Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

1015 - Ritskoðun og gæsluvarðhöld

Á Yahoo.com var í gær eða í morgun skrifað um ritskoðun í Thailandi. Finn þá grein ekki núna og get því ekki linkað í hana. Greinilegt er að Internetið er að breyta pólitísku landslagi allsstaðar. Vefsetur hverskonar og vefmiðlar eru orðin mikilvægustu tæki stjórnarandstæðinga um allan heim til að koma upplýsingum á framfæri.

Margt er líkt með okkur Íslendingum og Thailendingum. Þeir eru samt ólíkt fleiri en við og hlutir sem þar gerast eru á mun stærri skala en hér á skerinu. Margt má samt af þeim læra. Það er fleira en Bandaríkin til í heiminum.

Allt nema gömlu sveitasímarnir og venjulegir heimasímar fóstra nýmóðins og dýrt skvaldur. Sumir verða svo háðir þessum fjára að þeir geta ekki án hans verið. Svo kemur reikningur sem alla ætlar að drepa.

En tölum um eitthvað skemmtilegra. Nú er vor í lofti og sólin skín. Gufustrókurinn frá Eyjafjallajökli rís hátt í loft upp en það er nú ekki endilega góðs viti fyrir alla. Vona samt að flug og þess háttar verði komið í lag næst þegar ég þarf á slíku að halda.

Ég er ekki enn farinn að átta mig almennilega á þessari blessaðri Fésbók. Mér finnst ég alltaf vera að skoða sömu myndirnar og lesa sömu greinarnar. Mikið er samt skrifað þar, ekki er vafi á því. Sumir skrifa samt lítið þó einhverjar upplýsingar séu um þá. Ætli ég sé ekki í þeim hópi.

Allt er að fara á hliðina útaf gæsluvarðhaldi tveggja manna. Mér finnst slíkt litlu máli skipta. Ef dómari fellst á það sem saksóknari heldur fram hef ég tilhneigingu til vera sama sinnis. Þetta eru varkárir menn og ekki líklegt að þeir geri eitthvað í fljótræði.

Auðvitað finnst sumum það hræðilegt að jakkalakkar séu settir í fangelsi. Við því var að búast og ástæðulaust að vera hissa á því. Óneitanlega fara mál samt að verða nokkuð athyglisverð úr þessu. Eins gott að fylgjast vel með fréttum næstu daga. Og þá á ég ekki bara við gosfréttir.


1014 - Andvarpað af feginleik

Býst við að fleiri en ég séum fegnir því að sérstakur saksóknari er nú farinn að láta að sér kveða og handtaka menn. Megi hann halda því sem lengst áfram því ég ímynda mér að ég sé ekki í hópi óvina hans.

Þær handtökur sem nú hafa farið fram skipta vissulega máli. Beðið hefur verið eftir þessu eða öðru álíka mjög lengi. Nú byrjar ballið. Stefnur og kærur alveg villivekk eins og þegar til stóð að ná Jóni Ásgeiri og gera hann óskaðlegan. Kannski verður reynt aftur.

Nú er ég búinn að skítnýta svo myndirnar sem ég hef tekið að undanförnu að lengra verður varla komist.

Og Jón Gnarr er að gera alla vitlausa. Gott hjá honum. Merkilegt hvað allir verða alvarlegir þegar minnst er á hann. Stjórnmálamenn eru ekki vanir að segja hvað þeir ætla að gera ef þeir verða kosnir og þessvegna engin furða þó Jón Gnarr sé þögull um það. Að minnsta kosti trúir þeim enginn. Þó Jón geri ekki annað en rogast með styttuna af útlaganum eitthvert er mér alveg saman. Hann gerir þó ekki sama skaða og aðrir borgarfulltrúar rétt á meðan.

Eiginlega var fyrir löngu kominn tími á svona grínframboð eins og Jón Gnarr stendur fyrir. Bara að einhver álíka komi í landsmálin fljótlega. Einhver nefndi Spaugstofuna og mér líst vel á það. Verst ef mikil samkeppni verður á grínvængnum. Þeir alvörulausu þurfa endilega að sameinast. Þeirra er Guðsríki. Það er ég sannfærður um.


1013 - Thailand og Grikkland

Ég er alltaf að komast meir og meir á þá skoðun að bankahrunið sé ekki einkum Sjálfstæðisflokki og Framsókn að kenna. Sú ríkisstjórn sem sat að völdum þegar það skall á gerði fátt en flest sem hún gerði var mögnuð vitleysa. Á því eiga þau Geir og Ingibjörg að sjálfsögðu að bera höfuðábyrgð en fleiri komu þó við sögu. 

Almenningi tókst loks að koma þeirri ríkisstjórn frá völdum undir kjörorðinu „Vanhæf ríkisstjórn." Nú vilja margir þeirra sem tóku þátt í búsáhaldabyltingunni losna við núverandi stjórn. Það er skiljanlegt. Icesave hefur ruglað marga í ríminu. Ekki er þó hægt að skipta um ríkisstjórn á fárra mánaða fresti. Slíkt var reynt á Ítalíu á sínum tíma og gafst illa. Jafnvel Berlusconi er skárri.

Núverandi stjórn reynir eftir mætti að slökkva þá elda sem bankahrunið olli en fær lítt við ráðið. Alls ekki er víst að önnur ríkisstjórn næði betri árangri.

Á ýmsan hátt legg ég mótmælin í Thailandi, Grikklandi og á Íslandi að jöfnu. Þessar þjóðir eru þó á mismunandi stöðum í mótmælum sínum. Íslendingar eru komnir lengst en virðast ætla að sætta sig við ósköpin. Grikkir aftur á móti ekki. Thailendingar eru enn með hægri sinnaða stjórn sem allt er að eyðileggja en almenningur er að reyna að koma henni frá.

Það sem Tailendingar eru að reyna að gera með ákaflega friðsamlegum hætti er það sama og við Íslendingar áorkuðum í búsáhaldabyltingunni svonefndu. Grikkir virðast aftur á móti ekki ætla að sætta sig við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn yfirtaki stjórn á Grikklandi. Grikkir eru nefnilega ekki geðlausir.

Og nokkrar myndir:

IMG 1801Fúinn trjástofn.

IMG 1798Lasin brú.

IMG 1785Skel með hrúðurkörlum. - Bækluð ugla.

IMG 1779Fenjasvæði á Álftanesi.

IMG 1700Eldiviður.


1012 - Áframhaldandi Sæmundarháttur

Skrifa í bloggið mitt það sem mér dettur í hug. Geri ekki einu sinni ráð fyrir að öðrum líki það sem ég skrifa. Kannski sumt. Kannski ekkert. Í gær var það gömul klámvísa. Veit ekki hvað það verður í dag. Kannski sumir leggi það á sig að lesa bloggið mitt vegna þess að þeir viti varla á hverju þeir eiga von. 

Samt vonast ég til að flestallir skilji það sem ég skrifa. Lítill vandi að skrifa eitthvað sem engir skilja. Skáld og listamenn leitast við að skrifa það sem fáir skilja. Það hefur mér að minnsta kosti skilist. Þessvegna er augljóst að ég er hvorki skáld eða listamaður. Hvað er ég þá? Gamall og útslitinn ellilífeyrisþegi?

Mér finnst upphefð í því að sem allra flestir lesi þetta blogg mitt. Sumir ættingjar og venslamenn segjast aldrei lesa það. Ég er alltaf að reyna að ná til þeirra. Sem er mjög gott. Þá legg ég mig aðeins fram. Samt ekki með því að verða sem torskildastur. Endurminningar endast illa. Seinvirkt að ná til ættingja með þeim.

Fésbókin er að fara á kaf í skvaldri og einskisverðum upplýsingum. Finnst mér. Vegna þess að ég kann ekki að nota hana. Verð alltaf svo frustreraður þegar hönnunin á henni er ekki eins og mér finnst eðlilegast að hún sé og hætti þá bara og fer að gera eitthvað annað.

Til leiðbeiningar fyrir þá fáu sem ekki lesa bloggið mitt reglulega. Tvö helstu einkennin eru númerin á þeim og svo blogga ég á hverjum einasta degi ef ég mögulega get. Já og svo er það náttúrulega nafnið mitt. Einhverja alnafna á ég en sem betur fer blogga þeir ekki mér vitanlega.

Hafi maður ekki þeim mun meira að segja er um að gera að hafa bloggin bara stutt. Þá verða allir fegnir. Einkum þeir sem hafa gert sér það að reglu að lesa bloggin mín. Það tefur þá ekki óhóflega. Svona gæti ég sennilega haldið áfram endalaust. Það er að skrifa og skrifa án þess að segja nokkuð. Líkt og sumir stjórnmálamenn eru svo flinkir í.

Kosningaspá.
Held að Frjálsir Demókratar og Verkamannaflokkurinn myndi næstu stjórn í Bretlandi og Brown verði ekki forsætis.


1011 - Vel er puntað vinur hlið

Vil helst ekki versla við þá sem bjóða mikla afslætti. Tala nú ekki um ef afslættirnir koma bæði frá vinstri og hægri!! Verður alltaf hugsað til þeirra sem enga afslætti fá og hvort einhverjir fái ekki ennþá meiri afslætti hjá þessu afsláttarfyrirtæki.

Þrír voru þeir kostir við Bónus sem fengu mig upphaflega til að versla fremur við þá en aðra. Þeir tóku ekki greiðslukort, seldu ekki sígarettur og svo var flest fremur ódýrt þar. Allt annað við verslunina var neikvætt. Nú hefur áróðurinn gegn Jóni Ásgeiri haft þau áhrif að ég versla frekar í Krónunni en í Bónus. En eru þeir sem þar ráða ríkjum örugglega betri? Veit það ekki.

Gulli og hinir útrásarvíkingarnir þrástagast á því að þeir hafi ekki gert neitt ólöglegt. Hefur ekki hvarflað að þessum vesalingum að eitthvað sé til sem heitir siðferði. Steinunn Valdís ber meiri virðingu fyrir flokknum en sjálfri sér og kjósendum. Sorglegt.

Vinsæll er brandarinn um konuna sem var að verða of sein í viðtal hjá kvensjúkdómalækninum. Ákvað samt að þrífa sig aðeins að neðanverðu fyrir heimsóknina og sprayaði í lokin á hárin þar með því sem hún hélt vera lyktarspray. Fannst læknirinn taka undarlega til orða meðan á skoðun stóð en skildi ekki hversvegna fyrr en um kvöldið þegar dóttir hennar spurði hvar hárglimmerið sitt væri.

Þessi brandari er auðvitað til í mörgum útgáfum. Konur láta hann gjarnan fjalla um sig sjálfar. Mér dettur hinsvegar jafnan í hug gömul vísa sem ég lærði endur fyrir löngu þegar ég heyri hann:

Vel er puntað vinur hlið
varla unnt að bíða.
Burt er svuntan, blasir við
blessuð kuntan fríða.


1010 - Samtrygging fjórflokksins

Samtrygging flokkanna birtist með ýmsu móti. Greinilegast kemur hún kannski fram í því að þeir munu allir sem einn standa gegn því að stjórnlagaþing, sem einhverju getur breytt, verði haldið. Segja kannski annað en munu standa gegn því af öllum sínum þunga. Á þessu er enginn vafi og þessvegna verður ákvörðun um stjórnlagaþing að koma frá öðrum en Alþingi.

Flokkarnir hafa að undanförnu hrakist svolítið frá því sem lengi hefur verið venja að þeir ráði öllu um. Skörð hafa verið rofin í múrana sem verið hafa um fjármál flokkanna og þeir eru að nokkru leyti búnir að missa tökin á embættaveitingum.

Þar að auki var skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjórflokknum talsvert áfall. Davíð var meira að segja búinn að semja fyrirsögn í Moggann þar sem bankamönnum var kennt um allt. Sú átti niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að verða og það hljóta þeir að hafa vitað.

Það er ekki einu sinni víst að fjórflokkurinn verði búinn að jafna sig fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor því nú sækir Jón Gnarr að þeim úr hinni áttinni. Svo gæti farið að fjórflokkurinn missti tökin á Borgarstjórn Reykjavíkur og væri það sannarlega saga til næsta bæjar.

Fylgdist svolítið með snókereinvíginu í kvöld. Mér líkar yfirleitt betur að horfa á varnarsinnaða snókerspilara eins og þá Robertson og Dott, en skelfing léku þeir illa greyin. Robertson er þó verðugur meistari.

Sýnist Már seðlabankastjóri vera á pari við Gulla. Segi ekki meira.

Og fáeinar myndir:

IMG 1765Virðulegir borgarar við Rauðavatn.

IMG 1796Lúið farartæki.

IMG 1797Farið undir Nýbýlaveg.

IMG 1800Ástin blómstrar í skóginum.

IMG 1802Bátur á siglingu.

benniVar í gær að skoða gamlar myndir. Fann þar þessa ágætu mynd af Benna ársgömlum.


1009 - Pocahontas

Oft er talað um Ólaf Ragnar Grímsson sem klappstýru útrásarinnar. Það er heilmikið til í því. Sjálfum er mér minnisstætt að einhverntíma stóð til að leyfa Bandaríkjamönnum að gera teiknimynd um Snorra Þorfinnsson í stað Pocahontas. ÓRG flutti um þetta ræðu. Bandaríkjamenn áttu að fá að vera með í þessu af því að þar var talin vera einhver þekking á gerð teiknimynda. Hugmyndin sjálf um Snorra Þorfinnsson (sem allir sannir Íslendingar hljóta að þekkja) sem fyrsta innfædda hvítingjann í Ameríku var auðvitað miklu betri en þessi auma hugmynd um indíánastelpuna ræfilslegu sem kölluð var Pocahontas.

Þrátt fyrir þetta styð ég ÓRG í mörgu sem hann gerir. Ef honum tekst til dæmis að koma á markverðu stjórnlagaþingi má fyrirgefa honum flest. Alltof mörgum virðist ákaflega uppsigað við hann og geta varla fundið nægilega sterk orð til að úthúða honum.

Veit varla hvað ég á að tala um. Hef á tilfinningunni að þessi helgi og fyrstu dagarnir eftir hana geti orðið mikilvægir mörgum. Íslenskir stjórnmálamenn hljóta aðfara að athuga sinn gang og eitthvað fer að gerast í Thailandi. Mál geta ekki haldið áfram á sama hátt og verið hefur.

Veðrið er gott. Maí er kominn og vorið sennilega líka. Eyjafjallajökull að verða ögn stilltari - eða ekki. Eiginlega geta hlutirnir bara farið batnandi. Sem er gott. Vel má þó gera ráð fyrir að eitthvað versni. Katla gæti til dæmis ákveðið að bíða ekki lengur. Þingmenn gætu tekið uppá því að sitja sem fastast. Rauðu skyrturnar gætu haldið útilegunni í Bangkok áfram til eilífðarnóns. Hvað veit ég? Litlar líkur eru samt á hafís eða bólusótt.

Fyrsti maí var haldinn hátíðlegur í Reykjavík og víða annars staðar. Sjálfur skrönglaðist ég niður í bæ og tók nokkrar myndir. Gerði lítið annað. Var til dæmis ekki með neitt skilti:

IMG 1807Fyrsti maí í Reykjavík. Takið eftir drullusokkunum vinstra megin við miðju.

IMG 1814Biðröð við Bæjarins bestu.

IMG 1816Sölumennska í Bankastræti.

IMG 1818Aðgerðum lokið.

 

IMG 1827Hef ekki hugmynd um hvað þetta er. En eitthvað er það.


1008 - Hundrað í höggi

Einu sinni var bóndasonur. Hann reyndi oft að drepa hundrað flugur í einu höggi með fjósaskóflunni þegar flugurnar settust í mesta sakleysi á fjóshauginn til að fá sér pínulítið nammi. Loksins tókst honum það. Þá lét hann prenta á bolinn sinn „hundrað í höggi." og hélt svo út í heim. 

Sumir misskildu áletrunina á bolnum. Héldu að bóndasonurinn væri svo svakalega sterkur að hann gæti glímt við hundrað manns í einu. Það var einmitt það sem bóndasonurinn vildi. Hann taldi sér trú um að með því gengi honum betur að koma sjálfum sér á framfæri. Það var misskilningur hjá honum. Þeir sem hefðu getað hjálpað honum til að komast áfram forðuðust hann.

Þetta er víst dæmisaga. Með henni á fólk að skilja að ekki eigi að villa á sér heimildir. Þannig skil ég hana að minnsta kosti. Kannski er boðskapurinn annar. Ég er þá bara ekki nógu skarpur til að skilja hann.

Kannski þraukar Bjarni Benediksson með vafningum og vífilengjum sem þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins í einhverjar vikur ennþá en Guðlaugur Þór Þórðarson hlýtur að vera á útleið. Kannski fylgir Steinunn Valdís Óskarsdóttir honum í útlegðina. Æstustu andstæðingum hrunverja mun þó ekki finnast það nóg. Fleiri verða til kallaðir.

Kannski lýkur látunum aldrei. Ég hugga mig jafnan við það að ástandið núna líkist um sumt ástandinu um aldamótin fyrir rúmum hundrað árum. Þá deildu menn ansi harkalega um „uppkastið" svonefnda. Ég er enginn sagnfræðingur og þekki þetta „uppkastsmál" engan vegin út í hörgul. Held þó að flestir hafi orðið sæmilega sáttir að lokum.

Keflavíkurmálinu lyktaði öðruvísi. Vandamálið sjálft hvarf eða fór úr landi réttara sagt. Þannig er líka hægt að ljúka málum. Ef mátulega margir á réttum aldri væru spurðir um það mál núna hugsa ég að skoðanir séu talsvert skiptar ennþá.

Get ekki að því gert að ég er alltaf í huganum að bera saman fésbók og blogg. Á fésbók láta menn flest flakka. Ef það sem látið er frá sér fara er heimskulegra en góðu hófi gegnir drukknar það bara í skvaldrinu. Á bloggi eru flestir hinsvegar alltaf að rembast við að vera gáfulegir.


1007 - Kallar í kjólum

kallarOg um að gera að hafa kjólana sem litskrúðugasta. Bara að vindstrekkingurinn taki kallagreyin ekki. En að kallar giftist köllum og kellingar kellingum. Ekki að tala um. Best að fresta málinu einu sinni enn. Skítt með almennan stuðning. Stuðningur öfgamanna er betri.

Flugvöllinn burt og flugvélar um kjurt. Þetta er langbesta tillagan í þessu erfiða máli. Auk þess rímar þetta og það er strax kostur. Hvað á að gera við flugvélarnar sem verða um kjurt eftir að flugvöllurinn er farinn er síðari tíma vandamál sem börn okkar og barnabörn ráða eflaust framúr. Völlurinn er draugur fortíðar.

Aska úr Eyjafjallajökli og Grikklandsvandræði leiða vel í ljós galla Evrópusambandsins. Sameinaðir standa menn en sundraðir falla þeir. Það má halda því fram að þetta sé vegna þess að miðstýringin sé ekki nógu mikil. Andstæðingar Evrópuaðildar halda því einmitt fram að miðstýringin sé of mikil.

Margt í Evrópu finnst ferðamönnum benda til þess að hún sé að mestu sameinuð. Svo kemur eitthvað fyrir og þá sést að í Evrópu eru margar þjóðir sem hafa mismunandi hagsmuni og eru lengi að taka ákvarðanir. Stórríkið er langt undan. Stefna sambandsins hlýtur þó allaf að vera í átt að meiri sameiningu eða minni. Þar er lóð okkar Íslendinga ekki stórt. Hlutskipti okkar utan sambandsins verður með tímanum erfiðara og erfiðara.

Annaðhvort gýs Katla eða ekki. Forseta vorn langar að láta á sér bera. Leyfum honum það. Menn geta verið á móti því sem hann segir án þess að láta eins og bestíur. Í augum þeirra sem fátt sjá annað en pólitík er hann ýmist skúrkur eða hetja. Mér finnst hann hvorugt. Hann er að reyna að hrifsa til sín aukin völd eins og eðlilegt er. Skárra að þau séu hjá honum en máttlausu Alþingi.

Sumir sem segjast lesa bloggið mitt reglulega segja samt að það fjalli yfirleitt ekki um neitt. Auðvitað er ég óánægður með það. Sennilega skrifa ég þá svona vel. Varla geta þeir verið að pynta sjálfa sig með því að lesa leiðinlegt og illa skrifað blogg.

Er alveg hættur að geyma sæmilega skrifaðar klausur sem ekki eru háðar tíma. Það gerði ég stundum áður fyrr. Nú treysti ég á að mér detti eitthvað í hug næsta dag. Oftast gengur það eftir.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband