Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

830 - The Bandwagon effect, Njála, ESB og ýmislegt annað

Unnið er að því hörðum höndum að þyrla upp pólitísku gerningaveðri gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og ríkisstjórninni allri. Stuðningsmenn eru til þó þeir láti ekki mikið fyrir sér fara. Ekki verður löng bið á að þetta verði til lykta leitt. 

Í Njáls sögu segir:

Mörður sendi konur í hérað og voru þær í brautu hálfan mánuð. Þær komu aftur og höfðu byrðar stórar. Mörður spurði hvar þeim hefði mest gefið verið. Þær sögðu að þeim hefði að Hlíðarenda mest gefið verið og Hallgerður yrði þeim mestur drengur.

Hann spyr hvað þeim væri þar gefið.

"Ostur," segja þær.

Hann beiddist að sjá. Þær sýndu honum og voru það sneiðir margar. Tók hann þær og varðveitti. Litlu síðar fór Mörður að finna Otkel. Bað hann að taka skyldi ostkistu Þorgerðar og var svo gert. Lagði hann þar í niður sneiðirnar og stóðst það á endum og ostkistan. Sáu þeir þá að þeim hafði heill hleifur gefinn verið.

Þá mælti Mörður: "Nú megið þér sjá að Hallgerður mun stolið hafa ostinum."

Af þessu má sjá að nútíma leynilögreglusögur eru ekki alveg ný uppfinning. Svona kom Mörður upp um þau Hallgerði og Melkólf.

Símamál eru svo flókin nútildags að ég forðast að reyna að skilja þau. Um daginn hringdi til mín kona og vildi endilega gera mér eitthvert símatengt gylliboð. Ég þorði ekki að játa neinu en sló svona úr og í án þess að bíta hana af mér. Bað hana meðal annars að hringja aftur seinna. Símasala er oft óttalega pirrandi á matmálstímum  en getur verið hin skemmtilegasta þar fyrir utan. Í þessu tilfelli svaraði ég áreiðanlega ekki eftir prógramminu og það varð til þess að konugreyið missti þráðinn og ég hefði sennilega getað selt henni eitthvað.

Það hefur svosem komið fram hér á blogginu mínu að ég styð inngöngu í ESB miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja. Anna Sigríður Guðmundsdóttir (ansigu.blog.is) segir í nýlegu kommenti á bloggi Láru Hönnu Einarsdóttur meðal annars:

Norðmenn allmennt held ég að viti ekki um að umsókn Íslands að ESB sé bindandi. Þeir halda að þetta séu bara aðildarviðræður eins og Normenn hafa átt við ESB. Síðan verði bindandi kosning Íslensku þjóðarinnar um vilja til aðildar.

Í kommenti við sömu færslu spurði ég hana hvað hún ætti nákvæmlega við með þessu. Kannski hefur hún ekki séð þá spurningu en vel trúlegt er að einhver sem orð mín les geti útskýrt þetta fyrir mér. Ég skil það þannig að Anna Sigríður reikni ekki með þjóðaratkvæði hér á Íslandi um mögulegan aðildarsamning að ESB. Hvað hefur hún hugsanlega fyrir sér í því?

 

829 - Jónas H. Haralz o.fl - en ekki minnst á Icesave

Jónas H. Haralz varð níræður um daginn. Hann var efnahagsráðunautur ríkisstjórna og seinna bankastjóri. Á þeim tíma var Ólafur Ragnar Grímsson ungur og ferskur og stjórnaði þáttum í sjónvarpi sem tekið var eftir. Mér er í minni einn þáttur þar sem hann tók bankastjóra landsins á beinið og spurði þá út úr um ýmis mál og lét þá líta illa út.

Flestir þeirra tóku þessu fremur illa. Man til dæmis eftir að Jóhannes Nordal varð hálf fýldur við og fannst spurningar Ólafs Ragnars greinilega skelfing barnalegar og varla svaraverðar. Jónas Haralz sem var einn bankastjóranna reyndi sem best hann gat að úskýra málin fyrir Ólafi og lét alls ekki á sér sjá að honum mislíkaði galgopaskapurinn.

Einhverjir halda kannski að Helga Sigurðar hafi verið ber allt árið. Svo var þó alls ekki. Hún er tvímælalaust í hópi frægustu matargúrúa landsins. Ein bóka hennar sem heitir reyndar „Grænmeti og ber allt árið", var talsvert milli tannanna á fólki og óspart snúið út úr nafninu.

Hún var systir Ingimars í Fagrahvammi en Sigurður sonur hans var skólabróðir minn og einn besti vinur. Eitt sinn fórum við Siggi í bæinn og gistum þá á heimili Helgu. Hún var ekki heima en ég man vel þá virðingu sem borin var fyrir henni og flottheitin á íbúð hennar eru mér eftirminnileg.

 

828 - Karlmenn vs. konur

Varðandi Icesave og það allt saman finnst mér athyglisverðust sú kenning að í rauninni sé núverandi ríkisstjórn minnihlutastjórn með stuðningi óánægjuhópsins í vinstri grænum. Afleiðingin verður líklega sú að Icesave verði lagt til hliðar og reynt að ná árangri í öðrum málum. Hversu lengi það verður hægt veit ég ekki.

Reyndi það einu sinni á sjálfum mér hversu magnað vopn hnífur getur verið. Þá var ég nýorðinn skáti og líklega svona 10 til 12 ára. Hafði fengið að gjöf skátadálk í hulstri og bar hann við belti mér með miklu stolti. Í Hveragerði voru þá ætíð sundnámskeið haldin á vorin þegar skóla var lokið. Hópur sundnámskeiðskrakka réðist eitt sinn að mér og einum eða tveimur öðrum og hugðist lumbra á okkur fyrir eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var. Þá var það sem ég lyfti hnífnum ógnandi á loft og krakkarnir beinlínis hrukku undan og létu okkur í friði.

Löngu seinna eignaðist ég svo annan stóran og fínan dálk í mjög flottu hulstri. Þá var ég að vinna hjá Hannesi Þorsteinssyni og hann að koma frá Finlandi. Hann gætti þess að selja mér hnífinn á 25 aura því ekki má gefa eggvopn né skæri samkvæmt Íslenskri þjóðtrú.

Í 25 ár mætti hann daglega á bílastæðið og innheimtil bílastæðagjöld. Svo hætti hann allt í einu. Þá komst upp að hann hafði allan tímann hirt peningana sjálfur og haft einar 600 milljónir króna uppúr krafsinu á þessum 25 árum. Þetta kallar maður að bjarga sér. Frá þessu var sagt í Morgunblaðinu. Í Ólafsvík var það tíðkað áður fyrr að fara á berjasvæðin undir Jökli og innheimta tínslugjöld ef menn vantaði peninga.

„Af hverju eru karlmenn vinsælli bloggarar en konur?", spyr Svanur Gísli á sínu bloggi. Þetta er áhugaverð spurning og mér finnst Svanur aðallega vera að tala um Moggabloggið. Í athugasemdum er greinilega líka verið að tala um Blogg-gáttina. Sjálfum datt mér í hug að líta á eyjubloggarana. Þeir virðast vera 112. Þar af eru 73 karlmenn en 39 konur.

Þannig að ekki er að sjá annað en staðhæfingin sé rétt. Líklega er skiptingin svipuð hjá stórhausum Moggabloggsins og á eyjunni. Eiginlega kallar þessi spurning á aðrar.

Eru hlutföllin eins slæm í öðru tölvuveseni en bloggi?

Senda konur færri tölvupósta en karlmenn?

Eru konur ekki minna áberandi allstaðar nema í húsverkum og tiltölulega fáum starfsgreinum?

Er þetta ekki afleiðing mismununar á öðrum sviðum svo sem í atvinnulífinu?

Og eru konur ekki sífellt að bæta sig, bæði á bloggsviðinu og annarsstaðar?

 

827 - Ein krísan af annarri

Í ævisögu Steingríms Hermannssonar, sem ég las fyrir nokkru, er sagt frá því að starf forsætisráðherra sé þannig að ein krísan taki jafnan við af annarri. Ég held að Jóhanna geri sér grein fyrir þessu. Sé ekki að ástandið geti skánað í þjóðfélaginu þó núverandi ríkisstjórn fari frá. 

Sagt er að Sjálfstæðismenn íhugi að bjóða Framsókn og Vinstri grænum hlutleysi ef ákveðnar verði kosningar fljótlega. Hef ekki trú á að svo verði. Samt álít ég að núverandi stjórn verði ekki við völd út kjörtímabilið.

Áður fyrr þegar aðeins var mögulegt að sjá eina sjónvarpsrás hér á Íslandi var meira horft á sjónvarp en nú er. Á vinnustöðum mátti ganga útfrá því að margir hefðu horft á sjónvarp kvöldið áður og hægt var að hefja umræður um efni þess án nokkurs inngangs. Nú er þetta sjaldan hægt.

Gott ef RUV er ekki bara að skána. Sé ekki betur en ég þurfi að fylgjast með fjórum þáttum þar næstu vikurnar. Á þriðjudögum er það Hrunið, miðvikudögum Kiljan, fimmtudögum vísindaþátturinn hjá Ara Trausta og svo er Spaugstofan á laugardögum. Sem betur fer sýnist mér að horfa megi á alla þessa þætti á Netinu svo tímasetningarvandamálið ætti að vera úr sögunni.

Maður nokkur lenti í því að sprakk á bílnum hjá honum þar sem hann var einn á ferð um nótt. Púnkteringar voru algengari í gamla daga en nú er. Tjakkur var stundum kallaður dúnkraftur í hátíðlegu máli.

Ekki var mjög langt á næsta sveitabæ og maðurinn fór þangað því tjakkurinn hans var bilaður. Á leiðinni velti hann mikið fyrir sér hvernig móttökurnar yrðu á bænum. Bjóst við að þær yrðu ekki góðar. Rökræddi um málið við sjálfan sig fram og aftur  á leiðinni og varð sífellt æstari og á endanum fokreiður.

Kom svo að bænum og barði að dyrum. Svefndrukkinn maður kom í glugga á annarri hæð og spurði:

„Hvað gengur á? Hvað get ég gert fyrir þig?"

„Eigðu þinn andskotans dúnkraft sjálfur. Ég hef ekkert við hann að gera." sagði maðurinn hinn versti og skálmaði í burtu.

Sá í kvöld að búið var að kveikja á friðarsúlunni í Viðey. Hélt að það ætti ekki að gera fyrr en á afmæli Lennons og að hann hafi fæðst 9. október 1940. En hvað um það hér eru nokkrar nýlegar myndir.

IMG 4090Nammi namm

IMG 4095Kílómetraköttur

IMG 4101Húsfell og Helgafell

IMG 4102Vífilfell

 

826 - Bankabygg og tifandi tímasprengja

Eitt af þeim vandamálum sem útrásarvíkingarnir glímdu við á gróð-æðistímanum var að breyta gulli í mat. Þetta var reynt á margan hátt. Ein aðferðin var að éta gullið beinlínis. Sú aðferð gekk ekki vel. Gullið var víst ekki gott á bragðið. Betur gekk að blanda því saman við eitthvað annað. En gullið var ekki svo mikið að það væri aðalvandamálið. Það voru hlutabréfin og alls kyns verðbréf sem ollu vandræðum. 

Þá kom bankabyggið til sögunnar. Með því að blanda ýmsum bankaskjölum saman við venjulegt bygg tókst að búa til svokallað bankabygg og það sem meira var almenningur virtist gleypa við þessu. Þegar á átti að herða var salan þó ekki nóg og að lokum urðu skjölin bara alltof mörg og kerfið hrundi. Enn eru menn að éta bankabygg í stórum stíl en ekki sér högg á vatni. Nóg er eftir.

Annars veit ég lítið um bankabygg og kannski er þetta allt tóm vitleysa.

Össur Skarphéðinsson talaði á sínum tíma um tifandi tímasprengju og hlaut bágt fyrir. Orð hans rættust þó fyrir ári síðan. Þá var Össur sjálfur kominn í ríkisstjórn og sá alls ekki sprengjuna, hvað þá að hann henti henni út. Nei, hún sprakk framaní þáverandi ríkisstjórn og enn eru Össur og fleiri að rembast við að stjórna. Flestir hrunverjar eru samt á förum - nema Davíð. Sagt er að kötturinn hafi níu líf og Davíð á einhver eftir.

Nýlega var frá því sagt í fréttum að Jóhannes eftirherma væri kominn með nýtt hjarta. Eitthvað hefur þetta nýja hjarta og aðgerðin öll kostað en asnalegt er að verðleggja mannslíf. Nú bíðum við bara eftir að Jóhannes fari að láta ljós sitt skína að nýju. Áreiðanlega eykur nýja hjartað frekar vinsældir hans en hitt. Ruglaðist stundum á Guðna Ágústssyni og Jóhannesi.

Hef fylgst dálítið með málum á blogginu síðastliðið ár. Mest hefur mér komið á óvart hve marga bankahrunssérfræðinga við Íslendingar eigum. Sjálfur tala ég stundum á svipaðan hátt og þeir án þess að vera sérfræðingur í einu eða neinu. Svo bregð ég mér stundum í sálfræðingsgervið og reyni að brýna fyrir fólki að hugsa um annað en hrunsmál. Það gengur illa. Hrunið er alla að drepa en þó heldur lífið áfram.

 

825 - Davíð vs. bloggarar

Sagt er að bloggheimar logi einn ganginn enn. Ekki finn ég fyrir þessum bruna frekar en fyrri daginn. Davíð er víst að hallmæla bloggurum. Sama er mér. Les ekki Moggann. 

Einhverjir blogga um þetta mál en lítið er að marka það. Mér finnst flest annað merkilegra. Les Fréttablaðið afar sjaldan því það berst aldrei til mín og mér finnst það yfirleitt ekki nógu merkilegt til að gera reka að því að nálgast það.

Mér er sama hverjum augum ritstjóri Moggans lítur bloggara. Margir þeirra eru þó miklu persónulegri og orðljótari en mér þykir við hæfi. Moggabloggsteljarinn er það fyrirbrigði sem ég tek mest mark á. Varla mundi ég nenna að blogga ef teljarinn sá segði mér ekki að einhverjir lesi eða skoði að minnsta kosti bloggið mitt. Margt fleira get ég gert hér á blogginu og í heildina er ég ekkert óánægður með dvölina hér.

Að ég sé ekkert óánægður með dvölina gerir mig auðvitað að hægri bloggara í augum margra. Skoðanir hef ég á ýmsu og vissulega læt ég einhverskonar hægri og vinstri sjónarmið ráða í málum sem ég skil illa. Sjálfum finnst mér ég vera meira til vinstri en hægri í slíkum málum en auðvitað er lítið mark takandi á því.

Ráðherrar tilkynna að vandi heimilanna sé leystur. Ég sé ekki betur en boðaðar aðgerðir séu bara afbrigði af því að velta vandanum á undan sér. Einhverjum og jafnvel mörgum getur það samt bjargað frá gjaldþroti. Útgjöldin eru líka þeirrar náttúru að þau eru ósýnileg lengi vel. Auðvitað eru skuldareigendur ekki hrifnir af því að afskifa afganga en þá verður komin ný stjórn og önnur vandamál.

Icesave verður að hverfa. Það vofir yfir okkur eins og Damoklesar sverð. Ég er í engum vafa um að þetta verðum við að borga þó ósanngjarnt sé. Útlendingar standa okkur einfaldlega ekkert að baki og eiga alveg jafnan rétt og við á að geta tekið út sinn sparnað. Það er skítt að vera til og ennþá meira skítt að þurfa að láta útrásarræningja og vanhæf stjórnvöld ráðskast með líf sitt, en við því er lítið að gera svona eftirá.

Skorað er á fólk að sniðganga bæði Morgunblaðið og kók. Þarna er ég í vanda. Nota nefnilega hvorugt. Viðurkenni samt að ég styð Moggann óbeint með því blogga hér. Auk þess versla ég oft í Bónus og á erfitt með að venja mig af því.

Menn keppast nú við að spá því að stjórnin falli. Ég hef ekki trú á að svo verði. Nægilega margir úr óánægða liðinu hjá vinstri grænum munu á endanum samþykkja Icesave og þar með er stjórninni borgið. Líkurnar á öðru stjórnarmynstri eru einfaldlega hverfandi og kosningar eru fjarlægur möguleiki.


824 - Icesave og hvalir

Það er auðvelt og einfalt að fordæma alla undanlátssemi við erlendar þjóðir og spila þannig á þjóðrembuna. Líka er auðvelt að ráðast á rembugreyið og segja að réttast sé að samþykkja allt sem útlendingar segja.

Tvennt er það einkum af þessu tagi sem mikið er í umræðunni nú. Í fyrsta lagi er það auðvitað Icesave-málið ógurlega þar sem augljóst er að okkar nánustu bandamenn vilja láta okkur sitja og standa eins og þeim líkar. Í öðru lagi er það hvalveiðimálið þar sem margir verða til þess að fordæma hvalveiðar okkar Íslendinga.

Við getum haldið okkur við það að óskynsamlegt sé að veiða ekki hvali en verðum samt með tímanum að sætta okkur við að sjónarmið annarra eru líka gild.

Augu margra eru að opnast fyrir því að peningamenn ráða enn því sem þeir vilja á Íslandi. Ævisparnaður fólks er bara skiptimynt í leik þeirra. Hlutirnir breyttust í bankahruninu, en með aðstoð stjórnvalda og fjölmiðla eru peningarnir að taka völdin aftur. Ekkert er heilagt, náttúruauðlindir landsins eru á útsölu og við, valdalaus og vitlaus almenningur, getum engu ráðið. Okkar glasnost er að við getum bloggað eins og við viljum en það tekur enginn mark á okkur.

Kosningaúrslitin í vor sýndu að enn er almenningur ekki tilbúinn til að horfa öðruvísi á ástandið en flokkunum líkar. Allt þarf að staðsetja einhvers staðar á hægri-vinstri skalanum og fjórflokkurinn gín síðan yfir öllu þar. Að hugsa útfyrir kassann er ekki vel séð.

Er um þessar mundir að lesa bók Erlu Bolladóttur sem kom út fyrir fáum árum. Er auðvitað eins og fleiri búinn að lesa nóg um Guðmundar og Geirfinnsmálin en margt um uppvöxt hennar framan til í bókinni er áhugavert meðal annars vegna þess að maður kannast við margt í lýsingunum. Þegar líður á bókina er auðvelt að sjá að hún krítar sums staðar ansi liðugt og segir ekki rétt frá. Sennilega klára ég bókina aldrei.


823 - Nautaat, blogg og kveðskapur

Laust eftir 1980 fór ég í fyrsta og eina skiptið til Mallorca. Þar sá ég nautaat og var það líka í fyrsta og eina skiptið. Oft hef ég séð nautaöt og búta úr þeim í kvikmyndum og í sjónvarpi, en mjög ólíkt er að sjá þetta í raunveruleikanum. 

Margt er eftirminnilegt úr atinu og ekkert eitt framar öðru. Andrúmsloftið var rafmagnað og umgjörðin öll afar glæsileg. Nautabanarnir sigruðu þó í öll skiptin. Mig minnir að þarna hafi sex naut verið drepin og vissulega var dauði þeirra eftirminnilegur.

Get samt vel skilið andstöðuna við þessar pyndingar og á margan hátt er þetta ekki sæmandi þeim tímum sem við lifum á. Spánverjar sjálfir verða þó að ráða þessu og þar í landi skiptast menn mjög í tvo hópa varðandi þetta.

Svo áfram sé haldið að blogga um blogg þá skrifa ég svotil daglega á Moggabloggið og linka yfirleitt ekki í fréttir. Hef bloggin helst ekki lengri en svona eina Word-síðu eða svo og minnist á 2-3 mál eða fleiri í hverju bloggi. Svo hef ég þá áberandi sérvisku að númera bloggin mín. Þetta er almennt séð minn háttur. Blogg um blogg eru auðvitað mitt uppáhald en mér finnst ég hafa mun fleiri áhugamál og minnast á margt fleira í bloggum mínum.

Til dæmis á kveðskap (minn eigin auðvitað aðallega) og margt sem um bókmenntir má segja. Hér eru tvær vísur um vísnagerð:

Ofsalegt er á mér stuð,
sem ei er þörf að lýsa.
Ekkert minnsta agnar puð
er mér þessi vísa.

Yrkja kann ég ekki neitt
engu þarf að fletta.
Ekki vildi ganga greitt.
að gera botn við þetta.

Ég er viss um að þessar vísur eru báðar eftir mig. En ég er ekki hirðusamur og safna ekki vísum. Þær komu skyndilega til mín áðan og ég þekkti þær. Man samt ekki með nokkru móti hvenær ég gerði þær eða hvort ég hef birt þær áður á mínu bloggi og nenni ekki að gá að því

Skrifa yfirleitt ekki hjá mér vísur sem ég geri né neina lýsingu á þeim. Ætti kannski að taka upp þann Þórbergska sið að skrifa hjá mér ýmislegt um tilurðina. Verst er hvað þær eru oftast lélegar.


822 - Meira blogg um blogg

Svanur Gísli skrifar blogg-grein sem hann nefnir „The Long Goodby" og er eins konar minningarblogg um nokkra þeirra sem skrifað hafa kveðjublogg og sagst vera hættir á Moggablogginu vegna Davíðs Oddssonar. Svanur birtir nokkrar myndir af fólki sem er hætt. 

Flesta sem á myndunum eru þekki ég og gæti bætt fáeinum við. Er sammála Svani um að einhverjir þeirra muni koma aftur. Einhverjir þeirra held ég að hafi hætt vegna þess að þeir vildu hætta og gripu tækifærið núna þegar afsökun var fyrir hendi. Moggabloggið er einskonar samfélag eins og Svanur segir og einhverjir þeirra sem farnir eru munu halda áfram að fylgjast með hér og jafnvel kommenta.

Svanur fullyrðir að vefsvæði eyjunnar, sem flestir flóttamannanna segjast hafa farið til, sé mun minna sótt en mbl.is. Líklega er það rétt hjá honum. Sjálfur les ég blogg þar minna en Moggablogg og veit þó að þar eru margir mjög góðir bloggarar. Þeir sem fara af Moggablogginu hverfa mér sundum alveg sem bloggarar. Hræddur er ég um að sumir verði einmana á Wordpress þó þjónustan sé eflaust ágæt þar.

Nær þriðjungur þjóðarinnar er mér sagt að sé á svonefndri vanskilaskrá. Sannfæring mín er samt að í þeim hluta sé að minnsta kosti jafn gott fólk og í hinum tveimur. Bankar og fjármálastofnanir hafa samt komist upp með að neita þessu fólki um margs konar þjónustu og vilja fátt fyrir það gera. Er það ekki brot á samkeppnislögum að þessir aðilar sameinist um að koma þessari skrá upp og nýti hana svo gegn fólki?

Úrslit Icesavemálsins kunna að vera undir því komin hver skilningur fólks er á orðunum „fullt umboð". Árni Þór Sigurðsson segir að Steingrímur hafi fullt umboð þingflokksins til að semja um málið. Öðru skilst mér að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Atli Gíslason haldi fram. Þetta á samt allt eftir að koma í ljós í fyllingu tímans.

Misklíðin varðandi Icesave og bankahrunið almennt er óðum að færast í hinar hefðbundnu pólitísku skotgrafir. Krafan um stjórnlagaþing og algera uppstokkun í íslensku þjóðlífi er ekki nærri eins hávær nú og hún var.

Ástæðan fyrir því að Austurvallarmótmælin hafa að undanförnu ekki tekist sem skyldi er einkum sú að þau hafa á sér pólitískan stimpil. Af einhverjum ástæðum hafði búsáhaldabyltingin og mótmælin á Austurvelli í fyrravetur ekki þennan stimpil á sér. Þó mislíkaði sumum hve Davíð Oddsson var ofarlega í hugum margra mótmælenda.


821 - Álfheiður í eldinn fór

Vinstri grænir völdin stór
vildu Grímsa tryggja.
Álfheiður í eldinn fór
Ömmi hann má liggja. 

Þessa vísu gerði ég í morgun og setti á vísnabloggið mitt. (visur7.blog.is) Þangað hef ég ekkert sett síðan í fyrravetur.

Heldur eru nú áherslur að harðna í pólitíkinni. Hörð atlaga er gerð að ríkisstjórninni og umræðan um Icesave er orðin svo illskeytt að ég vil helst ekki blanda mér í hana. Flokkapólitík heillar mig ekki.

Í dag var Alþingi sett með nokkrum tilþrifum. Mér er eitt atvik sem tengist setningu Alþingis mjög minnisstætt. Það átti sér stað um líkt leyti og Helgi Hóseasson sletti skyrinu. Líklega annað hvort árið áður eða árið eftir. Þá var Benni sonur minn fárra ára gamall og við fjölskyldan vorum stödd á Austurvelli skammt frá Alþingishúsinu við þingsetningu. Einmitt þegar prósessían gekk hátíðlega frá Dómkirkjunni og til Alþingishússins hrópaði Benni allt í einu:

„Nei, sko. Sjáiði fuglana."

Auðvitað var hvítbrjósta halarófan álkuleg en hann var nú samt að horfa á einhvern fuglahóp við Tjörnina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband