824 - Icesave og hvalir

Það er auðvelt og einfalt að fordæma alla undanlátssemi við erlendar þjóðir og spila þannig á þjóðrembuna. Líka er auðvelt að ráðast á rembugreyið og segja að réttast sé að samþykkja allt sem útlendingar segja.

Tvennt er það einkum af þessu tagi sem mikið er í umræðunni nú. Í fyrsta lagi er það auðvitað Icesave-málið ógurlega þar sem augljóst er að okkar nánustu bandamenn vilja láta okkur sitja og standa eins og þeim líkar. Í öðru lagi er það hvalveiðimálið þar sem margir verða til þess að fordæma hvalveiðar okkar Íslendinga.

Við getum haldið okkur við það að óskynsamlegt sé að veiða ekki hvali en verðum samt með tímanum að sætta okkur við að sjónarmið annarra eru líka gild.

Augu margra eru að opnast fyrir því að peningamenn ráða enn því sem þeir vilja á Íslandi. Ævisparnaður fólks er bara skiptimynt í leik þeirra. Hlutirnir breyttust í bankahruninu, en með aðstoð stjórnvalda og fjölmiðla eru peningarnir að taka völdin aftur. Ekkert er heilagt, náttúruauðlindir landsins eru á útsölu og við, valdalaus og vitlaus almenningur, getum engu ráðið. Okkar glasnost er að við getum bloggað eins og við viljum en það tekur enginn mark á okkur.

Kosningaúrslitin í vor sýndu að enn er almenningur ekki tilbúinn til að horfa öðruvísi á ástandið en flokkunum líkar. Allt þarf að staðsetja einhvers staðar á hægri-vinstri skalanum og fjórflokkurinn gín síðan yfir öllu þar. Að hugsa útfyrir kassann er ekki vel séð.

Er um þessar mundir að lesa bók Erlu Bolladóttur sem kom út fyrir fáum árum. Er auðvitað eins og fleiri búinn að lesa nóg um Guðmundar og Geirfinnsmálin en margt um uppvöxt hennar framan til í bókinni er áhugavert meðal annars vegna þess að maður kannast við margt í lýsingunum. Þegar líður á bókina er auðvelt að sjá að hún krítar sums staðar ansi liðugt og segir ekki rétt frá. Sennilega klára ég bókina aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Já Icesave á eftir að verða okkur kvalarfullt.

Offari, 5.10.2009 kl. 00:52

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Og hvalveiðar geta orðið kvalafullar líka.

Sæmundur Bjarnason, 5.10.2009 kl. 09:58

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Við ættum að stunda hvalveiðar og kvalaraveiðar á fullu, en sleppa kvalaveiðum.

Axel Þór Kolbeinsson, 5.10.2009 kl. 16:02

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þangað leitar hvalurinn, þar sem hann er kvaldastur.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2009 kl. 16:39

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eða var það....Þangað leitaar hvalurinn, þar sem hann er klárastur.

Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2009 kl. 16:40

6 identicon

Margt býr í hvalnum, þar gæti td leynst einn lítill ofurkrissi... sem við verðum að bjarga.
Þannig að við erum ekki að stunda hvalveiðar, þetta er púra björgunarstarfssemi.

DoctorE 5.10.2009 kl. 17:37

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hvalir eru kvalræði
og kveljast núna mikið.
Leiðinlegt er lýðræði
og langt í burtu strikið.

Sæmundur Bjarnason, 5.10.2009 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband