Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010

1025 - Hið alþjóðlega auðvald

Skrifaði leitarorðið „hildur" á Blogg-gáttina áðan því mér leikur forvitni á að vita hvort þetta mál með Hildi Helgu Sigurðardóttur, sem lokað hefur verið á hér á Moggablogginu, er eitthvað umtalað á bloggsíðum. Fékk þá upp hundgamalt (10. júní 2008) blogg frá ljósvakalæðunni (Svanhildi Hólm Valsdóttur) og kíkti á það. Þar var talað um Ásthildi Helgadóttur en ekki Hildi Helgu. Skil ekki hvernig stendur á þessum ósköpum. Ekki ráða Moggabloggsguðirnir yfir Blogg-gáttinni mér vitanlega.

Svo virðist sem nú sé hafin í Thailandi sú aðgerð gegn mótmælendum sem lengi hefur verið beðið eftir. Afleiðingarnar er ekki hægt að sjá fyrir. Þetta er traustasta lýðræðisríki Suð-Austur Asíu og mikil stuðningsþjóð Bandaríkjanna. Nú virðist sem pólitíkin þar ætli að verða mun harðari en hún hefur verið. Herinn hefur alltaf verið áhrifamikill þarna og nú virðist kóngurinn vera hættur að beita sér. Það er skaði því hann nýtur mikillar virðingar af öllum.

Að kenna Thaksin fyrrverandi forsætisráðherra um allt sem miður fer í Thailandi er álíka gáfulegt og að kenna Davíð Oddssyni um allt sem fer ekki eins og það á að gera hér á landi.

Af hverju fjasa ég svona mikið um Thailand? Skil það ekki. Líklega vegna þess að ég les næstum engar aðrar erlendar fréttir. Og hversvegna skyldi það vera? Er eitthvað líkt með ástandinum þar og því sem gerðist hér? Sumum finnst það.

Mál málanna á Íslandi í dag er salan á Hitaveitu Suðurnesja. Sem heitir víst HS-orka núna eða eitthvað þessháttar. Ekki selja auðlindir landsins í hendur útlendinga segja þeir sem vilja koma í veg fyrir söluna, bólgnir af þjóðrembu. Ég er sannfærður um að þetta er bölvað svindl og til þess eins gert að komast að kjötkötlunum bakdyramegin en segi samt að útlendingar séu ekkert verri en Íslendingar.

Það voru Íslendingar sem settu bankana á hausinn og rændu okkur aleigunni. Skiptingin er ríkir og fátækir en ekki Íslendingar og útlendingar. Thailendingar, Grikkir og Íslendingar hafa verið rændir af skrímslinu sem heitir „Hið alþjóðlega auðvald" og er æðra öllum ríkisstjórnum.


1024 - Bumblebees

Öðru hvoru man ég skyndilega eftir einhverju sem ég hef séð í blöðum. Einu sinni var fyrirsögn í Mogganum þar sem sagði að geitungastofninn hefði hrunið. Sú frétt gladdi mig mjög. Svo hef ég líka heyrt talað um geitungadaginn mikla. Sennilega er hann ekki enn kominn eða stofninn í lamasessi ennþá. 

Hinsvegar er býflugnavikunni miklu sennilega að ljúka núna. Þessar stóru, röndóttu og loðnu hlussur þurfa allar að flækjast inn um gluggana hérna. Ég hef ekki við að henda þeim út. Einu sinni tók ég þær með höndunum og henti framaf svölunum. Í fyrra setti ég tusku eða bréf yfir þær áður en ég tók þær. Nú þarf ég helst að setja glas yfir þær og stinnan pappa undir áður en ég kem þeim út. Heimur versnandi fer.

Mér finnst þetta Hildar-Helgu-mál afar athyglisvert. Sé samt ekki mikið bloggað um það. Svanur Gísli segir sér hafa verið sagt að hún hafi brotið reglur þeirra Moggabloggsmanna en það er mér ekki nóg. Helst vildi ég heyra í henni sjálfri og vita hvað henni finnst um þetta. Kannski er henni bara alveg sama. Hugsanlega farin að blogga annarsstaðar. Ekki hef ég samt orðið var við það. Líklega getur hún enn lesið Moggablogg og er eyðilögð yfir því hve litla athygli þetta vekur. Mér er ekki sama og ekki heldur rótt.

Þetta Thailandsmál finnst mér líka merkilegt. Samt hef ég aldrei til Thailands komið og þekki enga þar. Hvorki ferðamenn né aðra. Finnst fréttir sem birtast um þetta mál hér á landi vera afar mikið í skötulíki.

Við Áslaug fórum á bókasöfnin í dag (mánudag) og fengum léðar bækur. Alltof margar reyndar. Komumst sennilega aldrei yfir að lesa þær. Man ekki sérstaklega eftir neinum en á kannski eftir að segja frá einhverjum þeirra hér fljótlega.


1023 - Í fréttum er þetta helst

Samsteypustjórnir tveggja flokka eru ágætar til að byrja með. Eftir eitt til tvö ár þarf minni flokkurinn annaðhvort að einbeita sér að því að þrauka út tímabilið eða leggja áherslu á sérstöðu sína. Fyrri aðferðin hefur oftast reynst illa. Það geta þeir flokkar sem lagt hafa lag sitt við Sjálfstæðisflokkinn borið vitni um. 

Veit ekki hvort seinna atriðið á við núverandi ríkisstjórn. Svo getur þó vel verið. Sé svo mun hún ekki þrauka út kjörtímabilið. Vinstri grænir munu vilja út. Hvort sem það verður núna strax eða seinna.

Þetta sem hér er sagt á einkum við um Ísland. Gæti líka átt við um Bretland en þar er tveggja flokka kerfið að hefast. Það sem gilti um stjórnmál fyrir löngu á ekki við í dag.

Ástandið í Bangkok í Thailandi er skelfilegt. Borg brossins og skemmtunarinnar er orðin vígvöllur. Auðvitað er það einungis hluti borgarinnar sem er undirlagður þessum ósköpum en áhrifin ná um allt. Yfirvöld hafa tilkynnt að mánudagur og þriðjudagur séu opinberir frídagar. Þar með þurfa engir að leggja sig í þá hættu að fara til vinnu. Skólar í landinu verða lokaðir að minnsta kosti alla þessa viku.

Stjórnvöld hljóta að sigra. Geri þau það ekki og gefi mótmælendum tækifæri til að forða sér lifandi (vilji þeir það) er einfaldlega skollin á borgarastyrjöld í landinu án þess nokkur vilji það. En það ofbeldi sem til sigurs þarf mun setja mark sitt á lífið í Thailandi um alla eilífð.


1022 - Nútíminn er trunta

Í grein um forfeður sína á Vestfjörðum, sem margir og þar á meðal ég hef hrósað mjög, segir Lára Hanna Einarsdóttir meðal annars:

Vegir voru engir þegar amma mín ólst þarna upp, og fólk þurfti annaðhvort að fara leiðar sinnar með bátum þess tíma eða ganga yfir fjöll og firnindi. Annað en nú til dags þegar fólk þeysir á sínum fínu bílum um malbikaða vegi þvers og kruss um landið og heldur að þetta hafi alltaf verið svona.

Þarna finnst mér Lára Hanna fara svolítið framúr sjálfri sér. Það er eflaust rétt að vegir hafi engir verið á þessum tíma. Hestar þekktust þó á Vestfjörðum en voru sjaldgæfari þar en annars staðar. Að fólk sem þeysir um á malbikuðum vegum í sínum fínu bílum haldi að þessir vegir hafi alltaf verið til er fjarstæða og eingöngu fullyrt útaf mögulegum áhrifum.

Vissulega er þetta skelfilegur sparðatíningur og ég fer ekki ofan af því að í heild er greinin verulega góð.

Ekki er annað að sjá en blogg Hildar Helgu sé enn lokað. Sé ekki betur en það sé verk þeirra Morgunblaðsmanna. Endurtek að þetta skil ég ekki. Hildur Helga er einn af bestu bloggurum Moggabloggsins og þó hún eigi til að fullyrða um hluti sem hún veit ef til vill ekki um með vissu þá er sjónarsviptir að því að missa hana héðan.

Á kaffistofu Pressunnar er óskapast út af því að Mogga-ritstjórar hafi í Reykjavíkurbréfi hallmælt óritskoðuðum og nafnlausum athugasemdum við fréttir Eyjunnar. Þarna eru þeir Moggamenn á hálum ís. Stór hluti Moggabloggsins er nefnilega ekkert annað en athugasemdir við fréttir á mbl.is. Oftast nær ekki nafnlausar að vísu, en það er í augum margra aðalatriði málsins. Svo er ekki. Nafnleysi getur hæglega átt sér ástæður. Ef sá nafnlausi er málefnalegur og svarar því sem til hans er beint finnst mér nafnleysið oftast í lagi.


1021 - Já, ég er þannig

Veit að það eru nokkrir sem lesa bloggið mitt reglulega. Þeim er nær. Þeir eru ofurseldir mínum hugsunum og skoðunum í dálitla stund hvort sem þeim líkar betur eða verr. 

Ég get spilað á tilfinningarnar og haft áhrif á skoðanir þeirra í svolitla stund. Allt er það undir því komið hve snjall ég er að skrifa. Á mínu bloggi get ég sagt það sem mér sýnist og geri svikalaust. Hef það samt alltaf í bakhöfðinu að líklega er ég óttalega fyrirsjáanlegur þó ég sé sæmilegur stílisti. Skrifa á þann hátt sem gamlir menn oftast gera. Allt var betra áður fyrr og nútíminn er trunta.

Er sæmilega hagmæltur og læt stundum vísur flakka. Kann heil ósköp af vísum (einkum klámvísum) en hef heldur lítinn áhuga á hver samdi. Tilefnið finnst mér skipta meira máli.

Er þá allt upp talið? Ekki finnst mér það. Mér finnst ég vera óskaplegur besservisser og alltaf vita alla hluti betur en aðrir. Er samt að mestu hættur að trana mér fram af því tilefni eins og ég gerði.

Svo tek ég einnig myndir en þær eru fyrirsjáanlegar líka. Reyni að forðast að vera of arty-farty eins og Goði Sveinsson sagði alltaf en ef ég tek mynd og dettur í hug um leið góður texti til að hafa við hana þá get ég yfirleitt ekki staðist að birta hana. Slíkar myndir eru oft ekki góðar en mynd+texti sleppur.

Alveg frá því ég var lítill hef ég haft gaman af að tefla. Á tímabili dreymdi mig skák og varð alltaf að fara einhvern ákveðinn manngang ef ég lenti á hellusteinum. Hélt einu sinni að ég mundi verða mikill skákmeistari þegar ég yrði stór. Það brást og ég stóð mig ekki einu sinni vel í fjölteflum. Eftir að ambissjónirnar hurfu finnst mér ennþá meira gaman að tefla og geri talsvert af því.

Svo virðist vera sem bloggsíðu Hildar Helgu Sigurðardóttur á Moggablogginu hafi verið lokað. Það skil ég ekki. Ýmislegt gengur á þó ég skilji það ekki. Þori ekki að spyrjast fyrir um hverju þetta sæti.


1020 - Lífið heldur áfram

Einn af þeim mönnum sem bloggað hafa af hvað mestri skynsemi um hrunmál er Marínó G. Njálsson. Þetta er það sem hann segir um neyðarlögin svonefndu. Gæti varla verið meira sammála honum.

„Þessi staða er afleit, þegar haft er í huga að 2% ofurríkra Íslendinga fékk fleiri hundruð milljarða af innlánum varða  á byrgð okkar skattgreiðenda viðgildistöku neyðarlaganna 6. október 2008.  Ef menn hefðu tekið vexti og verðbætur af þessum innistæðum, þá hefði það dugað til að greiða kostnað ÍLS og ríkissjóður hefði átt góðan afgang.  Staðreyndin er, skv. skýrslu RNA, að örfáir einstaklingar og fyrirtæki fengu viðbótartrygging fyrir á annað þúsund milljarða með setningu neyðarlaganna.  Við, skattborgarar þessa lands, erum að greiða um 290 milljarða vegna þessa í framlagi til Landsbankans.  Það er ekkert mál, en að hjálpa heimilum landsins er ekki hægt."

Lára Hanna skrifar ágætan pistil um forfeður sína. Þar lýsir hún vel lífi formæðra sinna og þeirri hörku sem einkenndi líf fólks á fyrri tíð. Fyrir mér byrjar nútíminn árið 1872 en þá fæddist móðuramma mín. Bjó í mikilli fátækt í Þykkvabænum en afkomendur hennar hafa samt komist ágætlega af. Hún missti unnusta sinn í slysi þegar hún var rúmlega tvítug, giftist seinna mun eldri manni ofan úr Landssveit og eignaðist mörg börn.

Ég hef ekki jafn mikinn áhuga á ættfræði og Lára Hanna en skil samt vel þýðingu sögunnar og þess að í raun erum við ekkert annað en landið og sagan. Það eina líf sem forfeður okkar eiga í dag erum við. Þó þeir ættu það skilið get ég ómögulega trúað því að þau lifi í vellystingum pragtuglega í Himnaríki, borði gull og skemmti sér til dauðs. Í peningahyggju eftirstríðsáranna týndi ég með öllu þeirri trúarvissu og sátt við almættið sem einkenndi líf fólks hér á landi áður fyrr.

Mér lætur afar illa að skrifa um uppvöxt minn og lífssýn eins og mörgum fleirum. Heldur vil ég bollaleggja um framtíðina og bera hana saman við þau sannindi sem gamli tíminn hefur leitt í ljós. Hið peningalega hrun sem hér varð fyrir fáum misserum er vissulega alltumlykjandi og kallar fram reiði og sárindi. Þrátt fyrir allt höfum við það samt gott og þó einhverjum verði ekki refsað á þann hann sem flest okkar vildu er ekki annað að sjá en nú sé sjálft uppgjörið að hefjast.

Aum er sú tilvera sem ekki sér annað en eymd og volæði í lífinu. Ástæðulaust er samt að loka augunum fyrir öllum þeim miska sem okkur hefur verið gerður. Stjórnmál munu halda áfram að skipta fólki í hópa og þeir sem áherslu leggja á að auka frelsi manna og draga úr afskiptum ríkisins eru ekkert verra fólk en aðrir. Saga þeirra ríku á Íslandi er saga þeirra sem ekki kunnu með fé að fara. Að nota auðæfin eingöngu fyrir sjálfa sig og sína nánustu bar einfaldlega dauðann í sér.

Og nokkrar myndir í lokin:

IMG 1853Mosavaxinn mótor.

IMG 1855Drykkjarvatn í slöngu.

IMG 1861Haglega gerður bekkur.

IMG 1863Er þetta ást í meinum, eða hvað?

IMG 1869Ekki er rótt að eiga nótt undir Gróttutöngum.


1019 - Uppstigningardagur eða Siggi var úti

Eftir því sem fleiri fréttir berast af eftirlýsingum, kyrrsetningum eigna, gæsluvarðhöldum og þess háttar hjá útrásarvíkingunum íslensku því auðveldara verður mér að þola þær kárínur sem efnahagsástandið síðustu misseri hefur valdið mér. Auðvitað á þetta ekki að vera svona. Ófarir annarra eiga ekki að hafa áhrif á sálarástand mitt. En svona er þetta og ég get ekkert að þessu gert.

Ég get ekki hætt að blogga. Vonandi gleðjast einhverjir yfir því. Sjálfum finnst mér það skaði því ég vildi svo gjarnan skrifa eitthvað markverðara. Er ég kannski sjálfur haldinn þeim fordómum gagnvart bloggi sem ég saka aðra stundum um? Veit það ekki en vildi svo gjarnan að bloggskrif væru ekki litin öðru eins hornauga og þau vissulega eru.

Hvers eigum við bloggarar að gjalda að vera álitnir svona óalandi og óferjandi? Erum við ekki alltaf að rembast við að vera gáfulegir og snjallir þó við fáum ekkert fyrir það nema skít og skófir og allt sem verst er í koppi kerlingar að hurðarbaki? Nú er ég víst farinn að endursegja þjóðsögur eða þess háttar.

Í stórum dráttum má segja að fimmtudagar falli niður á vorin sem kennsludagar og vinnudagar. Fyrsti maí er jafnvel stundum á fimmtudegi. Þetta er svolítið bagalegt en venst. Skyldi þetta vera svona annarsstaðar líka?

Sé alltaf dálítið eftir fyrsta desember. Einhver vorfimmtudagurinn eða jafnvel öskudagurinn hefðu mátt fjúka í staðinn. Fannst fyrsti desember alltaf svolítið hátíðlegur í gamla daga. Föstudagurinn langi hins vegar óskaplega langur og leiðinlegur. Helst átti manni að líða illa held ég.

Baggalútur segir að eftirfarandi vísa sé eftir Grím Thomsen. Því trúi ég varlega en útúrsnúningurinn er góður og í stíl við það sem allir hafa verið að hamast við í dag:

Siggi er úti og neglurnar nagar
það næst ekki í hann, með veggjum hann fer.
Logandi hræddur um Lundúnir kjagar
með lágfótu kroppandí hælaná sér.

Agga-gagg segir Eva á grjóti.
Agga-gagg hvæsir tófan á grjóti.

Alllanga tugthúsvist ætla ég hann hljóti,
- aumingja Siggi hann þorir ekki heim.

Og að síðustu fáeinar myndir:

IMG 1834Með húsið á bakinu. (Á svörtu malbiki, því miður)

IMG 1835Er tréð ekki fullstórt fyrir þetta hús?

IMG 1838Glæsilegur inngangur.

IMG 1843Sólstólar í úrvali.

IMG 1847Í sól og sumaryl.

IMG 1848Gamall staur.


1018 - Níu-menningarnir

Það er svo margt í sálarlífinu sem birtist í því hvernig maður speglast í áliti annarra. Fésbókin er auðvitað þannig spegill. Meira að segja sérsniðinn að því að henta sem flestum. Mér hentar hann hinsvegar ekki. Það að vera að skrifa einhvern skollan á veggi sem sumir lesa og sumir mæla með, en fæstir hafa verulegan áhuga á, þykir mér ekki áhugavert. Þá er bloggið betra. Þar skrifar maður það sem manni dettur í hug og þeir sem áhuga hafa kíkja þar inn. Aðrir ekki. 

Hætt er við að mál níu-menninganna sem kærðir hafa verið fyrir árás á Alþingi geti orðið mál sem mikið brýtur á. Forseti Alþingis vill fría sig allri ábyrgð á málinu. Það gengur ekki. Skrifstofustjórinn þar er henni ekki æðri. Vissulega er ekki þörf á að æsa sig óhóflega útaf þessu máli áður en dómur fellur. Hæstiréttur gæti síðan snúið þeim dómi við þó sá sem ákveðið hefur að einungis tuttugu og einn að nímenningunum meðtöldum fái að fylgjast með réttarhaldinu dæmi þeim ákærðu í óhag.

Varðandi mikinn fjölda starfa sem skapist við starfrækslu gagnavers á Reykjanesi minnist ég annars vegar að þegar fyrsta álverið tók til starfa hér á landi reiknuðu margir með að í skjóli þess mundi mikill fjörkippur koma í allan iðnað á landinu. Svo fór ekki. Einnig reiknuðu menn með mikilli vinnu Íslendinga við Kárhnjúkavirkjum þegar hún var í undirbúningi. Það brást. Auðvitað er ekki víst að eins fari á Reykjanesi en líklegt er það.


1017 - Gos og kosningar

Verður gosið í Eyjafjallajökli nú til þess að líkur á Kötlugosi aukast? Þetta er sú spurning sem margir spyrja sig. Ríkisstjórnin fleygir peningum í ferðamannaiðnaðinn í þeirri von að fjölga megi ferðamönnum. Kannski fjölgar þeim sjálfkrafa og engin þörf á þessum milljónum til kynningar. Það sem allt veltur á þessa dagana er hver verður framvinda gosmála. Líka er sjálfsagt að hjálpa þeim bændum sem enn þrauka á öskufallssvæðum og til þess mætti nota það fjármagn sem ákveðið hefur verið að henda í ferðamenn.

Kannski er besta megrunarráðið að kaupa sér föt í þrengra lagi. Keypti mér buxur um daginn sem voru einginlega fullþröngar. Nú smellpassa þær. Kannast þó ekki við að hafa staðið í neinum megrunaraðgerðum!!

Skítt með alla skynsemi. Gáfur eru gull. Þetta er glósa sem ég lærði endur fyrir löngu og hef alltaf efast um hversu gáfuleg er. Hver er annars munurinn á skynsemi og gáfum? Það mætti ef til vill bæta greind í púkkið. Besta skilgreiningin á því hvað grein sé sem ég hef heyrt er að hún sé eitthvað sem greindarpróf mæli. Lýsir henni fremur lítið og á sama hátt held ég að snúið sé að lýsa gáfum og skynsemi.

Nú er sjónvarpið byrjað að kynna kosningarnar sem standa fyrir dyrum. Birti myndir af Hveragerði í tilefni kosninganna á Selfossi. Það mest spennandi við komandi kosningar er hvernig Jóni Gnarr reiðir af. Jú, hrunflokkarnir munu fá fyrir ferðina einu sinni enn, en samt ekki svo afgerandi að þeir muni breytast. Áfram verður vælt og skælt um það að ekki megi persónugera ósköpin eða dæma menn nema með illa skipuðum dómstólum. Auðvitað vilja hrunvaldarnir eiga fleiri líf eins og söngvarinn Arnalds sem nú er orðinn endurreistur og fínn.


1016 - VGA-planets

Fyrir mörgum árum spilaði ég stundum tölvuleikinn VGA-planets. Þetta er á margan hátt dæmigerður strategískur PBEM-leikur (played by E-mail) og mjög góður og spennandi. Helsti gallinn við hann var sá að það vildi fara of mikill tími í hann ef maður vandaði sig. Sú gerð sem ég er að tala um heitir VGA-planets 3 en í honum eru 11 leikmenn sem stýra ýmsum kynflokkum sem eiga í geimstríði. Jú, ég man að það var annar galli á leiknum. Það var bara hægt að smíða samtals 500 geimskip og hann hafði engan ákveðinn endapunkt.

VGA-planets 4 er líka til og hugsaður sem endurbót á hinum en er í raun allt annar leikur. Ástæða þess að ég er að minnast á þetta hér er sú að mig hefur alltaf langað til að spila þennan leik aftur. Auðvitað gæti ég einfaldlega farið á Netið og skráð mig til þáttöku í þessum leik. Dettur samt í hug að einhverjir sem þetta lesa séu sama sinnis og ég. Ef svo er væri vel hægt að koma því í kring að leikurinn yrði spilaður hér og að þátttakendur væru flestir eða allir Íslendingar. Einhver þarf að „hósta" leikinn eins og kallað er og sjá um rekstur hans. Á sínum tíma var leikurinn keyrður á DOS en það er áreiðanlega líka til Windows-útgáfa.

Eitt er það mál sem vel gæti fundist lausn á nú í kreppunni. Það er kvótamálið. Það er löngu vitað að mikill meirihluti landsmanna vill sjá verulegar breytingar á því en þeir sem með völdin fara hafa hingað til ekki þorað að gera neitt. LÍÚ gæti verið að missa það kverkatak sem það hefur haft á íslenskum stjórnmálamönnum. Kannski hafa þeir minni mútupeninga nú, ég veit það bara ekki.

Stjórnmál eru fremur leiðinlegt umræðuefni einkum vegna þess að umræðan fer sjaldan uppúr hjólfari talnaleikfimi og útúrsnúninga. Ef menn mundu öðru hvoru ræða um hugsjónir og annað sem nánast var bannað að ræða um á útrásartímanum þá mundi margt vera öðru vísi. Stjórnmálamenn tala að vísu stundum um þvíumlíkt en gallinn er sá að enginn trúir þeim.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband