141. blogg

Svo ég bloggi nú aðeins um pólitík, sem ég geri náttúrlega aldrei, þá fór það ekki neitt á milli mála í öllu þessu havaríi sem búið er að vera undanfarna daga að Villi Vill var í miklum vanda. Ég held samt að það geti ekki verið nein tilviljun að hann lendir í þessu.

Allt frá því að hann vann sinn fræga sigur yfir Gísla Marteini í prófkjörinu hefur það legið ljóst fyrir að ungtyrkirnir í flokknum hugsuðu honum þegjandi þörfina. Villi er líka ekki neinn frjálshyggjugaur heldur miklu fremur sósíalisti upp á gamla móðinn. Úr því honum tókst ekki að fylkja sjálfstæðismönnum í borgarstjórn að baki sér þá er það bara eðlileg niðurstaða að hann leggi niður völd.

Vitaskuld gerist þetta allt með endemum en það hangir miklu meira á spýtunni en þetta orkuveitumál. Sundurþykkjan í Sjálfstæðisflokknum er sennilega bara að koma upp á yfirborðið. Geir Harði þarf sennilega að fara að vara sig í landsstjórninni. Annars var það alltaf ljóst að Villi lægi tiltölulega vel við höggi en menn hafa áreiðanlega ekki reiknað með að Bingi hlypi útundan sér.

Eitt sinn ekki löngu eftir að ég fluttist á Snæfellsnes var ég að störfum í búðinni á Vegamótum. Af einhverjum ástæðum voru nokkuð margir þar og ég var að hamast við að afgreiða. Kona ein rak þá höfuðið inn um dyrnar og sagði: "Ég ætla að fá tvö kíló af smjörlíki, eitt af molasykri, fjögur af strásykri, fjóra pakka af kaffi og sex rúllur af klósettpappír. Er að fara út að Görðum og sæki þetta í bakaleiðinni. Bless."

Þessu bunaði hún útúr sér á fáeinum sekúndum og var síðan rokin í burtu. Mér féllust algjörlega hendur í fyrstu, en fór svo bara að hlæja og það sama gerðu flestir í búðinni.

"Hvaða kona var þetta?" spurði ég.

"Þetta var hún Magga í Dalsmynni," var svarið og auðheyrt var að það var nóg skýring.

Á kvennaklósettunum á Vegamótum var áminning um að setja ekki dömubindi í klósettin. Þetta var algengt þá og er jafnvel enn. Í hvert skipti sem klósett stífluðust var því að sjálfsögðu kennt um að einhver kvenmaður hefði ekki sinnt þessu.

Það kom oft fyrir að bansett kósettin stífluðust. Ég hef alltaf haft þá reglu þegar ég hef verið yfir aðra settur að segja aldrei neinum að gera eitthvað sem mér þykir sjálfum of erfitt eða ógeðslegt. Það kom því yfirleitt á mig að gera við klósettin og ekki var það þrifalegt verk. Rotþróin var fyrir  neðan veg og skolpleiðslan lá undir veginn fyrir framan búðina og veitingahúsið.

Stundum dugði að setja vatnsfarg á stífluna með því að fylla öll klósettin af vatni og sturta niður í gríð og erg. Þá losnaði stíflan ef allt gekk vel og þeyttist í rotþróna með miklum gusugangi.

Síðar voru lagðar nýjar skolplagnir bak við hús  og út í smálæk sem þar rann. Eftir það var einfaldara að hreinsa lagnirnar og þó rotþróin væri minni þá var  hún bara tæmd oftar. 

Það virðist vera alveg undir veðri komið hve mikið sést til títtnefndrar friðarsúlu. Stundum ber mikið á henni, stundum minna og stundum ekki neitt. Annars er mér hulin ráðgáta hvernig þetta ljós á að stuðla að heimsfriði. Helst dettur mér í hug að það eigi að gerast með því að minna á John Lennon og friðarhjal hans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég skammast mín  
Ég vill byrja á því að biðjast afsökunar á að hafa ekki svarað athugasemdinni þinni. Þú segir frá því að við séum náskyldir, ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að svara því að við værum náskyldir og var að hugsa eitthvað "gott" svar og gleymdi þér síðan. 

Hefur þú hitt föður minn?
Höfum við hist?

Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.10.2007 kl. 10:16

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ekkert mál. Mjög skiljanlegt. Líklega saknaði ég kommentanna þinna og hef sjálfsagt vonað að þú vildir gerast bloggvinur minn. Annað hékk ekki á spýtunni.

Ég held að ég hafi aldrei hitt þig. En pabba þinn og fjölskyldu hans þekkti ég vel, bæði meðan þau bjuggu á Víðimelnum og síðar í Nóatúninu. Pabba þinn hef ég hitt á ættarmótum bæði á Gufuskálum og Laugm og jafnvel víðar. Valgeir bróðir hans þekkti ég kannski best af þeim systkinunum enda var hann á líkum aldri og ég.

Kveðja

Sæmundur Bjarnason, 13.10.2007 kl. 14:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband