823 - Nautaat, blogg og kveðskapur

Laust eftir 1980 fór ég í fyrsta og eina skiptið til Mallorca. Þar sá ég nautaat og var það líka í fyrsta og eina skiptið. Oft hef ég séð nautaöt og búta úr þeim í kvikmyndum og í sjónvarpi, en mjög ólíkt er að sjá þetta í raunveruleikanum. 

Margt er eftirminnilegt úr atinu og ekkert eitt framar öðru. Andrúmsloftið var rafmagnað og umgjörðin öll afar glæsileg. Nautabanarnir sigruðu þó í öll skiptin. Mig minnir að þarna hafi sex naut verið drepin og vissulega var dauði þeirra eftirminnilegur.

Get samt vel skilið andstöðuna við þessar pyndingar og á margan hátt er þetta ekki sæmandi þeim tímum sem við lifum á. Spánverjar sjálfir verða þó að ráða þessu og þar í landi skiptast menn mjög í tvo hópa varðandi þetta.

Svo áfram sé haldið að blogga um blogg þá skrifa ég svotil daglega á Moggabloggið og linka yfirleitt ekki í fréttir. Hef bloggin helst ekki lengri en svona eina Word-síðu eða svo og minnist á 2-3 mál eða fleiri í hverju bloggi. Svo hef ég þá áberandi sérvisku að númera bloggin mín. Þetta er almennt séð minn háttur. Blogg um blogg eru auðvitað mitt uppáhald en mér finnst ég hafa mun fleiri áhugamál og minnast á margt fleira í bloggum mínum.

Til dæmis á kveðskap (minn eigin auðvitað aðallega) og margt sem um bókmenntir má segja. Hér eru tvær vísur um vísnagerð:

Ofsalegt er á mér stuð,
sem ei er þörf að lýsa.
Ekkert minnsta agnar puð
er mér þessi vísa.

Yrkja kann ég ekki neitt
engu þarf að fletta.
Ekki vildi ganga greitt.
að gera botn við þetta.

Ég er viss um að þessar vísur eru báðar eftir mig. En ég er ekki hirðusamur og safna ekki vísum. Þær komu skyndilega til mín áðan og ég þekkti þær. Man samt ekki með nokkru móti hvenær ég gerði þær eða hvort ég hef birt þær áður á mínu bloggi og nenni ekki að gá að því

Skrifa yfirleitt ekki hjá mér vísur sem ég geri né neina lýsingu á þeim. Ætti kannski að taka upp þann Þórbergska sið að skrifa hjá mér ýmislegt um tilurðina. Verst er hvað þær eru oftast lélegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er svona blogg sem ég les mér til ánægju og yndisauka. Ég er næstum því "viss" um, að þú ert ekki á refilstigum, með að slá eign þinni á vísurnar.

Ólafur Sveinsson 4.10.2009 kl. 00:38

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur, um eign á vísum má margt segja. Ef ég birti vísu á mínu bloggi eða í kommenti sem ég geri þá er hún eftir mig (tel ég) ef ég segi ekki neitt um höfund. Hef samt tekið eftir að ekki hugsa allir svona og birta vísur athugasemdalaust sem ég kannast vel við og eru örugglega ekki eftir viðkomandi. En skiptir einhverju máli hver gerir vísuna?

Sæmundur Bjarnason, 4.10.2009 kl. 08:04

3 Smámynd: Fannar frá Rifi

Ég sá fyrst nautaat í litlu þorpi við landamæri Pórtúgals, Rodrighues minnir mig að það heiti. þar var aðal torginu breytt í hring, áhorfenda pallar byggðir og sandur lagður á stéttina. Það var auðvelt að sjá að svona hafði nautaatið farið fram í þessum bæ á þessari bæjarhátíð (í febrúar) svo öldum skiptir. geti jafnvel sagt án þess að vita það fyrir víst, þá gæti svona hátíð hafa verið í þessum bæ í næstum 2000 ár. Við eigum ekki að setja okkur á háan hest. Þetta er þeirra menning og arfleifð. við höfum engan rétt á því að leggjast gegn nautaati. ekki frekar en spánverjar hefðu rétt til þess að banna okkur að eta þorramat eða að bretar myndu banna okkur að veiða lunda.

Fannar frá Rifi, 4.10.2009 kl. 11:32

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það var ekki mín meining að fordæma Spánverja fyrir þetta, Fannar. Menningarrökin og allt það verða þeir sjálfir að finna og banna nautaat með öllu ef þeim sýnist svo. Gott ef nautaat er ekki bannað í sumum héruðum Spánar.

Sæmundur Bjarnason, 4.10.2009 kl. 12:19

5 identicon

Ég bjó  til fína vísu um daginn. Eftir nokkra daga komst ég í raun um að ég hafði lært svipaða vísu, í sveitinni, fyrir norðan. Það hafði liðið 56 ár, á milli. Svektur.

Ólafur Sveinsson 4.10.2009 kl. 14:03

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sæmi bloggar oft um blogg

Blogg sem blogg um blogga.

Gaggar mest um annars gogg

geggjað logg á mogga.

Jón Steinar Ragnarsson, 4.10.2009 kl. 17:52

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóndi hann vill jafna um mig
jarmar hér á bloggi.
Voðalega vandar sig
verður eins og Moggi.

Sæmundur Bjarnason, 4.10.2009 kl. 18:51

8 Smámynd: Kama Sutra

Mér finnst ekki hægt að leggja að jöfnu veiðiskap og nautaati.  Nautaatið gengur eingöngu út á það að kvelja dýrið og misþyrma því sem allra mest, sér og öðrum (áhorfendum) til ánægju og skemmtunar.  Algjör úrkynjun.  Oj barasta...

Sumir veiðimenn hafa það þó sér til afsökunar að þeir eru að veiða sér til matar - þótt auðvitað eigi það ekki við um alla.  Aðrir veiða eingöngu upp á "sportið" og leika sér með bráðina - sem er jafn ljótt og andstyggilegt og nautaatið.

Kama Sutra, 4.10.2009 kl. 19:52

9 Smámynd: Kama Sutra

Nautaat er ekkert annað en dýraníð í sinni ömurlegustu mynd.

Kama Sutra, 4.10.2009 kl. 19:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband