1015 - Ritskoðun og gæsluvarðhöld

Á Yahoo.com var í gær eða í morgun skrifað um ritskoðun í Thailandi. Finn þá grein ekki núna og get því ekki linkað í hana. Greinilegt er að Internetið er að breyta pólitísku landslagi allsstaðar. Vefsetur hverskonar og vefmiðlar eru orðin mikilvægustu tæki stjórnarandstæðinga um allan heim til að koma upplýsingum á framfæri.

Margt er líkt með okkur Íslendingum og Thailendingum. Þeir eru samt ólíkt fleiri en við og hlutir sem þar gerast eru á mun stærri skala en hér á skerinu. Margt má samt af þeim læra. Það er fleira en Bandaríkin til í heiminum.

Allt nema gömlu sveitasímarnir og venjulegir heimasímar fóstra nýmóðins og dýrt skvaldur. Sumir verða svo háðir þessum fjára að þeir geta ekki án hans verið. Svo kemur reikningur sem alla ætlar að drepa.

En tölum um eitthvað skemmtilegra. Nú er vor í lofti og sólin skín. Gufustrókurinn frá Eyjafjallajökli rís hátt í loft upp en það er nú ekki endilega góðs viti fyrir alla. Vona samt að flug og þess háttar verði komið í lag næst þegar ég þarf á slíku að halda.

Ég er ekki enn farinn að átta mig almennilega á þessari blessaðri Fésbók. Mér finnst ég alltaf vera að skoða sömu myndirnar og lesa sömu greinarnar. Mikið er samt skrifað þar, ekki er vafi á því. Sumir skrifa samt lítið þó einhverjar upplýsingar séu um þá. Ætli ég sé ekki í þeim hópi.

Allt er að fara á hliðina útaf gæsluvarðhaldi tveggja manna. Mér finnst slíkt litlu máli skipta. Ef dómari fellst á það sem saksóknari heldur fram hef ég tilhneigingu til vera sama sinnis. Þetta eru varkárir menn og ekki líklegt að þeir geri eitthvað í fljótræði.

Auðvitað finnst sumum það hræðilegt að jakkalakkar séu settir í fangelsi. Við því var að búast og ástæðulaust að vera hissa á því. Óneitanlega fara mál samt að verða nokkuð athyglisverð úr þessu. Eins gott að fylgjast vel með fréttum næstu daga. Og þá á ég ekki bara við gosfréttir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sumir menn eru varkárir. Aðrir menn eru varir um sig. Enn aðrir iðka varaþjónustu og er sú allfrábrugðin varahlutaþjónustu. En réttlætið er ávallt skoðun meirihlutans. Það vita varkárir menn og sannar saga gömul af honum Pílatösi, eymingja  kallinum, eins og hann hét í munni gamals manns sem ég þekkti fyrrum og dauður er fyrir ævalöngu. Eins og Pílatös.

K.S. 9.5.2010 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband