Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

1135 - Netheimar og kjötheimar

Netlíf okkar er merkilegt. Á ýmsan hátt er það ólíkt jarðbundnu lífi. Þar getur maður verið allt annar en maður er í raunveruleikanum. Þar þarf útlit og önnur slík smáatriði ekki að trufla mann neitt. En hvað er raunveruleiki? Eru netheimar eitthvað óraunverulegri en kjötheimar? Við erum vanari þeim síðarnefndu en eru þeir eitthvað raunverulegri fyrir það? 

Endalaust má bollaleggja um mun þessara tveggja heima. Netheimar hafa vaxið mjög hratt undanfarið og stjórnleysið (og peningaleysið) þar er farið að há sumum. Þá heima er auðveldara að yfirgefa (um stundarsakir) en hina. Vera okkar í kjötheimum er nauðsyn sem enginn kemst hjá og skilyrði fyrir veru okkar í netheimum. Gamaldags draugagangur í netheimum væri samt skemmtilegt viðfangsefni. Margir vilja auðvitað blanda þessum ólíku heimum sem mest saman og hafa þá sem líkasta. Það gengur barasta ekki alltaf og árekstrar milli þeirra verða sífellt algengari.

Netheimar virða fá landamæri. Ef menn eru háðir texta (eins og ég) þá skapa tungumál samt viss landamæri. Möguleikar Netsins eru þó næstum ótæmandi. Ekki hefur þeim enn verið sinnt nema að litlu leyti. Mörgum er hálfilla við allt sem þar er að finna og vilja til dæmis frekar fá sitt andlega fóður eftir hefðbundnum (og úreltum) leiðum.

Er þessa dagana að lesa nýju bókina eftir Þórberg. Mjög framarlega í henni er frásögn af því þegar Sveinn Jónsson ætlar að ganga í sjóinn og fyrirfara sér. Sú frásögn er snilldarleg og eftirminnileg í einfaldleik sínum.

Mér finnst flest merkilegt sem ég skrifa og skil ekkert í því að ég skuli ekki vera meðal vinsælustu Moggabloggara. Stórhaus er ég samt og þakklátur fyrir það. Moggabloggsguðirnir hafa lyft mér á þann stall. Að öðru leyti er ég víst ekkert merkilegur.

Kannski fara hrunfréttir að breytast úr þessu. Sífellt talnastagl að minnka og dómstólafréttir að verða aðalfréttirnar. Útrásarvíkingar og stjórnmálamenn í nýjum hlutverkum sakborninga og munu þá margir kætast. Held að dómar verði samt ekki strangir og varla væntanlegir fyrr en eftir dúk og disk. Næstu þingkosningar (sennilega vorið 2012) geta orðið mjög spennandi sem og aðdragandi þeirra.

IMG 2973Tónlistarhúsið séð úr Bankastræti. Hélt ekki að það væri svona áberandi þaðan.


1134 - Um Villafóbíu, trúmál o.fl.

Skaði hvað bloggarar eru almennt orðljótir og kvikindislegir. Líka hve mikið er bloggað á hverjum degi. Það er engum ætlandi að lesa þessi ósköp. Af hverju hætta ekki allir að blogga nema ég? "Penis með krana", finnst mér fyndnasta fyrirsögnin í keppninni um að ófrægja Færeyingsgreyið sem trúir öllu sem stendur í biblíunni og skilur það með sínum misskilningi. 

Villafóbía mín fer vaxandi. Les bloggið hans Vilhjálms í Kaupmannahöfn samt oft (alltof oft) Kannski er hans predikament svipað. Ég er alltaf að minnast öðru hvoru á hann. Get ekki stillt mig um það. Hann helgaði bölbænum um mig og ímynduð svik mín einu sinni heilt blogg. Gleymi því aldrei.

Jú, það er dálítið erfitt að hugsa sér sjálfan sig dauðan. Einhver hafði orð á þessu annaðhvort á bloggi eða fésbók. Eitt sem maður fer alveg á mis við er að vita hvernig eftirmæli maður fær og hve margir muna eftir manni og hve lengi? Hvaða verk manns lifa og hver ekki? Erum við dálítið í því að reyna að reisa okkur minnisvarða?

Hvers vegna í ósköpunum er maður að rembast við að haga sér almennilega í þessu lífi ef ekkert tekur við? Já, en það gæti nú hugsanlega tekið eitthvað við reynir margur að hugga sig við. Þar að auki líður manni skár ef maður hagar sér ekki illa í lífinu.

Það er þessi síðasta setning sem truflar mig dálítið. Hefur það verið sannað? Getur ekki verið að við séum einmitt siðferðislega á nokkuð góðu róli vegna þess að við væntum hugsanlegs bónusgróða sem gæti falist í eilífu lífi. Kannski væri einmitt ráð að haga sér sem allra verst.

Ein er sú áhyggja sem ég held að margir hafi varðandi úrsögn úr þjóðkirkjunni. „Verð ég þá ekki einu sinni grafinn með skikkanlegum hætti eftir að ég er dauður? Kem ég kannski aðstandendum mínum í vanda með þessu?" Er þetta ekki næstum sama áhyggjan og við gerum sem mest grín að þegar við lesum um fólk sem vildi endilega eiga fyrir útför sinni? Það er ekki þess virði að vera að hugsa um svona lagað. Svo mætti líka bjóða verkið út. Kannski þjóðkirkjan yrði með hagstæðasta tilboðið.

IMG 3053Þessir hafa það nokkuð gott. Kjaftaklöpp í baksýn. (að ég held)


1133 - Málfarslöggur og Villi í Köben

Ekki er ég hræddur við málfarslöggur. Ég er kominn á þann aldur að mér er skítsama þó einhverjir finni að málfari mínu. Ég nota slettur hikstalaust ef mér finnst fara vel á því og það vera réttlætanlegt. Orðalag og annað reyni ég þó að hafa sem íslenskulegast. 

Mér finnst sá siður að ekki megi gagnrýna réttritun og orðalag á Netinu vera eyðileggjandi fyrir tunguna. Mikið vildi ég að einhverjir vildu gagnrýna mig fyrir málfar ef tilefni er til og ég veit að það er oft. Mönnum finnst jafnan að þeir hafi ekki efni á að gagnrýna slíkt ef þeir eru ekkert betri sjálfir en það er misskilningur. Framþróun verður einmitt með skoðanaskiptum.

Villi í Köben er alltaf skemmtilegur. Minnir bloggvini sína ítarlega (fimm sinnum) á síðustu bloggfærslu sína. Verst að geta aldrei vitað hvort honum er alvara eða ekki. Sennilega er þessi islamófóbía hans tómt grín. Nenni samt ekki að ganga úr skugga um það. Villa langar greinilega að gera grín að Vigdísi fyrrum forseta en kemst ekki á almennilegt flug þar. Úr fjölmiðlafarsanum grimmúðlega árið 2004 er mér minnisstæðust ein vísa sem ég get ómögulega munað eftir hvern er.

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
Það er mynd af honum í merkinu.

Svo man ég líka vel eftir því þegar starfsmenn Stöðvar 2 settu þessa fínu banana við Alþingishússhurðina frægu í stað þess að éta þá.

Gísli Baldvinsson (líklega sonur Jóns Baldvins) skrifar blogg-grein á Eyjuna sem hann nefnir „Þumlgefendur Eyjunnar." Mér þykir greinin um margt fróðleg en þó finnst mér mörgum spurningum ósvarað um þetta mál og margt sem Eyjubloggi viðkemur og fréttaflutningi þar.

Margir ágætir bloggarar hafa horfið af Moggablogginu og Eyjan tekið þeim fagnandi. Þessir bloggarar hafa oft haft mörg orð um Davíð Oddsson og blogg-lokanir á Moggablogginu. Hugsanlega hafa einhverjir þeirra skrifað blogg um reynslu sína af skiptunum og breytingunni. Ég hef samt ekki rekist á marktæka úttekt á slíkum flutningum.

Útbreiðsla og vinsældir eyjunnar.is og mbl.is skipta auðvitað máli þarna sem og þróunin í því efni. Margt fleira kemur og við sögu. Kannanir á þessu sviði gætu verið forvitnilegar og vel getur verið að þær hafi verið gerðar.

IMG 3131Mér dettur í hug danska glósan: (eða var það bókartitill?) „Fremtiden er allerede begyndt," þegar ég sé þessa mynd.


1132 - Já, þetta er kóngablæti

Lára Hanna (sem ég hélt að væri hætt að blogga) skrifar blogg um Davíð Oddsson sem hún kallar „Er þetta kóngablæti?" Margt í þeirri grein er vel sagt og ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hún segir um þennan fyrirferðarmikla frænda minn. 

Mér finnst D.O. þó ekki verðskulda þá athygli sem Lára Hanna sýnir honum. Vil heldur ekki hlíta því sem aðrir segja mér um hvað ég eigi að lesa eða hvernig nethegðun mín eigi að vera. Viðurkenni samt að nethegðun fólks skiptir máli.

Fór snemma á fætur í morgun. Sótti Benna og Angelu til Keflavíkur klukkan 6:30. Fór svo á fund hjá BÍS og eftir hádegið ætlaði ég í berjamó eins og á föstudaginn en ekki kom annað út úr þeim fyrirætlunum en búðarferðir o.þ.h. Aðallega vegna veðurs. Var víst ekkert búinn að segja frá berjatínslunni á föstudaginn hér þó ég hafi minnst á það á fésbókarræflinum. Sú ferð var einna merkilegust fyrir það að ég datt og meiddi mig svolítið í hendinni. Finn aðeins fyrir því ennþá en ekkert að ráði.

Einu sinni þegar við bjuggum á Vegamótum gerði hvassviðri mikið um miðja nótt. Gluggi inni hjá strákunum skelltist til og frá svo ég fór að loka honum. Benni hafði þá vaknað við lætin og sagði svolítið aumingjalega: „Hann var að reyna að loka sér sjálfur."

Hluti af þeim hégiljum og hindurvitnum sem fólk ánetjast í stórum stíl er einhvers virði. Annað er að engu hafandi og jafnvel skaðlegt. Vandinn er að greina þarna á milli.

Næringarfræðingar verða meðal helstu gúrúa framtíðarinnar. Maður er það sem maður étur. Enginn vafi er á því. Hreysti, heilbrigði og langlífi er undir því komið hvernig lífi maður lifir og hvað maður lætur ofan í sig. Eitt er samt að kunna heilræðin og annað að halda þau.

IMG 3007Hverja er eiginlega verið að hylla þarna? Ekki veit ég það.


1131 - Ljóð eða ekki ljóð

Horfandi á Word-skjalið í tölvunni.

Hvítt blað í ritvél tíðkaðist áður.

Hrikaleg ósköp

að horfa á slíkt

áður en stafirnir

á það koma

og mynda orð.

Blaðið einblínir á móti.

Finnst mér a.m.k.

Þá sultu skáldin

heilu hungri

en ég safna ístru

í stað megurðar

og er sjaldan svangur.

Hvernig skyldi næsta blogg mitt verða?

Gaman að vita það.

Er hægt að kalla þetta ljóð

bara vegna þess hvernig það er sett upp?

Fjöldi ljóðlína er legíó

og punktarnir margir.

Óþarfi að spara blöðin og greinaskilin.

Búinn að finna mynd til að setja aftast.

Er þá ekki allt komið?

Nú, er þetta ekki nógu langt?

Má þetta ekki vera stutt blogg,

eða jafnvel stuttblogg.

Rím og stuðlar eru bara til trafala

og tefja fyrir.

Höfuðstafir eru jafnvel verri.

Nú vendi ég minu kvæði í kross.

Sankti María sé með oss.

Kvæðarugl mér kemur frá.

Kannski er spekin himinhá,

en kannski bara miðlungs.

Hvernig skyldi vera best að byrja

bragarleysu þessa að kyrja?

Rímið kemur mig að kvelja

kannski er ekki um neitt að velja.

En það gerir ekkert til

ég má hafa þetta eins og ég vil.

Eða hérumbil.

Nú er komið nafn á þetta

nefnilega var að detta.

Ljóð mun þetta að lokum verða

ef að þessi andagift

sem í upphafi var fengin

ekki svíkur drenginn.

Og svei. Hún ætlar mig að svíkja.

En ég hef ekki hugsað mér að víkja

af vegi þeim

sem liggur heim

til þeirra forardíkja

sem í ljóðlistinni ríkja.

Með hangandi hendi

einhver mér sendi

Magister Bibendi.

Það ljóta kykvendi

vona ég að lendi

lífsháska í

og líf sitt endi

sem allra fyrst.

Einhverntíma

skal ég glíma

eða líma

gegnum síma.

Nú, eða híma

og ekki tíma

að láta ríma.

Ef úti er kalt

og veður svalt

þá umfram allt

þú drekka skalt

malt.

Nú veit ég ekki meir

hvort þetta er leir

eða gullinn eir

sem aldrei deyr.

Og því er best að hætta.

IMG 2975Þessir voru eitthvað að músísera í Bankastrætinu á menningarnótt. Gott ef ég kannast ekki við svipinn á þeim.


1130 - Að hætta við umsókn

Því skyldi ég ekki fimbulfamba fjandann ráðalausan á blogginu mínu úr því einhverjir vilja lesa það. Ekki hef ég margt merkilegt fram að færa í stjórnmálunum eða fréttatengdu efni. Eða réttara sagt þá er ekki víst að öðrum finnist það. Mér finnst það náttúrulega mjög gáfulegt.  

Af hverju er ég að þessum ósköpum? Af því sem ég blogga um að staðaldri finnst mér ESB-aðildin hvað merkilegust. Meira að segja hrunið er tekið að fjarlægjast talsvert. Skil ekki af hverju menn eru fyrirfram svona á móti þessari aðild. Aðrar þjóðir hafa alveg getað þetta án tjóns og rétta tækifærið til mótmæla er þegar hugsanlegur aðildarsamningur kemur til þjóðaratkvæðis. Verði hætt við það núna sem Alþingismenn hafa áður samþykkt getur það með engu móti orðið okkur Íslendingum til góðs eða álitsauka.

Við Íslendingar erum ekkert merkilegri en aðrar þjóðir. Skoðanakannanir, séu þær rétt gerðar og vísindalegar, geta gefið ágæta mynd af því hvað þjóðin (þýðið) hugsar akkúrat á því augnabliki sem spurt er. Og það fer ekkert á milli mála að meirihluti meðal þjóðarinnar er nú sem stendur á móti samningum við ESB. Án þess þó að vita mikið um þá hugsanlegu samninga.

Það eru stjórnmálaflokkarnir sem ráða miklu um skoðanir fólks að þessu leyti. Einkennilegt er með arftaka kommúnista sem nú eru að sögn á móti þessu. Þeir eiga í raun réttri að vera alþjóðasinnaðri en íhaldsmenn en eru það allsekki.

Þingsályktunartillaga mun verða (eða hefur verið) lögð fram á Alþingi um að hætta viðræðum við ESB. Vandséð er að tillaga þessi sé annað en dulbúin vantrauststillaga á ríkisstjórnina og úrslitanna mun eflaust verða beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Flutningsmenn skilst mér að séu Unnur Brá Konráðsdóttir (S), Ásmundur Einar Daðason (VG), Gunnar Bragi Sveinsson (B) og Birgitta Jónsdóttir (H). Ekki veit ég hvenær þessi tillaga kemur til atkvæða og ekki er ótrúlegt að ríkisstjórnarkapallinn sem lagður var um daginn eigi meðal annars að tryggja líf ríkisstjórnarinnar í þeim átökum. Talningameistarar eru án efa að störfum.

Nú er stóra þvagleggsmálið á Selfossi komið enn einu sinni í fréttirnar. Ég fer ekki ofan af því að konan var beitt óforsvaranlegu ofbeldi við þetta. Alveg sama hvernig hún hefur látið áður en þetta skeði og hvernig menn reyna að réttlæta þennan glæp. Sá sem ábyrgð ber á þessu á svo sannarlega að missa embætti sitt.

Ekki er vafi á því að Björn Bjarnason og Davíð Oddsson eru helteknir af kaldastríðshugsunarhætti og Jón Baldvin Hannibalsson er á leiðinni þangað líka. Jóhanna Sigurðardóttir endar þar sömuleiðis. Hún (eða forystufólk Samfylkingarinnar yfirleitt) þarf því að vinda bráðan bug að því að finna arftaka.

IMG 0416Ekki veit ég hvort prentsvansar eru jafnhættulegir og aðrir svansar. Vissara fyrir kvenfólk samt að vara sig.


1129 - Vandræðagangur

Svei mér þá, það er farið að sneyðast um umræðuefni hjá mér. Svona er að venja sig á að blogga á hverjum degi. En ég er svo þrjóskur (og vitlaus) að ég held áfram við það sem ég hef einu sinni byrjað á. Ef ég skrifa ekki finnst mér ég vera að svíkja þá um sitt fix sem láta það eftir sér (og mér) að líta hingað inn reglulega. 

Í seinni tíð er ég farinn að nota sviga sem nokkurs konar stílbragð. Það er verulegur sparnaður í slíku. Gallinn er að lesendur leggja kannski allt annan skilning í svigaræfilinn en ég. Svo er annað sem ég hef tekið uppá nýverið og það er að setja mynd við bloggið daglega. Kannski er það ekkert góð hugmynd, en það kemur þá bara í ljós.

Auðvitað tekur allt þetta vesen hjá mér svolítinn tíma. Ég les þá bara minna í staðinn. Svo er ég að rembast við að vinna við hliðina á þessu. Eiginlega nenni ég því ekki. Margir stunda það að gera athugasemdir við fréttir. Það hefur aldrei átt við mig þó auðvitað verði fréttir stundum til þess að koma mér á stað við bloggskrif.

Við blogglestur finnst mér best að fara inn á blogg.gáttina og velja svo það sem ég kíki á eftir nöfnum og fyrirsögnum. Líka kíki ég oft á Google-readerinn minn en hann hefur þá náttúru að ég gleymi honum stundum dögum saman og þá verða innleggin svo mörg að ég les þau afar illa. Stórhausana á Moggablogginu kíki ég líka stundum á. Heilmikill tími fer líka hjá mér í að leika í bréfskákagerinu og það geri ég helst þegar mér dettur ekkert í hug til að skrifa og nenni ekki að lesa.

Nú er Alþingi að byrja. Oft fylgist ég með umræðum þar í Sjónvarpinu. Ekki er allt gáfulegt sem þar er sagt. Blaðamenn og fleiri virðast þó leggja það á sig að hlusta á þetta. Ekki bregst að ef eitthvað merkilegt (eða sérstaklega ómerkilegt) er sagt þarna þá kemur það fljótlega í fjölmiðla.

Sko mig. Það er bara orðið myndarlegasta blogg úr þessu þó ég hafi ekki haft neina hugmynd það í byrjun hvern skollann ég ætti að setja á blað.

IMG 3055Ég hef bara alveg misst af þessu.


1128 - Ný stjórn

Jæja þá er búið að stokka upp í ríkisstjórninni. Hef trú á þessum breytingum. Kannski verður gagnrýnin minni og ómarkvissari eftir að búið er að þagga niður í óánægjuröddunum innan stjórnarflokkanna. Vissi alltaf að Ögmundur myndi frekar fara inn í ríkisstjórnina aftur en stuðla að falli hennar. Breytingar á ríkisstjórnum eru alltaf dálítið vandræðalegar hér á Íslandi en þurfa alls ekki að vera það. Nýir vendir sópa best.

Hjá mér er berjatínsla næst á dagskrá og verið getur að ég fari á morgun (föstudag) í hana. Líklega verða það nú bara krækiber sem ég tíni, en þau eru svosem ágæt. Sá um daginn óvenju mikið af hrútaberjum í Heiðmörk.

Sá fésbókarvinur sem ég fylgist hvað best með er Jósefína Dietrich. Lít á hana sem fjölskyldu-outlet og hún er mjög vel heppnuð að því leyti. Myndirnar af henni eru líka góðar.

Svo ég minnist aðeins á gamlar og úreltar fréttir þá er ég kominn á þann aldur að mér hugnast ekki að lífeyrissjóðir landsins séu að taka þátt í samkeppnisrekstri. Betra væri að þeir pössuðu betur þá peninga sem þeim hefur verið trúað fyrir. Kannski blessast þetta samt en hætt er við að einhverjir verði fyrir barðinu á lífeyrisfyrirtækjum ekki síður en verslunum sem ríkisbankar hafa tekið upp á sína arma.

IMG 2950Eldsmiðja á menningarnótt.


1127 - Ríkisstjórnarsál

Það er undarlegt með þessa sál. Skyldi hún vera til? Er hún þá í öllum lifandi verum? Hvernig skyldi veirusál vera? Samanherpt? Eru útrásarvíkingar með sál? Og stjórnmálamenn? Davíð Oddsson jafnvel líka? Best að hugsa ekki of mikið um þetta. Sálarlaus vil ég ekki vera. Rétt að fela hana samt. Kannski ætlar einhver að stela henni.

Auðvitað veltir maður ýmsu fyrir sér í sambandi við breytingar á ráðherraliði. Ekki líst mér neitt illa á að Álfheiður Ingadóttir og Kristján Möller víki úr stjórninni. Ögmundur er búinn að bíða nokkuð lengi eftir að komast þangað aftur og ef tekst að koma Jóni Bjarnasyni í burtu er ég nokkuð sáttur við þessar breytingar. Auðvitað skiptir afstaðan til ESB máli og ríkisstjórnarsamstarfið mun að lokum springa á því máli. Aðalspurningin í þessu öllu hlýtur að vera hvort Steingrímur Jóhann hefur enn nægilegt vald á sínum flokki. 

Hvernig til tekst með Alþingi á næstunni og hvaða áhrif þessar breytingar hafa á valdabaráttuna innan Samfylkingarinnar eru stærstu spurningarnar. Auðvitað er líka forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á landsmálin í heild og stjórnmálaástandið.

Þessar breytingar gætu þýtt að baráttan innan Samfylkingarinnar standi einkum milli Guðbjarts og Árna Páls. Útilokað er að Jóhanna veiti forystu til langframa og ISG á varla afturkvæmt.

IMG 2938Hvað er eiginlega á seyði þarna?


1126 - Allt uppá borðið

Nú er ég svo upptekinn við þýðingar að ég má varla vera að því að blogga. Fleira er matur en feitt ket. Og fleira en hrun og stjórnlagaþing skipta máli á Íslandi.

Nú stefnir í að Keflavík (Reykjanesbær) fari sömu leið og Álftanes. Gjaldþrotið blasir semsagt við. Árni Sigfússon (sem Reykvíkingar gátu ekki notað) er samt enn jafnvinsæll þar vesturfrá.

Og kirkjan á hraðri leið til...  Ég veit ekki hvert. Svei mér ef vinstri sveiflan er ekki að ná til hennar líka. Biskupinn í felum og annað eftir því.

Allt uppá borðið. Allt uppá borðið. Segja menn hver um annan þveran. En er ekki plássið að minnka þar?

Undarlegar fréttir berast frá Japan. Aldraðir Japanar fóru að heiman frá sér fyrir 30 árum og síðan hefur ekkert spurst til þeirra. Samkvæmt einhverjum skrám eru þeir samt lifandi og einhverjir fá væntanlega ellistyrkinn þeirra. Ekki er undarlegt þó Japanir verði gamlir ef skriffinnskan er svona hjá þeim. Hér á Íslandi hafa menn horfið sporlaust án þess að vera taldir lifandi 30 árum síðar. Kennitölufarganinu hér á Íslandi er oft hallmælt en líklega mundi það koma í veg fyrir svona ósköp. Ungt fólk ætti þó alveg að geta byrjað nýtt líf ef það endilega vill.

IMG 3120Tilvonandi brotajárn. En nennir nokkur að hirða þetta? Ekki ég.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband