142. blogg

Stórfrændi minn, Gunnar Helgi Eysteinsson, svíafari og megabloggari er nú orðinn bloggvinur minn.

Sömu sögu er að segja af Kjartani Valgarðssyni. (sem ég held að sé áreiðanlega sonur Valgarðs Runólfssonar sem eitt sinn var skólastjóri í Hveragerði, þegar ég var þar í skóla) Sennilega er rétt að fara að vanda sig við bloggskrifin ef svona stórmenni lesa þau reglulega.

Ég á von á því að í stóra orkuveitumálinu komi deilan til með að standa um það hvort tiltekinnn stjórnarfundur hafi verið löglegur eða ekki. Var hann löglegur af því að fundarstjórinn sagði að hann væri það og þar að auki voru allir mættir eða var hann ólöglegur vegna þess  að ólöglega var til hans boðað. Þarna liggur efinn.

Þetta gerðist í Hveragerði fyrir mörgum áratugum. Það er frost og snjór en þó ágætisveður. Við Ingibjörg erum á heimleið eftir að hafa verið að renna okkur á sleðunum okkar uppi í Gossabrekku ásamt fleiri krökkum. Við erum komin á móts við hótelið þegar Ingibjörg man allt í einu eftir að hún hefur gleymt sleðanum sínum uppi í brekku.

"Æ, farðu og náðu í sleðann fyrir mig," segir Ingibjörg.

"Ég nenni því ekki," segi ég.

IB: "Gerðu það."

SB: "Æ, nei."

IB: "Ég skal gefa þér allan heiminn ef þú nærð í sleðann."

SB: "Huh."

Ég velti þessu nú samt dálítið fyrir mér. Því er ekki að neita að Ingibjörg á það til að þykjast eiga allan fjandann þegar sá gállinn er á henni. Það gæti kannski verið þess virði að nota þetta sem argument næst þegar hún tekur upp á slíku. Þá get ég sagt: "Nei, það er ég sem á þetta. Manstu ekki að þú gafst mér allan heiminn um daginn þegar ég sótti sleðann fyrir þig?"

Á endanum bið ég Ingibjörgu að taka við mínum sleða og rölti eftir sleðanum hennar. Ingibjörg heldur áfram heimleiðis og þegar ég næ henni aftur segir hún:

"Andskoti ertu vitlaus."

"Ha?"

"Já, þú ert óttalegur bjálfi að trúa því að ég eigi allan heiminn og geti gefið þér hann."

"Nú."

"Já, það er ekkert að marka þetta. Ég var bara að plata þig til að þú mundir ná í sleðann fyrir mig."

Svona er Ingibjörg. Það er engin leið að rökræða við hana. Hún býr bara til þær reglur sem henni þykja hæfilegar. Það er tilgangslaust fyrir mig að reyna að segja eitthvað enda er ég heilum tveimur árum yngri.

Einu sinni náði ég þó að gera henni verulega gramt í geði. Hún var þá að stríða mér eitthvað og ég var orðinn öskuvondur, greip í skólatöskuna hennar og ætlaði að henda henni eitthvað í burtu, en gætti þess ekki að ég greip í botninn á töskunni og hún var ólokuð. Þegar ég sveiflaði henni til fór allt úr henni, kennslubækur, stílabækur, blýantar, litir, strokleður, miðar, stundaskrár og allt mögulegt. Heil skæðadrífa af allskyns drasli. Þetta var miklu drastískara en ég hafði gert ráð fyrir svo mér rann reiðin allsnarlega en Ingibjörg varð öskureið í staðinn.

Einhvern tíma þegar ég var krakki spurði ég af hverju Gossabrekka væri kölluð Gossabrekka. Svarið sem ég fékk var að það væri vegna þess að hann Gottskálk ætti heima í húsinu við brekkuræturnar. Mér fannst þetta léleg skýring því ég skildi hana ekki þá og skil hana ekki enn. Ég vildi þó ekki opinbera fáfræði mína með því að viðurkenna þetta svo ég lét mér þessa skýringu nægja. Nú langar mig hinsvegar að vita hvernig þetta nafn er til komið í raun og veru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég spurði föður minn um þig og hann mundi eftir þér. Hann bað að heilsa.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 15.10.2007 kl. 07:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband