Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

820 - Ehemm

Er alveg stumm. Get ekkert gáfulegt sagt. Uppdráttarsýkin á Moggablogginu virðist vera að ná til ríkisstjórnarinnar. Held ég reyni bara að blogga um eitthvað annað. Kann hálfilla við mig í fréttaskýringarhlutverkinu. 

Loksins er ég búinn með bókina Skáldalíf. Aftarlega í henni er eftirfarandi klausa:

„Þegar Gunnar hélt til Danmerkur virtist vonlaust að gera skriftir að ævistarfi á Íslandi og þegar Þórbergur endurfæddist loks til ritstarfa var aðeins einn atvinnuhöfundur á Íslandi, Halldór Laxness. Þetta skýrir bæði stórhug Gunnars, sem hugðist semja skáldsagnabálk um íslenska þjóðarsögu og vitund, og frumleik Þórbergs í Bréfi til Láru. Þeir komu að óskrifaðri veröld."

Þetta er ekki rétt. Íslendingar eru og hafa alltaf verið mikið fyrir allskyns skriftir. Veröldin núna er alveg jafn óskrifuð og þegar Gunnar og Þórbergur voru að byrja. Auðvitað er næsta úrelt að skrifa orð á blað. Engum úrslitum ræður samt hvort menn hafa atvinnu af skrifum eða ekki. Gæðin skipta mestu máli.

Nú eru Bitrumálin að komast á dagskrá aftur. Veit ekki af hverju. Minnst var á þau í kommentum hjá mér og Lára Hanna er aftur komin í Bitru-gírinn. Leitaði í bloggum mínum hér og sá að ég hef sex sinnum minnst á Bitruvirkjun. Fyrst 22. nóvember 2007. Kannski er samt markverðasta greinin mín frá 17. maí 2008. Veit það samt ekki alveg því ég nennti ekki að lesa öll þessi sex blogg.

Ölkelduháls og hverasvæðið þar þekki ég vel. Um Hellisheiði og Hengladali hef ég víða flækst. Þekki að sjálfsögðu Klambragil og Grensdal. Einnig Innstadal, Fremstadal og Þrengslin, Meitlana tvo og Lambafellið, Skálafell, Geitafell, og svo framvegis. Hef gengið á þau fjöll öll. Einnig Hengilinn, Hrómundartind, Súlufell og sjálfsagt fleiri.

Ein er samt sú gönguleið sem ég hef aldrei farið en lengi ætlað mér að ganga. Það er leiðin úr Hafnarfirði (eða af Bláfjallaveginum) um Grindaskörð til Selvogs. Á þessari leið er mikið og gott útsýni. Einnig falleg fjallanöfn svosem Heiðin há og Fjallið eina. Landnámsmaður á svæðinu var Þórir haustmyrkur og þar áttust þær við tröllskessurnar Krýsa og Herdís. Í Herdísarvík bjó Einar Benediktsson sín síðustu æviár og Eiríkur í Vogsósum bjó að sjálfsögðu að Vogsósum og fleira mætti rifja upp.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband