144. blogg

 

Þegar rætt er um loftslagsmál og veðurfar kemur mér oft í hug hve allt var einfalt í þessum málum í gamla daga.

Á veturna var allt á kafi í snjó og á sumrin var alltaf sólskin. Þannig man ég þetta að minnsta kosti.

Auðvitað kemur stundum upp í huga manns efi um að þetta hafi í raun og veru verið svona. En hvaða máli skiptir það? Minningarnar eru það sem máli skiptir. Ef mig minnir að allaf hafi verið sólskin á sumrin þá hefur auðvitað alltaf verið sólskin þegar veðrið skipti máli.

Einn veturinn voru mikil snjóþyngsli í Hveragerði. Magnús Ágústsson frá Birtingaholti sem var héraðslæknirinn okkar og Magnea konan höfðu byggt sér íbúðarhús eftir að þau voru orðin leið á að búa í læknishúsinu sem var uppi á hæð rétt fyrir ofan Gossabrekku. Þetta nýja hús sem þau létu byggja fyrir sig var fyrir austan golfvöllinn sem þá var og norðan Varmár. Hægt var að fara í gegn hjá Fagrahvammi og yfir göngubrú sem þar var til að komast að húsinu. Líka var hægt að fara norðan við ána og meðfram golfvellinum þar.

Einn dag eftir mikla snjókomu brutumst við Siggi í Fagrahvammi alla leið frá Laugaskarði og út að læknishúsi í klofsnjó. Mér er minnisstætt hve erfitt þetta var og hve lengi við vorum á leiðinni. Magnea tók okkur vel en ég man ekki hvernig við fórum til baka. Oft voru líka snjóhengjur á brekkubrúninni norðan við ána á svæðinu frá brúnni við Fagrahvamm og upp að Reykjafossi sem gaman var að grafa sig í gegnum.

Á sumrin var alltaf sólskin. Einu sinni vorum við svona átta eða tíu krakkar að leika okkur úti í móa fyrir neðan þjóðveg. Við vorum í hvarfi frá þorpinu því svolítil brekka var skammt fyrir neðan veg. Molluhiti var og af einhverjum ástæðum datt okkur í hug að fara úr öllum fötum. Áreiðanlega hafa verið stelpur í hópnum líka en það hefur ekki skipt okkur neinu máli. Við lékum okkur svona nokkra stund og vissum auðvitað að við máttum þetta alls ekki. Svo var þetta allt í einu ekkert spennandi lengur og við klæddum okkur.

Mamma lét okkur strákana þrjá oft fara saman í bað. Þá vorum við látnir fara í sundskýlur eins fáránlegt og það er nú. Ég man að oft var mikið fjör þegar við fórum saman í sturtu. Skemmtilegast af öllu var þó þegar okkur tókst að láta þvottapokann festast í loftinu. Varasamt var að sjálfsögðu að láta sápu fara í augun á sér en að öðru leyti var skvett og ærslast eins og mögulegt var.

Af einhverjum ástæðum man ég aldrei eftir að það hafi rignt í Hveragerði á þessum árum. Við vorum líka mjög hissa þegar aðkomufólk hafði orð á því að hveralykt væri í Hveragerði. Ekki fundum við hana.

Einu sinni vorum við að leika okkur við veginn sem seinna var kallaður Heiðmörk en lá á þessum tíma bara vestureftir framhjá bakaríinu og síðan yfir aðalgötuna sem lá við hliðina á húsinu hans Jóns Guðmundssonar. Þar á móti sem seinna kom garðyrkjustöðin hans Gests Eyjólfssonar var asbeströr með heitu vatni grafið undir veginn. Rörið hafði skemmst og heitt vatn spýttist upp á veginn og myndaði smápoll þar. Þetta var alvanalegt og var oftast bara lagað þegar svo mikið heitt vatn tapaðist á þennan hátt að vandræðum olli.

Skyndilega kemur bíll eftir veginum og bílstjórinn segir við okkur krakkana:

"Er langt síðan hann kom upp þessi?"

Við skildum ekkert hvað maðurinn átti við og gátum engu svarað. Það var ekki fyrr en löngu seinna að það rann upp fyrir mér að maðurinn hafði haldið að þetta væri hver sem væri að koma þarna upp á miðri götunni.

Já, það var stundum skrýtið að eiga heima í Hveragerði.

Er þetta REI-mál að verða að Baugsmálum hinum nýju? Er Bjarni Ármannsson að lenda í sömu pólitísku hakkavélinni og Hreinn Loftsson á sínum tíma? Ég veit það ekki en mér finnst sumt benda til þess. Öll þessi mál eru að verða með hreinum ólíkindum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson


Gunnar Helgi Eysteinsson, 16.10.2007 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband