140. blogg

Ég sagði víst hér í blogginu mínu í gær að stjórnarsamstarfið í borginni væri varla í hættu.

Annað hefur nú komið í ljós og sýnir það bara að ég hef ekkert vit á þessu. Ég vona samt að nýji meirihlutinn verði farsæll og dreg þá skoðun mína ekkert til baka að Svandís Svavarsdóttir komi til með að græða mest á þessum atburðum öllum þegar tímar líða og Björn Ingi hugsanlega líka.

Dagurinn í dag er tíðindamikill. Að meirhluti springi í Reykjavík er alveg nýtt. Segja má að nýji meirihlutinn sé R-listinn endurvakinn. Ég er ekki vanur að fjölyrða mikið um pólitísk efni og held bara að ég taki ekkert upp á því núna.

Einu sinni fór ég í leitir með þeim Borgarmönnum þegar ég var vestur á Snæfellsnesi. Mig minnir að þeir hafi kallað þetta leitir eða göngur en mér fannst þetta nú ekki vera nema rúmlega það að smala heimalandið.

Hvað um það. Snemma var farið af stað og stefnan tekin í átt að Ljósufjöllum. Ég man ekki hve margir fóru í þessa ferð en ætli það hafi ekki verið uppundir tíu manns. Allir voru gangandi nema Dóri á Minni-Borg, hann var ríðandi.

Þegar komið var upp að Ljósufjöllum var stefnt vestur með þeim og síðan smám saman sunnar og sunnar þangað til stefnt var beint á Langholtsrétt. Þegar þangað kom var klukkan rúmlega tólf á hádegi.

Mér er fátt minnisstætt úr þessari ferð nema þá helst það hvað Ási á Borg gat hóað listilega hátt og snjallt. Jafnvel rollurnar voru forviða og litu upp í spurn þegar þær heyrðu í honum þó þær hefðu ekki þóst heyra neitt í öðrum sem voru jafnvel miklu nær.

Þegar safnið var komið inn í réttina klukkan rúmlega tólf fóru menn að keppast við að draga og voru búnir að því um kaffileytið. Þá var farið heim og réttadagurinn búinn. Það fannst mér frekar lélegur réttadagur.

Þegar minnst er á Halldór á Minni-Borg dettur mér í hug önnur saga af honum. Einhvern tíma á þeim árum sem ég var á Vegamótum hækkaði verð á sykri upp úr öllu valdi. Í sveitinni tíðkaðist þá eins og margir vita að kaupa matvörur í heilum sekkjum. Þegar sykurverðið var í sem hæstum hæðum og hafði nýlega hækkað um næstum helming þurfti Dóri á Minni-Borg að fá sér sekk af sykri. Honum blöskraði verðið sem von var en gat alveg eins búist við enn frekari hækkunum og keypti því tvo sekki. Strax eftir þetta fór verðið á sykrinum að hríðfalla.

Subaruinn er búinn að vera í lamasessi undanfarna daga. Hann ákvað á mánudaginn að tími væri til kominn að starta ekki. Hann á vanda til þess að taka svona ákvarðanir en hefur hingað til alltaf látið sér segjast eftir dálítinn tíma. Nú ber hinsvegar svo við að það er sama hvað hann er dekstraður hann lætur sér ekki segjast. Það verður því að draga hann með illu á verkstæði og verður það væntanlega gert í kvöld. Þór Benediktsson hefur tekið það verk að sér og mun ásamt Benna væntanlega koma honum upp á Krókháls tíu í kvöld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Skemmtileg færsla..... "jafnvel rollurnar voru forviða og litu upp í spurn". 

Anna Einarsdóttir, 15.10.2007 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband