Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

1295 - Ávísanir og krítarkort

Ég er á móti bændasamtökum Íslands. Sá áðan blogg frá Jóni Frímanni. Þar tilkynnti hann að hann væri á móti bændasamtökum Íslands. Þar er ég honum sammála. Ef það er fyrsta og mikilvægasta fréttin hjá Mogganum og fleiri fjölmiðlum dögum og vikum saman að bændasamtök Íslands séu á móti ESB þá finnst mér ekki nema sanngjarnt að örlítil fréttalykt fái að vera af því að ég sé á móti bændasamtökum Íslands.

Annars veit ég ekki hversvegna ESB hvílir svona þungt á bændasamtökunum. Ég hélt að mál málanna væri hvort flytja mætti inn norskt nautasæði. Um það hafa hingað til verið afar skiptar skoðanir.

Einu sinni var ég áskrifandi að Lögbirtingablaðinu. Það minnir mig að hafi verið vegna þess hve ódýrt það var. Myndir af vörumerkjum voru líka oft fróðlegar. Svo fylgdist ég vel með reglulegum tilkynningum frá Seðlabankanum um seðlamagn í umferð. Þar var samviskusamlega tíundað hve margir fimmkallar og tíkallar ásamt öðrum seðlum væru í umferð.

Man að ég velti því fyrir mér hvaða máli þetta skipti. Þá ekki síður en nú voru seðlar að miklu leyti óþarfir. Flestallir gáfu út ávísanir villt og galið. Jafnvel ávísanakeðjur sumir hverjir. Ávísanaeyðublöð voru líka hundódýr. Svo hækkuðu þau í verði. Krítarkortin komu til sögunnar. Hægt og bítandi fyrst en að lokum fór jafnvel Bónus sjálfur að taka við slíku og þá var ekki að sökum að spyrja. Á flestum heimilum eru nú til fleiri krítarkort en myndavélar.

En ég var víst að tala um seðlamagn í umferð. Finnst endilega að peningamagnið í umferð hljóti að aukast í réttu hlutfalli við krítarkortanotkunina og fari eftir háttalagi banka og allskyns peningastofnana. Líklega er ég bara svona vitlaus og langmestu máli skiptir ábyggilega hve þúsundkallarnir undir koddanum eru margir.

IMG 4809Hvað heitir þetta apparat aftur á íslensku?


1294 - Um bloggara

Það er ekki einfalt mál að blogga svona á hverjum degi eins og ég geri. Ég ímynda mér til dæmis að miklu einfaldara sé að blogga örstutt viðbrögð við pólitískum fréttum dagsins oft á dag. Þó er það ekkert víst. Hef aldrei prófað það. Er sennilega alltof fyrirsjáanlegur og bloggin mín of lík hvert öðru. Ég er bara búinn að venja mig á þennan rabbstíl og veit ekki hvernig ég á að hætta við hann eða hvort ég get það.

Reyni samt eins og ég get að hafa bloggin fjölbreytt. Efast þó um að þau séu það. Mér er alveg sama þó ég komi til með að verða síðasti geirfuglinn (les: Moggabloggsbloggarinn). Er ekki viss um að ég nennti að flytja mig eitthvert annað nema ég fái gull og græna skóga fyrir. Ég er svo vanafastur að ég blogga orðið daglega án þess að hafa mikið fyrir því. Samt er ég sífellt að hugsa um hvort ekki væri sniðugt að blogga um þetta eða hitt sem mér dettur í hug. Gleymi því svo venjulega. Sumt rifjast kannski upp fyrir mér þegar ég sest við tölvuna.  

Bloggaði í gær um bloggara. Kannski ég haldi því áfram. Á meðal þeirra bloggara sem ég les oft eru Björn Birgisson og Axel Jóhann Hallgrímsson. Gott ef þeir eiga ekki báðir heima í Grindavík. Ég les svosem fleiri blogg þó ég sé alltaf að reyna að venja mig af þeim ósið. Í staðinn reyni ég að hugga sjálfan mig með því að ég lesi sjaldan dagblöð enda eru þær fréttir sem ég fjalla um oft orðnar dálítið úldnar.

Jón Daníelsson berst gegn krítarkortunum. Held að það sé vonlítil barátta. Geri mér mæta vel ljóst að einhver þarf að borga fyrir það sem ég fæ lánað með því að nota Visa-kortið mitt. Sé samt ekki hvernig það á að fá mig til að hætta því. Séu krítarkortin notuð skynsamlega græða þeir sem þau nota. Einhverjir tapa að sjálfsögðu. Það er samt fyrst ef krítarkortin eru notuð óskynsamlega sem tapið og gróðinn vex. Krítarkortafyrirtækin græddu sjálfsagt lítið ef engir notuðu þau óskynsamlega.

IMG 4778Myndarlegt hlið.


1293 - Ofurlaun og fleira

Ótrúlega margir eiga erfitt með að sjá bloggið í réttu ljósi. Flestir þykjast vera  betri en allir aðrir. Sjálfur er ég líka þannig. En ég er ekki eins orðljótur og sumir. Ekki eins mikið fyrir að þykjast vita allt um hrunið og ástæður þess. Ekki eins mikið fyrir að úthúða öllum ráðamönnum og ríkisstjórn. Ekki eins mikið á móti öllum sköpuðum hlutum. Þetta finnst mér allavega. En er það ekki bara einhver aumingjaskapur í mér? Langar mig ekki í rauninni til að vera eins og hinir? Og er ég ekki alltaf að agnúast útí fésbókina? Mest vegna þess að ég næ engum tökum á henni sjálfur. Þykist ég ekki vera yfir aðra bloggara hafinn? 

Páll Vilhjálmsson og Jónas Kristjánsson eru báður fyrrverandi blaðamenn og núna snjallir bloggarar. Jafnvel með þeim öflugustu. Hnitmiðaður og stuttaralegur stíll er aðalsmerki beggja. Svolítið takmarkaðir samt því þeir blogga nær eingöngu um pólitísk málefni. Svo eru þeir hreint ekki sammála og hrikalega neikvæðir báðir tveir. Áhrifamiklir held ég samt að þeir séu.

Frá sjónarmiði okkar bloggara finnst mér þeir verstir sem lesa bæði bloggið og fésbókina villt og galið en nota hvert tækifæri sem býðst til að skíta fyrirbærin út. Kunna bara ekki að skrifa sjálfir en telja sjálfum sér trú um að þeir viti allt.

Og áfram með smjörið.

Fulltrúi bankasýslu ríkisins í stjórn Aríon-banka samþykkti launahækkun bankastjórans. Hann er fulltrúi ríkisins í stjórn bankans og þar með hefur ríkið samþykkt þennan gerning. Það þýðir lítið fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að vera forviða á þessu ef ekkert er gert með það. Steingrímur J. Sigfússon er sterki maðurinn í ríkisstjórninni og ef hann sér ekki til þess að þetta sé lagfært þá er hann að herða snöruna að eigin hálsi.

Beiti ríkisstjórnin sér ekki í Icesave-málinu bendir það til að hún ætli að sitja áfram þó frumvarpið verði fellt. Margt bendir til að mjótt geti orðið á mununum varðandi úrslit málsins. Verði málið fellt hefst sama vitleysan enn á ný. Ekkert bendir samt til að sambærilegur árangur náist að þessu sinni jafnvel þó takist að fá viðsemjendurna að samningaborðinu aftur sem ekki er með öllu útilokað. Í fyrra minnir mig að aðstæður hafi verið þannig að útilokað var að greiða atkvæði með frumvarpinu en nú sýnist mér það vera hægt.

IMG 4771Trjágróður.


1292 - Útrásarhetjur

Af hverju eru útrásarvíkingar eins og Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi í Fons að hamast við að gera Svavar Halldórsson að einhverri hetju? Jú, hann hefur fjallað eitthvað um þjófnaði þeirra og ævintýri í sjónvarpi en ekki meira en aðrir hefur mér sýnst. Ég bara skil ekki svona lagað. Sjá þeir ekki sjálfir hve hallærislegur málflutningur þeirra er? Ef kæra ætti alla sem kallað hafa útrásarvíkinga þjófa eða gefið eitthvað slíkt í skyn þá þyrfti að fjölga dómstólum mikið hér á landi.

Því hefur verið haldið fram að tapið af hruninu á Íslandi hafi í heild verið miklu meira en það sem lendir á okkur. Þegar allt sé talið megi segja að það sé mörg þúsund milljarðar króna. Hvað segir það okkur? Jú, það segir mér að minnsta kosti að víða hefur verið að finna bankamenn og stjórnendur jafnvitlausa þeim íslensku. Þó er ekki víst að þeir hafi verið alveg eins vitlausir því svo virðist sem þeim hafi tekist að fela tapið og róta yfir skítinn úr sér. Er það einhver afsökun fyrir þá íslensku? Eiginlega ekki. Svo er samt að sjá að þeim ætli að takast að forða eigin skinni og láta tapið lenda að mestu á almenningi. En umheiminum virðist ætla að verða forðað frá snilli þessara manna næstu árin.

Æ, þetta er dæmigert raus. Því ætti að þurfa að tyggja þetta upp aftur og aftur? Næsta bóla er þegar farin af stað og við verðum bara að vona að varlegar verði farið að þessu sinni. Eigum við einhvers annars úrkosti en að lúta valdi peninganna? Ég held ekki.Við getum að vísu farið niður á steinaldarstigið og afneitað peningum með öllu. Það færir okkur kannski á endanum meiri hamingju og forðar okkur frá álíka hruni og varð haustið 2008. En það mun líka færa okkur mikla óhamingju því framfarir allar munu stöðvast. Fólk mun hrynja niður úr allskyns sjúkdómum og vesöld. Aumingjaskapur okkar verður þá einskonar sýningargluggi sem notaður verður sem víti til varnaðar. Utanferðir munu falla niður og gullát einnig. Útlendur varningur mun hætta að mestu að sjást nema í dollarabúðum sem hér verða stofnaðar að sovéskri fyrirmynd.

Við höfum í gegnum árin lært ýmislegt og sápur og skó munum við geta framleitt og hugsast getur að þeim lífs-staðli sem hér var um miðja síðustu öld verði náð á endanum. Lífskjörin munu samt versna og meðalævin styttast. En allt þetta munum við harka af okkur með víkingablóðinu eina og sanna sem rennur í æðum okkar. Burt með allar skræfur og lyddur sem ekki hafa þannig blóð. Já, ég er að tala um helvítis útlendingana sem hirða afraksturinn af landgæðum okkar og senda hann til sinna heimkynna.

Hér gæti risið upp öflug útleningahatursbylgja þar sem þau Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson réðu því sem þau vildu. Þau gætu líka losað okkur við þá óværu sem farið hefur mjög vaxandi á síðustu árum og allt þykist vita.

Já, ég get tekið stórt uppí mig því enginn tekur mark á mér. Ég á engan kvóta í umræðunni. Það á Jóhanna Sigurðardóttir hinsvegar og að hún skuli á sinni eigin fésbókarsíðu fordæma Aríon-bankastjóra fyrir ofurlaun verður kannski til þess að einhver verður settur af eða a.m.k. lækkaður í launum.

IMG 4759Gína.


1291 - Langt mál um lítið efni, en vonandi ekki of langt

Af hverju er fólk að leggja sig niður við það stórhópum saman að lesa bloggið mitt og hvers vegna er ég að rembast við að skrifa þessi ósköp. Svörin eru fjarri því að vera einhlít en ég vildi að ég vissi þau nákvæmlega í öllum tilvikum. Þó ég hafi gaman af að skrifa þá skrifa ég alls ekki um hvað sem er. Leyndustu hugsanir mínar skrifa ég t.d. allsekki um. 

Hversvegna ekki? Væri það ekki í rauninni betra? Jú kannski, en þá væri ég ekki í bílstjórasætinu. Mér finnst nefnilega að ég sé að vefja lesendum mínum um fingur mér með því að fá þá til að lesa það sem ég skrifa. Eiginlega er ég að veiða þá. Helst þarf ég samt að gera það á þann hátt að þeim finnist þeir ekki hafa verið snuðaðir. Það er listin. Gera þetta án þess að þeim finnist þeir vera snuðaðir. Er ég þá að snuða þá? Kannski.

Þetta eru ískyggilegar vangaveltur. Kannski snúast þær samt um kjarna málsins. Mér verður að finnast ég standa lesendum mínum framar í einhverju. A.m.k. í því að skrifa um allan fjárann. Æfingin skapar meistarann. Kannski er ég orðinn meistari í að skrifa langt mál um ekki neitt. En nú er best að hætta þessu enda er svefntaflan farin að virka.

Gæti ég skifað bók sem yrði lesin? Sennilega ekki. Ég er of óþolinmóður til þess. Kommentin eru mitt konfekt. Og það er gaman að svara þeim. Ekki síst þeim neikvæðu. Þá get ég þóst vera voða gáfaður. Oftast er það nú samt með aðstoð Gúgla frænda. Hann er ómetanlegur nú til dags og auðvelt að þykjast vera gáfaðri en maður er með aðstoð hans. Sum kommment eru samt þannig að best er að svara þeim ekki. Sumir svara öllum kommentum, sumir engum. Sumir skrifa sín kommnet sjálfir. Kommentalaus blogg eru eins og ræður eða predikanir eða gluggalaus hús.

Mér finnst að ekki megi fjarlæga komment sem búið er að skrifa og senda. Þau eru hluti af viðkomandi bloggi og einnig af þeim athugsemdum sem á eftir koma með tilvísanir í kommentið, beinar eða óbeinar. Eiginlega er það eyðilegging á bloggi að gera slíkt. Ef þeir sem blogga eru skikkaðir til að bera ábyrgð á öllum athugasemdum sem við þau koma hlýtur að þurfa að spyrja þá hvort eyða megi þeim.

Var að horfa á silfur Egils. Mér finnst vinstri menn á margan hátt hafa komið sér vel fyrir með því að hafa hann. Enda hata hægri menn Egil Helga mikið en ráða greinilega ekki við hann. Kannski Binga takist þó að reka hann frá eyjunni í fyllingu tímans. Er þó ekki viss um að takist að koma honum frá sjónvarpinu. Til þess gæti þurft kosningar.

Á mbl.is er skýrt frá því að lítilsháttar bílvelta hafi orðið í Borgarfirði. Þetta finnst mér einkennilegt orðalag og minnir mig á manninn sem sagðist hafa rotað annan bara pínulítið.

IMG 4751Himinn og haf.


1290 - Fréttatími og blað

Fréttatíminn, nýja vikublaðið, sem dreift er ókeypis á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. kemur alltaf hingað stundvíslega á föstudögum eins og vera ber. Hinsvegar kemur Fréttablaðið aldrei og að mörgu leyti er ég feginn. Morgunblaðið er hætt að koma en það barst hingað ókeypis á hverjum degi í febrúar. Örvænting segja sumir en ég þigg nú bara það sem að mér er rétt á þennan hátt. 

Mér finnst andstæðingar Icesave hafa svo hátt að ég er hræddur um að þeir tapi í þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Hræddur um" er kannski ekki rétta orðavalið. Ég er eiginlega feginn. Annars er mér nokk sama um hvernig Iceseve málið fer en ekki nærri eins mikið sama um ESB. Of margir virðast spyrða þessi tvö mál saman og eins og ég hef áður sagt þá er mun líklegra að ESB inngangan verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu ef Icesave frumvarpið verður fellt. Bíð spenntur eftir marktækri skoðanakönnun um þetta mál.

Fer alloft í morgungöngu um nágrennið. Gjarnan er ég einn til tvo klukkutíma í ferðinni. Verður stundum þessi ósköp mál að míga um leið og ég kem heim þó mér hafi ekki verið neitt að ráði mál á leiðinni. Svona er þetta bara.

Þú færð fimm króna afslátt á hvern lítra ef þú stendur á haus í tvær mínuútur og vinnur hjá kirkjugörðunum eða þekkir einhvern sem gerir það. Ég er eiginlega hættur að fylgjast með öllum þessum happdrættisauglýsingum núorðið. Það er nánast fullt verk að gera það og ekki mjög skemmtilegt. Tala nú ekki um ef maður ætlar sér líka að taka þátt.  

Vildi að ég væri kunnugri þar sem gala gaukar og spretta laukar. Hvernig er það annars, er ég alltaf að reyna að vera skáldlegur? Og tekst það aldrei. Frásögnin hjá mér verður sjaldan nógu ævintýraleg. Ég er svo jarðbundinn. Tekst samt stundum að láta textann fjóta bærilega.

IMG 4750Og hefur sjórinn náð öllum hinum, eða hvað?


1289 - Fræknir föstudagar

Enn einu sinni er kominn föstudagur. Helgi yfirvofandi. Hvar endar þetta? Eintómar helgar? Já, ég er atvinnulaus og lífið er eintómar helgar. Engir vilja deila við mig um refsingar. Er samt alveg viss um að ekki eru allir mér sammála um þær. Auðvelt að vekja dómhörku upp hjá fólki. Slíkt ber þó að varast. Refsigleðin getur leitt menn í mestu ógöngur. Það sannaðist best um árið þegar maður nokkur í Kaliforníu var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að stela einni pizzusneið. Lögin heimtuðu slíkt og gáfu engan afslátt af því. Kannski átti hann það skilið. 

Ég er alfarið á móti dauðarefsingum og hallast yfirleitt fremur að mildum refsingum. Fælingarmáttur harðra refsinga er ofmetinn.

„Ég bíð eftir að Baldri verði boðið hingað á Eyjuna til að blogga". Segir Jenny Anna Baldursdóttir. (Þó ekki dóttir Baldurs Hermannssonar)

Hverjum er ekki boðið á Eyjuna? Ekki mér. Baldur Hermannsson er kjaftaskur hinn mesti og hægri sinnaður að auki. Sé hann kennari jafnframt verður hann að taka afleiðingunum af því. Gerði eitt sinn þáttaröð fyrir sjónvarp sem athygli vakti. Síðan ekki söguna meir.

Menn geta ekki alltaf ráðið því sjálfir hvar opinbera lífið endar og einkalífið tekur við. Í upphafi skyldi endirinn skoða. Ekki er samt alltaf hægt að sjá hann fyrir því hann breytist með tímanum. Að verða fyrir barðinu á slíkum breytingum eru forlög eða örlög.

Lífið er trunta, stendur einhvers staðar. Rétt er það. Nauðsynlegt er samt að fara sem léttast í gegnum það. Verst að maður gerir sér ekki grein fyrir því fyrr en of seint. Áhyggjur er oftast þarflausar og neikvæðar. Kæruleysið er betra. Það er auðvelt að tala (eða skrifa) í einhverju sem líkist spakmælum. Lítil hugsun í því.

Kannski fer ég bara í mína kanínusokka og síðan út að labba. Mér sýnist vera að birta. Veðrið er ekki sem verst. A.m.k. ekki ef ég klæði mig sæmilega. Nú er klukkan orðin átta og ég búinn að setja orð á blað sem ég gæti hugsanlega notað sem blogg í kvöld. Já, ég vaknaði snemma. Eldsnemma mundu sumir segja. Segi ekki hve snemma. Það er mitt leyndarmál.

Líst illa á forvirkar rannsóknaraðferðir hjá lögreglunni blessaðri þó flestir keppist við að mæla þeim bót. Það getur vel verið að til standi að nota þær eingöngu á skipulögð glæpasamtök. Samt er hætta á misnotkun. Svo getur farið að þeim verði hallmælt mjög áður en yfir lýkur. Veit að það er illa séð að vera með hrakspár í þessu efni. Ráðherrann þykist ætla að líta eftir þessu og er e.t.v. trúandi til þess. Hann mun þó ekki verða yfir þessi mál settur til eilífðar.

IMG 4745Ég held hann sé að hvessa.


1288 - Kjöt í pottinn

Það kom fram í athugasemdum við blogg mitt um daginn að ekki kannast allir lesendur við leikinn „kjöt í pottinn" og kom það mér á óvart. Þessi leikur var mjög algengur og mikið stundaður þegar ég var að alast upp. 

Leikurinn hófst með því að dreginn var hringur á jörðina með spýtu og var það potturinn. Hringurinn þurfti að vera nógu stór til að rúma alla sem tóku þátt í leiknum. Síðan þurfti að velja einhverja úr hópnum til að „vera hann" og veiða í pottinn. Þeir þurftu yfirleitt að vera sæmilega fljótir að hlaupa. Ekki þýddi annað en hafa þá sem „voru hann" tvo eða fleiri ef þátttakendur voru margir. Allir þeir sem ekki „voru hann" voru semsagt „úti".

Leikurinn byrjaði með því að þeir sem voru hann klukkuðu þá sem auðveldast var að ná. Urðu þeir þá að kjöti og máttu við svo búið fara í pottinn og hírast þar. Þeir sem úti voru áttu síðan að gæta þess að vera ekki klukkaðir og reyna jafnframt að frelsa þá sem komnir voru í pottinn.

Hvað er að vera klukkaður? Kynni einhver að spyrja. Venjulega var það að ná einhverjum á hlaupum, koma við hann og segja „klukk". Ég er ekki frá því að átt hafi í þessum leik, þegar einhver náðist og var klukkaður, að segja „kjöt í pott". En því var samt alls ekki stranglega framfylgt.

Frelsun úr pottinum fór þannig fram að einhver sem úti var reyndi að slá á hendi einhvers í pottinum en þeir voru auðvitað með útréttar hendur og ólmir í að láta frelsa sig. Tækist það var sá hinn sami frjáls og kominn aftur í útiliðið. Slíkt var samt hættulegt því pottsins var gætt.

Leiknum lauk síðan með því að þeir sem voru hann tókst að ná öllum í pottinn sinn eða ekki. Gætu þeir það ekki gáfust þeir einfaldlega upp og aðrir tóku við.

Sto var einfaldlega þannig að bolta var hent eitthvert og kallað „upp fyrir ??? (einhverjum í leiknum) Þegar boltinn var gripinn átti að segja „sto" og áttu þá allir að stoppa þar sem þeir voru staddir og ef sá sem var með boltann gat hent í einhvern fékk sá hinn sami mínusstig en annars sá sem henti. Líka var hægt að henda boltanum eitthvert og segja: „upp fyrir ???" og hlaupa svo í burtu. Bandalög voru oft mynduð og segja mátti „upp á þína". Ef það var samþykkt var boltanum hent til þess sem hafði sagt það og þegar hann greip sagði hann sto en áhættan var þess sem upphaflega hafði boltann.

„Yfir" var þannig að tvö lið voru mynduð og stóðu sitt hvoru megin við hús og síðan var bolta hent yfir. Reglur voru fjölbreyttar og ítarlegar og fór oft mikill tími í að rífast um þær.

Lýsi „yfir" kannski betur seinna og hugsanlega fleiri leikjum.

Ég trúi á upprisu Icesave og eilíft líf. Þetta er mér sagt að Bjarni Ben syngi á hverju kvöldi. Það geri ég líka. Þetta með eilífa lífið er kannski svolítið vafasamt en upprisa Icesave er engin blekking. Það er greinilegt að við komum til með að græða einhver ósköp á þessu fyrirbrigði. Ef við hundskumst ekki til að kjósa rétt í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu er eins víst að gróðinn fari til andskotanna í Bretlandi og Hollandi. Slíkt má auðvitað ekki eiga sér stað svo það er eins gott að kjósa rétt. Verkurin er bara að vita hvað er rétt.

Samkvæmt Moggabloggsupplýsingum eru flettingar hjá mér að nálgast hálfa milljón ef frá upphafi er talið. Mér finnst það allmikið en öðrum kannski ekki. Auðvitað hef ég verið lengi að og það eru ekki ákaflega margir sem hingað slæðast á hverjum degi. Ekki veit ég nákvæmlega hvernig þetta er talið en væri þessu breytt í bókareintök væri ég sennilega ríkur maður og hefði líklega ekki staðið mig jafnvel og meðalútrásarvíkingur í að eyða ósköpunum. Ég hefði samt reynt.

IMG 4724Já, þeir stinga þessir kaktusar.


1287 - Refsingar

Ég skrifaði dálítið um morðið á Hannesi Helgasyni í gær. Eða réttara sagt um dóminn yfir banamanni hans. Átti von á einhverjum umræðum um það mál því ég þykist hafa orðið var við skoðanir hér á Íslandi sem eru líkar því sem tíðkast töluvert í Bandaríkjunum. Í þeim skoðunum speglast oft hefndarþorsti þegar gert er ráð fyrir að refsingar í morð- og nauðgunarmálum og jafnvel flestum afbrotamálum séu til þess að friða brotaþola. Mín skoðun er sú að refsingin sé til þess að koma í veg fyrir önnur álíka tilfelli eftir því sem mögulegt er. 

Ég álít með öðrum orðum að ein af ástæðunum fyrir eflingu konungsvalds á sínum tíma hafi stafað af vilja manna til að komast undan hefndarskyldunni. Eins og kunnugt er var hefndarskyldan ráðandi í fæðardeilun á tímum þjóðveldisins og segja má að flestar Íslendingasögurnar fjalli um hana með einum eða öðrum hætti.

Tvær ástæður held ég að hafi ráðið mestu um vilja Íslendinga til að komast undir stjórn konungs á þrettándu öld. Í fyrsta lagi voru herleiðangrar þeir sem höfðingjar Sturlungaaldar neyddu menn til að fara í orðnir algengir, eyðileggjandi og hættulegir og menn vildu losna við þá. Einnig vildu þeir komast undan hefndarskyldunni með því að framkvæmdavald yrði myndað í landinu.

Mesta skemmtun þeirra sem horfa á sjónvarpsútsendingar frá alþingi er hálftími hálfvitanna sem svo er kallaður og venjulega á sér stað í upphafi þingfunda. En slíkir hálftímar geta skollið á hvenær sem er. Þingmenn virðast geta rætt um hvað sem er ef þeir bara segjast ætla að ræða um fundarstjórn forseta. Ef ráðamönnum landsins finnst eðlilegt að sjónvarpa beint frá svona málfundaæfingum þá er svosem lítið við því að segja en það sem blessaðir þingmennirnir hafa til málanna að leggja er skelfing veigalítið og satt að segja bara argaþras og ekkert annað.

IMG 4676Nú skjótum við og skjótum allir í kór.


1286 - Kristleifur á Stóra-Kroppi

Í mínum huga er mars, sem nú er nýbyrjaður, vetrarmánuður. Enginn vafi á því. Apríl getur hinsvegar brugðið til beggja átta. Vetrarmánuður eða vormánuður. Duttlungar náttúrunnar. Maí er hinsvegar tvímælalaust vormánuður. Í minningunni eru maíkvöldin sérstök góðveðurskvöld. Þá vorum við í „sto" eða „yfir" kvöld eftir kvöld. Fórum þó stöku sinnum í „kjöt í pottinn". Svo í september var komið haust. Október beggja blands en nóvember vetrarmánuður. Svoleiðis var nú það. Held ég sé að verða veðursjúkur.

Seinnipartinn í dag rigndi hressilega. Hundum og köttum er sagt á enskunni. Úrhellisrigningu kalla ég þetta. Hann hlandrignir segja sumir. Þegar talað er um hlandrigningu dettur mér alltaf í hug vísan góðkunna:

Regnið þungt til foldar fellur
fyrir utan gluggann minn.
Það er eins og milljón mellur
mígi í sama hlandkoppinn.

Svona er nú hugsunarhátturinn. Get samt ekkert að þessu gert.

Óttalega er Icesave-umræðan orðin þreytt eitthvað. Sérfræðingarnir í bankamálum eru líka orðnir afar margir eftir að bloggið kom til sögunnar. Mér finnst annar hver maður skrifa af ofurviti (að eigin áliti) um fjármál og skyld málefni og hafa einnig miklu meira vit á öllu en almennar þingmannsvæflur og ráðherraræflar sem þó reyna að kynna sér málin eins vel og vit þeirra hrekkur til. Ætli endirinn verði ekki sá að allmargir samþykki Icesave-samninginn bara til að losna við umræðuna endalausu.

Bókin sem ég er að lesa um þessar mundir heitir „Úr byggðum Borgarfjarðar" og er eftir Kristleif Þorsteinsson á Stóra-Kroppi. Það er Þórður sonur hans sem annast útgáfuna og bókin er gefin út árið 1944. Stórmerkileg bók og forvitnileg. Bæjarnafnið er skemmtilegt og sérkennilegt og býður heim ómerkilegum bröndurum sem ég ætla að stilla mig um að tilfæra hér dæmi um. Kannski kem ég einhverju að úr bókinni seinna meir en ég er nýbyrjaður á henni núna.

Fjölskylda Hannesar Þórs Helgasonar hefur tjáð sig um dóminn yfir banamanni hans. Þó ég vilji ekki á nokkurn hátt gera lítið úr sorg fjölskyldunnar og vonbrigðum með dóminn finnst mér að brotaþolum í málum sem þessu komi lítið við hvernig þjóðfélagið refsar þeim seku. Auðvitað á þjóðfélgið eftir því sem mögulegt er að tryggja að fólk þurfi ekki að verða fyrir glæpum af þessu tagi. Hvernig það er gert er yfirleitt ekki til bóta að brotaþolar ákveði. Hvað þetta sérstaka mál varðar þá finnst mér afar einkennilegt ef lausn afbrotamanns úr gæsluvist getur farið fram án afskipta dómstóla.

IMG 4666Gott er í góðu veðri mynd að mála.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband