Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

1726 - Er fésbókin óttalega 2007?

Sú djúphugsaða speki birtist nýlega einhvers staðar á netinu að eftir því sem maður borðaði meira því feitari yrði maður. Semsagt meira að marka það hve mikið væri borðað en hve hreyfingin væri mikil. Slæm tíðindi fyrir líkamsræktarstöðvarnar og jafnvel stórmarkaðina líka. Brennslan er ekki vitund hraðari hjá þeim sem hreyfa sig mikið. Ávinningurinn af skokkinu núllast semsagt út með rjómatertunni (eða kálblöðunum) sem maður fær sér á eftir. Að neita sér um gotteríið er lykilatriði. Áður fyrr höfðu bara svo fáir efni á að éta á sig gat.

Mér finnst einna neikvæðast við Olympíuleikana að þeir skuli eiga sig sjálfir. Spillingin sem þrífst í skjóli þeirra er ótrúlega mikil. Einstakar ríkisstjórnir ráða þar engu. Setningarathöfnin er orðin alltof löng og leiðinleg. Kannski ég líka. Sennilega skemmta sjónvarpstökumennirnir sér best á OL því þeir eru þó á kaupi. Góðir samt.

Fésbókin er að mestu orðin einhver „kjaftavettvangur“ og ekkert verri fyrir það. Þangað er fyrirhafnarlítið að skjótast til að spjalla við kunningjana ef þeir skyldu vera við tölvu á þeim tíma. Sem þeir eru oftast. En skelfing er þetta „overfladiskt“. Myndbirtingar, tilvísanir og almenn leiðindi eru að verða allsráðandi. Bloggið er líka að breytast í eitthvert samfellt tuð. Og ég tek þátt í því. (Setningar mega ekki byrja á „og“.)

Það er langauðveldast að blogga þannig að maður vaði úr einu í annað eins og ég geri yfirleitt. Málæðið má þó ekki verða of yfirþyrmandi. Ekki þarf að segja frá neinu. Sögur eru leiðinlegar, nema þær séu skemmtilegar. Þá eru þær ekki leiðinlegar.

Baggalútshúmor er bráðskemmtilegur. Sporgöngumenn þeirra eru aftur á móti hundleiðinlegir. Svo leiðinlegir að sumir trúa þeim!! Nefni engin nöfn. Gæti verið hættulegt.

Vel er hægt að eyða tímanum þessa dagana við sjónvarp frá Ólympíuleikunum. Að hugsa sér samt hve miklum peningum er eytt í þessi ósköp. En maður ræður svosem engu um það. Eins gott að horfa á þetta fyrst maður getur.

Einu sinni fannst manni að maður þyrfti að sjá allar íslenskar kvikmyndir og „Stella í orlofi“ var þar á meðal. Af einhverjum ástæðum er hún minnisstæðari en margar aðrar. Kannski horfi ég á hana í sjónvarpinu í kvöld.

IMG 0977Ég er bara að hvíla mig aðeins.


1725 - Núpó á Fjöllum o.fl.

Er eiginlega kominn í hálfgerð vandræði varðandi gömlu myndirnar. Dálítið stefnulaust að birta bara einhverjar slíkar. Ætla að íhuga málið svolítið betur. Á engar alveg tilbúnar eins og er.

Mikið er óskapast útaf Núpó og Grímsstöðum á Fjöllum. Hef sennilega sjálfur skrifað eitthvað um það mál. Sumum finnst þó alls ekki nóg fjallað um það. Í mínum augum er Núpó ósköp venjulegur útrásarvíkingur. (Að vísu kínverskur). Hvað gert verður við landið kemur svo bara í ljós. Braskað verður með það ef hægt er. Einhverjir græða og einhverjir tapa. Hvort framkvæmdir verða þar eða ekki fer bara eftir aðstæðum í framtíðinni. Hvort áhrif Núpós (og kínversku stjórnarinnar) á íslenska löggjöf verða mikil eða lítil kemur svo bara í ljós og verður sennilega á endanum pólitísk braskákvörðun.  

Eftirlauna- lífeyrissjóðs- og ellistyrksmál öll eru óhóflega flókin. Samspil skatta- tryggingar- atvinnuleysismála, lífeyrissjóða og banka er ekki auðvelt reikna út með vissu og auk þess þarf að gera ráð fyrir ýmsu og allskonar breytingum svo erfitt er að sjá fyrir hvernig best er að haga sér varðandi þau mál öll. Ekki dugir að fljóta sofandi að feigðarósi því margs konar réttindum (jafnvel flestum) verður að bera sig eftir. Nú er ég að verða sjötugur og ekki seinna vænna fyrir mig að reyna að gera mér grein fyrir þessum málum öllum.

Fór á bókasafnið í dag og fékk lánaðar ýmsar bækur. Meðal annarra „Truntusól“ eftir Sigurð Guðjónsson. Held jafnvel að ég hafi ekki lesið þá bók á sínum tíma. Veit samt um hvað hún fjallar.

Vissulega er hægt að setja saman heilu bækurnar og kvikmyndirnar um tómt rugl. Þannig er píramýdafræðinni farið og t.d. hugmyndum Eriks von Daniken um hina guðlegu geimfara. Ég trúi einfaldlega alvöru vísindamönnum, eins og Carli Sagan og Richard Dawkins, betur en þeim sem búa til sín fræði frá grunni (og leyfa engar efasemdir). Deilurnar milli stuðningsmanna þróunarkenningarinnar og sköpunarsögunnar eru þó um margt athyglisverðar. Svo enginn sem þetta les velkist í vafa, þá er ég fylgismaður þróunarkenningarinnar og styð alls ekki að þetta tvennt sé lagt að jöfnu og fái álíka mikið vægi í skólum.

Sumir sem andmæla þróunarkenningunni og syngja hjáfræðum allskonar og gervivísindum lof hafa brynjað sig með allskonar efni og mæla með hverskyns útgáfum og túlkunum á sköpunarsögunni. En hvers virði er guðstrúin og sköpunarsagan ef allar túlkanir eru jafngildar?

Þó séra Sveinn Víkingur (blessuð sé minning hans) hafi spurt með þjósti einhvern tíma í Menningarsögutíma á Bifröst hvort nokkur í bekknum tryði því í alvöru að lífið hafi orðið til fyrir einhverja tilviljun (fremur en vegna guðlegrar forsjónar) hafði ég ekki uppburði í mér þá til að andmæla honum og hefði farið mjög halloka í rökræðum um slíkt. Engu að síður var trú mín þá, hafði verið lengi og er enn, að guðræknishjalið í fólki væri oftast afskaplega innantómt og lítils virði.

Sé hægt að tala um ópíum fólksins hefur trúin verið það í gegnum tíðina. Illvirki sem framin voru í nafni kirkjunnar fyrr á öldum skipta samt afar litlu máli í dag. Ofbeldi einstaklingshyggjunnar sem kristallast í nútíma hryðjuverkum, er ekkert betra en blind fylgni við kennisetningar. Í stjórnmálum er það miðjumoðið sem er hjálpræðið. Ofbeldi af öllu tagi, hvort sem það kemur frá vinstri eða hægri er fordæmanlegt.

Með úrskurði sínum um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna má segja að hæstiréttur hafi opnað það ormabox (eða Pandórubox - eins og Ingibjörg Sólrún sagði svo eftirminnilega) sem erfitt sé að loka. Hér eftir má búast við því að allar kosningar verði kærðar til hæstaréttar hvort sem þær líkjast stjórnlagaþingskosningunum eða ekki.

IMG 0971Listsýning.


1724 - The selfish gene

Untitled Scanned 011Gamla myndin.
Bjössi enn og aftur.

Ekki varð mikið úr rokinu hér á Fossvogssvæðinu a.m.k. Það er áberandi hvað rakinn helst betur í moldinni ef sólin er ekki að glenna sig of mikið. Annars verður ekki verulega hlýtt nema sólskin sé.

En nóg um veðrið. Ríkisstjórnin situr víst ennþá og allt er við það sama í makríldeilunni. Fésbókin er meira að segja með rólegasta móti núna, enda mánudagur og lítið að gerast.

Er hugsanlegt að heimsstyrjöld sé yfirvofandi einmitt núna vegna þess að flestir þeirra sem ráða orðið málum hafa aðeins vitneskju um slík ósköp af afspurn? Ég er ekki að halda því fram að nokkur stefni viljandi að slíkum hamförum, en samt er það svo að aukin harka í samskiptum manna og hið auðvelda aðgengi að öllum upplýsingum og skrifum virðist auka hatur og misskilning milli ólíkra þjóðflokka og trúflokka. Jafnvel líka milli þjóða og þjóðarbrota.

Auðvitað er föðurlandsást eðlileg tilfinning og umhyggja fyrir sínum nánustu einnig, en það er ekki eðlilegt að gleypa við öllum þeim áróðri sem hafður er í frammi til láta þá líta út fyrir að vera sem hættulegasta og vanþróaðasta sem ólíkastir okkur eru.

Að undanförnu hef ég verið að lesa bækur Richards Dawkins „The God delusion“ og „The selfish gene“. Er það kannski hið freka eðli genanna sem ræður þessu öðru fremur? Erum við að reyna að fjarlægja ábyrgðina frá mannkyninu? Gott er að kenn Darwin greyinu um allt sem miður fer í sálarlífi fólks.

Ein stærsta von mannkynsins um að snúa af braut hjátrúar og haturs í garð þeirra sem ólíkir eru okkur sjálfum eru hin stórauknu ferðalög og samskipti á öllum sviðum.

Þó vel megi samþykkja að maðurinn sé herra jarðarinnar og beri sem slíkur ábyrgð á öllu lífi þar, fer ekki hjá því að stóra spurningin sé sú hvort fólk sé fífl eða ekki. Kjarni þeirrar spurningar er hvort maður telur sjálfan sig betri en aðra. Auðvitað finnst manni það en veit þó innst inni að svo er ekki.

Nú er kominn miðvikudagur (held ég) og rollumál í Þórsmörk að verða mál mál málanna. Bless.

IMG 0970Á einum stað í Kópavogi.


1723 - Fréttir og fótbolti

Untitled Scanned 10Gamla myndin.
Þetta er hann Smalli. (Reynir Helgason)

Hver er sterki maðurinn í ríkisstjórninni um þessar mundir? Ég held að það sé Ögmundur Jónasson. Hann er að bíða eftir rétta tækifærinu til að ganga af Steingrími dauðum (pólitískt séð) og sprengja ríkisstjórnina. Þessvegna þorir Jóhanna ekki annað en sitja og standa eins og hann vill. Lausn hennar (og Ögmundar) er að gera ekki neitt. Það endar auðvitað með þeim ósköpum að stjórnin springur. Líklega verður það í haust eða vetur og þá verður sett upp eitthvert leikrit til reyna að hræra í kjósendum.

Spádómar af þessu tagi eru oftast lítils virði. Ef þeir rætast er samt gaman að hafa kastað þeim fram.

Minntist eitthvað á Reykjavíkurflugvöll um daginn. Ríkisstjórnin (eða þeir sem réðu) ákváðu fyrir nokkru að sjóflutningar skyldu aflagðir hér við land. Vel getur svo farið að ákveðið verði (með svipuðum hætti)  að innanlandsflug verði lagt niður. Hver er þá ávinningurinn af því að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er? Enn er jafnvel rætt um að Landsspítalinn þurfi ekki nauðsynlega að vera þar sem hann er núna. Það er nefnilega þannig að allt sem ákveðið er þarf að vera í samhengi við ótalmargt annað.

Eitt sinn var ég fótboltafíkill. Níu af hverjum tíu vítaspyrnum (eða fleiri), sem teknar eru og sýndar í sjónvarpi eru ólöglegar. (Varnar eða sóknarmenn fara t.d. of fljótt af stað og innfyrir vítateiginn). Dómurum er alveg sama um það. Hversvegna?

„Karlmaður fauk við Álftavatn“ sagði í fyrirsögn á mbl.is. Í mínu ungdæmi hefði sennilega verðið sagt: „Maður datt og meiddist.“ Eflaust hefði í fréttinni verið sagt eitthvað frá rokinu og að það hefði haft áhrif á slysið. Þ.e.a.s. ef nokkuð hefði verið sagt frá því. Það er ekki víst að svo hefði verið. Nú virðist ungt fólk (jafnvel unglingar) vera látið fylla ákveðinn kvóta og fá greitt eftir uppmælingu og yfirlesturinn vera mjög lítill eða enginn.

Að mínu viti verður frétt til þannig að upplýsingarnar koma frá tveimur aðilum með sem ólíkust sjónarmið. Eftir að búið er að lesa fréttina yfir og prófarkalesa, þarf að fá reyndan mann til að lesa alla fréttina yfir og koma með athugsemdir ef þarf. Sá sem skrifar fréttina upphaflega þarf helst að vera staðkunnugur á svæðinu þar sem fréttin varð til. Fyrirsagnirnar eru síðan alveg sér kapítuli. Tíminn sem í fréttina fer má ekki vera of stuttur.

Fréttir og fyrirsagnir í fjölmiðlum hljóma oft mjög undarlega. Kannski finnst mér það bara vegna þess að þjóðfélagið er orðið breytt og ég gamall og ekki ætla ég að fjölyrða meira um þetta tiltekna atvik enda þekki ég það ekki. Á dv.is er löng frásögn af því að leigubílstjóri hafi elt einhvern mann (ekki nafngreindan einu sinni) og ætlað að taka í hann. Maðurinn ætlaði að kæra en hætti við það. Lögreglan vildi ekkert skipta sér af málinu svo maðurinn sem sagt er að leigubílstjórinn hafi elt er einn til frásagnar. Hvaða erindi eiga svona sögur í blöðin? Ég bara spyr. Mér sýnist að dv-mönnum sé uppálagt að hafa greinarnar langar og jafnvel bara frá einum aðila. Á mbl.is þurfi þær hins vegar að vera margar og þegar unglingarnir þar fara að flýta sér verða til nýyrði eins og spákonuvegur.

Sé eitthvað ekki á fésbókinni er það ekki til. Þetta virðast sumir blaðamenn álíta. Einu sinni var starfi þeirra einkum fólginn í því að fylgjast með ákveðnum bloggum en nú er það liðin tíð. Fésbókin nægir. Það eru bara einstöku fávitar, eins og ég, sem halda áfram með bloggósköpin. Þar er í tísku að skipta um vettvang á svona þriggja mánaða fresti. Fésbókin og jafnel tístið líka er að verða úrelt. Hvað kemur eininlega í staðinn? Jú, síminn, instagramið og unglinganetin. Þangað flykkist fólk víst í stórum stíl núna. Ekkert er víst enn komið að fullu í staðinn fyrir fésbókina, en hlutabréfin í henni falla stöðugt í verði. Hver veit nema á endanum verði þetta einskonar Íslensk Erfðagreining.

IMG 0964Loksins náði ég þér.


1722 - Tölvurnar taka yfir

Untitled Scanned 09Gamla myndin.
Veit ekki hvar þessi bær er. Sennilega er myndin tekin í skólaferðalagi. (1958)

Þegar ég blogga set ég greinarmerki, svosem kommur, þar sem mér sýnist og mér sýnist mjög misjafnt um það. Getur farið eftir veðri eða einhverju öðru. Áður fyrr höguðu menn sér álíka hvað snertir réttritun. Nú er samt búið að taka upp samræmda réttritun (samræmd greinarmerkjasetning er áreiðanlega líka til, þó ég sniðgangi hana) og mér hefur tekist að tileinka mér hana nokkurn vegin. (Þ.e.a.s samræmdu réttritunina sem kannski er ekkert réttari en hver önnur.).

Finnst dálítið út í hött að ráðast með offorsi á menn fyrir að fara ekki alfarið að þeim reglum. Þessar reglur eru til þess að sem fæstir láti ljós sitt skína um of. Aðalatriðið hlýtur samt að vera að menn skiljist sæmilega. Grautarleg hugsun er það versta sem ég veit.

Þórir Jökull Þorsteinsson skrifar eftirfarandi klausu á fésbókina sína:

„Það eru kannski engin stórtíðindi en í gær sá ég í fyrsta sinn að farþegi á leið um borð í flugvél á alþjóðaflugvelli lagði farsíma sinn yfir lesara í stað brottfararspjalds. Tilvera okkar mannanna orðin að rambi frá einni tölvu til annarrar. Þær virðast skilja hver aðra betur en við hverjir aðra.“

Þetta er framtíðin. Tölvurnar eru að taka yfir. Völdin fylgja þeim sem yfir þeim ráða. Þeir sem ekki lifa „tölvulífi“ verða útskúfaðir úr mannlegu samfélagi. Man hvað mér er minnisstæð gamla frásögnin um kóksjálfsalann á flugvellinum í Finnlandi, sem bara afgreiddi þá sem hringdu í hann úr farsíma.

Já, ég held að Íslendingar séu að bíða eftir sterka leiðtoganum. Davíð Oddsson sér sig sem einskonar De Gaulle Íslands og dreymir um að ná völdunum aftur. Að sumu leyti er ekki vitlaus hugmynd að einn maður ráði nokkuð miklu. Kannski ekki eins miklu og Davíð réði hérna um árið og sporin frá þeim tíma hræða vissulega. A.m.k. flesta. Sumir væru eflaust ánægðir.

Man vel eftir aumingjaskap Steingríms Hermannssonar forðum, því hér stefndi greinilega í ójafnaðarátt áður en Davíð fór í landsmálin og Steingrímur er maðurinn sem hefði getað stefnt þjóðinni í aðra átt, en áleit mikilvægara að lafa sem lengst í embætti.

Auðvitað er auðvelt að gagnrýna dauða menn og helst ekki gert. Ástandið sem hér er núna er það sem við þurfum að fást við. Tímasetning og röð kosninga skiptir verulegu máli og því hafa sjálfstæðis- og framsóknarmenn gert sér grein fyrir, en ríkisstjórnin flýtur sofandi að feigðarósi. Þessi stjórn springur áður en kjörtímabilið er úti og hverjir eiga þá að draga okkur aumingjana að landi?

Ef landsmenn allir eiga að ráða hvar Reykjavíkurflugvöllur er, sem auðvitað er galin hugmynd, hlýtur þá ekki að vera sjálfsagt að Reykvíkingar ráði hvort Grímsstaðir á Fjöllum verða fluttir austur til Kína.

Tilrauninni um manninn er alls ekki lokið. Eftir að maðurinn fór að skynja þróun lífsins hefur hann verið að reyna að trufla þá þróun. Öll hin mannlegu inngrip enda samt í mesta lagi sem smátöf á þróuninni en hafa ekki áhrif á hana til langframa. Hvert stefnir þá þróunin? Það veit enginn og best er að svo sé.

IMG 0934Uppnefni.


1721 - Moldin heillar marga þá

Untitled Scanned 06Gamla myndin.
Örugglega Siggi í Fagrahvammi vinstra megin, en gæti verið Lárus Kristjánsson til hægri. Veit ekki hvar þessi mynd er tekin, en árið er líklega 1958.

Þegar maður var að fá náttúruna, og auðvitað talsvert lengi eftir það, hugsaði maður um fátt annað en kvenfólk. Það skiptist alfarið í tvennt: Stykki sem stingandi var í og kellingar. (Krakkar voru ekki taldir með.) Aldur hafði eitthvað með þessa skiptingu að gera en réði þó ekki öllu. Oft hefur hvarflað að mér að kvenfólk skilji ómeðvitað nokkuð vel þessa hugsun kynorkuþrælanna og vilji með tilhaldi sínu umfram allt vera í fyrri flokknum hjá sem flestum. Man að mér fannst „stingandi í“ flest kvenfólk sem ég sá, en þó ekki alveg allt.

Það er svo margt sem minnir á
máttinn jarðar sterka.
Moldin heillar marga þá
menn til góðra verka.

Þjóðernisrómantíkin á fullu. Hvað er mold annars annað en dauði og rotnun? (Já, og konur eru líka menn, munum það.)

Næsta vísa er lakari og seinni parturinn stolinn. Ég orti hann alls ekki.

Burtu myrkrið svífur svarta
svona einsog uppá grín.
Það er engin þörf að kvarta
þegar blessuð sólin skín.

Af hverju er leitast við að hafa allan skáldskap sem óskiljanlegastan venjulegu fólki? Skáldin svokölluðu eru mörg með öllu úr tengslum við unglingana, gamla fólkið og alla nema einhverja klíku sem þykist skilja þá. Auglýsingastarfsemi (sjálfsauglýsingar) er orðin aðalviðfangsefni intelligensíunnar í 101 og hún lifir á því og fyrirlítur um leið.

Eru Íslendingar að leita að sterka leiðtoganumn með því að auka óbilgirnina og hatrið í allri stjórnmálaumræðu? T.d. virðast flestir þeir sem blogga vera með eindæmun einþykkir og ósáttfúsir og ekki er fésbókendur hótinu betri. Að mörgu leyti brýst þetta svo út í skoðanakönnunum um alla skapaða hluti og matreiðslunni á þeim. Eru það virkilega bara kverúlantar og kerfisþrælar sem þrífast á þessu landi? Hvar er blessað miðjumoðið niðurkomið?

Af hverju skyldi ég vera að fjargviðrast útaf pólítík. Hún er hvort sem er svo leiðinleg og fáfengileg. Núna fyrst er ég að lesa bókina um hið sjáfselska gen. (The Selfish Gen – eftir Richard Dawkins) og sýnist vera nóg af andstæðingum þróunarkenningar Darwins í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hef hingað til álitið fátt um þá hér á landi. Efast mikið um að einhver þeirra láti vita af sér hér á blogginu mínu. Hvernig skyldi t.d. líffræði vera kennd á Íslandi í dag?

Hámark heimskunnar finnst mér þegar sæmilega vel gefið fólk vælir óaflátanlega í fésbókinni og skrifar langar sögur þar um ótrúlegan aumingjaskap sinn. Oft er ekki annað að sjá en fjölmargir trúi ósköpunum. Svo eru líka margir sem safna allskyns myndum og frásögnum af fáránlegustu afbrotum og slysun í útlandinu góða. Það er illa farið með góða lestrarkunnáttu að velta sér uppúr þvílíkum sora og þvílíkri vitleysu.

Nú fer allt að fyllast í fjölmiðlunum af Ólympíufréttum og gott ef ekki er sumt bara ágætt þar. Þó aumlegt sé. A.m.k. betra en aumingjasögurnar. Allt fær á sig Ólympíustimpil. Hann virðist fremur ódýr í dag. Kannski Bretar hagnist bara á Ólympíuvitleysunni eftir allt saman. Gæti vel trúað að veðrið fari líka batnandi þar fyrst það á að fara versnandi hér.  

Það er vandlifað á Internetinu. Helst ekkert má gera. Allt getur haft slæmar afleiðingar. Ef það kemur ekki vírus í tölvugarminn þá er eins víst að einhver ætli að misnota bankareikninginn manns eða kennitöluna og því er best að forðast allt sem maður hefur ekki gert a.m.k. hundrað sinnum áður. (Án afleiðinga). Nýjungar eru hættulegar. Best er að drekka sitt kaffi (varlega þó) og lesa sem vandlegast fésbókarræfilinn, þó varasamur sé. Það eru hvort eð er svo margir þar að það getur varla verið stórhættulegt, ef maður gerir nógu lítið.

IMG 0928Lagt af stað í hættuför.


1720 - Ef ég fer, þá fer ég ber

Untitled Scanned 05Gamla myndin.
Bjössi 4.

Skáldsöguruglið í mér virðist einkum ætla að verða lykill að fyrirsögnum og vissri röðun í blogginu. (Hugleiðingar um hitt og þetta + dægurmálefni, sem kannski er lítið að marka.) Við svo búið má helst ekki standa. Verð að reyna að taka mig á. Eitt af því fáa sem ég hef grætt á þessu er að nú „þorir“ helst enginn að kommenta hjá mér.

Segja má að það sé bættur skaðinn þó fáir kommenti. Þeir hafa aldrei verið margir nema ég hafi sérstaklega reynt það. T.d. með því að blogga um trúmál. Hrannar Baldursson í Noregi (don.blog.is) bloggar oft skemmtilega og ég kommenta stundum hjá honum. Hann er allur í heimspeki og trúmálum og oftast eru margir sem kommenta hjá honum. Gaman að því.

Hinn möguleikinn er auðvitað að hætta þessari vitleysu og skrifa bara áfram eins og ég er vanur og hafa fyrirsagnirnar stundum heilmikið útúr kú. Eiginlega lítur sá möguleiki betur út.

Veit ekki af hverju ég hamast alltaf svona við að blogga. Skil það eiginlega ekki, en mun eflaust halda því áfram meðan Moggabloggið heldur því statt og stöðugt fram að talsvert margir lesi þetta. Ímynda mér ekki að það sé bara vegna þess að mér tókst að komast (kannski með svindli) á stórhausalistann. Kannski eru það einkum ættingjar og vinir sem lesa þetta og svo getur vel verið að einhverjir hafi svipuð áhugamál og ég.

Eitt af leyndarmálunum við að blogga svona mikið er að láta flest flakka. Ef mér dettur eitthvað sæmilega snjallt í hug skrifa ég um það strax en hugsa ekki sem svo að gott væri að geyma það og nota síðar. Þá verð ég nefnilega búinn að gleyma því. Ef ég væri ekki svona hæfilega gleyminn yrðu bloggin mín sennilega miklu lengri. Ennþá get ég a.m.k. hætt þegar það er kominn tími til þess.

Einu sinni var Moggabloggið svo merkilegt að menn (Stefán Pálsson) létu sig ekki muna um að bölva því daglega. Nú er öldin önnur og Mogginn virðist skammast sín fyrir að hafa breytt blogglandslaginu á Íslandi. Reynir eftir megni að fela aðganginn að blogginu frá þeim sem álpast á mbl.is af öðrum ástæðum.

Á myndinni af knattspyrnuliðinu sem ég birti í gær er ég í markmannshlutverkinu. Tvær ástæður (jæja, kannski þrjár) voru einkum fyrir því að ég kunni betur við mig í markinu en annars staðar á vellinum 1. Ég átti hnjáhlífar sem ég veit ekki hvernig ég komst yfir. 2. Ég gat spilað þó ég ætti enga knattspyrnuskó. 3. Ég var viðbragðsfljótur. Hefur t.d. aldrei þótt neitt merkilegt þó menn geti gripið það sem þeir missa áður en það lendir á gólfinu.

Fyrstu og jafnvel mestu töffararnir sem ég man eftir úr Hvergerði voru Dóri Höskulds (sonur Höskuldar Björnssonar, listmálara) og Haukur prestsins (sonur séra Helga Sveinssonar). Eitt sinn keyrðu þeir fram og aftur um þorpið og sungu hástöfum og með ýmsum tilbrigðum (jafnvel í falsetto) eftirfarandi:

Ef ég fer,
þá fer ég ber.
Annars ekki.

Ekki veit ég af hverju þeir gerðu þetta, en ég man vel eftir að hafa heyrt þetta.

Það er bara venjulegt skilst mér að veðurfarið sé óvenjulegt. Ástæðulaust að gera sér rellu útaf því. Annars er óþarfi þessa dagana að fara í eithvað utan yfir sig ef maður skreppur út. Þægilegt það. Mætti vera oftar. Þetta er Kanaríeyjaloftslag núna, en jörðin ekki nærri eins skrælnuð.

IMG 0910Vatn.


1719 - Formáli að skáldsögu 3. hluti

Gamla myndin.
Untitled Scanned 04Knattspyrnulið.

Enn verð ég að halda áfram við blessaðan formálann. Í honum má vel vera hugleiðing um kukl. Er það snertingin sjálf sem er það áhrifamesta við kuklið? Þessari kenningu hef ég heyrt fleygt. Samkvæmt henni er allt fjarlægðarkukl ómark og líka stjörnuspeki.

Annars er það þannig með mig að mér finnst kuklarar hverskonar og græðarar, heilarar, skítlosarar, höfuðbeina og spjaldhryggjarsérfræðingar, lithimnufræðingar, spilaspámenn, álfar, huldufólk, tröll, smáskammtalæknar (hómópatar), skottulæknar,  svindlarar, miðlar (ekki fjölmiðlar þó, a.m.k. ekki án undantekninga), stjörnuspekingar, o.s.frv. o.s.frv. bara tómir svindlarar og ekki að neinu hafandi. Hægt væri að losa sig við þessi snýkjudýr öll með því að hætta að dæla peningum í hyskið.

Hafa má krónur af kukli
og þægilegu þukli.

Segja kuklaðdáendur jafnan og hrista heita steina sína og skinnskjóður.

Vísindaleg hugsun er nokkuð sem unga fólkið virðist ekki eiga í sérstökum erfiðleikum með að skilja. Afturámóti virðist sem vanahugsunin sé henni andsnúin hjá eldri kynslóðinni. Stundum er ekki annað að sjá en þar sé það einhvers konar guðfræðileg hugsun sem hafi yfirhöndina. Líklega kristallast þessi munur hvergi betur en í deilunni um þróunarkenninguna sem iðkuð er af miklum krafti í Ameríkunni og virðist vera að ná tangarhaldi á einhverjum hér á landi líka.

 

 

Varðandi dagsetningarmálið gæti allt eins stefnt í uppgjör milli ríkisstjórnar og hæstaréttar í haust. Varðandi stjórnarskrárkosningarnar og lagaflækjur sem að þeim snúa, er ríkisstjórnin alls ekki viss um sigur og kosningar í haust gætu vel farið að snúast um líf hennar. Satt að segja snýst líf hennar nú að mestu um það hvernig haldið er á ESB-málinu. Hvað vill þjóðin? Vill hún nýja og betri stjórnarskrá umfram allt eða vill hún afhenda sjálfstæðisflokknum völdin aftur með öllu því sukki og svínaríi sem þá mun viðgangast á landinu? Ef til vill undir einhverju málamyndareftirliti af nýrri gerð. Eða vill hún kannski umfram allt alls ekki ganga í ESB?

Ég held að hún vilji fyrst og fremst ráða sér sjálf og þess vegna sé það mikilvægara flestu öðru að skýrar og skilmerkilegar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur séu í stjórnarskránni. Þjóðaratkvæðagreiðsla sem í raun er lítið annað en ofurskoðanakönnun er ekki mikils virði. Kannski verða úrslítin þau að þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrána verður frestað framundir jól. Breytingar þær á stjórnarskránni sem gerðar hafa verið á undanförnum áratugum hafa að mestu farið framhjá þjóðinni og einkum snúist um það að bæta hag stjórnmálamanna og alþingis.

Þeir sem fólk telur að standi nærri kjaftamaskínum stjórnmálanna eru sjálfkrafa vinsælir bloggarar. En af hverju skyldi fólk halda þetta? Hef ekki hugmynd um það. Þetta skýrir á margan hátt vinsældir Páls Vilhjálmssonar, Jónasar Kristjánssonar, Egils Helgasonar og þess sem skrifar um orðið á götunni. (Man ekki í svipinn hver gerir það.) Þetta skýrir samt ekki gríðarlegar vinsældir Ómars Ragnarssonar í bloggheimum. Auðvitað skiptir líka máli hvernig menn skrifa. Ekki er samt víst að það skipti meginmáli.

Að íslenskur matreiðsluþáttur sé hafður á ensku finnst mér afskaplega léleg hugmynd. RUV-inu finnst það víst ekki og einhverjir græða á því. Annars er blessað RUV-ið sífellt að verða í minni og minni tengslum við íslenskan raunveruleika eða þá að hann er að fjarlægjast RUV-ið. Sé samt ekki að aðrar íslenskar sjónvarpsstöðvar séu neitt betri.

IMG 0900Hvernig komust dekkin á ljósastaurinn? (Þraut nr. 1).


1718 - Formáli að skáldsögu 2. hluti

Untitled Scanned 03Gamla myndin
Bjössi 3.

Í framhaldi af því sem ég skrifaði um daginn dettur mér í hug hvernig eigi að skilgreina blogg. Hvenær er blogg blogg? (Eða jafnvel bara blogg) og hvenær er blogg eitthvað annað. Hvenær er blogg hugleiðingar? Hvenær er blogg grein? Hvenær er blogg fjölmiðill? Hvenær er blogg smásaga? Hvenær er blogg skáldsaga? Og svo auðvitað öfugt. Allt eru þetta skilgreiningar sem vel er hægt að snúa á haus eða snúa útúr ef vilji er fyrir hendi. Fésbókin er kaffispjall. (kannsi tespjall hjá sumum en allavega spjall) Blogg er oftast eintal sálarinnar, þó stundum séu gerðar athugasemdir og þá getur eðli þess hæglega breyst.

Í sambandi við skáldsöguna sem ég var að fjölyrða um í síðasta bloggi, þá kemur mér í hug að engin afstaða var tekin til mögulegra athugasemda. Vel kæmi til greina að fella þær líka undir skáldsöguformið, en þá væru höfundarmálin orðin svolítið flókin. Reyndar mega þau alveg vera það fyrir mér. Spurningin er bara sú hvort þeir sem athugasemdir gera vilja láta kalla sig skáldsöguhöfunda. Rétt er að huga svolítið að þessu því fyrir kemur að athugasemdir (og leiðréttingar) detta hér inn. Kannski væri réttast fyrir mig að gera einskonar skoðanakönnun hér á blogginu. Minnir að það sé hægt og að ég hafi jafnvel einhverntíma gert slíkt.

Í skáldsögu (ef ég held mig við þá skilgreiningu og held því fram það þetta sé í rauninni annar kafli í formála) get ég náttúrlega varla sett linka í annað efni frekar en rætt um dægurmálin. Kannski væri réttast að hafa einhvern vissan hluta af hverjum kafla fyrir venjulegt blogg. Athuga þetta. Ef einhver setur svo link eða krækju í athugasemd þá er ég hugsanlega komin í vandræði. Það þarf greinilega að mörgu að huga.

Blogg vs. skáldsaga er greinilega efni sem hægt er að fjölyrða mikið um. Ég vil helst ekki gera það en halda mig við að þetta sé formáli að skáldsögu. Formálar geta verið með ýmsu móti. Sumir þeirra gætu hæglega líkst bloggi.

Hvenær eru bændur og allir aðrir ánægðir með veðrið? Nákvæmlega aldrei. Nú er kvartað yfir því að ekki rigni nógu mikið. Sennilega er alltof heitt líka. Veðrið hefur bara verið mjög gott að undanförnu. Svona er þetta bara á norðlægum slóðum. Aldrei á vísan að róa með veðrið. Jú, sólin sést alltaf eitthvað á sumrin og snjórinn kemur svosem á veturna. Bara mismundandi mikið af honum. Langeðlilegast er að sætta sig veðrið eins og það er. Slæmt væri ef við réðum því. Endalaust rifrildi. Kannski væri ekki rifist um annað á meðan. Valt að treysta því samt.

„Hvað ertu að gera, amma?“ Hugsa ég að sé uppáhaldssetningin hennar Tinnu þessa dagana. Það er fátt ef nokkuð sem er eins gefandi og að fylgjast með málþroska barna. Það er ekki nóg með að þau eigi erfitt með að átta sig á af hverju maður nær ekki að skilja hvert orð sem þau segja, heldur finnst þeim ekkert merkilegt þó maður skilji sumt ágætlega. Greinarmunurinn á óskiljanlegu babli og hárréttu tali er mjög á reiki. Oft eru þau ótrúlega fljót að tileinka sér nýtt tal og segja hlutina öðruvísi ef maður skilur þau og endurtekur það sem sagt er. Að þeim skuli finnast gaman að hlusta á að eitthvað sé lesið fyrir þau án þess að þau skilji nema mjög fátt af því sem sagt er virðist furðulegt. Er samt ekkert skrýtið þegar haft er í huga hve fljót þau eru að læra að tala. Svo læra þau gjarnan að lesa og skrifa á fáeinum árum og það er alveg stórfurðulegt. Að læra mörg tungumál í einu er ekkert mál fyrir þau.

Þessi kafli í formálanum er að mestu hugleiðingar um hitt og þetta. Samt er ég að hugsa um að láta þetta fara einhvern vegin svona. Ég á þetta (blogg) og má þetta (bulla um hvað sem er).

 

 

   (Fimm samasemmerki sem tölvan vill endilega hafa fleiri)

 

Þetta er merkið sem ég er að hugsa um að nota til að aðgreina dægurskrif mín frá skáldsögunni margfrægu.

Get ekki stillt mig um að minnast á Guðna Ágústsson, þó ég muni nú betur eftir pabba hans frá Brúnastöðum. Guðni kom eitt sinn í heimsókn í KB þegar ég vann þar og varð alveg eins og aumingi þegar Óli Anrésar og Maddi fóru að spyrja hann útúr um pólitík. Sennilega var hann að reyna að komast á þing þá.

Guðni er semsagt að gera stórmál úr því að Davíð Þór hafi sjálfstæða skoðun og vill láta nýkrýndan biskup setja ofaní við hann fyrir það. Guðni er að gera þjóðkirkjunni stórfellt ógagn með þessu. Hélt að hann (Guðni) þættist fyrst og fremst vera skemmtikrafur.

IMG 0893Lúpína.


1717 - Skáldsaga

Untitled Scanned 02Gamla myndin.
Bjössi 2.

Þetta er skáldsaga. Ég er búinn að ákveða það. „Nú, ég hélt að þetta væri blogg“, kynni einhver að segja, en ég segi að það sé misskilningur og að þetta sé skáldsaga af því ég sé búinn að ákveða það. Hverjum stendur nær að ákveða það en mér? Kem ekki auga á neinn. Annars gæti verið að einhverjum fyndist umræða um dægurmálefni eiga lítið erindi í skáldsögu. Best að ég forðist þær umræður þá. Kannski væri best að koma sér bara upp merkingum og segja til um hvort maður er að vinna í skáldsögunni eða ræða um dægurmál. Hér með ákveðið.

„Já, en þarf ekki að vera eitthvert efni í skáldsögu?“ Ég á bara eftir að finna það. Varla verður það mjög snúið. Þetta getur sem best verið formáli. Já, því skyldi þetta ekki vera formáli? Ef mér gengur illa að finna eitthvert efni í skáldsöguna verður hann bara dálítið langur. Það er nokkuð góð hugmynd.

Hvernig skyldi langur formáli líta út? Þarf hann ekki að hafa bæði upphaf og endi? Nú, ræð ég því ekki sjálfur? Ég er að hugsa um að hafa hann bara eins og mér sýnist. Sumir lesa aldrei formála né eftirmála. Það finnst mér slæmur siður. Ég byrja alltaf á slíku og stundum les ég ekkert annað. Kannski verður þessi formáli margir kaflar. Já, það er sennilega vissast að hafa hann þannig.

Af hverju skyldi þurfa að vera svona erfitt að semja skáldsögu? Sennilega er það bara þjóðsaga. Auðvitað tekur það talsverðan tíma ef skáldsagan á að vera löng. En hún þarf ekkert að vera af vissri lengd. Ég get alveg ráðið því sjálfur.

Auðvitað get ég ekki sagt til um hvernig þessi skáldsaga verður. Ég mun þó reyna að leggja mig fram um að hafa hana góða. Nenni samt ekki að vera sýnkt og heilagt að velta fyrir mér hvernig bygging hennar er. Að því leyti verður hún ákaflega lík bloggi að þegar ég er búinn að senda kafla dagsins út í eterinn þá verður þar engu breytt. Þetta held ég einmitt að flestum skáldsögusérfræðingumm finnist alveg ómögulegt. Skáldsögur á að vera erfitt að semja. Þær eiga að taka á. Það á að vera full vinna fyrir fullfrískan mann að fást við svoleiðis lagað. Og taka ár. En er það svo? Eiginlega finnst mér það ekki. Mér finnast skriftir af öllu tagi verða því auðveldari sem maður gerir meira af því að skrifa. Þó ég sé orðinn gamall þá finnst mér ekki að mér sé neitt að förlast við þær. (En auðvitað getur það verið vitleysa.)

Það er dálítið gott hjá mér að ákveða bara í eitt skipti fyrir öll að þetta sé skáldsaga. Líklega hefði engum öðrum dottið það í hug. Nú er ég semsagt kominn með hlutverk. Já, kannski verður formálinn óskaplega langur. Það er reyndar heilmikill kostur því þá verða aðrir hlutar sögunnar bara styttri fyrir vikið.

Þá er röðin komin að myndunum. Hvort ætli þær tilheyri skáldsögunni eða dægurmálunum. Mér finnst myndirnar oft vera sögulegar svo eiginlega er best að þær tilheyri skáldsögunni. Dægurlegar myndir eru þó til. Ég tek bara ekki svoleiðis myndir. Kannski er sniðugast að láta sem flest tilheyra skáldsögunni. Hún verður þá fyrr tilbúin. Ég gæti líka ákveðið að hún yrði svo og svo margir kaflar. Ætti það þá að vera sérstakur kafli allt sem ég set upp í hvert skipti. Þetta þarf ég að athuga. Kannski er talsvert flókið að búa til góða skáldsögu en möguleikarnir eru ótæmandi.

Mér hefur alltaf þótt dálítið vænt um þetta hús í Kópavoginum sem við keyptum á sínum tíma helminginn af. Það er ekki hluti af neinni húsaröð og þessvegna sjá blaðburðar- og miðasölubörn það illa. Nú er Toyota miðstöðin farin (úr gamla Bykó-húsinu) og ruslakarlinn úr Hafnarfirði hættur sínum skarkala um sexleytið á morgnana en samt er eins og maður sofi ekkert betur. Athuga þetta. Hvað skyldi koma í staðinn fyrir Toyota? Rólegheitin vara varla að eilífu.

Eitt er það samt sem ég er ákveðinn í að standa alltaf við. Það er að pósta ekki bloggi (eh. Ég meina skáldsögu) fyrr en komin er blaðsíða a.m.k. Ég get ekki verið þekktur fyrir að hafa kaflana í formálanum (og skáldsögunni) styttri en það.

IMG 0870Kisa.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband