsi og samskiptamiðlar eins og Facebook sem hafa breytt því. Alls ekki er að sjá að allir hafi gert sér grein fyrir þessari breytingu. Ekki ég heldur. Ég nota ekkert, eða næstum ekkert, annað en prentað mál. Það er þó greinilega orðið með öllu úrelt. Ljósmyndir og vídeómyndir eru það sem koma skal. Þeir sem ekki kunna að notfæra sér slíkt eru á eftir tímanum.

Stundum finnst mér eins og vinsælli bloggarar en ég hafi fengið hugmyndir héðan. Líklega er það þó tóm vitleysa. Mínar hugmyndir eru yfirleitt frá mér sjálfum komnar, en vitanlega er ekkert nýtt undir sólinni. Ég hef þær bara að láni frá öðrum. Pakka þeim kannski svolítið öðruvísi inn. Það er venjulega allt og sumt. 

Var að enda við að lesa smágrein eftir Óla Gneista Sóleyjarson um höfundarréttarmál. Nú stendur baráttan hjá Smáís ekki við þá sem vilja sleppa við að borga „löglegum eigendum flutningsréttar“ fyrir notkun verka heldur stendur baráttan við þá sem vilja umfram allt greiða fyrir þjóustuna og frekar skipta við Netflix en þá sem njóta velvildar Smáíss. Þetta eru hreinir einokunartilburðir og ekkert annað. Ef þeir treysta sér ekki til að fást við Netflix ættu þeir bara að halda að sér höndum og hætta að skipta sér af dreifingarmálum.

Veðrið er að versna. Sennilega er kominn vetur. Fór í dag á þjóðahátíð í Borgarnesi. Þar var gaman að vera og margt að sjá. Ýmiss konar mat mátti einnig smakka. Haffi Haff skemmti í lokin og ég man ekki eftir að hafa heyrt í honum fyrr. Hann átti auðvelt með að koma flestöllum í stuð, bæði ungum og öldnum. Fjörugur með afbrigðum. Hitti marga sem ég kynntist fyrir fjölda ára en þá vann ég í Borgarnesi í ein átta ár.

IMG 4295Fjallaskarð.


2063 - Um milljónkallinn o.fl.

Tíuþúsundkallinn er víst kominn. Ekki er ég þó farinn að sjá þennan merka grip ennþá. Miðað við gömlu krónurnar sem maður ólst upp við er þetta milljónkall. Segið svo að verðbólgan sé engin. Man eftir því að hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi báðum við Skúla Ingvarsson, sem þá var gjaldkeri kaupfélagsins, að sjá til þess að mánaðarlaunin okkar færu ekki yfir milljón krónur. Hann lofaði að sjá um það. Þetta hefur verið fyrir 1981 því við vorum örugglega að tala um gamlar krónur. Krónurnar í dag eru að verða jafnmáttlausar og þá. Einu sinni var hundraðkallinn rauður, eignalaus maður snauður og dauður maður dauður. Líklega eru þetta ljóðlínur og sennilega stolið frá einhverjum.

Nú er hundslappadrífa hér í Kópavoginum. (Skrifað á fimmtudagsmorgni) Hundslappadrífa er það kallað þegar stórar snjóflygsur falla til jarðar í logni. Annars eru mörg veðurheiti afar skemmtileg. Mér finnst t.d. vera stór munur á kafaldsbyl og öskubyl. Gæti meira að segja lýst honum. Sennilega hefur samt enginn áhuga. Jæja, í kafaldsbyl er mikil ofankoma en í öskubyl er hvasst.

Mikið er af prófkjörsfréttum um þessar mundir. (Allavega hjá Sjálfgræðisflokknum)  Sagt er að þessi sækist eftir þriðja sæti á listanum en hinn eftir öðru sætinu (eða því þrítugasta og fyrsta.) Já, en það er eitt sem ég skil ekki!! „Af hverju bjóða ekki allir sig fram í öll sætin og sætta sig svo bara við niðurstöðuna, eða ekki?“ Reyndar er það nú svo margt sem ég skil ekki. Ef þetta væri nú það eina. Jæja, sleppum því.

Ég held að Gálgahraunsmálið sitji dálítið í fólki. Svona eftirá sýnist mér að hraunið sjálft sé lítilsvirði og þessi vegagerð spilli því eins lítið og hægt er. Hinsvegar ber öll framkvæmdin með sér ofbeldishneigð og augljóst er að hún á afar lítinn rétt á sér ef miðað er við ástandið í þjóðfélaginu að öðru leyti. Ríkisstjórnin mun gjalda þessa máls þó vafasamt sé að hún hafi haft af því nokkur afskipti. Ef eitthvað þessu líkt gerist á Landsspítalanum er hætt við að sjóði uppúr.

Sennilega á ég alltof marga fésbókarvini því þó ég loggi mig nokkuð oft þar inn er það algjört hipsumhaps hvort ég skoða þar allt það sem fésbókin og forrit hennar virðast vilja að ég skoði. Finnst ekki við hæfi að hanga þar heilu dagana eins og sumir virðast gera. Logga mig yfirleitt út þegar ég fæ einhver vafasöm tilboð. Brjánn Einhversson (Brian Curly) gerði annars ágæta grein fyrir fésbókarofbeldinu í status þar fyrir stuttu.

IMG 4272Njóli.


2062 - Byrjaður að bakka

Það getur vel verið að bloggin mín líkist safni af athugasemdum. Við því er ekkert að gera. Svona hugsa ég bara. Mér finnst ekki hægt að senda blogg-greinarnar mínar jafnóðum á netið. Stundum breyti ég þeim í ljósi umhugsunar. Það er alveg nóg að blogga svona einu sinni á dag í mesta lagi. Það væri að æra óstöðugan að gera það oftar. Svo er ég á móti fésbókinni og nenni ekki að flytja mig. Það að mér er ekki úthýst hér stafar ekki af því að ég sé sáttur við allt sem á Moggablogginu birtist. Öðru nær. Sumir sem hér blogga fara óskaplega í taugarnar á mér.

Get varla ímyndað mér að margir lesi athugasemd númer 120 við einhverja pólitíska frétt í DV eða Vísi. Samt trúi ég alveg að einhverjir af þeim sem bloggið mitt sjá samkvæmt Moggabloggstölum lesi það með athygli. Er ég svona innbilskur eða eru athugasemdagaurarnir (og gaururnar) það kannski? Er eitthvað skárra að bloggast svona villt og galið eins og ég geri en að athugasemdast út í það óendanlega?

Í pólitískum fréttum hjá mér er það helst að Sigmundur Davíð er fyrirfram farinn að kenna stjórnarandstöðunni um að geta ekki framkvæmt kosningaloforð sín og byrjaður að reyna að bakka útúr þeim. Eygló Harðardóttir sem var ágætur þingmaður er ómöguleg sem ráðherra. SDG notar hana til að finna upp afsakanir fyrir sig. Hefur hún engan sjáfstæðan vilja eftir að hún varð ráðherra? Hún stóð sig þó ágætlega sem stjórnarandstöðuþingmaður. Bjarni Ben. er sá eini sem græðir á núverandi ástandi. Hugsanlega bæði beint og óbeint. Með beinum gróða á ég við Gálgahraunsmálið. Hanna Birna á að finna upp afsakanirnar fyrir hann. Tekst það samt ekki nógu vel.

Sigmundur Davíð er háll sem áll. Á auðvelt með að tala fjölmiðlamenn í kaf. Kannski bera þeir bara svona mikla virðingu fyrir embættinu sem hann gegnir. Um daginn mannaði samt einhver sig upp í að spyrja hann hvar hann hefði verið, þegar hann hvarf í viku. Auðvitað svaraði Sigmundur því ekkert heldur fór bara að tala um eitthvað allt annað og fréttamannsauminginn þorði ekki að endurtaka spurninguna. Svona er þetta bara. Fjölmiðlarnir spegla aðallega sýn stjórnvalda. Pöpullinn er lítils virði. Þó byggist allt á honum. Kastljósið sinnir bara einu eða tveimur málum á dag fimm daga vikunnar. Annað er ekki til. Frétta- og blaðamenn fást aðallega við að þýða fréttir úr erlendum fjölmiðlum og fækkar þar að auki stöðugt. Framhaldsfréttirnar úr Lansanum í sjónvarpinu eru alltaf að lengjast. Bráðum er búið að sannfæra alla um að allt sé á vonarvöl þar.

Hugsanlega á Gálgahraunsmálið eftir að vinda eitthvað uppá sig. Þó er það ekki líklegt. Allir aðilar standa nú frammi fyrir gerðum hlut og búið er að spilla hrauninu. Svo virðist sem ekki einu sinni „hraunavinir“ tali lengur um að í hrauninu séu hugsanlega fornminjar en því var þó lengi vel haldið fram. Samt sem áður er það greinilegt að vegagerðin hefur farið fram með miklum og líklega óþörfum ofstopa í þessu máli. Verið gæti líka að bæjarstjórn Garðabæjar gjaldi afstöðu sinnar að einhverju leyti í næstu sveitarstjórnarkosningum.

IMG 4259Kanína.


mbl.is Vísað aftur af vinnusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2061 - Um Gálgahraun, ríkisstjórnina o.fl.

Ég fellst umyrðalaust á þá röksemd hraunavina að þessi framkvæmd (Gálgahraunsvegur) sé óþörf eins og á stendur. Sagt er að skipulagið sem þessi vegagerð er byggð á sé frá 1995. Hafi hún einhverntíma verið eðlileg og knýjandi er hún það alls ekki núna þegar veruleg þörf er á að spara og velta fyrir sé hverri krónu (eða milljón) sem eytt er af skattfé okkar. Hverra hagsmuna er verið að gæta með þessum ofbeldisaðgerðum vegagerðarinnar?

Jafnvel þó reynt sé að breyta Gálgahrauni í Garðahraun getur vel farið svo að atburðirnir þar verði kveikjan sem lengi hefur vantað. Það er að segja alveg síðan núverandi ríkisstjórn tók við í vor. Vinstri menn munu áreiðanlega reyna að koma henni frá. Ef ekki með góðu (þ.e.a.s aðstoð alþingis) þá með illu. (Alþingi götunnar) . Vel má búast við öngþveiti og jafnvel ólátum víða því stjórnmálabaráttan hefur breyst mikið eftir Hrun. Augu margra hafa opnast en þó ekki nærri allra. Þessvegna er ekki ljóst hvernig þetta allt saman fer. Hægri menn reyndu ýmislegt til að torvelda fyrri ríkisstjórn störf sín og tókst oft ágætlega upp. Ekki gátu þeir samt hrakið hana frá völdum. Vinstri menn standa sig oft betur í slíkum málum og gætu vel hrakið núverandi stjórn í burtu.

Ætlast er til að þeir standi sig sem sú illa skipaða ríkisstjórn sem nú situr hefur verðlaunað með óumbeðnum dekurgjöfum. Þeir eiga að sjá til þess að pólitískum jámönnum fækki ekki mikið. Ýmislegt bendir samt til að þeim hafi mistekist það. Það hatur á núverandi ríkisstjórn sem óvinir hennar blása sem ákafast í um þessar mundir getur hvenær sem er blossað upp sem óviðráðanlegur eldur. Hingað til hefur ríkisstjórnin ekki látið sér segjast hvað sem í boði hefur verið. Varla heldur hún því áfram. Friða verður fólkið. Eftirgjöf er vel hægt að búast við. Vel skipulagt og undirbúið undanhald er miklu betra en skilyrðislaus uppgjöf.

Mér finnst það nokkuð gott hjá Elísabetu Jökulsdóttur að koma sér upp Nóbelskjól. Kallar geta látið sér jakkaföt nægja, eða leigt sér smóking, en því er ekki að heilsa með kvenfólkið. Er þetta óréttlæti köllunum að kenna eins og flest annað? Ég bara spyr af því ég veit það ekki. Einfaldast er auðvitað að mæta bara ekki. Gott fyrir sjálfsálitið líka.

Rætt er um fegursta og ljótasta orðið í íslenskri tungu. Mér finnst ekki rétt að tala um slíkt. Orðin eru bara tæki og merking þeirra breytist við notkun. Hvort orðið er fagurt eða ljótt fer eftir svo mörgu. Til dæmis hugarfari  notandans og hvaða orðum það stendur með. Ef þessi fíflagangur er aðallega til að vekja fólk til umhugsunar um notkun orða er það samt vel afsakanlegt. Orðin eru nefnilega á undanhaldi. Myndirnar, einkum þó hreyfimyndirnar, eru í þann veginn að taka yfir. Kannski ekki í tjáningu milli manna en allavega þó í fjölmiðlun. Það er hægðarleikur að segja allt mögulegt án þess að nota orð. Nýjustu kynslóðirnar eru sífellt að ná betri tökum á myndmálinu og tök þeirra á orðunum eru að versna í samræmi við það.

Einhverntíma var í sjónvarpinu frétt um að ákveðinn hundraðshluti (sem ég man ekki hver var) íslensku þjóðarinnar yrði fyrir beinbrotum á hverju ári. Ég er nú svo undarlega innréttaður að ég sá fyrir mér beinbrotahríð mikla og mannfjölda sem fyrir henni varð. Nýlega var líka auglýsing í sjónvarpinu, þar sem sagt var frá því að rannsóknir sýndu að beinþynning væri mikið vandamál hér á Íslandi. Sennilega var hún frá MS. Ekki er alveg víst að allir hafi gert ráð fyrir að mikil mjólkurdrykkja mundi ráða bót á því vandamáli þó starfsmenn mjólkursamsölunnar hafi eflaust haldið það.

Var að sortera smápeninga. Hundraðkalla má vel nota. Fimmtíukalla líka. Tíkalla í hallæri en aftur á móti er spurning með fimmkallana. Krónupeningum er best að henda. Auðvitað er samt vel hægt að fara með krónurnar og fimmkallana í bankann og leggja þar inn eða taka út í seðlum.

IMG 4253Nútíma hrossafluga.


mbl.is „Hvar er ráðherra?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2060 - Með útsýni til tunglsins - Gálgahraun o.fl.

Allir sem sjá blessað tunglið öðru hvoru út um gluggann hjá sér eru með stórfenglegt útsýni hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Enginn sér það alltaf. Ömurlegt er að sjá bara gluggann á næsta húsi. Í þannig hótelherbergi hef ég dvalið. Fannst líka skrítið í hitabeltinu að sjá tunglið beint fyrir ofan mig og snúa þar að auki vitlaust. Sólskin er mörgum mikilvægt þó dagsbirta nægi öðrum. Maður einn var spurður að því hvort væri mikilvægara sólin eða tunglið. „Ja, tunglið skín stundum á nóttinni, en það er hvort eð er alltaf bjart á daginn þegar sólin er að glenna sig og lítið gagn að því.“

Skyldi mér, með þessu sífellda bloggmali mínu, takast að sannfæra einhverja um að ég hafi stundum rétt fyrir mér. Heldur þykir mér það ólíklegt. Samt er það ekki óhugsandi. Flestir þeirra sem sannfæra mig (yfirleitt bara í smástund að vísu ) með malinu í sér (munnlegu eða skriflegu) gera það í lengra máli. Skoða eina hugmynd frá ýmsum sjónarhornum. Forðast samt þau sjónarhorn sem mæla á móti hugmyndinni eins og eðlilegt er. Sjálfum finnst mér ég vera ákaflega stuttorður og gagnorður, en er það sennilega ekki. A.m.k. tekst mér aldrei að blogga mig tóman. Oft er ég í besta stuðinu eftir að vera nýbúinn að senda einhverja speki frá mér út í eterinn.

Á flestan hátt er Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri mitt idol í blogginu. Hann er stuttorður og gagnorður. Vinsæll og víðlesinn. Fróður og vel að sér. Samt vildu kjósendur hann ekki á stjórnlagaþing. Ég er svolítið hissa á því. Stundum er hann auðvitað óþarflega harðorður. Ómar Ragnarsson er líka góður. Skortir samt yfirsýnina sem Jónas hefur. Of mikill náttúruverndarmaður og bílaáhugamaður fyrir minn smekk. (Jónas er of mikill hestamaður.) Báðir of sérgóðir og alvarlegir í bloggum sínum. Skil ekki af hverju Páll Vilhjálmsson fær alltaf svona marga lesendur á Moggablogginu. Hann er nokkurskonar viðbót við mbl.is og er bara að hjálpa krökkunum þar með einhverri ESB-þvælu. Þegar Dabbi hættir sem ritstjóri breytist Mogginn í helsta stuðningsblað ESB. Það er ég alveg viss um. Hugsanlegt er líka að hann verði einskonar deild í teboðshreyfingunni bandarísku (altsvo Mogginn). Þó finnst mér það ólíklegt.

Nú er mánudagskvöld. Eiginlega er ekki hægt að blogga að neinu gagni nema taka einhverja afstöðu til atburðanna í Gálgahrauni. Ég hef ekki hingað til verið fyllilega sannfærður um að hraunið það arna sé nægilega merkilegt eða málið nógu afgerandi til að láta svona. Kannski er það samt vitleysa og aumingjaskapur hjá mér. Einhversstaðar verður að setja ofbeldismönnum stólinn fyrir dyrnar. Get samt ekki að því gert að mér finnst þetta ekki rétta tilefnið. Að velja rétta tilefnið er alveg bráðnauðsynlegt. Öðruvísi verður ekki hægt að koma sitjandi ríkisstjórn frá völdum. Það hljóta samt allir góðir menn að vilja. Óvissan sem því gæti fylgt er samt afleit fyrir okkur ellibelgina.

Vissulega er þetta blogg í styttra lagi. Það verður bara að hafa það. Vegna Gálgahraunsmálsins er nauðsynlegt að koma þessu frá sér sem fyrst.

IMG 4194Kónguló.


2059 - Pólitík dagsins

Ríkisstjórnir og ráðamenn hérlendis hafa að undanförnu staðið sig svo illa að bylting er í rauninni sjálfsögð og óhjákvæmileg.  Ótti minn við slíka byltingu er eingöngu sá að þeir sem fyrir henni stæðu kæmu sér áreiðanlega ekki saman um það sem á eftir ætti að koma. Líklega er það bara vegna þess hve gamall ég er og ónýtur til allra afreka, að mér hugnast alls ekki blóðug bylting. Búsáhaldabyltingin sáluga var heldur ekki blóðug. Nú fimm árum eftir Hrunið mikla er augljóst að sú bylting hefur mistekist með öllu. Ríkisstjórnin er ráðþrota, alþingi óstarfhæft, forsetinn eins og hver önnur grúppía og aðilar vinnumarkaðarins ónýtir með öllu. Hvað er þá til ráða? Háskólasamfélagið er í upplausn. Seðlabankinn einskisnýtur og auðurinn allur kominn til Tortóla. Stjórnleysi er einfaldlega ekki valkostur. Nágrannaríkin mundu aldrei líða það. 

Bíðum bara eftir Sigmundi Davíð. Hann reddar öllu. Eða vill það a.m.k. Svo getum við hægt og rólega sett hann af. Hvað tekur þá við? Ekki er víst að Bjarni sé neitt betri. Auðvaldið kemur samt alltaf standandi niður. Vinnur kosningar eftir því sem með þarf. Hugsanlega með hjálp fáráðlinga, en þeir hafa sinn atkvæðisrétt eins og aðrir. Kannski það sé bara best að gera ekki neitt!!

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.
Það má finna útúr öllu ánægjuvott.

Var sungið hér um árið og er kannski enn. Pollýönnu-leikur er vinsæll. Krakkarnir vilja auðvitað heldur fara í Grand Theft Auto og vita jafnvel ekki hvað Pollýönnu-leikur er.

Eiginlega getur ríkisstjórnin ekki verið svo slæm að ekki sé hægt að kjósa á móti henni í næstu kosningum. Já, en það eru fjögur ár þangað til. Í millitíðinni getum við allavega kosið Gnarrinn í næstu borgarstjórnarkosningum og látið þannig í ljós óánægju okkar. Er það samt ekki ansi máttlaust? Jú, sennilega.

Þegar Þórbergur Þórðarson tók til við að skrifa ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar var sagt að þar kæmu saman lygnasti maður landsins og sá trúgjarnasti. Líklega var með því meint að Þórbergur væri trúgjarn í meira lagi. Sennilega hefur það verið vegna þess að hann virtist trúa í einlægni á annað líf og drauga. Á margan hátt ber ég samt mesta virðingu fyrir honum vegna esperantó-baráttu hans. Hún bar vott um mikla framsýni. Vissulega var hann líka mikill meistari orðsins en heimsborgari var hann ekki á sama hátt og þeir Halldór Laxness og Gunnar Gunnarsson.

Þegar tveir andans jöfrar leggja saman einsog í bókinni „Trúin, ástin og efinn“ má búast við miklu. Rögnvaldur Finnbogason, sem ég þekkti vel þegar hann var prestur að Staðastað, er frásögumaður í þeirri bók enda er hún einskonar ævisaga hans. Guðbergur Bergsson er skrásetjari. Hann er einhver þekktasti rithöfundur hér á landi nútildags enda hefur hann verið með afbrigðum mikilvirkur. Þegar ég bjó við Vífilsgötuna bjó hann þar einnig. Býr kannski í Grindavík núna, eins og fleiri góðir menn. Þegar bók hans „Tómas Jónsson, metsölubók“ kom út las ég hana alla og hreifst mjög af. Síðan hef ég lesið margt sem frá hans hendi hefur komið en allsekki allt. Bók þessi „Trúin, ástin of efinn“ er til hér á heimilinu og ég rakst einmitt á hana fyrir skemmstu uppi í hillu. Hef samt aldrei komið því í verk að lesa hana.

Krunk, krunk og korriró
í kofanum útmeð sjó.
Endemis aflakló
andlega veitir fró,
en sumum varð um og ó,
og þó.

Einhver hélt því fram að það væri algjör einangrunarstefna að vilja einangrast inni í ESB. Finnst það dálítið fyndið. Sér er nú hver einangrunarstefnan. Sjálfstæðismenn eru í rauninni kommúnistar og miklir Rússavinir. Þetta hélt ég að allir vissu. Á endanum mun Rússland verða hluti af ESB. Bandaríkin eru á fallanda fæti. Rússneski björninn er það sem koma skal. Pútín verður ekki eilífur. Ætli Kasparov taki ekki við. Hann eldist reyndar líka.

IMG 4188Röndóttur steinn.


2058 - Bjarni Benediktsson

Samkvæmt frétt á mbl.is var 51 árs karlmaður tekinn af lífi nýlega í Bandaríkjunum. Skömmu áður á hann að hafa játað á sig glæp þann sem hann var tekinn af lífi fyrir. Slíkt er samt fremur sjaldgæft og hefur ekkert með réttmæti aftakna að gera. Ef hægt væri að sanna með tölum á óyggjandi hátt að aftökur hefðu fælingarmátt væri stuðningur við þær skiljanlegur. Svo er þó ekki. Við aftökur er dómsmorð hugsanlegt og allsekki hægt að taka refsinguna til baka eða bæta fyrir hana á nokkurn hátt. Annað hvort af þessu ætti að nægja til að vera á móti dauðarefsingum.

Er nýbúinn að lesa í kyndlinum mínum verðlaunabók sem heitir „Cold a long time: An alpine mystery“, eftir John Leake. Þetta er ekta „true crime“ bók og fjallar um ungan kanadískan mann, Duncan MacPherson að nafni, sem hvarf í Austurrísku ölpunum í ágúst 1989. Lík hans fannst svo fjórtán árum síðar. Rannsókn málsins var öll í skötulíki og bókin fjallar einkum um hana og eftirfylgni foreldranna. Þetta er skínandi vel skrifuð bók og lýsir vel hvernig fyrirtæki hafa áhrif á stjórnvöld og almenning á ýmsan hátt ef um útlendinga er að ræða. Hef enga ástæðu til að ætla að þetta sé eitthvað öðruvísi hér á Íslandi en í Týról. Þessi bók var ókeypis á Amazon um daginn og er það hugsanlega enn. Það leiðir hugann að verðlagningu rafbóka hér á landi. Um hana ætla ég þó ekki að fjalla, en gæti haft margt um það mál að segja.

Ein af afleiðingum rafbókasprengjunnar verður áreiðanlega sú að bækur hverfa smámsaman sem jólagjafir. Hvort það er gott eða slæmt geri ég mér ekki grein fyrir. Líklega er það bara óhjákvæmilegt. Verðlag á rafbókum hérlendis er ákaflega heimskulegt. Smæð málsvæðisins gerir rétta verðlagningu samt erfiða. Er hræddur um að góðum bókum á íslensku muni fækka á næstunni og þarmeð verður baráttan við enskuna ójafnari en áður.

Mér finnst auglýsingastarfsemin í kringum fésbókina vera orðin ansi pirrandi. Margt er samt ennþá ágætt við það forrit og útbreiðslu þess og tekjurnar til að halda því þannig verða að koma einhversstaðar frá. Þeir sem flinkir eru í markaðsfærslu þurfa þó ekki að kosta miklu til svo eftir þeim sé tekið þar. Ef fésbókin er eingöngu notuð sem tæki til að taka þátt í allskyns tilboðum getur meira að segja verið að hægt sé að hafa af henni einhverjar tekjur í staðinn fyrir þann tíma sem þar er eytt. (Eða réttara sagt sólundað.)

Sennilega er Bjarni Benediktsson miklu slóttugri en álitið hefur verið. Það var líklega hann sem sneri á Sigmund Davíð í undirbúningi ríkisstjórnarsáttmálans, en ekki öfugt. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru allavega 5 en Framsóknar 4.  Framsóknarmenn hafa reyndar sagt að einhverntíma verði þeir 5 en ég er ekki búinn að sjá það gerast. Ekki er heldur öruggt að Sigmundur verði forsætis út kjörtímabilið. Framsóknarflokknum og Sigmundi Davíð er líka eignað loforðið varðandi „skuldavanda heimilanna“. Hætt er við að ekki verði eins mikið úr lausn á þeim vanda og margir hafa ætlað, en Bjarni hefur aldrei lofað neinu nema skattalækkunum. Líklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn muni ná að endurnýja sig að talsverðu leyti í því ríkisstjórnarsamstarfi sem nú er hafið og Framsóknarflokkurinn muni dala. Kosningabaráttan var þó mun betri hjá Framsóknarmönnum og alveg vonlaus hjá fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum.

IMG 4182Síðhærður sveppur.


2057 - Höfundarréttur

Um það var talað á sínum tíma að gera Ísland að fjármálahöfuðborg heimsins. Með öðrum orðum að skattaskjóli. Þar er samkeppnin afar hörð og hefur verið það lengi. Tök banka, alþjóðlegra stórfyrirtækja og forréttindastétta allskonar á ríkisstjórnum eru eitthvað að bila. Þó er engin ástæða til að halda að almenningur nái að brjóta af sér hlekkina. Hið vestræna skipulag er komið til að vera og engin leið að kasta því fyrir róða án þess að eitthvað komi í staðinn.

Get ekki að því gert að mér finnst „norðurslóðar“ og „olíusöngurinn“ vera af svipuðum meiði og skattaparadísin var áður. Held að draumurinn um hana hafi horfið með Hruninu. En ég er bara svo gamall, tortrygginn og gagnrýninn á allt og alla að ég sé skrattann og ára hans skellihlæjandi í hverju horni.

Það er sennilega alltof mikið skrifað á fésbókina. Ég er þó ekki með nema rúmlega 500 fésbókarvini, en skelfing hljóta innleggin að skruna hratt hjá þeim sem eru með 5000. Skilst að það sé hámarkið. Ég fæ orðið fleiri athugasemdir við fésbókarauglýsinguna mína (sem ég gleymi þó stundum) en við bloggið sjálft. Æ, hættu nú þessu fésbókar- og bloggtuði veit ég að þig langar að segja. Og ég er meira að segja að hugsa um að verða við því.

En hvað á ég þá að skrifa um? Ég sem hef sérhæft mig í að blogga um blogg. Stjórnmálablogg eru vinsæl, segirðu. Já, ég get náttúrulega reynt að spá einhverju um væntanlegt stjórnmálaástand. Og svo eru fréttabloggin mjög góð. Þau hafa þann kost hér á Moggablogginu að auðvelt er að linka í fréttirnar. Kannski fá menn þá fleiri lesendur en þeir mundu annars fá. Muna það. Einu sinni linkaði ég heil ósköp, en er alveg hættur að nenna því.

Jú, ég get svosem bloggað um höfundarréttarmál. Af hverju skyldi fólk ímynda sér að bara vegna þess að „eigendur flutningsréttar“ fá ótakmarkað rými í ríkisfjölmiðlunum, þá hljóti allt að vera háheilagur sannleikur og best fyrir alla, sem þeir hafa að segja. Ég trúi bara ekki Baltasar Kormáki og Páli Óskari því þeir eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessum málum. Nennti ekki einu sinni að horfa á Kastljósið í gærkvöldi. Get vel ímyndað mér hver boðskapur þeirra hefur verið.

Allir með strætó, allir með strætó
enginn með Steindóri
því hann er soddan svindlari.

Var einu sinni sungið. Nú ætti líklega að syngja: Allir með Smáís, allir með Smáís.....

Flugvallarmálið hefur verið blásið mikið upp að undanförnu. Aðallega held ég að það byggist á vel heppnaðri undirskriftasöfnun. Rökin eru mjög vafasöm. Held að þetta mál verði dautt og grafið þegar kemur að borgarstjórnarkosningunum næsta vor. Tímasetningin hafi semsagt verið vitlaus þó allt annað hafi heppnast vel. Kannski var bara verið að stíla inn á prókjör sjálfstæðismanna. Ég er bara ekki nógu hagvanur þar til að sjá hverjum þetta kemur til góða. Gísli Marteinn fældist þó allavega.

IMG 4179Tjaldur á steini.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband