Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

149. blogg

Auðvitað veit ég afar lítið um bloggþol lesenda minna en ekki hefur verið mikið kvartað undan óhóflegri lengd bloggsins frá í gær.

Þetta er annars ágætis grein og á vel við núna, en þegar skrunað er yfir bloggin sem maður vill heimsækja þá er þessi grein nú í lengra lagi að mínu áliti.

Það er enginn efi á því að haustið er komið. Trén að mestu orðin lauflaus og farið að kólna í veðri. Oft hemað á pollum á morgnana og annað eftir því. Ég hef samt ekki ennþá þurft að skafa ísingu af bílrúðum á þessu hausti en í margra augum táknar það komu vetrar. Eftir gott sumar í sumar hef ég það á tilfinningunni að haustið hafi verið óvenju rigningasamt. Ekki veit ég þó hvort nákvæmnisrannsóknir styðja þessa tilfinningu mína því enginn er veðurdellukarl.

Miklar framkvæmdir eru hér í grennd við gatnamót Auðbrekku og Nýbýlavegar og út um gluggana má oft sjá alls kyns jarðvinnslutæki og vörubíla á ferð og flugi. Verst þykir mér hve umferðin hér um Auðbrekkuna hefur aukist gríðarlega og svo líka að svæðið skuli ekki vera almennilega upplýst. Götuljósin við Nýbýlaveginn voru bara fjarlægð langleiðina upp að Laufbrekku. (Það er að segja götunni upp að 10 - 11 frá Nýbýlaveginum) Mér finnst nú lágmarkið að menn flýti sér, svo hægt sé að setja götuljósin upp aftur, en það er ekki að sjá að þeir geri það. Vona bara að breytingarnar takist vel.

Húsið sem ég bý í hér við Auðbrekkuna er svo hundgamalt að hér í tölvuherberginu sem alls ekki er stórt og er úti í horni á eftir hæðinni eru gluggar bæði á vestur- og suðurvegg. Auðvitað er ekki dónalegt að hafa glugga í tvær áttir þó útsýnið úr þeim sé ekkert sérstakt (Toyota og aftur Toyota og fátt annað) Gallinn er hins vegar sá að erfitt er að koma tölvuskarninu fyrir nema við glugga. Það þýðir síðan að þegar sólin er lágt á lofti skín hún beint framan í mig þannig að ég á í vandræðum með að sjá hvað um er að vera á skjánum.

Til að ráða bót á þessu keyptum við rúllugardínu úr einhverskonar þykku flugnanetsefni í Rúmfatalagernum fyrir nokkru síðan. Síðan gerðist votviðarasamt svo þörfin fyrir þetta gardínudjásn varð lítil. Þegar sólin lét síðan sjá sig um daginn fannst rúllugardínan ekki fyrr en eftir ítarlega og margendurtekna leit um allt húsið. Nú er þetta fínirí komið upp or reynist sæmilega.

Blogg eru svo fjölbreytt að allir hljóta að finna eitthvað við sitt hæfi. Ég held líka að blogglesendum sé alltaf að fjölga. Enn þykir þó svolítið niðurlægjandi að viðurkenna að maður lesi blogg. Sjálfur les ég alltaf það sem bloggvinir mínir skrifa á sín blogg, en verð að viðurkenna að þeir eru misskemmtilegir. Önnur blogg les ég líka talsvert oft og satt að segja Moggablogg frekar en önnur einkum vegna þess að það er svo þægilegt og auðvelt eftir að maður er kominn upp á lag með það. Það eru ekki sérlega mörg blogg utan Moggabloggsins sem ég les reglulega. Slík blogg eru þó til.

Sigurður Þór Guðjónsson stingur upp á því á sínu bloggi, í tilefni kirkjuþings, að kirkjan verði háeffuð. Þetta er ljómandi hugmynd hjá Sigurði en þó er hætt við að sumum þætti gerast þröngt fyrir sínum durum þegar farið yrði að selja inn á guðsþjónustur í kirkjum landsins. Einnig gæti kostnaður við útfarir rokið upp úr öllu valdi.


148. blogg

Þættinum hefur borist bréf.

(Svona var til siðs að taka til orða í tómstundaþættinum í gamla daga.)

Það er Lára Hanna Einarsdóttir fyrrum vinnufélagi minn og yfirþýðandi á Stöð 2 sem skrifar:

Komið þið sæl,

Þetta er ójafn leikur, ég játa það. Fæst ykkar þekkja mig (nokkur þó), en ég þekki ykkur öll því ég les bloggið ykkar og athugsemdir. Sjálf  blogga ég ekki... ennþá.

Ég les reyndar miklu fleiri blogg, en ekki eru allir með netfang á bloggsíðum sínum. (Vill einhver senda póstinn áfram til t.d. Jónu Á. Gísladóttur, ég finn ekki netfangið hennar.)

Mér datt í hug að senda kunnum og ókunnugum bloggurum þennan póst, auk allra minna vina og vandamanna, til að "breiða út fagnaðarerindið um íslenska tungu", ef svo má að orði komast, og viðhalda umræðunni. Bloggið er öflugt tæki til slíkra hluta.

Undanfarnar vikur, í tengslum við umfjöllunina um tvítyngi í stjórnsýslu, enskunotkun í bönkum, kennslu á erlendum tungumálum í skólum og það allt saman, hefur mér hvað eftir annað orðið hugsað til greinar sem ég las fyrir mörgum árum í hinu ágæta tímariti Íslenskrar málnefndar, Málfregnum (19:2000), sem ég er áskrifandi að  sem unnandi íslenskrar tungu og þeirra menningarverðmæta sem í henni felast.

Grein þessi var unnin upp úr fyrirlestri sem dr. Matthew Whelpton, dósent við Háskóla Íslands,  flutti á ráðstefnu um íslensku sem annað tungumál. Margt hefur breyst síðan greinin birtist.  Til dæmis þekktist ekki þá að afgreiðslufólk á veitingastöðum, kaffihúsum og í verslunum kynni ekki orð í íslensku, en þó er flest í henni ennþá í fullu gildi.

Til að gera langa sögu stutta snerti greinin mig svo mjög, að ég sendi Matthew tölvupóst,  þakkaði fyrir mig og bað um hana á ensku til að geta sýnt þeim útlendingum í fjölskyldu minni  sem ekki töluðu íslensku, hvers konar virðingu þetta merkilega tungumál verðskuldaði. Hann fjallar einnig um þau vandræði sem útlendingar rata í þegar þeir reyna að tala málið.

Matthew átti greinina ekki í sinni endanlegu mynd á ensku, en lofaði að snara henni ef tími gæfist til.  Ég reyndi aftur seinna, þegar ég varð vör við í starfi mínu sem leiðsögumaður erlendra ferðamanna, hve mikinn áhuga þeir hafa á tungumálinu,  hlutverki þess í íslensku samfélagi og hvernig málinu hefur verið haldið við í aldanna rás. Því miður er hann ekki búinn að snara henni ennþá svo ég viti.

Snemma árs 2004 fékk ég leyfi hjá Matthew til að ljósrita greinina og dreifa henni meðal erlendra samnemenda minna í Leiðsöguskóla Íslands sem allir töluðu mjög góða íslensku.

Ég leitaði að greininni á netinu, fann hana og afritaði yfir á Word-skjal. Hún fylgir hér með í viðhengi.   Tilfinningarnar sem komu upp þegar ég las hana fyrst koma enn upp nú, mörgum árum seinna.

Lesið greinina og dæmið sjálf. Sendið hana áfram. Bloggið um hana.

Ég hef sent Matthew póst og skorað á hann að birta greinina í blöðum, því hún á jafnvel enn meira erindi við okkur nú en þegar hún var skrifuð þótt aðeins séu liðin sjö eða átta ár síðan.

Bestu kveðjur og þakkir með von um góðar undirtektir,

Lára Hanna

 

Lára Hanna segir ekkert um það hvort ég megi birta greinina í heild á blogginu mínu, en ég er að hugsa um það gera það. Greinin er hrikalega löng miðað við það sem venjulega birtist hér og ef menn hafa lítinn áhuga er langbest að hætta hér. Meira verður ekki bloggað í dag og hef ég þó í rauninni ekki bloggað neitt.

 

MATTHEW WHELPTON

Að tala íslensku, að vera íslenskur:

mál og sjálfsmynd frá sjónarhóli útlendings

Ég vil byrja á að segja hve ánægður ég er að hafa verið beðinn um að koma fram með mitt sjónarmið á íslensku sem annað mál . Eins og þið heyrið er íslenska ekki móðurmál mitt og ég á enn langt í land með að tala málið reiprennandi. Samt sem áður vona ég að þið skiljið öll það sem ég hef fram að færa. Ég vildi nota tækifærið og þakka Sveini Haraldssyni, Höskuldi Þráinssyni og Sigurði Jónasi Eysteinssyni fyrir hjálpina við að undirbúa hina íslensku útgáfu á fyrirlestrinum. Titill fyrirlestrarins er Að tala íslensku, að vera íslenskur: mál og sjálfsmynd frá sjónarhóli útlendings. Fyrri hluta hans er kastað fram sem umhugsunarefni frekar en sem staðhæfingu. Það er vel kunnugt meðal félagsmálvísindamanna að tungumálið er mikilvægt tæki til að byggja upp og túlka sjálfsmynd þjóðfélags og ímynd einstaklingsins innan þess þjóðfélags.  Íslenska er mjög vel fallin til að rekja þræði milli tungumáls og sjálfsmyndar þjóðarinnar, sérstaklega þegar litið er til hinnar aldagömlu bókmenntahefðar, íhaldssemi tungunnar og tiltölulega mikillar sögulegrar einangrunar íbúanna. Markmiðið með þessum fyrirlestri er ekki að fjalla um þetta viðfangsefni í sjálfu sér þar sem ég geri mér ljóst að þar sem ég hef aðeins búið hér á landi í fimm ár er ég ekki hæfur til að gefa öðrum viðstöddum innsýn í málið. Það sem ég vildi aftur á móti gera er að skoða hvernig útlendingur á Íslandi, sem leggur stund á tungumálið, upplifir tungumálið á heimaslóðum þess og að benda á sum þeirra vandamála sem ég hef tekist á við þegar ég hef reynt að læra tungumálið í þessu samhengi. Það sem ég ætla að segja er ætlað sem óformlegt og persónulegt sjónarhorn á þessar aðstæður sem ég vona að ykkur, sem berið ábyrgð á því hvernig íslenskukennsla er skipulögð og þróuð, muni finnast áhugavert.

Niðurstaða mín, hvað fyrsta hluta titilsins áhrærir, mun verða sú að þó það að tala íslensku sé ekki aðferð til að vera íslenskur sé það samt sem áður aðferð til að heyra til íslensks samfélags á miklu persónulegri hátt en það að tala ensku gefur færi á í bresku samfélagi. Þar sem enska er notuð í alþjóðasamskiptum merkir það að tala ensku ekki það að tilheyra bresku samfélagi; hvað Englending áhrærir mun málnotkun hans marka honum sess í einhverjum ákveðnum félagslegum og svæðisbundnum bás.  Eins og George Bernhard Shaw sagði einu sinni að hvenær sem Englendingur opnar munninn muni annar Englendingur hata hann. Þessu er öfugt farið með íslensku. Þó að ég geti ekki stuðst við neinar vísindalegar rannsóknir vil ég samt segja ykkur tvær sögur til að renna stoðum undir mál mitt.

Þegar ég kom í fyrsta skipti til Íslands gekk ég í átt að vegabréfaskoðuninni og tók eftir skilti þar sem stóð Welcome to Iceland. En fallega gert, hugsaði ég og braut ekki heilann meira um þetta. Í annað eða þriðja skiptið sem ég kom til landsins kom ég auga á íslensku útgáfuna af þessu skilti en þar stendur ekki Velkomin til Íslands heldur Velkomin heim. Þetta er fallegt og einfalt dæmi um tengslin milli íslensks tungumáls og íslensks samfélags. Íslenska útgáfan gerir ráð fyrir að allir sem tali íslensku séu Íslendingar eða, til að sýna meiri sanngirni og nákvæmni, að hver sá sem tali íslensku kalli Ísland heimili sitt. Þó að ég sé sjálfur ekki Íslendingur og muni aldrei verða það þá hlýnar mér enn um hjartarætur þegar ég stíg frá borði í Keflavík og sé margumtalað skilti, Velkomin heim. En í rauninni er Ísland heimili mitt. Þetta skilti myndi aldrei virka í Englandi þar þætti það fáránlegt. Og að mínu mati eru fá önnur tungumál í heiminum þar sem skilti með áletrun sem þessari virkar eins blátt áfram.

Gott dæmi um hvernig íslenska gefur til kynna að einstaklingur tilheyri samfélaginu er þegar ég flaug heim til Íslands frá Kaupmannhöfn í flugi þar sem fyrir tilviljun virtust næstum engir útlendingar vera um borð. Þegar flugfreyjan kom til mín kom hún fram við mig af vinalegri kurteisi eins og ég hefði mátt búast við í flugi hjá bresku flugfélagi. Síðan pantaði ég drykki og bar fram fyrirspurnir á íslensku. Eftir því sem lengra leið á flugið varð andrúmsloftið í flugvélinni léttara og óformlegra.  Það var eins og að stórfjölskyldan væri að koma heim úr sumarfríi - allir glaðir og reifir. Flugfreyjan hætti að gera greinarmun á hvernig hún kom fram við mig og hina farþegana. Þegar nær dró því að við lentum á Íslandi var flugfreyjan að hella kóki úr dós í glas fyrir mig þegar við urðum fyrir ókyrrð í lofti og hún hellti óvart gosdrykknum í kjöltu mér. Ef þetta hefði gerst hjá bresku flugfélagi hefði flugfreyjan verið eyðilögð og mjög afsakandi og ef ég hefði verið mjög breskur sjálfur hefði ég verið mjög pirraður. Við þessar aðstæður, aftur á móti, áður en ég gat komið upp nokkru orði, sletti hún fram einu Æ, fyrirgefðu, greip servéttu, þurrkaði lauslega af mér eins og elskuleg frænka á ættarmóti og sagði: Svona, er þetta ekki í lagi? og ég brosti bara á móti og sagði: Já, já, ekkert mál. Þar sem ég talaði íslensku varð ég að haga mér eins og Íslendingur.

Ég vona að þessi tvö dæmi lýsi á einhvern hátt hvernig íslensk tunga myndar ákveðin tengsl sem binda íslenskt samfélag saman. Og þrátt fyrir að mörgum finnist þessum tengslum vera ógnað þá er ég sannfærður um að þau eru mjög sterk.

Þegar fólk veltir fyrir sér styrkleika tungumáls sjá flestir fyrir sér einhvers konar fjöldamælikvarða - og með íbúatölu upp á um tvö hundruð og áttatíu þúsund hefur íslenska samkvæmt þessum mælikvarða mjög veika stöðu.  Félagsmálvísindamenn hafa hins vegar bent á að styrkleiki tungumáls sé ekki fyrst og fremst tengdur fjölda þeirra sem tala tungumálið heldur á hve fjölbreyttan hátt það er notað og í hve ríkum mæli þeir sem tala málið kjósa að nota það frekar en eitthvert annað mál við hinar ýmsu aðstæður. Sem dæmi um slíkar aðstæður má spyrja að því hvort málið sé notað af stjórnvöldum, í stjórnsýslu, á ýmsum dómstigum, í grunnskóla, í framhaldsskóla, í námi á háskólastigi, í viðskiptum, í fjölmiðlum, milli vina og til að tjá sig við fjölskyldumeðlimi. Er einhver annar kostur í boði? Er hægt að þvinga fólk til að velja eitt tungumál fremur en annað? Ef tekið er dæmi af gelísku í Írlandi þá eru niðurstöðurnar dapurlegar. Það er hægt að nota tungumálið opinberlega en það er að stórum hluta táknrænt, þegar það er ekki táknrænt þá er það notað af örlitlum minnihluta og enska er alltaf í boði sem annar kostur. Staða velsku er mun sterkari. Hún er töluð af um fimmtán til tuttugu prósentum íbúanna þó að flestir séu tvítyngdir og tali enn fremur ensku. Hún er opinberlega í boði á öllum stigum þó að raunin sé önnur og það geti verið erfitt að notfæra sér velsku í stjórnsýslunni og það er félagsleg pressa gegn því að nota hana á mörgum svæðum innan Wales. Hún er eingöngu í boði á einni sjónvarpsstöð og hún er notuð til boðskipta milli vina og fjölskyldumeðlima þar sem hún er mest töluð, í dreifbýlinu norðan og vestan til í Wales. Enska er enn þá það tungumál sem notað er félagslega til að koma sér áfram.

Berum þessar aðstæður saman við stöðu íslenskunnar. Íslenska er skilyrðislaust notuð af stjórnvöldum, dómstólum og grunn- og framhaldsskólum. Og á háskólastigi er hún í flestum tilfellum notuð eingöngu þó að heyrist raddir um að nota beri ensku vegna stúdenta af erlendum uppruna. Í viðskiptum er íslenska notuð nema ef skipt er við útlendinga, á fjórum sjónvarpsstöðum er allt efni kynnt á íslensku eða þýtt á tungumálið þó að nálgast megi sjónvarpsefni á ensku auðveldlega í gegnum gervihnött. Og íslenska er alltaf valin við að tjá sig við fjölskyldu og vini. Það er staðreynd að mjög margir Íslendingar eru tvítyngdir á ensku og íslensku, auk annarra tungumála, og ég mun minnast aftur á þetta atriði síðar en að minni hyggju er íslenska valin fram yfir ensku í öllum tilfellum þar sem tveir Íslendingar eiga samskipti. Þetta er mjög áberandi í samhengi þar sem ætla mætti að menn breyttu yfir í ensku ef íslenskt tungumál ætti á brattann að sækja. Til dæmis talar tengdafólk mitt allt ensku mjög vel og því finnst sjálfsagt að tala ensku við mig ef nauðsyn ber til. En það fer aldrei á milli mála að íslenskan er grunnmálið, jafnvel í svo litlum hópi þegar ég er viðstaddur. Mestur hluti samræðnanna fer fram á íslensku nema ef þau beina máli sínu sérstaklega til mín og frá byrjun var það ljóst að þau voru mjög áfram um að ég lærði íslensku. Viðbrögðin frá tengdafólkinu við því að ég gat farið að taka þátt í samræðum á íslensku, jafnvel á því stigi sem íslenskukunnátta mín er í dag, hafa einkennst af hlýju og þakklæti. Viðbrögðin í háskólasamfélaginu eru jafnvel enn meira sláandi. Ég stjórna vikulegum umræðuhópi málvísindamanna. Næstum allir í hópnum tala ensku vel og skrifa greinar á því tungumáli. En það er mjög óalgengt, nema að útlenskur gestur sé viðstaddur, að umræðurnar fari fram á ensku. Þó að ég skilji fræðileg umfjöllunarefni betur á ensku en íslensku er íslenskan það tjáskiptaform sem kemur eðlilega upp eins og ætti að vera við aðstæður þar sem íslenskan skipar traustan sess í samfélaginu.

Styrkleiki íslenskunnar er raunar eitt af fyrstu atriðunum sem ég tók eftir í sambandi við tungumálið, löngu áður en ég kom fyrst til landsins. Ég umgekkst mjög fjölþjóðlegan hóp í Oxford, þar á meðal Íslendinga. Mjög algeng samsetning á móðurmáli þátttakenda í t.d. sjö manna hópi gæti verið enska, þýska, íslenska, urdu og hindi. Þar sem hópurinn var staddur í Oxford og enska er alþjóðlegt tungumál var það mál notað til tjáskipta. En það var athyglisvert að fylgjast með því að þó að þeir væru innan hópsins notuðu þeir sem áttu t.d. urdu eða þýsku að móðurmáli ensku til að tala sín á milli, jafnvel þó að umræðuefnið væri utan þess sem hópurinn var að ræða um.  Íslendingar töluðu aftur á móti oft saman á íslensku á tveggja manna tali. Hér á ég ekki við að þeir vildu halda því sem þeir sögðu leyndu frá hinum í hópnum og ég held að þeir hafi ekki verið sér meðvitandi um að þeir forðuðust að nota ensku. Ástæðan var einfaldlega sú að þeim fannst eðlilegra að nota íslensku við að tjá sig við annan Íslending. Þessi tilhneiging er ríkari meðal Íslendinga sem ég umgekkst en hjá fólki af öðru þjóðerni.

Íslenska sem tungumál myndar sterk tengsl sem binda íslenskt samfélag saman. Það sem ég hef áhuga á er hvernig þetta hefur áhrif á hvernig útlendingur lærir íslensku á Íslandi. Ég held að á kaldhæðinn og alls ómeðvitaðan hátt sé þetta uppspretta fjölda vandamála sem útlendingur, sem lærir íslensku, verður að horfast í augu við. Í fyrri hluta erindisins hélt ég því fram að það væri sterk tilhneiging meðal Íslendinga til að nota íslensku hvenær sem færi gæfist. Í beinni mótsögn við þessa staðhæfingu er notkun ensku í verslunum í Reykjavík. Það er algengt umkvörtunarefni meðal erlendra gesta sem eru að læra íslensku, og ég hef upplifað þetta í fjöldamörg skipti sjálfur, að þegar maður fer inn í búð og reynir að nota íslensku til að kaupa eitthvað skiptir starfsfólkið umsvifalaust yfir í ensku. Ég hef jafnvel talað íslensku við starfsfólk í verslun og haldið áfram að tala íslensku allan tímann en mér var alltaf svarað á ensku. Það mætti ætla að þetta sýndi fram á styrka stöðu ensku á Íslandi en mér finnst að þetta sýni fram á athyglisverða hluti í sambandi við stöðu íslenskunnar sem máls samfélagsins. Alveg eins og tveir Íslendingar í Oxford nota íslensku í samskiptum hver við annan án þess að hugsa, vegna þess að íslenska er það mál sem Íslendingar nota innan síns samfélags, notar Íslendingur sem talar við útlending á Íslandi á sama hátt ekki íslensku vegna þess að útlendingurinn tilheyrir ekki samfélaginu, í stað þess er enska valin til samskipta við aðila utan samfélagsins. Þegar ég tala við tengdafólk mitt eða samstarfsmenn í háskólanum þá vita þeir að ég bý hér og að ég er meðlimur í samfélaginu þar af leiðir að þeir vilja umfram allt að ég læri íslensku. Starfsmaður í verslun, sem hefur samskipti við útlendinga á degi hverjum, sér mig ekki í þessu ljósi. Ég er utan samfélagsins svo að ákveðið er að nota ensku. Ég get í þessu sambandi nefnt dæmi um þýskan nemanda hjá mér sem kvartaði yfir því að íslenskir vinir hans skiptu yfir í ensku þegar þeir töluðu við hann þó að enskukunnátta hans væri minni en kunnátta hans í íslensku. Íslendingar virðast fylgja einfaldri reglu:  íslenska innan samfélagsins, enska utan þess. Þessar aðstæður líkjast því sem félagsmálvísindamenn kalla tvískipt málsamfélag, þegar tvö tungumál eru notuð innan sama samfélags en hvort um sig er notað í ákveðnum tilgangi. Munurinn er sá að í raunverulegu dæmi um tvískipt málsamfélag, sem fyrirfinnst til dæmis víða í arabalöndum, er vandað, sígilt mál notað af dómstólum og í stjórnsýslu en mállýskukennt daglegt mál notað innan heimilanna og í lágmenningarbókmenntum.  Íslenska útgáfan er samfélagstengd eitt tungumál innan þess og annað utan þess.

Vandamálið er ekki sterk staða íslenskunnar (sem vonandi mun haldast um aldur og ævi) heldur að styrkurinn hefur verið notaður fyrst og fremst til að treysta innviði málsamfélagsins. Það þarf að nota íslensku í öðru samhengi, við fleiri tækifæri, ekki færri - þetta þýðir að hverfa frá því að álíta íslenskuna vera fjársjóð sem þarf að standa vörð um og til þess að líta á hana sem nægtabrunn sem hægt verði að deila með öðrum. Ef viðhorfið verður að íslenska sé eitthvað eftirsóknarvert sem einhver utan samfélagsins vill leggja stund á (hvaða undarlegu ástæður sem hann hefur fyrir því) þá verður það að notast við íslensku í tjáskiptum við útlending, sem hefur af fúsum og frjálsum vilja ákveðið að nota hana, aðferð til að hvetja til fjölbreyttari nota tungumálsins. Þetta þýðir að sjálfsögðu að íslenska mun með tímanum hætta að vera einkaeign þeirra sem álíta Ísland heimili sitt. Hugmyndinni um íslensku sem nægtabrunn fylgja tvenns konar vandamál sem tengjast því sem áður sagði um sjálfsmynd Íslendinga.

Öðru vandamálinu tæpti ég á þegar ég sagði að útlendingar vildu læra íslensku, hvað sem vekti fyrir þeim. Staðreyndin er sú að flestir Íslendingar, sem ég hef talað við, eru furðu lostnir að útlendingar skuli vilja læra tungumálið. Að vera giftur Íslendingi eða að vera með háskólagráðu í germönskum fræðum gerir þetta auðskiljanlegra en það er undarleg andstaða við þá hugmynd að nokkur utan samfélagsins vilji læra tungumálið. Ástæðan fyrir þessu virðist eiga rætur sínar að rekja til tilfinningarinnar sem fær Íslendinga, þeim sjálfum til mikillar skemmtunar, til að spyrja útlendinga fyrst (og svo aftur og aftur) „How do you like Iceland?"  Íslendingum finnst (að mínu mati réttilega) að þeir búi á mjög sérstökum stað en þeim virðist líka finnast að enginn annar kunni að meta þessa sérstöðu. Þetta lýsir miklu óöryggi í bland við þjóðarstoltið. Og frá mínum bæjardyrum séð er þetta miður því það er meðal annars þetta sem kemur í veg fyrir að Íslendingar kynni tungumál sitt þeim sem utan samfélagsins standa. Það er virkilega til fólk einhvers staðar úti í heimi sem vill koma hingað og læra íslensku, ekki bara fræðimenn í hinum germönsku málum eða fólk sem stundar rannsóknir í nútímamálvísindum allt frá MIT í Cambridge, Massachusetts, til Japans sem hefur heyrt Höskuldar Þráinssonar getið, heldur alls kyns fólk sem hefur áhuga á sögu og menningu norrænna manna. Auk þess er fólk hér á landi sem vill læra tungumálið af margs konar ástæðum, ekki bara fólk sem gifst hefur Íslendingum eða gestakennarar (þó að þeir séu fjölmargir), heldur erlent vinnuafl, sérfræðingar, læknar, trúboðar og svo framvegis. Þó að íslenska sé fjöregg Íslendinga þá eru fjöldamargir sem hafa áhuga á að læra tungumálið og það er ekkert undarlegt við það.

Hitt vandamálið er sú skoðun að íslenska sé eins skrýtin og framandi, eins hrjúf og erfið og landið sem hún er töluð í. Þetta má til sanns vegar færa. Ein margra ástæðna fyrir því að mig langaði að flytja til og búa á Íslandi var að íslenska er eins hrífandi og raun ber vitni frá málvísindalegu sjónarmiði, sérstaklega ef hún er borin saman við ensku og þýsku. Hún býr yfir fjársjóðum eins og: langdrægum afturbeygðum fornöfnum, kjarnafærslu með sögn í öðru sæti, leppsetningum með áhrifssögnum, auk fjölmargra annarra. Hún er einnig erfitt tungumál að læra hvað það varðar að hún er þvílíkt beygingamál að það að læra eitt orð úr orðabókinni þýðir í raun að læra fjölmargar orðmyndir og vita í hvaða sambandi á að nota þær. Ég skil vel þessa skoðun á íslensku sem erfiðu og skrýtnu tungumáli eins og fyrstu kynni mín af málinu sýna. Ég hafði lagt stund á námskeið um hin ýmsu, mismunandi hljóð sem notuð eru í tungumálum heimsins í nokkrar vikur og við vorum loksins komin að undarlegustu og fágætustu hljóðunum. Eitt þeirra var óraddað nefhljóð sem var virkilega furðulegt hljóð. Hópurinn, sem ég var í, kvartaði yfir því að verða að æfa hljóð sem sennilega væri aðeins notað af einum ættbálki á miðju Amasón-svæðinu.  En vinkona mín ein sagði skyndilega: Nei, nei, ég þekki mann sem er með óraddað nefhljóð í nafninu sínu og hann er Evrópubúi. Hann heitir Sveinn. Við eyddum næstu tuttugu mínútum í að reyna eftir bestu getu að bera fram þetta undarlega nafn. Þegar Íslendingar segja að tungumál þeirra sé eins óvenjulegt og jöklar á eldfjöllum og eins aðgengilegt og apalhraunbreiðurnar í nánd við Keflavík verð ég innst inni að vera sammála þeim. En staðreynd málsins er að íslenska er engu erfiðari fyrir útlendinga að læra en mörg önnur tungumál. Í raun er engu erfiðara fyrir Englending að læra íslensku en þýsku. Engum finnst skrýtið að Þjóðverjar breiði út tungumál sitt og menningu og á sama hátt er ekkert sem stendur í vegi fyrir að kenna öðrum íslensku.

Ég veit að íslenskukennsla fyrir útlendinga er vel skipulögð og hefur verið stunduð um árabil en ég vil koma með nokkur dæmi sem ég byggi á eigin reynslu. Ég flutti til Íslands í ágúst 1995 og hafði nýlokið doktorsritgerð minni við Oxfordháskóla.  Ég bjóst við því að ég yrði að læra íslensku til að geta uppfyllt skyldur mínar við háskólakennsluna og ég ætlaði mér að gera það sem fyrst. Ég gerði ráð fyrir að boðið yrði upp á námskeið í íslensku fyrir erlenda kennara við háskólann. Sú var ekki raunin. Mér var í fyrstu bent á B.Ph.Isl.-námið í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þetta er mjög gott þriggja ára námskeið á háskólastigi og þangað hafa sótt erlendir gestir með mismunandi þarfir og bakgrunn. Vandamálið er að þessi námskeið eru ætluð fólki sem er að hefja háskólanám og eru skipulögð með þarfir þess í huga, þar á meðal kennslu í bókmenntum og bókmenntagreiningu, formlegri málfræði og svo framvegis.  Þar sem ég var að hefja störf sem lektor í háskólanum og hafði nýlokið háskólanámi ætlaði ég mér ekki að hefja nýtt nám og stefna á nýja gráðu á meðan ég reyndi að sinna kennslunni, rannsóknum og stjórnun, sérstaklega vegna þess að námskeiðin, sem ég kenndi, bar upp á sama tíma og íslenska fyrir erlenda stúdenta var kennd á. Ég hefði getað reynt að velja mikilvægustu námskeiðin og skotið þeim inn á milli fyrirlestra minna en það er erfitt að byggja upp eigin námskrá þegar maður er nýfluttur til ókunnugs lands og hefur nýlega hafið störf. Þrátt fyrir að námskeið í Endurmenntunarstofnun Háskólans kæmi til móts við sumar þarfir mínar þá var það ekki hannað sérstaklega fyrir erlenda kennara og fræðimenn við háskólann. Hvað var það þá í raun sem ég var að sækjast eftir?

Hvað mig varðar sérstaklega voru þarfir mínar bæði af praktískum toga og mjög sértækar. Ég vildi bæði mjög einfaldan hlut og svo mjög erfiðan. Annars vegar vildi ég ná nokkurri leikni í talaðri íslensku og ná valdi á orðaforða og málfræði til að geta tekist á við ákveðnar daglegar aðstæður: til dæmis að kaupa inn matvæli, borga mig inn í sundlaugarnar, fara í bankann og svo framvegis. Í hverju þessara tilvika vildi ég læra daglegt mál. Til dæmis, ef ég kaupi brauð í Englandi segi ég Can I have some bread? sem er spurning en í Frakklandi segi ég Je prens une baguette, ég tek brauð, sem er setning sem þætti dónaleg í flestu samhengi í Englandi. Það tók mig langan tíma að komast að því að á Íslandi setti maður einfaldlega Ég ætla að fá...  á undan öllu sem mann langaði að kaupa en ekki Má ég fá...  Inn í þessi fyrir fram ákveðnu skemu má setja mikilvægan orðaforða og í raun er málfræðin aukaatriði hér þar sem ég hefði verið hæstánægður með að læra heldur nöfnin á matvælum í þolfalli, sem andlag við sögnina , en í nefnifalli.

Hins vegar var það sem mig vantaði líka mjög sértækur en mun flóknari hlutur. Ég varð að læra íslensku til að eiga samskipti innan stjórnkerfis háskólans.  Sem dæmi má nefna að mig vantaði þýðingu á setningum og orðaforða sem kom upp aftur og aftur í tilkynningum og fundargerðum í sambandi við skorarfundi og deildarfundi, til dæmis:

deildarfundur verður haldinn

að vera vinsamlegast beðnir að

dagskrá

umsókn

álitsgerð dómnefndar

stöðunefnd

fleira gerðist ekki

...og svo framvegis

Þarna er um að ræða þýðingaræfingar þar sem allur orðaforðinn er gefinn. Eins ómögulegt og þetta virðist í fyrstu fyrir byrjanda þá er þetta í raun mjög raunhæf aðferð til að öðlast ákveðna kunnáttu í málinu og að læra orðaforða og einfaldar setningar. Þegar ég hóf nám í fornensku var okkur fyrst sýnd málsgrein úr bréfi eftir Ælfric munk og sagt að þýða hana jafnvel þó að fæst okkar hefðu séð eitt einasta orð í fornensku fyrr. Þar sem fletta mátti hverju orði upp aftast í bókinni með tilvísun í málfræðina gátum við leyst þýðinguna af hendi og innan mánaðar vorum við farin að þróa með okkur leikni í að lesa texta á málinu sem ég hafði ekki búist við að kæmi fyrr en að þriggja til fjögurra mánaða námi loknu. Það sem ég er í raun að leggja til hér er að boðið yrði upp á kennslu í íslensku sem væri sambærileg við það sem kallað er á ensku English for Special Purposes (sérhæfð íslenska). Til að vísa til skilgreiningar sem notuð hefur verið innan háskólans væri hægt að kalla þessi námskeið: Hagnýt íslenska fyrir útlendinga. Það sem gerði þessi námskeið frábrugðin íslensku fyrir erlenda stúdenta væri að þau yrðu ekki ætluð sem skipulagt nám sem endaði með háskólagráðu. Fyrir slík námskeið mætti semja einfalda kennslubók sem skipt yrði upp í nokkra tugi stuttra kafla sem hver um sig fjallaði um hvernig bera eigi sig að við ákveðnar aðstæður. Hún gæti gagnast útlendingum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í íslensku samfélagi, vel. Til dæmis væri einn kafli um að fara til læknis, annar um bankann, skattinn, að fara í sund, kaupa inn matvörur, fara á kaffihús og svo framvegis. Bók sem þessi kenndi fólki bæði á íslenskt samfélag um leið og hún kenndi því íslensku til að nota við fyrir fram ákveðnar aðstæður. Ekkert er því til fyrirstöðu, ef bókin er nógu einföld og skýrt fram sett, að þýða hana á króatísku, pólsku, ensku, taílensku, tagalog eða önnur af þeim fjölmörgu málum sem innflytjendur til landsins tala og afhenda þeim eintak við hæfi við komuna.

Ein ástæðan fyrir þessu erindi er að færa rök fyrir því að gefa ætti kost á námskeiðum sem ætluð væru útlendingum sem búa og vinna á Íslandi. Íslendingar skilja að erlendir námsmenn og fræðimenn hafi áhuga á tungumáli þeirra og treysta þeim til að yfirstíga þau vandamál sem kunna að koma upp í náminu. En ég hef á tilfinningunni að þeir dragi í efa að nokkur vilji læra hið daglega mál til að geta tekið þátt í samfélaginu. Ég vona að þetta erindi gefi nokkra innsýn í af hverju þetta er raunin og færi nokkur rök fyrir því að hægt sé að líta á íslensku sem nægtabrunn sem hægt er að ausa úr handa útlendingum til að uppfylla sínar daglegu þarfir.


147. blogg

Horfði í gærkvöldi á bókaþáttinn hjá Agli Helgasyni og heldur þykir mér hann vera farinn að þynnast.

Ég hef aldrei verið sérlega snokinn fyrir Matthíasi Johannessen og ekki fannst mér hann bæta við sig í þessum þætti. Svo vantaði Pál Baldvin Baldvinsson líka í þáttinn.

Í undanförnum þáttum hefur verið fjallað um fólk sem ég kannaðist dálítið við. Jónas Svavár minnir mig að ég hafi skrifað eitthvað um hér á blogginu fyrir allnokkru. Gott ef ég skrifaði ekki upp eftir minni sama kvæðið eftir hann og farið var með í þættinum.

Torfhildi Hólm las ég talsvert á sínum tíma. Einkum er mér minnisstæð saga hennar um Brynjólf biskup. Einhvern tíma tók ég þátt í sagnfræðilegri spurningakeppni og þar máttu þátttakendur velja sér aldir úr Íslandssögunni. Þá var ég nýbúinn að lesa sögu Torfhildar um Brynjólf og vissi auðvitað að Hallgrímur Pétursson og fleiri andans menn voru samtíðarmenn hans og voru uppi á 17. öldinni. Ég valdi hana því og kom sjálfum mér á óvart með því að standa mig ótrúlega vel í keppninni. Kannski veit ég meira um 17. öldina en margar aðrar í Íslandssögunni. 

Einhvern tíma keypti ég af rælni tímarit sem nefnt var „Óregla". Mig minnir fastlega að ritstjóri og ábyrgðarmaður þess hafi verið Steinar Sigurjónsson. Að minnsta kosti voru þarna greinar eftir hann og ef ég man rétt kafli úr óútkominni bók hans „Blandað í svartan dauðann".

Það var séra Rögnvaldur á Staðastað sem hélt upp á afmælið sitt einhvern tíma á þeim árum sem ég var á Vegamótum og bauð meðal annars upp á brennivín sem drekka átti úr skel. Það var gert til að gestirnir gætu með sanni sagt að þeir hafi þurft að lepja dauðann úr skel í veislunni.

Kannski var það mest vegna þess að ekki var fjallað lengur um höfunda og skáld sem ég veit deili á sem mér fannst þátturinn hjá Agli Helgasyni í þynnra lagi í gærkvöldi. Þó var minnst á Ingimund fiðlu sem er enn einn snillingurinn sem ég man eftir að hafa heyrt getið. Ég held reyndar að hann hafi verið tónlistarsnillingur, en það svið er mér meira og minna lokuð bók, því miður.

Mig minnir að það hafi verið Gíslína í Dal sem sagði frá því á blogginu sínu að hún hefði keypt eða fengið bókina um Thorsarana nýlega og það minnir mig á dálítið úr þeirri bók sem ég las einmitt fyrir þónokkrum mánuðum. Þar segir frá því þegar Thor Jensen lét byggja fyrir sig Fríkirkjuveg 11. Þetta var eitt af fyrstu húsunum í Reykjavík þar sem rafmagnsljós voru í hverju horni. Húsið var byggt fyrir um það bil hundrað árum. Sumir hneyksluðust á því að rafmagnsljós væri meira að segja á klósettunum.

Ég kom á skrifstofur Straums-Burðaráss í Borgartúninu um líkt leyti og ég las bókina um Thorsarana og þar kvikna ljós allsstaðar af sjálfu sér þegar komið er inn í herbergin. Það eru semsagt einhverjir skynjarar sem kveikja ljósið fyrir mann. Svona er þetta meira að segja á klósettunum. Eru þetta í hnotskurn þær framfarir sem orðið hafa á hundrað árum? Ég bara spyr. Kannski eru þessi skynjaraljós fyrir löngu orðin algeng og bara ég sem fylgist svona illa með.


146. blogg

Áfengismál eru líklega að koma talsvert í umræðuna aftur núna.

Bæði þingmenn og aðrir hafa oft talað um að bjórinn hafi verið bannaður hér á landi þangað til miklar hetjur fengu því til leiðar komið að þetta bann var brotið á bak aftur. Margir sem um áfengismál ræða taka oft svo til orða að bjórinn hafi verið bannaður þangað til 1989.

Þó ég muni auðvitað ekki hvernig hlutirnir gerðust varðandi þetta þá er ég alls ekki sammála því að bjórinn hafi verið bannaður. Ég tel að því hafi bara viljandi verið sleppt að leyfa innflutning og bruggun hans. Á þessu er auðvitað lítill munur að margra mati en mér finnst það skipta þónokkru máli.

Bjórinn var mér vitanlega aldrei bannaður sérstaklega eins og oft er gefið í skyn. Á sínum tíma var sett áfengisbann hér á Íslandi. Þetta var á þeim tíma einnig gert víða annarsstaðar t.d. í Bandaríkjunum eins og frægt er.

Til að greiða fyrir sölu fiskafurða sinna neyddust Íslendingar svo til að samþykkja að leyft yrði að flytja inn léttvín (Spánarvín) og einhverju síðar fylgdu sterk vín í kjölfarið. Bjórinn var hinsvegar skilinn viljandi eftir þegar þetta var ákveðið og lengi framan af virtust flestir sæmilega ánægðir með það.

Fyrir 1989 var oft rætt um það að fara þyrfti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort leyfa ætti bjórinn að nýju. Auðvitað velti maður því fyrir sér hvernig maður mundi greiða atkvæði í slíkri atkvæðagreiðslu. Ég man að ég var búinn að ákveða að greiða atkvæði gegn þvi að leyfa bjórinn að nýju.

Auðvitað hefur alls ekki allt ræst sem bjórandstæðingar spáðu að mundi gerast ef bjórinn yrði leyfður. Ég held þó að fáir mótmæli því að áfengisneysla hefur aukist hjá þjóðinni eftir að þetta gerðist og líklega einkum hjá yngri aldursflokkunum. Margir kenna bjórnum um þetta þó það sé engan vegin öruggt að það sé aðalástæðan. Það þyrfti einfaldlega að rannsaka þetta mál mun betur.

Nú á að leyfa sölu bjórs í matvörubúðum. Ég held þó að það sé alls ekki aðalástæða þess að fyrir þessu er barist heldur sé ástæðan sú að brjóta eigi einkarétt ríkisins til sölu áfengis á bak aftur. Það gæti vel tekist með þessu en tekur vitanlega einhvern tíma.

Mér finnst engin sérstök ástæða til að leyfa sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum. Þeir sem endilega vilja hafa rauðvín með steikinni er engin sérstök vorkunn að þurfa að fara í sérstakar verslanir til að ná í það.

Þó aðrar þjóðir hafi þetta ef til vill með öðrum hætti hjá sér sé ég ekki að það séu nein rök í málinu. Mín vegna mega útlendingar hlæja að verslunarháttum hér. Ég fæ ekki séð að það saki okkur neitt. Auðvitað stefna verslunarhættir í heiminum til aukins frjálsræðis og vel getur verið að á endanum neyðumst við til að gefa eftir í þessum málum en ég get alls ekki séð að sá tími sé kominn.

Þegar við bjuggum á Vegamótum þýfguðu strákarnir mínir mig mikið um það á tímabili hverjar líkur væru á að ísbirnir kæmu til landsins.  Ótti þeirra við slíkar skepnur var auðvitað mjög skiljanlegur og ég býst við að flestir óttist á einhverju tímabili ævinnar tiltekin dýr. Frænka mín ein sá til dæmis stundum sauðnaut á beit við Hveragerði og hræddist þau mjög. Björgvin bróðir gat á tímabili helst ekki farið út í búð í sendiferðir vegna ótta við dúfur. Sjálfur var ég af einhverjum ástæðum ákaflega draughræddur á tímabili en það eltist síðan alveg af mér.

Einu sinni fyrir ekki mjög mörgum árum dreymdi míg að ég lenti í slagsmálum við ísbjörn. Þetta var ungt dýr og af einhverjum ástæðum tókst honum að króa mig af þannig að ég átti einskis annars úrkosti en að ráðast til atlögu við hann með lurk einn að vopni. Ekki veit ég um úrslit þess bardaga því einmitt um leið og ísbjörninn beit í lurkinn vaknaði ég.


145. blogg

 

Nýi þátturinn hjá Simma lítur bara sæmilega út. Sviðsmyndin er þó afskaplega fáránleg, stór borð, gríðarháir gluggar og viðmælendur gjarnan látnir standa eins og þvörur, en þarna var margt þokkalega sagt og ekki seinna vænna að fá einhverja pínulitla samkeppni við Egil Helgason sem er satt að segja að verða dálítið þreytandi með allt sitt handapat og málæði.

Það er greinilegt að nú eftir að Egill er farinn ætla 365 miðlar og Stöð 2 að reyna að gera eitthvað af viti á þessu sviði. Bara að þeir gefist ekki upp undireins og eitthvað bjátar á eins og er að verða einkenni á stöðinni.

Það er oft talað um að eigendur fjölmiðla hafi áhrif á þá. Ég held að of mikið sé úr því gert. Hinsvegar er greinilegt að umræður um stór mál taka oft ákveðna stefnu eftir því hvernig fjölmiðlarnir sem heild taka á þeim. Kannski eru þetta áhrif frá umhverfinu (þjóðinni) og ekkert við þessu að segja. Kannski er þetta líka ákveðinn kúltúr sem hefur þróast upp hjá miðlunum þar sem hver apar eftir öðrum. Ekki er að sjá að um neina meðvitaða stefnu fjölmiðlafólks sé að ræða, heldur er þetta einskonar samnefnari af öllu sem sagt er. Og nú er umræðan á Netinu, einkum blogginu farin að skipta máli líka.

Margir bloggarar setja á bloggið sitt smásögur og ýmislegt fleira sem þeir hafa áður skrifað í þeirri von að einhverjir lesi og kommenti jafnvel á það. Þetta getur verið ágætt en er um leið svolítið hættulegt að mínu mati.

Bloggskrif lúta allt öðrum lögmálum en alvarlegri skrif. Þau eru eiginlega bara fyrir stundina og staðinn. A.m.k. er það þannig með mig að um leið og ég hef sett eitthvað á bloggið mitt hef ég litlar áhyggjur af því eftir það. Allra síst dytti mér í hug að fara að leiðrétta það eða breyta því. Athugasemdum og fyrirspurnum mundi ég þó að sjálfsögðu svara, einkum ef þær snerust um það að ég hefði farið rangt með, en afar hæpið finnst mér að breyta bloggfærslum eftir á. Ég undanskil þó smávægilegar prentvilluleiðréttingar og ef til vill lagfæringar á orðalagi og þess háttar. Mér dytti hinsvegar aldrei í hug að fara að fella niður er gjörbreyta einhverju sem ég hefði áður sett á bloggið.

Eitt af því sem kemur út úr stóra orkuveitumálinu er að framvegis eiga sjálfstæðismenn mun erfiðara með að klína glundroðakenningunni á aðra. Eins og nú horfir mun flestum finnast stjórn með átta flokkum hér í Reykjavík líklegri til að starfa vel saman en vera mundi ef Sjálfgræðisflokkurinn stjórnaði borginni einn og sjálfur. Sú kenning að áhrifin af þessu á landsstjórnina geti styrkt Samfylkinguna er líka nokkuð athyglisverð.

Einhverntíma var ég á gangi rétt hjá Kaupfélaginu í Hveragerði. Það hefur verið áður en Breiðamörkin var steypt (og sennilega löngu fyrr) því veghefill var að hefla götuna þar fyrir framan. Ég sá að allstór steinn var á götunni og veghefillinn stefndi beint á hann. Þegar hefillinn kom að steininum lenti hann undir brún fremra afturhjólsins og skaust í áttina að Kaupfélaginu. Þangað sveif hann í fallegum boga og lenti beint í rúðunni á einum sýningarglugganum í kramvörubúðinni, rúðan brotnaði en steinninn stóð fastur í gatinu.

Þessi rúða þætti ekki ýkja stór nútildags en þótti geysistór á þessum tíma. Ég man að eitthvert havarí varð útaf þessu en mér kom þetta auðvitað ekkert við. Ég var bara „innocent bystander" eins og þar stendur.

Ástæðan fyrir því að mér er þetta svona minnisstætt er að það er ekki algengt að sjá svona lagað. Ég held að ég hafi verið sá eini sem sá þennan atburð gerast. Veghefilsstjórinn þrætti þó ekkert fyrir að steinninn gæti hafa skotist undan heflinum. Auk þess var sérkennilegt að sjá að steinninn stóð fastur í gatinu sem hann braut á rúðuna og líklega sýnir það að krafturinn á steininum rétt dugði til að brjóta rúðuna.

Áslaug átti afmæli í dag og í kvöld fórum við og fengum okkur að borða á veitingahúsi af því tilefni. Einnig skrifaði Áslaug sig fyrir styrk til stráks í Pakistan hjá ABC barnahjálp. Það er að ég held hugsað sem afmælisgjöf frá henni til hans og vice versa. Strákurinn sem ég man ómögulega hvað heitir fæddist 16. október 1993 og á því sama afmælisdag og hún. (og Guðbergur Bergsson)


144. blogg

 

Þegar rætt er um loftslagsmál og veðurfar kemur mér oft í hug hve allt var einfalt í þessum málum í gamla daga.

Á veturna var allt á kafi í snjó og á sumrin var alltaf sólskin. Þannig man ég þetta að minnsta kosti.

Auðvitað kemur stundum upp í huga manns efi um að þetta hafi í raun og veru verið svona. En hvaða máli skiptir það? Minningarnar eru það sem máli skiptir. Ef mig minnir að allaf hafi verið sólskin á sumrin þá hefur auðvitað alltaf verið sólskin þegar veðrið skipti máli.

Einn veturinn voru mikil snjóþyngsli í Hveragerði. Magnús Ágústsson frá Birtingaholti sem var héraðslæknirinn okkar og Magnea konan höfðu byggt sér íbúðarhús eftir að þau voru orðin leið á að búa í læknishúsinu sem var uppi á hæð rétt fyrir ofan Gossabrekku. Þetta nýja hús sem þau létu byggja fyrir sig var fyrir austan golfvöllinn sem þá var og norðan Varmár. Hægt var að fara í gegn hjá Fagrahvammi og yfir göngubrú sem þar var til að komast að húsinu. Líka var hægt að fara norðan við ána og meðfram golfvellinum þar.

Einn dag eftir mikla snjókomu brutumst við Siggi í Fagrahvammi alla leið frá Laugaskarði og út að læknishúsi í klofsnjó. Mér er minnisstætt hve erfitt þetta var og hve lengi við vorum á leiðinni. Magnea tók okkur vel en ég man ekki hvernig við fórum til baka. Oft voru líka snjóhengjur á brekkubrúninni norðan við ána á svæðinu frá brúnni við Fagrahvamm og upp að Reykjafossi sem gaman var að grafa sig í gegnum.

Á sumrin var alltaf sólskin. Einu sinni vorum við svona átta eða tíu krakkar að leika okkur úti í móa fyrir neðan þjóðveg. Við vorum í hvarfi frá þorpinu því svolítil brekka var skammt fyrir neðan veg. Molluhiti var og af einhverjum ástæðum datt okkur í hug að fara úr öllum fötum. Áreiðanlega hafa verið stelpur í hópnum líka en það hefur ekki skipt okkur neinu máli. Við lékum okkur svona nokkra stund og vissum auðvitað að við máttum þetta alls ekki. Svo var þetta allt í einu ekkert spennandi lengur og við klæddum okkur.

Mamma lét okkur strákana þrjá oft fara saman í bað. Þá vorum við látnir fara í sundskýlur eins fáránlegt og það er nú. Ég man að oft var mikið fjör þegar við fórum saman í sturtu. Skemmtilegast af öllu var þó þegar okkur tókst að láta þvottapokann festast í loftinu. Varasamt var að sjálfsögðu að láta sápu fara í augun á sér en að öðru leyti var skvett og ærslast eins og mögulegt var.

Af einhverjum ástæðum man ég aldrei eftir að það hafi rignt í Hveragerði á þessum árum. Við vorum líka mjög hissa þegar aðkomufólk hafði orð á því að hveralykt væri í Hveragerði. Ekki fundum við hana.

Einu sinni vorum við að leika okkur við veginn sem seinna var kallaður Heiðmörk en lá á þessum tíma bara vestureftir framhjá bakaríinu og síðan yfir aðalgötuna sem lá við hliðina á húsinu hans Jóns Guðmundssonar. Þar á móti sem seinna kom garðyrkjustöðin hans Gests Eyjólfssonar var asbeströr með heitu vatni grafið undir veginn. Rörið hafði skemmst og heitt vatn spýttist upp á veginn og myndaði smápoll þar. Þetta var alvanalegt og var oftast bara lagað þegar svo mikið heitt vatn tapaðist á þennan hátt að vandræðum olli.

Skyndilega kemur bíll eftir veginum og bílstjórinn segir við okkur krakkana:

"Er langt síðan hann kom upp þessi?"

Við skildum ekkert hvað maðurinn átti við og gátum engu svarað. Það var ekki fyrr en löngu seinna að það rann upp fyrir mér að maðurinn hafði haldið að þetta væri hver sem væri að koma þarna upp á miðri götunni.

Já, það var stundum skrýtið að eiga heima í Hveragerði.

Er þetta REI-mál að verða að Baugsmálum hinum nýju? Er Bjarni Ármannsson að lenda í sömu pólitísku hakkavélinni og Hreinn Loftsson á sínum tíma? Ég veit það ekki en mér finnst sumt benda til þess. Öll þessi mál eru að verða með hreinum ólíkindum.


143. blogg

 Um daginn var ég eitthvað að fjölyrða um bæjanafnagátur sem ég hefði búið til sjálfur og birti nokkrar þeirra hér á blogginu mínu. Ein slík kom mér svo í hug nokkrum dögum seinna svo ég birti hana þá. Þetta var nafnið Bognibrestur.

Ég man ekki hvort ég var búinn að segja frá ráðningunni á þessari þraut. En Bognibrestur er að sjálfsögðu Svignaskarð.

Fyrir þá sem gaman hafa af bæjarnafnagátum þá eru hér nokkrar: (Ekki eftir mig þó.)

Með þeim fyrsta fast er slegið.

Fæst af öðrum lamabaheyið.

Að hinum þriðja glögg er gata.

Gleður hinn fjórði þreytta og lata.

Í fimmta ei dropi nokkur næst.

Næðir um sjötta, er gnæfir hæst.

Er hinn sjöundi út við sjá.

Áttundi nefnist Dimmagjá.

Er hinn níundi efni í vönd.

Ekki er tíundi nærri strönd

Ellefti nefnist Hlýjusléttur.

Á hæð er tólfti bærinn settur.

Á þrettánda er naumast sól að sjá.

Sjómenn í fjórtánda næði fá.

Fimmtándi er prýði framan á bergi.

Finnst hinum sextánda betri hvergi.

Sautjándi er aftan við alla kálfa.

Á átjánda mun ei húsið skjálfa.

Nítjándi í eldhúsi er tilvalið tæki.

Í tuttugasta ég ylinn sæki.

Og ráðningarnar eru á þessa leið:

Hamar, Engi, Tröð, Hægindi, Vatnsleysa, Vindás, Höfn, Svartagil, Hrísar, Heiði, Laugavellir, Ás, Forsæludalur, Höfn, Foss, Sælustaður, Hali, Bjarg, Ausa, Laug.

Þegar ég var krakki í Hveragerði man ég að ég fór snemma að nýta mér afburða (hehe) málfræðikunnáttu mína. Þegar mig langaði að fá mér eitthvað sagði ég gjarnan við mömmu:

"Mamma, má ég fá mola?"

Þessu var náttúrlega varla hægt svara nema með "já" eða "nei" og ef svarið var já eins og það var auðvitað oftast þá naut ég yfirburða íslenskuþekkingar minnar með því að þetta gat að sjálfsögðu þýtt hvort heldur sem var einn mola eða marga. Því miður var ekki hægt að nota þetta trix nema á sykurmola og þó þeir væru svosem ágætir þá var takmarkað hvað hægt var að éta af þeim án þess að upp um mann kæmist.

Ég er dottinn svo hressilega í blogg-gírinn að mér telst til að ég hafi núna bloggað á hverjum degi í meira en tuttugu daga og ekki sér fyrir endann á þessum ósköpum. Ekki nóg með það heldur eru bloggin yfirleitt í lengra lagi. Það er að segja nær tveimur word-blaðsíðum en einni.

Ótrúlega margir virðast lesa þetta blogg. Ekki veit ég hvort það er vegna frábærra hugleiðinga minna eða að þeim finnist efnið sem ég tek stundum til meðferðar vera svona athyglisvert. Athugasemdir eru fáar svo ég verð bara að giska á það. Best er kannski að blanda þessu saman.

Mér hentar ágætlega að blogga einu sinni á dag. Það er samt erfitt að sjá hvað er hæfileg lengd á bloggi. Suma daga er ég í stuði til að lesa löng blogg, en aðra daga ekki. Öðrum er eflaust líkt farið.


142. blogg

Stórfrændi minn, Gunnar Helgi Eysteinsson, svíafari og megabloggari er nú orðinn bloggvinur minn.

Sömu sögu er að segja af Kjartani Valgarðssyni. (sem ég held að sé áreiðanlega sonur Valgarðs Runólfssonar sem eitt sinn var skólastjóri í Hveragerði, þegar ég var þar í skóla) Sennilega er rétt að fara að vanda sig við bloggskrifin ef svona stórmenni lesa þau reglulega.

Ég á von á því að í stóra orkuveitumálinu komi deilan til með að standa um það hvort tiltekinnn stjórnarfundur hafi verið löglegur eða ekki. Var hann löglegur af því að fundarstjórinn sagði að hann væri það og þar að auki voru allir mættir eða var hann ólöglegur vegna þess  að ólöglega var til hans boðað. Þarna liggur efinn.

Þetta gerðist í Hveragerði fyrir mörgum áratugum. Það er frost og snjór en þó ágætisveður. Við Ingibjörg erum á heimleið eftir að hafa verið að renna okkur á sleðunum okkar uppi í Gossabrekku ásamt fleiri krökkum. Við erum komin á móts við hótelið þegar Ingibjörg man allt í einu eftir að hún hefur gleymt sleðanum sínum uppi í brekku.

"Æ, farðu og náðu í sleðann fyrir mig," segir Ingibjörg.

"Ég nenni því ekki," segi ég.

IB: "Gerðu það."

SB: "Æ, nei."

IB: "Ég skal gefa þér allan heiminn ef þú nærð í sleðann."

SB: "Huh."

Ég velti þessu nú samt dálítið fyrir mér. Því er ekki að neita að Ingibjörg á það til að þykjast eiga allan fjandann þegar sá gállinn er á henni. Það gæti kannski verið þess virði að nota þetta sem argument næst þegar hún tekur upp á slíku. Þá get ég sagt: "Nei, það er ég sem á þetta. Manstu ekki að þú gafst mér allan heiminn um daginn þegar ég sótti sleðann fyrir þig?"

Á endanum bið ég Ingibjörgu að taka við mínum sleða og rölti eftir sleðanum hennar. Ingibjörg heldur áfram heimleiðis og þegar ég næ henni aftur segir hún:

"Andskoti ertu vitlaus."

"Ha?"

"Já, þú ert óttalegur bjálfi að trúa því að ég eigi allan heiminn og geti gefið þér hann."

"Nú."

"Já, það er ekkert að marka þetta. Ég var bara að plata þig til að þú mundir ná í sleðann fyrir mig."

Svona er Ingibjörg. Það er engin leið að rökræða við hana. Hún býr bara til þær reglur sem henni þykja hæfilegar. Það er tilgangslaust fyrir mig að reyna að segja eitthvað enda er ég heilum tveimur árum yngri.

Einu sinni náði ég þó að gera henni verulega gramt í geði. Hún var þá að stríða mér eitthvað og ég var orðinn öskuvondur, greip í skólatöskuna hennar og ætlaði að henda henni eitthvað í burtu, en gætti þess ekki að ég greip í botninn á töskunni og hún var ólokuð. Þegar ég sveiflaði henni til fór allt úr henni, kennslubækur, stílabækur, blýantar, litir, strokleður, miðar, stundaskrár og allt mögulegt. Heil skæðadrífa af allskyns drasli. Þetta var miklu drastískara en ég hafði gert ráð fyrir svo mér rann reiðin allsnarlega en Ingibjörg varð öskureið í staðinn.

Einhvern tíma þegar ég var krakki spurði ég af hverju Gossabrekka væri kölluð Gossabrekka. Svarið sem ég fékk var að það væri vegna þess að hann Gottskálk ætti heima í húsinu við brekkuræturnar. Mér fannst þetta léleg skýring því ég skildi hana ekki þá og skil hana ekki enn. Ég vildi þó ekki opinbera fáfræði mína með því að viðurkenna þetta svo ég lét mér þessa skýringu nægja. Nú langar mig hinsvegar að vita hvernig þetta nafn er til komið í raun og veru.


141. blogg

Svo ég bloggi nú aðeins um pólitík, sem ég geri náttúrlega aldrei, þá fór það ekki neitt á milli mála í öllu þessu havaríi sem búið er að vera undanfarna daga að Villi Vill var í miklum vanda. Ég held samt að það geti ekki verið nein tilviljun að hann lendir í þessu.

Allt frá því að hann vann sinn fræga sigur yfir Gísla Marteini í prófkjörinu hefur það legið ljóst fyrir að ungtyrkirnir í flokknum hugsuðu honum þegjandi þörfina. Villi er líka ekki neinn frjálshyggjugaur heldur miklu fremur sósíalisti upp á gamla móðinn. Úr því honum tókst ekki að fylkja sjálfstæðismönnum í borgarstjórn að baki sér þá er það bara eðlileg niðurstaða að hann leggi niður völd.

Vitaskuld gerist þetta allt með endemum en það hangir miklu meira á spýtunni en þetta orkuveitumál. Sundurþykkjan í Sjálfstæðisflokknum er sennilega bara að koma upp á yfirborðið. Geir Harði þarf sennilega að fara að vara sig í landsstjórninni. Annars var það alltaf ljóst að Villi lægi tiltölulega vel við höggi en menn hafa áreiðanlega ekki reiknað með að Bingi hlypi útundan sér.

Eitt sinn ekki löngu eftir að ég fluttist á Snæfellsnes var ég að störfum í búðinni á Vegamótum. Af einhverjum ástæðum voru nokkuð margir þar og ég var að hamast við að afgreiða. Kona ein rak þá höfuðið inn um dyrnar og sagði: "Ég ætla að fá tvö kíló af smjörlíki, eitt af molasykri, fjögur af strásykri, fjóra pakka af kaffi og sex rúllur af klósettpappír. Er að fara út að Görðum og sæki þetta í bakaleiðinni. Bless."

Þessu bunaði hún útúr sér á fáeinum sekúndum og var síðan rokin í burtu. Mér féllust algjörlega hendur í fyrstu, en fór svo bara að hlæja og það sama gerðu flestir í búðinni.

"Hvaða kona var þetta?" spurði ég.

"Þetta var hún Magga í Dalsmynni," var svarið og auðheyrt var að það var nóg skýring.

Á kvennaklósettunum á Vegamótum var áminning um að setja ekki dömubindi í klósettin. Þetta var algengt þá og er jafnvel enn. Í hvert skipti sem klósett stífluðust var því að sjálfsögðu kennt um að einhver kvenmaður hefði ekki sinnt þessu.

Það kom oft fyrir að bansett kósettin stífluðust. Ég hef alltaf haft þá reglu þegar ég hef verið yfir aðra settur að segja aldrei neinum að gera eitthvað sem mér þykir sjálfum of erfitt eða ógeðslegt. Það kom því yfirleitt á mig að gera við klósettin og ekki var það þrifalegt verk. Rotþróin var fyrir  neðan veg og skolpleiðslan lá undir veginn fyrir framan búðina og veitingahúsið.

Stundum dugði að setja vatnsfarg á stífluna með því að fylla öll klósettin af vatni og sturta niður í gríð og erg. Þá losnaði stíflan ef allt gekk vel og þeyttist í rotþróna með miklum gusugangi.

Síðar voru lagðar nýjar skolplagnir bak við hús  og út í smálæk sem þar rann. Eftir það var einfaldara að hreinsa lagnirnar og þó rotþróin væri minni þá var  hún bara tæmd oftar. 

Það virðist vera alveg undir veðri komið hve mikið sést til títtnefndrar friðarsúlu. Stundum ber mikið á henni, stundum minna og stundum ekki neitt. Annars er mér hulin ráðgáta hvernig þetta ljós á að stuðla að heimsfriði. Helst dettur mér í hug að það eigi að gerast með því að minna á John Lennon og friðarhjal hans.


140. blogg

Ég sagði víst hér í blogginu mínu í gær að stjórnarsamstarfið í borginni væri varla í hættu.

Annað hefur nú komið í ljós og sýnir það bara að ég hef ekkert vit á þessu. Ég vona samt að nýji meirihlutinn verði farsæll og dreg þá skoðun mína ekkert til baka að Svandís Svavarsdóttir komi til með að græða mest á þessum atburðum öllum þegar tímar líða og Björn Ingi hugsanlega líka.

Dagurinn í dag er tíðindamikill. Að meirhluti springi í Reykjavík er alveg nýtt. Segja má að nýji meirihlutinn sé R-listinn endurvakinn. Ég er ekki vanur að fjölyrða mikið um pólitísk efni og held bara að ég taki ekkert upp á því núna.

Einu sinni fór ég í leitir með þeim Borgarmönnum þegar ég var vestur á Snæfellsnesi. Mig minnir að þeir hafi kallað þetta leitir eða göngur en mér fannst þetta nú ekki vera nema rúmlega það að smala heimalandið.

Hvað um það. Snemma var farið af stað og stefnan tekin í átt að Ljósufjöllum. Ég man ekki hve margir fóru í þessa ferð en ætli það hafi ekki verið uppundir tíu manns. Allir voru gangandi nema Dóri á Minni-Borg, hann var ríðandi.

Þegar komið var upp að Ljósufjöllum var stefnt vestur með þeim og síðan smám saman sunnar og sunnar þangað til stefnt var beint á Langholtsrétt. Þegar þangað kom var klukkan rúmlega tólf á hádegi.

Mér er fátt minnisstætt úr þessari ferð nema þá helst það hvað Ási á Borg gat hóað listilega hátt og snjallt. Jafnvel rollurnar voru forviða og litu upp í spurn þegar þær heyrðu í honum þó þær hefðu ekki þóst heyra neitt í öðrum sem voru jafnvel miklu nær.

Þegar safnið var komið inn í réttina klukkan rúmlega tólf fóru menn að keppast við að draga og voru búnir að því um kaffileytið. Þá var farið heim og réttadagurinn búinn. Það fannst mér frekar lélegur réttadagur.

Þegar minnst er á Halldór á Minni-Borg dettur mér í hug önnur saga af honum. Einhvern tíma á þeim árum sem ég var á Vegamótum hækkaði verð á sykri upp úr öllu valdi. Í sveitinni tíðkaðist þá eins og margir vita að kaupa matvörur í heilum sekkjum. Þegar sykurverðið var í sem hæstum hæðum og hafði nýlega hækkað um næstum helming þurfti Dóri á Minni-Borg að fá sér sekk af sykri. Honum blöskraði verðið sem von var en gat alveg eins búist við enn frekari hækkunum og keypti því tvo sekki. Strax eftir þetta fór verðið á sykrinum að hríðfalla.

Subaruinn er búinn að vera í lamasessi undanfarna daga. Hann ákvað á mánudaginn að tími væri til kominn að starta ekki. Hann á vanda til þess að taka svona ákvarðanir en hefur hingað til alltaf látið sér segjast eftir dálítinn tíma. Nú ber hinsvegar svo við að það er sama hvað hann er dekstraður hann lætur sér ekki segjast. Það verður því að draga hann með illu á verkstæði og verður það væntanlega gert í kvöld. Þór Benediktsson hefur tekið það verk að sér og mun ásamt Benna væntanlega koma honum upp á Krókháls tíu í kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband