Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

1274 - Icesave í síðasta sinn

Alþingi Íslendinga setur sífellt ofan. Framkoma þess í garð níumenninganna er fyrir neðan allar hellur. Líklegt er að forseti landsins sendi Icesave-málið enn einu sinni í dóm fólksins í landinu. Ekki er trúlegt að úrslit málsins verði jafn afgerandi og fyrir ári síðan. Þó eru allar líkur á að lögin verði felld. 

Vel getur verið að stuðningsmenn laganna reynist hafa rétt fyrir sér og í framtíðinni komi í ljós að betra hefði verið að samþykkja þann samning sem fyrir liggur. Við því er samt ekkert að gera. Illa hefur verið haldið á þessu máli frá upphafi og umfjöllun Alþingis hefur orðið til ills eins. Punkturinn yfir i-ið verður síðan settur ef Alþingi tekst að koma í veg fyrir (með aðstoð hæstaréttar) að stjórnlagaþing verði haldið.

Mun meira loft er yfirleitt í þeim mönnum sem litlir eru vexti en þeim sem stærri eru. Maður einn lítill sem búsettur er á Selfossi stundar það að senda fólki illskiljanlegar tilkynningar og hneykslast svo alveg niður í tær ef þær eru ekki skildar á þann hátt sem honum líkar best.

Ef fólk skilur t.d. ekki undireins og hindrunarlaust að skammstöfunin EHL GÞ (með pínulitlum stöfum úti í horni) þýðir „Eignarhluti gerðarþola," er því ekki viðbjargandi að áliti Lilla.

Einhverjir krakkar gefa út tískublaðið „Nude". Blaðið er vel gert tækilega og af talsverðum metnaði. Íslenskt er það þó nafnið á því bendi alls ekki til þess.

Auglýsing var frá þessu blaði á mbl.is um daginn og ég klikkaði á hana af rælni. Annars mundi ég alls ekki vita að þetta blað væri til.

Furðulegt er að blað sem þetta skuli ekki geta fundið betra nafn. Vel hefði verið hægt að finna alþjóðlegt nafn sem bæði hefði skilist á ensku og íslensku.

En enskt skal það umfram allt vera. Ég skil bara ekki svona lagað. Heldur fólk virkilega að enskumælandi fólk fari að læra íslensku bara til að geta lesið blaðið. Mér finnst næstum skiljanlegt að búðareigendur skuli gjarnan vilja nota ensk nöfn á búðirnar sínar. Þar skiptir tungumálið e.t.v. ekki miklu máli.

IMG 4331Útsýnið af svölunum hjá okkur á Tropical Playa. Ekkert sérstakt en sjórinn sést þó.


1273 - Hálftími hálfvitanna

Hálftími hálfvitanna. Jónas Kristjánsson hefur kallað upphaf þingfunda þessu nafni og það á vel við. Mér finnst að forseti þingsins ætti að slá þingmennina í hausinn með fundarhamrinum frekar en að dangla bara í bjölluna þegar þeir eru með öllu ómálefnalegir og tala um eitthvað allt annað en þeir þykjast vera að tala um. Einkennilegt að þeir skuli aldrei vitkast.

Landsbyggðarmenn eru ekkert endilega samkvæmari sjálfum sér en þeir sem á höfuðborgarsvæðinu búa. Oft er sagt að það komi fleirum við en Reykvíkingum hvar Reykjavíkurflugvöllur sé og er það orð að sönnu. En kemur íbúum höfuðborgarsvæðisins ekkert við þó Blönduósbúar lengi hringveginn um fjórtán kílómetra að óþörfu?

Að því leyti er verra að ganga um stígana hér í Kópavogi en sunnar á hnettinum að hér er oft mun hálla. Datt um daginn á gangstétt hérna og uppgötvaði nokkru seinna að húslyklarnir og síminn voru ekki lengur í vasa mínum. Sneri við og þá lá þetta allt á gangstéttinni og beið eftir að verða tekið til handargagns. Þegar snjór er yfir öllu er líka stundum fátt um myndefni. Það er samt allt í lagi því ég tók mikið af myndum á Tenerife og mun demba þeim yfir þá sem asnast hingað inn.

Fyrirsögnina má misskilja en ef einhver er hálftíma að lesa bloggið mitt þá er hann ansi stirðlæs. Man eftir að hafa lesið eitthvert blað til enda á lestrarprófi í barnaskóla og þar var umsögnin sú að ég væri að verða læs. Vissi vel að ég var fluglæs og ekki jók þessi augljósa villa álit mitt á lestrar-hraða-prófunum sem þá tíðkuðust.

Þó sífellt sé verið að fullyrða annað þá held ég að hjól atvinnulífsins snúist þessa dagana. Loðnubræðsluhjólin halda a.m.k. áfram að snúast. Finn til með bræðslumannagreyunum sem neyddust til að hætta við verkfallið sitt þó þeir hefður ekkert upp úr því. Næst reyna þeir vonandi að ná betri samstöðu. Held nefnilega að það hafi verið hún sem bilaði. Það er tilgangslaust að fara í verkfall ef ekki gera það allir.

Er sammála Jónasi Kristjánssyni um dóminn yfir níumenningunum. Hann er dálítið úti á túni. Svona mælingar hjá dómstólum til að reyna að friða bæði sækjendur og verjendur eru stundum skelfing asnalegar. Þó ekki séu neinir arfavitlausir útaf þessu eru heldur engir ánægðir.

IMG 4324Santiago del Teide. Þar borðuðum við og heststyttan sú arna var helsta kennileitið.


1272 - Þórbergur Þórðarson

Er ekki aumingjaskapur Þórbergs Þórðarsonar í byrjun tuttugustu aldarinnar í Reykjavík líkur sulti Knut Hamsuns í Kristjaníu? Mér finnst það. Máttleysi þeirra er yfirþyrmandi. Þurfa þá öll skáld og rithöfundar að vera sem mest svöng og úrkula allrar vonar? Efast um það. Halldór Guðjónsson frá Laxnesi þurfti t.d. aldrei að dýfa einum fingri í kalt vatn metamorphically speaking. Geta þá allir orðið skáld? Jafnvel þó þeir borði rjómaís og ruslfæði? Já, það held ég. Meðan lífsandi noprar í einum skáldkroppi þá er von til þess að listaverkin komist útúr því fangelsi.

Er ég þá skáld? Það er aftur meira spursmál. Sumir hafa þetta bara í sér og það kemur í ljós við réttar aðstæður. Hvort þær aðstæður eru sultur og vosbúð eða ruslfæði og rjómi er ekki hægt að sjá fyrirfram. Er einhver vandi að blogga fjandann ráðalausan? Líklega ekki fyrst ég get það. En er bloggið einhvers virði? Kannski. Öll skrif eru einhvers virði jafnvel þó léleg séu. Í versta falli leiða þau í ljós mikið og viðvarandi hæfileikaleysi.

Já, ég verð að vekja athygli á mínum hæfileikum. Ekki gera aðrir það. Er ég ekki bara nokkuð góður bloggari? Mér finnst það. Ef ég get teygt lopann á aðra blaðsíðu er Björninn unninn. Hvaða Björn? Bara einhver björn. Af hverju er það? Nú, ég hef bara ákveðið það. Hæfileg blogglengd er ein word-blaðsíða ef miðað er við Times New Roman og 14 punkta. Minna er aumingjaskapur og meira er skvaldur og bull.

Er þá ekki bara hægt að hafa greinaskilin sem flest og orðin milli þeirra sem allra fæst? Jú, auðvitað. Samtöl með gæsalöppum og öllu er auðveldast að skrifa. Það hef ég sannreynt. En öllu má samt ofgera. Ekki get ég haft öll blogg þannig. Hver segir að þú þurfir að blogga daglega? Nú, ég sjálfur. Ekki eru aðrir að biðja um þetta. Fréttahugleiðingar eru fásinna. Nær er manns eigið tilfinningalíf. Hver hefur gaman af að lesa um sömu fréttina átján sinnum? Þá er meira gaman að fá að vita hvers vegna Þórbergur var alltaf svona svangur.

Já, ég er að lesa um þessar mundir bókina sem Pétur skrifaði um ÞÞ í fátæktarlandi. Tvennt er það sem hefur alla tíð heillað mig varðandi ÞÞ og það eru lífsreglurnar og frásögnin af því þegar hann fór að gera hitt í kirkjugarðinum. Ef Þórbergur hefði ekki verið svona hjátrúarfullur og haft einsýni Gunnars Gunnarssonar og peningana Kiljans hefði hann orðið enn frægari. Mælingaráráttan og dellutímabilin hefðu bara verið til bóta.

Hvernig á að halda athygli lesandans þannig að hann haldi áfram að lesa allt til enda. Í fyrsta lagi með því að hafa skrifin stutt og líka þarf að hafa þau áhugaverð. Það fyrra er auðvelt en hið seinna ekki og þar liggur hundurinn grafinn.

Gallinn við bloggreglur varðandi fontastærð og lengd er sá að þær geta verið hamlandi. Svo mikið getur stuðið verið að hægt væri að halda áfram endalaust ef plássið leyfði. Á hinn bóginn getur maður líka lent í því að geta ekki látið sér neitt markvert detta í hug. Teygt lopann semsagt þangað til hann slitnar. Það eru eiginlega verri örlög en hitt.

 Ekki er lengur friður fyrir helvítis Nígeríubréfunum á fésbókinni. Hingað til hafa Topplistinn og Gassi verið helstu spellvirkjarnir í fésbókarpóstinum mínum en nú er því víst lokið. Þetta bréf barst mér nýlega:

Usman Morgan 15. febrúar kl. 15:57 Tilkynna

Dear Sæmundur Bjarnason,

I would like you to indicate your interest for a bank transfer of $8.5 Million dollars left behind by my late client Engr. K. H. Bjarnason, with a bank here in my country Lome-Togo West Africa. So I need this fund to be release and transferred into your bank account.

Our sharing ratio stands 40% for you and 60% for me. So, kindly contact me at (usman.morgan@hotmail.com) for full details.

If you are interested kindly call me through my private telephone number below for an oral clarification....00228-852-68-05.

So, kindly forward your e-mail address and telephone number to me at (usman.morgan@hotmail.com) to enable me to send the full details to you via your e-mail box for your better understanding.

Forward your E- mail address......... and Mobile number..........to me at (usman.morgan@hotmail.com)

Waiting to hear from you urgently.

Regards.

Barrister. Usman Morgan Esq.
00228-852-68-05

Netfangið mitt á Snerpu hefur lengi verið undirlagt þessum ósköpum með þeim afleiðingum að ég nenni ekki að fara þangað nema öðru hvoru til að skoða póstinn minn. Þá byrja ég jafnan á því að henda Nígeríubréfum og öðrum ófögnuði út. Nú er þetta semsagt komið á fésbókina og kannski verð ég að fara að stytta veru mína þar. Þessir Nígeríubarristerar væru vísir til að athugasemdast hér á Moggablogginu mínu ef þeir gætu það.

Nú er ég búinn að brjóta allar mínar reglur um blogglengd en við því er lítið að gera. Ég er löngu hættur að geyma þangað til seinna það sem mér finnst eiga erindi á bloggið því mér leggst alltaf eitthvað til og auðvitað væri best að hafa bloggin ekki svona óralöng.

IMG 4298Þessi mynd er frá Masca-þorpi á Tenerife. Já, göturnar þar eru brattar og leiðin þangað engu lík. Íbúar þar föttuðu ekki fyrr en eftir þrjátíu ár að Spánverjar voru búnir að leggja Kanaríeyjar undir sig.


1271 - Avatar

Finnst alltaf dálítið vitlaust þegar verið er að jamla um að ekki megi gefa Afríkubúum neitt sem mögulega eyðileggur „business" fátækra landa þeirra. Þetta er í raun sama röksemdin og hljómplötuframleiðendur nota þegar þeir eru að reikna út hve miklu þeir tapa vegna sjóræningjaútgáfu í heiminum. Er nokkur vissa fyrir því að sveltandi Afríkubúar kaupi úlpu eða bol af fátækum frænda sínum þó þeim standi það til boða? Hjálparstarfsmennirnir sem selja skyrturnar á markaðinn í Addis Ababa hafa þó einhvern ávinning af gjöfunum.

Egill Bjarnason (Austurlandaegill) frændi minn er á ferð um Senegal þessa dagana. Gaman að fylgjast með blogginu hans.

Egill sparar orðin
enda nokkuð dýr.
Um Afríku ég elti hann.
Eyði samt ekki neinu
og ekki er keyrt á hjólið mitt.
Ég bara ét og sef.

Yfirleitt er ég ekkert feiminn við að vera öðruvísi en aðrir. Eins og margir bloggarar er ég undir þá sök seldur að fullyrða oft um hluti sem ég hef lítið vit á. Eitt slíkt er hjálparstarf í Afríku. Á því hef ég litla þekkingu og hef aldrei til þeirrar heimsálfu komið. Samt hef ég skoðanir á öllu mögulegu. Læt þær ekkert endilega í ljós en þær eru þarna að veltast um í heilagrautnum.

Af hverju ættu vandalausir að leggja það á sig að lesa bloggið mitt? Ég er ekkert að ætlast til þess en svo virðist sem einhverjir hafi vanið sig á þessi ósköp. Þeim er ekki viðbjargandi og mér auðvitað ekki heldur.

Það er tungunni tamast sem er hjartanu kærast. Þegar ég yrki er það gjarnan um Facebook.

Fésbókin er ferlegt raus
og fáránlega snúið.
Orðin standa öll á haus
og alltof mikið búið.

Horfði á kvikmyndina „Avatar" um daginn. Satt að segja fannst mér hún fyrst og fremst asnaleg. Jú jú, hún er um margt ágætlega tekin og vel gerð að mörgu leyti en með ólíkindum einfeldningsleg. Minnisstæð verður hún ekki. Oddmjóu eyrun, halarnir og ljósálfarnir eru skelfilega ofnotaðir áhersluþættir í myndum af þessu tagi. Undarlegt hve mikið lof hún hefur fengið. Get vel fallist á að ef vel tekst til og allar listgreinar leggja saman getur vel gerð kvikmynd orðið eftirminnileg. Þessi kvikmynd hefði vel getað orðið það því mörg atriði voru í ágætu lagi þó önnur væru hrikalega misheppnuð.

IMG 4275Garachico.


1270 - Morgunblaðið

Þessa dagana les ég Morgunblaðið talsvert því við fáum það ókeypis. Tveir aðilar skilst mér að hafi látið Herdísi á neðri hæðinni fá gjafaáskrift að blaðinu og hún lætur okkur njóta góðs af því. Eflaust gengur erfiðlega núorðið að selja Morgunblaðið ekki síður en önnur blöð. Líka getur verið að einhverskonar fjölmiðlakönnun sé í gangi. Hvað veit ég? 

Um daginn las ég grein í Morgunblaðinu eftir einhvern gáfumanninn og þar var hann að fjalla um göngustíga og hjólreiðar. Sagði meðal annars að hjólreiðabrautirnar á göngustígunum hér í Fossvogi væru ýmist hægra eða vinstra megin. Ég á erfitt með að þola heimsku af þessu tagi og get helst ekki haldið áfram að lesa þegar ég sé svona lagað. Samkvæmt mínum skilningi hefur hægri og vinstri enga merkingu þegar hægt er að fara í báðar áttir. Kannski hefur þetta samt verið ágætis grein en að taka til orða á þennan hátt finnst mér benda til vanhugsunar og það eyðileggur mikið fyrir mér.

Merkilegt finnst mér að menn skuli enn vera að deila um stjórnlagaþing. Auðvitað er ekkert skrítið að einhverjir skuli vera á móti því að halda slíkt þing. En að hamast við að finna því allt til foráttu núna og skrifa blaðagreinar um alla hugsanlega vankanta þess finnst mér ansi seint í rassinn gripið.

Samþykkt var á alþingi með meirihluta atkvæða að halda stjórnlagaþing. Þó hæstiréttur hafi úrskurðað að ekki hafi verið löglega staðið að kosningu til þess er ekkert sem segir að þingið sjálft sé að engu hafandi. Að sjálfhætt sé við þingið af þessum sökum er fráleitt. Þannig virðast samt sumir hugsa. Alþingi ræður því að öllu leyti hvernig greitt verður úr þessu máli. Allt kemur til greina. Jafnvel að hætta alveg við þingið. Þar með væri alþingi reyndar að segja að fyrri samþykkt þess hafi bara verið plat.

IMG 4265Styttan hjá Garachico. Um hana er löng saga og merkileg.


1269 - Félag frístundamálara

Fór í gærkvöldi á málverkasýningu í Víkinni - Sjóminjasafninu við Grandagarð í Reykjavík. Þessi sýning er á vegum félags frístundamálara. Skilst að það hafi einmitt verið svokölluð safnanótt í gærkvöldi og fólki boðið uppá að flækjast milli safna með strætó. Sá einn slíkan en fór ekkert með honum því ég var sjálfur á bíl.

Ástæðan fyrir því að ég var þarna var einkum sú að konan mín á tvö verk á sýningunni. Annars vegar er um að ræða olíumálverk (með vísum) af bátsflaki og hins vegar vatnslitamynd af tveimur ýsum. Þarna var margt athyglisvert að sjá. Bæði á málverkasýningunni sem var á neðri hæðinni og svo líka á efri hæðinni þar sem er sjóminjasafnið sjálft. Skora hérmeð á alla sem þetta lesa að fara á þessa sýningu. Auk þess að vera opin þegar safnið er opið skilst mér að hún verði líka opin um helgar næsta mánuðinn eða svo.

Nú er auglýsingatíminn liðinn og ég get farið að ausa úr minningasjóðnum og sletta úr fordómapokanum.

Hér segir frá ferðalagi sem mér af einhverjum ástæðum kom allt í einu í hug.

Ein af þeim ferðum sem ég fór á unglingsárunum er mér ofar í huga en margar aðrar. Ekki man ég með neinni vissu hve gamall ég var þegar þessi ferð var farin en hvolpavitið hefur ekki verið komið í mig þá. En nánar um það seinna.

Það var Guðmundur Wium sem var fararstjóri í þessari ferð og líklega var hún farin um páskana. Man vel að það var snjór yfir öllu. Líklega höfum við verið sjö eða átta í ferðinni og Guðmundur elstur okkar. Við hinir höfum líklega allir verið jafnaldra. Þarna gætu Atli Stefánsson, Jóhann Ragnarsson, Lárus Kistjánsson og fleiri hafa verið auk mín. Ég man það bara ekki.

Í mínum huga hefst ferðin í skálanum í Klambragili innst í Reykjadal ofan Hveragerðis. Hvernig við komumst þangað man ég ekki enda fórum við oftsinnis þangað og frá skálanum þar í gönguferðir um nágrennið.

Eins og fyrr segir var þessi ferð farin að vetrarlagi og kvöldið fyrir ferðina sjálfa er mér minnisstætt því þegar við höfðum fengið okkur heitt kakó sem gert var með þeim einfalda hætti að hveravatni var blandað saman við kakóduft háttuðum við og fórum ofan í svefnpokana okkar.

Kalt var í skálanum. Eins og venjulega var hitunarkerfið þar í ólagi og því látið loga á einum prímusi á gólfinu dálítið frá kojunum. Þegar allir voru komnir í ró þaut Guðmundur upp úr sínum svefnpoka til að slökkva á prímusnum. Ákvað þó að nota hann áður til að hlýja sér aðeins. Stillti sér því upp þar sem hitinn var mestur með fæturna sitt hvoru megin við prímusinn. Hann var einungis klæddur hvítum nærfötum og hitinn lék því um fætur hans og þangað sem hans var víst mest þörf.

Tekur þá ekki prímusinn allt í einu uppá því að leika eldvörpu. Logandi eldtungan stóð semsagt uppúr honum í háaloft. Guðmundi brá auðvitað óskaplega en tókst þó að slökkva á prímusnum og brenndist ekki. Fórum við síðan að sofa en minnisstætt er þetta atvik.

Í orði kveðnu a.m.k. var þessi ferð á vegum Skátafélags Hveragerðis og morguninn eftir var ákveðið að fara í heimsókn til skáta sem við vissum að dvöldu í skálunum undir Skarðsmýrarfjalli. Guðmundur fullyrti að þetta væri auðveld leið og fljótfarin en við hinir höfðum aldrei farið þetta áður en vorum því samt síður en svo andsnúnir.

Mig minnir endilega að skálar Skátafélags Reykjavíkur undir hlíðum Skarðsmýrarfjalls hafi á þessum tíma verið þrír en man bara nöfnin á tveimur þeirra. Jötunheimar og Þrymheimar hétu þeir.

Var nú lagt af stað í þessa ferð og fyrst haldið uppúr Klambragilinu. Síðan tók við ferð sem okkur yngstu skátunum a.m.k. þótti óhemjulöng. Vinsælasta setningin hjá okkur var sú að skálarnir væru „hinum megin við hitt fjallið" og fékk sú setning sérstaka merkingu í mínum huga sem ekki hefur yfirgefið mig síðan.

Um síðir komumst við þó á leiðarenda og var vel tekið. Líklega var þar um að ræða skálann Jötunheima. Reykjavíkurskátunum fannst það vel af sér vikið hjá okkur að hafa komið gangandi alla leið úr Reykjadal og var ekki laust við að við værum svolítið kotrosknir yfir því.

Tvennt var það sem mér þótti merkilegast í Jötunheimum. Í fyrsta lagi lærðum við þar að spila  borðtennis og var það afburða skemmtilegt. Litlum borðum sem voru fimm talsins eða svo var raðað saman á miðju gólfi og lágt net haft á borðinu í miðjunni. Síðan var tenniskúlan slegin fram og aftur með þar til gerðum spöðum. Þessu þarf auðvitað ekki að lýsa nánar fyrir þeim sem einhvern tíma hafa spilað borðtennis. Verst var að bakvið annan þátttakandann logaði eldur á arni og ef kúlan lenti þar þurfti að vera vera handfljótur að sækja hana ef hún átti ekki að fuðra upp í eldinum. Oftast tókst það samt en ekki alltaf. Sem betur fór voru allmargar kúlur meðferðis svo ekki þurfti að hætta leik þó ein kúla fuðraði upp.

Hitt atriðið sem vakti furðu mína var að nokkrir eldri skátar lágu uppi í rúmi í faðmlögum við stelpur. Slíkt hefði mér aldrei dottið í hug því stelpur voru eitthvað sem ég hafði andstyggð á um þetta leyti.

Eftir nokkurra klukkutíma dvöl þarna og talsverða kakódrykkju auk tennisleiksins héldum við síðan heim á leið. Sú ferð er mér ekki á nokkurn hátt minnisstæð hvernig sem á því stendur.

Harpa Hreinsdóttir fer sem logi yfir akur um bloggheima um þessar mundir. Hún bloggar, les blogg (þar á meðal mitt - held ég), skrifar athugasemdir hér og þar, fésbókast heil ósköp o.s.frv. Þetta finnst mér a.m.k. Er eitthvað rangt við það? Nei, síður en svo. Svona vildi ég einmitt vera. Athafnasemin á samt ekki vel við mig. Þykist alltaf vera betri og merkilegri en aðrir.

Af hverju er ég að tala um þetta? Jú, hún er gift systursyni mínum og er lengi búin að vera bloggmeistari fjölskyldunnar. Öfunda ég hana af því? Já, svolítið. Reyni að blogga sjálfur sem mest. Ferst það stundum bærilega. Held ég. Hún er einn af þeim bloggurum sem ég hef gegnum árin tekið mér hvað mest til fyrirmyndar. Finnst hún samt oft of persónuleg og dómhörð. Bloggar samt ekki á hverjum degi eins og ég er að rembast við að gera. Á heldur ekki gott með það því hún er alls ekki heilsuhraust.

IMG 4255Garachico-bær á Tenerife.


1268 - Ha, erum við ekki á leiðinni til Tyrklands?

Í flugvélinni til Tenerife átti eftirfarandi samtal sér stað:

Maður: (Nývaknaður og dálítið útúr veröldinni).

Kona: (Sem hefur mikla ánægju af að ræða við alla sem hún sér) Jæja, og hvert ert þú að fara? (átti sjálfsagt við hvort hann væri að fara til Tenerife eða Gran Canarie)

Maður: (Sá líklega í hendi sér hvernig málið var vaxið og gat ekki stillt sig um að stríða henni svolítið.) Ha, erum við ekki á leiðinni til Tyrklands?

Hann fór svo auðvitað að hlægja þegar hann sá að konan tók það alvarlega sem hann sagði.

Svipað kom fyrir mig á hótelinu okkar þegar ég heyrði til fjölskyldu sem talaði sín á milli á íslensku:

Ég: Eruð þið frá Íslandi?

Maðurinn: Nei, við eru hérna skal ég segja þér frá....

Hann komst ekki lengra því ég sá hvað spuringin var asnaleg og fór að tala um eitthvað annað.

Sem betur fer kemur eitthvað skrýtið og skemmtilegt fyrir mann öðru hvoru. Ekki er hægt að vera í vondu skapi alla tíð. Geðvonska er hættulegasti sjúkdómur í heimi og sá sem leiðir flesta til dauða. Allir eru nefnilega geðvondir einhverntíma og lenda að lokum í gröfinni.

Mikið er fjallað um dóminn um fjármál Eiðs Smára. Mál af þessu tagi eru alltaf vandmeðfarin. Sagt hefur verið að með þessu verði allir útrásarvíkingarnir verndaðir fyrir umfjöllum um peningamál. Það er augljós oftúlkun. Hinsvegar er í mínum huga ekki sjálfgefið að fréttastjóri eða blaðamaður eigi að hafa meiri rétt til að ákveða hvað birta skuli en dómari sem væntanlega stendur ábyrgur gerða sinn og verður að rökstyðja þær.

Spurningar um hvað megi birta, hvar, hvenær og hvernig halda alltaf áfram að vera til. Þessi mál er ekki hægt að leysa í eitt skipti fyrir öll. Líka er óleyst með öllu hvað er fjölmiðill og hvað ekki. Hvernig ber að haga sér á netinu verður alltaf álitamál ekki síður en hvernig á að haga sér utan þess.

Helvítis hundseyrun. Ég er slæmur með það að setja hundseyru á bækur sem ég er að lesa ef ég þarf af einhverjum ástæðum að leggja þær frá mér. Sem betur fer er ég oftast að lesa bókasafnsbækur og ég er með öllu hættur að vorkenna þeim. Hundseyrað má svo auðvitað taka af aftur en bókin líður fyrir þetta. Líka fara bækur gjarnan illa á því að vera lagðar á grúfu. Já, það er margt að varast.

IMG 4240Klettar í Teide-þjóðgarðinum.


1267 - Óðamála í svefni

Nú er illt í efni.
Hann varð óðamála í svefni.

Segi svona. Sé að ég á alveg eftir að semja bloggið til að setja upp seinna í kvöld. Samt er veðrið farið að versna og miðnættið að nálgast.

Sennilega er mér að fara fram í blogginu þó Moggablogginu fari aftur. Áður fyrr var ég nokkuð ánægður með að fá svona 30-40 heimsóknir á dag og þá þurfti svona 350 vikuheimsóknir til að komast á 400 listann. Nú finnst mér ég þurfa svona eitt hundrað á dag eða fleiri og með 100 vikuheimsóknir er maður viss um að komast á sama lista.

Einn allra vinsælasti bloggarinn hér á Moggablogginu er Páll Vilhjálmsson. Hann er mikill íhaldsmaður og besservisser og bloggar alltaf fremur stutt. Líklega oft samt. Ekki les ég innlegg hans alltaf en hann er alveg laus við málalengingar. Líkur Jónasi Kristjánssyni að því leyti. Báðir finnst mér þeir þó vera óhóflega pólitískir. Er að hugsa um að vera stuttorður mjög því ég hef ekkert að segja.

IMG 4225Klettar í Teide-þjóðgarðinum. Eins og sjá má er ekkert hlýtt.


1266 - Bloggskrif og önnur skrif

Auðvitað er hægt að fjalla um allt og miða allt við pólitískar forsendur. Mér bara leiðist það. Ánægðastur af öllu er ég með það að sumir virðast álíta mig hægrisinnaðan mjög en aðrir vinstrisinnaðan. Sjálfum finnst mér ég bara vera ég sjálfur. 

Laxdal fjallar um bakkelsi Líndalsins og umfjöllun annarra um umfjöllun hans. Ef Sigurður Líndal bakkar á bíl og reynir að koma ábyrgðinni af sér þá er það leiðindamál en ekki heimssögulegt. DV er ekkert betra en aðrir fjölmiðlar með að reyna að koma sinni heimspekilegu stjórnmálaskoðun á framfæri. Það gera allir fjölmiðlar. Erfiðast er að átta sig á Rúvinu því þar virðast hagsmunirnir vera svo blandaðir. Allir fjölmiðlar og jafnvel bloggarar líka eru meira og minna skoðaðir í pólitísku ljósi. Þannig er það bara og lítið við því að segja.

Frétt er bara frétt ef fréttastjórinn ákveður að svo sé. Hann er samt mannlegur og fer eftir einhverri pólitískri heimspeki sem búið er að innprenta honum. Menn geta Jónasast eins og þeir vilja og haldið því fram að hitt og þetta sé ómengaður sannleikur sem nauðsynlega þurfi að komast á framfæri. Þannig er það samt ekki.

Með fésbókarvitleysunni geta allir þóst vera fréttastjórar. Gallinn er bara sá að flestir hafa svo lítinn lesendahóp að fréttastjóranafnbótin gagnast afar lítið. Þegar best tekst til getur fésbókin (og twitter sennilega líka) þó valdið því að það sem áður hefði verið þaggað niður kemst í hámæli. Þannig getur netfrelsið og skvaldrið allt farið að hafa pólitíska þýðingu.

Sumir bloggarar hafa tamið sér að setja allt (eða flest) sem þeir skrifa á marga staði. T.d. Eyjuna og Moggabloggið svo eitthvað sé nefnt. Sjálfur er ég ekki alveg laus við þessa áráttu. Þannig set ég oft bloggið mitt, eða link á það, líka á fésbókina. Mest er það vegna þess hve auðvelt og hampalítið það er. Tel mér a.m.k. trú um það. Kannski vil ég samt bara að sem flestir lesi það sem ég skrifa. Mér finnst það nefnilega oft ansi gott hjá mér.

Nú verð ég að koma mér að því að skipta út ljósaperunni sem sprakk hér áðan og hætta þessu rausi.

IMG 4216Þetta er Teide-fjall. Sagt vera allhátt. Held að þetta sé snjór allra efst.


1265 - Malað í mélkisustíl

Þó ég sé Evrópusinni kallaður (a.m.k. af sumum) sé ég enga leið til þess að gjaldeyrishöft sú sem komið hefur verið á hér (til bráðabirgða) hverfi bara með því að óska sér þess. Auðvitað þarf að losa sig útúr þeim en óhjákvæmilegt er að það tekur tíma. Gjaldeyrishöftin eiga að sjálfsögðu að auðvelda okkur inngönguna í ESB og munu gera það. Hef samt trú á að ýmislegt eigi eftir að gerast hér á landi áður en svo verður.

Mikið er fjargviðrast yfir því hvað Moggabloggið sé lélegt orðið. Af þeim bloggurum sem ég les að staðaldri eru Gísli Ásgeirsson og Harpa Hreinsdóttir þar fremst í flokki. Vissulega hefur Moggablogginu hrakað, vinsældir þess minnkað og sumir bloggarar farið annað. Einkum á Eyjuna, sem er engin furða.

Mín skoðun er samt að alhæfingar af þessu tagi séu tómir fordómar. Moggabloggið er ekkert lélegra en önnur bloggsvæði og tæknimenn þar standa sig ágætlega. Að vera með sitt eigið bloggsvæði og engum háður er auðvitað gott útaf fyrir sig en getur verið óbærileg fyrirhöfn. Enn verða menn saltvondir ef þeim er úthýst hér á Moggablogginu og af einhverju hlýtur það að stafa.

Líka er blogg-gáttinni hallmælt mjög af sumum og víst er að allmargir virðast hafa farið þangað á röngum forsendum og íþróttafréttir í blöðum eru þvínær endalausar og kaffæra stundum alveg alvöru fréttir. Samantektum góðra bloggara á sínum uppáhaldsbloggurum er oft ágætt að fylgja til að halda áfram rölti sínu um bloggheima. Þeir sem tímabundnir eru verða að finna sínar eigin tímasparnaðaraðferðir og fordómar í garð ákveðinna bloggsvæða hjálpa þar ekki til.

Nú er ég kominn í gamla gírinn. Farinn að blogga einu sinni á dag og ekkert þar framyfir. Það á ekki við mig að blogga alltof oft. Pólitíkin er óðum að færast í sitt venjulega horf. Ekki líður á löngu áður en Hrunið sjálft verður orðið sagnfræði. Enn eru menn þó að tala í alvöru um stjórnlagaþing. Eins og það sé ekki búið að drepa það mál. Hef enga trú á að hæstiréttur fari að éta allt ofan í sig. Hvort sem umhugsunin verður ein mínúta eða ein vika þá verður útkoman sú sama.

IMG 4190Allt orðið rautt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband