Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

1528 - Klám

Scan556Gamla myndin.
Á þjóðhátíð.

Ellý Ármanns gerði það vinsælt á Moggablogginu forðum daga að klæmast svolítið. Held að þetta virki ennþá. Hef tekið eftir því að ef fyrirsögnin hjá mér er svolítið klámfengin þá fæ ég mun fleiri lesendur. En er það einhvers virði? Ég veit það svosem ekki. En ef margir lesa bloggið mitt fer varla hjá því að þeim fjölgi sem sjá hvílíkur afburðabloggari ég er. En svo gætu aftur á móti einhverjir sem eru vanir að lesa bloggið hætt því og þá er illa farið. Ég er nefnilega búinn að vera að byggja upp þennan lesendahóp síðan í árslok 2006. Hef jafnvel ekki látið Hrunið sjálft trufla mig að neinu ráði.

Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.

Þetta er lipurlega kveðið. Veit samt ekki eftir hvern þetta er. Þetta var lengi vel (og er jafnvel enn) ein af uppáhaldsklámvísunum mínum. Einu sinni kunni ég helling af þeim. Hugmynd væri að birta eina slíka í hverju bloggi. Nú, er þetta að verða eitthvert formúlublogg hjá mér?

Dómari getur ekki dæmt í máli vegna þess að lögin eru of óljós. Er það hlutverk dómara að ákveða hvernig lög eigi að vera? Mér finnst það ekki. Auðvitað eiga dómstólar að skera úr um hvort lög samræmist stjórnarskrá. Þarna þarf að vera hárfínt samspil á milli valdastofnana. Dómara getur þótt lög asnaleg, óljós, viðvaningsleg, klaufaleg, o.s.frv., en ef þau eru í samræmi við stjórnarskrá finnst mér að hann eigi að dæma eftir þeim engu að síður.

Einstaklingar þeir sem á alþingi sitja eru misjafnir. Þeirra hlutverk er samt sem áður að setja landinu lög sem landsmenn og dómarar eiga að fara eftir. Virðingarleysið fyrir alþingi má ekki ganga svo langt að almenningur og dómarar taki lögin í sínar eigin hendur. Þá er fátt eftir sem til bjargar getur orðið.

Aðferðin við skipun dómara er ef til vill gölluð. Ríkisstjórnin hefur hugsanlega ráðið þar of miklu og þeir þar með orðið of pólitískir. Virðingarleysið fyrir alþingi er alltof mikið. Ef virðingarleysið fyrir ríkisstjórninni og dómstólunum verður jafnmikið er hætta á ferðum.

Einhverskonar listi yfir misheppnuð mannvirki var til umfjöllunar í sjónvarpinu um daginn. Margt var þar gáfulega athugað en þó ekki allt. Landspítala- og Hringbrautarklúðrið hefði að mínum dómi átt að vera ofar á þessum lista. Háskólinn í Reykjavík átti ekki heima á listanum. Það er falleg bygging og í fallegu umhverfi. Byggingin fellur vel inn í umhverfið þó auðvitað hefði mátt nýta það í annað með góðum árangri. Helsti gallinn finnst mér hve bílastæðin þar eru gríðarlega stór og umfangsmikil, en hugsanlega má breyta því síðar.

Mikið getur Evran fallið. Samkvæmt sumum blöðum er fall hennar geigvænlegt og sífellt að aukast. Sennileg endar þetta með algjörum krónu-ósköpum. Ég er þó svo gamall að ég man vel eftir upphafi Evrunnar. Þá var gengið ákveðið það sama og dollars. Einhversstaðar þurfti að byrja. Held að hún sé þrátt fyrir allt fallið verðmeiri í dag en USA dollar.

Innbyggða klukkan fuglanna fer eftir birtunni. Á vorin sofa þeir bara í svona hálftíma en núna vakna þeir og byrja að syngja um svipað leyti og slokknar á götuljósunum. Kópavogur er gönguvænn kaupstaður. Ef gatnakerfið hér væri ekki eins og það er væri lítið gaman að fara í gönguferðir um byggð ból Kópavogs. Dalirnir hér um slóðir eru þó sums staðar eins og komið sé uppí sveit svo þangað má líka fara.

Svolítið áhugaverðar pælingar um framsóknarflokkinn voru í athugasemdum hjá mér í gær. Sigmundur Davíð virðist vera að fara á bakvið Sjálfstæðisflokkinn og komast hægra megin við hann. Þannig var flokkurinn ekki í gamla daga.

Hvort sem það er nefnd, stofnun, félag, einstaklingur eða eitthvað annað sem hefur átt að hafa með höndum gerð þessarar svonefndu „Þorláksbúðar“ í Skálholti er það alveg forkastanlegt að hafa látið Árna Johnsen sjá um málið.

IMG 7040Fasteign?


1527 - Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Scan555Gamla myndin.
Lækjargata.

Hlustaði í gærkvöldi á endurtekið Kastljós. (Að hluta a.m.k.) Enn er verið að óskapast yfir biskupsmálinu. Ætlar þessu aldrei að linna? Af einhverjum ástæðum kýs kastljósfólkið að halda vitleysunni áfram. Ég er samt hættur þessu.

Fyrir þá sem ekki geta án einhverskonar klámumræðu verið er nú búið að vekja upp aftur deilur þeirra Davíðs Þórs Jónssonar og Maríu Lilju Þrastardóttur og reka hana (þ.e. Maríu) frá innihaldi.is sem er netmiðillinn sem allir óttast (eða eiga að óttast). Ég vil aftur á móti helst vera stikkfrí í þessari umferð.

Þá er nú skárra að ræða um Hrunið. Sú umræða snýst að vísu mest um hverjum það sé að kenna og af hverju það hafi dunið fyrr á okkur Íslendingum en öðrum og jafnvel af meiri krafti. Auðvitað komast menn ekki að neinni niðurstöðu um það, enda étur hver úr sínum pólitíska poka. Vitræn umræða slæðist þó öðru hvoru með og sumt af henni er býsna fróðlegt.

Occupy Wall Street umræðan virðist hafa náð tökum á Herði Torfasyni tónlistarmanni sem startaði búsáhaldabyltingunni á sínum tíma. Hver veit nema sú hreyfing nái smám saman tökum á fleiri og fleiri.

Sá sem er orðinn svolítið aldraður horfir til loka á bunurnar tvær sem í bollann fara frá Senseo-kaffivélinni sinni, en sá yngri fer að gera eitthvað annað og gleymir kaffinu. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég fór og fékk mér kaffi. Og þó eflaust mætti teygja lopann eitthvað um þetta þá er erfitt að hafa málsgreinina öllu lengri.

„Sannleikanum verður hver sárreiðastur.“ Þetta gamla spakmæli datt mér að sjálfsögðu í hug þegar ég sá umfjöllun framsóknarflokksins um grein Eiríks Bergmanns í Fréttatímanum. Að einu leyti er ég þó sammála því sem haldið er fram af talsmanni flokksins. Uppsetningin er þannig að vel er hægt að álíta að Sigmundur Davið hafi sagt að framsóknarflokkurinn sé svona hallærislegur. Seint mundi hann þó viðurkenna það. Í greinargerð framsóknarflokksins er látið að því liggja að allir flokkar sem ekki tilheyra „fjórflokknum“ svonefnda séu öfgaflokkar. Það finnst mér ansi bratt og gæti trúað að einhverjir muni mótmæla því.

„Við erum að vinna okkar verk og erum að koma í veg fyrir að hlutir, sem búið er að setja mikla peninga í, skemmist ekki,“ bætir Árni við.

Segir í frétt mbl.is um Þorláksbúðarmálið. Er Árni Johnsen svona vitlaus eða blaðamaðurinn? Nei sinnum nei er sama og já, er þetta ekki kennt í barnaskóla?

Greddan hafði góð áhrif að því leyti að lesendur urðu fleiri en venjulega. Kannski maður verði mun vinsælli bloggari ef maður gætir þess að hafa fyrirsögnina yfirleitt svolítið klámfengna. Segi bara svona. Sem venjulega fyrirsögnina síðast af öllu og stundum er samband hennar við meginmálið ekki alveg ljóst.

IMG 7039Sko. Byko og Húsasmiðjan geta unnið saman.


1526 - Frægð og gredda

Scan554Gamla myndin.
Hreyfilsplanið. Ætli þessi mynd sé ekki tekin rétt fyrir 1970. 1968 eða svo gæti ég trúað.

Smjattið um biskupsmálin heldur áfram. Ekki get ég sagt að sú umræða sé kræsileg. Margir fara illilega framúr sér í henni. Best er að segja sem minnst. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Samt er pólitíska rétthugsunin á fleygiferð. Mér finnst vera búið að fjalla nóg um gredduna í Ólafi biskupi. Samt er ég þannig gerður að ég vil losna við Kalla núverandi. Er það annars ekki aðalmarkmiðið með því að halda umræðunni áfram?

Kannski eru menn orðnir leiðir á að tala í sífellu um Hrunið. Mér finnst umræðan um Guðrúnu Ebbu bara ekki hótinu skárri. En ég ræð ekki hvað talað er um. Ræð ekki nema að takmörkuðu leyti um hvað ég skrifa. Þó mér hundleiðist þetta mál má ég eiginlega ekki skrifa um annað. Ætla samt að gera það.

Gróðurhúsið okkar úti á svölum fór á fulla ferð í rokinu í gær. Komst samt ekki niður af þeim og endaði inni á gangi eftir að búið var að bjarga því úr klóm Kára. Verð víst að ganga betur frá því á eftir. Gott ef náttúröflin eru ekki orðin pólitísk núna á þessum síðustu og verstu. Eiginlega hefði þetta átt að vera hörkubylur. En það er bara ansi hlýtt úti núna. Hnatthlýnuninni halda engin bönd. Hér í fásinninu átti samt hlýnunin að koma fram í kulda. Það minnir mig. Eða það hefur mér skilist. Kannski misskilist. Ætli veðurguðirnir séu ekki bara svona graðir.

Mér hættir til að vera alltof hátíðlegur í þessu bloggi mínu. Við því er lítið að gera. Ég er bara svona. Vildi samt gjarnan vera öðruvísi. Mest mundi mig auðvitað langa til að vera frægur. Langar okkur ekki öll að vera það? Er frægðin samt ekki ofmetin? Til að sefa okkur reynum við oft að gera (með sjálfum okkur a.m.k.) sem mest úr göllunum sem henni fylgja. Þeir sem frægir eru gera það líka. Það er samt af öðrum hvötum. Þeir vilja auðvitað að sem fæstir séu frægir svo þeir sjálfir falli ekki í skuggann. Líka vita þeir að frægðin er fallvölt svo best er að tempra oflætið sem mest.

Svo höldum við því oft fram að margir (jafnvel flestir) séu bara frægir fyrir að vera frægir. Svo er reyndar sjaldnast. Við viljum bara ekki viðurkenna það. Öfundin ræður hvað við segjum. Fólk verður oftast frægt fyrir að skara framúr. Sviðin (ekki þó sviðahausarnir) eru bara svo mörg og sum skiljum við alls ekki.

Eru íþróttir flótti frá raunveruleikanum? Hvaða raunveruleika? Eru stjórnmálin eitthvað raunverulegri en íþróttirnar? Hafa þau meiri áhrif en þær? Er ekki fótboltinn alveg jafn mikilvægur og Evrópusambandið? Er það ekki mikilvægast sem flestir álíta að sé það? Er Justin Bieber ekki alveg jafn merkilegur og Immanuel Kant? Hver ákveður hvaða frægð er merkilegust?

IMG 7030Skógur.


1525 - Lífið er leiðinlegt

Scan506Gamla myndin.
Beðið eftir strætó.

Í grunninn er lífið leiðinlegt. Við ráðum alltof litlu sjálf. Gerum fátt ótilneydd. Nennum nánast ekkert að gera upp á eigin spýtur. Höfum framselt vald okkar til alltof margra og ólíkra stofnana. Stofnanirnar eru of margar hér á Íslandi miðað við okkur vesalings Frónbúana. Með öðrum orðum sagt, við erum of fá. En gengur þeim sem fleiri eru eitthvað betur? Ekki er það að sjá. Hvernig stendur á því? Hafa stofnanirnar vaxið þeim yfir höfuð? Verða þær ekki sífellt valdameiri og óviðráðanlegri. Verða þær því sterkari sem fleiri standa að þeim? Er kerfið og kerfin að ríða okkur á slig? Ég verða að segja það. Ég hef áhyggjur af þessu.

Allskyns kerfi, fjármálakerfi, bankakerfi og allavega önnur kerfi hrifsa af okkur völdin og við bregðumst ekki við. Það er ekki viðunandi að andlitslaus óskapnaður ráði öllu. Tökum kerfin og flengjum þau hvert með öðru. Látum dómsmálakerfið með sinn Ögmund og þann sérstaka ráðast á fjármálakerfið með kjafti og klóm. Þeir gera þá minni skaða á meðan. Látum Geirjón sjálfan og lögguna gera útaf við bankaræksnin. Þá getum við tekið í græna fingur bændanna og Tryggva Þórs og komið okkur vel við þann græna og lífræna sem allt vill gleypa.

Nú, er það ekki þetta sem við stefnum að? Það verður að halda lífi og fjöri í fjórflokknum. Annars fer allt í hund og kött. Engir aðrir kunna eins vel að múta og þeir. Með öðrum orðum sjá þeir um að láta spillinguna hafa sinn gang. Við getum alls ekki án hennar verið. Já, ég er að tala um spillinguna. Við erum orðin svo vön henni og samdauna að við sjáum hana ekki. Frændi hans Jóns með þorskhausana vill fá eitthvað að gera. Er ekki sjálfsagt að hann stjórni slorinu? Mér finnst það.

IMG 7015Maðkafluga að hvíla sig.


1524 - Var Fischer frægastur Íslendinga

Scan479Gamla myndin.
Lækjartorg.

Því hefur oft verið haldið fram að fleiri bækur hafi verið skrifaðar um skák en nokkra aðra íþrótt. Þetta kann vel að vera rétt. Nýlega sá ég blaðagrein (sem líklega var skrifuð árið 2005) eftir Edward Winter þar sem saman voru teknar og taldar upp þær bækur sem hann vissi að höfðu verið gefnar út og skrifaðar um Bobby Fischer eingöngu. Þær voru 73. Þýðingar held ég að hann hafi alls ekki tekið með. Sumar bækurnar voru í tveimur eða fleiri bindum og í fljótu bragði sýndist mér hann eingöngu vera að fjalla um bækur á ensku og þýsku.

Robert James Fischer var Íslendingur þegar hann dó árið 2008. Ef til vill hafa ekki fleiri bækur verið skrifaðar um neinn Íslending í lifanda lífi en hann.

Ekkert varir að eilífu. Ekki einu sinni eilífðin sjálf. Ef þetta er speki þá er ég illa svikinn. Mér finnst þetta vera prump og orðhengilsháttur. Þverstæður tilverunnar eru svo margar að ekki hefur neitt gildi að rekast á eina og eina. Lífið sjálft er ein þverstæða og dauðinn líka. Stundum er hægt að nálgast sannleikann með þverstæðum þó ótrúlegt sé. Svo mikið getur myrkrið orðið að það verði ljós og ljósið svo mikið að það verði myrkur.

Margt er mannanna bölið
og misjafnt drukkið ölið.

Segir í eldgömlu heimsósómakvæði. Heimsósóminn er mikill núna. Hann er t.d. að gera Grikkjum grikk akkúrat eins og er. Fjármálakerfi Vesturlanda hefur lent á glapstigum og er fjarri því að veita mönnum þá velsæld og þann unað sem það á að gera. Siðmenntaður er sá maður einn sem getur verið iðjulaus án þess að valda sjálfum sér tjóni. Þrátt fyrir þennan galla fjármálakerfisins fer siðmenning heimsins vaxandi.

IMG 7009Laufblað.


1523 - Barnaskóli Íslands

Scan478Gamla myndin.
Austurstræti.

Allir hafa einhverja galla. Eflaust ég sjálfur líka. Heldur er það þó ólíklegt. Mér finnst a.m.k. gallar annarra miklu meira áberandi. Maður verður bara að sætta sig við þá. Af hverju geta ekki allir hugsað eins og ég? Mér finnst það stór galli. Fáir hugsa jafn skýrt. En svona er lífið. Eintóm vonbrigði. Verður maður ekki bara að reyna að gera gott úr þeim. Það tekur því ekki að vera að gera sér rellu út af ófullkomleika annarra. Lífið er of dýrmætt til þess.

Sálfræðilega séð er flest á niðurleið núna. Einkum hér á Norðurhjaranum. Veturinn nálgast og sólin er farin í frí. Sýnir sig þó í mýflugumynd suma daga. Næstum aldrei kemur þó almennileg hríð og snjór sem talandi er um hér í Reykjavíkinni. Sumrin eru þó ekkert til að fussa yfir. Sólskin og hiti daginn langan. Best væri að skríða í híði í nóvemberbyrjun og koma ekki úr því fyrr en í maí. Stefni að því. Á ég samt að blogga úr híðinu? Já, ætli það sé ekki best.

Síðastliðið sumar var ég eins og margir fleiri að flækjast um á Akureyri. Þar sá ég gamalt og virðulegt hús á góðum stað og utan á því stóð að það héti Rósenborg. Það fannst mér af einhverjum ástæðum lygilegt. Fannst einhvern veginn að svona virðulegt gamalt hús ætti að heita allt annað. Ef það þyrfti endilega að heita eitthvað. Man að ég tók mynd af þessu húsi. (sjá neðst)

Nú sé ég á fésbókinni að Ragnar Hólm kallar þetta hús Barnaskóla Íslands. Það finnst mér miklu skárra nafn en Rósenborg.

Nú er ég óðum að komast í mitt gamla form að því leyti að ég blogga á hverjum degi, eða svotil. Það er samt að mestu ómeðvitað. Bara vani satt að segja. Mér finnst þægilegt að fílósófera við tölvuna. Sumir vilja helst hafa pappír og blýant fyrir framan sig við slíka iðju en mér finnst lyklaborðið betra. Svo les ég það yfir sem ég hef krotað á blaðið. Felli út og lagfæri og þegar það er orðið hæfilega langt, ég sæmilega ánægður með það og klukkan hæfilega margt þá hendi ég því á Moggabloggið og set inn myndir sem ég hef áður öpplódað. 

Það kitlar hégómagirnd mína að heyra það stöku sinnum að fólk lesi bloggin mín reglulega. Einu slíku atviki lenti ég í nýlega. Auðvitað er þetta mikið hrós. Ég kann samt ekki að taka því og fer allur í kleinu.

IMG 6298Barnaskóli Íslands.

IMG 7006Hér er allt í flækju.


1522 - Málshöfðanir í úrvali

Scan470Gamla myndin.
Mótmæli og fullt af ónotuðum tunnum.

WikiLeaks á í stríði við kortafyrirtækin Visa og Mastercard. Sáttafundur verður í næstu viku á vegum íslenska sendiráðsins í London eftir því sem sagt er í Fréttatímanum. WikiLeaks hefur kært málið til Evrópusambandsins og vonir þeirra um að ná sér niðri á stórfyrirtækjunum eru þónokkrar. Fróðlegt verður að fylgjast með þessu máli.

Dómsmál eru alltaf fróðleg. Niðurstaðan allavega. Bíð t.d. eftir niðurstöðu í dómsmáli því sem Gunnlaugur Sigmundsson höfðaði á hendur Teiti Atlasyni. Ekki held ég samt að úrslit í því máli verði alveg á næstunni.

Páll Baldvin Baldvinsson og Árni Múli Jónasson sögðust fyrir nokkru ætla að kæra hvorn annan útaf umfjöllun um Sögu Akraness. Líklega verður samt ekkert úr því.

Það er þungur kross að þurfa að fylgjast með starfsfólki öllu í apótekum landsins. Samkvæmt nýjustu fréttum er það samt nauðsynlegt. Sjálfur þarf ég að nota lyf við of háum blóðþrýstingi og eins gott er að fylgjast með að rétt sé afgreitt. Ekki dugir annað en fylgjast líka vel með hvort viðkomandi lyf er 5 eða 10 milligrömm o.s.frv. og vei þér ef þú veist ekki að Metoprolol er það sama og Seloken eða að Daren heitir öðru nafni Enalapril. Aukið öryggi er svo auðvitað að vera með góðan blóðþrýstingsmæli sjálfur og fylgjast vel með því sem hann sýnir.

IMG 7004Í Hafnarfjarðarhrauni.


1521 - Davíð Þór og María Lilja

Scan453Gamla myndin.
Hasar við höfnina.

Ég er sífellt að hampa og hrósa blogginu (einkum Moggablogginu) en hallmæla sem mest fésbókinni. Ber það kannski vott um menntasnobb mitt og fordóma? Sumum gæti virst það. Ég viðurkenni fúslega að bloggið hefur ýmsa galla. T.d. þann að athugasemdir koma oft það seint að flestir missa af þeim.

Ég skrifaði um daginn blogg um Davíð Þór og Maríu Lilju meðal annars. Athugasemdir nokkrar komu við þá færslu en fremur seint. Það mál virðist mér nú hafa tekið nýja stefnu og finnst mér í framhaldi af því að nú ætti fremur að ræða aðferðir „stóru systur“ en kynhneigðir Davíðs Þórs.

Annars eru kynhneigðir mikið áhugamál bloggara og athugasemdara um þessar mundir því enn og aftur er umræðan ljóta um Guðrúnu Ebbu komin upp á yfirborðið. Mér finnst sú umræða vera meira eins og keppni í dónaskap en skynsamlegar rökræður. Mér finnst menn geta alveg verið vantrúarhundar án þess að gera ráð fyrir því að allir prestar hljóti að vera varmenni. Ekki get ég heldur séð neitt athugavert við að ræða mál Guðrúnar Ebbu. Í mínum augum er það ekki útrætt.

Ég er nokkuð viss um að Hanna Birna mun sigra Bjarna Benediktsson auðveldlega í formannskjörinu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hvort það verður flokknum til góðs er ég alls ekki viss um. Vel getur verið að hún brenni sig á því sama og Ingibjörg Sólrún gerði. Sveitarstjórnarmál eru nefnilega allt annað en landsmál.

Samfylkingin sýpur nú seyðið af því að hafa lyft Ingibjörgu Sólrúnu í formannsstól. Um það var hún greinilega ekki fær. Hvort arftaki hennar finnst fljótlega getur skipt sköpum fyrir flokkinn í framtíðinni. Jóhanna er ekki sá forystumaður sem flokkurinn getur unnið sigur útá.

IMG 7003Vífilsstaðir.


1520 - Vextir og Seðlabankinn

Scan398Gamla myndin.
Gamla Akraborg.

Mæli með því eins og Eiríkur Jónsson lagði til að nóvember og febrúar verði lagðir niður. Tíu mánuðir á ári er kappnóg. Hugsið ykkur bara. Þá væri kominn desember núna og stutt til jóla. Ef maður þraukaði svo allan janúar væri strax kominn mars. Væri það ekki miklu betra? Vorið á næsta leiti og alles. Sannarlega góð tillaga.

Seðlabankinn segir að allt líti mjög vel út nú um stundur. Allt er svo frámunanlega jákvætt að óhætt er að hækka vextina. Nú geta þeir sem málum stjórna hjá bankanum ótrauðir stefnt á það met sem náðist skömmu fyrir hrun. Engin ástæða er til að efast um að þeim takist að koma vöxtunum upp í 20 prósent eða svo á skömmum tíma.

Af mínum fésbókarvinum eru það alltaf einn og einn sem mistnotar þá möguleika sem fésbókin skapar og sendir mér og öðrum tilkynningar tugum saman á hverjum klukkutíma. Oftast eldist þetta af fólki þó sumir eigi í erfiðleikum með að finna fjölina sína. Við þessu er svosem ekkert að gera. Alltaf má loka fyrir skeyti frá viðkomandi en það geri ég helst ekki.

IMG 6979Reinfang. Held að nafnið sé danskt og þýði einfaldlega „jurtin sem fangar regnið“, eða eitthvað þessháttar.


1519 - Ritdeila Maríu Lilju og Davíðs Þórs og fleira

Scan303Gamla myndin.
Fimm manna tjald.

Já, ég er fljótur að skrifa þegar eitthvað er til að skrifa um. Setti eitthvað upp í gærkvöldi að mig minnir og er tilbúinn með eitthvað fleira núna. Læt það bara vaða.

Willem Buiter á að hafa sagt á fundi í Hörpu um daginn að hæfileikafólk á Íslandi væri óhjákvæmilega álíka margt og í meðalstórri borg erlendis og þessvegna sé ekki hægt að gera ráð fyrir að fá góða menn í fjármálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Seðlabankann, Fjármálaeftirlitið, dómstólana, Alþingi og viðskiptalífið hér innanlands.

Lausnin sé að fá útlendinga í störfin eða ganga í stærri klúbb. Sá stærri klúbbur sem stendur til boða er ESB. 

Athygli vekur ritdeila Maríu Lilju Þrastardóttur og Davíðs Þórs Jónssonar. Davíð hefur lengi hellt úr skálum guðhræðslu sinnar yfir landslýð með Fréttablaðspistlum og ætti að geta þolað smáandóf. Það gerir hann þó ekki og fellur samstundis í flokk lítilmenna með því að hóta málssókn. Getur semsagt ekki varið sig.

Vissulega er hægt að segja að María Lilja sé með persónulega gildisdóma um Davíð Þór í fyrsta pistli sínum. Ennfremur að hún sé með útúrsnúninga og vilji ekki ræða með siðuðum hætti meginatriði máls þess sem Davíð vakti máls á. Með góðum árangri hafa þeir sem orðið hafa fyrir slíku leitað sér skjóls í gallaðri meiðyrðalöggjöf. Það bætir ekkert fyrir Davíð Þór að fá Maríu Lilju dæmda til sekta. Hugsanlegt er að það takist, en flestir munu eflaust líta á það sem tilraun til þöggunar. Það er háttur lítilmenna að reyna að þagga niður alla gagnrýni. Ef ekki er hægt að svara henni þá á að láta það vera. Ekki vekja athygli á henni með málssókn eða hótunum um málssókn.

Undirbúningur Bandaríkjamanna undir innrás í Íran er í fullum gangi. Talsverð hætta er á að þetta mál ógni heimsfriðnum meira en nokkuð annað. Kreppuræfillinn sem skekið hefur Vesturlönd undanfarið er eins og hver annar smáskjálfti miðað við þetta. Ekki er þó hægt að búast við innrás alveg strax. Líklegt er að nokkra mánuði taki að ljúka undirbúningi. Tryggja þarf stuðning svokallaðs „alþjóðasamfélags“, sem er fyrirbrigði sem alls ekki allir hafa heyrt um. Byrja þarf á loftárásum og þess háttar, en líklegt er að innrás á landi fylgi. Hún verður vandlega undirbúin og allur sá lærdómur sem hægt er að draga af innrásinni í Írak verður notaður.

Eitt er það öðru fremur sem er greinilegur misskilningur hjá „alþjóðasamfélaginu“ og kom bæði í ljós í Íraksstríðinu og Líbýustríðinu en það er að leiðtogar þessara landa, sem vissulega voru harðstjórar hinir mestu, beittu ekki þeim vopnum sem „alþjóðasamfélagið“ óttaðist mest. Það er að segja kjarnorkuvopnum og/eða efnavopnum. Af hverju gerðu þeir það ekki þegar allt var komið í óefni? Mín skoðun er sú að þeir hafi álitið sinn málstað þann rétta og þess vegna ekki viljað gera neitt sem þeir mundu sjá eftir seinna.

IMG 6976Hér endar vegurinn greinilega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband