146. blogg

Áfengismál eru líklega að koma talsvert í umræðuna aftur núna.

Bæði þingmenn og aðrir hafa oft talað um að bjórinn hafi verið bannaður hér á landi þangað til miklar hetjur fengu því til leiðar komið að þetta bann var brotið á bak aftur. Margir sem um áfengismál ræða taka oft svo til orða að bjórinn hafi verið bannaður þangað til 1989.

Þó ég muni auðvitað ekki hvernig hlutirnir gerðust varðandi þetta þá er ég alls ekki sammála því að bjórinn hafi verið bannaður. Ég tel að því hafi bara viljandi verið sleppt að leyfa innflutning og bruggun hans. Á þessu er auðvitað lítill munur að margra mati en mér finnst það skipta þónokkru máli.

Bjórinn var mér vitanlega aldrei bannaður sérstaklega eins og oft er gefið í skyn. Á sínum tíma var sett áfengisbann hér á Íslandi. Þetta var á þeim tíma einnig gert víða annarsstaðar t.d. í Bandaríkjunum eins og frægt er.

Til að greiða fyrir sölu fiskafurða sinna neyddust Íslendingar svo til að samþykkja að leyft yrði að flytja inn léttvín (Spánarvín) og einhverju síðar fylgdu sterk vín í kjölfarið. Bjórinn var hinsvegar skilinn viljandi eftir þegar þetta var ákveðið og lengi framan af virtust flestir sæmilega ánægðir með það.

Fyrir 1989 var oft rætt um það að fara þyrfti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort leyfa ætti bjórinn að nýju. Auðvitað velti maður því fyrir sér hvernig maður mundi greiða atkvæði í slíkri atkvæðagreiðslu. Ég man að ég var búinn að ákveða að greiða atkvæði gegn þvi að leyfa bjórinn að nýju.

Auðvitað hefur alls ekki allt ræst sem bjórandstæðingar spáðu að mundi gerast ef bjórinn yrði leyfður. Ég held þó að fáir mótmæli því að áfengisneysla hefur aukist hjá þjóðinni eftir að þetta gerðist og líklega einkum hjá yngri aldursflokkunum. Margir kenna bjórnum um þetta þó það sé engan vegin öruggt að það sé aðalástæðan. Það þyrfti einfaldlega að rannsaka þetta mál mun betur.

Nú á að leyfa sölu bjórs í matvörubúðum. Ég held þó að það sé alls ekki aðalástæða þess að fyrir þessu er barist heldur sé ástæðan sú að brjóta eigi einkarétt ríkisins til sölu áfengis á bak aftur. Það gæti vel tekist með þessu en tekur vitanlega einhvern tíma.

Mér finnst engin sérstök ástæða til að leyfa sölu bjórs og léttvíns í matvörubúðum. Þeir sem endilega vilja hafa rauðvín með steikinni er engin sérstök vorkunn að þurfa að fara í sérstakar verslanir til að ná í það.

Þó aðrar þjóðir hafi þetta ef til vill með öðrum hætti hjá sér sé ég ekki að það séu nein rök í málinu. Mín vegna mega útlendingar hlæja að verslunarháttum hér. Ég fæ ekki séð að það saki okkur neitt. Auðvitað stefna verslunarhættir í heiminum til aukins frjálsræðis og vel getur verið að á endanum neyðumst við til að gefa eftir í þessum málum en ég get alls ekki séð að sá tími sé kominn.

Þegar við bjuggum á Vegamótum þýfguðu strákarnir mínir mig mikið um það á tímabili hverjar líkur væru á að ísbirnir kæmu til landsins.  Ótti þeirra við slíkar skepnur var auðvitað mjög skiljanlegur og ég býst við að flestir óttist á einhverju tímabili ævinnar tiltekin dýr. Frænka mín ein sá til dæmis stundum sauðnaut á beit við Hveragerði og hræddist þau mjög. Björgvin bróðir gat á tímabili helst ekki farið út í búð í sendiferðir vegna ótta við dúfur. Sjálfur var ég af einhverjum ástæðum ákaflega draughræddur á tímabili en það eltist síðan alveg af mér.

Einu sinni fyrir ekki mjög mörgum árum dreymdi míg að ég lenti í slagsmálum við ísbjörn. Þetta var ungt dýr og af einhverjum ástæðum tókst honum að króa mig af þannig að ég átti einskis annars úrkosti en að ráðast til atlögu við hann með lurk einn að vopni. Ekki veit ég um úrslit þess bardaga því einmitt um leið og ísbjörninn beit í lurkinn vaknaði ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband