1292 - Útrásarhetjur

Af hverju eru útrásarvíkingar eins og Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi í Fons að hamast við að gera Svavar Halldórsson að einhverri hetju? Jú, hann hefur fjallað eitthvað um þjófnaði þeirra og ævintýri í sjónvarpi en ekki meira en aðrir hefur mér sýnst. Ég bara skil ekki svona lagað. Sjá þeir ekki sjálfir hve hallærislegur málflutningur þeirra er? Ef kæra ætti alla sem kallað hafa útrásarvíkinga þjófa eða gefið eitthvað slíkt í skyn þá þyrfti að fjölga dómstólum mikið hér á landi.

Því hefur verið haldið fram að tapið af hruninu á Íslandi hafi í heild verið miklu meira en það sem lendir á okkur. Þegar allt sé talið megi segja að það sé mörg þúsund milljarðar króna. Hvað segir það okkur? Jú, það segir mér að minnsta kosti að víða hefur verið að finna bankamenn og stjórnendur jafnvitlausa þeim íslensku. Þó er ekki víst að þeir hafi verið alveg eins vitlausir því svo virðist sem þeim hafi tekist að fela tapið og róta yfir skítinn úr sér. Er það einhver afsökun fyrir þá íslensku? Eiginlega ekki. Svo er samt að sjá að þeim ætli að takast að forða eigin skinni og láta tapið lenda að mestu á almenningi. En umheiminum virðist ætla að verða forðað frá snilli þessara manna næstu árin.

Æ, þetta er dæmigert raus. Því ætti að þurfa að tyggja þetta upp aftur og aftur? Næsta bóla er þegar farin af stað og við verðum bara að vona að varlegar verði farið að þessu sinni. Eigum við einhvers annars úrkosti en að lúta valdi peninganna? Ég held ekki.Við getum að vísu farið niður á steinaldarstigið og afneitað peningum með öllu. Það færir okkur kannski á endanum meiri hamingju og forðar okkur frá álíka hruni og varð haustið 2008. En það mun líka færa okkur mikla óhamingju því framfarir allar munu stöðvast. Fólk mun hrynja niður úr allskyns sjúkdómum og vesöld. Aumingjaskapur okkar verður þá einskonar sýningargluggi sem notaður verður sem víti til varnaðar. Utanferðir munu falla niður og gullát einnig. Útlendur varningur mun hætta að mestu að sjást nema í dollarabúðum sem hér verða stofnaðar að sovéskri fyrirmynd.

Við höfum í gegnum árin lært ýmislegt og sápur og skó munum við geta framleitt og hugsast getur að þeim lífs-staðli sem hér var um miðja síðustu öld verði náð á endanum. Lífskjörin munu samt versna og meðalævin styttast. En allt þetta munum við harka af okkur með víkingablóðinu eina og sanna sem rennur í æðum okkar. Burt með allar skræfur og lyddur sem ekki hafa þannig blóð. Já, ég er að tala um helvítis útlendingana sem hirða afraksturinn af landgæðum okkar og senda hann til sinna heimkynna.

Hér gæti risið upp öflug útleningahatursbylgja þar sem þau Arnþrúður Karlsdóttir og Pétur Gunnlaugsson réðu því sem þau vildu. Þau gætu líka losað okkur við þá óværu sem farið hefur mjög vaxandi á síðustu árum og allt þykist vita.

Já, ég get tekið stórt uppí mig því enginn tekur mark á mér. Ég á engan kvóta í umræðunni. Það á Jóhanna Sigurðardóttir hinsvegar og að hún skuli á sinni eigin fésbókarsíðu fordæma Aríon-bankastjóra fyrir ofurlaun verður kannski til þess að einhver verður settur af eða a.m.k. lækkaður í launum.

IMG 4759Gína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

JÁJ og hans kumpánar eru hörundsárir og svíður undan Svavari, vilja að hann sé opinberlega hýddur (eða ígildi þess). Skilja ekki að á meðan það stendur yfir verður orðalagi hans í þeirra garð haldið lifandi. Þegar ég var að byrja í blaðamennsku sagði gamall refur í því fagi að við ættum að reyna í lengstu lög að leiðrétta ekkert, það væri aðeins til þess að vekja athygli á villunni eða missögninni sem í sjálfu sér væri oftast þess eðlis að hún væri gleymd þegar leiðréttingin birtist.

En JÁJ og félagar sjá til þess að gera orð Svavars ódauðleg og kannski merkilegri en þau í raun voru. 

Sigurður Hreiðar, 8.3.2011 kl. 14:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér um þetta Sigurður. JÁJ og félagar gera ekkert annað en halda á lofti því sem sagt hefur verið um þá með þessari heimsku.

Sæmundur Bjarnason, 8.3.2011 kl. 15:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband