822 - Meira blogg um blogg

Svanur Gísli skrifar blogg-grein sem hann nefnir „The Long Goodby" og er eins konar minningarblogg um nokkra þeirra sem skrifað hafa kveðjublogg og sagst vera hættir á Moggablogginu vegna Davíðs Oddssonar. Svanur birtir nokkrar myndir af fólki sem er hætt. 

Flesta sem á myndunum eru þekki ég og gæti bætt fáeinum við. Er sammála Svani um að einhverjir þeirra muni koma aftur. Einhverjir þeirra held ég að hafi hætt vegna þess að þeir vildu hætta og gripu tækifærið núna þegar afsökun var fyrir hendi. Moggabloggið er einskonar samfélag eins og Svanur segir og einhverjir þeirra sem farnir eru munu halda áfram að fylgjast með hér og jafnvel kommenta.

Svanur fullyrðir að vefsvæði eyjunnar, sem flestir flóttamannanna segjast hafa farið til, sé mun minna sótt en mbl.is. Líklega er það rétt hjá honum. Sjálfur les ég blogg þar minna en Moggablogg og veit þó að þar eru margir mjög góðir bloggarar. Þeir sem fara af Moggablogginu hverfa mér sundum alveg sem bloggarar. Hræddur er ég um að sumir verði einmana á Wordpress þó þjónustan sé eflaust ágæt þar.

Nær þriðjungur þjóðarinnar er mér sagt að sé á svonefndri vanskilaskrá. Sannfæring mín er samt að í þeim hluta sé að minnsta kosti jafn gott fólk og í hinum tveimur. Bankar og fjármálastofnanir hafa samt komist upp með að neita þessu fólki um margs konar þjónustu og vilja fátt fyrir það gera. Er það ekki brot á samkeppnislögum að þessir aðilar sameinist um að koma þessari skrá upp og nýti hana svo gegn fólki?

Úrslit Icesavemálsins kunna að vera undir því komin hver skilningur fólks er á orðunum „fullt umboð". Árni Þór Sigurðsson segir að Steingrímur hafi fullt umboð þingflokksins til að semja um málið. Öðru skilst mér að Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Atli Gíslason haldi fram. Þetta á samt allt eftir að koma í ljós í fyllingu tímans.

Misklíðin varðandi Icesave og bankahrunið almennt er óðum að færast í hinar hefðbundnu pólitísku skotgrafir. Krafan um stjórnlagaþing og algera uppstokkun í íslensku þjóðlífi er ekki nærri eins hávær nú og hún var.

Ástæðan fyrir því að Austurvallarmótmælin hafa að undanförnu ekki tekist sem skyldi er einkum sú að þau hafa á sér pólitískan stimpil. Af einhverjum ástæðum hafði búsáhaldabyltingin og mótmælin á Austurvelli í fyrravetur ekki þennan stimpil á sér. Þó mislíkaði sumum hve Davíð Oddsson var ofarlega í hugum margra mótmælenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Yngvi Högnason

Varðandi fólk sem hefur kvatt mbl. blogg undanfarið þá er sjónarsviptir af sumum en þeir eru fáir. Það vill oft verða að þegar fólk malar mikið að þá leggur það að jöfnu magn og gæði. Ef manni verður brátt þá er hægt að leita þessari eyju (Martinique?) að "perlunum". En faðir minn sagði oft: að skamma stund verður hönd höggi fegin.

Yngvi Högnason, 3.10.2009 kl. 08:12

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yngvi, ég kem ekki auga á hvernig Davíð Oddsson tengist Moggablogginu. Er samt alveg opinn fyrir því að fara annað ef boðið verður upp á eitthvað betra.

Sæmundur Bjarnason, 3.10.2009 kl. 17:21

3 Smámynd: Yngvi Högnason

Manni dauðbregður þegar feitletrað er á mann. En kannski var þetta ekki nógu skýrt hjá mér. Ekki meinti ég þig því enn ertu hér. Og ekki hef ég séð að DO hafi eitthvað með bloggið að gera þó margir haldi það,hvergi hef ég sagt það.. Varðandi síðustu setninguna hjá mér þá var meiningin að þessir "gæðabloggarar" eru líklega ánægðir með sig um stund eftir skiptin.

Yngvi Högnason, 3.10.2009 kl. 20:52

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

þú minnist á vanskilaskrá, afætufyrirtækisins CreditInfo.

ég skal segja þér eitt. ég var settur á vanskilaskrá fyrir tæpu ári. ekki vegna þess ég gat ekki borgað heldur vegna þess ég vildi ekki borga. gildir kannski einu. ég fékk úrskurð um að greiða tvöfalt meðlag til barna minna, sem og eitt og hálft ár aftur í tímann. ég ætlaði ekki að borga því mér fannst úrskurðurinn ósanngjarn. hafði í mörg ár ausið peningum í krakkana mína. sé ekki eftir þeim peningi. hinsvegar vildi mamma þeirra fá að ráðskast með þá og vitanlega fékk hún það í gegn, í kerlingaveldi sýslumanns. vitanlega setti afætan skuldina í inheimtu og ég fékk hótunarbréf og settur á vanskilaskrá. samdi svo við afæturnar sem sjá um innheimtuna, en verð á vanskilaskrá þar til skuldin er uppgreidd.

hef reyndar ekki lent í neinum vandræðum. nota hvort eð er ekki lengur krítarkort.

ég veit að ég er ekki sá eini sem er á vanskilaskrá þrátt fyrir að standa undir skuldum mínum. hún er nefnilega notuð, af afætum eins og innheimtufyrirtækjum, til að gera fólki skráveifu. sjáðu til. hefðu þeir ekki sett mig á skrána hefði ég getað tekið lán og greitt skuldina upp í topp, en heldur kusu þeir hina leiðina. gáfulegt.

Brjánn Guðjónsson, 3.10.2009 kl. 22:10

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Brjánn, ég býst við að margir hafi svipaða sögu að segja og þú. Er þessi skrá ekki ólögleg? Er hún ekki þess virði að berjast á móti? Verða menn kannski dálítið "asocial" við að lenda á henni? Samtök hygg ég að hafi verið stofnuð um ómerkilegri mál.

Yngvi, ég ætlaði ekki að hræða þig. Var bara svolítið upptekinn af því að verið er að reyna að hræða alla í burtu frá Moggablogginu, sem er það bloggsvæði sem ég þekki langbest. Vil ekki yfirgefa það bara sisvona án þess að vita hvað ég fæ í staðinn.

Sæmundur Bjarnason, 3.10.2009 kl. 23:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband