Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

1305 - Að fara í hundana

Gísli Ásgeirsson skrifar á sitt málbein um stórmál vikunnar. Það er hvorki meira né minna en að séra Pálmi Matthíasson hafi sparkað í rassgatið á einhverjum á sparkæfingu og viðkomandi hafi ekki þótt það sérstaklega fyndið. Ég verð að viðurkenna að þetta hefur alveg farið framhjá mér. Ég hef verið upptekinn við að fylgjast með einhverjum smámálum í Japan og Lýbíu og veit ekki einu sinni í hvern var sparkað. Hugsanlega skiptir það máli. Gísli fer að dæmi góðra blaðamanna og gætir þess að segja ekki alla fréttina.

Hugleiðingar mínar um heimsmálin er ekkert að marka. Þær eru alltaf vitlausar. Nú var ég búinn að spá því að ekki kæmi til styrjaldar í Lýbíu. Ég ætla ekkert að spá neinu um Japan. Sennilega verður það öllum til góðs. Sérstaklega mér. Ég hef þá ekki rangt fyrir mér. Það er lítið að marka svona annað hvort eða spádóma sem betur fer. Annaðhvort ferst heimurinn eða ekki. Mér er eiginlega slétt sama.

Ég er að hasast dálítið upp á þessu bloggstandi og vona að lesendur mínir fyrirgefi mér það. Ég ætti ekkert að vera að þessu. Það væri miklu nær fyrir mig að reyna að prjóna eitthvað. Einu sinni kunni ég garðaprjón en kannski er ég búinn að gleyma því. Ég saumaði líka út einu sinni. Aðallega var það krosssaumur enda er hann fljótlærður og ekki mikil hætta á að gera vitleysur.

Nú gengur hundur undir hundsfót til að bjarga rottveilertík frá tortímingu. Mér finnst að útrýma ætti þeim hundum sem bíta fólk. Alltof margir eru skíthræddir við hunda. Kjafturinn er þeirra aðalvopn og ekki leyfist hverjum sem er að ganga um með vopn. Svo hefur mér skilist að í rauninni sé allt hundahald bannað og þeir sem hunda hafa í þéttbýli séu bara á undanþágu.

Fræg er kenningin um að svo mikið geti ljós orðið að það verði að myrkri. Sú kenning er 50 ára um þessar mundir. Ég hef nú ákveðið að endurbæta hana og nú hljóðar hún þannig að allt geti breyst í andstæðu sína ef magnið er nógu mikið. Þetta er eiginlega bara nánari útfærsla á kenningunni um ljóshraðann og efnið. Það er alveg leyfilegt að láta sér detta í hug hvað sem er.

Athyglisvert í Silfrinu í dag að meira að segja Vilhjálmur Þorsteinsson trúir því ekki að já-ið sigri. Efasemdir hans stafa líklega af ótta um að já-menn nenni ekki á kjörstað. Lítil er trú hans.

IMG 4970Gróðurinn gægist uppúr fönninni.


1304 - Sælgæti, sígarettur, vindlar

Varðandi Gaddafi og Japan hafa svo margir sagt það sem ég ætlaði að segja að ég sleppi því bara. Ýmislegt ófínt á sér stað þessa dagana sem hægt væri að slá pólitískar keilur með. Hvað mig snertir eru keilurnar í sjónum bara orðnar svo fáar að ég nenni ekki að leita að þeim.

Auglýsingakeilur finn ég þó öðru hvoru. Hagkaupsveldið auglýsir stórt í „Fréttatímanum" sem út kom á föstudaginn. Bregður jafnvel fyrir sig dönsku og segir „danske dager" með risaletri. Mín Andrésar Andar dönskukunnátta segir mér að errinu sé ofaukið en fínar auglýsingastofur eru víst á öðru máli.

Líklega er ég að komast á Sigurðarstigið því mér finnst fátt skipta máli nema veðrið. Gluggarnir hér eru líka svo vel heppnaðir að oftast er meira gaman að horfa útum þá en að bloggast hér allur í keng.

Athugasemdirnar í gær voru fremur margar. Laugardagsbloggin eru góð segja sumir. Sunnudagsbloggin ættu að vera enn betri en eru það bara ekki. Þeir sem illa eru haldnir af bloggsótt ættu því að lesa laugardagsblogg alla daga vikunnar.

Nú er ég að hugsa um að fara út að hjóla á hjólum atvinnulífsins. Merkilegt hvað allt er yfirleitt meira eða minna en gert var ráð fyrir. Á þessu er hægt að tönnlast fram og aftur í hverjum fréttatímanum eftir annan. Ég er orðinn hundleiður á þessu og þegar vorið kemur þá ætla ég að taka það og henda því í næsta fréttamann.

Ég er sískrifandi áskrifandi og gegnherílandi. Segi bara svona. Nú er ég í orðastuði enda er veðrið gott og ég búinn að fara í bað og þvo af mér Icesave-skítinn. Hugsa ekki meira um það mál. Kannski hverfur það bara.

Það er lítill eða enginn vafi á því í mínum huga að Jón Bjarnason er tekinn fyrir af unnendum ESB vegna þess að hann gefur höggstað á sér. Mér finnst hann mega vara sig á að ganga ekki of langt. Svo getur farið að hann vinni bændum landsins meira tjón en gagn. Ríkisstjórnin hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og mér finnst það ganga illa upp að einn ráðherrann sé sífellt á móti hinum í öllum málum sem sambandið snerta og spilli jafnvel fyrir í málum sem snerta önnur ráðuneyti. Þetta er bara minn pólitíski fimmeyringur í dag.

„Sælgæti, sígrettur, vindlar," söngluðu strákarnir á Melavellinum í eina tíð. Skelfing er maður orðinn gamall að muna eftir svonalöguðu. En svona er þetta. Sumt man maður hindrunarlaust og annað ekki.

IMG 4956Snjórinn situr á bekkjunum og hefur það gott.


1303 - Hafragrautur og fleira

Alveg er mig búið að hlakka til þess í allt kvöld að fá mér kornflex. Já, ég er svo skrýtinn að ég borða frekar kornflex á kvöldin en á morgnana. Auðvitað á maður ekki að éta meira en nauðsynlegt er. Ég hugsa að ég gæti alveg sofnað þó ég æti ekki allt þetta kornflex (mjólk og sykur auðvitað í viðbót). Þar með gæti ég kannski losnað við ístruna. Undar örlög þessi ístra. Ég var ekkert tiltakanlega feitur held ég þegar ég var ungur. En það er svo margt sem breytist. 

Sumir eru hissa á því að ég skuli hrósa sjálfum mér á þessu bloggi sem ég á einn og sjálfur. Mín afsökun er sú að ef ég hrósa mér ekki sjálfur þá gera það engir, hvernig sem á því stendur. Og hróssins þarfnast ég. Auðvitað reyni ég að gera það á þann hátt að alveg eins megi taka því sem einhverju gríni en vitanlega er mér full alvara.

Mér finnst alveg herfilegt að sjá ekkert nema hríðarbyl útum gluggann meðan ég er að skrifa þetta. Í alvöru talað finnst mér að veðurguðirnir eigi ekki að láta svona. Það er útaf fyrir sig að hafa leiðindaveður í janúar og jafnvel eitthvað fram í febrúar en að halda áfram langt fram í mars er algjör óþarfi. Það má alveg fara að vora svolítið.

Konan mín skipaði mér að fara í tramparaskóna mína áður en ég færði fuglunum morgunverðinn. Ég fattaði nú ekki alveg þetta með tramparaskóna en sennilega átti ég að slétta morgunverðarborðið sem mest áður en ég léti þá fá matinn. Svo kom haglél og sennilega fer allt á kaf áður en tími vinnst til að éta þetta sælgæti.

Nú hamast einhverjir við að auglýsa hafragraut. Bara af því að mér þykir hann góður. Sumir eru svo vitlausir að halda að hafragraut sé bara hægt að búa til úr Sólgrjónum. Svo er samt allsekki en mér finnst ágætt að ímynda mér að einhverjir séu svona vitlausir. Sjálfur geri ég minn hafragraut oftast úr Euroshopper haframjöli því það er ódýrast.

Hef verið að deila við einhvern AÁÍ (Afdrifaríkasta ákvörðun Íslandssögunnar) í kommentakerfinu hjá Svani Gísla Þorvaldssyni. Þetta eru athugasemdir við færslu sem heitir „Yndislegt" og er einskonar Icesave-deila og ég hvet alla sem hafa mikinn áhuga á því máli (eru víst orðnir fáir) til að kíkja.

Hef verið að skoða gömul blogg eftir mig. Get ekki varist þeirri hugsun að bloggin mín hafi verið miklu skemmtilegri áður fyrr. Mest hef ég skoðað endurminningar og margt skemmtilegt hefur rifjast upp fyrir mér. Varla eyk ég ánægju lesenda þessa pistils með því að halda því fram að áður hafi ég skrifað skemmtilegri blogg. Það er líka hægt að halda því fram að mér fari sífellt fram við skriftirnar. Dægurmálin leiðast mér skelfilega svo einkum eru þetta allskonar hugleiðingar núorðið eftir að skrúfast hefur að mestu fyrir endurminningarnar.

IMG 4955Allt á kafi í snjó. Eða þannig.


1302 - Vandræðafyrirsögn

Nú er Reykjavíkurskákmótinu lokið. Þó Bjarni hafi staðið sig vel um miðbik mótsins eins og ég minntist á um daginn þá seig á ógæfuhliðina hjá honum eftir það. Fjórum síðustu skákunum tapaði hann og fékk jafnan mjög stigaháa andstæðinga. Nú er bara að bíta í skjaldarrendurnar og gera betur næst. 

Alveg er furðulegt hve rólegir Japanir eru þó þeir eigi við miklar hörmungar að stríða. Þar er ekki æsingnum fyrir að fara. Ekki er einu sinni víst að hörmungum þeirra sé nærri lokið. Fyrir einn eru þessar hörmungar samt með afbrigðum ánægjulegar. Sá er Gaddafi Líbíuleiðtogi. Nú hefur kastljós heimsins nefnilega beinst frá honum. Ekki er samt víst að hann sé þar með búinn að bíta úr nálinni. Láti Vesturveldin verða af flugbanni getur orðið erfitt fyrir hann að halda völdum í svo víðlendu ríki.

Þegar Kristján konungur tíundi stóð á Kambabrún og horfði á allar sveitir Suðurlandsins austur að Eyjafjallajökli varð honum að orði: „Á ég svona víðlent ríki? Ekki grunaði mig það."

Nú er talsvert farið að birta um sjöleytið og enginn vafi á því að vorið er að nálgast þrátt fyrir snjóinn sem yfir öllu er. Snjórinn hér í Reykjavík er mun meiri en verið hefur undanfarin ár. Hálfkuldalegt að horfa útum gluggann. Jafnvel skýin eru þungbúin og líður illa.

Mér finnst umræðan um aðildina að ESB vera komin út í vitleysu þegar ein aðalástæðan fyrir því að ekki skuli ganga í þau samtök er sögð vera sú að þar sé maturinn svo vondur og misheppnaður.

Mestu bloggvandræði mín eru oft að finna fyrirsögn. Það geri ég yfirleitt síðast af öllu og stundum er hún alveg misheppnuð. Stundum tekst mér þó bærilega upp. Verst (eða best) er að bloggin mín fjalla næstum alltaf um hitt og þetta og fyrirsögnin blasir ekkert endilega við. Þó veit ég eða þykist vita að sumir lesi blogg með tilliti til fyrirsagna. Á blogg-gáttinni sést t.d. ekkert nema fyrirsögnin. Ég hef alltaf númer á mínum bloggum svo ég hef kannski forskot á suma að því leyti.

IMG 4922Kræklótt tré. (Askur Yggdrasils??)


1301 - Bækur

Tryggð mín við Moggabloggið er ótrúleg. Það eru varla nema hörðustu íhaldsmenn sem halda þar jafnlengi áfram og ég. Þó er ég ekki íhaldssamur. A.m.k. finnst mér það ekki sjálfum. Svei mér ef lesendum mínum er ekki að fjölga. Moggabloggið er þó stöðugt að missa vinsældir sínar. Velti nokkuð mikið fyrir mér hvort vinsældir skrifa minna eða óvinsældir eru undir bloggstaðnum komnar. Finnst þeir ekki hafa gert rétt sem héðan hafa farið með hávaða og látum útaf einhverjum stjórnmálalegum ástæðum og held að oft hafi þeir séð eftir því.

Margir verða til þess að kommenta á bloggið mitt. Vissulega eru það oft þeir sömu og kommentin frá þeim verða oft nokkurskonar samtal. Nýir aðilar bætast þó alltaf öðru hvoru við og flestir eru þeir jákvæðir.   

Einn aðalgallinn við bloggið í sambandi við endurminningar er hve sundurlaust það er. Minningar þurfa helst að vera samhangandi og gera þarf ákveðnum tímabilum skil. Skapa þarf andrúmsloft með skrifunum og raða minningunum rétt niður. Það hentar ekki að setja það sem skrifað er á hverjum degi samstundis á bloggið. Annars er þetta auðvitað bara eitt vandamál af mörgum sem sá sem endurminningar vill skrifa verður að takast á við.

Fór á bókasöfnin í dag. Já, nú orðið þarf ég að fara oftar þangað en áður var vegna þess að á Borgarbókasafninu er búið að stytta lánstímann úr einum mánuði í 21 dag. Meðal bóka sem ég fékk lánaðar er bók sem heitir: „Encyclopedia of things that never were." Í þessari bók sýnist mér að margt athyglisvert sé og kannski skýri ég hér frá einhverju af því hérna. Auk þess fékk ég nýtt hefti af Söguþáttum landpóstanna og margt fleira.

Einnig fékk ég lánaða bókina: „Skáklist" sem listasafn Reykjavíkur gaf út árið 2009 í tilefni af sýningu sem þar var haldin. Þar eru myndir af mörgu athyglisverðu sem skák snertir en ekki er víst að ég geti mikið um þá bók hér. Afritun er með öllu bönnuð.

Þegar ég var yngri fannst mér ég geta allt. Ástæðan fyrir því að ég var ekki á þingi og ekki í ríkisstjórn var aðallega að sjálfsögðu sú að ég nennti því ekki og kærði mig ekki um það. Svo var málið þannig vaxið ennfremur að aðrir sáu ekki alltaf hæfileika mína enda var ég útsmoginn í að leyna þeim.

Þegar ég eltist og vitkaðist fann ég smám saman að aðrir vissu og gátu bara ýmislegt líka. Satt að segja voru þeir furðu margir. Nú á mínum efri árum finnst mér jafnvel að sumir standi mér framar. En það eru ekki margir.

IMG 4914Blóm.


1300 - Bloggað viðstöðulaust

Að sumu leyti á ég erfiðara með að blogga svona ört eins og geri eftir að ég er farinn að eyða eins miklu púðri í kommentasvörin og ég geri núorðið. Þau eru samt skemmtileg og líka auðvelda þau mér skrifin að sjálfsögðu. Oft eru þau svo mikið eftirá að það eru áreiðanlega mjög fáir sem lesa þau. Mér finnst ekkert athugavert við að skrifa bara um það sem ég hugsa mest um. Fréttir og þessháttar getur fólk fengið annars staðar. 

Ég er ekki að þessu bloggstandi til að fræða fólk, þó stundum detti mér í hug að blogga um einhvað þessháttar. Endurminningarnar eru líka orðnar svo sjaldgæfar að varla er það þeirra vegna sem ég er að þessu. Núorðið finnst mér að ég sé að svíkja lesendur mína ef ég skrifa ekki eitthvað á hverjum degi. Þetta er bara einhver tilfinning sem ég losna ekki við. Það byggist líka á einhverri tilfinningu hve löng bloggin eru hverju sinni.

Kannski er ég í gegnum bloggið að byrja að þekkja sjálfan mig betur. Ekki veitir af. Ef maður þekkir ekki sjálfan sig er útilokað að skilja aðra. En til hvers á maður að reyna að skilja aðra? Er ekki nóg að reyna að skilja sjálfan sig? Þó maður viti kannski meira um sjálfan sig en aðra er ekki þar með sagt að maður skilji allt sem maður gerir. Nei, þetta er orðið of háfleygt fyrir mig. Ég skil þetta ekki almennilega.

Það er skiljanlegt á margan hátt hvernig stjórnarandstaðan hagar sér. Ómögulegt er fyrir hana að ráðast að stjórninni á pólitískum forsendum. Þá reynir hún að notfæra sér kunna öfgamenn til að finna einhverja lagakróka í sambandi við Icesave og ESB og hengir sig síðan á þá. Landráðastipillinn sem reynt er að koma á alla sem ríkisstjórnina styðja á eftir að koma ESB-andstæðingum mjög illa.

Sjengis hinn enski (sem upphaflega er að ég held af einhverju öðru þjóðerni) segir að einhverjir vondir menn hafi neytt fyrirtæki sitt í greiðsluþrot. Þetta er sami söngurinn og hjá Jóni Ásgeiri ekki alls fyrir löngu. Auðvitað taka engir mark á þessu. Samt er það svo að flestir reikna áreiðanlega með að Kaupþingsmenn séu vitlausari aðilinn í samskiptum þessara delinkventa. Ekki er heldur ástæða til að ætla annað en að arabiski sheikinn hafi haft sitt að mestu á þurru í samskiptum við íslensku útrásarvíkingana.

IMG 4909Grænar eyjar.


1299 - Sannfæring um Icesave og ESB

Þeir sem eru að deila við mig í kommentakerfinu um Icesave og skyld mál hljóta að vera að reyna að sannfæra mig eða hugsanlega aðra sem lesa kommentin. En gera það margir af þeim sem þó líta inn? Kannski þau fyrstu en síðan hlýtur þeim að fara fækkandi. Ég les þó alltaf allar athugasemdir sem koma í kommentakerfið mitt og aldrei hefur það valdið mér neinum vandræðum. Kannski er þessum andstæðingum mínum bara illa við að ég sé að halda fram andstæðum skoðunum við þeirra sannfæringu. 

Sannfæring margra virðist vera afar sterk þegar kemur að málum af þessu tagi. Í mínum huga eru peningar samt alltaf bara peningar. Á margan hátt er það einungis framtíðin sem skiptir máli. Nútíðin hefur samt spilað alltof stóra rullu undanfarin ár meðal okkar Íslendinga. Þó margir hafi áhuga fyrir fortíðinni þarf það engan vegin að þýða að samanburður milli tíða sé alltaf fortíðinni í hag. Mannskepnan breytist sem betur fer og ég er alls ekki frá því að framfarir séu á fleiri sviðum en afturför.

Sá siður virðist vera að verða landlægur á landi hér að kenna útlendingum um flest sem aflaga fer. Upp og ofan eru útlendingar auðvitað alls ekkert verri en við. Bara öðruvísi. Margir skilgreina sjálfa sig eftir trúnni ef ekki dugar að gera það eftir þjóðerni. Þannig eru múslimar úthrópaðir víðast hvar í vesturheimi og yfirleitt dregið fram það versta í trú þeirra og heimfært á alla sem trúna játa. Ekki dettur mér í hug að samsinna því fráleitasta í kristinni trú þó mér þyki hampaminna að játa henni en vera að hamast við að finna einhverja nýja. „Trúmál eru einkamál", er setning sem mér finnst að taka beri alvarlega.

Sumir geta að vísu varla skrifað um annað en trúmál og við því er ekkert að segja. Auðvitað skipta þau máli. En það er hægt að ræða um hvað sem vera skal og vera sammála (eða ósammála) um það án þess að það komi trúmálum nokkuð við. Sú er að minnsta kosti mín skoðun. Aðrir sjá allt í ljósi þess sem þeir hafa sérstakan áhuga á og það er bara ágætt.

Einræða sú sem bloggið óneitanlega er fellur mér ágætlega. Hér get ég vaðið elginn á hverjum degi og skrifað um það sem mér dettur í hug. Lesendur eru líka furðu margir ef marka má teljarann. Sennilega er ég einkum að þessu til að troða mínum skoðunum upp á þá sem þetta lesa. Ekki get ég með öllu neitað því ef ég skoða hug minn vel. Líklega liði mér best ef allir hugsuðu eins og ég.

Það sem þingmenn kalla við hátíðleg tækifæri óundirbúinn fyrirspurnartíma ætti að heita undirbúinn áróðurstími eða bara hálftími hálfvitanna eins og Jónas kallar þetta.

IMG 4898Grillaðar og girnilegar sardínur.


1298 - Blogg og skák

Mér dettur í hug að ástæða þess meðal annars hve orðljótir og skömmóttir bloggarar eru oft, sé sú að það er oft sama hvernig þeir hamast, enginn segir neitt. Svo færa þeir sig stöðugt upp á skaftið og bölsótast meira og meira. Allt í einu segir svo einhver eitthvað (t.d. Árni Matt. á Moggablogginu) og þá eru þeir komnir of langt út í kviksyndið til að komast aftur til lands. Afleiðingin er sú að bloggið í heild líður fyrir þetta. Það er álitið með nokkrum rétti að svona séu bloggarar nú og taka verði öllu sem þeir segja með varúð. Bloggið er samt markverð nýjung, því oft ratast kjöftugum satt á munn. Úr því sem komið er verður fólk ekki stöðvað. Sannleikurinn vill út.

Fésbókin, sem ég vil alltaf ræða um leið og bloggið, er dálítið öðruvísi. Meira eins og kaffibollaspjall meðan bloggið er dálítil predikun. Bloggið er líka meira háð umhverfinu. Bloggveitur koma og fara. Eiga sína vinsældatíma og dala svo. Fésbókin aftur á móti nýtur þess að þar er einn stjórnandi og þar er ekki vinsældakeppni af sama tagi og af því að einn aðili stjórnar þar er samband aðila sterkasti hluti hennar.

Bjarni sonur minn er að gera það gríðarlega gott á Reykjavíkurskákmótinu og ég get ekki stillt mig um að minnast á hann hér. Í gær (laugardag) vann hann bæði Róbert Lagerman (áður Harðarson) og Dag Arngrímsson og teflir í dag (sunnudag) við Hannes Hlífar Stefánsson. Er ásamt tveimur öðrum efstur Íslendinga á mótinu. Já, hann hefur gaman af að tefla. Annars verður þetta hálfúrelt frásögn ef ég geymi hana fram til næstkomandi miðnættis, eins og ég er vanur. Ekki er samt gott að gera við því. Ég er bara enginn fréttabloggari. Enda er svosem sagt frá þess í Mogunblaðinu og víðar.

Skák, sem er óneitanlega er eitt af mínum aðaláhugamálum, nýtur ekki nærri eins mikilla vinsælda hjá fréttamiðlum nú eins og áður var. Úbreiðsla hennar um heiminn er samt gríðarmikil og vaxandi. Fjöldi útlendinga á þessu móti er mikill og reikna má með að þeir raði sér í efstu sætin. Íslendingar koma líklega ekki til með að veita þeim bestu þeirra mikla keppi.

IMG 4868Pálmatré.


1297 - Síðastaleikur

Andstæðingar Icesave og ESB eru farnir að láta mig heyra það í athugasemdakerfinu. Ekki hefur það áhrif á mig. Sýnir mér bara að það sem ég skrifa er lesið. Einhverjir hljóta að hafa aðrar skoðanir en ég. Ekki bara í þessum málum heldur í flestum öðrum líka. Það er bara sanngjarnt og eðlilegt. Það gæti vel verið að ég skipti um skoðun. Kannski eru þeir líka að hugsa um lesendurna. Alveg eins og ég. 

Þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave minnir mig að sé 9. apríl. Langt er þangað til en samt hefur Jónas Kristjánsson áhyggjur af því að stuðningsmenn samkomulagsins mæti ekki á kjörstað. Ég hef engar áhyggjur af því. Ef þeir mæta ekki þá er sannfæring þeirra um að samkomulag sé betra en ósamkomulag ekki nógu sterk og þá verður bara að taka því.

Um daginn skrifaði ég um „kjöt í pottinn" og lýsti þeim leik nokkuð. Sá leikur er eflaust algengur og gengur sjálfsagt undir ýmsum nöfnum. Minntist líka á leikinn „yfir" og nú ætla ég að reyna að lýsa honum svolítið. Í grunninn var hann þannig að skipt var í tvö lið sem komu sér fyrir sitt hvoru megin við hús það sem nota átti.  Síðan var bolta hent yfir húsið og ef einhver greip boltann átti hann að hlaupa í kringum húsið með hann. Þegar hann kom þangað sem hitt liðið var átti hann að reyna að kasta í einhvern úr því og þá þurfti sá sami að skipta um lið. Af einhverjum ástæðum voru reglur í þessum leik alltaf tilefni til deilna. Þær voru alls ekki eins fastmótaðar og sjálfsagðar og í flestum öðrum leikjum.

Til dæmis þurfti fyrst að finna hentugt hús. Svo þurfti að ákveða hvort einhver mætti vera á útkikki og vara hina við. Hvort henda mætti boltanum oft eða ekki. Hvað teldist að grípa boltann. Hvað ætti að gera ef hann væri ekki gripinn o.s.frv. , o.s.frv.

„Síðastaleikur" var líklega mest stundaður allra leikja og þurfti engan sérstakan undirbúning og hægt var að fara í hann hvar og hvenær sem var. Hann var einfaldlega þannig að einhver ákvað skyndilega að vera hann, klukkaði næsta mann og sagði „síðasti". Sá var þar með orðinn hann og þurfti að klukka einhvern annan og segja það sama. Allir reyndu að sjálfsögðu að hlaupa í burtu en sá sem var hann þurfti að ná einhverjum og síðasta hann. Þannig gat þetta gengið lengi og stundum varð skemmtilegur eltingaleikur úr þessu þegar reynt var að síðasta þá sem fljótir voru að hlaupa.

IMG 4866Canary-köttur.


1296 - Menntun, ást og sorg

Slæmt er hvernig deilurnar um aðild að ESB og Icesavemálið virðast ætla að þróast. Ég hef áður sagt, að í mínum huga er Icesave ekki mjög stórt mál, en ESB er það óneitanlega. Æstir stuðningsmenn nei-sinna í því máli eru fljótir að senda alla sem verður á að sjá eitthvað jákvætt við ESB-aðild í landráðafylkinguna. Sjálfur hef ég víst verið þar lengi og sýnist vafasamt að umræðan um ESB-aðild komist uppúr þjóðrembu- einangrunar- og landráðafarinu. Þessvegna hef ég heldur forðast þessa umræðu en hitt að undanförnu. Hún á líka eftir að harðna en vonandi líka að færast á hærra plan eins og HKL mundi hafa orðað það. 

Fyrir nokkrum árum las ég bók eftir Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing. Sú bók fjallaði um einsögu og aðallega um tvo bræður á Ströndum. Heitið á bókinni var ansi langt en hafði að ég held eitthvað með menntun ást, og sorg að gera. Þeir höfðu haldið ítarlegar dagbækur fyrir um hundrað árum og komið víða við. Bók þessi fjallaði fyrst og fremst um þessar dagbækur og hugleiðingar höfundar í framhaldi af því. Mér fannst þessi bók afar athyglisverð og er ekki frá því að hún hafi haft áhrif á um hvað ég fjalla í bloggi mínu.

Kannski geri ég ráð fyrir að einhver kryfji til mergjar eftir svona hundrað ár það sem ég hef verið að skrifa hér í bloggið. Þeir sem þetta lesa verða þá allir, ásamt mér, komnir undir græna torfu og eitthvað enn vinsælla búið að taka við af blogginu (og fésbókinni). Kannski verða allir hættir að lesa fyrir löngu þá nema sagnfræðingar og líka getur auðvitað skeð að allt verði búið. Kjarnorkustyrjöld búin að geysa og lífið og blind náttúran byrjuð að gera tilraunir að nýju. Atlantis-skipulag okkar allt fyrir löngu gleymt og grafið.

Sagnfræði hefur í seinni tíð heillað mig meira en heimspeki. Verst er að ég þekki grundvöll hennar of lítið og er eflaust fullur af allskyns fordómum. Las í tímaritinu Sögu (frá 2009 minnir mig) ritdóm sem meðal annars fjallaði um þessa bók sem ég gat um hér áðan. Sá ritdómur var eftir Helga Skúla Kjartansson. Svo virðist sem þessi bók hafi verið upphafið að einhverri ritröð sem ég hef ekki kynnt mér mjög mikið. Sé að það er ákaflega misjafnt hvaða efni höfðar til mín. Enginn vafi sýnist mér þó að sagnfræði í heild sé mjög áhugaverð.

Íslenskar orðskýringar eru ekki alltaf flóknar. Ég hef tekið að mér að finna nokkrar einfaldar og fæ greitt fyrir það úr kristnisjóði. (Bara plat) Sú fyrsta er svona: Sá sem ætlar að gera eitthvað að líkindum ætlar að gera það við líkin af kindunum. Þetta er nú ósköp einfalt og auðskilið. Orðatiltækið er upprunnið í fjarkláðapestinni sem herjaði á landið um árið. Ef einhver segir að hann geti ekki á heilum sér tekið þá er hann líklega hálfur. Með öðrum orðum hreifur af víni.

Tvisvar verður sá feginn sem á steininn sest er stundum sagt. Þetta er því miður afbakað og misskilið. Venjulega þarf sá sem á stein sest að setjast a.m.k. tvisvar áður en það fer sæmilega um hann og þannig var málshátturinn notaður í öndverðu. Í upphafi skyldi endirinn skoða er stundum sagt en þetta á að vera þannig að upphafið skyldi endalaust skoða. Þannig mátti oft komast hjá áframhaldinu.

Þessi eða hinn er stundum sagður hafa skitið langt uppá bak. Þetta ber ekki að taka bókstaflega. Átt er við að maðurinn hafi greinilega staðið á höndum nýlega. Hugsanlega þá á höndum annarra og er máltækið þá orðið í flóknara lagi. Stundum er sagt að láta sverfa til stáls. Mig grunar að þar sé um að ræða afbökun og upphaflega hafi verið sagt „að hverfa til Páls". Þá þarf aftur að huga að því að í fornu máli merkir að „hverfa til" að faðma. Og svo er því ósvarað hvaða Pál er um að ræða. Kannski er ég að gera einfalt mál flókið.

IMG 4824Listaverk á Tenerife.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband