826 - Bankabygg og tifandi tímasprengja

Eitt af þeim vandamálum sem útrásarvíkingarnir glímdu við á gróð-æðistímanum var að breyta gulli í mat. Þetta var reynt á margan hátt. Ein aðferðin var að éta gullið beinlínis. Sú aðferð gekk ekki vel. Gullið var víst ekki gott á bragðið. Betur gekk að blanda því saman við eitthvað annað. En gullið var ekki svo mikið að það væri aðalvandamálið. Það voru hlutabréfin og alls kyns verðbréf sem ollu vandræðum. 

Þá kom bankabyggið til sögunnar. Með því að blanda ýmsum bankaskjölum saman við venjulegt bygg tókst að búa til svokallað bankabygg og það sem meira var almenningur virtist gleypa við þessu. Þegar á átti að herða var salan þó ekki nóg og að lokum urðu skjölin bara alltof mörg og kerfið hrundi. Enn eru menn að éta bankabygg í stórum stíl en ekki sér högg á vatni. Nóg er eftir.

Annars veit ég lítið um bankabygg og kannski er þetta allt tóm vitleysa.

Össur Skarphéðinsson talaði á sínum tíma um tifandi tímasprengju og hlaut bágt fyrir. Orð hans rættust þó fyrir ári síðan. Þá var Össur sjálfur kominn í ríkisstjórn og sá alls ekki sprengjuna, hvað þá að hann henti henni út. Nei, hún sprakk framaní þáverandi ríkisstjórn og enn eru Össur og fleiri að rembast við að stjórna. Flestir hrunverjar eru samt á förum - nema Davíð. Sagt er að kötturinn hafi níu líf og Davíð á einhver eftir.

Nýlega var frá því sagt í fréttum að Jóhannes eftirherma væri kominn með nýtt hjarta. Eitthvað hefur þetta nýja hjarta og aðgerðin öll kostað en asnalegt er að verðleggja mannslíf. Nú bíðum við bara eftir að Jóhannes fari að láta ljós sitt skína að nýju. Áreiðanlega eykur nýja hjartað frekar vinsældir hans en hitt. Ruglaðist stundum á Guðna Ágústssyni og Jóhannesi.

Hef fylgst dálítið með málum á blogginu síðastliðið ár. Mest hefur mér komið á óvart hve marga bankahrunssérfræðinga við Íslendingar eigum. Sjálfur tala ég stundum á svipaðan hátt og þeir án þess að vera sérfræðingur í einu eða neinu. Svo bregð ég mér stundum í sálfræðingsgervið og reyni að brýna fyrir fólki að hugsa um annað en hrunsmál. Það gengur illa. Hrunið er alla að drepa en þó heldur lífið áfram.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

" Hrunið er alla að drepa en þó heldur lífið áfram."

Það slær þig enginn út!

Ólafur Sveinsson 8.10.2009 kl. 23:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Ólafur. Veit samt ekki alveg hvort þetta er hrós.

Sæmundur Bjarnason, 8.10.2009 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband