1012 - Áframhaldandi Sæmundarháttur

Skrifa í bloggið mitt það sem mér dettur í hug. Geri ekki einu sinni ráð fyrir að öðrum líki það sem ég skrifa. Kannski sumt. Kannski ekkert. Í gær var það gömul klámvísa. Veit ekki hvað það verður í dag. Kannski sumir leggi það á sig að lesa bloggið mitt vegna þess að þeir viti varla á hverju þeir eiga von. 

Samt vonast ég til að flestallir skilji það sem ég skrifa. Lítill vandi að skrifa eitthvað sem engir skilja. Skáld og listamenn leitast við að skrifa það sem fáir skilja. Það hefur mér að minnsta kosti skilist. Þessvegna er augljóst að ég er hvorki skáld eða listamaður. Hvað er ég þá? Gamall og útslitinn ellilífeyrisþegi?

Mér finnst upphefð í því að sem allra flestir lesi þetta blogg mitt. Sumir ættingjar og venslamenn segjast aldrei lesa það. Ég er alltaf að reyna að ná til þeirra. Sem er mjög gott. Þá legg ég mig aðeins fram. Samt ekki með því að verða sem torskildastur. Endurminningar endast illa. Seinvirkt að ná til ættingja með þeim.

Fésbókin er að fara á kaf í skvaldri og einskisverðum upplýsingum. Finnst mér. Vegna þess að ég kann ekki að nota hana. Verð alltaf svo frustreraður þegar hönnunin á henni er ekki eins og mér finnst eðlilegast að hún sé og hætti þá bara og fer að gera eitthvað annað.

Til leiðbeiningar fyrir þá fáu sem ekki lesa bloggið mitt reglulega. Tvö helstu einkennin eru númerin á þeim og svo blogga ég á hverjum einasta degi ef ég mögulega get. Já og svo er það náttúrulega nafnið mitt. Einhverja alnafna á ég en sem betur fer blogga þeir ekki mér vitanlega.

Hafi maður ekki þeim mun meira að segja er um að gera að hafa bloggin bara stutt. Þá verða allir fegnir. Einkum þeir sem hafa gert sér það að reglu að lesa bloggin mín. Það tefur þá ekki óhóflega. Svona gæti ég sennilega haldið áfram endalaust. Það er að skrifa og skrifa án þess að segja nokkuð. Líkt og sumir stjórnmálamenn eru svo flinkir í.

Kosningaspá.
Held að Frjálsir Demókratar og Verkamannaflokkurinn myndi næstu stjórn í Bretlandi og Brown verði ekki forsætis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband