1294 - Um bloggara

Það er ekki einfalt mál að blogga svona á hverjum degi eins og ég geri. Ég ímynda mér til dæmis að miklu einfaldara sé að blogga örstutt viðbrögð við pólitískum fréttum dagsins oft á dag. Þó er það ekkert víst. Hef aldrei prófað það. Er sennilega alltof fyrirsjáanlegur og bloggin mín of lík hvert öðru. Ég er bara búinn að venja mig á þennan rabbstíl og veit ekki hvernig ég á að hætta við hann eða hvort ég get það.

Reyni samt eins og ég get að hafa bloggin fjölbreytt. Efast þó um að þau séu það. Mér er alveg sama þó ég komi til með að verða síðasti geirfuglinn (les: Moggabloggsbloggarinn). Er ekki viss um að ég nennti að flytja mig eitthvert annað nema ég fái gull og græna skóga fyrir. Ég er svo vanafastur að ég blogga orðið daglega án þess að hafa mikið fyrir því. Samt er ég sífellt að hugsa um hvort ekki væri sniðugt að blogga um þetta eða hitt sem mér dettur í hug. Gleymi því svo venjulega. Sumt rifjast kannski upp fyrir mér þegar ég sest við tölvuna.  

Bloggaði í gær um bloggara. Kannski ég haldi því áfram. Á meðal þeirra bloggara sem ég les oft eru Björn Birgisson og Axel Jóhann Hallgrímsson. Gott ef þeir eiga ekki báðir heima í Grindavík. Ég les svosem fleiri blogg þó ég sé alltaf að reyna að venja mig af þeim ósið. Í staðinn reyni ég að hugga sjálfan mig með því að ég lesi sjaldan dagblöð enda eru þær fréttir sem ég fjalla um oft orðnar dálítið úldnar.

Jón Daníelsson berst gegn krítarkortunum. Held að það sé vonlítil barátta. Geri mér mæta vel ljóst að einhver þarf að borga fyrir það sem ég fæ lánað með því að nota Visa-kortið mitt. Sé samt ekki hvernig það á að fá mig til að hætta því. Séu krítarkortin notuð skynsamlega græða þeir sem þau nota. Einhverjir tapa að sjálfsögðu. Það er samt fyrst ef krítarkortin eru notuð óskynsamlega sem tapið og gróðinn vex. Krítarkortafyrirtækin græddu sjálfsagt lítið ef engir notuðu þau óskynsamlega.

IMG 4778Myndarlegt hlið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Sæll Sæmundur! Takk fyrir að lesa bloggin mín af og til! Það er gott að vita til þess að góðir drengir komi í heimsókn af og til. Þú ert einn þeirra og ég þakka þér þín innlit. Geri heldur ráð fyrir að oft verðir þú fyrir vonbrigðum. Vonandi ekki alltaf! Takk.

Björn Birgisson, 11.3.2011 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband